Ísland var best í heimi.

 

Það var einfaldlega rétt, hvergi var betra að ala upp barn og koma til manns en í þessu landi.

Og það var ekki Hrunið sem eyðilagði þetta besta land í heimi.

Það var gert eftir Hrun.

 

Það er hvergi gott að ala upp börn þar sem AGS mótar stefnu stjórnvalda.

Þé eykst misskipting, skipulega eru innviðir samfélaga lagðir í rúst því almannafé er notað til að hlúa að fjármagni.  

Afleiðingin er sífelldar deilur og sundrung.  Jafnvel harmleikir sem þjóðfélagið hefur aldrei séð áður.

 

Vissulega gekk ekki það versta eftir, þjóðin snérist til varnar í ICEsave.  

Þegar valdaelítan sá að völd hennar voru í hættu þá frestaði hún áformum sínum að koma krónubraskaraláninu yfir á almenning, en það er aðeins gálgafrestur, það er beðið að þjóðin láti af vöku sinni. 

En þegar það verður gert þá er úti um velferð í þessu landi, aðeins afskræming þess sem var mun lifa af.

 

Ísland var best, Steingrímur sagði þetta í háði en þetta er einfaldlega satt.

Hvort Ísland verði aftur best, það er undir þjóðinni komið.

Í dag finnst henni miklu skemmtilegra að deila, og þá um þau deiluefni sem henni er skammtað af valdastétt landsins.  Þessari sem eyðilagði landið okkar.

Þjóðinni þykir miklu þægilegra að láta ljúga af sér en að þurfa vega og meta staðreyndir sem við blasa.

 

Landsdómur er skrípaleikur, það er ekkert réttlæti í skuldamálum almennings, auðmenn fengu sínar skuldir afskrifaðar þegjandi og hljóðarlaust, verðtryggingin mun gera okkur gjaldþrota, gjaldmiðlabreyting er sjónhverfing sem breytir ekki skuldastöðu landsins, Hrunverjar stjórna áfram þó Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið hvíldur, það er enginn frjáls og hlutlaus fjölmiðill til í landinu, hagfræðingar okkar stjórna ennþá efnahagsumræðunni, efnahagsbatinn er sjónhverfing þenslukjarasamninga, krónan bjargaði því sem bjargað var, evran er hruninn, heimur stríðs og átaka er framundan

Og ekki hvað síst þá er til fólk sem áttar sig ekki á því að Manchester United er eina liðið frá Manchester.

Og á meðan fólk sér ekki staðreyndir og trúir bábiljum, á meðan fólk lætur etja sig saman í tilgangslausum deilum, þá verður allt óbreytt.

Að Ísland er ekki besta land í heimi,.

 

En það gæti alveg verið það, en það er undir okkur komið.

Því lygin þrífst á trúgirni okkar.

Kveðja að austan.,

 

 


mbl.is „Ísland var best í heimi"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Brilega kom það í ljós með Seingrím í vitnastúkunni.

Hamaðist skítserkurinn Seingrímur í þingi og fjölmiðlum að Geir væri um margt sekur.

Svo kemur að honum að vitna (en þá þarf víst að vita eitthvað) og byrjaði skítapokinn þá á sama drullumallinu en þegar beinhörðum gögnum var skellt á borðiðö fyrir framan hann seig skíturinn úr pokanu og niður í buxur og skálmar. Ekki er ólíklegt að skvampað hafi í forinni á þungum skrefum hanns niður á Siðblindrahæli (áður Alþingi) aftur.

Óskar Guðmundsson (IP-tala skráð) 13.3.2012 kl. 18:52

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Þú heldur sem sagt Óskar að Steingrímur kunni að skammast sín Óskar???

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.3.2012 kl. 20:15

3 identicon

Sama hver útkoman er frá Landsdómi þá er það nauðsynlegt fyrir okkur þetta venjulega fólk að sjá hvernig hver fígúran á fætur annari byrjar á að segja að Geir hafi ekki geta gert neitt, og því síður þeir sjálfir. Allir segja það sama : ÞAÐ VAR EKKERT HÆGT AÐ GERA" .  Það er verið að koma því inn hjá okkur að það er sama hver er við völd þeir geta látið eins og vitleysingar (sem þeir og eru) og engin ber ábyrgð.    Ég vil meina að Landsdómur sé að opinbera hvers konar banana-lúðaveldi  við búum í.

thin (IP-tala skráð) 14.3.2012 kl. 08:51

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Velkomin í hópinn thin.

