2.9.2012 | 17:34
Öld fallega fólksins.
Tuttugasta og fyrsta öldin er öld fallega fólksins.
Öldin sem það nær til að sameinast og hrekja út í tómið alla ofríkismennina (búllana) sem hafa sóðað út og traðkað á lífinu frá því að elstu menn muna.
Í árdaga lífsins voru búllarnir í spennitreyjum þess tíma, ef þeir héldu ekki friðinn þá voru þeir hraktir frá samfélaginu, sem útlagar, skógargangsmenn, og þeim var engin miskunn sýnd ef þeir komu aftur og létu ekki af óeðli sínu, að sundra, að hrifsa, stofna til deilna, að efna til ófriðar eða annað sem samfélögum fólks stóð ógn af í hinni erfiðu lífsbaráttu að afla fæðu sem dugði til að nýtt líf kæmist á legg.
Þá þekkti fólk sína frumskyldu, að það ætti líf sem þyrfti að vernda, og að því bæri sjálfu að vernda það. Enda var þetta fyrir daga LandCruiserins.
Við vitum þetta vegna þess að í fyrstu búsetarlögum fólks sem kenna má við þéttibýli, er ekki að finna brunarústir eða annað sem benda til styrjalda. Eina lagskiptingin í samfélögum tengjast líka trúariðkun, ekki veraldlegu valdi höfðingja.
Svo gerðist eitthvað fyrir nokkur þúsundum árum síðan, að úti um allan heim finnast brunaleifar, rústir, og ummerki sem benda til rána, ofbeldis, og annað sem fylgir hegðun ofríkismanna sem er fyrirmunað að lifa í sátt og samlyndi við náunga sinn.
Aldir ofríkis og kúgunar, rána og ofbeldis, arðráns og þrælkunar fylgdu í kjölfarið, í um 6.000 ár.
Sexþúsund ár er ekki langur tími í sögu mannsins, en þar sem þessi raunasaga nær til nútímans og ógnar öllu lífi í dag, þá hefur sú sögn komist í loftið að mannkynið eigi enga von, að eðliseiginleikar ofríkismanna séu eðliseiginleikar mannsins. En að óeðli sé eðli er sama öfugmælið og að ljótleiki sé fagur, að hvítt sé svart eða að sérhyggja, siðleysi, arðrán og kúgun sé drifkraftur frjálsra viðskipta, þeirra sem við kennum við markaðshagkerfi.
Manneskjan er í eðli sínu góð, falleg því það er forsenda þess að hún nenni að sinna ungviði sínu þann langa tíma sem það er að komast á legg.
Það liggur engin trú á bak við þessa fullyrðing, þetta er bláköld staðreynd sköpunarinnar sem aðeins sá sem hag hefur af ofríki og yfirgangi reynir að véfengja, ekki vegna þess að hann er svona heimskur, heldur að hann hefur hagsmuni af því að telja fólki í trú um að heimurinn sé jafnrotinn og hann sjálfur.
Að ljótleikinn sem er bein afleiðing yfirráða þeirra yfir valdakerfi heimsins, sé ekki þeirra verk, heldur eitt af lögmálunum, lögmálum sköpunarinnar, sem kveða þá á um að ljótt sé fallegt, auðn sé líf, að siðlaus græðgi sé góð, að þú eigir ekki að gæta bróður þíns, að maðurinn sé í eðli sínu ljótur, illgjarn búlli sem engu eirir í taumlausri þrá sinni eftir auð og völdum.
Að þeir séu maðurinn.
Að sköpunin sé í eðli sínu ill og lífið hafi aðeins verið skapað til þess að það eyddi sjálfu sér endanlega, núna á 21. öldinni, öldinni þar sem maðurinn mun kveða upp sinn skapadóm.
Því miður hefur ofríkismaðurinn rétt fyrir sér að einu leiti.
Hann heldur á fjöreggi lífsins í hendi sér.
Hann ræður valdakerfum heimsins, ríkisstjórnum, stórfyrirtækjum, fjölmiðlum, akademíunni og trúarbrögð hans, trúin á illskuna, Nýfrjálshyggjan er ráðandi hugmyndafræði Vesturlanda og hefur tekist hið ómögulega, að láta velmegun Vesturlanda byggjast á þrælabúðum í anda Rómverja hina fornu.
Afleiðingin af kúguninni og arðráninu, misskiptingunni og ofurauðnum er sundrung og átök, sem stigmagnast og að lokum verða óviðráðanleg.
Útaf fyrir sig næg ógn en bætum við hinni óendanlegri heimsku, að aftengja mannsvitið með mítunni um óskeikleika hinnar dauðu handar markaðarins, sem beinir kröftum mannkyns frá raunverulegum ógnum í eitthvað hjóm og sýnd sem markaðurinn græðir á en maðurinn sýpur seiðið af.
Umhverfisváin er hundsuð vegna hagsmuna örfárra stórfyrirtækja, lyfjaiðnaðurinn eltist við megrunarlyf á meðan pensilínið er að gefa eftir í baráttunni við ofurbakteríuna.
Þetta er svo innilega heimskt, svo innilega heimskt, að sjálf lífshvötin skuli hafa látið undan í því tilbúna þægindalífi sem fölsk velmegun græðginnar skóp okkur hinum útvöldu á Vesturlöndum, að á því eru engar skýringar, nema sjálf sjálfsblekkingin eða jafnvel Tómið, að hugsun okkar hafi verið aftengd á ákveðnum tímapunkti í eltingarleik okkar við stærri leiktól og tæki, að okkur sé fyrirmunað að sjá eldhólfið framundan sem færiband Nýfrjálshyggjunnar leiðir okkur að, eða við höldum að við séum reirð á slíkt færiband og getum okkur ekki hrært, þegar raunin er sú að við erum þar sjálfviljug, að við höfum frjálsan vilja og frjálst val, og getum hvenær sem er risið upp og hafið okkar eigin lífsgöngu til farmtíðar og raunverulegrar velmegunar sem er sjálfbær og varanleg.
Svo heimskt að þessu er farið líkt og um nýju föt keisarans, þar sem þurfti aðeins saklaust barn til að benda á hið augljósa, að keisarinn var nakinn, að það þarf aðeins upprisu fallega fólksins til að hnekkja hugmyndafræðina sem valdið óf um hugmyndaheim okkar.
Upprisu sem segir, óeðli er óeðli, ljótleiki er ljótleiki, heimurinn er fagur, og við erum í eðli okkar góð.
Og bæta svo við, mikið erum við orðin þreytt á þessu sífellda böggi ykkar búllar, við líðum ykkur ekki lengur eineltið, yfirganginn, ofríkið, það eru þið sem eruð sjúkir, það eruð þið sem skemmið út frá ykkur, en við erum ekki lengur þolendur, við segjum hingað og ekki lengra.
Þrátt fyrir öll ykkar völd, öll ykkar auðæfi, alla ykkar þjóna, þrátt fyrir að hefðin, eins og við þekkjum hana sé ykkar megin, þá munið þið í gras lúta, því við erum fallega fólkið, við erum lífið, framtíðin er okkar.
Eftir 6.000 ára kúgun og ofríki þá er ykkar tími liðinn.
Öld fallega fólksins er runnin upp.
Eitthvað sem er augljóst að mun gerast ef börnin okkar eigi að eiga minnsta von um framtíð sem ekki er mörkuð stríðum og átökum, umhverfisváa eða glíma við afleiðinga mannlegra afglapa eins og að hleypa lítt rannsökuðuðum erfðabreyttum lífverum útí umhverfið án þess að menn hafi nokkra hugmynd um hvernig lífkerfið bregst við.
Það eru svo mörg Hvað ef dæmi í gangi (sjá pistil með sama heiti) sem er ósvarað og öll óvissan lendir á lífi barna okkar og barnabarna.
Við sem eigum líf sem þarf að vernda, erum ekki svo firrt að við hundsum raunveruleikann endalaust og látum örfáa siðblindingja leika sér með fjöregg lífsins.
Og fallega fólkið mun hafa forgang um hina nauðsynlega hreyfingu, Hreyfingu lífsins, sem mun vernda framtíð barna okkar eins og hægt er gagnvart þeim ógnum og váum sem við blasa.
Svo augljóst að það þarf ekki einu sinni að ræða það.
Eina spurningin sem kannski er ósvarað fyrir lesanda þessa pistils er hvað er nákvæmlega þetta fallega fólk???, þekkjum við það????
Svarið er margslungið og eins og allir vita hefur það lítt með ytri fegurð að gera heldur hina innri.
Innri fegurð sem býr í okkur öllum þó okkur gangi misvel að sýna hana.
En hún skín alltaf einhvers staðar hjá einhverjum.
Hún er eins og stjörnur á himninum, þær lýsa vel í náttmyrkri en sjást lítt þegar sólarljós gætir.
Eins er það með mannlífið þegar vel gengur, velmegun, friður, öryggi, fólki líður vel og allir njóta sín. Þá er birta yfir samfélaginu, flestir geisla á einhvern hátt.
En á erfiðleikatímum, tímum vonleysis og uppgjafar, líkt og var hér eftir Hrun, þá er það fallega fólkið sem lýsir upp myrkrið.
Sjáum til dæmis heilbrigðiskerfið okkar sem er að tærast upp innan frá því sjúkt fólk sem stjórnar landinu vill frekar borga dauðu fjármagni tugþúsunda milljarða í óþarfa vexti á hverju ári í stað þess að hlúa að innviðum samfélagsins sem er grunnforsenda velmegunar til lengri tíma litið. Samt notar fólk sem þarf á heilbrigðiskerfinu að halda, orð eins og umhyggja, nærgætni, alúð, þegar það lýsir upplifun sinni af starfsfólkinu.
Heilbrigðiskerfið okkar er nefnilega hlaðið góðu fólki.
Eða hvernig líður börnunum okkar á leikskólunum??? Koma þau ekki brosandi heim????
Svona er þetta um allt þjóðfélagið, ef við göngum um með opinn og jákvæðan hug, þá sjáum við fallega fólkið um allt.
Við sjáum það syngja óð til lífsins með atferli sínu og framgöngu, fegurð þess og innileiki er mótvægið við doða kreppunnar eða það myrkur vonleysisins sem hrjáir marga sem lentu illa út úr þeim mannlegum hamförum sem við kennum við Hrunið haustið 2008.
Aðeins á einu sviði þjóðfélagsins hefur fallega fólkið haldið sig til hlés.
Í stjórnmálunum, þar lætur það búllana ráða öllu.
Vissulega er mikið af fallegu fólki í öllum flokkum. En það lítur stjórn búllana eða sjúklingana sem sömdu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um skuldaánauð barna okkar og eyðingu innviða samfélagsins í þágu erlendra kröfuhafa og innlends fjármagns valda og auðs.
Tími þess er reyndar núna, það fær að tjá sig um allt það góða og fallega sem það ætlar að gera ef þeirra flokkur fær fylgi til að stjórna landinu. Það eru jú að koma kosningar.
En orð þeirra eru jafn marklaus og tilgangslítil eins og hjá fólki sem ræðir um nýjar innréttingar eða nýjan stíl í húsi sem er að hruni kominn vegna þess að termítar hafa nagað grunnstoðirnar inn að kjarna og aðeins hrun hússins blasir við.
Hið dauða fjármagn stjórnar landinu og það eirir engum.
Það þarf grundvallarbyltingu, það þarf að hreinsa út termínatana áður en hægt er að breyta og bæta, það þarf samstöðu fallega fólksins í öllum flokkum, um nýja hugsun, um nýja aðferðarfræði, um skýlausa kröfu um siðaða hegðun siðaðs fólks í siðuðu samfélagi.
Seinna er of seint. Búllana þarf að hrekja í útlegð áður en þeir valda óbætanlegu skaða á samfélaginu.
Fallega fólkið sem tekur framtíð barna sinna fram yfir sína eigin hagsmuni, það mun rísa upp, það þarf að rísa upp.
Það þarf að skynja hina sögulega stund í sögu mannsins.
Að tími þess er kominn, að framtíðin er þeirra.
Þessi skynjun kemur innan frá, hún er til staðar. Það þarf aðeins að hlusta, að gefa kraftinum og styrknum tækifæri að blómstra.
Þannig verða búllarnir hraktir frá völdum.
Þannig líkur eineltinu og yfirganginum.
Og við tekur öld fallega fólksins, öldin sem kennd er við okkur öll.
Lífið sjálft, fegurð þess í öllu sínu veldi.
Fegurð sem við köllum Framtíð barna okkar.
Við eigum öll líf sem þarf að vernda.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:40 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.1.): 12
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 1664
- Frá upphafi: 1412778
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 1483
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Jæja, þá er síðasti pistillinn frá í þessari triológíu minni sem hófst með pistlinum, Tími strútsins er liðinn.
Efni þessara pistla skýrir sig sjálft, þeir eru ákall til hins venjulega manns að hætta að spila með vitleysunni og rísa upp, að taka örlög sín í eigin hendur.
Minni á hliðarblogg mitt um Hreyfingu lífsins, sem einnig er hýst hér á Moggablogginu. Þar eru nokkrir grunnpistlar ásamt stuttlegum útlistunum á nokkrum grunnhugtökum Byltingar lífsins.
Slóðin er þessi. http://hreyfinglifsins.blog.is/blog/hreyfinglifsins/
Og hér er linkur á Hvað ef pistil minn sem reyndi að taka á þeirri hugsun, að tilvera okkar gæti ekki verið komin undir Ef-um sem enginn réði við ef illa færi. Tilefnið var hið hörmulega slys í Japan í kjölfar flóðbylgjunnar.
"Hvað ef" er að gerast í Japan.
Meira var það ekki að sinni, takk fyrir mig.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.9.2012 kl. 17:42
Mozilla mín vill ekki feitletra linkinn á Hreyfingu lífsins.
En hér er linkur á síðasa pistilinn, um Aðferðafræði lífsins. Þar með er kominn linkur á bloggið með einu klikki.
Fjórða færsla. Aðferðafræði lífsins.
Ómar Geirsson, 2.9.2012 kl. 17:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.