Samstaða um lífið.

 

Í henni er eina von þess lífs sem við þurfum að vernda.

 

Lítum yfir sviðið, fellum öll leiktjöld blekkingar og sýndar, og skoðum sjálf hvað er að gerast, og hvað mun gerast fái öfl tregðu og tortímingar að hafa sinn gang.

 

Á Íslandi erum við með stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka sem sömdu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um skuldaánauð barna okkar um ókomna tíð.  Greiðslubyrði ríkissjóðs vegna vaxta og afborgana átti að vera um 60%, strax og hefði farið mjög fljótlega yfir 70% þegar neikvæð áhrif slíkrar blóðtöku á hagkerfið hefðu komið fram. 

Sagan kann aðeins 2 dæmi um hraklegri nauðsamninga, þegar AGS tók Argentínu á lífi um síðustu aldamót og þegar Rómverjar ætluðu að knésetja Karþagó eftir seinna Púnverska stríðið.  Sagan kallar ekki allt ömmu sína en svona dæmi á hún fá, það eru takmörk fyrir hvað jafnvel hinir svívirðulegustu einvaldar hafa treyst sér til að leggja á þjóðir sínar. 

En ekki íslensku stjórnmálamönnum, þeir seldu börn okkar án þess að blikna.  Hvort sem rótin var illmennska, aumingjaskapur eða hrein og klár heimska, skiptir engu máli.  Þeir gerðu þetta, þeir skrifuðu undir nauðasamninginn, þeir brutu allar brýr við siðað samfélag. 

Samningurinn gekk ekki eftir vegna andstöðu þjóðarinnar í ICEsave, vegna hennar var beðið með að evruskuldvæða sýndarkrónurnar í eigu meintra erlendra krónubraskara.  Í stað þess var  sýndarkrónan látin bólgna út með hæstu vöxtum á byggðu bóli, allt að kröfu AGS.  Nokkurhundruð milljarðar eru orðnir að 1001 milljarði, og hækka eftir því sem lengur er beðið með að takast á við vandann.  

Og það er aðeins beðið eftir rétta tækifærinu.

 

Réttlæti var ekki leiðarstefið í uppgjöri skulda eftir Hrun.  Þeir sem áttu og réðu, þeir fengu sitt meira og minna á bónuskjörum en almenningur, sá hluti hans sem gat, var látinn greiða uppí topp.  Hinum var vísað á guð og gaddinn.  "Viltu í nefið, viltu í nefið vinur minn" sem Valgeir söng um uppboð og útburð í byrjun 20 aldar, var líka sungið í byrjun þeirrar 21..  Lengra hafði réttlætið ekki náð í 100 ár, börn og mæður voru ennþá borin út ef heimilið gat ekki staðið í skilum á lánum sínum.  

Svínin ráða för.  Við lifum ennþá í þjóðfélagi Dickens um skuldaánauð og skuldafangelsi.  

Fámenn klíka auðs og valda flaut ofaná eftir holskeflu Hrunsins, almenningur var rændur.

 

Óréttlæti er ekki hornsteinn siðaðs þjóðfélags, óréttlæti er bautasteinn þess.

 

Og ástandið á aðeins eftir að versna.  Gengið er ekki sjálfbært, viðskiptajöfnuðurinn er í mínus, þrátt fyrir gjaldeyrishöftin.  Á einhverjum tímapunkti leita eignir erlendra kröfuhafa úr landi og þá lækkar gengið, með tilheyrandi hækkun skulda vegna verðtryggingarinnar.

Sama gerist þegar viðskiptakjör versna vegna kreppunnar á Vesturlöndum, sama gerist þegar laun hækka, sama gerist þegar matvæli hækka í verði vegna uppskerubrests, allt virðist eiga endastöð í lánum fólks, þau hækka, þau hækka, þau hækka.

Sem þýðir enn og aftur að fólk þarf að semja um skuldir sínar, eigið fé, ef það er til staðar, hverfur í hítina, hringekjan endalausa sér til þess að þorri fólks mun aldrei eignast neitt. 

Hvernig þjóðfélag er það sem reiknar alltaf venjulegt fólk í mínus???? En þeir  ríku og voldugu hafa alltaf sitt á þurru, verða alltaf ríkari og voldugri eftir hvern skell almennings.

Það er ekki siðað þjóðfélag, það er ekki mennskt.

 

En þetta er þjóðfélagið sem við viljum, þjóðfélagið sem við ætlum að kjósa yfir okkur.  

Í Argentínu reis fólkið upp, rak leppa AGS frá völdum og hóf endurreisn landsins.  

Karþagómenn borguðu Rómverjum í þeirri von að endurreisa styrk sinn og reisn, ekki til að verða þrælar þeirra um aldur og eilífð.  

Við hinsvegar blekkjum sjálf okkur með því að halda að vandinn hverfi ef við bara pössum okkur á einu, að hugsa hvorki eða tala um hann.

Við erum eins og maðurinn sem fór út á sjó í lognmollunni sem ríkir í miðju fellibylsins.  Það þarf ekki að taka fram að til hans hefur ekki spurst síðan.

 

Það þarf heldur ekki að taka fram að við fáum ekki annað tækifæri sem þjóð ef við vöknum ekki og verjum samfélag okkar.  

Ef við gerum ekki það sem þarf að gera, sameinumst og náum saman um að verja framtíð barna okkar.  

 

Í dag er margt hugsjónafólk á  flokksfundi þar sem hróp sjálfsblekkingarinnar er að velferðin hafi verið varin.  Og nú blasi framtíðin við björt og bein. 

Fljótlega mun annar flokkur funda þar sem hugsjónafólk verður huggað með staðfestunni um að aðlaga landið að Evrópusambandinu.  

Síðan mun stóri flokkurinn funda með grasrót sinni og blása henni eldmóð í brjósti um að sigur hans sé handan hornsins og þá muni allt lagast með niðurskurði og lækkun skatta.  Niðurskurðurinn reyndar öruggur en lækkun skatta á öðrum en stóreignafólki ólíkleg.

Í öllum þessum flokkum verður talað um eitthvað fallegt og gott sem þeir munu gera ef þeir verða kosnir.  Og hugsjónafólk innan þeirra, fólkið sem vill landinu vel, mun hrífast með.  Því mánuðurnir fyrir kosningar er þeirra tími, tíminn þar sem rödd þess heyrist.

En það mun engu breyta því það er innan valdsins og á ekkert val en það að hlýða þeim sem sömdu um skuldaánauð barna okkar í þágu 1001 milljarðs.

Ljótleikinn mun blasa við eftir kosningar.

 

Fólk mun samt kjósa þennan ljótleika yfir sig, alla vega eins og staðan er í dag.

Andófið gegn fjórflokknum hefur ekki náð að móta valkost.

Það er ótaktískt og í hreinskilni sagt heimskt. 

 

Eða hvernig á að túlka áherslu þess á nýja stjórnarskrá eða þjóðnýtingu kvótans????  Að velja mál sundrungar þegar það þarf svo mjög á að halda að ná samhljóman við hinn þögla meirihluta þjóðarinnar sem þráir valkost en mun aldrei kjósa rugl.  Til þess eins að tryggja að valdinu verði ekki ógnað.  Að skuldaánauðin gangi eftir.

Að ekki sé minnst ógrátandi á sundrunguna, öll flokksbrotin sem mynda aðeins eitt óskiljanlegt gjamm í eyrum venjulegs fólks.  Eins og það sé nóg að segja eitthvað til að það gerist.  Þess vegna er rifist um það sem er sagt og þar með tryggt að ekkert sé gert.

 

Síðasta dæmið um hina algjöra ógæfu Andófsins er afsögn Lilju Mósesdóttur vegna einhvers sýndartaps á fylgi Samstöðu.   Fylgi er mælt í kosningum, ekki skoðanakönnunum.  Fylgi er afleiðing stefnu og trúverðugleika, trúverðugleika sem Lilja gaf Samstöðu.  Trúverðugleika meðal almennings sem hún ein hefur af öllu því góða fólki sem berst gegn óhæfu valdsins að ætla sér að skuldaþrælka börnin okkar um ókomna tíð. 

Trúðverðugleika  sem Lilja ávann sér með því að þora rísa upp gegn valdinu, eitthvað sem engin önnur persóna innan þess hefur þorað eða gert.  Og vegna þess að hún er sjálfum sér samkvæm í einörðum málflutningi sínum í þágu heimila landsins og í þágu framtíðar barna okkar.

Staðreynd, raunveruleiki sem Sýndin bar ofurliði.

 

Sýndin, röflið, tuðið.

Það þarf ákaflega  mikla grunnhyggni til að halda að röfl og tuð muni ná til að fella valdið. 

Samt eru ákaflega margir í hópi Andófsins fastir í hjólfari hennar og það hjólfar tætir upp velli Samstöðunnar svo valdið þarf ekkert að óttast.

Liljur vallarins eru þagnaðar.

Ljótleikinn blasir við.

 

Og fórnarlambið er lífið sem við sórum að vernda.

Manndómur okkar er ekki meiri en það.

Við kjósum að loka augum og sjá ekki það sem er.

 

Að eina von þjóðarinnar, að eina von barna okkar felst í Samstöðu um lífið.

Að allt þetta góða fólk sem er innan fjórflokksins og utan, að það nái að sameinast í staðfastri vörn fyrir framtíð barna okkar.

Að það víki egóinu til hliðar og átti sig á að það er fullorðið fólk með aðeins eina skyldu.

Að tryggja viðgang lífsins þegar að því er sótt.

 

Að fólk sameinist um það sem það getur sameinast um og láti hitt liggja milli hluta.

Að það sameinist um staðfasta vörn gegn skuldaánauðinni, að það sameinist um réttlæti handa almenningi, að það sameinist um Sýn á nýtt og betra Ísland.

 

Nýtt og betra Ísland er einfaldlega landið sem við viljum ala börn okkar uppí án átaka og sundrungar.

Forsenda þess er réttlæti, sanngirni og að allir fái sitt tækifæri til mannsæmandi lífs.  

Að það sé þjóðfélag mannúðar og mennsku.  

Þjóðfélag sem bregst við kreppum og efnahagserfiðleikum með það skýra markmið að leiðarljósi að enginn farist vegna þess sem gerst hefur, að öllum sé hjálpað af þeim mætti sem þjóðin býr yfir á hverjum tíma.

Að eitt sé yfir alla látið ganga, að við séum eitt, að við séum ein fjölskylda.

Að þjóðfélag okkar sé fallegt og gott.

Eins og við erum öll.

 

Draumsýn??

Já, en eina von barna okkar  er að við látum þessa draumsýn rætast.

Í dag er enginn annar valkostur.  

 

Við verðum að reyna.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Jæja, þá er lokagreinin í þríleiknum um Hreyfingu lífsins lokið. 

Eða réttara sagt um forsendur og ástæður.

Hvað svo er mikið til órætt, sú umræða er falin í spori tímans.  Því spori sem við köllum framtíð.

Ég ætla að leggja mitt að mörkum með því að starta sérvisku bloggi mínu um þessa Hreyfingu, um þessa Samstöðu um lífið.  Dreg þar saman lykilgreinar og tala út í loftið um það sem mig langar að tala um.

Þeim til fróðleiks sem áhuga hafa.

Næsta vika fer í þetta verkefni, svo tekur eitthvað við sem aðeins spákúlan veit.

Ekki ég, eða enginn annar sem ég þekki.

Hvað verður um þetta átakablogg mitt veit ég ekki, virkja það örugglega þegar tilefnið höfðar til mín.  

Líklegast fyrr en seinna, eða þá seinna en má vænta.

Málið er að allt tuð er komið á endamörk og það er ekkert sem blasir við í dag.

Þó Tími strútsins sé liðinn þá virðist Tími góða fólksins ekki runninn upp.

Kannski vegna þess að enginn hefur bloggað um það til að gefa tóninn.

Sem þýðir verkefni fyrir næstu viku.

Vonandi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.8.2012 kl. 16:06

2 identicon

Fín hugvekja.  Mæli með samantekt í stuttu máli, svo lesendur nenni að lesa.

Ásdís Bragadóttir (IP-tala skráð) 25.8.2012 kl. 17:04

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Ásdís.

Markhópur þessa bloggs er læst fólk og það les.

Ólæsir og þeir sem ekki nenna, þeir hafa nóg úrval úti um allt.

Hinsvegar er þessi pistill stuttur og hnitmiðaður, rökin hafa verið undbyggð um víðan völl á þessu bloggi.

Lengdin stafar af því að það er tæpt á mörgu og margt dregið saman sem leiðir til síðustu setningar þessa pistils;

"Við verðum að reyna".

Eitthvað sem allir geta sagt en fáir reyna að rökstyðja með rökum sem aðrir taka afstöðu til, hvort sem þeir samþykkja þau eða draga í efa.

Eitthvað sem þarf að gera, annars á framtíðin enga von.

Eitthvað sem aðrir þurfa að gera líka, það kallast umræða, sem er forsenda rökræðunnar sem er meginógn Tómhyggjunnar.

Sem aftur er forsenda valda vitleysinganna.

Vitleysinganna sem munu ekki hætta fyrr en þeir hafa gjöreytt lífsgrundvelli venjulegs fólks. 

Með afleiðingum sem kallast óöld og vargöld.

Og þá fyrst megum við biðja fyrir okkur.

Og vildum lesið hafa.

Sem er of seint.

Því miður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.8.2012 kl. 17:18

4 identicon

Tími strútsins er liðinn.  Við eigum líf sem þarf að vernda.  Helferðinni verður að linna.

Ekkert er einu samfélagi nauðsynlegra en að mynda samstöðu okkar allra um velferð lífsins.

Látum ekki sundra okkur, deila okkur í dilka flokkadráttanna, sem sauðum til slátrunar. 

Takk Ómar Geirsson fyrir þína frábæru pistla.  

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 25.8.2012 kl. 18:48

5 identicon

Heil rannsóknaskýsla alþingis upp á 9 bindi tiltók það, að samansúrrun valdakerfis ríkisins og stofnana þess við ofur-bankaræningja var skuggaleg, svo skuggaleg að höfundar skýslunnar voru í sjokki og biðu í nokkrar vikur með birtingu hennar

Síðan hefur valdakerfi ríkisins endur-einkavætt veldi ofur-bankaræningjanna og skuldsett almenning til þess.  Það er kallað vinstri stefna.  Fyrri einka-vina-væðingin var kennd við hægri stefnu, þá voru gömlu ríkisbankarnir rændir innan frá. 

Er nema von að almenningur spyrji til hvers það ofvaxna og samansúrraða vinstri/hægri embættismannakerfi, stjórnsýsla og stofnanir hennar eru, þegar þær gegna ekki almannahagsmunum, heldur halda áfram í blindni sinni og valdhroka?

Tekjur ríkisins, skattar og gjöld fara að allt of miklu leyti í samtryggða bakklórs yfirbyggingu valdakerfis fjórflokksins, meðan sú þjónusta sem við ættum að njóta er skorin niður í tætlur.

Mér finnst þetta td. eitt dæmi um hræsni og tvískinnung allrar valdastéttar fjórflokksins, sem sýnir glöggt við búum við vitfirrta og sjálfskammtandi valdastétt, sem er algjörlega úr tengslum við hinn óbreytta almenning og kjör hans 

Á dv.is má lesa um farsann, sem fulltrúar löggjafarvaldsins, framkvæmdavaldsins og dómsvaldsins leika nú.  Þau taka aukagreiðslur upp á að meðaltali 280 þúsund hvert á mánuði fyrir vinnu sem þó er skilgreind skv. lögum sem hluti af embættisskyldu þeirra.  Mér finnst það lýsa hörmulegri siðspillingu að taka aukalega fyrir að vinna vinnuna sína.  Eitt sinn var talað um skúffuvinnu ríkisstarfsmanna.  Hún er greilega enn við lýði, magnaðri en fyrr.

Er nema von að vantraust þjóðarinnar á löggjafarvaldinu, framkvæmdavaldinu og dómsvaldinu nálgist frostmarkið?  Sum dýrin eru jafnari en önnur.  Það eru sví ...  Farsinn um handhafana gæti heitið:

Við viljum ekki fylgja forsetanum á flugvöllinn.  Trúnaðarmál:  Jú auðvitað.

12:00 › 25. ágúst 2012
Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, eru handhafar forsetavalds í fjarveru forseta. Á árunum 2004-2009 voru mánaðarlaun hvers handhafa að meðaltali um 280 þúsund krónur ofan á aðrar tekjur.

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, eru handhafar forsetavalds í fjarveru forseta. Á árunum 2004-2009 voru mánaðarlaun hvers handhafa að meðaltali um 280 þúsund krónur ofan á aðrar tekjur. Samsett mynd

Laun handhafa forsetavalds hafa ekki verið lækkuð á kjörtímabilinu þrátt fyrir að lækkun þeirra hafi verið á dagskránni í rúmlega þrjú ár.

Tvívegis hafa frumvörp um lækkun handhafalaunanna dagað uppi á borðum forseta Alþingis við þinglok. Þó er nokkuð rík samstaða meðal þingmanna um lækkun launanna samkvæmt heimildum DV. Í júní árið 2009 lýsti Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, því yfir að afnema ætti greiðslur til handhafa forsetavalds en af því hefur ekki orðið.

Glennum upp augun. 

Látum ekki sundra okkur, deila okkur í dilka vinstri/hægri flokkadráttanna, sem sauðum til slátrunar.

Við eigum líf sem þarf að verja.  Líf okkar, barna okkar og barnabarna og framtíðar þjóðarinnar og lands ... okkar.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 25.8.2012 kl. 19:15

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vá hvað ég tek hér undir hvert orð.  Takk fyrir mig Ómar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.8.2012 kl. 21:57

7 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Já sæll Ómar og ég verð að segja að þetta var ekki langt að lesa enda eins og þú segir hnitmiðað á punktana og ég segi eins og Ásthildur, ég tek undir hvert orð hjá þér.

Að lesa þetta vakti upp margt og sammála er ég þér að eitthvað afl (rödd) þarf að koma sem talar Þjóðina saman og gefur henni trú á ágæti hennar, kjark til að breyta því sem breyta þarf og von í ljósi kærleika um að allt er hægt ef að vilji er fyrir hendi...

Kv.góð Ómar og takk fyrir þennan pistil þó svo að hann skilji eftir rót í huga mér.

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 26.8.2012 kl. 07:45

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið góða fólk.

Vissulega er órói í manni þegar maður hugsar um á hvaða svikaforsendum lognið er.  Og að venjulegt fólk skuli láta ræna sig mögnunarlaust.

Hvað skyldu margir hafa tapað eigið fé sínu eftir Hrun????

Af hverju þurfa stjórnmálamenn að ástunda lýðskrum og lygi til að ná eyrum fólks, hvað er að staðreyndum og heilbrigðri skynsemi???

Vandinn liggur hjá þjóðinni, ekki stjórnmálamönnum okkar.  

Að segja satt í dag er ávísun á prómil fylgi.  

Með aðeins einni afleiðingu fyrir þjóðina.

Og hún er ekki góð.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.8.2012 kl. 19:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 1225
  • Frá upphafi: 1412779

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1084
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband