Það er ekki oft sem kjaftask setur hljóðan.

 

En það gerðist í dag.

Gamall Norðfirðingur, Hrólfur Hraundal vélvirki skrifaði grein í Morgunblaðið um jarðgöng, og þar var margt sagt sem ég vildi sagt hafa, og hefði reynt að segja, en örugglega aldrei af þeirri snilld sem grein Hrólfs er.  

Mig langar að vitna í þessa mögnuðu grein af auðmýkt og láta orð Hrólfs eiga gangnagrein dagsins.  

 

Áður en ég það geri vil ég vitna í skynsamleg orð Oddnýjar G Harðardóttir sem bendir á kjarna skynseminnar í stórframkvæmdum í vegagerð, að 

"Framkvæmd sem þessari fylgir veruleg innspýting í hagkerfið. . Reikna má með slíkum tekjum sem hreinni viðbót nú þegar slakinn í hagkerfinu er mikill og lítilla eða engra ruðningsáhrifa gætir ".

Loksins hefur stjórnmálamaður stigið fram og orðað hugsun gegn dauðahagfræði AGS, að skera niður og gera helst ekki neitt sem meðal við samdrætti.

Hafi Oddný þökk fyrir þetta og megi hún beita sér fyrir lánsfjármögnun handa sárþjáðum verktökum svo hægt verði að fara í Norðgfjarðargöng og Dýrafjarðargöng, landsbyggðinni og þjóðinni allri til heilla.

Tekjuforsendur bæði þessara gangna, sem má ekki draga að framkvæma, er mun traustari en tekjugrunnur Vaðlaheiðargangna, þau eiga að fjármagnast af samgönguáætlun en Vaðlaheiðargöng af áhugafólki um að borga fyrir þegar greiddar samgöngur í gegnum bensín og olíugjald.

Nóg er til af atvinnulausum verktökum og þjóðin mun svo uppskera öflugra mannlíf með grósku og hagsæld sem ekki er vanþörf á á þessum síðustu og ekki of björtu tímum.

 

En gefum Hrólfi orðið, og ég hljóðna.

"Þegar sagt er að Vaðlaheiðargöng kosti engan neitt, nema kannski þá sem þar fara í gegn, þá tala þar í besta falli menn óskhyggjunnar. Þeim sem segir að sú framkvæmd tefji ekki neitt er klárlega ekki annt um sannleikann. Það á nefnilega ekkert að gerast í jarðgangamálum annars staðar á landinu, því ekki á að fjölga borgengjum. Þeir sem halda því fram að þessi göng borgi sig auðveldlega sjálf vita betur og tala því með klofinni tungu. Þeir sem sjá ekki fyrir afleiðingar þess að ganga svo freklega á hlut ystu jaðarbyggða þessa lands koma aldrei til með að skilja eða skynja neitt. Verði þessum málum svo hagað að austur og vestur geti bara nagað rætur og gengið um fjöll með broddstafi, á meðan boruð eru göt á Norðurlandi til að sprauta frjóum í annars ágætlega tengda menningu þar, þá er alveg jafn klárt og að ég heiti Hrólfur Hraundal að ef Vaðlaheiðargöng verða tekin framfyrir göng fyrir austan eða vestan mun ég aldrei kaupa þar aðgang.  ..................

Þeir sem tala svo að jaðarbyggðir geti bara beðið þar til æðstráðendur hafa þörf fyrir þær eru ljóslega þegar farnir að tileinka sér aðferðir Evrópusambandsins. Í Reykjavík vilja sérfræðingar leggja niður flugvöll, byggja brýr og grafa göng í gegnum Eskihlíðina og víðar, leggja vegi og byggja samgöngulaus sjúkrahús, allt í nafni umferðaröryggis í Reykjavík. Þessum ágætlega sérfróðu mönnum má benda á að umferðaröryggi í Reykjavík má bæta með því að efla og stækka byggðakjarna á landsbyggðinni. Með stækkun þeirra fengist pláss fyrir fleiri bíla á landsbyggðinni og ef vel tekst til þyrfti hugsanlega engan flugvöll í Reykjavík en þá ætti líka að byggja Landspítalann á Akureyri. " 

Við landsbyggðarfólk erum nefnilega líka þegnar þessa lands.

Kveðja að austan.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Ég hef verið að lesa þetta "nöldur" í þér um Vaðlaheiðargöngin.  Mig langar að benda þér á að skoða þetta, http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2937921 

Svona var umræðan um Hvalfjarðargöng á sínum tíma, nöldrið í þér minnir svolítið á þetta.  Í dag held ég að allir séu sáttir við þessa framkvæmd og ég geri ráð fyrir að þú sért það líka.

Mér finnst líka að þú mættir kynna þér svolítið betur þær staðreyndir sem liggja fyrir um þessa framkvæmd, áður en þú hraunar yfir hana og eyfirðinga, eins og þú hefur gert í fyrri pistlum þínum.

Ingvar (IP-tala skráð) 4.4.2012 kl. 13:51

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ingvar.

Hvernig dettur þér í eina mínútu í hug að ég sé móti Vaðlaheiðargöngum eða ég sé að hrauna yfir Eyfirðinga.  Ég er fullkomlega hlyntur göngunum, tel þau mikla samgöngubót og varðandi Eyfirðinga þá hef ég tröllatrú á æru þeirra og heiðarleika.

Það sem þú kallar að smekkvísi þinn hraun er einfaldlega rökstudd gagnrýni á vinnubrögðum spilltra þingmanna sem vanvirða reglur stjórnsýslunnar með sniðgöngun laga um ábyrgð ríkisins.  Gagnrýni mín beinist eingöngu af þeim og síðan hef ég aðeins bent á þau einföldu sannindi að spilling þrífist ekki nema að til sé einhver sem þiggur hinn spillta hlut.

Og ítrekað hef ég bent á að almennt gildi slíkt ekki um Eyfirðinga, kannski fullmikið fullyrt en allar heimildir sem ég hef að norðan eru í þá eina átt.  Eins í gamla daga umgekkst ég Eyfirðinga og hafði ekki nema góð kynni af réttvísi þeirra og heiðarleika.

Ég ætla þér ekki Ingvar þó þú treystir þér ekki að koma fram undir fullu nafni, að  þú sért í þeim hópi sem ert fóður fyrir spillta stjórnmálamenn og að ábending þín stafi af misskilningi.

Hvalfjarðagöng var einkaframkævmd, núverandi hugmynd um Vaðlaheiðargöng eru það ekki.

Og það kallast ekki nöldur að hafa þá rökhugsun að þekkja muninn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.4.2012 kl. 14:34

3 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Sæll Ómar !

Jahérna ! "Ingvar" er búinn að lesa þetta "Nöldur" í þér um Vaðlaheiðagöngin  ! líklega lengi og getur nú ekki lengur orða bundist.

Eitt er nú að menn séu á öndverðum meiði, alveg eða að hluta um málefnin, en þetta verður að teljast nýtt met í að lesa guðspjöllin afturábak.

Ég held ekki ekki að einusinni þeir sem eru mest á öndverðum meiði við þig í jarðgangna og samgöngumálum, hafi til að bera þennann einstaka hæfileika, að kalla baráttu þína fyrir bættum samgöngum milli byggða landsins, "Nöldur" um Vaðlaheiðargöng.

Svo Ingvar ! renndu nú snöggvast aftur yfir pistla Ómars, lestu hvað hann skrifar um þessi mál, ef þú eftir það heldur í alvöru að þetta sé "Nöldur" um Vaðlaheiðagöng, þá get allavega ekki ég hjálpað þér meir, sem er leitt, því hver og einn sem lætur sig samgöngumál varða, er kærkominn bandamaður, jafnvel þó áherslur og forgangsröð standi eitthvað í mönnum.

Eitt af því sem er "rauður" þráður hjá Ómari í pistlunum hans um NORÐFJARÐARGÖNG !! er einmitt þessi: "að bættar, öruggari og tímasparandi samgöngur eru einhver besta fjárfesting sem ein þjóð getur gert" að hann sé svo með skoðanir á forgangsröð og framþróun framkvæmda er allt annað mál, þannig á umræðan að vera, þannig fáum við tækifæri til að upplýsa hvert annað hvar forgangurinn og framkvæmdaröðin er best með tilliti til öryggis, tímasparnaðar og greiðastra samgangna, að hann meini að röðin eins og "atkvæðaveiðarinn" Steingrímur er að setja upp núna, og er rökstudd af honum á þann hátt se hann (Ómar) gerir, þá þarf meir en lítið frjótt ýmindunarafl til kalla það "Nöldur".

Ingvar ! núna er tíminn til kominn að hætta að láta ljúga að sér frá sirkusnum á Austurvelli, klisjurnar og slagorðin eru löngu úrelt, eða ættu að vera það upplýstu fólki, núna er tíminn fyrir borg og landsbyggð að standa saman og krefjast fjárfestingar í þessari arðsömu framkvæmd, arðsömu fyrir núverandi og komandi kynslóðir, sem góð og fullkomin tenging byggða landsins er, og taka þá VERSTU kaflana fyrst, ekki þar sem von er á flestum atkvæðunum í augnablikinu.

Finnið "flötinn"  félagar, flötinn sem til þarf og sameininguna til kenna þeim, eru valdir til að fara með fjöregg þjóðarinnar, hvernig á að gera þetta, ekki láta "trúðana" plata ykkur í hrepparíg og sundurleiti, þá vinna þeir enn einu sinni.

MBKV

KH 

Kristján Hilmarsson, 4.4.2012 kl. 17:13

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blesaður Kristján.

Það er ekki örgrannt að ég viti af hverju Ingvar er eitthvað pirraður.  Ég hef kannski eitthvað sáð til þess.  Þetta er ekki bara svona hugmyndafræði um göng öllum til hagsbóta, hvað þá hugmyndafræði jarðgangna almennt.  

Þetta er grímulaus barátta um næstu göng.  

Og þeir sem hafa ekki rökin með sér, þeir treysta því á tilfinningahlaðinn málflutning um að allir séu vondir við þá.  Eða allavega að ég sé vondur við þá. 

Eins og að það ætti að skipta þá nokkru máli hvað ég segi til og frá.

Ég er bara saklaus bloggari sem tjái skoðanir mínar, og engum er skylt að lesa.  Hvað þá ef menn upplifa skrif mín sem nöldur.

Þessi pistill er til dæmis ótengdur og það þarf því mikinn vilja til að þefa hann uppi og lesa.  Þetta minnir svona dálítið á konuna sem kærði nakta manninn, í húsinu á móti.  Þegar lögreglan kom til gömlu konunnar og spurði um hvaða nakta mann hún væri að tala því löggan rétt greindi í húsið á móti, hvað þá að hún sæi mann, hvorki naktann eða ónaktann.

Sérðu hann ekki sagði gamla konan, svona, kíktu og rétti lögreglumanninum öflugan sjónauka.

Vond samviska hefur oft svipuð áhrif.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.4.2012 kl. 00:19

5 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Gaman hvernig hvernig flökkusögur/brandarar breytast þó án þess að missa meininguna, þegar ég heyrði þennann fyrst, var þetta alveg eins fram að því löggan spurði "hvar ?, ég sé engann" þá dró kella fram stól, stillti honum upp við eldhúsinnréttinguna og sagði löggunni að klifra upp á stólinn, teygja sig alveg upp í vinstra efra hornið á glugganum og þá sæi hann manninn svona þegar vindurinn bærði laufið á trjánum til og frá.

Þessi með kikirinn kemur boðskapnum enn betur fram finnst mér, meðan eldri útgáfan er kannski eitthvað "skáldlegri", og þannig er með svo margt, við eigum stundum erfitt með að koma okkar hugsunum á blað þannig að allir skilji, og jafnvel þegar það tekst nú, þá velja menn að skilja það eftir eigin geðþótta.

Góða og Gleðilega Páska Ómar ! og gangi þér sem best i "gangnamennskunni"

MBKV

KH

Kristján Hilmarsson, 5.4.2012 kl. 11:48

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Göngin fá frí um helgina Kristján.

Núna verður það astralsviðið, gamalt og gott fær að fljóta út í eitt.  Það er á blogginu, í raunheimi tjöruhreinsun og bón, ryksuga og afþurrkun.  

Og síðan gleðilegir páskar.

Bið að heilsa út til Norge.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.4.2012 kl. 20:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 617
  • Sl. sólarhring: 635
  • Sl. viku: 6348
  • Frá upphafi: 1399516

Annað

  • Innlit í dag: 529
  • Innlit sl. viku: 5384
  • Gestir í dag: 484
  • IP-tölur í dag: 478

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband