Að vera þjóð eða vera sundruð þjóð.

 

"Þar er efinn" sagði Shakespeare  í þýðingu Helga Hálfdánarsonar og hitti naglann á höfuð tilvistarkreppu íslensku þjóðarinnar.  

Viljum við vera ein þjóð með ein lög eða sundraður óskapnaður þar sem barist er á banaspjótum??

 

"Við  vorum að taka stórt skref að mögulegri sátt í þjóðfélaginu í dag.  Þó svo að þetta bitni á fjármálafyrirtækjunum  þá vorum við að færa byrðarnar af heimilunum yfir á fjármálafyrirtækin.

En það eru náttúrulega margir búnir að missa eigur sínar, missa bílana sína, húsnæðið sitt, fjölskyldur sínar, jafnvel fólk sem hefur tekið líf sitt í þessum hremmingum sem hafa orðið.  Fólk hefur orðið heilsuveilt, og allt mögulegt; það er farið að sjá á fólki, mjög mikið í gegnum öll þessi ár."                           

Marínó G. Njálsson í Kastljósi 15. febrúar.

 

Í þessum mögnuðu orðum nær Marínó að lýsa vel þeim hörmungum sem sundruð þjóð hefur gengið í gegnum og hvaða afleiðingar það hafði að grípa ekki strax til aðgerða vegna bráðavanda heimilanna.  Fámenn þjóð hefur ekki efni á að fórna hluta samborgara sinna í gin blóðugra fjármálaguða sem engu eira.  Það hefur afleiðingar sem grefur um sig í þjóðarsálinni og mun að lokum lama hana algjörlega.

Í upphafsorðum Marínós má finna von sem vaxtadómur Hæstaréttar kveikti, von um "mögulega sátt".   Enda eðlilegt, Hæstiréttur hafði í tvígang fellt dóma þar sem réttur almennings var staðfestur gagnvart fjármálafyrirtækjum.  Og því rökrétt að ætla að stjórnkerfið vildi sátt í stað þess að vera endalaust hrakið úr einum fúlapyttinum í annan með því vantrausti sem því fylgir gagnvart lýðræðiskjörnu stjórnvaldi.

 

En sporin hræða, þegar gengislánin voru dæmd ólögleg þá voru fögur orð höfð uppi um sátt.  Og úrbætur.  En í stað þess var gæsin gripin og fjármálastofnanir reyndu að græða á dómi Hæstaréttar.  Í góðri bloggfærslu (1) Marínós Njálssonar má lesa að vaxtaþjófnaðurinn nam allt að 357 milljörðum, greiðslubyrði margra hækkaði eftir dóminn.  Og fyrirheit um leiðréttingu á verðtryggingunni urðu að engu.

Í dag er umræðan öll um hverjir eiga ekki að njóta vaxtaleiðréttingarinnar og þá er allt týnt til.  Allt til fundið til að fólk fái ekki leiðréttingu sinna mála.  Mesta svívirðan er sú ætlan að svíkja þá sem lentu í fjárhagsvandræðum, í svokölluðum vanskilum vegna hinnar ólögleg vaxtatöku.  Þeir eiga einskis að njóta, dómur Hæstaréttar er ekki talinn ná til þeirra.

Og þá spyr maður sig, hvert er réttlætið og hverjar verða aðrar efndir.  Verður hin meinta umtalaða sátt stjórnmálamanna um leiðréttingu á verðtyggingunni þannig útbúin að sem fæstir fái hennar notið og þá alveg undanskildir þeir sem hafa lent í fjárhagserfiðleikum vegna hinna stökkbreyttu skulda.

Sporin hræða, það er eins og stjórnmálmenn okkar séu ekki manneskjur.   Þeir skilji ekki hvað felst í að vera maður.

Þeirra réttlæti er þess eðlis að það muni í besta falli sundra þjóðinni enn meir en orðið er.

 

Af hverju fór þetta svona.  Af hverju var tekist á við Hrunið á þann hátt að fólk, samborgarar okkar, náunginn, að hann missti allt sitt, heimili, fjölskyldu, jafnvel líf sitt????  Að fólk hrakist á vergang, að það jafnvel sofi í strætóskýlum????

Þetta þurfti ekki að fara svona.  Það var alveg hægt að takast á við afleiðingar Hrunsins eins og þjóðin væri siðuð, að hún lyti stjórn siðaðra manna.

Margir orðuðu þá hugsun og færðu rök fyrir sínu máli.  Þar sem ég þekki best til minna eigin orða þá langar mig að vitna í bloggpistil (2) frá snemma árs 2009.  Þar orðaði ég hugsun mennsku og mannúðar og færði rök fyrir að "leið mannúðar er hagkvæmasta leiðin fyrir stjórnvöld og fjármálafyrirtæki".

 

 "Forystan felst í að sameina þjóðina um þessi grunnmarkmið. T.d átti að segja strax að eitt heimili sem eyðist vegna kreppunnar er einu heimili of mikið. Að segja að við séum það smá þjóð að hin einu raunverulegu verðmæti okkar sem þjóðar erum við sjálf. Þess vegna reynum við að vernda allt líf, hvort sem það er aldraðir, sjúkir, öryrkjar, langveik börn, einhverf börn, börn með geðræn vandamál og svo framvegis. Og ekki hvað síst hvort annað. 

Þess vegna sköpum við samstöðu og einhug um þá lífsýn að við séum öll eitt, með sömu örlög og framtíð. Þess vegna verndum við atvinnu okkar og velferðarkerfi. Og við verndum hvort annað.

Vissulega má færa rök fyrir því að mikið sé lagt á stöðuna með þessari lífsýn en málið er að ef þú vilt og stefnir af því að allir bjargist í neyð, þá eru mestu líkurnar að flestir bjargist. Ef stefnan er að sumum sé fórnandi þá splundrast samstaðan um leið og upp hefjast bræðravíg í anda Hávamála. Í raun er sú stefna ákall um að láta goðsagnir rætast: "Bræður munu berjast og að bönum verðast". Eina sem er öruggt úr bræðravígum er hörmungar. Og í þjóðfélagi þar sem manngildi er ekki lengur brúkanlegur mælikvarði heldur krónur og aurar þá skal þess getið að mesti kostnaður samfélaga fellur einatt til í bræðravígum. Þó það sé ekki kennt í viðskiptafræðum þá er það bara þannig til lengdar að minnsti kostnaður og mesti ávinningur er leið manngildis og samstöðu. Þannig séð var Jesús Kristur mikill hagfræðingur. ...........................

Hver kostnaðurinn við þessa endurreisn? Hann er mikill en kostnaður þess að efna til bræðravíga er meiri. T.d hverfa ekki skuldir þegar fólk er gert gjaldþrota. Þær falla þá beint á ríkissjóð því enginn mun kaupa hinar yfirteknu eignir. Síðan bætist ofan á ýmis félagslegur kostnaður vegna hins gjaldþrota fólks. Og tekjutap fyrir ríkissjóð því gjaldþrota fólk sem gefst upp eða flytur úr landi er ekki skattgreiðendur. Hinn kosturinn að gera fólki kleyft að halda heimilum sínum, án þess að hart sé að því gengið, er ávísun á tvennt. Fólk mun reyna að bjarga sér og það mun taka þátt í uppbyggingu þjóðfélagsins. Og það mun borga hluta af sínum afborgunum í núinu en allar þegar betur árar. "

 

Mörgum finnst svona Sýn barnaleg og telja það óframkvæmanlegt að ætla sér að hægt sé að vernda alla eða útfæra kerfi þar sem fólk heldur heimilum sínum og borgar eftir getu.

Og þeir spyrja um kostnaðinn við þær aðgerðir en leiða aldrei hugann að kostnaðinum við að gera það ekki.

Þeir átta sig ekki á að svipuð Sýn var til staðar í upphafi hins nýfrjálsa ríkis 1918, og reyndar löngu fyrr.  Aldamótakynslóðin átti ekkert nema drauma sína um gott mannlíf. Hún einsetti sér að byggja upp nútímaþjóðfélag þar sem allir hlytu menntun og nytu heilsugæslu.

Það tókst því fólk átti draumana og viljann til að framkvæma þá.

En hvorugt er til staðar í dag.  Þess vegna er hlegið að svona orðum, þess vegna er hlegið af fólki sem talar um mennsku og mannúð en þeir sem leggja steina í götur og úrtölur í aska eru taldir menn framtíðar, með alla skanka á jörðu og enga drauma sem tefja fyrir nýjum tímum.

Og árangurinn er sundruð þjóð á banaspjótum sem er alls ófær um að takast á við alvöru erfiðleika þegar Kreppan mikla skellur á.  Kreppan sem er örugg að verður en enginn veit hve alvarleg verður.

 

Valdastéttin hundsar sundrunguna, hún telur sig hafa öll ráð í hendi.

En er það svo????  Er hún ekki aðeins stödd í miðju svikalogni???

Hvað voru margir að mótmæla í Austur Þýskalandi, mánuði áður en múrinn féll???

Voru það ekki bara nokkrir sérvitringar???  Möglaði ekki bara restin af þjóðinni eða reyndi að flýja land????  Voru ekki fjölmiðlar á bandi valdastéttarinnar, voru ekki haldnir stuðningsfundir þar sem fólk mætti, kannski ekki með bros á vör, en mætti samt???  Eins og fólkið ætti ekki aðra valkosti eða teldi ekki neitt betra í boði.

Á ytra borði virtist ástandið stöðugt, völdin trygg, en undir niðri kraumaði og svo sprakk allt, án nokkurs aðdraganda.

Og valdastéttin mætti örlögum sínum.  Lognið var svikalogn.

 

Ég fullyrði að kraumurinn sé ekki minni hér, að hitinn af eldinum undir niðri sé það mikill að uppúr sjóði, og það fyrr en síðar.

Ég byggi það á þeirri þekktu staðreynd að það er lengi hægt að kúga fólk, að halda því niðri með lygum og blekkingum á meðan fólk eigir enga von um breytingar eða bata á lífi sínu og kjörum.  En þegar eitthvað vekur von þess, og sú von bregst, þá er fjandinn laus.

Dómur Hæstaréttar hefur vakið von hjá fólki.  Bæði hjá gengislánaskuldurum og hjá verðtryggingarþrælum.   Og valdastéttin gengst við þeirri von, en það er eins og hún hafi ekkert lært eða þá skilji ekki eðli og umfang vandans (3).

Hún vekur vonir en á sama tíma þá bregst hún þeim.  Það er vel hugsanlegt að í þetta sinn ætli hún ekki að ræna og rupla eins og hún gerði eftir gengisdóminn 2010.   En hún skilur ekki hvað það er sem gerir fólk svo reitt, hún talar um alla leiðréttingu eins og um undir og stórmerki sé að ræða og fólk eigi að vera þakklátt að fá það sem það þó fær.

Hún býður fram ölmusu þegar fólk þráir réttlæti.

Og svívirðan er að enn og aftur að ekki á að hjálpa því fólki sem lenti í mulningsvél Hrunskuldanna.  Fólkinu sem er búið að missa allt sitt.  Það á að liggja óbætt hjá garði.

Án vonar, án framtíðar, útskúfað og fyrirlitið af samborgurum sínum.

Fólkið sem kunni ekki fótum sínum forráð.

 

Nei, það mun eitthvað undan láta fyrr eða síðar.

Það er enginn efi um hvort við viljum vera þjóð eða sundruð þjóð.

Forsenda þess að við séum þjóð á svona tímum er að viturt fólk leiði þjóð sína til betri tíðar.

Viturt fólk stjórnar ekki í dag.  Ekki vegna þess að það er ekki til, heldur vegna þess að þjóðin kallar ekki eftir leiðsögn þess.

Þjóðin er sundruð, klofin, henni blöskrar óstjórnin en hún nær ekki saman um leiðir út úr vandanum.  Á meðan stjórna leppar þjófa og ræningja en það er einfaldlega það illskásta sem er í boði.  Illt en þó þekkt. 

Menn vita hvar menn hafa núverandi stjórnvöld en vita ekki hvað þeir fá í staðinn.  Og menn vita ekki hvað þeir vilja fá í staðinn.

Á meðan eykst þrýstingurinn í þjóðarsálinni og að lokum mun allt springa.

 

Hvenær, hvernig, veit enginn.  Hvað þá að menn viti hvað kemur út úr sprengingunni annað en óöld og vargöld.

En sprengingin verður ef hjakkið heldur áfram í sínu fari.

Aðeins róttækar tillögur í skuldamálum heimilanna fá því breytt, og þær þurfa að verða í sátt, því stöðugar deilur og illindi um þær munu engu skila.

Nema deilum og illindum, undirróðri og vígum.

Þetta er þekkt saga, hún var skráð á felld á þrettándu öld.

Og hún er að endurtaka sig.

 

Nema, nema????

Kveðja að austan.

 

(1): http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/1223982/

(2): http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/866336/

(3): http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1224238/

 

 

 


mbl.is Sofið í strætóskýlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll Ómar; æfinlega !

Í; öllum siðmenntuðum löndum, væru stjórnvöld, sem komið hafa fram, við sína samborgara - með viðlíka hætti, og hérlendis, talin réttdræp, með öllu.

Ekkert; ekkert réttlætir tilveru illmenna, fornvinur góður.

Með kveðjum; af vestanverðu Suðurlandi, austur í fjörðu / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 20.2.2012 kl. 23:55

2 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Sæll Ómar og hafðu þökk fyrir þessa grein.

Það stefnir allt í að þetta endi bara á einn veg og hann er sá að byrja algörlega upp á nýtt. Að byrja upp á nýtt er ekki það versta sem fyrir okkur gæti komið og kannski bara það besta... 

Kannski segir sagan okkur að það sé það sem þarf, og það er ekki svo ólíklegt að það sé það sem þarf að gerast reglulega til að hreinsa til flækjurnar sem virðast líka koma reglulega varðandi fjármál...

Það er til máltæki sem segir að allt geti verið jafn auðvelt og það virðist vera flókið og ég segi að þegar hlutirnir eru gerðir það flóknir að það er ekki fyrir meðalljónið að skilja þá, þá er eitthvað að...

Kv.góð

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 21.2.2012 kl. 00:16

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, það er svo Óskar, nema kannski þá okkar eigin æra.  Höfðingjanna ráð eru ekki okkar ráð, allavega ekki mín.

Ég er betri en svo.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.2.2012 kl. 00:16

4 identicon

Komið þið sæl; á ný !

Ómar minn !

Æðrastu ei; viðurkenndu bara, réttmæti orða minna, þó hörð séu. 

Það; útilokar ekkert, þína sæmd - né réttlætis skyn, ágæti drengur.

Allt; allt það, sem á undan er gengið, í íslenzku þjóðlífi, hefir einungis hert mína gremju - sem heipt, gagnvart tilteknum persónum, að verðskulduðu.

Ísland það; sem ég mundi, á uppvaxtar árunum, heima á Stokkseyri, um 1970, er því miður horfið - og kemur vart, til baka. Aldamótakynslóðin; frá því um 1900, hafði manneskjulegri lífssýn, en þessi Djöfulsins Skoffín gróða hyggju og undirferlis, í okkar samtíma, yfirleitt Háskólagengin gerpi - gerilsneydd manneskjulegum kenndum, með öllu, Ómar minn.

Ekki síðri kveðjur - þeim fyrri, vitaskuld / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 21.2.2012 kl. 00:26

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Ingibjörg.

Ég er innilega sammála þér, það er látið eins og hinn venjulegi maður skilji ekki forsendur lífs síns og sinna.  

Samt gilda í raun sömu lögmál í rekstri þjóðfélaga eins og gilda þegar fólk rekur heimili sitt og heldur sínu nánasta samfélagi gangandi.  Heildin er stærri en lögmálin þau sömu.

Og það kallast heilbrigð skynsemi að skilja þau.

Kreppa er þannig séð ekki slæm ef hún bitnar jafnt á öllum.  Og að þeir sem standa höllum fæti fyrir og geta því ekki staðið af sér kreppuna hjálparlaust, að þeir fái hjálp og stuðning eins og getan leyfir.

Og að samúð og samkennd sé höfð í heiðri.

Það er líf með reisn sem skiptir máli og allir hafi von um eitthvað betra.  

Að standa saman skiptir ekki öllu máli á velmegunartímum en öllu þegar erfiðleikar steðja að.  

Skilningur á þessu vantar hjá íslensku þjóðinni i dag.

Því miður.

Kveðja að austan

Ómar Geirsson, 21.2.2012 kl. 00:33

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Óskar, ég ítreka, ég hef ýmigust á höfðingjum og þeirra ráðum og þeirra gjörðum gegn hinum almenna manni í gegnum tíðina.

Ég mun aldrei, aldrei láta bendla mig við samanburð við þá.

Ég er harðari en það Óskrar.

Kveðja suður í gróandann í ylhúsum sem okurrafkarlar þjaka.

Ómar Geirsson, 21.2.2012 kl. 00:38

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Aldamótakynslóðin átti ekkert nema drauma sína um gott mannlíf,og hafði viljann til að láta þá drauma rætast. Ég næ ekki skáletri á þessa tölvu,en þetta eru þín orð,svo mögnuð lofgjörð,ættu að hreyfa við svo mörgum ættjarðarvinum. Hver vill fyrir hvatningu okkar,leiða þjóðina til betri tíðar? Vitrir menn leyna á sér. Bíðum eftir þeim, Mb.Kv.

Helga Kristjánsdóttir, 21.2.2012 kl. 00:49

8 Smámynd: Ólafur Guðmundsson

Almenn niðurfærsta á skuldum heimilanna gagnast þessu fólki (sem er í fréttinni) ekkert heldur þvert á móti gerir það að verkum að minna fé er fyrir ríkið til að hjálpa þessu fólki.

Ólafur Guðmundsson, 21.2.2012 kl. 09:23

9 identicon

Komið þið sæl; enn, á ný !

Ómar !

Ertu nokkuð; að misskilja mig ?

Höfðingjar; eru þeir einir, sem standa undir nafngiftinni - og eru málsvarar réttlætis og sanngirni, ekki þetta pukur- og svika lið, sem þú ert að vísa til, í landsmálunum, fornvinur góður.

Ég vona; að þú sért ekki að misskilja, mína málafylgju, Austfirðingur góður.

Með; sömu kveðjum - sem seinustu / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 21.2.2012 kl. 12:39

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það sem ég tel mið taka eftir er, að yngri samfylkingarmenn eiga sífellt erfiðara með að verja Maddömuna sína, til dæmis tóku bæði Helgi Hjörvar og Magnús Orri Schram fram að það væri glapræði að grípa inn í þetta ferli af alþingi. Nú væri komið að fjármálageiranum að taka á sig óréttlætið.   En það fyrsta sem heyrist frá Jóhönnu er.... jú að nú verði að vinna náið með fjármálafyrirtækjum að taka á óvissunni.  ÉG vissi að hún er alls ekki í neinum tengslum við þjóðina, en að hún væri líka svona út úr korti við sína eigin samstarfsmenn er að koma betur og betur í ljós. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.2.2012 kl. 12:50

11 identicon

Hér gilda sem fyrr orð Ómars Geirssonar:

"Rænd þjóð vill ekki ölmusu, hún vill réttlæti."

Þetta er ekkert flóknara og munum að dropinn holar steininn og allar stein-grímur valdsins hafa alltaf molnað ... fyrr en síðar.  Ekkert er fast, allt er breytingum undirorpið og nú getur vont ekki lengur versnað mikið meira og fleiri og fleiri átta sig á því og þjóðin mun því fyrr en síðar, miklu fyrr en síðar dæma þessa "vinstri velferðarstjórn" Jóhönnu og Steingríms sem molnað virki, molnaða rúst í sandinum.  Nú þarf ekki lengur að lasta þau hrægamma-hjúin, því ill verk þeirra lasta þau sjálf nóg og eru nú okkur langflestum algjörlega augljós. 

Engin stjórnvöld í mannkynssögunni hafa komist upp með það til lengdar, að misbjóða ítrekað og freklega réttlætiskennd þjóðar sinnar.  Slíkt leiðir alltaf til uppreisnar ... en höfum hana friðsama og slítum ei friðinn og munum að tíminn hefur fyrir löngu gengið í lið með okkur ... og dæmir nú fyrr en síðar, miklu fyrr en síðar rústina úr leik. 

Enn og aftur og ætíð ... takk fyrir einarðan og ódrepandi baráttu-anda þinn Ómar Geirsson til réttlætis og sanngirni til heilla fyrir land okkar og þjóð, með það sígilda að leiðarljósi, að jafnt skuli yfir alla ganga, svo við eigi slítum friðinn. 

Með kveðju að sunnan.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 21.2.2012 kl. 17:48

12 identicon

En í tilefni óska Ómars um "gróandann í ylhúsum"

þá skelli ég inn einu gamanljóði mínu frá 2010

tileinkað Douglas Adams og Hitchhikers Guide to the Galaxies,

þar sem VóGónar vildu allt lifandi drepa með regluverkum sínum og stöðlum:

 

UM MEÐFERÐ VÓGÓNA

 

Tileinkað Douglas Adams og “HHGTTG”

 

 

Og ég sem hef í heilum

og mörgum árum talið

urrað á valdakerfið

og spangólað á það

og á alla þá leiðinlegu

og á alla þá ömurlegu

fjárana - Vógóna forræðis

og skrifræðis

helvítis okkar

hér á jörðinni

... fyllist nú ...

eldmóði miklum

og hugljómunar-stuði

- af góðmennskunni einni -

að koma þeim til mennsku.

 

Og því býð ég þeim nú

-ósjálfbjarga greyjunum-

upp á heilmikið að gera

til atvinnubóta og endurbata.

 

Af mannlegri reisn minni

- hress í bragði -

hugljómaður í stuði

hér framfæri ég þeim:

Eitt stykki prógramm

- meðferðar til mennsku -

í heilbrigðum endurbata

í risa-gróðurhúsum

- íslenskum -

þar sem náttúran sjálf

og fingur okkar grænu

gefa okkur velsæld

og gæðin öll

í þægilegri

og notalegri 

innivinnu

með moldina

og plönturnar

og rafmagnaðar

sólirnar - að auki

á dögunum stuttu -

í duflandi og lifandi 

dægrunum öllum

í litbrigðunum öllum

í dillandi hlátrasköllum.

 

Og í vörubílasnattið

-  búskussarnir gömlu -

Davíð, Geir og Dóri,

Solla, Steini og Jóka

 

og Villi og Gylfi

í bananapökkun.

 

“Háv a bát it”?

Yfir á hið ylhýra:

Hvað segist um það?

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 21.2.2012 kl. 17:57

13 identicon

Heill og sæll.

Þú skrifar stundum "beint frá orkunni og vitinu" (grín, en satt). jg

ÉG fó inn á slóðirnar:

(1): http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/1223982/

(2):http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/866336/

(3): http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1224238/

 Ég setti bil aftan við tvípunkt, fór með bendilinn aftur fyrir slóðina og ýtti á enter.

 Þá er hægt að smella beint á "linkinn" og mun fleiri sjá þessi skrif.

 (1):  http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/1223982/

(2): http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/866336/

(3):  http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1224238/

Jónas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 22.2.2012 kl. 10:27

14 identicon

Þú sérð að ég er ekki of öruggur í þessu, hentu færslunum fyrir mig. jg

Jónas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 22.2.2012 kl. 10:33

15 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Rán, rupl, svik, prettir og leppir.

Þetta eru einkunarorð okkar Ríkisstjórnar. Ríkisstjórn er búin að láta Hæstarétt Íslands gera sig afturreka í flestum úrræðamálum sínum er varða GENGISLÁN. Ríkisstjórn hefur ekki haft hugsun á því að kanna hvort GENGISLÁN-  væru inn í efnahagsreikningi bankanna. 

Það hefur ekki verið hægt hjá almennum gjaldkera í banka að fá stöðu yfir gengislán- ekki einu sinni næstráðendur útibústjóra, eða útibústjórar hafa getað gefið upplýsingar um stöðu GENGISLÁNA  einstakra lánþega. 

Það getur starfsfólk ekki gert því að það er ekki inni í tölfukerfi þeirra. 

Éf þessar upplýsingar eru ekki inni í tölfukerfi gjaldkera,þjónustufulltrúa,útibústjóra eða næstráðanda hans, eru þá þessar kröfur þá til.? 

Er búið að vera eyða tíma Hæstarétts í málum sem lúta að Gengistengingum lána, þ.e.  að dæma í fjárkröfum sem ekki eru til í bankanum. (þá meina ég þeim banka sem sýnir efnahagsreikning viðkomandi banka í hverri keyrslu hjá Reikningsstofnun bankanna, á hverjum sólarhring)

Ef gjaldeyrislán banka væru inni í efnahagsreikningi, þá væri hægt að fá stöðu þeirra dag frá degi hjá gjaldkera eða þjónustufulltrúa viðkomandi banka. En það hefur ekki verið hægt hingað til. Bankinn innheimtir mánaðarlega með A4 blaði til skuldara, en ekki greiðlsuseðli. Þú ferð með þetta A4 blað og ætlar að greiða afborgun hjá gjaldkera og uppgefur lánanúmer sem kemur fram á þessu blaði og getur ekki greitt, því ekkert kemur fram á tölvuskjá gjaldkerans.

Þessi GENGISLÁN gætu  því verið tilbúin lán í EXELSKJALI bankans og ekkert þar á bak við. Þessi lán gætu verið Ígildi peningaprentunar hjá bankanum, og því kemur það ekki fram í daglegri keyrslu hjá Reiknisstofnum bankann, og enn síður upp á tölvuskjá fólksins sem ekkert má vita, en þó á að taka á móti greiðslum.

Á meðan Ríksisstjórn okkar, kannar ekki forsendur um tilurð og gjaldeyrinn sem bankarnir áttu að eiga að baki þessara lána hjá bönkunum, og hvers vegna þessi lán eru ekki keyrð daglega með uppfærslu á allri starfsemi bankanna hjá RB, þá vil ég líta svo á að þessi lán séu ekki til og  tilhæfulaus og ekki hæf til innheimtu. Ólögleg með öllu og líklega saknæm m.t.t. ólöglegrar seðlaprentunar.

Ríkisstjórn hefur því verið að eyða tíma Hæstaréttar þegar brínari mál eins og td. leiðréttingar á verðtryggðum lánum með tilliti til neytandalaga - afleiðusamningar til neytanda.

Eggert Guðmundsson, 22.2.2012 kl. 21:12

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið kæra fólk og hafið þökk fyrir ykkar góðu innlegg.

Biðst afsökunar á því að hafa ekki mætt fyrr og þakkað fyrir mig en var fjarstaddur í mikilli vindleysu upp á Héraði, útí skógi og fjarri öllum nettengingum.

Óskar Helgi, jafnvel ólæsir menn geta ekki misskilið brýningar þínar, svo hvassar eru þær.  

En ég aftur á móti impra hér á mínum sem eru mjög misskildar í þeirri merkingu að margur skilur þær á sinn hátt og sá háttur fer oft ekki saman.  

Höfðingi er einhver sem fer með mannaforráð eða völd á ákveðnum svæðum og þar með flokkast litla ljóta klíkan undir að vera höfðingjar, hversu vel svo sem hún er dýpri merkingu þess orðs umkomin aðn öðlast.

Og höfðingjar hafa á öllum tímum níðst á hinum venjulega manni, pínt hann og kvalið, skotið og hengt, höggvð og brennt, skorið og sagað, soðið og sundurslitið svo fátt eitt sé nefnt af viðbjóðinum sem fylgt hefur völdum þeirra.  Og því miður þá hefur almúginn einatt talið sér það skylt þegar hann hefur bylt höfðingjunum, að taka upp þeirra siði, hvort sem það er kjóll og hvítt, hárkolla og púður eða dráp og limlestingar.

En bylting lífsins, sem er boðuð hér í þessum húsum, afneitar höfðingjanna ráðum, hún boðar mennsku og mannúð, og hún virðir lífið, í þeirri mynd sem það er.  Líka líf höfðingjanna.

Þessi bylting er eina von okkar í þeim hörmungum sem framundan er.  Almættið hefur undirbúið hana lengi, í þúsundir ára og  núna reynir á hvort við höfum skilið það sem okkur hefur verið sagt.

"Þú skalt ekki mann deyða" er ekki spurning um siðferði, þetta er sjálf forsenda lífsins.

Svo hermir maður ekki eftir höfðingjunum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.2.2012 kl. 19:03

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir þinn skemmtilega kveðskap Pétur Örn.

Hann lífgar upp á síðuna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.2.2012 kl. 19:04

18 identicon

Sama hvað þú segir Ómar, alltaf segi ég þúsund meira takk fyrir alla þína frábæru pistla:-)

Vonandi áttirðu góða og afslappandi daga í orlofsbústaðnum upp á Héraði með familíunni.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.2.2012 kl. 01:52

19 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur.

Það var hreint út sagt dásamlegt að dvelja á Héraðinu,  má segja að oft getur ánægjan verið í öfugu hlutfalli við aulegðina sem skapar ánægjustundirnar.  Vinin í skóginu er sprottin úr hugsjón genginna verklýðsforystu um að hinn fátæki launamaður eigi líka rétt á fríi og með samtakamætti megi skapa þau skilyrði að hann hafi ráð á slíku.  Og sem betur fer var þessu ekki fargað í góðærinu þó fólk hafi mikið til verið hætt að nota sér svona verklýðsbústaði, þóttu orðnir púkó og úreltir.  Þetta er annar veturinn sem strákarnir mínir eru í skóla og bæði vetrarfríin höfum við hjónin farið með þá uppí Einarsstaði og átt þar virkilega góða daga.  Það er eins og veðurguðirnir taki tilliti til þess að ekki hafi allir efni á Kanarí eða skíðaferðum til Austurríkis, og taki sér líka frí þessa daga, það er frá vindum og vetraveðrum.  Allavega þarna á Héraðinu.

Það voru samt ský á himni, inná milli og úr þeim mátti margt lesa fyrir áhugafólk um skýjaskrift almættisins. Eitt af því sem stóð var að byltingin kæmi innan frá, "innri friður" eða eitthvað svoleiðis.  Reyndar þurfti ég smá aðstoð í túlkun á skýjaskriftinni með því að horfa á Ku Fung Panda 2, Hjálmar Hjálmarsson í hlutverki pöndunnar er stórkostlegur, þvílíkur talent, snillingur í dýpstu merkingu þess orðs.  Hann byggði brúna frá orðum yfir í Sýn.

Sýn sem blasti við í kyrrðinni í morgunlabbinu.

Lá við að ég yrði friðsamur, en bara lá við.

Stríðið gegn vanvitinu heldur áfram og mér virðist eftir stutta athugun á Moggablogginu að fáir hafi sveiflað sverðum á meðan ég var í burtu, en tilefnið var ærið, að bregðast við skipulagðri áróðursherferð stjórnvalda gegn Hagsmunasamtökum heimilanna.

Nú þarf að höggva Pétur og þó ég mæti aðeins of seint á vígvöllinn, og engir í sjónmáli sem hægt er að höggva, þá hegg ég samt.  Í dag og á morgun, segi það sem átti að segja í síðustu viku þegar tillögurnar um leiðréttingu á verðtryggingunni voru jarðaðar í fjölmiðlum auðrónanna.

Það er enginn friður á meðan níð viðgengst.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.2.2012 kl. 09:05

20 identicon

Heill og sæll Ómar.  Frábært að heyra að samvistin með fjölskyldunni í skógarvininni hafi verið ánægjuleg og góð til hugrenninga af ýmsum toga, samhliða skrafi við skýin. Það er nauðsynlegt að finna frið í sinni á meðan batteríin eru hlaðin.

Hin langa og stranga barátta um almenna skuldaleiðréttingu stökkbreyttu verðtryggðu lánanna heldur áfram.  Þau vafnings- og vistarbönd verður að höggva, svo einhver von sé fyrir allt hið venjulega fólk um framtíðina.  Og auðvitað mun þar haugur af mútuþægum þinglufsum mala og hjala af mikilli mærð, sem málaliðar þeirra sem þeir þáðu styrki frá og að hugsa um eigin þaulsetu og sjáltöku-ríkis-verðtryggðu laun og lífeyri í stíl.  Þetta eru ekki asnar Ómar, þetta er skítahyski, með eðli í stíl.   En þá er að höggva og höggva og höggva.

Lilja Mósesdóttir berst nú af miklum krafti gegn óréttlætinu og við ættum að leggja okkar litlu lóð á vogarskálarnar, baráttu henni og HH til liðsinnis.

Með kveðju að sunnan 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.2.2012 kl. 11:29

21 Smámynd: Ómar Geirsson

Já Pétur, ég ætla að láta ófriðinn streyma hér út í dag og á morgun.  Tók aðeins smá hliðarkrók í morgun á meðan ég var að lesa mér til um efnið, það var ekki manninum og hans verkum að þakka að enginn lét lífið á Skarðinu þegar rútan fauk út af. 

Klára svo lesturinn einhvern tímann eftir hádegið og ætla þá að pistla um vanvit og hana Jóhönnu, enn og aftur.

HH og Lilja eru flott í baráttu sinni en einn stór ljóður á ráði þeirra.  Og það er skorturinn á Killer instictinum, andstæðingurinn kemst upp með að skrumskæla umræðuna vegna þess að ekki er ráðist beint að honum.

Það er rætt við hann eins og að þetta séu manneskjur, ekki skítseyði.

Höggva, höggva, höggva, þó enginn sé andstæðingurinn (vantar fréttir til að tengja við) en það er samt skárra en að kljást við vindmyllur óvinanna.

Og ef ég er heppinn fæ ég frétt fyrir lokaorð mín um að sigur vinnist ekki nema að hart sé látið mæta hörðu.

Ef ekki þá er hann allavega þarna.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 28.2.2012 kl. 12:08

22 identicon

Líkast til heil mikið til í því hjá þér Ómar, að skorti nokkuð á beinskeytt á killer instinctið hjá þeim.

Og auðvitað þarf að fara í vegabætur og ný göng við Oddsskarðið.  Skandall að það skuli ekki hafa verið gert

eigi síðar en við sameiningu sveitarfélaganna í Fjarðarbyggð.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.2.2012 kl. 14:27

23 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur.

Pistill minn um Norðfjarðargöng er eiginlega þegnskylda, er að týna til rök sem áhugafólkið um göngin getur notað gegn þeim sem betur vita fyrir sunnan.  Hins vegar er leitun á manni hér fyrir austan sem er eins lítið pælandi í þessum göngum.  Er eiginlega miklu meir skotinn í Samgangnahugmyndinni sem tekur þá á öllum fjöllum hér á MiðAusturlandi.  Það er eitthvað sem fútt er í.

En þetta er búið að ganga ágætlega í dag, bæði pistlar og Ip tölur.

Klára svo þegnskylduna í þágu HH á morgun.  

Framhaldið er svo einfaldlega komið undir því hvort þeir sem hagsmuna eiga að gæta, hin skuldugu heimili, að þau styðji sitt fólk.  Hitinn er ekki í lánamálunum í dag, það eitt er víst.  

Og það sem verra er, hann er eiginlega ekki í neinu sem skiptir máli.

En haukarnir hjá HH, ef þeir eru þá til, ættu að geta breytt umræðunni á svipstundu.

Og það með því að kæra alla þá sem innheimtu þjófavextina og þar með talda innheimtulögfræðinga og sýslumenn sem báru út fólk vegna þeirra.

Eitt pottþétt fórnarlamb, ein fordæmisákæra og umræðan er á þeirra forsendum, ekki andstæðinganna.

Og  menn þurfa ekki einu sinni að vera dráparar til að átta sig á þessu.

Kveðja suður í útsynninginn eða er það landsynningur í suðvestan áttinni??

Bið að heilsa í bili.

Ómar.

Ómar Geirsson, 29.2.2012 kl. 00:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 451
  • Frá upphafi: 1412813

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 390
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband