Er Samstaða valkostur við Fjórflokkinn??

 

Eða er hún liður í endurnýjun hans???

 

Áður en lengra er haldið þá vil ég taka það skýrt fram að ég tel Lilju Mósesdóttur vera ein af örfáum stjórnmálamönnum sem kom fram eftir Hrun, sem átti eitthvað erindi í stjórnmál.

Vegna þess að Lilja hafði eitthvað að segja og gat rætt efnhagsmál að þekkingu.  Lilja er því fengur fyrir hvaða flokk sem er og miðað við áherslur hennar á velferð og jöfnuð þá gæti Lilja valið hvaða flokk sem er því við megum ekki gleyma að innan Sjálfstæðisflokksins er mjög sterkur velferðararmur sem hefur mótað stefnu flokksins í þeim málum og veitt flokknum nauðsynlega breidd til að ná til fjöldans.

 

Hugrenningar mínar hér á eftir, sem ég ætla hvorki að hafa langar eða ítarlegar, eru því ekki hugsaðar sem gagnrýni á Lilju og flokk hennar Samstöðu, heldur langar mig aðeins að staldra við eðli framboðs hennar af þeirri einni ástæðu að ég er kerfisandstæðingur og vill ræningjakapítalismann dauðann.

Það er engin málamiðlun, ég vill hann dauðan, hann ógnar mínu eina markmiði í lífinu, að verða afi, fyrst ég asnaðist að taka ábyrgð á nýju lífi þá vil ég það líf fái að njóta þess sama og ég, að skapa nýtt líf í þjóðfélagi sem lifandi er í í friði fyrir ráni og rupli þjófa og ræningja.

Það að vera andstæðingur núverandi ræningjakerfis er engin ávísun á byltingu einhverja isma, allavega ekki hvað mig varðar, ég vil einfaldlega grunngildi míns gamla þjóðfélags aftur.  Gamla góða borgaralega þjóðfélagið með áherslur sínar á velferð og mannúð var þrátt fyrir alla sína galla, það besta sem maðurinn hefur skapað i tíuþúsund ára siðmenningu sinni.

Punktur.

 

Það er tvennt sem ég tel lykilatriði í stefnu flokks svo hann teljist valkostur við ræningjaismann sem nú ræður.

Valkosturinn má ekki nota tungumál ræningjakapítalismans og hann verður að boða eitthvað Nýtt og Betra.

Ef annað eða bæði er ekki uppfyllt, þá er ekki um nýjan valkost að ræða.

 

Ég vil líka taka það fram að það er ekkert sem mælir því á mót að hefðbundinn fjórflokkur getur endurnýjað sig á þann hátt að hann er valkostur fyrir þá sem vilja mannúðlegt þjóðfélag byggt á heilbrigðri skynsemi í efnhagsmálum.  

Þetta snýst allt um að ismarnir sem loka á alla rökhugsun, að þeir séu útilokaðir frá mótun hins Nýja Íslands.

Skilningur á þessu er forsenda þess að menn breyti og bæti þjóðfélagið.  Menn afleggja ekki eitt eiturefni í matvælaiðnaði til að taka upp nýtt, hvort sem það er meira skaðlegt eða minna.  Eitur er jú eitur.

 

Mesti meinbugurinn á að þjóðin fái Nýtt og Betra Ísland, sem er eina réttláta uppgjörið við Hrunið, er að þjóðinn leitar ennþá ráðgjafar hjá þeim sem ráðlögðu okkur að feta þá leið sem við fórum.  Er ég þá að tala um Hagfræðiskólann sem hér ríkti og ríkir enn.

Þessi Hagfræðiskóli ráðlagði rangt, hann áttaði sig ekki á því að hann var að ráðleggja Helför, ekki hagsæld.  Hann veit að eitthvað fór úrskeiðis en hann veit ekki af hverju.  Þess vegna er ráðgjöf hans ennþá byggð á sömu hugmyndafræði, aðeins lagðar til úrbætur en grunnhugsunin er sú sama. Og þar með mun niðurstaðan verða sú sama líka.

Nýtt Hrun.

 

Að þessu leytinu er sagan að endurtaka sig.  

Kommúnistar reyndu aftur og aftur að endurbæta kerfið sitt en það gekk aldrei því forsendur kerfisins stóðust ekki.

Einn skóli kommúnista hélt fram þeirri skoðun að ástæða þess að  draumaþjóðfélagið varð aldrei niðurstaða byltingarinnar var einfaldlega borgarleg framkvæmd hennar.  Að menn reyndu að þróa borgarlegt þjóðfélag yfir í sósíalískt.  Og svarið við þeim vankant, var að útrýma borgarlegu þjóðfélagi strax í upphafi byltingarinnar.

Geðveikt???, en til var fólk sem var full alvara með þessari geðveiki og þessi skóli innan kommúnismans var mótív byltingarmannanna sem náðu völdum í Kambódíu.  Og þeir reyndu í alvörunni að framkvæma þetta með tilheyrandi djöfulskap.  

Það sem menn gleyma var að þessi skoðun eða þessi umræða um framkvæmd byltingarinnar á þennan hátt, að hún var útbreidd meðal kommúnista í Evrópu á sjöunda og byrjun áttunda áratugarins.  Þeir höfðu bara ekki þann kraft að framkvæma byltingu eins og skoðanabræður þeirra hjá Rauðu Kmerunum. 

En grunnur hugmyndafræðinnar var sá sami.

 

Almenningur á Vesturlöndum er í dag að upplifa sömu rotnu hugmyndafræðina.

Að það sem er fullreynt gangi ekki, en það á samt að reyna slíkt enn og aftur.

Bæði er verið að misþyrma almenningi sem og hitt að það er verið að þróa leiðir til að endurræna hann. 

Ekki bara í einu landi eins og hjá kommunum, heldur í mörgum.

 

Að bjóða fram valkost án þess að velta fyrir sér dýpri rökum tilverunnar, er vonlaust. 

Þjóðir Vesturlanda þurfa ekki endurbættan ræningjakapítalisma, þau þurfa nýja hugmyndafræði, annars endar allt í sama farvegi.

Þetta er sú þrautaganga sem ný framboð þurfa að ganga í gegnum áður en þau öðlast nafnbótina, valkostur við fjórflokkinn.

 

Og það er ýmislegt sem bendir til þess að Samstaða sé ekki á þeirri göngu.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Úrsögnin var áfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Vel mælt Ómar !

Þessi pistill hefði líka passað fínt á þessa frétt þar sem Lilja í viðtali veltir fyrir sér hugtökunum "hægri/vinstri" og leikur við hugmyndina um nýja samvinnuhreyfingu, kannski verða þau sem vilja gera og bjóða upp á eitthvað nýtt til að draumurinn um réttlátara samfélag rætist, að gera þetta svona í stað þess að fara dýpra í þetta eins og þú gerir í innlegginu þínu, það er ekki nafnið á hugtökunum, flokkunum né "ismunum" sem er afgerandi, heldur innihaldið og hverjir eru valdir til starfa, þáttaka fólksins í ákvarðanatökunum og síðast en ekki síst gildismatið, sem hefur beðið gífurlega hnekki, mismikið eftir þjóðum og svæðum en allstaðar meir og minna, þetta lélega gildismat, er eitt besta verkfæri "ræningjanna".

Hægri, vinstri, samvinnuhreyfing og/eða meiri eða minni ríkisafskifti eru ekki lykillinn að réttlátara samfélagi, þessi atriði eru bara verkfærin sem við rekum samfélagið með, hvernig hlutfallið milli þessarra þátta, er hverju sinni á að endurspegla vilja fólksins í raunverulegu lýðræðisríki, en þá þurfum við að láta til okkar taka svo um munar, það ættum við að geta orðið sammála um, óháð flokkspólítík.

Eða eins og þú segir hér: 

"Ég vil líka taka það fram að það er ekkert sem mælir því á mót að hefðbundinn fjórflokkur getur endurnýjað sig á þann hátt að hann er valkostur fyrir þá sem vilja mannúðlegt þjóðfélag byggt á heilbrigðri skynsemi í efnhagsmálum."

Algerlega sammála, en orðið "fjórflokkurinn" er orðið svona samnefnari fyrir mistök okkar í að viðhalda lýðræðinu og viðhalda, að ekki sé sagt efla, réttlætisvitundina, það skýrir svo aftur hvernig fólk bindur vonir við "nýja" flokka og "nýtt" fólk, í stað þess að einbeita sér að því sem er mikilvægara en nafn/listabókstafur á flokki, en það er gildismatið, gildismat okkar sjálfra og hvernig við getum bætt það og ekki síst hvernig við getum komið því til skila alla leið á toppinn, að "SVONA VILJUM VIÐ HAFA AÐ".

Hver bakar kökuna og hvernig, skiftir minna máli, við getum rifist um það seinna, við getum bakað hana í "samvinnu" við getum látið ríkisstarfsmenn baka hana, eða bara boðið hana út, aðalatriðið er hvrnig við skiftum henni og með hvaða hugarfari, ef við látum einhvern óprúttinn stinga af með meiripartinn af henni, þýðir ekkert að skammast í bakaranum, úr því einhver ágirndist kökuna hlýtur hún að hafa verið góð, eða hvað ?

Frábær málsgrein:

"Að bjóða fram valkost án þess að velta fyrir sér dýpri rökum tilverunnar, er vonlaust.

Þjóðir Vesturlanda þurfa ekki endurbættan ræningjakapítalisma, þau þurfa nýja hugmyndafræði, annars endar allt í sama farvegi.

Þetta er sú þrautaganga sem ný framboð þurfa að ganga í gegnum áður en þau öðlast nafnbótina, valkostur við fjórflokkinn."

Svo satt, svo satt Ómar !

MBKV frá Norge

KH

Kristján Hilmarsson, 11.3.2012 kl. 13:31

2 identicon

Heill og sæll Ómar; svo og Kristján Hilmarsson í Austurvegi (Noregi), og aðrir gestir, Ómars !

Lilju fylkingin; leggur nú ekki gæfulega upp, með ''Lykla'' uppgjafar frumvarpið - hið þriðja sinn, og tillögu, um upptöku Sænsku Krónunnar, hérlendis.

Fyrir nú utan; ESB vinguls háttinn.

Þannig að; Lillja Mósesdóttir, getur alveg sparað sér, frekari aðkomu, að íslenzkum þjóðþrifamálum, þar með - því; miður.

Með beztu kveðjum; sem jafnan, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 13:42

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mikið til i þessari grein þinni Ómar!!!!! og vel það það er enþá tilágætisfólk í öllum flokkum að það m´ætti alveg gera þar gott átak,og skilja þjófahismið burt og sjá hvort ekki batnanadi manni er best að lifa/Kveðja að sunnan,það vantar einn pistil frá þér sem lysir svoleiðis ferli??????

Haraldur Haraldsson, 11.3.2012 kl. 13:44

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kristján.

Ég held að þú sért alveg sammála mér (byggi það á því hvernig þú ert þenkjandi) að það kom margt gott fram í viðtalinu við Lilju.  Ekki bara að hún orðaði margt vel, heldur hitt að hún reyndi að orða margt sem skipti máli.

Bæði það sem þú ert að segja, og ég, er svona frekara innlegg í þá umræðu.

En niðurstaða mín er samt sú að Lilja er ekki alveg á réttum stíg í vegferð sinni, eða eins og ég orða það, hún er ekki í þrautagöngunni að gera upp við ræningjakaptítalismann, margt í lausnum hennar er sótt í hagfræðiskóla sem ég feitletraði til að leggja áherslu, sem er með 2+2 ekki jafnt og 4 í undirstöðu rökfærslu sinni. 

Ég pistlaði líka um þetta í pistlinum á undan þessum, fór fínt í en niðurstaðan er að Lilja er föst í rökleiðslu þess sem felldi þjóðfélög Vesturlanda.

Það er verðmætasköpun okkar sem ákverður stærð kökunnar, ekki tæki eins og gjaldmiðill.  Ef annar gjaldmiðill styrkti þá verðmætasköpun þá væri það gott mál, en þá verður fólk að gera sér grein fyrir að sveiflur þess gjaldmiðils koma ofaná innri sveiflur hagkerfisins og í vissum tilvikum magnað þær svo upp að samfélagið þolir það ekki. 

Og við sjáum hvernig þessa blinda trú á tækið, það er gjaldmiðilinn er að leika þjóðir Evrópu.  Og trúin er það blind eins og algengt er í ismum að menn víla sér ekki að gera tilraun til þjóðarmorðs eins og er í tilviki Grikkja.  

Ég held að allir valkostir verði að gera upp við þessa hugsun og það tungutak sem skóp hana.

Sem Lilja er auðsýnilega ekki búin að gera.

En það er ekki það sama að hún sé ekki að gera margt gott, það er bara önnur ella.

Kveðja til Noregs.

Ómar Geirsson, 11.3.2012 kl. 13:52

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Ekki segi ég það Óskar en viðurkenni fúslega að ýmislegt sýnist hverjum en þið Lilja eigið þá þá sýn sameignlega að vera ekki sátt við núverandi ástand.

Og þín leið Óskar, afhausun er líka ekki féleg að mínum dómi.  Svona hagfræðilega þá er hún bæði dýr í framkvæmd og átökin við framkvæmd hennar vill oft leiða til óþekktrar útkomu en þó með þeim bagga að hagkerfið er rjúkandi rúst á eftir.

Svo Óskar, gefum umræðunni tækifæri.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.3.2012 kl. 13:56

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Við trúum á batnandi manninn Haraldur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.3.2012 kl. 13:57

7 identicon

Sælir á ný; Ómar - og aðrir gestir !

Tækifæra gjöfin; er FULLREYND, Ómar minn.

Hefir eitthvað; trosnað upp á jarðtengingu (sá; gul/græni)  þinni, Ómar minn ?

Viltu; að ég láti stórvini okkar beggja, þá Umrenning og son, sveitunga mína, vita af þínum vandkvæðum, Ómar minn ? Raffæðilega- sem og rafeinda, vel á heimavelli, sem og þú veist, manna bezt. 

Talandi; um afhausun. Hefir hún ekki víða, vel gefist, í endurnýjun ýmis konar, ágæti drengur ?

Þarf ekki; að skipta út reglulega, fúlu vatni, fyrir nýtt - í döllum húsdýra og búfénaðar, til dæmis, Ómar minn ?

Reyndu nú; að fara að átta þig betur, á mínum meiningum, Austfirðingur góður - og; lestu betur síðu mína, í stað þess að ætla mér allt annað, en ég raunar stend fyrir, Ómar minn.

Með sömu kveðjum - sem seinustu, að sjálfsögðu / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 14:23

8 identicon

Vel er mælt Ómar sem jafnan.

En ... oft leggja menn í langferð út frá glefsum úr blaðaviðtali.  Lilja heldur úti heimasíðu, liljam.is, þar sem er að finna dýpri útleggingar á ýmsu sem þú nefnir og það réttilega.  Mæli af einlægni með því, að þú rennir yfir greinar hennar þar Ómar; þær eru margar mjög í samhljómi við það sem þú tæpir hér á í pistlinum. 

Og þetta með sænsku krónuna tek ég ekki hátíðlega, heldur tel að Lilja sé aðeins að benda á svipaðar hagsveiflur þessara gjaldmiðla í gegnum tíðina; ekkert annað.  Það gerir hún í samhengi við Kanada dollara og evru kjaftæðis-umræðuna.  Hún hefur einkum talað fyrir Steve Keen leiðinni og jafnframt ný-krónu til að afhjúpa faldar froðueignir.  Að fá raun-stöðuna upp á borðið.  Það væri fyrsta alvöru skrefið til aukins gegnsæis.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 14:28

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Óskar minn, ég ætla þér ekki neitt, ég lýsi aðeins þinni stefnu með þeim orðum sem þú notar sjálfur, en ég er ekki svo skini skroppinn að skilja ekki að það sem þú átt við að þú viljir algjöra uppstokkun og úthreinsun á kerfinu.

Eins og margir aðrir en fáir orða á eins röggsaman hátt og þú.  

En það er ekki praktíst að efna til meiri ófriðar en maður ræður við.  Það er bara nú þannig.

Og það er hægt að nálgast lausn á fleiri en einn hátt, fyrir neðan þig kemur annar baráttujaxl inn og gerir athugasemdir við skrif mín út frá öðrum forsendum.

Þú veist það Óskar, að þetta er ekki síða viðhlæjenda, heldur skoðanaskipta.

Svona á milli þess að síðuhafi er ekki að höggva hausa.

Þannig er nú það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.3.2012 kl. 14:52

10 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Pétur ! Það er alveg rétt, að Lilja fer dýpra og nákvæmar í hlutina á heimasíðunni, en í stuttum blaðaviðtölum, skýringin liggur án efa í hefðbundnum stíl við að nálgast fjöldann í fáum orðum, nálgast þannig að fólk hlusti og áhugi kvikni.

Óskar ! eiginlega sama svar við þínu innleggi, en skil vel að þú og aðrir telji "afhausun" vera réttu leiðina, "clean start" er alltaf heillandi aðgerð, en "afhausun" er til lítils ef við breytum ekki grundvallarmati okkar á hvað rétt gildi eru, með öðrum orðum við getum byggt kirkjuna í Hruna aftur og aftur, hún sekkur samt aftur og aftur ef við höldum áframa að dansa í henni.

Já Ómar ! þú hefur rétt fyrir þér þar, ég er farinn að lesa og pæla meir og meir í því sem Lilja hefur fram að færa, en tortryggnin er mikil, hvað varðar þau sem eru mest áberandi í pólítíkinni í dag, krosstré hafa brugðist og bregðast enn.

MBKV

KH

Kristján Hilmarsson, 11.3.2012 kl. 15:05

11 identicon

Drengilega og vel orðað hjá þér Kristján.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 15:14

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur Örn.

Lilja er á hálum ís ef það þarf skýringu orða hennar í lykildeilumálum samtímans. 

Það er misjafnt hvað hreyfir við fólki, það var notkun orðsins "trúverðugleiki" sem hreyfði við mér og lét mig pikka inn þessar tvær greinar þó ég hafi upphaflega vaknað til annars, það er til annarra pistla.

Ég ræði orðið í  dýpra samhengi og færi rök fyrir mínu máli, það er allt og sumt. 

Ég er ekki á neinn hátt að hjóla í framboð Lilju, ég er að hjóla í þessa framsetningu og mjög villandi málflutning hennar um gjaldmiðilsmál í viðtali Morgunblaðsins.  

Það er ekki rök í þessu máli að vísa í eitthvað dulið eða að önnur meining sé að baki eða hvað það er sem þú átt við Pétur.

Ég held að stuðningsmenn Lilju ættu frekar að íhuga orð mín sem eru sett fram í fullri vinsemd.  Mesti ógæfupyttur sem ný framboð í dag geta dottið í er að falla fyrir umræðunni eins og hún er ástunduð af kerfinu.  Að falla í froðuna og lýðskrumið.

Þá ertu innan kerfisins, ekki utan.

Ég hef ekki farið inná heimsíðu Samstöðu Pétur, fyrir því eru tvennar ástæður.  Ég hef ekki ótakmarkaðan tíma og blogg mitt er á hlaupum, þó efnismál virðist oft mikið þá er tímalengdin í flestum tilvikum háð þeim tíma sem fer í pikkið, og ég er fljótur að pikka inn.  Síðan njóta andsvör forgangs.

Og ég er ekki að hugsa málin út frá flokkspólitískum áherslum.

En frá Lilju hef ég tvennt, og bæði eru grunnur í rökfærslu minni gegn óráðum AGS.  Það er grein sem hún skrifaði í Fréttablaðið, eða viðtal, man ekki svo gjörla, þar sem hún vakti athygli á hvað vitiborið fólk gerði gegn þessum vanda sem stafar af "kviku" fjármagni.  Og það er skattlagning þess.

Hitt er greinin sem hún skrifaði í Smuguna og er biblía AGS andstöðunnar.

Svo þú sér að Lilja á sinn sess á þessu bloggi.

En Lilja þarf enga hjálp frá mér til að kynna mál sín.  Og hún er það góð að þola umræðu.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 11.3.2012 kl. 15:29

13 identicon

Heill og sæll Ómar.

Mæli enn með því að þú lesir pistla Lilju á heimasíðu hennar, liljam.is

Þú segir sjálfur að áður hafir þú leitað í smiðju Lilju ... þar er slatti enn í vopnabúrið fyrir góða skæruliða.

Með bestu kveðjum að sunnan.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 15:59

14 identicon

Sælir; á ný !

Kristján; í Austurvegi !

Langur er vegurinn frá, að ég vilji byggja upp - ónýtt og rotið þjóðfélags kerfið hér á landi, á ný, ágæti drengur.

Afnám alþingis; sem og upptaka vel menntrar fámmennisstjórnar, eru nú mín helztu hugðarefni, svo sem.

Ómar !

Svo; skal vera. Þar; sem hugmyndafræðileg gjá okkar, er óbrúanleg, að kalla, mun ég vart, ónáða síðu þína frekar, með þeim köpryrðum, sem ég virðist hafa hér viðhaft - ég; Hernaðarsinninn, gagnvart þér, friðarins manni, ágæti síðuhafi.

Sömu kveðjur - sem seinustu; vitaskuld / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 16:02

15 identicon

Og alls ekki misskilja orð mín Ómar.  Auðvitað á að takast á um öll mál: 

Opinn hugur til allra baráttuaðferða og aðgerða er aðall góðs skæruliða:-)

Munum alltaf orð Majakovskís og gagnrýnum endalaust allar helgimyndir:

"Tími

þú hinn halti helgimyndaklastrari"

og munum að ekkert er fast, allt er breytingum undirorpið.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 16:05

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Láttu ekki svona Óskar, það eru fáir sem taka eins mikið mark á brýningum þínum og ég, og það í verki.

Brýning þín er upphaf síðustu Útburðarherferðar minnar sem endaði svo í vaxtaþjófastríðinu þar sem ég nýtti mér tilfallandi atburð til herverka og afhausunar.

En ég einbeiti mér að þeim sem óhæfuverkin fremja í hvað og hvað skipti sem og hitt að ég geri mér grein fyrir takmörkum míns máttar.

En kerfisandstæðingur er ég fram í fingurgómana Óskar, og það getur þú ekki sagt um marga sem þú heiðrar með brýningum þínum.

Hér lestu þú ekki stuðning við þá sem Útburð stunda eða lofgjörð um óréttlæti verðtryggingarinnar, eða undirtektir við ódýrt lýðrskrum eins og þegar Ruv nýtti sorglegan atburð til að ná höggi á baráttufólki skuldaleiðréttingarinnar. 

Hins vegar lest þú hér orð þeim til varnar þó þau orð kosti mig lestur sem aftur skemmir fyrir markmiðum bloggsins að herja á stjórnvöld með öllum tiltækum ráðum.

Það er auðveldara stundum að þegja Óskar en að hafa kjark til að tjá óvinsælar skoðanir, en hér er hvorki skrifað út frá tilfinningum stuðningsmanna eða andstæðinga, kalla eða kvenna, rauðhærða eða brúneygða.

Hér er skrifað út frá sannfæringu.

Og sú sannfæring þolir alveg ónáð.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.3.2012 kl. 16:18

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur.

Það er mikið til að góðu efni út um allt, það eru manns eigin hugrenningar sem svo ráða hvað maður spáir í.  Ég er löngu hættur að pæla í hagfræðilegri nálgun vandamála, afla mér aðeins lágmarksþekkingar til að komast upp með ósvífni mína.

En það sem ég þó spái í er andkerfislegt, það er þeir hagfræðingar sem allan tímann stóðu vaktina gegn Friedman.  

Lilja hefur ekki ennþá náð að fanga athygli mína sem hugsuður, en hún á sína punkta.  

Svo verður tíminn að leiða í ljós hvernig hennar framboð þróast, henni fylgja allavega mínar heillaóskir.

En ég ítreka að það er hennar og hennar baklands að koma boðskap sínum á framfæri og skapa honum tiltrú.

Ef hún blæs til atlögu gegn kerfinu, þá er ég hennar.

Svo einfalt er það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.3.2012 kl. 16:25

18 identicon

Tek svo heils hugar undir þessi orð þín Ómar:

"Það að vera andstæðingur núverandi ræningjakerfis er engin ávísun á byltingu einhverja isma, allavega ekki hvað mig varðar, ég vil einfaldlega grunngildi míns gamla þjóðfélags aftur.  Gamla góða borgaralega þjóðfélagið með áherslur sínar á velferð og mannúð var þrátt fyrir alla sína galla, það besta sem maðurinn hefur skapað i tíuþúsund ára siðmenningu sinni.

Punktur."

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 16:28

19 identicon

Sælir; á ný - sem fyrr !

Ómar !

O; jæja, o;jæja. Skal ég þá; leiðrétta minn misskilning, sem helgast af ónýtu heilabúi mínu Ómar minn; hvar, ég hefi ekki náð enn, að hreinsa út minnis atriði mörg, frá fyrri áratugum, sem í mér sitja enn, að nokkru - og flest, til óþurftar samtímans, svo sem.

Það versta er; að öll mín 12, núlifandi systkina, hafa margt - og meira til brunns að bera, fremur mér, en hafa þann megin ágalla flest, sökum kyrrláts uppeldis okkar, hér fyrr meir, sem meðfæddrar hæversku, að vilja ekki, með nokkru móti, tjá sig opinberlega um sínar skoðanir og viðhorf, sem ég, enda kurteis öll í hvívetna, og errileg.

Ég einn; virðist hafa erft þær náðargáfur, sem þeim fofeðrum mínum; Kveldúlfi úr Hrafnistu - og Valgarði hinum Gráa, að Hofi á Rangárvöllum (föður Marðar lögspekings), voru svo ríkulega gefnar, Austfirðingur spaki.

Mun ég því; enn um stund, fylgja þinni síðu eftir, sem verðugast má þykja, héðan í frá, Ómar minn !

Ekki lakari kveðjur - þeim; fyrri /   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 16:38

20 Smámynd: Laxinn

Ef þú átt við Hagfræðiskólann sem byggir á sósíalisma fyrir banka og stórfyrirtæki þá er ég hjartanlega sammála. Kapítalismi er ekki vondur per. se. þegar hann byggir á frjálsu framtaki og möguleikum einstaklinga til þess að stofna fyrirtæki og skapa sér eigin atvinnu (mikil þörf er á því nú!) En sá kapítalismi sem hefur verið rekinn hér á landi byggist helst á því að veita einungis bönkum og stórum aðila þetta frelsi samhliða því að þeir fái gulltryggingu í formi ríkisábyrgða og/eða ívlinana sem verður til þess að skattgreiðendur þurfa að gjalda fyrir afglöp þeirra (lesist: Bankahrunið!) en þegar gengur vel geta menn skóflað seðlunum í rassvasann á sér (lesist: Góðærið!). Það er ránskapítalismi!

Laxinn, 11.3.2012 kl. 17:56

21 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Óskar ! þú skaust mér skelk í bringu augnablik, en sé svo að þið Ómar eruð búnir að leiðrétta þetta báðir tveir, hélt í alvöru að þú meintir þetta með að láta vera að "ónáða síðuna" hans Ómars meir, já skelk í bringu, því á meðan ég er aldrei hræddur við mæta mönnum á velli skoðana, láta segja mér til syndanna, svara í sömu mynt, eða þeir fái mig til að breyta um skoðun, þá er það versta sem ég veit í því sambandi, að hrekja aðra af vellinum með því að sýna virðingaleysi og/eða ósanngirni, enda kemur þú ekki fyrir sjónir sem slíkur sem stingur af þó illa gangi að koma "vantrúuðum" á þína skoðun, hvorki þú, Ómar né ég erum svo ósammála í grunnatriðunum, aðferðirnar getum við (og reyndar eigum að gera) rætt, við verðum bara klókari á meðan

Er með öðrum orðum glaður yfir því að þú skulir hafa hengt hattinn aftur á snagann og hlakka til að hitta þig hér síðar meir.

MBKV

KH

Kristján Hilmarsson, 11.3.2012 kl. 18:08

22 identicon

Sælir; sem oftar !

Kristján !

Ekki; var það mín ætlan, að skjóta nokkrum, hinn minnsta skelk í bringu - miklu fremur; og að undirstrika, sem ég geri hér, mikilvægi síðu Ómars Geirssonar, sem er einn ötulustu landvarða Íslands, nú; um mundir.

Vitanlega; fer Alþjóðlegur Falangismi minn, fjarri því saman, við friðsemdar- og kyrrlætis viðhorf Ómars, en svo verður bara að vera, um hríð, Kristján.

Hvar; ég afneita fyrirgefningar bulli, Vestrænnar gerfi- Kristni, gerist ég 1/2 Herskárri með aldrinum, og mótast mín skrif því, af þeim raunveruleika.

Með ekki síðri kveðjum - en þeim, þar áður /   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 20:30

23 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Óskar, það er lán að minnissöfnun þín kæfði ekki niður arfleið Kveldúlfs forfaðir þíns, fyrst á nú þjóðin erfitt ef enginn brýnir axirnar.

En það eru margar leiðir til að stríða og stríð hefur ekki vantað á þessar síður.  

Og ólíkt mörgum öðrum stríðsmönnum þá fagna ég sigri í ICEsave stríðinu. 

Vonandi verða sigrarnir fleiri áður en yfir líkur.

Baráttukveðjur vestur yfir sanda og aurug stórfljót.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.3.2012 kl. 22:37

24 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Laxinn, það eru mörg orð notuð yfir Friedman kallinn en sósíalista hef ég seint heyrt hann kallaðann blessaðan karlinn.

En já, við erum að tala um sama hlutinn.

Og minni á hina augljósu staðreynd, að til að hægt sé að ræna, þá þarf einhver að eiga.  Þess vegna eru fórnarlömb ræningjanna og innheimtustofnunar þeirra, AGS, úr ranni millistéttar og sjálfstæðra atvinnurekenda.

Þeirra sem gleyptu við áróðrinum um frelsi og urðu fyrstu fórnarlömb þess.

Það ættu fleiri en ég að vilja fá gamla góða kapítalismann aftur með sínum kostum og göllum.

Þetta er ekki svo flókið, það þarf aðeins að vita hvað virkar, og hlúa svo að því.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.3.2012 kl. 22:42

25 identicon

Sæll aftur Ómar

Talandi um AGS, þá segir okkar ágæta Lilja þetta í nýlegri færslu á síðu sinni, vegna fréttar um að nú séu hafnar endurgreiðslur til AGS:

"Við tókum rándýr lán hjá AGS til að hafa inn á bankabók í New York. Kostnaður okkar af þessum lúxus eru 7,5 milljarðar á ári sem taka þarf út úr heilbrigðis- og menntageiranum. Lán AGS leystu ekki gjaldmiðilskreppuna og nú þarf að greiða þau til baka. Lúxuslán AGS tafði leit okkar að lausn á gjaldmiðilskreppunni og skuldakreppu heimilanna. Töf sem kostað hefur samfélagið mikið!"

Og svo ætlar helferðarstjórn hrægammanna, með leppana Jóhönnu og Steingrím við stjórnvölinn, að röfla út í hið óendanlega um stjórnarskrána og ESB og hvaða samfýósa eigi að setja í framboð gegn Ólafi Ragnari.  Það eru þeirra einu áhugamál, eftir að við skæruliðarnir höfðum sigur í Icesave málinu Ómar minn:-)


Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 23:01

26 identicon

En okkur til alveg sérstakrar hressingar er alveg dásamlegt að hlusta á Nigel Farage,

taka þá Rompouy og Olla Rehn gjörsamlega á taugum.

Þar er sko alvöru skæruliði inn í miðju evrópuþingsins:

http://www.youtube.com/watch?v=oE1uwH-hJgg&feature=player_embedded

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 23:13

27 identicon

@20:

Ekki veit ég hvernig Ómar les einhvern sósíalisma út úr orðum þínum og þaðan af síður hvernig Friedman tengist þessu. Hrunið varð til í boði seðlabanka heimsins með botnlausri seðlaprentun og öðrum aðgerðum eins og t.d. fáránlegar vaxtaákvarðanir þeirra.

Nú var t.d. ECB að prenta aðra 500 milljarða evra eða svo (prentuðu aðra 500 eða svo í desember) og lána bönkum í 3 ár á 1% vöxtum. ECB hefur því spýtt trilljón evrum inn í bankakerfið í Evrópu á um 3 mánuðum. ECB lánar bönkum sem eiga að fara beina leið á hausinn en það sem verra er, ECB er óbeint að lána gjaldrþota ríkisstjórnum fé. Bankarnir taka þetta lán sem þeir fá á 1% vöxtum og lána yfirvöldum í sínu landi á ca. 5% og borga sér svo auðvitað bónusa fyrir vel unnin störf. Svona bjagar hið opinbera markaðinn. Þetta rugl tengist kapítalisma ekkert. Vandinn í dag er sá sami og hann hefur verið áratugum saman, afskipti hins opinbera og of stór opinber geiri.

Hið opinbera er sífellt að skekkja markaðinn og rýra okkar lífskjör og allar þessar reglur og opinberu eftirlitsstofnanir vekja einungis falska öryggiskennd. Markaðurinn sá langt á undan opinberum eftirlitsaðilum hérlendis að íslensku bankarnir væru vafasamir, það kom fram í háu skuldatryggingaálagi á íslensku bankanna.

Það voru mikl mistök að bjarga bönkunum frá hruni hér en það var auðvitað hlutverk seðlabankans, hann á að vera lánveitandi til þrautavara. Bara svo það kom skýrt fram: Karl Marx átti hugmyndina að þeim seðlabönkum sem við sjáum í heiminum í dag og hafa valdið miklum skaða sem sýnt var fram á fyrir rúmum 40 árum (Hayek).

Ómar, Friedman vildi ekki að hið opinbera væri með nefið ofan í hvers manns koppi eins og tíðkast á Vesturlöndum í dag. Hann var á móti tilvist Seðlabanka og hafði aðrar hugmyndi um peningastefnu en allir keynsistarnir sem nú stjórna og stefna okkur beina leið í glötun.

Gott dæmi um hve gjaldmiðlar heimsins hafa fallið gífurlega í verði vegna seðlaprentunar má nefna: Árið 2006 var hægt að kaupa 4 gallón af bensíni fyrir únsu af silfri. Í dag er hægt að kaupa 11 gallón af bensíni fyrir sömu silfurúnsu þrátt fyrir að verðið í dollurum hafi hækkað verulega. Bensín hefur því ekki hækkað í verði, verð gjaldmiðla heimsins hefur einungis lækkað verulega (verðbólga) á fáum árum með tilheyrandi lífskjaraskerðingu fyrir almenning.

http://trimtabs.com/blog/wp-content/uploads/2012/03/Madeline-Wknd.png

Annað þessu ótengt: Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta þegar Arnór Sighvatsson fyrir Landsdómi þóttist hafa séð 2005 að íslensku bankarnir væru í vandræðum. Hann var lengi vel yfirhagfræðingur SÍ og sem slíkur hlýtur hann að bera verulega ábyrgð á þessari hávaxtastefnu sem SÍ fylgdi á árunum fyrir hrun og leiddi auðvitað til fölsunar á gengi krónunnar. Leiðréttingin varð auðvitað sársaukafull og snillingarnir í Sf kenna krónunni um. Mér er það hulin ráðgáta hvers vegna sá maður var hækkaður í tign innan bankans eftir hrunið. Ber yfirhagfræðingur enga ábyrgð innan Seðlabankans? Hvað kostaði hávaxtastefna Arnórs og SÍ þjóðina? Bjó hún ekki til öll þessi erlendu lán? Auðvitað.  

Helgi (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 23:24

28 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Mér finnst þetta mjög góð hugmynd hjá Lilju að plokka saman fólk úr öllum flokkum og þjóðfélaginu öllu ,trúverðugu fólki Það er til fullt af trúverðugu fólki sem getur gert margt gott í þessu þjóðfélagi. Nú og svo er nú þjóðfélagið ekki svo stórt að það  verði að útiloka alla sem hafa verið í pólitík, það er bara ekki hægt í svona fámennu landi. Mér fiinst það rétt hjá henni að það eigi ekki að vera hægri eða vinstri, það á einfaldlega að vera trúverðugt fólk!!!

Eyjólfur G Svavarsson, 12.3.2012 kl. 00:17

29 identicon

Líkast til er það okkar beiska upplifun nú um stundir, að

Stjórnvald sem býr til falska öryggiskennd hjá almenningi er verra en ekkert stjórnvald.

Þess vegna verður aldrei nógu oft minnt á þá brýnu nauðsyn að almenningur virkji lýðræðið

okkur öllum til velferðar og hagsbóta. 

Ef við gerum Það ekki, þá gerir stjórnvaldið hið þveröfuga og stefnir í átt að ofbeldi gegn almenningi.

Það hefur margsýnt sig og sannaðist td. í einkavinavæðingu bankanna, bæði hinni fyrri

og þeirri síðari á vakt Steingríms og Jóhönnu og í Icesave málinu öllu.

Af gungum og druslum er nóg af innan stjórnkerfisins, en verra þó að þar er fullt af sjálfskammtandi auðrónum.

Orð Th. Jefferson eru því alltaf sígild:  "Experience hath shewn, that even under the best forms of governments - those entrusted with power have, in time, and by slow operations, perverted it into tyranny." 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 12.3.2012 kl. 00:33

30 identicon

Sæll Ómar minn, ég sendi þetta aftur, því "identicon" var eitthvað skrýtið hér að ofan.  Prófa aftur

Líkast til er það okkar beiska upplifun nú um stundir, að

Stjórnvald sem býr til falska öryggiskennd hjá almenningi er verra en ekkert stjórnvald.

Þess vegna verður aldrei nógu oft minnt á þá brýnu nauðsyn að almenningur virkji lýðræðið

okkur öllum til velferðar og hagsbóta. 

Ef við gerum Það ekki, þá gerir stjórnvaldið hið þveröfuga og stefnir í átt að ofbeldi gegn almenningi.

Það hefur margsýnt sig og sannaðist td. í einkavinavæðingu bankanna, bæði hinni fyrri

og þeirri síðari á vakt Steingríms og Jóhönnu og í Icesave málinu öllu.

Af gungum og druslum er nóg af innan stjórnkerfisins, en verra þó að þar er fullt af sjálfskammtandi auðrónum.

Orð Th. Jefferson eru því alltaf sígild:  "Experience hath shewn, that even under the best forms of governments - those entrusted with power have, in time, and by slow operations, perverted it into tyranny."

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 12.3.2012 kl. 02:04

31 identicon

Fyrrverandi meðlimir 4flokks eru þarna.. so, NEI. Eins og með krabbamein þá verður að taka allt eða fá ósköpin aftur;

DoctorE (IP-tala skráð) 12.3.2012 kl. 07:52

32 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Eyjólfur.

Ég er mikið sammála þér að Lilja er að legga af stað með athyglisverða hugmyndafræði og vonandi lætur hún engan almannatengil plata sig á þeirri vegferð, að hún byggi á fólki en ekki ímynd.

Og trúverðugu fólki.  Ekki trúverðugri peningastefnu.  Því það er fólk sem skapar verðmæti, ekki peningar.  Bara að átta sig á því, þá er vegferðin farin að skila árangri.

En það er þrautarganga að gera upp við bábiljur samtímans.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.3.2012 kl. 09:26

33 Smámynd: Ómar Geirsson

Doktorgráða þín er greinilega ekki í læknisfræði DokorE.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.3.2012 kl. 09:27

34 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur Örn.

Í sambandi þetta sem Lilja skrifaði um AGS lánskostnaðinn þá hélt ég að hann væri hærri.  5% af 800 milljörðum eru  40 milljarðar og því hefur alltaf verið haldið fram að lánið ávaxti sig á um 1%.  Þegar ég tala um AGS lánin þá á ég við lánapakkann í heild með hinum meintu vinalánum. 

Einhvern tímann var sagt að öll lánin hefðu ekki verið tekin og svo er það gengisflöktið, líklegast var gengið hærra þegar 800 milljarða talan fór í loftið.  En það er svo erfitt að átta sig á þessu, menn þurfa að leggjast í lestur á gögnum SÍ til að átta sig á lánatölunni í dag og nettókostnaðinum við hann.  Ég hef alltaf beðið eftir því að einhver leiðrétti mig með því að vísa í gögn sem ég get metið.  

En það hefur ekki verið gert.  Svo ég ætla að reyna enn einu sinni enn.

Vaxtakostnaðurinn af AGS lánapakkanum er mun hærri en þessir 7,5 milljarðar sem Lilja slær fram.  Og hún verður aldrei forsætisráðherra ef hún kann ekki agressívu.

Annars hef ég ekki neitt annað en gott um hana Lilju að segja, hún hefur ort fleiri Liljur en margur annar og reglulega hef ég minnst á það á þessu bloggi.

En útgangspunktur pistils míns stendur óhaggaður.

Og þeim sem þykir vænt um Lilju, ættu að benda henni á það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.3.2012 kl. 10:04

35 Smámynd: Ómar Geirsson

Helgi elsku besti kallinn minn.

Stundum fallast mér hendur þegar ég les skrif þín.  Það er eins og ég sé í flashbakki og sé að ræða við unga hugsjónamenn á vinstri væng sem gátu ekki gert greinarmun á því sem er og því sem þeir vildu að væri.  Þess vegna afsökuðu þeir alltaf illvirki kommúnismans með þeim rökum að þeir sem tóku að sér að bylta þjóðfélaginu frá því sem það var yfir í draumaríkið sem var án ríkisvalds, og í anda jafnréttis og bræðralags, að þeir hefðu ekki verið kommúnistar því niðurstaða byltingarinnar hefðu alltaf verið ríkiskúgunarskrímsli.

Þeir áttuðu sig aldrei á því að bylting gerist í raunheimi en ekki hugheimi.

Spáðu aðeins í þetta Helgi áður en þú kennir það sem gerðist eftir valdatöku Friedmanista í stjórnmálum Vesturlanda við sósíalisma.  Líkt og Laxinn gerði hér að ofan.

Annað, þegar þú ert rökþrota á einum þræði þá kemur þú ekki inná annan þráð með sömu rök.  Annað hvort finnur þú gagnrök, eða legst í lestur og kynnir þér staðreyndir út fyrir trúarhugarheim þinn.  Og þá er ég að meina pólitískan trúarheim.

Þriðja, alveg eins og ungu kommarnir sem ég ræddi við, þegar ég var sjálfur ungur og var að útskýra fyrir þeim að tálsýn þeirra um kommúnískan heim endaði alltaf með hryllingi, að þá er það rétt hjá þér, eins og þeim, að tálsýnin byggist á ákveðnum rökum.  Um það sem er að.

Alveg eins og það var rétt hjá kommunum að óréttlætið og misskipting auðs endaði alltaf með bræðravígum og uppreisnum, að þá er það rétt hjá þér að peningaprentun dagsins í dag er að meginhluta í þágu auðmagns, það sem við andstæðingar þeirra köllum velferðarkerfi auðmanna, það að þeir hirtu gróðann en nota núna hugmyndafræðilega leppa sína í stjórnkerfinu til að koma tapinu á almenning.  Og frjálshyggulepparnir kátir og hressir með það því þeir geta þá loksins komið langþráðum draum Friedmans í verk að eyðileggja innviði samfélaga Vesturlanda.  Þeir borga sem geta borgað, hinir mega éta það sem úti frýs.

Hagfræðileg rökvilla þessa siðvillutrúar er augljós og sannar að Friedman var slæmur hagfræðingur, að þeir sem eiga að éta úti það sem þar fraus, þeir snúast til varnar áður en yfir líkur.  Og sá samfélagslegi kostnaður er miklu hærri en kostnaðurinn við siðlega hugsun að enginn eigi að éta úti á gaddinum.

Fjórða, Helgi, ef þú notaðir þekkingu þína og innri siðfræði til að skilja rangindi ræningjanna og hvernig þeir endalaust spila með þig og þína, og þú settir orð þín í annað samhengi, þá væri ég eiginlega alveg sammála mestöllu sem þú varst að reyna að segja. 

Ef þú einhvern tímann efast, líkt og flestir ungu kommarnir gerðu þegar þeir þroskuðust, að þá skal ég benda þér á hugsýn sem þú skalt fylkja þér að baki og þá munt þú uppskera heim sem börn þín eiga möguleika að lifa mannsæmandi lifi, og mundu að tryggja þeim slíkt er eina ástæðan sem réttlætir tilveru þína sem manns.  

Og þessa hugsýn orðaði ég hér að ofan, hana er hægt að orða á margan hátt, sjálfur hef ég gert það víðar með ekki alveg sama orðalagi en kjarninn er alltaf sá sami.

"Það að vera andstæðingur núverandi ræningjakerfis er engin ávísun á byltingu einhverja isma, allavega ekki hvað mig varðar, ég vil einfaldlega grunngildi míns gamla þjóðfélags aftur.  Gamla góða borgaralega þjóðfélagið með áherslur sínar á velferð og mannúð var þrátt fyrir alla sína galla, það besta sem maðurinn hefur skapað i tíuþúsund ára siðmenningu sinni.

Punktur."

Þess má geta að Punktinum stal ég frá þeim ágæta frjálshyggjudreng, Gunnlaugi JónsSteinarssyni.

Og ef þú vilt eiga líf sem þarf að vernda Helgi, reyndu þá að skilja orð mín.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.3.2012 kl. 10:32

36 Smámynd: Ómar Geirsson

Og að lokum Pétur Örn.

Velviljaðir menn verða einfaldlega að reyna aftur og aftur, lærandi af fyrri mistökum.

Nema í dag höfum við ekki efni á rökræðunni.  Tími mannsins er á þrotum.

Við verðum því að aflétta hugarglýjum isma og pólitískra hugstjórnunarkenninga og horfa á hlutina eins og þeir eru.

Staðreyndir lífsins eru þekktar.  Óvinurinn, tregðan, er þekktur.  Aðferðafræðin til að berjast við hann er þekkt.  Vissulega ekki reynd, en þekkt.

Svo reynir á okkur, hinn venjulega mann, að gera eitthvað í málunum.

Út frá staðreyndum, út frá raunveruleika þess sem er, út frá þeirri hugsýn að viljum börnum okkar hlutskipti fólks en ekki þræla, og út frá þeirri vissu að við hinn venjulegi maður, við getum þetta, því við erum menn en ekki mýs.

Það er aðeins ein forsenda byltingarinnar, og það erum við sjálf.

Það er aðeins eins skýring þess að byltingin er ekki hafin, og það erum við sjálf.

Og það mun aðeins vera ein skýring ef byltingin mistekst, og það erum við sjálf.

Við sjálf erum upphaf og endir framtíðar barna okkar.  Það er enginn annar sem ber þá ábyrgð.  

Og þetta er ákaflega einfalt í framkvæmd, bara ef við stígum eitt stórt skref.

Hættum að láta spila með okkur.

Allt hitt er til staðar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.3.2012 kl. 10:45

37 identicon

Heyr, heyr Ómar:

"Svo reynir á okkur, hinn venjulega mann, að gera eitthvað í málunum."

Það er kjarni málsins Ómar, ekki að treysta á að ein manneskja eigi að

gera þetta allt fyrir okkur;  það reynir nú hinn venjulega mann og þeir eru margir ... vonandi!

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 12.3.2012 kl. 14:20

38 identicon

Og enn og aftur heyr, heyr:

"Við sjálf erum upphaf og endir framtíðar barna okkar.  Það er enginn annar sem ber þá ábyrgð."

Með kveðju að norðan, austan, sunnan og vestan.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 12.3.2012 kl. 14:32

39 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, við heyrumst Pétur, Landsdómsfarsinn heldur mér við efnið, mig langar að athuga hvort hægt sé að fjalla um ICESave ákæruna á hendur Geir án þess að fjalla um tryggingu LÍ í Bretlandi.

Hvert er hástig vanþekkingarinnar í íslenskri umræðu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.3.2012 kl. 16:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 16
  • Sl. sólarhring: 21
  • Sl. viku: 2656
  • Frá upphafi: 1412714

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2318
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband