7.12.2012 | 07:01
Hringekja kvótaeyðingarinnar hefst á ný.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar var sagt hér forðum þegar fólk taldi ástæða til að sýna þeim tillitssemi sem átti á einhvern hátt erfitt.
Það mætti segja eitthvað svipað um landsbyggðina, það á að sýna henni aðgát, hún hefur átt undir högg að sækja í mörg mörg ár.
Samt er hún forðabúr landsins, bæði af mat, orku, útflutningi.
En miskunnarlaust arðrænd með mannanna verkum, röng gengisskráning, hroki, kvótakerfið svo fátt eitt sé nefnt.
Kvótakerfið er gott dæmi um það sem ég hef kallað hagfræði dauðans.
Í nafni fiskveiðistjórnunar og meintrar hagræðingar var sett á kerfi sem var svo útbúið að smærri fyrirtæki og smærri byggðarlög áttu ekki séns, þeir sem áttu kvótann gátu selt og sloppið, en aðrir, sjómenn, verkafólk, þeir sem þjónustu atvinnugreinina, máttu éta það sem úti frýs.
Sambærileg dæmi um tjón og eignaupptöku er aðeins finna í löndum Stalíns þar sem bændur og búalið voru rændir eigum sínum og löndum með sömu rökum, hagræðingu og stjórnun.
Hagræðing kom lítt við sögu þegar ákveðið var hverjir lifðu eða dóu.
Tvennt réði úrslitum.
Það fyrra og það mikilvægast snéri að aðgangi fyrirtækja að fjármagni, og það seinna var hve fljót fyrirtæki voru að tileinka sér hugsunarhátt þrælahaldarans, að leigja frá sér kvóta og hirða allan arðinn eða leigja til sína kvóta og láta sjómenn taka þátt í þeirri leigu, sem var skýlaust brot á kjarasamningum.
En því skal haldið til haga að í öllu þessu umróti jókst fagmennska mjög innan greinarinnar, bæði umgengni um afla og öll markaðssetning og það urðu til stærri og öflugri fyrirtæki.
Það er engin rós án þyrna er sagt og það sama má segja um hið gagnstæða, það er enginn þyrnir án rósar. Það fylgja öllu kostir og gallar.
Svívirðan í öllu þessu dæmi var að í nafni meintrar hagræðingar var hluti af samfélaginu látinn bera óréttmætan kostnað án nokkurra bóta.
Menn hagræddu á kostnað annarra. Menn ollu náunga sínum tjóni til að auka sína velsæld.
Klassískt viðhorf hinnar siðlausu sérhyggju, að telja sig mega það sem menn mega ekki, að níðast á náunganum, að níðast á fólki, að níðast á samfélögum fólks.
Hagfræði dauðans í hnotskurn.
Það má vel vera að það hafi þurft að stjórna fiskveiðum og að kvótakerfi hafi verið skynsamlegasta leiðin til þess, og það má vel vera að hin meinta hagræðing hefði ekki komið til nema með frjálsu framsali aflaheimilda.
En þá bar mönnum skilyrðislaust að átta sig á að þeir eru ekki guðir, þeir hafa ekki rétt til að manngera hamfarir líkt og þeir séu náttúruafl.
Þeir sem urðu fyrir tjóni, þeir áttu að fá bætur, samfélögin sem urðu fyrir tjóni áttu að fá bætur. Bætur sem gerði fólki kleyft að halda áfram sínu lífi án skaða. Bætur sem gerðu samfélögum kleyft að bregðast við breyttum aðstæðum í atvinnulífi þeirra.
Hinn meinti arður átti að renna til byggðanna, til fólksins sem var svipt hinum helga rétti sínum að mega nýta auðlindir sjávarins líkt og forfeður þeirra höfðu gert frá ómunatíð.
Þannig hagar siðaður maður sér, þannig hagar siðað stjórnvald sér.
Þannig er hagfræði lífsins.
En frjálshyggjan er ekki siðuð, hún er ómennsk, hún er ættuð úr neðra. Upphefur siðlausa græðgi og sérhyggju.
Hún lét arðinn renna til örfárra einstaklinga, sem máttu ráðstafa honum þar sem þeim sýndust.
Þeir máttu ráðstafa honum í London, í Flórída, í Kína, allt í nafni alheimsvelferðar fjármagns sem ber enga ábyrgð gagnvart samfélögum eða fólki.
Sem skilur eftir sig sviðna jörð sem er uppspretta átaka og sundurlyndis og af slíku höfum við fengið ríflegan skammt á Íslandi.
Afleiðingarnar eru margvíslegar, núverandi arðránsfrumvarp á byggðir og útgerðir er dæmi um slíkt.
Og enn og aftur er undirliggjandi siðfræði frjálshyggjunnar, mannhatur og heimska.
Ný uppspretta átaka og sundurlyndis, eyðing byggða, eyðing mannlífs.
Það á að þjappa kvótanum á ennþá færri hendur, og aðgangur að fjármagni er úrslitaatriðið.
Samyrkjubúskapur Sovétsins í sinni tærustu mynd.
Þetta ferli er hafið, og því mun ljúka með Hruni landsbyggðarinnar ef það verður ekki stöðvað í tíma.
Það hvarflar að engum að fólk eigi sinn rétt, að byggðirnar eigi sinn rétt.
Að það sé til eitthvað sem heitir samfélagsleg ábyrgð, að arðurinn af auðlindinni eigi fyrst að renna til þeirra sem nýta hana og þaðan eigi hann að dreifast út um allt hagkerfið þjóðinni til heilla.
Að það sé til blómlegt mannlíf á landsbyggðinni.
Að það sér líf, að það séu forsendur lífs.
Umræðan snýst aðeins um góssið, hver á að hirða ránsfenginn.
Það er eins og við séum kominn margar aldir aftur í tímann þar sem gjörspilltir höfðingjar slógust um hver mætti mergsjúga skattlönd.
Siðvitund okkar er allavega ekki lengra komin.
Skilningur okkar á forsendum lífs, sem er hagfræði lífsins, er enginn.
Og uppskeran eftir því.
Hatur, sundurlyndi, átök.
Kreppa, stöðnun, upplausn.
Ógæfa lands og þjóðar í hnotskurn.
Kveðja að austan.
Vilja hætta útgerð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.1.): 3
- Sl. sólarhring: 35
- Sl. viku: 1655
- Frá upphafi: 1412769
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 1475
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er ljót lýsing, Ómar. - En því miður dagsönn.
Þórir Kjartansson, 7.12.2012 kl. 08:51
Ætlar þjóðin að arðræna útgerðarmenn?
Eftir Baldvin Nielsen
Kvótabrasksmennirnir, hinir fáu útvöldu í stórútgerðinni sérstaklega, hafa tekið sér fé út úr sjávarútveginum svo skiptir tugum ef ekki hundruðum milljarða króna. Verðmat á kvóta hverju sinni, sem útgerðarmenn komu á sín á milli, var látið ráða. Þ.e.a.s. kerfi var búið til sem bjó til eftirspurn á pappírunum eftir kvóta sem stórhækkaði verðið á kvótanum án þess að rekstraráætlun fylgdi með til að sýna fram á að útgerðin gæti staðið undir þessum lántökum.
Gömlu bankarnir voru með í stjórnum sínum menn sem voru útgerðarmönnum vilhallir í svikamyllunni, – jafnvel útgerðarmenn áttu sæti í stjórnum bankanna. Þetta jók líka hlutabréfavirði fyrirtækjanna og gerði kleift að borga út arð til hluthafa! Því má ætla að í kvótakerfinu væru hæg heimatökin að sá um sig lántökum innan bankanna. Bankarnir tóku gilt að veðsetja kvótann út á reiknikúnstirnar sem notaðar voru svo í bókhaldinu vegna þessara viðskipta.
Þessi mylla gerði það að verkum að kvótinn hækkaði og hækkaði í verði samkvæmt veð- og lánsþörfinni sem þessir aðilar töldu viðunandi til að sýna stöðugleika í rekstrinum, því það reyndi aldrei á greiðslugetu útgerðarinnar meðan á þessu stóð og þjóðin svaf vært. Hinir fáu útvöldu dældu m.a. fé út úr útgerðinni inn á sín einkahlutafélög hver fyrir sig. Athugið að ef útgerðarmenn eiga að fá framlag sitt til kvótakaupa greitt af þjóðinni, sem mér finnst alveg út úr kortinu, skal það áréttað að þá greiðslu hafa þeir fengið fyrir löngu.
Hvar eru rekstraráætlanirnar sem lagðar voru fyrir bankana fyrir öllum þessum lánveitingum?
Hvar var fjármálaeftirlitið? Hvar voru fjölmiðlarnir og hagfræðingarnir sem nú geysast um víðan völl eftir hrunið mikla – nota bene með ráð á hverjum fingri og hverri tá um hvernig gata megi beltið til að halda betur uppi buxunum hjá almenningi.
Í þessu ljósi, þótt ég hafi alltaf samúð með þeim sem standa höllum fæti, er ég samt forviða á þeirri samúð sem þessum mönnum er sýnd þegar á að kalla inn kvóta hjá ríkisvaldinu. Samúð mín liggur hjá þeim sem kvótakerfið rassskellti, þ.e.a.s. leiguliðunum og síðan þjóðinni sem þarf í dag að loka á eftir sér dyrum og ganga út á götuna. Kvótabraskskerfið er stærsta bankarán Íslandssögunnar að mínu mati og bjó til formúluna til að nota á öðrum sviðum og lætur nú þjóðinni blæða! Þá segi ég og löngu tímabært eins og Jón Sigurðsson forseti forðum: „Vér mótmælum allir.“
Höfundur er bifreiðastjóri í Reykjanesbæ.
7.des.2012
P.S.
ESB bíður á hliðarlínunni og Sjálfstæðisflokkurinn er á móti ESB eins og er til að styrkja samningsstöðuna. Sjálfstæðisflokkurinn vill Íslenskt kvótakerfi í ESB reglunar því þá myndi kvótinn hækka gríðarlega svo mikið að greifarnir myndu geta velt sér upp úr evrunum um aldur og ævi en þjóðin héldi áfrám að horfa agndofa á þessa tæru snillinga sína sen hún aftur og aftur treystir fyrir sínum hag því miður
Kveðja, Baldvin Nielsen
B.N. (IP-tala skráð) 7.12.2012 kl. 09:09
Takk Þórir.
Við skulum þá vona að undir yfirskyni "bóta" sé illt ekki gert ennþá verra.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.12.2012 kl. 09:30
Blessaður Baldvin.
Þín stóra ógæfa og algjöra meinloka er að þú gerir ekki greinarmun á kvótabröskurum og útgerðarmönnum.
Þú ætlar að hengja kvótabraskara en þeir eru farnir úr greininni, búa út í London eða settu fé sitt í Kringlur eða sumarhús eða hvað sem þeim datt í hug. Eftir sitja þeir sem lifa og starfa í þessari grein eftir þeim leikreglum sem samfélagið setti.
Þú ert ekki sjálfkrafa glæpamaður þó þú starfir eftir þeim reglum.
Og hjá þessum útgerðarmönnum starfar fjöldi sjómanna, landverkafólk, og heilu byggðarlögin eiga allt sitt undir.
Það er fólkið sem þú hengir, ekki braskararnir, þeir bíða nýrra tækifæra, til að skapa þau nýta þau hatur þitt og þinna að leggja til hið fullkomna draumakerfi frjálshyggjunnar, ríkisuppboð þar sem brask og sjálftaka keyra kerfið áfram.
En þú getur huggað þig við að þú ert ekki fyrsti nytsami sakleysinginn sem auðstéttin notar til að rústa samfélögum fólks, en vonandi fer fólk að vakna, og sér til þess að þeir verði ekki mikið fleiri.
Því við erum fólk, og eigum rétt til lífs og réttláts samfélags, og við eigum rétt á að fá frið fyrir siðlausri græðgi og arðráni.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.12.2012 kl. 09:37
Maður sem hefur fengið úthlutað þeirri sérstöðu að afla 10 tonna fyrir samfélagið og fær úthlutað eitt árið 9 tonnum hefur ekki orðið fyrir skerðingu á verðmætum heldur tekist á við þann áhættuhluta sem alltaf hefur fylgt sjávarútvegi t.d. minnkandi fiskgengd við landið. Þetta er jafn innbyggt í sjávarútveginn og andrúmsloftið er umhverfi okkar. Sá sami hefur ekki heldur hlotnast happdrættisvinningur þegar árið þar á eftir færir honum til verks að afla 11 tonna í formi kvóta fyrir samfélagið. Tilkall til þessa viðauka er ekkert frekar hans en samfélagsins því yfirráðin yfir auðlindinni kemur frá þeim sem úthlutar í nafni þjóðarinnar og er kosinn til þess af almenningi.
Ég held við höfum eytt alltof miklum krafti og tíma í baráttuna um það hver á að veiða og hver telji sig kvótann eiga. Eins og segir í 1 grein laga um stjórn fiskveiða er kvótinn eign þjóðarinnar og þannig hefur það verið síðan þetta kerfi kom á og svo skal vera um auðlind okkar alla tíð.
Það er ekki vel ígrundað þegar ýmsir aðilar segja að það komi vel til greina að heimamenn kaupi útgerðirnar aftur, vegna þess að þegar kvótakerfið var sett á fengu útgerðirnar þennan kvóta til afnota fyrir óverulegt gjald en ekki til eignar. Þess vegna er ekki hægt að selja það sem menn hafa aldrei eignast þ.e.a.s. veiðiheimildirnar. Þau kaup hins vegar manna á milli í gegnum tíðina á þessum ímyndum verðmæta í kvótalíkingu, varðar okkur samfélaginu ekkert um.
Ég hef aldrei haldið því fram að um glæp sé að ræða þegar útgerðarmenn stunda viðskipti með veiðiréttindi í formi kvóta eins og fiskveiðakerfið er byggt upp í dag. Þeir gerðu þessi viðskipti sín á milli, án samráðs við þjóðfélagið, gegn vilja settra laga og því alfarið á þeirra ábyrgð.
Stjórnvöld geta breytt fiskveiðakerfinu hvenær sem er geta þess vegna sett skrapdagakerfið á aftur sem dæmi ef þau vildu því útgerðarmenn eru ekki með stjórnarskrá varinn rétt til að fara með stjórn fiskveiða á hverjum tíma það eru stjórnvöld sem því ráða. Hins vegar má ekki skerða nein um atvinnufrelsi samkvæmt stjórnarskráni nema tryggt sé að allir séu við sama borð þegar slíkt gerist vegna þjóðarhagsmuna án þess að gjald komi í staðinn.
Kveðja, Baldvin Nielsen
B.N. (IP-tala skráð) 7.12.2012 kl. 23:05
Blessaður Baldvin.
Ég vil ráðleggja þér að lesa pistil minn hér að ofan um hvað gerðist á landsbyggðinni eftir upptöku kvótakerfisins, í hnotskurn var hluti þjóðarinn látinn blæða fyrir meinta hagræðingu án bóta.
Sem er siðleysi, sem er angi siðlausra frjálshyggju dauða hagkerfisins.
Nýju lög ríkisstjórnarinnar ganga ennþá lengra í þá átt, með ennþá skelfilegri afleiðingum fyrir fólk á landsbyggðinni.
Það er margt að sem þarf að breyta.
En breyting þarf að vera til góða, ekki gera vont verra.
Og breyting þarf að taka mið að aðstæðum í dag, ekki aðstæðum sem voru fyrir 30 árum þegar kvótakerfið var sett.
Þetta er það sem þið hjá Frjálslyndum áttið ykkur ekki á, þið eruð því að gera vont verra.
Spáðu í þetta, þú munt sjá ljósið því þú vilt vel.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.12.2012 kl. 10:26
Blessaður aftur Ómar
Hér fyrir neðan er tilvitnun í athugasemd númer tvö hér fyrir ofan eftir mig dags. 7.des 2012 kl.09.09 . Ég var varla búinn að sleppa lyklaborðinu þegar frétt í DV dagsett 8.des. 2012 kl.07.30 birtist sem lesa má hér en þá neðar. Þessi frétt styður hvað það er sem ég óttast mest í dag það er að fiskveiðiheimildirnar verða fluttar út frá Íslandi við inngöngu okkar í ESB. Þessar áhyggjur mínar hafa ekkert með veru mína í Frjálslynda flokknum í den að gera hann átti fullan rétt á sér og hefði hann náð árangri á sínum tíma hefði ég kannski ekki verið í þessari stöðu að hafa þessar áhyggjur fyrir hönd þjóðarinar.
,,7.des.2012
P.S.
ESB bíður á hliðarlínunni og Sjálfstæðisflokkurinn er á móti ESB eins og er til að styrkja samningsstöðuna. Sjálfstæðisflokkurinn vill Íslenskt kvótakerfi í ESB reglunar því þá myndi kvótinn hækka gríðarlega svo mikið að greifarnir myndu geta velt sér upp úr evrunum um aldur og ævi en þjóðin héldi áfrám að horfa agndofa á þessa tæru snillinga sína sen hún aftur og aftur treystir fyrir sínum hag því miður"
Sjálfstæður útgerðarmaður
,,Guðmundur Kristjánsson, stórútgerðarmaður kenndur við Brim, er lítið fyrir það hjarðeðli sem LÍÚ er þekkt fyrir. Nú hefur útgerðarmaðurinn líst þeirri skoðun sinni að ljúka eigi aðildarviðræðunum við Evrópusambandið.
Þetta er þvert á álit margra útgerðarmanna sem eru grjótharðir gegn sambandinu og öllum viðræðum um aðild Íslands þar að. Og Guðmundur er ekki vinsæll hjá harðlínu LÍÚ vegna skoðana sinna. Sjálfum mun honum vera sama um álit þeirra.''
Allt þetta tal að það standi til að breytta kvótakerfinu í ríkiskvótakerfi í staðinn fyrir LIÚ kvótakerfi er bara til að taka umræðunna í þjóðfélaginu með alkyns ruglingi svo fílinn geti labbað fram hjá almenningi á Íslandi óáreittur á leið sinni til Brussel svo hægt verði að loka sjávarútvegskaflanum við ESB.
Vil enda þetta með að setja linkinn hér fyrir neðan á grein eftir mig sem birtist í Víkurfréttum í desember 2002 sem sýnir hvaða sýn ég hafði meðan ég var í Frjálslynda flokknum.
http://www.vf.is/adsent/kvotakerfid-burt-/30691
Með bestu kveðjum,
Baldvin Nielsen
B.N. (IP-tala skráð) 8.12.2012 kl. 20:48
Blessaður Baldvin.
Meginótti þinn sýnist mér vera að kvótinn fari til ESB, til þess þarf tvennt að gerast, að Ísland gangi í ESB, og að útlendingum verði leyft að fjárfesta í kvóta.
Þetta með að opna fyrir útlendingana var eitt fyrsta stefið kom frá fjármagninu eftir Hrunið, opna hagkerfið, auka skilvirkni, fá erlendar fjárfestingar og svo framvegis.
Þetta fjármagn er í bandalagi við Samfylkinguna við að koma landinu í ESB, til hvers, til að stuðla að þjóðlegri nýtingu fiskimiðanna???
Finnst þér það líklegt???
Fyrir mann eins og þig að starfa með ríkisstjórn ESB að breytingum á kvótakerfinu er eins og haninn fengi mink til að gæta hænsnabúsins.
Það er ótrúleg sjálfblekking að sjá ekki hvað býr undir og hvernig hefur verið spilað með ykkur frá a til ö.
Til skamms tíma mun veiðileyfagjaldið setja á stað hringekjuna sem ég lýsti í pistli mínum með mjög skaðlegum áhrifum á smærri byggðarlög sem ennþá halda í kvóta. Einnig mun það veikja mjög fárhag sjávarútvegsfyrirtækja sem eykur samkeppnisforskot annarra þegar kemur að kvótauppboðinu.
Þú ert sem sagt ekki bara að arðræna landsbyggðina með sérstökum skatti, þú ert að ýta undir byggðarröskun með öllum þeim neikvæðum afleiðingum sem það hefur fyrir fjölskyldur og heimili sem sitja uppi með verðlausar eignir án atvinnu.
Enn einu sinni.
Til þess eins að gera fjármagninu kleyft að söðla undir sig kvótann, það er að segja erlendu fjármagni.
Allt vegna þess að þú sérð vankanta á núverandi kerfi en áttar þig ekki á að breyting þarf að vera til bóta, en ekki að gera vont, verra eða jafnvel vonlaust.
Þú og félagar þínir hjá Frjálslyndum virðist ekki átta ykkur á að uppboðsleið kvóta er fjársjúkasta form frjálshyggjunnar, þetta er þrautreynd leið arðráns og kúgunar þeirra samfélaga sem verða fyrir barðinu á svona uppboðsleið. Því sá sem býður hæst, hugsar um það eitt að fá tekjur umfram leigugjöld með sem minnstum tilkostnaði.
Þessi leið hefur oft verið farin í mörgum menningarsamfélögum í gegnum tíðina, til dæmis við skattheimtu eða útleigu stórjarða, og fátækt og örbirgð er hennar helsti fylgifiskur. Fátækrahælið sem Oliver Twist ólst upp var til dæmis rekið á þessum forsendum, uppboð á ómögum í gamla daga er annað dæmi, yfirumsjón skattnýlenda Rómverja þriðja, rekstur á stórjörðum á Ítalíu á öldunum fyrir og um endurreisn er fjórða og svona gæti ég lengi haldið áfram.
Til hvers ertu að láta frjálshyggjuna plata þig til að styðja þennan óskapnað Baldvin, ég bara spyr???
Því þú ert ekki siðlaus frjálshyggjumaður.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 9.12.2012 kl. 19:59
Hæ aftur félagi
Þegar og ef við förum inn í ESB fara fiskveiðiheimildirnar frá landinu mjög fljótlega sem þýddi að 60% til 70% af útflutningsverðmætum Íslendinga hverfur úr hagkerfinu. Þessi þróun þýddi allt að 50% af þjóðinni myndi þurfa að líta í kringum sig hvar hægt væri að koma sér og sínum fyrir í Evrópu til að hefja nýtt líf annars biði þeirra þau hlutskipti eins og hjá Oliver Twist í gamla daga.
Ég er ekki Fjórflokka maður og er ekki skráður í nein flokk eins og er a.m.k. Ég vil að það komi skýrt fram að ég styð ekki Samfylkingar kvótakerfið né LÍÚ kvótakerfið ég styð en þá að tekið verði upp svæðisskipt sóknardagakerfi með veiðafærastýringu á bolfiskveiðum. Ég vil sjá allan afla fara á fiskmarkað og ríkið fengi sem dæmi 10% af aflaverðmæti eftir á þegar uppboðinu væri lokið. Þetta kerfi sem ég er svo hrifinn af tryggði að allur fiskur kæmi að landi sem þýddi að allt sem væri verðmæti bæði stórt og smátt sem dregin væru úr sjó kæmi að landi og allir græða fullt af auka evrum og dollurum ekki veitir af.
Það er góð grein eftir Kristinn Gunnarsson í Fréttablaðinu í dag þar sem hann er að útskýra að LÍÚ útgerðarmennirnir taka 94% af leiguliðunum í veiðileyfagjald sem vissilega er mjög mikið miðað við það sem Jóhanna og félagar í ríkisstjórn vilja að þeir sem ráða í LÍÚ borgi til ríkissjóðs. Umræðan er svo þröngt allt of margir tala fyrir sínum þröngu hagsmunum stundum undir rós það eru allt of fáir sem eru að tala frá hjartanu hvað sé best fyrir þjóðina.
Kveðja, Baldvin Nielsen
B.N. (IP-tala skráð) 10.12.2012 kl. 09:15
Blessaður Baldvin.
Það er mjög margt af núverandi kerfi, enda hannað eftir forskrift frjálshyggjunnar.
Grunnsiðfræði þess er röng, hluti af hinni meintu hagræðingu er af ætt arðráns og þrælahalds.
En kostirnir eru líka margir, fagmennskan og markaðssetning er margföld á við það sem var.
Þú fórnar ekki kostunum þegar þú tekst á við galla en fyrst og fremst, þá reynir þú ekki að leiðrétta glæp með því að standa að ennþá meiri glæp.
Hafi ég tengt þig óvart við Frjálslyndaflokkinn, þá biðst ég afsökunar á því.
En ég ítreka að þú ert ekki í góðum félagsskap þegar þú styður óhæfuverk ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum. Hann gerist ekki verri, hugmyndafræðin um ríkisleiguliða er það sjúkasta af öllu því sjúka sem frjálshyggjan hefur lagt til í þessu máli.
Tilgangurinn er að koma þurfalingum í ESB, og eins og þú segir réttilega, þá fyrst erum við í djúpum skít (eða réttara sagt færir rök fyrir, orðalagið er mitt).
Lestu pistil minn aftur, ef þú áttar þig á inntaki hans, þá skilur þú hvernig hagfræði lífsins tekst á við vanda sjávarbyggðina með réttlæti og samfélagslegri ábyrgð að leiðarljósi.
Þú setur rétt markmið og aðlagar kerfið af þeim, þú veldur ekki fólki þjáningum með kerfisbreytingum þínum heldur lagar þú ágalla á þann hátt að lagfæringar þínar eru til bóta.
Og smátt og smátt verður hin ókomna framtíð viðfelldnari staður fyrir börnin okkar til að ala upp sín börn.
Það er engin önnur leið ef við viljum framtíð.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 10.12.2012 kl. 21:22
Það væri fróðlegt að rifja upp þá útgerðarstaði og bæjarfélög sem stóðu í útgerð sem fengu kvota í upphafi kerfissins. Hvað hafa þessi bæjarfélög gert við sinn kvota?
Ég man þann tíma að það voru 3 skip á Seyðisfirði og þar af 1 í eigu sveitarfelagins. Skip sveitafélagins lagði ekki fisk upp í frystihúsi staðarins heldur silgdi með aflann til bretlands til að fá meiri augnabliksgróða í sinn vasa. Ekki hugsaði sveitafélagið um vinnu fyrir fólkið í þá daga, og að endingu seldi bæjarfélagið skip og kvota frá sér og treysti á Útgerðarmanninn til að bæjarbúum fyrir atvinnu.
Hvað skildu mörg bæjarfélög gert þetta sama og hér ég hef lýs og varpað samfélagslegri ábyrgð sinni yfir á herðar Útgerðarmannsins.
Eggert Guðmundsson, 20.12.2012 kl. 09:45
Því miður endaði sú samfélagsleg ábyrgð hjá mörgum í Kringlunni í Reykjavík eða í sumarhúsum í Florida, að ég minnist ekki á alla flottræflana út í London.
Þar er arfurinn eftir Alla ríka, sem skyldi hvað fólst í orðinu samfélagsleg ábyrgð.
Skuldirnar eru eftir á Eskifirði, þar er dóttir Alla og tengdasonur að berjast við að reka fyrirtækið áfram, og gengur vel. En það er of skuldsett, þolir ekki mikla niðursveiflu.
Málið er Eggert, við þurfum aftur siðferði og samfélaglega ábyrgð inní kapítalismann, að eigendur fyrirtækja séu með þau í láni frá samfélaginu, sem hefur trúað þeim fyrir að reka þau á sem hagkvæmastan og skynsamlegast hátt.
En í þágu samfélagsins, í þágu þjóðarinnar sem fóstrar okkur öll.
Rofið sem varð milli fjármagns og samfélag, hefur eitrað kapítalismann, eitrað flokka kapítalista, eitrað alþjóðaviðskipti, og allir eru á hausnum.
Gengur ekki, menn þurfa að kynna sér orð og gjörðir gömlu mannanna.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.12.2012 kl. 09:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.