17.10.2012 | 23:44
Þegar prófessorar leika fífl.
Og komast upp með það, þá sér maður hvað í raun er illa komið fyrir þjóðinni.
Þá skilur maður betur af hverju þjóðin var rænd fyrir opnum tjöldum, svívirt síðan eftir ránið með því að ræningjaöflin náðu öllum völdum með vel úthugsuðum blekkingarleik með því að skáka Sjálfstæðisflokknum til hliðar um stund á meðan hið gamla kerfi var endurreist á kostnað almennings, með blóði og svita hins almenna borgara þessa lands.
Ég hef verið mjög hugsi yfir þeirri atburðarrás sem leiddi til þeirra kosninga sem verða næsta laugardag, ég skil alveg að ærlegt fólk vilji "nútímavæða" stjórnarskrána, en að það skuli ljá nafn sitt og stuðning við þau handarbakarvinnurbrögð sem hafa einkennt allt ferlið, er mér fyrirmunað að skilja.
En meira um það á morgun, ég endurræsti víst þetta blogg þessa vikuna vegna greinar sem ég ætla að henda inn þá.
Það var Feisbókarfærsla á tímalínu minni eftir góðan dreng sem vakti athygli mína á nýjusta bloggpistli Stefáns Ólafssonar prófessor við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands.
Ég las og varð orðlaus. Þeir sem vilja verða orðlausir, geta gúglað Stefán og lesið þennan pistil hans.
Ég tek það fram að ég veit að Stefán er ekki svona heimskur eins og pistillinn sýnir, þetta er áróðurspistill, hálfsannleikur sett í skrumskælda mynd í trausti þess að trúgjarnt fólk sjái ekki í gegnum blekkingarvefinn, en það afsakar ekki manninn.
Notkun hans á staðreyndum og það samhengi sem hann setur þær í er með þvílíkum eindæmum að enginn maður, kenndur við prófessorstöðu og í vinnu hjá almenningi, getur látið svona fölsun frá sér.
Greinin heitir, "Óreiðuskuld Davíðs Oddssonar" og er skrifuð til að peppa upp liðið fyrir kosningarnar á laugardaginn. Af einhverjum ástæðum virðist margir tengja saman Davíð og stjórnarskrá lýðveldisins og telja að þeir klekki á Davíð með því að styðja tillögur stjórnlagaráðs. Þess vegna er gömul lumma endurtekin, um að Davíð Oddsson hafi valdið þjóðarbúinu sérstökum búsifjum í aðdraganda hrunsins.
Nánartiltekið búsifjum upp á 267 milljarða eða 3,2 milljónir á hverja 4 manna fjölskyldu.
Er þá vísað í meint tap Seðlabankans vegna fall bankanna.
Ef fólk les án þess að hugsa þá gæti það fallið í þá gryfju að trúa þessari vitleysu.
En ef fólk hugsar, þá ætti það að sjá í hendi sér að það unnu fleiri hjá Seðlabankanum en Davíð Oddsson. Og án þess að ég sé nokkuð að gera lítið úr Davíð Oddssyni, þá hafði hann minnst með stefnu Seðlabankans að gera, af þeirri einföldu ástæðu, hann hafði minnstu þekkinguna á peningamálum innan bankans.
Bankastjórarnir voru þrír, það var aðalhagfræðingur, aukahagfræðingur og líklegast hátt í hundrað aðrir hagfræðingar.
Lögmaður, og fyrrum stjórnmálamaður, skipar þessum mönnum ekki fyrir verkum. Hafði örugglega einhver áhrif, en ekki svo mikil að hann gæti neitt aðra starfsmenn bankans, þar með 2 aðra bankastjóra sem voru hreinir fagmenn, og það virtir fagmenn, til að framfylgja stefnu sem allir aðrir seðlabankar heims framfylgja þegar lausafjárerfiðleikar hrjá fjármálakerfið.
Það er að útvega fjármálakerfinu lausafé sem er aðalhlutverk seðlabanka.
Því í ákafa sínum við að ná höggi á Davíð, þá gætir Stefán Ólafsson ekki að því að ef Davíð Oddsson ber ábyrgð á þessum lánveitingum, þá hafa aðrir starfsmenn seðlabankans viljað gera eitthvað annað.
Til dæmis að lána ekki bönkunum, og hefði það þá í fyrsta skiptið í seðlabankasögu heimsins sem það hefði ekki verið gert.
Og þar að auki hafi þeir allir sem einn, kyngt þessari stefnu Davíðs Oddssonar, án þess að mótmæla, án þess að láta forsætisráðherra eða fjármálaráðherra vita.
Að sjálfsögðu var þetta ekki þannig, seðlabankar lána í lausafjárkreppum, og allir seðlabankar heims lánuðu bönkum sínum í aðdraganda fjármálakreppunnar miklu haustið 2008.
Líka seðlabanki Íslands.
Ekki vegna Davíðs Oddssonar, heldur vegna þess að það er það sem seðlabankar gera.
Seðlabanki Íslands hefði gert það þó Davíð Oddsson hefði verið húsvörður, en ekki bankastjóri, hann hefði gert það þó Davíð Oddsson hefði verið á móti því, hann hefði gert það þó Davíð Oddsson hefði ekki verið til.
Lánveiting seðlabankans til bankanna hafði akkúrat ekkert með Davíð Oddsson að gera.
Þetta er hin algjöra heimska í grein Stefáns Ólafssonar sem prófessor má ekki gera sig sekan um. Og hann ætti að hrekjast úr embætti vegna aðhláturs. Það er ef allt er eðlilegt hjá íslensku þjóðinni.
Blekkingin, að telja fólki í trú um að um einhverja óeðlilega athöfn hafi verið að ræða, er líka ærin ástæða til að láta manninn fara.
Það má vel vera að lærdómur fjármálakreppunnar verði sá að seðlabankar gæti betur að sér í svona lánveitingum en það er eðli lærdóms að lúta tímalínu, ég læri ekki eitthvað í dag til að bæta úr axarskapti gærdagsins.
Og seðlabankar heimsins hafa ekki ennþá dregið þennan lærdóm. Til dæmis dælir Seðlabanki Evrópu gífurlegum fjármunum í bankakerfi evrusvæðisins og heldur því á floti á þann hátt. Það þarf ekki að taka það fram að Davíð Oddsson ber ekki ábyrgð á þeirri ákvörðun.
Að lokum má benda á ranga notkun Stefáns á þessu meinta tapi.
Seðlabankar tapa ekki peningum, þeir búa þá til.
Þeir geta tapað gullforða sínum, eða gjaldeyrisforða sínum, en þeir tapa aldrei gjaldmiðlinum sem þeir skapa.
Dæli þeir peningum út í loftið, þá kallast það peningaprentun, sem þynnir gjaldmiðilinn, annað er það ekki.
Það greiðir enginn þessa 267 milljarða, þeir eru bara prentaðir uppá nýtt.
Ef við hefðum haft evruna, þá hefði þetta sannarlega verið tap, en sem betur fer, þá var það ekki.
Það skiptir kannski litlu máli að vera nöldra út af svona.
Ég veit að þeir sem trúa Stefáni, og lesa þennan pistil, þeir taka ekki neitt mark á rökum mínum. Eða rökum yfir höfuð. Pólitísk afstaða þeirra byggist á skoðunum eða trú, staðreyndir eða blekkingar, rök eða rökræða, fær engu breytt.
Og það er málið, það fær engu breytt.
Þjóðin er svo firrt, svo auðplötuð að ekkert fær ógnað Valdinu sem rændi okkur og svívirti.
Það tvístrar þjóðinn með allskonar blekkingarleik, og sundruð mun þjóðin ekki ná að verja framtíð sína.
Ég hef alltaf trúað á þjóðina, aldrei misst vonina, alltaf talið að hún myndi að lokum sjá í gegnum blekkingarvefi Valdsins.
Að hún væri slegin blindu, en ekki blind.
En núna er ég hugsi, mjög hugsi.
Enhvað um það, greinin um stjórnlagafárið kemur í fyrramálið.
Maður má ekki bregðast ICEsave lúserunum.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.4.): 27
- Sl. sólarhring: 27
- Sl. viku: 106
- Frá upphafi: 1438689
Annað
- Innlit í dag: 19
- Innlit sl. viku: 84
- Gestir í dag: 18
- IP-tölur í dag: 17
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir góða grein Ómar.
Ef ég man rétt þá lét Einstein þau orð falla að það væri hægt að rökræða vísindi en ekki trú. Þetta á vel við suma þá sem kenna sig við vísindi en boða trú. Þessir menn, sem þjóðin heldur uppi, hafa farið offari síðustu misseri í sínu trúboði í nafni vísinda.
Gunnar Heiðarsson, 18.10.2012 kl. 07:10
Og það er slæmt Gunnar því Háskólinn á að vera musteri þekkingarinnar. Við höfum ekki annan og þegar kennarar við skólann falla í þessa gryfju, þá nálgumst við ískyggilega þau samfélag þar sem öfgamenn stjórna umræðu í nafni trúarofstækis.
Enda eru vinnubrögðin áþekk, tengingin við Davíð í þessu stjórnarskráarfári öllu höfðar til svipaðra tilfinningastöðva og þegar götur múslimaríkja eru fylltar af fólki vegnar meintrar móðgana við spámanninn.
Og það dugar að segja að einhver hafi móðgað spámanninn.
Það er þetta sem slær mig í umræðunni, að auðræningjarnir skuli hafa dottið niður á aðferðarfræði sem ljær þeim völd yfir huga fólks, aðferðafræði sem gerir þeim kleyft að deila og drottna.
Þeim sjálfum til auðs og valda.
Biblíubeltið er nær okkur en ég hélt.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 18.10.2012 kl. 08:09
Ég velti bara fyrir mér hvort Davíð muni þakklátur fyrir þá skýringu að hann hafi haft minnsta þekkingu á peningamálum innan bankans.
Haukur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 18.10.2012 kl. 08:10
Blessaður Haukur, þetta er ekki skýring, þetta er einföld staðreynd.
Hvort hún hafi átt kjurt liggja má velta fyrir sér ef ég væri að flytja ræðu í afmælishófi Davíðs Oddssonar, eða á sambærilegum vettvangi þar sem menn eru ekki að bögga fólk með of miklum sannleika.
En málið er að ég er ekkert að fjalla um Davið Oddsson, ég er að fjalla um rökhugsun prófessors sem er ekki brúkleg. Ekkert af því að hann skrifi áróðurspistil, ekkert af því að lítil sanngirni sé gagnvart þeim aðila sem hann ætlar að ná höggi á. Ekkert af því að fullyrðingar séu hæpnar og svo framvegis.+
En það er algjörlega óeðlilegt að taka eðlilegt hlutverk ákveðinnar stofnunar úr samhengi, láta líta út fyrir að gjörðir hennar sé á einhvern hátt óeðlilegar, og klína því síðan á einn mann, jafnvel þó sá maður sé pólitískur andstæðingur þinn.
Og nota þessa framsetningu til að ýta undir múgæsingu.
Um þetta fjallar pistillinn og að þjóðfélagið skuli láta prófessorinn komast upp með þetta.
Síljúgandi fræðimenn eru ógn við lýðræðið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 18.10.2012 kl. 08:53
Ég skil ekki þessa áráttu hjá manninum gagnvart Davíð Oddssyni, held hann ætti að vera einbeita sér að núverandi stjórnmálamönnum, ekki þeim sem hættir eru.
Halldór Björgvin Jóhannsson, 18.10.2012 kl. 09:47
Það varð að koma Sjálfstæðisflokknum frá á sínum tíma og til þess að fá ástæðu fyrir brotthlaupinu var upphlaupið og skrílslætin við Alþingi sett á svið. Því upphlaupi var stjórnað af innanbúðarfólki í VG og Samfylkingunni af flokksskrifsstofunum. Mindir eru til af þessu. Það var bankafólk Samfó sem óttaðist um sinn hag ef til uppgjörs kæmi og það sæti ekki áfram við katlana.
Guðni Ágústsson skírði frá því í Útvarpi að straks eftir hrun bankanna hefði verið bankað á hanns dyr af miklum ákafa um stjórnarmindum, en það sem honum fannst skrítið var að þetta voru ekki pólitíkusar, heldur bankafólk úr Samfylkingunni.
Það vantar svo alltaf í umræðuna um Seðlabankann hver ákveður peningamálastefnu bankans og hvaða lögum stjórnendum bankans ber að fylgja. Peningamálastefnu bankans ákveður nefnd skipuð af Alþingi. Formaður þeirrar nefndar lengst af hefur verið sá maður er Jóhanna skipað svo Seðlabankastjóra, eftir hún vék Davíð ,í þeim tilgangi að hennar sögn að breita um stefnu í peningamálum.
Síðdegismóri (IP-tala skráð) 18.10.2012 kl. 09:58
Ómar:
Ekki ætla ég að mæra Stefán Ólafsson vegna þessarar greinar hans sem þú vísar til, en mér finnst þú gera lítið úr þætti Davíðs í atburðum þessa tíma.
Við skulum halda því til haga í umfjölluninni að Davíð Oddsson var ekki bara einn af þremur seðlabankastjórum, heldur var HANN formaður bankastjórnar og talsmaður bankans út á við, nokkurs konar aðalbankastjóri. HANN tók við því embætti í upphafi síns ferils hjá Seðlabankanum þegar Birgir Ísleifur Gunnarsson hætti. (Sjálfstæðisflokkurinn „átti“ jú þetta embætti.) Það er síðan bankastjórnin sem tekur allar ákvarðanir og ber ábyrgð á aðgerðum bankans, ekki undirmenn eins og hagfræðingar eða aðrar undirlægjur, og þar var Davíð í lykilhlutverki sem formaður bankastjórnar.
Og við skulum ekki gleyma því, að allt frá árinu 1986, hið minnsta, var yfirstjórn Seðlabankans í höndum forsætisráðherra og bankaráðs Seðlabankans. Og hver var forsætisráðherra í 13 ár samfleytt á árunum 1991-2004? Davíð Oddsson!
Þannig að Davíð Oddsson kom beint að stjórn Seðlabankans meira og minna í tæp 18 ár, eða frá 30.apríl 1991 til febrúarloka 2009, að undanskildu einu samfelldu 13 mánaða tímabili frá 15. september 2004 til 27 . október 2005 þegar hann var utanríkisráðherra og beið svo í 3 vikur eftir að taka við Seðlabankanum.
Það er ekkert skrýtið að fólk líti til HANS ábyrgðar á því sem gerðist árið 2008 því HANN hefur persónugert sig sem manninn sem vissi í hvað stefndi áður en það gerðist. HANN var auk þess stefnumótandi í íslensku samfélagi frá 1991. HANN stýrði landinu þegar ákveðið var að 1) fleyta genginu árið 2001, eftir fastgengisstefnu frá 1989 og 2) byggja Kárahnjúkavirkjun, framkvæmd sem samþykkt var í ríkisstjórn vegna byggingar álversins í Reyðarfirði, og er ein stærsta rót vandans sem við búum við í dag.
Ég nefni ekki önnur atrið, t.a.m. EES-samninginn því það var aðallega baráttumál Jóns Baldvins, þó Davíð hafi samþykkt samninginn á endanum. HANN átti því stóran þátt í að búa til það umhverfi sem við búum við á Íslandi í dag; umhverfi sem kallaði á þrautavörulánveitingar Seðlabankans árið 2008.
Davíð sagði líka að HANN hefði vitað í mars 2008 að bankarnir myndu falla, en ekki að Seðlabankinn hefði vitað það.
Erlingur Alfreð Jónsson, 18.10.2012 kl. 11:50
Blessaður Erlingur.
Ég er ekkert að gera lítið eða mikið úr þætti Davíðs., ég er einfaldlega að benda á þá staðreynd að Davíð Oddsson hafði ekkert með þá ákvörðun bankans að útvega fjármálakerfinu lausafé, hvorki hér á Íslandi eða öðrum löndum.
Þetta er einfaldlega staðreynd og kemur skoðunum mínum á Davíði Oddssyni eða því hvað gerðist í aðdraganda hrunsins ekkert við.
Ég hef til dæmis ítrekað bent á að það eru tvær meginástæður þess að allt hrundi sem hrunið gat, önnur má strax rekja til innleiðingu EES samningsins þar sem afglapareglur ESB um frjálst flæði fjármagns voru teknar upp. Þær einar og sér fær mann alvarlega efast um hvort eitthvað heilabú sé til staðar í ráðandi hagfræðingum Vesturlanda, en það þarf ekki mikla dómgreind til að vita að það er aldrei hægt að flytja meiri verðmæti yfir landamæri, en menn eiga og eru gjaldgeng í því landi sem menn flytja hið frjálsa fjármagn í. Gull, erlendur gjaldeyrir, sem allt eru stærðir sem ráðast af utanríkisverslun þjóða, takamarka flæðið, það er ekki hægt að flytja meira yfir en menn eiga til.
Lögmál sem ekki er hægt að fara framhjá og menn sjá afleiðingar þess í dag í Evrópu þegar menn reyndu að framfylgja forheimskunni.
Hinn skýringarþátturinn á hruninu er almennur afglapaháttur ráðamanna, og þú týnir ágætlega nokkur dæmi þar um.
Davíð Oddsson ber sína ábyrgð, bæði á innleiðingu EES samningsins og hinum almenna afglapahætti, en Stefán Ólafsson er ekki að fjalla um það.
Heldur fer hann með staðlausa heimsku sem er honum algjörlega til minnkunar, nema menn telji að hann hafi ekki neitt sem geti minnkað.
Hinsvegar Erlingur má þjóðin ekki gleyma því að það var ekki sjálfgefið að neyðarlögin voru sett á þann hátt sem gert var. Sterk öfl innan ríkisstjórnarinnar vildu hlýða ESB og taka yfir skuldir bankanna. Þáttur Davíðs Oddssonar í að hindra þau ósköp var mikill og það ber honum að þakka fyrir.
Sem ég get þó ég sé eindreginn andstæðingur þess frjálshyggjudekurs sem fylgt hefur stjórnmálaferli hans, og að það hefur ekki hvarflað að mér eina einustu sekúnda að kjósa hann eða flokk hans.
En ég byggi skoðanir mínar á staðreyndum, ekki bábiljum, og get viðurkennt það sem rétt er. Jafnvel það sem snýr að pólitískum andstæðingum mínum.
Og að lokum Erlingur, það er mikið grín gert af þeirri fullyrðingu Davíðs, sem hann getur sýnt fram á með fundagerðum að sé rétt, að hann hafi séð fyrir fall bankana þegar í ársbyrjun 2008. Hvað skýrir að neyðarlögin voru samin í Seðlabankanum vorið 2008???? Hefðu menn gert það ef menn hefðu haldið að allt væri í lagi???
Spáðu í það.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 18.10.2012 kl. 12:41
Sæll Ómar,
og takk fyrir prýðilega samantekt, sem ég tek undir að mörgu leyti. Það sem mér hefur ofboðið mest er hvernig prófessorinn kynnir sig til sögunnar; þ.e. að hann telur sig óháðan ... já, og óflokksbundinn! Ekki má minna vera. Að vísu vita flestir að hann hefur tengsl yfir í Samfylkinguna og vinstri væng stjórnmálanna. Hann telur sig þó geta komið fram í fjölmiðlum sem óháður og hlutlaus álitsgjafi. Enn eitt dæmið um sjálfbyrgingshátt jafnaðarmanna, vandlega stutt af sumum fjölmiðlum.
Ólafur Als, 18.10.2012 kl. 13:02
Blessaður Halldór.
Davíð er mýta sem pólitískir lýðskrumarar gera út á. Eigum við ekki að kalla það lærdóm þeirra eftir ICEsave slagina, að sleppa allri rökræðu um þjóðmál, og keyra á svona mýtur.
Virðist duga vel, órökin vaða uppi kringum þessar stjórnalagaráðsskoðanakönnunarkosningar, og öll fljót áróðursins renna til sægreifa og Davíðs.
En fræðimaður getur ekki leyft sér svona vinubrögð, þau fylgja honum þegar hann sinnir fræðum sínum og birtir einhverjar niðurstöður rannsókna sinna.
Fyrsta spurning verður alltaf, ertu að ljúga???
Og það er illt því fræði er nauðsynleg.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 18.10.2012 kl. 13:25
Blessaður Síðdegismóri.
Það er tvennt, líttu þér nær þegar þú talar um bankafólk Samfylkingarinnar. Ítök þess voru ekki síðri hjá Sjálfstæðisflokknum.
Og útskipting Sjálfstæðisflokksins var ákveðin í kjölfar hins fræga landsfundar í ársbyrjun 2009, þegar Davíð mætti og kvað Evróputillöguna í kútinn.
Og hvar eru Evrópuöflin sterkust??? Er það ekki hjá atvinnurekendavaldinu???
Annað, peningamálastefna er allt önnur ella en sú frumskylda seðlabanka að styðja við fjármálakerfið. Vissulega mótaði Már hana en Már var ekki starfsmaður bankans þegar Davíð var þar skrauthúfa, Davíð ber fulla ábyrgð á peningamálastefnunni og miðað við mörg ummæli hans í Reykjavíkurbréfum þá virðist hann ekki ennþá vera búinn að átta sig hve heimskuleg hún var, og er.
En hann réði engu, hann gat aðeins fylgt straumnum, eða allt þar til fármálakerfið riðaði til falls. Þá steig stjórnmálamaðurinn Davíð Oddsson fram, og ef það er einhver einn sem á þakkir skyldar að Ísland fór ekki til helvítis með bönkunum, þá er það Davíð Oddsson.
Faktur sem þeir aðeins rífast um sem hafa gaman að rífast um fakta.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 18.10.2012 kl. 13:33
Blessaður Ólafur.
Stefán gjaldfellur bæði sjálfan sig og háskólann með svona vinnubrögðum. Ef menn vilja vera í pólitík, og eru í pólitík, þá eru menn í pólitík, en bera ekki á herðum sér kápu fræðimennskunnar.
Og ég skil ekki að háskólinn skuli líða Stefáni þetta.
Ekki nema háskólarektor telji að hann stjórni Strumpaskóla.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 18.10.2012 kl. 13:38
Mér dettur nú annar "próffesor" í hug þegar rætt er um fífl.
Sá stendur væntanlega þér nær í stjórnmálaskoðunum..
hilmar jónsson, 18.10.2012 kl. 14:14
Þú tekur bara Geir Jón á þetta Hilmar minn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 18.10.2012 kl. 14:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.