10.2.2012 | 08:28
Aulafréttamaðurinn.
Svavar Halldórsson fréttamaður er fyrirmynd mín af hinum vitgranna fréttamanni sem ekkert sér og ekkert skilur.
Hann er maðurinn sem gerir starf almannatengla og annarra skoðanaskapara óþarft því það er erfitt að réttlæta há laun þegar starfið er ekkert, hugsunin á bak við fréttafölsunina engin því það dugar bara að hringja í Svavar og segja honum eitthvað, og hann gleypir það hrátt eins og hundur sem eltir spýtu án umhugsunar þegar henni er kastað.
Svavar er maðurinn sem keyrði á hundrað á tíu útí sveitir Rangárþings því hann frétti af brunanum mikla á Bergþólshvoli og að talið sé að Njáll og Bergþóra hafi brunnið inni.
En brennuvargana sem ganga lausir um götur Reykjavíkur virðir Svavar ekki viðlits, ekki það að þeir þurfi að borga honum eins og hinum málaliðum sínum hjá Ríkisútvarpinu, heldur dugar þeim að kasta í hann hinti um frétt, og lesa þá uppúr Njálu eða Laxdælu eða öðru sem er liðin tíð. Og til að sannfæra hann um að hann sé kominn í heitt, þá stefna þeir honum reglulega fyrir hérðasdóm fyrir að raska grafarró, og þá uppveðrast Svavar allur, hann er sko á slóðum banamanna Njáls.
Og hann styttir sér ekki leið með að lesa Njálu, rannsókn hans er frumrannsókn þar sem hann uppgötvar hluti í fyrsta sinn, það er efnisatriði sem honum var ekki kunnugt um þó þeir væru á almannavitorði í þúsund ár.
Hvort þessi lýsing mín á Svavari sé rétt eða hreinn rógur, veit ég ekki. Svona virkar hann á mig kallanginn. En margir meta einurð hans og réttsýni og sýna honum fullan stuðning í baráttu hans við þursa valdsins.
Og það er kjarni málsins, það hefur ekkert breyst á Íslandi á meðan peningamenn geta kæft heiðarlega fréttaumfjöllun með stöðugum málssóknum.
Slíkt samræmist ekki lýðræðinu, það er auðræði þar sem réttarfar þjónar peningum en ekki réttlæti.
Og það þarf að stöðva þennan skrípaleik strax.
Þessi umfjöllun Morgunblaðsins er að hinum góða og ég skora á fréttamenn að standa með kollega sínum og láta ekki af umfjöllun sinni fyrr en handlangarar auðræðisins innan réttarkerfisins gefast upp á þjónkun sinni við lögleysu og þjófnað.
Dómarar sækja vald sitt til þjóðarinnar, ekki auðmanna.
Dæmi þeir gegn réttarvitund almennings þá er þeim ekki stætt í embætti. Við þekkjum dæmi frá Bandaríkjunum um hvernig dómarar sem dæmdu fyrir Mafíuna urðu að víkja eftir að Hollywood gerði myndina Silkwood með Maryl Streep í aðalhlutverki. Þá þagði almenningur ekki lengur, hann sætti sig ekki við spillinguna sem þreifst innan kjarnorkuiðnaðarins og byggingarbransans, í skjóli dómara sem dæmdu alltaf með blinda auganu.
Karen Silkwood var drepin af Mafíunni en sú íslenska lætur sér nægja að þagga niður í óþægum með því að stefna þeim sí og æ fyrir dómsstóla. Það skiptir hana engu hvort hún vinnur málin eður ei, hún borgar ekki málsskostnaðinn, það gerir almenningur í gegnum afskrifaðar skuldir þeirra en Svavar er launamaður og þarf því að standa skil á sínum reikningum.
Svo tölum við um kúgun blaðamanna í Rússlandi eða annars staðar í Fjarskaistan en þegjum þegar sömum meðilum er beitt hér á landi.
En þó lífið í Fjarskaistan er erfitt þá verðum við samt að gæta fyrst af því lífi sem við lifum.
Við megum aldrei auðmenn ræna okkur, hvort sem það er eignum okkar í gegnum verðtrygginguna eða lýðræði okkar og réttarfari.
Aðförin að Svavari Halldórssyni er dæmi um rán í núinu sem við verðum að stöðva.
Við gerum það með því að styðja hann, með því að mótmæla, hér í Netheimum eða annars staðar þar sem við höfum tök á, og með því að skora á fjölmiðlamenn að standa saman og verja sinn mann.
Því þegar sjálft lýðræðið er í húfi þá slíðrum við sverðin og leggjum skoðanaágreining okkar til hliðar.
Við styðjum Svavar í baráttu hans.
Hans sigur er okkar sigur.
Kveðja að austan.
Hótað málsókn 20 sinnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 640
- Sl. sólarhring: 759
- Sl. viku: 6224
- Frá upphafi: 1400163
Annað
- Innlit í dag: 583
- Innlit sl. viku: 5347
- Gestir í dag: 554
- IP-tölur í dag: 543
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.