30.12.2012 | 11:09
Hugrekki, kjarkur, þor.
Hefur gert manninn af því sem hann er.
Í árdaga þróunar okkar hélt hann niður úr trjánum og hélt á vit framtíðarinnar. Hinir kjarklausu sátu eftir og eru kallaðir apar í dag.
Fyrir ekki svo löngu, kannski 40.000 árum síðan, fúlsaði ung ófrísk kona við matnum sem henni var borin, gat ekki hugsað sér að borða hann, sá fyrir sér hið ófædda barn á disknum. Hún hafði kjark til að rísa upp gegn hefðinni, hafði hugrekki til að standa við sannfæringu sína og maki hennar neyddist til að útvega annað kjöt á diskinn. Tími mannætunnar var liðinn, stærsta einstaka skref í þróun siðmenningarinnar hafði verið stigið.
Næsta skref sem vert er að tala um var stigið fyrir um 2.000 árum síðan, í harðbýlu landi sem laut erlendri valdsstjórn. Þar reis maður upp fyrir samtíð sína, afneitaði hinum viðteknu aðferðum við lausn deilna og ágreinings, að láta vopnin tala, og sagði að það væri árangursríkara að við værum góð við hvort annað, að við elskuðum náunga okkar eins og okkur sjálf og gerðum ekki öðrum það sem við vildum að væri ekki gert við okkur sjálf.
Hann hafði Hugrekki til að standa með lífinu gegn dauðanum.
Kjark til að standa við sannfæringu sína.
Þor til að deyja fyrir hana.
Bylting lífsins var hafin, lífið krafðist þess að fá að lifa, fá að lifa af deilur og ágreining höfðingjanna.
Í 2.000 ár hefur þessi boðskapur lífsins verið helsta ógn valds og valdsmanna. Þeir reyndu að innlima hann í veraldlega stofnun, sem átti að þjóna hinu veraldlegu valdi, þeir skrumskældu hann frá því að fjalla um fegurð lífsins sem við lifum yfir í að fjalla um sælu hins næsta, og þeir misbeittu honum til að ógna öðru lífi.
En allt kom fyrir ekki, boðskapurinn lifði, hann lifði í hjarta og sál hins venjulega manns sem þekkti muninn á réttu og röngu, og reyndi að breyta rétt. Að elska lífið, að elska náungann.
Og á öllum tímum hefur verið til hugrakt fólk sem hefur haft kjark og þor að standa með trú sinni, að sýna rétta breytni í verki.
Það var kristið fólk sem reis upp gegn því mannníði sem þrælaverslun og þrælahald er og sagði við samborgara sína, svona gerum við ekki náunganum, við byggjum ekki velmegun okkar á eymd og þjáningum náungans. Það notaði ekki rök auðsins eða hagfræðinnar, það notaði rök mennskunnar gegn illskunni. Það sagði, svona gerum við ekki.
Það var kristið fólk sem reis upp gegn því mannníði sem frjálshyggjan skóp í verksmiðjuborgum Englands á fyrri hluta 19. aldar. "Ég þekki ekki þessi hagfræðilegu rök" sagði ein baráttukonan sem sagði frá eymd verkafólksins, "ég er kristin manneskja".
Það var kristið fólk sem leiddi andófið gegn kynþáttahyggjunni sem gegnsýrði allt mannlíf í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Það var trúin sem gaf fólk kjark til að rísa upp gegn kúguninni á þann eina hátt sem ofbeldið gat ekki svarað, hún gaf því hugrekki til að breyta rétt. Og þar með virkaði ekki svipa ofbeldismannsins ekki lengur.
Það var kristið fólk sem reis upp undir merkjum Hvítu Rósarinnar, einu skipulögðu andspyrnunnar gegn ægivaldi nasismans í Þýskalandi. Þörfin til að breyta rétt var sterkari en óttinn við dauðann. Þetta unga fólk, sem hafði það eitt til saka unnið að segja satt um ómennskuna og hvetja samlanda sína til að breyta rétt, að sína kjark til að vera mennsk, var handtekið og stefnt fyrir dóm þar sem ómennskan ákærði mennskuna, dæmdi hana seka og kvað upp dauðadóm. Unga fólkið féll en orð þess lifa.
""En hugsjónina????". "Ég myndi gera þetta aftur því lífsskoðun yðar er röng. Ég tel sem fyrr að ég hafi unnið þjóð minni gagn. Ég iðrast þess ekki og tek afleiðingunum." "Þjóðin vill frið. Að mannleg reisn verði aftur virt. Þjóðin vill Guð, samvisku og samkennd". ... "Það sem við skrifuðum hugsa margir en þora ekki að segja"."
Kristið fólk hefur risið upp á öllum tímum gegn ómennsku og mannníði, því boðskapur lífsins hefur lifað í hjörtum þess.
En kristið fólk hefur ekki risið upp á Íslandi gegn þeirri ómennsku sem viðgengst í þjóðfélaginu í dag.
Það þegir, hefur ekki kjark til að segja satt.
Í dag þegar þúsundir líða skort í landi alsnægtanna, tugþúsundir hengjast í skuldaól verðtryggingarinnar, sjálf þjóðin reyrð föst á fórnaraltari vogunarsjóðanna, þá þegir kirkjan um óréttlætið. Í stað þess að fordæma níðið þá mjálma prestar í kirkjum landsins um andlegar eigur þegar fólk er rænt sínum veraldlegu.
Þeir tala ekki um hugrekki, um rétta breytni, um hvað má ekki gera náunga sínum, þeir tala ekki um þjóðfélag mennskunnar og mannúðar, þeir tala ekki um sjálft lífið og framtíð þess, lífið sem á allt sitt undir réttri breytni á tímum sundrungar og átaka, þeir tala ekki um neitt sem máli skiptir því þeir óttast svo mjög að styggja höndina sem fæðir þá.
Og með þögn sinni afneita þeir boðskap mannsins sem þeir sóru að fylgja.
Þeim skortir hugrekki til að breyta rétt. Hafa ekki kjark til að segja satt. Hafa ekki þor til að standa með þjóð sinni gegn fjármagninu sem fer rænandi og ruplandi um byggðir landsins.
Veita ekki leiðsögn á tímum þar sem kristið fólk þarfnast leiðsagnar.
Þegja þegar þarf að segja að svona geri maður ekki öðru fólki.
Að maður svelti ekki samlanda sína í landi alsnægta, að maður hengi ekki fólk í skuldaról verðtryggingarinnar.
Það þarf ekki að þekkja hin hagfræðilegu rök, það dugar kristinni manneskju að vita að þetta er rangt.
Og það fyrirgerir sálarheill sinni ef það lítur undan á meðan náunginn er beittur rangindum. Það er ok kristninnar sem það getur ekki vikist undan. Því trúin gerir kröfu um rétta breytni gagnvart náunganum.
"Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig, Ekkert annað boðorð er þessum meira."
Röng breytni er ekki valkostur.
Sem betur fer fyrir fjármagnið telja fæstir sig kristna á Íslandi í dag, kirkjan er fyrir hefðina, svona ef ske kynni þá skírum við börn okkar, og kirkjan veitir fallega umgjörð þegar við jörðum ástvini okkar.
Annars er þjóðfélagið hundheiðið og dýrkar peninga, siðlausa græðgi og síngirni.
Þess vegna kemst fjármagnið upp með verðtrygginguna eftir Hrunið, alla mannvonskuna þegar fólk er hrakið af heimilum sínum, alla blóðmjólkunina í vexti og verðbætur á meðan þeir sem standa höllum fæti eru látnir éta það sem úti frýs.
Fólk umber þetta því það ætlar sjálft að hafa það gott, gefur skít í náungann.
Þjóðfélagið lýtur Mammon, hugmyndafræðingar hans stjórna öllu í þjóðfélaginu og móta það eftir sínu höfði.
Það snýst ekki um kjarkleysi að fólk rís ekki upp, fólk er samdauna ástandinu því það þekkir ekki muninn á réttu og röngu. Það reynir því aldrei á hugrekkið að sýna rétta breytni.
Fólk sem emjar undan verðtryggingunni, gerir það vegna þess að verðtryggingin bitnar á því. Um leið og aðstæður þess breytast, þá dásamar það hana, hún á að tryggja því öruggt elliskjól.
Fólk sem berst gegn rangindum verðtryggingarinnar það hikar ekki við að styðja lýðskrumara sem beita sér fyrir aðför að lífi og kjörum fólks á landsbyggðinni undir yfirskyni meintrar baráttu við sægreifa.
Fólk sem berst gegn sinni eigin skuldaþrælkun, styður Evrópusambandið og evruna út í eitt þrátt fyrir að evran hafi lagt í rúst lífskjör tugmilljóna í sambandinu eftir að fjármálakreppan skall á 2008.
Fólki finnst aðeins rangindi röng á meðan þau bitna á því sjálfu.
Að rangt sé rangt, og rétt sé rétt, óháð aðstæðum þess, það er því fyrirmunað að skilja.
Þess vegna dafnar frjálshyggjan, þess vegna dafnar hið blóðuga fjármagn, þess vegna líðst þrælahald alþjóðavæðingarinnar.
Þess vegna er heimurinn á heljarþröm.
Því fólk skilur ekki inntak boðskap lífsins.
Fólk vill vel en styður illt.
Ástandið væri ekki félegt ef manneskjan væri ekki í eðli sínu góð, með fallega sál, með bjarta áru.
Þó hið rökræna skilji ekki Boðskap lífsins, þá skilur sálin hann.
Þess vegna dó boðskapur lífsins ekki út, hann lifir í hjörtum okkar.
Bíður þess að springa út í Byltingu lífsins.
Bíður þess að einn stígi fram og játist honum, svo næst, og næsti og næsti.
Ferli sem er löngu hafið. Hófst fyrir 2.000 árum síðan.
En vantar samt herslumuninn að verða raunverulegt afl í mótun tímans, í mótun þeirrar framtíðar sem við innst inni viljum börnum okkar og barnabörnum.
Herslumun sem verður ekki nema ég og þú, við öll sem eigum líf sem þarf að vernda, stígum fram og styðjum þennan boðskap.
Fylkjum okkur um Aðferðafræði lífsins, Hagfræði lífsins, sem Boðskapur lífsins mótar og þróar. Allir eiga rétt til lífs, það á ekki að gera öðrum það sem maður vill ekki að manni sjálfum sé gert, maður á að líta eftir bróðir sínum, maður á að elska náunga sinn. Er ekki flókið, er svo einfalt.
Til þess þarf aðeins kjark, þor, hugrekki.
Til að breyta rétt, til að hafna röngu.
Þetta afl myndast þegar við hættum að benda á aðra, hættum að treysta á aðra.
Þegar við sjálf stígum fram.
Við hið venjulega fólk.
Hættum að láta ráðskast með okkur, hættum að láta aðra móta samfélag okkar.
Við getum þetta, eina hindrunin er óttinn, óttinn að vera til.
Hugrekkið sem þarf til að yfirvinna þennan ótta býr innra með okkur.
Það varð til um leið og við ólum lífið sem þarf að vernda.
Við þurfum aðeins að opna skápinn sem við geymum það í og hleypa því út.
Þá fær ekkert staðist okkur, okkur hina venjulega manneskju.
Því við erum lífið sem vill lifa af.
Og við munum lifa af.
Þá og þegar við stígum fram.
Og myndum aflið sem ekkert fær sigrað.
Lífið sjálf.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 179
- Sl. sólarhring: 648
- Sl. viku: 5763
- Frá upphafi: 1399702
Annað
- Innlit í dag: 151
- Innlit sl. viku: 4915
- Gestir í dag: 150
- IP-tölur í dag: 150
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það er eitt sem mig langar til þess að bæta við þetta sem er engu skárra. Það er það að þú getur verið alveg ofboðslega kærleiksríkur við annað fólk, meira að segja beint fyrir framan nefið á því, en SAMT þá er eins og það kveiki alls ekki á perunni, fatti ekki, sjái ekki, það er einsog maður hafi eytt tíma í að stara inn í tómið og niðurstaðan verður aðeins ein: Það var bara best fyrir mann sjálfan að vera kærleiksríkur, engan annan.
Þórður Guðmundsson, 31.12.2012 kl. 11:15
Enn og aftur frábær pistill hjá þér Ómar um áskorun til fólksins. Áskorun um að rísa upp á móti óréttlætinu sem er að viðgangast hér á landi varðandi lánamál heimilanna.
Ekki fynnst mér rétt að blanda Krisinni kirkju og boðskap hennar inn í þessa umræðu. Kærleiksást á samborgurum sínum hófst áður en Kristindómur varð til, eða löngu fyrir tímatal Kristinna manna. Það er ekki mikill munur á boðskap kristinsdómsins, boðskap Kommúnismans og boðskaps þeirra í ESB regluverkinu, þ.e. allir skulu vera jafnir og allir skulu leggjast á eitt og hjálpa hver öðrum. Allur þessi boðskapur er góður og gildur og hefur verið barist með þennan boðskap fararbroddi í gegnum blóðugar styrjaldir með mis góðum árangri. Stór hluti Evrópu bjó við kúmmúnisma og kristni hefur verið við lýði í vestrænum heimi sl.1000 ár og við sjáum afleiðingarnar.
Réttlæti manna á milli hefur ekkert með þessi hugtök að gera. Réttlæti er að fá að halda því sem menn hafa aflað sér með striti sínu og fórnum fjölskyldna sinna í gegnum erfitt líf. Það er réttlæti sem þarf berjast fyrir og skerpa fólk til þeirrar baráttu.
Oft þar byltingu til þess að breyta gildandi lögum og reglum til að ná fram réttlæti og það er rétt hjá þér að það þarf þor til þess.
Eggert Guðmundsson, 31.12.2012 kl. 12:19
Ég kærleiksríkur!!! Þórður, þú hlýtur að setja þetta inn til að gleðja mig í tilefni dagsins, þetta skæruliðablogg mitt verður seint kennt við kærleik.
En lestu pistilinn aftur, og pistlana þar á undan.
Þetta er nauðhyggja, svipuð og útlistun á öryggisráðsstöfunum við hönnun kjarnorkuvera. Ef ekki fylgt, þá Búmmmmmm.
Takk fyrir innlitið og gleðilegt ár.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 31.12.2012 kl. 12:22
Takk fyrir innlitið Eggert.
Og gleðilegt nýtt ár.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 31.12.2012 kl. 12:23
Ómar, takk fyrir góðan pistil.
Kjarninn fyrir mér er þetta sem þú segir um miðbik greinarinnar:
Ég sleppi framhaldinu, þar sem þetta er það sem skiptir máli. Dagurinn, sem stjórnmálamenn vinna eftir þessu í öllum sínum störfum, verður dagur vonar. Dagurinn, sem auðvaldið og fjármálakerfið vinnur eftir þessu, verður dagur frelsis. Dagurinn, sem almenningur lifir eftir þessu, verður dagur fagnaðar.
Marinó G. Njálsson, 31.12.2012 kl. 14:14
Flottur pistill Ómar.
Seiken (IP-tala skráð) 31.12.2012 kl. 14:39
Sá góði afbragðsdrengur, Ómar Geirsson á afmæli í dag, stórafmæli, 31. desember 2012.
Hjartanlega til hamingju með stórafmælið og daginn Ómar
og takk kærlega fyrir þennan, sem aðra djúphugsaða pistla þína,
sem ég vona að sem allra flestir gefi sér tíma til að lesa, íhuga og vitkast af
og að nýja árið verði þér, fjölskyldu þinni og þjóðinni allri til heilla, gæfu og gengis.
Ps. Tek svo undir góða athugasemd Marinós hér að ofan, sem dregur fram kjarna málsins um vitrænuna og siðrænuna, sem brýna nauðsyn ber til að virkja svo friður og sátt muni ríkja hér með íslenskri þjóð, á okkar landi.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 31.12.2012 kl. 14:41
Blessaður Marínó og takk fyrir innlitið.
Það er misjafnt hvað akkúrat kveikir í fólki, hvað það telur kjarna mennskunnar vera.
Ég er mikið sammála þér um að rétt sé rétt, óháð aðstæðum fólks, tel reyndar vanskilning á þessu vera höfuðmein nútímans. Fólk vill vel, og fólk er gott, en heilög réði vegna óréttis virðist oft tengjast því hvort það verður fyrir barðinu eður ei.
En grunnforsenda mín er að fólk sé í eðli sínu gott, annars sæjum við ekki allt það góða og fallega í kringum okkur.
Þess vegna tel ég að fólk skilji dýnamíkina við grunnboðorðin fjögur, sem svo margt annað er leitt af, til dæmis þetta með rétta breytni, eða að rétt sé rétt, óháð hagsmunum.
Og þau eru;
Sérstaklega virðist fólk ekki kveikja á þessu síðasta, að það gildir sama um fátæk börn í Asíu og Afríku eins og börnin okkar, það eiga allir rétt til lífs.
Af þessum grunnboðorðum er hagfræði lífsins sprottin sem má segja um að þú eykur ekki hagsæld þína á kostnað annarra. Þar með til dæmis er verðtryggingin sjálfdauð, svo dæmi sé tekið.
Um þetta má hafa mörg orð, og meðal annars hefur þú reynt að nálgast þessa hugsun í mörgum pistlum þínum Marínó, sumir eru vel geymdir hjá mér, og lesnir.
Það eru svoleiðis skynsöm orð, skynsöm greining sem sannfærir mig um að í gruninn hef ég rétt fyrir mér, það er um hagfræðina og aðferðafræðina.
En orð mín eru kannski ekki rétt, enda geri ég atlögu aftur og aftur að þessari hugsun, og þrátt fyrir allt er ég stoltur af því hvað margir hafa lesið svona pistla í gegnum tíðina. Ég er líka stoltur af samlöndum mínum að hafa lesið þína pistla, að pistlar sem reyna að tjá þessa grunnhugsun lífsins séu lesnir, og þeir eru víða.
Sem segir eitt, það er von.
Lifandi von.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 31.12.2012 kl. 18:52
Takk Pétur minn.
Gleðilegt ár.
Skál.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 31.12.2012 kl. 18:53
Gleðilegt ár Seiken.
Það er einn eftir í þríleiknum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 31.12.2012 kl. 18:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.