Núna vantar þig aðeins að sjá samhengi hlutanna og hvernig það á að breyta til betri vegar.

Og það gerir þú með því að fella kerfið, ekki láta það ráðskast með þig.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.3.2012 kl. 11:53

5 Smámynd: Kristján Hilmarsson

"Thin" er svo innilega að lýsa vonleysinu og uppgjöfinni sem er ansi útbreidd meðal fólks, sem aftur er gróðurmold fyrir ýmsa til að koma sér á framfæri með nýjum flokkum, stefnum og hvaðeina, held flestir meini reyndar vel þar á meðal þessir en að breyta "fjórflokknum" í "fimmflokk" eða jafmvel "sexflokk"  er bara til að auka á sundrungina, í stað þess að virkja góðu öflin sama hvaða flokki þau eru í og breyta kerfinu innanfrá, ekki léttasta leiðin að fara, en sú áhrifamesta ef til tekst.

Þannig ættu þessir hugmyndaríku menn og konur sem standa að þessum og álíka samtökum, kannski heldur að vekja þann eldmóð sem til þarf, innan flokkanna sem fyrir eru, í stað þess að gera "fjórflokkinn" að "fimmflokknum" eða jafnvel "sexflokknum" því ef við ekki virkjum áhugann og lýðræðiskenndina hjá almenningi, breytist ekkert, alls EKKERT !!

MBKV frá Norge

KH

Kristján Hilmarsson, 14.3.2012 kl. 14:24

6 Smámynd: Hjördís Vilhjálmsdóttir

Ísland verður aftur best, því vil ég trúa ;)

Þú nefnir m.a. að lygin þrífist á trúgirni okkar. Nokkuð til í því. Eitt af mörgu sem þarf að breytast, svo ástandið geti lagast, er viðhorf til gagnrýni og efasemda; að það sé ekki slegið á hana með því að fólk sé sakað um neikvæðni !

Annað sem þarf líka að lagast er að karp þarf að hætta og samræður og samvinna að hefjast um hvað sé þjóðinni í heild til framtíðar fyrir bestu. Óháð því hvar í flokki fólk er. Það á líka við um Alþingi. Það er súrt að horfa á þá skjóta hver á annan og hnakkrífast í ræðustól og í fjölmiðlum. Þó sagt sé að svo fái þeir sér kaffi í besta bróðerni að því loknu. Okkur er ekki sýnt kaffispjallið.

Hjördís Vilhjálmsdóttir, 14.3.2012 kl. 16:11

7 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Ég trúi því líka Hjördís, eða vona allavega, því ég veit þetta er hægt, en Ómar bendir okkur á hvernig við látum þá, sem hafa mest að tapa á samstöðu almennings, blekkja okkur til vera sundruð í smákarpi um hluti alls óskylda því sem við erum sammála um í raun, því ef okkur tækist að finna flötinn þar sem við erum allflest sammála, þ.e. sammála um aðalatriði þess að gera Ísland best í heimi, þá er sigurinn skammt undan, en á meðan við gleymum okkur í smákarpi um allskyns "jaðar" mál, hafa þeir sem eru með "Besta land í heimi" í gíslingu, ekkert að óttast.

Þetta með "vinahjalið" yfir kaffibollunum, eftir að þingfundi er lokið og/eða í hléum, undirstrikar bara hvernig við erum dregin á asnaeyrunum, höldum að kjörnir fulltrúar séu sveittir í höndum og kjaftinum, að bjarga heimilunum og landinu úr ánauð.

MMBKV

KH

Kristján Hilmarsson, 14.3.2012 kl. 17:38

8 Smámynd: Hjördís Vilhjálmsdóttir

En afhverju halda þeir landinu í gíslingu, Kristján 17:38 ? Og af hverju að feika framkomu sína við okkur en svo allt í gúddí bakvið tjöldin ? Hvort er sannanlega feik ?

Annars var ég að senda þeim vinalegt innlegg rétt áðan, vona að þeir lesi það og hlusti -  ,,Hættið Plís" Þeir þyrftu að smella sér á Dale Carnegie námskeið !

Hjördís Vilhjálmsdóttir, 14.3.2012 kl. 18:13

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Hjördís.

Framsetning skoðana minna miðast við að ég upplifi mikla ógn gagnvart Vesturlöndum og því þjóðfélagskerfi sem mikil sátt ríkti um meginhluta síðustu aldar.

Fjármálakreppan er ein afleiðing þessarar ógnar, yfirvofandi eyðing þess velferðarkerfis sem tryggði stöðugleika og framfarir, er svo önnur, mjög líklegur heimsófriður er svo sá þriðji, og því miður eru ógnirnar miklu fleiri. 

Eftir Hrunið sveik stjórnmálastéttin þjóðina með því að gera samkomulag við AGS sem hefði ef það hefði gengið eftir, rústað efnahag þjóðarinnar og svipt hana efnahagslegu sjálfstæði, með tilheyrandi afleiðingum fyrir heilbrigðiskerfi, mennta og svo framvegis.  Þá er ég bæði að tala um ICEsave og AGS krónubraskaralánið sem hefði, auk annarra skulda þýtt greiðslubyrði ríkissjóðs yfir 60% af tekjum.

Með öðrum orðum þjóðargjaldþrot.

Ólætin á Alþingi stafar meðal annars af deilum um þessi áform, það eru alltaf deilur þegar fólk snýst til varnar illvirkjum.  

Sama er með ólguna í þjóðfélaginu, þegar að fólki er vegið, þá er eðlilegt að það snúist til varnar.

En óvinurinn eini hefur náð að sundra vörn fólks, látið fólk rífast innbyrðis á meðan hann hefur farið sínu fram.  Snilldin hefur meðal annars verið fólgin í því að endurvekja gamlar víglínur, kratar rífast við íhald, íhald rífst við framsókn, gamlir kommar sáu ICEsave andstöðuna sem einn eitt blekkingarbragð borgarastéttarinnar, Andstaðan ætlaði að breyta öllu án þess að hafa til þess vald, bara það eitt að gera venjulegt heiðarlegt fólk að andstæðingum og blórabögglum Hrunsins, þá á ég við stuðningsfólk fjórflokksins, var dæmi um baráttu sem gat aldrei skilað neinu nema deilum og sundrungu.  

Það er þeir sem vildu bæta, losna við deilur fortíðar, skópu deilur, skópu sundrungu.  

Og firringin lýsir sér best í áherslu á nýja stjórnaskrá þegar velferð okkar, það að geta farið mð börnin okkar í skóla eða á sjúkrahús ef þau veiktust, var undir hnífnum. 

Andófsfólkið snérist ekki gegn ICEsave fyrr en á seinni stigum, og margt af því er ennþá flækt í stjórnarskrá, stjórnlagaþing, gjaldmiðlaskipti eða annað sem engu skiptir þegar skuldaleiðrétting eða krónubraskaralánið er annars vegar.

Þannig að það er ekki allt eins og það sýnist.

Því þeir sem rændu okkur, þeim tókst að umvefja gjörðir sínar blekkingarhjúp sem fólk sér ekki í gegn.

En ég ætla að spjalla ítarlegar um þetta í kvöld við Kristján, allavega ætti þá mín sjónarmið að vera skýrari á eftir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.3.2012 kl. 18:44

10 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Hlakka til Ómar ! ekki það að þú ert alveg nógu skýrmæltur hér í nr.9 það skýrmæltur að ef mér hefði dottið í alvöru í hug að Hjördís væri að spyrja vegna vankunnáttu að þessu "afhverju halda þeir landinu í gíslingu" þá hefði ég látið þitt svar duga, svo skýrt er það, en auðvitað veit hún afhverju "þeir" halda landinu í gíslingu.

Verra er að svara, ef spurt er hverjir þetta eru og ætlast til nafnalista, en besta svarið er og verður bara: þeir sem hafa hag af sundrungu okkar, hafa hag af hvernig undirlægjuháttur stjórnvalda gagnvart "ræningjunum" nær nýjum hæðum hvern dag, þeir sem fá alla mögulega hjálp við að hanga við völdin frá "ræningjunum", það væri auðvitað gott ef tækist að finna og nafngreina þá, en mikilvægara er samt að STÖÐVA ránið, það gerist ekki á þingi eins og málum er búið í dag, ei heldur á kaffistofunni þar niðurfrá.

Ætla nú að kíkja ´"Hættið Plís" vinalegu kveðjuna hennar Hjördísar til "þeirra" 

MBKV

KH

Kristján Hilmarsson, 14.3.2012 kl. 19:41

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kristján.

Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af einni langlokunni enn, svona síðasta kvöld andófsbloggs míns verður svona meðalloka.  Eitt sem ég ætla að hnykkja á, merking orðisns samstaða.

Imsinn sem við glímum við, er ekki hættulegur vegna þess að stjórnmálastéttin er í viðjum hans, og ekki þó að fjölmiðlar hafa allflestir verið keyptir upp, heldur er það hin hugmyndafræðiyfirtakan sem ógnar okkur.  Hún stjórnar umræðunni með hugtökum sínum og fólk sem berst gegn ismanum er samt flækt í viðjum hans því tungumál umræðunnar frá honum sprottið.

Fólk gerir almennt ekki til dæmis greinarmun á fjármálabraski og viðskiptum, á sýndarverðmætum og framleiðsluverðmætum.

Og faðirvor andskotans, að lágmarka kostnað, er hin viðtekna trúarsetning viðskiptalífsins.  En það að lágmarka kostnað er bein ávísun á lágmarks gæði og lágmarks laun, og eitt fyrirtæki.  "Rusl frá Kína á kínverskum launum".

Og vegna þessa hugmyndafræði drottnunar þá sér venjulegt siðað fólk ekki neitt athugarvert hvað er verið að gera Grikkjum í nafni gjaldmiðlatrúar eða  hvernig hver starfstéttin á fætur annarri er brotin niður með þjónustutilskipun ESB þar sem fátæku fólki er stefnt gegn heiðarlegri vinnu hins venjulega manns á evrópska efnhagssvæðinu.   Heiðarleg vinna er brotin niður og gerð að þrælavinnu.  

Þykir alltí lagi því þetta er svona efnahagseitthvað.

Þetta er ægivald óvinarins eina og gegn honum þarf hinn venjulegi maður að sameinast. 

Í samfélaginu er ákall um samvinnu og að fólk slíðri sverð sín.  

En þetta er röng hugsun, fólk þarf að sameinast, en með sverð á lofti gegn óvininum.  Svo ég vitni í söguna, þá var tvennskonar ákall um sameiningu i Frakklandi veturinn  1940-1941, annars vegar að sameinast um Vichy og stjórnarskrárbreytingu þess, að gera ósigurinn bærilegri, eða sameina kraftinn gegn óvininum, og þá til að berjast gegn honum.  Því sigrað fólk, þjónar, þrælar á enga framtíð aðra en þá sem því er skammtað af hendi sigurvegarans, húsbóndans, herrans.

Til að byrja með þá sameinaðist 99% frönsku þjóðarinnar um þjóðfund og stjórnarskráarbreytingu undir forystu Pétain forseta Vichy  lýðveldisins.  

Aðeins örfáir snérust til varnar, en þeim fjölgaði eftir því sem þrengt var meir að fólki, og svo gat unga fólkið ekki hugsað sér framtíð þrælsins.

Þetta er sú samstaða sem ég er að kalla eftir, að fólk standi í lappirnar og berjist við óvininn, ekki hvert annað.   Og með sverðin á lofti.

Þau sverð eru fyrir utan samstöðuna, sannleikurinn, staðreyndir, trú á framtíðina sem frjálst fólk, umburðarlyndi, framtíðarsýn, og sú vissa að við séum öll á sama báti, og við munum bjargast úr ólgusjónum yfir í öruggt skjól lands tækifæra og mannúðar.  Svo eitthvað fleira sem ég nenni ekki að telja upp.

Hinn möguleikinn, að kóa með óvininum, með hans tungutaki og út frá hans hugmyndaheimi, það er bein ávísun á Endinn.

Og þegar fólk áttar sig á þessu samhengi, þá fer það að hugsa, það leitar í hugsun sem útskýrir og tekur á vanda og leitar lausna, það er líka tilbúið að leggja á sig, og það sér að það sjálft verður að gera það sem þarf að gera, ekki einhverjir aðrir. 

Byltingin sem slík er ákaflega einföld, því núna er lag á að hún heppnist.  Lagið stafar af því að það er enginn annar valkostur.  

Ég hef sagt það áður og ætla að endutaka þó enginn taki mark á þessum orðum.

Það er aðeins ein forsenda byltingarinnar, og það er að við hættum að láta ljúga að okkur, og stígum síðan í kjölfarið það skref að gera eitthvað í okkar málum.  Siðan mun restin rúlla í rétta átt.

Ég hef áður upplifað að enginn taki mark á orðum mínum, en ég var samt í sigurliðinu í ICEsave þó fáir voru í því í upphafi baráttunnar.  Þá sagði ég að við myndum leggja andstæðinginn þó hann réði yfir öllu sem þyrfti í baráttuna, fjölmiðlum, háskólaelítunni, hagsmunahópum.  Og gegn væru örfáir þrjóskuhausar.  Og þeir Stefán og Lárus.

Þannig að það er alltílagi að íhuga þessa fullyrðingu mína, mér hefur allavega ratast satt orð á munn áður.

"Það er aðeins ein forsenda byltingarinnar, og það er að við hættum að láta ljúga í okkur, og stígum síðan í kjölfarið það skref að gera eitthvað í okkar málum.  Siðan mun restin rúlla í rétta átt."

Hljómar einfalt, nei það sagði ég aldrei.

Forsendan er næstum því óyfirstíganleg, ef þá það er yfirhöfuð hægt að yfirstíga hana.

Vissulega er ég að lýsa snjóboltaáhrifum en það þarf eitthvað að hefja þann snúning að kornið renni af stað.  

Að venjulegt fólk geti eitthvað gert í sínum málum???, no way.

Að trúa á hið góða bjarta???, no way.

Að trúa að við séum ekki leiksoppar höfðingjanna, ekki frekar en við viljum??, no way.

Að börnin okkar eigi sömu möguleika á framtíð og við, og að það sé okkar að tryggja það??, no way.

Það er þessi vantrú hins venjulega manns á sjálfum sér sem útskýrir að ekkert gerist.  Fólk spyr ekki hvað það getur gert, heldur ætlar ekki einhver að gera eitthvað???

Það trúir því ekki innsti inni að það geti lifað frjálst og óháð án þess að nokkur ráðskist með það.  Og það er svo erfitt að hugsa sjálfstætt, að láta ekki ljúga í sig.

Það er svo erfitt vegna þess að þá komust við að því hvað við erum skynsöm.  Að heimurinn er ekki flókinn, að þetta eru svo fá lögmál sem gilda.  Og öllum auðskiljanleg þegar menn fara að hugsa um þau.

Þá er betra að hlusta á bábiljur þeirra sem fengu sitt tækifæri og höfðu sannarlega rangt fyrir sér.  Klúður þeirra blasir við, en samt, þeir vita hvað þeir vilja, og þeir sem þeim þjóna, vita til hvers þeir eru að því.  Að ræna í stað þess að skapa.

Nei Kristján, byltingin er einföld og auðframkvæmanleg, það erum við sem erum ráðgáta, og þá ráðgátu getur enginn leyst fyrir mann en maður sjálfur.  

Það er hver og einn sem þarf að gera það upp við sig hvað hann vill með sitt líf, til hvers hann er að lifa því.  Þess vegna getur enginn startað byltingunni.

Menn geta startað óeirðum, ólátum, valdráni, borgarastyrjöld, uppreisnum, en ekki sjálfri byltingunni.

Og það er aðeins byltingin sem getur bjargað framtíð barna okkar, bylting mannsins. 

Dagurinn sem við uppgötvum að við erum viti borið fólk, og ráðum sjálf okkar framtíð, út frá því viti og skynsemi sem guð gaf okkur.

Er dagurinn sem byltingin hefst.

Þá fer allt að rúlla.

Vonlaust, veit ekki, en vonin felst í snjókornaáhrifunum, að fyrst uppgötvar einn maður þetta, svo næsti og svo næsti og svo næsti og svo næsti og ákveðnum tímapunkti þá ná þeir saman og úr verður skriða sem tregðan fær ekki stöðvað.

Hvar vendipunkturinn er veit ég ekki, ég hef alltaf gantast með að það þurfi aðeins fimm og fært fyrir því rök.  Ég veit það ekki, það þarf ekki marga til að trúa að þeir geti bjargað heiminum, heimurinn býður í ofvæni eftir þeirri trú og hún mun því smita fljótar út frá sér en mest smitandi drápsvírus sem vopnabúr tregðunnar geymir.

En það er nú það, ég sé það ekki gerast, ekki allavega í nánustu framtíð.

En ég trúi því að það gerist, hef bjargfasta trú á því.

Svo bjargfasta að ég hef ekkert meir um málið að segja.

Og þegar það gerist, þá ætla ég að segja,;

SAGÐI ÉG EKKI.

Bið að heilsa í bili Kristján.

Við heyrumst við tækifæri.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.3.2012 kl. 23:12

12 Smámynd: Ómar Geirsson

PS.

Meðalloka er svona afstæð stærð.  Það voru mörg línubil sem láta hana virðast langa.

Kveðja og góða nótt.

Ómar Geirsson, 14.3.2012 kl. 23:15

13 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Sæll þú skýrmælti baráttumaður Ómar Geirsson !

Já rétt hjá þér, þetta virtist langt, en reyndist bæði fljót og auðlesið, svo líklega eru línubilin mörg, en hnitmiðað, samanþjappað og ekki síst það skorinort að þú hvorki þarft né hefur meira um málið að segja,(en vona að akkúrat það sé bara líkindamál)

Gott að vera kominn í "slaginn" með þér aftur Ómar, það voru fleiri en ein og fleiri en tvær ástæður fyrir fjarveru minni, mestapartinn af sl. ári og fram í þetta, ein þó meir en aðrar, nóg um það, ég skal gjarnan vera einn af "fimm sem til þarf" og vera með þér þegar þú segi "SAGÐI ÉG EKKI"

MBKV

KH

Kristján Hilmarsson, 15.3.2012 kl. 13:59

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kristján, það er að hægjast um slagsmálin hjá mér í bili, næstsíðasta ICEsave greinin mín í þessari lotu fór inn áðan, hún er ekki ætluð fjöldanum og þarf því ekki að undirbyggja hana með því að tengja mig við aðrar fréttir.

En það hefur sinn kost, þá gefur maður sér meiri tíma í hugrenningartengslin þar sem orð ala af sér orð, hugsun af sér hugsun og líklegast er best að ég hnykki á að orð mín hér að ofan hafa ekkert með persónu mína að gera.  

Vissulega er það pís of keik fyrir mann þokkalegan í sögu stríða og átaka, að leiða byltinguna sem ég lýsti hér að ofan, ég myndi alveg treysta mér til þess þó ég sé enginn Hemmi Gunn.  

Og það er vegna þess að ef frumforsenda byltingarinnar er yfirstíginn af einni manneskju, og síðan næstu, og næstu þá er sýnt að hið ómögulega er mögulegt.  Og síðan er þetta aðeins vírusáhrifin sem ég lýsti.

En ég skal útskýra mitt hlutverk í þessu ferli.  Og til þess ætla ég að nota 2 dæmi af samskiptum mínum við stóra bróðir minn sem er búsettur út í Svíþjóð og er þar ráðsettur.  Ég ætla líka að taka fram að við höfum rifist um pólitík frá því að ég fór að rífast, hann varð ungur kommi með Marx og Lenín uppá veggjum og síðan þegar hann vitkaðist, þá hélt hann til hægri við mig og forsendur okkar því alltaf ólíkar, nema við höfum að hætti Vaðlvíkinga engan ama af því að vera ósammála.

Og fyrst ég þarf að ná fram innihaldi dæmanna, þá verður þetta kannski aðeins þéttari meðalloka.

Einhvern tímann snemma árs 2009 þá rifumst við um ICEsave, ég hélt því fram að krafa breta væri þjófnaður (þá notaði enginn það orð) því hún styddist ekki við lög.  Og vitnaði í greinar lagaspekinganna íslensku.  Hann spurði á móti hvort ég héldi virkilega að tveir afdalalögfræðingar hefðu réttar fyrir sér en lögspekingar allra annarra ESB/EES þjóða sem héldu því fram að það væri ríkisábyrgð.  Þetta er ekki lögskýringar svarði ég, þetta er pólitík og þá vegna gönuhlaups breta að herja á Íslendinga þegar þeirra bankakerfi lá undir, og þá til að draga athyglinni frá sínu eigin bankaþroti.

Hvernig veistu þú það???  

Af því að ég tók mig til og las lögin og sá að Stefán og Lárus höfðu rétt fyrir sér, mig varðar ekki um hvað margir aðrir halda öðru fram þegar ég hef rétt fyrir mér.

Og svo búmm um hroka litla bróðir og svo framvegis.  

Þetta rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar við bræður ræddum saman og þá var ég að lýsa fyrir honum þessari sýn minni um að sjálf tilvist okkar sem manneskju krefði okkur um hugsun og aðferðarfræði í anda þess sem ég ræddi hér að ofan.

Af hverju??  Af því að ég hef rétt fyrir mér, og þú veist að þegar ég hef rétt fyrir mér, þá hef ég rétt fyrir mér (tilvísun í ICEsave sem hann var maður til að viðurkenna að hann lét plata sig).  Þarf ekki að taka það fram að þetta er stríðinshroki til að stigmagna rökræður.

Og svar bróðurs var óborganlegt, svo sem alveg rétt þannig séð ef mér hefði verið hin minnsta alvara með orðum mínum en svarið bauð uppá gagnsvar sem hann átti ekki svar við, svona þannig séð.

"Þú (það er ég) ert ekki fyrsti sem þykist hafa rétt fyrir þér, sagan kann fullt af dæmum af mönnum sem héldu sig hafa uppgötvað sannleikann og stofnuðu svo til átaka um þann sannleika, með tilheyrandi hörmungum". 

Og ég hló með öllu andlitinu þegar ég henti búmmeranginu til baka.

"Já vissulega en eins og þú réttilega sagðir, þá héldu þeir, en ég veit, á því er reginmunur, þeir boðuðu sannleikann (kom fram hjá honum því ég endursegi í miklum styttingum eftir minni) því þeir héldu að þeir hefðu rétt fyrir sér, ég veit og þarf því ekki að boða.  Það er ekki mér að kenna að ég hef rétt fyrir mér, ég hef bara rétt fyrir mér.  Og það nægir mér.".

Það sem ég er að segja Kristján er það að ég er búinn með mitt, vissulega skal ég játa að ég hef ekki lagt á mig þá vinnu að taka saman hugsun mína sem kemur fram hér og þar og allstaðar innan um stríðni, skothríðar og djöflagang, en það er einfaldlega vegna þess að ég veit og hef enga þörf til að lemja skoðunum mínum í aðra.  En mér þykir gaman að ræða þær, og það er viss áskorun að setja þær á blað.  Sbr. að ein hugsun leiðir til annarrar og smán saman sér maður þessa einföldu lífspeki um mennsku og mannúð renna saman í hugmyndakerfi sem gengur upp í raunheimi, sbr að enginn hagfræðingur hefur náð að orða kjarna hagfræðinnar betur en Meistarinn frá Nazaret um að menn ættu að líta eftir náunga sínum og ekki gera mikið af því að gera öðrum það sem þeir þyldu ekki sjálfir, en vanskilningur á því er undirstaða átakakostnaðar sem er aldrei tekin með að fylgjendum gömlu hagspeki Rómverja sem beisikar á þrælabúskap.

En that´s it eins og þeir segja þarna úti í hinum stóra heimi.

Auðvitað hefur mig langað til að gera eitthvað gagn, svo er ég rosalega stríðinn í margræðri merkingu þess orðs, mér þykir gaman að stríða, helst á móti því sem er lítt vinnanlegt og mér leiðist garðar í debötum þar sem fyrirstaðan er lítil.  

En hreint út, ég hef skrifað yfir 2.200 pistla, og í mjög mörgum þeirra hef ég þróað umræðu frá hanaslag yfir í rökræður þar sem ólík sjónarmið takast á.  Og ég hef reynt að útskýra fyrir Andstöðufólkið að óvinurinn eini er kerfið en ekki það fólk sem það beitir fyrir sig á hverjum tíma.  Og sigurinn yfir kerfinu er ekki að vega alla sem fylgja því heldur að stela þeim frá kerfinu, stela sálunum með sterkari lífssýn og hugmyndafræði mennskunnar.

Og ég tel það hægt.  Núna því það eru svo fáir valkostir í stöðunni.

Og mér vitanlega þá hefur engin umræða endað á þeim nótum að viðmælandi minn hafi sagt, "Já, þú segir það".

Með öðrum orðum, ég sannfæri ekki fólk.

Byltingin bíður eftir svoleiðis fólki.

Mér dugar að geta sagt, "SAGÐI ÉG EKKI".

Ég er það mikið egó.

En ég finn veðrabrygðin, fólk er farið að skynja ógöngur baráttu sinnar, það er oft meira upptekið að vega annað breytingarfólk en að einbeita sér að andstæðingnum.  

Lilja virðist vera að fá gott fólk í kringum sig og það er þarft verk að líta eftir með baráttu hennar.  Það er líka gott fólk í Stóru Hreyfingunni og náttúrlega víðar.  

Þetta er það sem við höfum í dag í Raunheimi og eigum að meta.  

Hvað svo verður kemur bara í ljós.  

Líklegast annað Hrun en so be it.

Aðalatriði er samt það að það eru alltaf til jákvæðir ferlar og það er það sem skiptir mestu máli Kristján.

Ég er kominn með bloggolboga og þarf að láta hann lagast fyrir vorið því ég þarf að kenna strákunum mínum blaklistir að hætti pabba.  

Það er svona næst á dagsskrá, svona í forgangsröðinni en bloggið lifir.  

Þetta er ágæt leið til að losa sig við pirring.  En hann er bara svo lítill eftir ICEsave sigurinn, ég er svo rosalega montinn að það hálfa væri nóg.

En það lagast.

Ég bið aftur að heilsa út í friði og ró.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.3.2012 kl. 21:12

15 Smámynd: Kristján Hilmarsson

 Þetta er vinalegasti broskallinn í safninu, nú hefði verið gaman að segja bara "Já þú segir það" en ég segi heldur "Say no more" eins stundum er sagt í útlandinu, nokkuð notað af Monty Python strákunum.

Ég óttast ekki að við eigum ekki eftir að brýna okkur aðeins á einu eða öðru, það er og hefur minn besti hvati til vöndunar og þekkingarsóknar, þegar þú hefur verið að taka í "lurginn" á mér, mér sýnist stundum allavega, að þusið í mér hafi fengið þig til vera ýtarlegri, þú veist þetta með teskeiðina, og hefur það glatt mig helling, enda reikna ég aldrei með að hagga þér frá sjónarmiðunum, (vil það ekki heldur sama hvað).

En hér og nú skiljumst við í friði og ró, af nógu er að taka sýnist mér.

MBKV

Frá Norge

Kristján Hilmarsson, 15.3.2012 kl. 22:36

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Og hittumst á ný þegar lúðrar byltingarinnar glymja.

Ég mæti þó ég verði svo grár að ég þurfi staf,  hækju og hjólastól.

Sá dagur kemur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.3.2012 kl. 08:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 10
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 456
  • Frá upphafi: 1412818

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 395
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband