"Það krefst hugrekki að sýna rétta breytni."

 

Haft eftir prédikara í þeirri stórgóðu mynd The Help sem sýnd var á Stöð 2 um jólin.

Þessi mynd var um hetjur hverdagsins sem héldu reisn sinni í þrúgandi andrúmslofti kynþáttahyggju og kynþáttafordóma.

En The Help var ekki síður um fórnarlömb þessarar kynþáttahyggju, ungu stúlkurnar sem lifðu ekki lífinu vegna þeirra þröngu skorða sem samfélagið setti þeim.  Heimavinnandi húsmæður, komandi samt ekki nálægt heimilishaldi eða barnauppeldi, nutu þjónustu vinnufólks sem var óæðri verur samkvæmt gildum samfélagsins.  

 

Það er ömurlegt að alast upp í samfélagi sem kennir þér að fyrirlíta og koma illa fram við náungann, samfélagi sem réttlætir slæma meðferð á ódýru vinnuafli með tilvísun í að það "eigi ekkert betra skilið".

Þetta er meiri rottan var mér hugsað um aðalrótina þegar hún undir skinhelgi hræsninnar vísaði í meinta smithættu  þegar hún kynnti tillögur sínar um sérstök salerni handa vinnukonum á betri heimilum.  Vissulega var hún rotin, en fyrst og síðast fórnarlamb, hún var eins og svarta húshjálpin sagði við hana, "guðlaus kona", og hvaða kristin manneskja vill fá þann dóm???  Að leiðin upp metorðastigann í samfélaginu sé beina leiðin til helvítis samkvæmt kenningum þeirrar trúarbragða sem samfélagið játar.

 

Það er ekkert grín að alast uppí samfélagi sem hatar þá sem þjóna þér.  Samfélagi sem beitir kúgun og ofbeldi til að halda niður hluta íbúanna.  Samfélagi sem notar illmælgi, róg, níð, til að  lýsa hinum kúguðu, til að réttlæta meðferð þeirra, til að réttlæta hin bágu kjör.  Og ef þú meðtekur þessi gildi samfélagsins, þá hefur þú skaðað sálarheill þína og mennsku og hlýtur fordæmingu þeirra sem þekkja muninn á réttu og röngu.

Það hlýtur að vera ömurlegt hlutskipti að vera dæmdur svona fyrirfram úr leik sem manneskja, sem mennsk vera. 

 

Já, myndin fjallaði ekki síður um fórnarlömb en  hetjur,  fórnarlömb sem svona aðstæður hafa skapað á öllum tímum, um allan heim.  

Fórnarlömb mannfyrirlitningu og fáfræði, kynþáttahaturs og stéttaníðs.

Okkur er tamt að hugsa um þá sem verða fyrir barðinu en minna um þá sem gera.  Við sjáum þjóðfélagsstöðu þeirra og velmegun, en spáum ekki í að þetta fólk hefur fyrirgert sálarheill sinni, mennsku sinni.  Og það fékk aldrei tækifæri til að þekkja muninn á réttu og röngu, því var strax í uppeldinu kennd röng hegðun, rangt gildismat.

 

Það er nefnilega þannig að kynþáttahyggja spratt ekki upp af sjálfu sér.

Í Evrópu, fyrir landafundina, var svart fólk ekki litið hornauga.  Enda sá sjálfsagt fólk lítt mun á svörtum og hvítum eins og hreinlæti var háttað á þeim tímum.  Það var ekki fyrr en svart vinnuafl var flutt til Ameríku sem þrælar, að kynþáttahyggjan festi rætur.  Hún var einskonar réttlæting á hinni illu meðferð sem talin var nauðsynleg til að ná sem mestu út úr vinnuaflinu með sem minnstu tilkostnaði.  

Þetta var áður en frjálshyggjan kom með hina hagfræðilegu réttlætingu á illri meðferð vinnuafls.

Ef vinnuaflinu var ætlað lægstu hvatir, það væri jafnvelgt dýrslegt í eðli sínu, þá mátti meðhöndla það sem skepnur.  Ekki það að gróðahyggjan þyrfti réttlætingu, heldur hinn skinheilagi hræsnari sem las uppúr biblíunni um rétta breytni og kristið siðgæði og horfði síðan á eymdina og kúgunina allt í kringum sig.

Tvöfeldnin var of mikil svo það þurfti að réttlæta hana á einhvern hátt.  Kynþáttahyggjan varð til, sumir voru æðri öðrum, hinir óæðri voru svo óæðri að þeir áttu ekkert gott skilið.  Eða þannig.

 

Fáfræði og fordómar eru eiginlega varnaviðbrögð samfélags sem fer illa með náungann.

"Bóndinn er slægur, hálfsiðuð skepna, hjartalaus og sneyddur sómatilfinningu", hann er "blendingur, millistig milli manns og dýrs".  Hér er ekki verið að tala um svarta þræla heldur bændur í ánauð lénsþjóðfélagsins.  

Og verksmiðjuaðallinn í hinu nýju iðnaðarborgum Englands vandaði ekki verkafólki sínu kveðjurnar.  Það var latt og lastafullt, iðjuleysi og skortur á döngun skýrði bág kjör þeirra.

"Þeir þrífa sig ekki einu sinni" sagði Íslendingur einn eitt sinn við mig um svarta byggingarverkamenn sem hann hafði kynnst í Suður Afríku, taldi það réttlæta kynþáttaaðskilnaðinn þar í landi.

 

Dæmin úr nútímanum eru nærtæk.

Hver hefur ekki heyrt um spillta lata Grikkjann sem lifir á kerfinu og borgar ekki skatt.  Hann á fátt annað skilið en aga evrunnar, eymdina og örbirgðina sem henni fylgir.  Þegar hlustað er á lýsingar þýska ráðamanna fattar maður að þetta tungutak er þeim tamt, það eru ekki svo mörg ár síðan að þeir notuðu svipað orðfæri um annan hóp fólks sem átti niðurbrot samfélaga sinna skilið.  Var spilltur, úrkynjaður, mengaði samfélagið. 

Samfélag sem var gegnsýrt af orðræðu kynþáttahyggju lætur ekki svo glatt undan, nýir tímar, ný fórnarlömb, en sama orðfærið, sami kuldinn gagnvart þeim sem níðst er á.  

 

Á Íslandi þekkjum við mætavel þennan hroka og mannfyrirlitningu.

Fórnarlömb Hrunsins er hædd, niðurlægð.  Ekki bara í gjörðum kerfisins, heldur líka í orðum þeirra sem styðja helförina gegn heimilum landsins.  

"Óráðssíufólk", "flatskjáakynslóðin", og mesta fyrirlitningin af öllu, "fólkið sem tók lán".  "Sjálfsskaparvíti",  "getur sjálfum sér um kennt".

 

Þeir, sem réttlæta aurasýki sína og mannfyrirlitningu með níðumræðu um skuldara landsins sem áttu enga aðra valkosti en að taka lán með verð eða gengistryggingu, ef þeir á annað borð ætluðu að lifa í landi feðra sinna og mæðra,  geta ekki afsakað sig með uppeldinu eins og aumingja hvítu húsmæðurnar í Jackson Mississippi, eða að rasismi hafi verið landlægur í landinu um aldir eins og Þjóðverjar grípa gjarnan til þegar þeir útskýra yfirgang sinn og níðingsskap gagnvart veikari nágrönnum  sínum.

Þeir geta ekki vísað í hagfræðileg rök eða efnahagslega skynsemi, Hrunið afhjúpaði öll þau falsrök. 

 

Þeir eiga sér enga afsökun.  

Aðeins hugarfar nánasarinnar útskýrir hugarfar þeirra og orðræðu.  

Nánasarinnar sem veit ekkert hræðilegra en að glata aur úr veski sínu.  Styður því efnahagslega hryðjuverkastarfsemi verðtryggingarinnar sem kostar hana þúsundir áður en yfir líkur.  

 

Nánösin á sér enga afsökun, fordæming hennar er sjálfsskaparvíti.

Hún er ekki fórnarlamb, hún er gerandi.  

Í kristnu samfélagi á hún sér enga réttlætingu, allt Nýja Testamentið er stöðug fordæming á hegðun hennar og innræti. 

 

"Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig,  Ekkert annað boðorð er þessum meira."

 

Vergangur heimila landsins er ekki í þessum anda.

Helför evrunnar á hendur grískum almenningi er ekki í þessum anda.

Aðeins hundheiðið þjóðfélag sem blótar Mammon réttlætir verðtrygginguna, réttlætir níðingsskap á hendur fólki vegna tilbúins gjaldmiðils. 

 

Þetta veit kristið fólk.  En því skortir hugrekki til að sýna rétta breytni.  

Afsakar svo hugleysi sitt með allskonar sjálfsblekkingum og sjálfsréttlætingu, en veit innst inni að það breytir rangt.  

Að það styður óréttlæti vegna þess að það hefur ekki kjark til að rísa upp úr flatneskju hins þegjandi samþykkis.  

Hefur ekki kjark til að segja, "að svona gerir maður ekki".

 

Það þegir því um hinn raunverulega vanda en finnur sér allskonar tittlingaskít til að nöldra yfir.  Til að kenna "hinum" um.  

Í hnotskurn má segja það um íslenska þjóðmálaumræðu að hún kennir alltaf öðrum um.  Hún lýtur aldrei í eigin barm, á eigin sök, hún höndlar alltaf bjálka annarra.

Og hún lætur það líðast að nánösin blóðmjólkar heimilin sem ala upp framtíð landsins.  

 

Kjarkleysið, að þora ekki að breyta rétt, er eini vandi þjóðarinnar.

Við vorum ekki alin upp við að horfa í hina áttina þegar náungi okkar á í neyð.

Við vorum ekki alin upp til að lúta stjórn níðinga sem engu eira í þágu fjármagns og gróða.  

Við erum ekki svona, við höldum það bara.

 

Við erum fólk, góðar manneskjur.

Og nú er okkar tími runnin upp.  

Fólkið sem reis upp fyrir okkar hönd, því er þrotinn kraftur því við þorðum ekki að styðja það.  

 

Við óttuðumst aðhlátur myrkraraflanna, við óttuðumst að verða skotspæni keyptra sérfræðinga sem verja hina efnahagslegu hryðjuverkastarfsemi, sem verja hina efnahagslegu heimsku sem blóðmjólkun heimila og fyrirtækja er.

Við vorum hrædd við "góða fólkið", góða samfylkingarfólkið sem er alltaf svo gott við fólkið nógu langt í burtu, að það myndi hlæja að okkur, gera grín að okkur þegar við segðum að svona er ekki gert við náungann í næsta húsi, að þetta er ekki rétt breytni þó að ríkisstjórn góða fólksins sé við völd.  Við vorum hrædd að það myndi útskúfa okkur úr sína fína góða samfélagi, samfélagi hins rétthugsandi fólks.

Við erum eins og hvítu húsmæðurnar í Jackson Mississippi sem vissu innst inni að framkoma þess og breytni við litað vinnuafl sitt var röng, ókristileg, en þær þorðu ekki að segja skoðun sína og meiningu því þær óttuðust félagslega útskúfun.  

Við eins og þær, höfum ekki hugrekki til að sýna rétta breytni.

 

Þess vegna er þjóðfélagið á heljarþröm, reyrt niður á fórnaraltari dýrkenda Mammons, bíðandi eftir að amerísku vogunarsjóðirnir komi með krumlur sínar og taki úr því hjartað, heimili landsins.  

Vegna þess að okkur skortir kjark til að vera þær manneskjur sem við erum.

Gott fólk sem þekkir muninn á réttu og röngu, og vill breyta rétt.

En þorðum ekki að hjálpa Liljum Vallarins þegar þær risu upp og gagnrýndu óréttlætið.

 

Nú er komið að okkur.  

Við getum ekki lengur flúið inní heim sjálfsblekkingarinnar.  

Við getum ekki lengur afsakað okkur með því að við erum bara venjulegt fólk.  Ekki fræg, ekki góða fína fólkið, ekki fólkið sem er sjálfskipað að leiða baráttuna gegn ranglæti eða yfirgang valdaafla og valdsmanna.

Það eru aðeins við, það er enginn annar.

Það er enginn annar sem mun verja lífið sem við ólum.  Og varnarlaust á vergangi getum við ekki skilið það eftir.  

 

Kjarklaus, hrædd, það skiptir ekki máli.

Frumhvötin sjálf, að verja líf sitt er öllu sterkari.

Og það eina sem getur hamið og komið böndum á óargadýrin er krafa um rétta breytni, rétta hegðun.

En við getum ekki krafist þess af öðrum ef við höfum ekki sjálf það hugrekki sem þarf til að sýna slíka breytni.

 

Við erum upphaf og endir alls.

Við hin venjuleg manneskja.

Okkar tími er kominn.

 

Sá tími er upphaf af endalokum græðgi, siðblindu, mannvonsku.

Öld samhygðar og samkenndar mun renna upp.

 

Þó fyrr hefði verið.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þó þetta hefði verið eini pistillinn sem þú hefðir náð að skrifa á þínum bloggferli, þá hefði hann einn og sér dugað til þess að skipa þér sess sem einn af okkar allra mikilvægustu samfélagsgagnrýnendum.

Algjörlega tímalaus snilld frá sönnum mannvini.

Seiken (IP-tala skráð) 28.12.2012 kl. 19:07

2 identicon

Tek undir orð Seiken um að þessi pistill er:  "Algjörlega tímalaus snilld frá sönnum mannvini."

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.12.2012 kl. 20:09

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég þekki pistla hans,hann á urmul af þvílíkum gersemum. Ég stakk upp á við hann einhverju sinni,að hann leiddi flokk til baráttunnar,sem var þá gegn þessu Esb,trúboði,sem fannst svo réttlætanlegt að við borguðum Icsave. Það er svo merkilegt að margir,sem hafa ekkert til brunns að bera (mitt mat),vilja ólmir komast á þing, ekki Ómar Geirsson,ekki þá!!

Helga Kristjánsdóttir, 28.12.2012 kl. 21:23

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

takk

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.12.2012 kl. 21:27

5 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Góður pistill hérna og í anda mannkærleikans og einnig um öfga hans.

Við búum við trú Martins Lúters og boðskap hans til mannlegs kærleika. Martin  Luther reis upp gegn klerkastéttinni og Róm, og fékk þýska þjóð með sér.   Þá var fátækt mikil í Þýskalandi og hvatti hann til hópsafnanna hjá hinum ríku til að hjálpa þeim verst settu og á sama tíma og fólk fékk hjálpina, þá átti í komandi framtíð að sína ráðdeild til að hafa e-h aflögu til annarra sem á þurftu. Almúginn greip agnið og hefur síðan gefið til látlaust til þeirra sem eru þurftafrekastir.

Það er sami boðskapur ástundaður nú í ESB og sérstaklega frá  þýska kanslaranum,  Angelu Merkel, sama boðorðið í anda Martins Luthers- við hjálpum ykkur og þið hjálpið okkur þegar þið hafið efni á því.

Kristin trú (blóðugusta trú veraldar) hefur verið notuð frá dánardegi Jesús, með siðfræði Faroins Inkon RA að leiðarljósi, og síðan  Platons, til þess að halda múgnum í skefjum og mergsjúga hann til þeirra þurftarfrekari, eða háaðalsins og ríkisstjórnenda.

Hér á Íslandi hefur  þessi  boðskapur verið ástundaður frá 16 öld og hefur lítið breyst, eins og þú skrifar um hér að ofan.  Fólk skal greiða allt sem  það á aflögu til ríkisins svo Ríkið geti útdeilt aftur til friðþægingar, ölmusur til að kveða niður óþægar raddir.

Skrumskælingar mannkærleikans munu halda áfram, og þó vonandi ekki lengi.

En  endalok þess verður nýtt upphaf að græðgi, siðblindu, mannvonsku. Mannlegar frumhvatir munu sjá til þess og það án trúarbragða.

Eggert Guðmundsson, 28.12.2012 kl. 22:37

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Seiken, vissulega kann ég að meta hrósið en ekki örgrannt að kaldranalegt glott léki um varir mínar þegar ég las athugasemd þína áðan.

Við vitum það báðir mæta vel að svona pistill er líkt og kínverska í augum flestra sem byggja þetta ágæta land með okkur.

Málsgreinin eins og þessi: "Það er ekkert grín að alast upp ..." myndi líklegast vekja meiri umhugsun ef ég hreinlega skrifaði hana svona:

"这是没有什么好玩的,成长的社会,恨那些为您服务。社会施加的镇压和暴力按住人口的一部分。社区使用illmælgi,诽谤,NID,被压迫的描述,来证明他们的待遇,以证明减少的条款。如果你接受社会的价值,那么你伤害你的sálarheill和人性化,必须谴责那些谁知道正确与错误之间的差异。"

Það myndu allavega einhverjir spá í hvað hún þýddi, og slá henni inn í Gúgla þýðanda.  

En það þarf að semja svona pistla til að ná utanum um hugsun, til að fá hana á blað, svo hún geymist þar.  Þegar tími ósjálfráðu skriftarinnar rennur upp og ég renni í gegn pistlum hraðar en ég næ að hugsa þá, þá eru svona protótýpur hluti af vopnabúri mínu sem hin ósjálfráðu skrif byggjast á. 

Eins og þú sérð Seiken, þá er verið að hlaða í breiðsíðuna og svo verður hleypt af þegar þjóðmálaumræðan byrjar af einhverri alvöru eftir áramótin.  Ef litla vogarskálin dugar til að einhverjir íhaldbloggarar þori í alvörunni að ganga með séra Halldóri gegn valdaklíkunni, þá er þetta þess virði. 

Siðræn nálgun er einu rökin sem hinn keypti fræðingur á engin svör við.  Því hann þekkir ekki til hennar, veit ekki af hvaða rótum hún er runnin.  En afar og ömmur þessa lands vita það, og þau taka mark á svona rökum.  Vandinn er að ná til þeirra og það geta menn eins og ég ekki.  Nema maður nái að smita kerfið eins og vírusinn í Independence day.

Má alltaf reyna, ég fæ allavega ánægjuna að vera verkur í rassi hinna skinheilögu sem slysast inná bloggið.

En pistillinn er ekki góður, hann virkar ekki áróðurslega og er of langur til að vera lesinn til enda nema hjá örfáum sérvitringum.

En ég veit að þú náðir þeirri hugsun sem ég var að reyna að orða, og já, þetta er sú nálgun sem valdið á ekki svar við.

En það fattar það bara eiginlega enginn af því fólki sem þykist vera á móti kerfinu og auðráninu.  

Það heldur að það dugi að segjast, ég endurtek, að segjast vera á móti fjórflokknum, og þá muni kerfið lúffa, og hinir 1001 milljarður yfirgefa landið án þess að rúa almenning inn að skinni.  

Það er bara ekki svo einfalt, því miður.

Hefur ekki heyrt um stjórnarskrána nýlega???

Takk fyrir innlitið Seiken.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.12.2012 kl. 23:04

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið góða fólk og hlýleg orð.

Eggert, ekki alveg sammála en skil nálgun þína.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.12.2012 kl. 23:05

8 identicon

Sögufölsun er aldrei falleg. Það voru þrælar í Evrópu löngu áður en hvítir menn námu land í Ameríku. Og litaðir þrælar voru fluttir sérstaklega inn til slíkra verka. Allt gaspur í ESB, stjórnað af Þýskalandi, um kynþáttajafnrétti í dag er svo bara léleg tilraun til yfirbótar fyrir mestu glæpi mannkynssögunnar, framda af börnum Evrópu, aðallega þeim sem heima sátu en líka þeirra sem fóru vestur. Þúsundir Íslendinga eru annars afkomendur svarts þræls sem hafði stundað sitt þrælahald í Evrópu alla sína tíð, og sá hét Hans Jósef og var tónlistarmaður mikill. Hann er á Íslendingabók. Hlutfallslega eru líklega fleiri Íslendingar því afkomendur þræls ættaðs frá Afríku heldur en hvítir Bandaríkjamenn.

Svartur (IP-tala skráð) 29.12.2012 kl. 05:13

9 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Takk fyrir góðann pistil, Ómar.

Því miður sá ég ekki þá kvikmynd sem þú vitnar í í þínum pistli, vegna vinnu. En það þarf ekki að horfa á einhverja kvikmynd, þó góð sé, til að skilja þennan pistil þinn.

Við lestur hans hvarflaði oftar en einu sinni að mér sú frétt sem ég las fyrir örfáum dögum síðan, er fjallar um stórfellda fólksflutninga milli landa. Að þessum flutningum stendur eitt öflugasta ríki ESB og fórnarlömbin eru aldraðir þegnar þess ríkis. Ástæðan er að ódýrara er að fóðra þetta fólk og hýsa, í ríkjum austur Evrópu og á Tailandi! Þetta eru ekki fyrstu stórfelldu fólksflutningarnir sem þetta land hefur staðið að. Þó hinir fyrri hafi snúist að sérstökum trúarhóp, en hinir síðari ákveðinni kynslóð, eru grunn ástæðurnar þær sömu, Mammon.

Engin getur sýnt meiri grimmd sá sem flytur foreldra sína búferlum til annara landa, vegna þess að ódýrara er að fóðra þá og hýsa þar en í heimalandi þess. Dýrkun Mammons getur vart orðið meiri.

Gunnar Heiðarsson, 29.12.2012 kl. 09:42

10 identicon

Í gærkvöldi las ég pistilinn þinn upphátt fyrir frúnna og það mátti heyra saumnál detta meðan ég dróg andan á milli greinarskila. 

Og setningar eins og "Siðræn nálgun er einu rökin sem hinn keypti fræðingur á engin svör við" er auðvitað eitthvað sem á að prenta á stuttermaboli og dreifa í barnaskólum landsins.

Frúin mín deilir með þér ákveðinni svartsýni þegar þú dregur í efa getu og kjark þjóðarinnar til þess að berjast gegn hyskinu. Ég er hins vegar tveimur tönnum bjartsýnni og tel þig vanmeta mikilvægi framlags þíns til andófsins og mótstöðukraft borgara landsins.

Já, já Ómar, við sérvitringarnir lesum þetta upp til agna og það má vel vera að "eðlilegt" fólk nenni því ekki en Icesave kosningarnar og forsetakosningarnar unnum við engu að síður. Og mannstu hvernig síðustu vikurnar voru fyrir þessar kosningar? Þú hefðir ekki getað borgað fólki fyrir að hlusta á Icesave andóf fyrir seinni kosningarnar og skoðanakannanir litu ekkert allt of vel út. Sem hluta af plottinu þá keypti norræna velferðin upp síðasta andófsfjölmiðilinn, Eyjuna, og setti yfir hana innmúraðan áróðursmeistara. Hyskið dróg meira segja fram Vigdísi Finnbogadóttur sem í einfaldleika sínum fórnaði stöðu sinni sem sameiningartákn þjóðarinnar til þess að þjóna Icesave skuldaþrælkuninni.  En allt kom fyrir ekki.   

Í næstu kosningum felst tækifæri til breytinga. Við megum aldrei gefast upp á því að draga myrkraverk ræflanna fram í dagsljósið. Járnið skal hamrað hvern einasta dag alveg fram á kjördag.

Seiken (IP-tala skráð) 29.12.2012 kl. 10:17

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Svartur.

Það er aldrei fallegt að gera fólk óþarfa rúmrask, ég ætlaði ekki að hugsa um þennan pistil fyrr en ég færi að móta framhald hans í fyrramálið.  Er því frekar pirraður og það kemur fram.

Lærðu að lesa áður en þú ryðst inná síður og opinberar sjálfan þig.

Það er hvergi vikið orði að því að þrælar væru ekki í Evrópu fyrr en þeir komu til Ameríku.  Það er verið að fjalla um tilurðu kynþáttahyggjunnar, að tengja ákveðna "óæðri" eiginleika við ákveðinn hóp manna, eftir uppruna, lit, þjóðfélagsstöðu eða annað.  Stendur skýrt, um ekkert annað er fjallað.

Þrælahald var forn arfur sem fjaraði seint út í Evrópu.  

En í lok síðmiðalda var það nokkurn vegið bundið við Miðjarðarhafslönd, og þar vor forsenda þess að verða þræll, að einhver rændi þér og seldi þig á næsta þrælamarkaði.  Slíkt hlutskipti gat hent alla, þó nokkuð sterk fylgni væri að menn seldu fólk af öðrum trúarhópi en sínum eigin.  Til dæmis höndluðu Tyrkir mikið með kristna menn, já og svertingja sem voru hefðbundin verslunarvara frá Sahel svæðinu, og kristnir með múhameðstrúarmenn, og já fátæklinga, sem voru líka klassísk verslunarvara.  Vegna þess að ríkir gátu borgað lausnargjald.

Litarháttur hafði ekkert með þrælhöndlun að gera, og kynþátta hyggja sem slík var óþekkt á þessum tíma.  

En stéttarfyrirlitning hins vegar útbreidd.

Hættu svo að mæta til fólks og opinbera vanþekkingu þína Svartur, lestu söguna áður en þú tjáir þig.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.12.2012 kl. 11:38

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Gunnar.

Mikið sammála þér, mikið lengra er ekki hægt að ná í mannfyrirlitningunni.  Að selja í einum pakka, bæði foreldra sína og ömmu.

En þetta afhjúpar líka alþjóðvæðinguna, það er misgengið sem drífur hana áfram, að þú finnur alltaf einhvers staðar ódýrara vinnuafl og þangað leitar framleiðslan, fyrst á vörum og síðan á þjónustu.  

Þetta er svona nútíma útfærsla á þrælakerfi Rómverja og endar á sama veg, þrælarnir taka yfir þegar úrkynjunin hefur náð ákveðnu stigi.  

Tímaferlið er bara miklu knappara núna því Spartakus hafði hvorki SMS eða netið, og hann hafði ekki bombuna.  

Misskipting, misrétti, kúgun, arðrán, orð sem hafa alltaf sömu afleiðingarnar ef þau eru efnið sem líma þjóðfélög saman.  

Uppreisn, átak, vígaferli, og það verður ekki barist með spjótum, og að lokum ekki heldur byssum.  Nútíma gjöreyðingarvopn eru ekki framleidd til að geymast á söfnum, þó valdaelíta beitir þeim ekki gegn annarri valdaelítu, þá mun hatrið og örvæntingin beita þeim gegn hinni úrkynjuðu yfirstétt sem ætlar að byggja kóngalíf sitt á örbirgð fjöldans.

Gengur ekki upp, hefur aldrei gengið upp, mun aldrei ganga upp.

Þess vegna eru svona pistlar dauðans alvara Gunnar, því ef við vöknum ekki upp í tíma, þá erfa börnin okkar afleiðingarnar.

"Deep shit"!.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.12.2012 kl. 16:45

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Seiken.

Það er alltaf flottur ritdómur þar sem minnst er á saumanálar og óneitanlega gleður það mig að fleiri hafi haft gagn og gaman af þessum pistli en ég.  

Og mér er full alvara að valdið verður ekki lagt nema með svona nálgun, hún er sú eina sem getur sameinað ólíkt fólk með ólíkan bakgrunn, með ólíkar lífskoðanir og býr við ólíkar aðstæður, á þann hátt að hið ólíka hverfur í skuggann af sameiginlegu markmiði.

Sagan segir hins vegar að það þarf meiri alvöru í líf fólks til að það sjálft taki af skarið og geri það sem þarf að gera.  

Það var ekki hægt að benda á meiri illsku og augljósri ógn en dafnaði í Þýskalandi á fjórða áratugnum.  Fólk hélt samt ró sinni og spáði ekki í það, Ólympíuleikarnir voru meira að segja haldnir þar í skugganum af  Sachsenhausen.  Það dugði ekki til að mælskasti maður enskrar tungu, þekktur stjórnmálamaður í sínu heimalandi, læsi beint upp úr skráðum framtíðarplönum Hitlers, ef ég man það rétt þá var hann víttur á breska þinginu fyrir að tala illa um ráðamenn í öðru ríki, gerði samt ekkert annað en að lýsa orðum þeirra, gjörðum.

Þetta er bara raunsæi Seiken, kemur bjartsýni eða svartsýni ekkert við.  

Vissulega unnum við ICEsave, en það var ákveðið mál, afmarkað og snerti erlenda kúgun og yfirgang ásamt undirlægju hætti ráðamanna.  En valdið lærði, og ekki hvað síst, 1001 milljarður er mættur á svæðið, og leyndarþræðir hans liggja um allt þjóðlíf.  

Andófið var keypt upp eins og Eyjan á sínum tíma og Dögun og Björt Framtíð munu fá næga fjármuni til að tvístra fyrirfram þeim hópi sem hugsanlega hefði getað myndað kjarna alvöru andstöðu.

Samstaða dó svo með Lilju, það er ekkert eftir Seiken nema Vonin sem Valkyrjur Vallarins passa í leyndum dal.

Ég er ekkert svartsýnn eða bjartsýnn því ég er kominn í stríð, og í stríði gerir maður það sem þarf að gera miðað við þau vopn sem maður hefur yfir að ráða.  

Ég settist bara niður og mótaði í huga mínum þríleik um það sem þarf að gera til að vonin lifni við á nýjan leik.  Það þýddi ekkert að setjast niður og grenja.

Liljur Vallarins er kominn, þessi pistill hér að ofan er fyrri hluti annars hlutans, sá seinni kemur í fyrramálið ef tíminn leyfir, og svo lokapistillinn um blóm lífsins, hið venjulega fólk.  Styrmir gaf mér útgangspunktinn í hann, myndin Help í þennan hérna og sorglegt fráhvarf Lilju í þann fyrsta.  

Ég held að þú kveikir alveg Seiken á útgangspunkti þess sem kemur á morgun, ég mun fjalla um þá sem höfðu kjark til að rísa upp, til að sína rétta breytni.  Svörtu vinnukonurnar í The Help gerðu það, kvekarar sögðu kristnum samlöndum sínum að þrælahald væri blettur á þeim, ekki þrælahöldurunum, þeir sem létu ómennskuna viðgangast væru sekir.  Svo minnist ég að sjálfsögðu á Hvítu Rósina, pistlar mínir um Sofíu Schol voru fyrsta atrenna mín að þessum grunnþætti mennskunnar, að hún verði að breyta rétt.  

Það er ljóst að það hefur ekki verið gert hér á Íslandi eftir Hrun, og þögn kærleiksstéttanna er æpandi.  Samsektin algjör, sálarheill þess fólks á vergangi.

En það er samt ekki hinn raunverulegi útgangspunktur Seiken, aðeins uppbygging rökfærslunnar.

Ádeilan er á þá sem sjá, en gera ekki.  

Þar er hinn alvarlegi skortur á hugrekki, sem eiginlega skýrir að vonin er í felum, og ekkert á leiðinni til byggða, til að taka þátt í baráttunni fyrir framtíð lífsins sem við ólum.

Þetta þarf að orða svo aðrir skilji, því á þessum skorti þrífst illskan.   Útskýrir ægivald hennar og yfirráð. 

Illskan er ekki svona sterk, það erum við sem erum svona veik.

Og skortur á þessu hugrekki, að sýna rétta breytni, er eins og skortur á vatni þegar á að rækta í eyðimörkinni.

Þó allt sé gert rétt, þá vex ekkert ef vatnið skortir.

Þess vegna er ég hvorki bjartsýnn eða svartsýnn, ég veit að vatnsskortinum og er lagður í stað í vatnsöflun.

Vegna þess að í stríði gerir maður það sem þarf að gera á hverjum tíma, ekki það sem maður vill gera, heldur það sem þarf að gera.

Og aðstæður og síðan andstæðingurinn stjórnar því.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.12.2012 kl. 17:31

14 identicon

Mikið er ég sammála því sem Seiken segir í athugasemd nr. 10, því við megum aldrei gleyma því að öll valdastétt allra flokka byggði að því er virtist óvinnandi vígi þegar að Icesave III var komið.  Öllu ríkisvaldinu, öllum stofnunum þess, allri stjórnsýslu þess ásamt öllum helstu fjölmiðlum landsins, í eigu ríkis og/eða fjárglæpamanna. 

Lúðrar voru þandir, áróðurinn glumdi út um allt, slkoðanakannanir birtust um að þjóðin þyrði ekki annað en að samþykkja fyrirskipun valdherranna sem létu áróðurinn glymja alls staðar og þjóðin fór með veggjum, hrædd og óttaslegin eins og við byggjum allt í einu í Afghanistan á tímum Talíbananna. 

12 þingmenn "Sjálfstæðis"flokksins og sá 13. birtust alls staðar og kröfðust að þjóðin segði já.  Ögmundur sagði já og Guðfríður Lilja flýði aftur heim í káetu sína og dró fyrir alla glugga í angist sinni, eftir að hafa fengið einhvern amrískan lögfræðing til að þykjast vera "að semja", Lee Bucheit.  Sá þótti vanur og falur til "samninga" við hvern sem var.

En, gleymum því aldrei, meirihluti þjóðarinnar hafnaði að lokum Icesave III.  Það sýndi okkur að stríð er aldrei tapað, lífið hefur alltaf sigur að lokum, vegna óbifandi baráttuþreks "venjulega" fólksins, eða með orðum Ómars "fallega" fólksins ... :-)  Ég veit að íslensk þjóð mun fyrr en síðar ná að virkja samtakamátt sinn aftru til lýðræðis síns og velferðar og til sáttaferils hér innanlands ... og mun því hafna miklu fyrr en síðar frekara aðlögunarferli að helferðinni.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 29.12.2012 kl. 20:35

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Allt mikið rétt Pétur.

En við megum ekki gleyma að í stríði, hvort sem það er við óvin á vígvelli, eða í baráttu um framtíð þjóðar, að það er ógn óvinarins í dag sem krefst beinna viðbragða, það þarf að lifa af daginn ef maður ætlar að takast þátt í orrustum morgundagsins.

Aðlögunarferlið er ekki að skella á á morgun, það er langtímaferli.

Á morgun eða hinn er þjóðinni hótað beinu gjaldþroti og í kjölfari missi sjálfstæðis síns og það blæs enginn í lúðra til varnar.  

Útaf allskonar ómálum, þar á meðal ESB kjaftæðinu.

Nauðasamningarnir við erlendu kröfuhafana er Ógnin í dag.  

Og fólkið sem þykist vera á móti kerfinu, fjórflokknum, er fast í kytrum fortíðar, eða með huga sinn við allskonar mál sem skipta engu ef við náum ekki að verja þjóðina gagnvart erlendum kröfuhöfum bankanna.  Þessi 1001 milljarður eins og ég kalla hann.

Lilja var eina manneskjan í Andófinu, eini þingmaðurinn sem ræddi þessi mál af viti og þekkingu, og kom með gagnmerkar tillögur til lausna.

Og hún er á förum Pétur minn, ekki vegna þess að henni skorti kjark, henni þraut örendið.  Vegna þess að venjulega fólkið var hrætt við sína eigin spegilmynd, þorði ekki að líta á sig sem manneskjur, sem sjálfstæðar manneskjur.  Þorði ekki að stíga fram og mynda baksveitir hennar.

Lét mata sig á ómálum sem voru til þess eins matreidd í umræðuna til að afvegleiða hana, til að halda henni frá hinni raunverulegri Ógn.  Og að sjálfsögðu til að hindra að það myndaðist slagkraftur til að ógna valdinu vegna skuldamála heimilanna.  

Það er of seint að mæta fyrir hinn venjulega mann að mæta á vígvöllinn þegar orrustan er afstaðin og stríðið tapað.  

Við gerum ekkert þegar búið er að skuldaþrælka þjóðina.  

Svo einfalt er það, þetta verður bara búið.

Eina vonin, þó ekki sé hún stór, er andófið innan grasrótar Sjálfstæðisflokksins, hann á eftir sinn landsfund, þar munu hinir 1001 milljarður verða ræddur.  Hann er fleinn í gegnum Bjarna, stór skítablettur á ímynd Hönnu Birnu, afhjúpar hinn raunverulega stuðning þeirra við fjármagnsöflin.  Sem meðal annars vilja í ESB.

Hið sundraða Andóf mun engu breyta, lærdómur valdsins á ICEsave var að vanmeta ekki hinn venjulega mann, þess vegna gerir það út Bjarta Framtíð og Dögun, annar flokkurinn sérhæfir sig í bjartsýninni og hinn í tuðinu, virkjar tuðið útí gamla valdið eins og ennþá sé 2007.

Þessi lýsing mín Pétur er ekki svartsýni, aðeins einföld greining á því sem er að gerast.

Það tókst að þagga niður í Lilju, gatan er nú greið fyrir 1001 milljarð.

En ég ætla að skrifa um hugrekki þar til afþurrkunartuskunni verður troðið í hendur mér, næ vonandi að klára pistilinn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.12.2012 kl. 08:31

16 identicon

Það er hárrétt Ómar, að Lilja Mósedóttir hefur barist af fullkomnum heiðarleika og einurð

og hún mun halda því áfram allt til loka þessa þings, svo mikið vitum við og örugglega á hvaða vettvangi sem er.

GLG er hins vegar flúin sem fyrr ofan í káetu sína og víkur sem jafnan af hólmi -er á reyndi- fyrir öldrunarlækninum brusselska.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 31.12.2012 kl. 18:19

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Hin Lilja mín er ennþá fegursta blóm í mínum huga Pétur, og verður það alltaf á meðan ég dreg andann.

Ég hef hitt hana, og ég veit.

Hins vegar er það okkar að skapa þann vettvang sem Lilja, og Lilja, dafna, ég reyni, og reyni.

Og reyni aftur.

Svo bið ég ljóðskáld lífsins að yrkja hin fegurstu ljóð.

Þá er alltaf von, alltaf tilgangur að draga andann.

Heyrumst Pétur minn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 31.12.2012 kl. 18:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 30
  • Sl. viku: 448
  • Frá upphafi: 1412810

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 387
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband