Gjörðum fylgir ábyrgð.

 

Svona almennt séð en kannski ekki svo mjög á Íslandi.

 

Fólk spyr sig af hverju enginn hefur verið ákærður vegna Hrunsins nema þá kannski örfáir smákallar sem enginn hafði heyrt minnst á.  Það eina sem er haft eftir sérstökum saksóknara er frasinn, "hann hafi stöðu grunaðs manns".  Og svo að honum vanti pening.

Eitt svar gæti verið að flest það sem gert var á þvílíku gráðu svæði að hvorki gerendur hafi almennilega vitað hvort þeir væru að brjóta lög eða ákærendur fyrir hvaða lög þeir eiga að ákæra.  Það var jú ekki að ástæðulausu að sá sem ætlar að ræna samborga sína að hann byrjar á að fá sér lögfræðing til ráðgjafar og síðan kaupir hann sér stjórnmálamenn til að hnika til þeim lögum sem flækjast fyrir hinu fyrirhugaða ráni.

Annað svar er hugsanlega að það sé ekki raunverulegur vilji í stjórn og réttarkerfinu til að ákæra.  Þess vegna hafi góður og gegn sveitarmaður verið fenginn til verka, maður sem hefur töluverða þekkingu í að fjalla um umferðarlagabrot og að dæma um gæði kynbótarhrúta.

Þriðja svarið er að allt sé svo flókið að þetta taki allt sinn tíma og að lokum verði þeir seku dregnir til ábyrgðar.

 

En svarið sem flestir veigra sér við að ræða er hið augljósa.  Að það sé enginn sekur, að ránið hafi verið löglegt.  Og það sem verra er, að ránið hafi verið bein afleiðing þess lagaumhverfis sem þjóðin bjó við.

Það sem styður þessa kenningu er gjaldþrot fjármálakerfis Vesturlanda, ekki vegna stríða eða náttúruhamfara, heldur vegna þess að þau urðu bara gjaldþrota.  Án nokkurra ytri ástæðna.  

Og þá vaknar óneitanleg sú spurning, að einhver kerfisvandi hlýtur að vera innibyggður í kerfið þegar margar ólíkar þjóðir sem nota sama fjármála og stjórnmálamódel, verða allar sem einar gjaldþrota innan sama tímabilis.  

Og þegar almenningur í þessum löndum, án þess að tala sig saman enda talandi ólíkar tungur, kennir gírugum fjármála og auðmönnum um vandann, sakar hann hreinlega um að hafa rænt kerfið innan frá, þá er ljóst að Hrunið á Íslandi á sér sömu forsendur og sömu gerendur og hjá öðrum vestrænum löndum.

 

Það er öruggt að lög hafa verið brotin, en það er útilokað að um skipulagða glæpastarfsemi bófaflokka hafi verið að ræða, heldur hafi Vesturlönd byggt upp kerfi sem gat ekki annað en endað svona.  Annars hefðu þau ekki öll hrunið á sama tíma.

Ég hallast að þessari skýringu, er reyndar sannfærður um hana og hef því verið talsmaður þess að draga kerfið til ábyrgða en ekki einstaka menn sem unnu innan þess.

Annars endurtekur sami leikurinn sig aftur og aftur, með þeim afleiðingum að almenningur verður alltaf fátækari og fátækari.  Og auðstéttin alltaf ríkari og ríkari því kerfið er hennar og þjónar henni einni en hvorki almenningi eða atvinnulífi viðkomandi landa.

 

Og hvernig dregur maður kerfi til ábyrgðar.

Notum við Sovésku leiðina, að kenna einum manni, látnum um allt sem miður fór og höldum svo áfram með sama kerfi og sama ránsskap og áður???

Notum við leið bandamanna eftir sigur þeirra í öðru  heimsstríðinu???  Þar lögðu menn niður kerfið og ákærðu helstu stjórnendur þess ásamt þeim gerendum sem gerðu sig seka um bein óhæfuverk.

Eða er til einhver önnur leið????

 

Íslenska þjóðin kaus Sovésku leiðina, að láta seka menn ákæra einn úr sínum hópi, reyndar ekki látin, en veikan og hættan.  Síðan hefur hún þurft að sætta sig við ennþá verri svínskap en nokkurn tíman var fyrir Hrun.  Birtingarmynd þess er að einstæðar mæður eru reknar af heimilum sínum, út á gaddinn, en hinir ofurauðugu halda fyrirtækjum sínum en fá skuldir sínar afskrifaðar, hvort sem það er beint eða í gegnum leppa.

 

Var sigurvegaraleiðin möguleg???

Svarið er augljóst Nei og ástæðan blasir við.  Og þarf ekki að ræða hana frekar.

 

Er þá allt glatað, er þjóðin dæmd til að lúta forræði þjófsleppa um aldur og ævi???  Og svo á meira að segja að meina henni að hengja þann eina sem valdaelítan býður fram til hengingar.  

Svarið er líka augljóst, Nei.  Og það þarf ekki mikla kunnáttu í samtímasögu til að vita rökin fyrir því Nei-i.  

Rannsóknarnefndir hafa reynst vel hjá lýðræðisríkjum Vesturlanda til að gera upp mál sem varða almannahag og ekki er hægt að afgreiða á annan hátt.  Til dæmis mál sem henta ekki dómskerfi vegna óljósra laga eða þau eru flókin og viðamikil og ekki svo augljóst hvað hafi átt sér stað eða hvar ábyrgð liggur og svo framvegis.

Og sérstaklega hafa rannsóknarnefndir verið notaðar þegar mál varða brotalamir, hvort sem það er á stjórnkerfi eða dómskerfi.

Eðli rannsóknarnefnda er að það er ekki verið að ákæra menn og því týnast málsatriði ekki í skotfgröfum lögfræðihernaðar.  Þær hafa heimildar til að kalla hlutaðeigandi til yfirheyrslu og þær hafa valdheimildir til að refsa þeim sem neita að svara eða gefa upp röng svör eða hvernig sem á að orða það.

 

Best heppnaða dæmið um slíka rannsóknarnefnd er Sannleiksnefnd Nelsons Mandela undir forystu Desmond Tutu biskups.  Fullyrða má að hún kom í veg fyrir blóðugt uppgjör ólíkra hópa sem hefði örugglega kostað hundruð þúsunda lífið.  

Hugmyndafræði hennar var skotheld, segðu satt og þú munt ekki vera ákærður.  Og það nægði að einn sagði satt, þá áttu aðrir gerendur ekki aðra valkosti.

Og hvað gerðu menn við þennan sannleika, jú menn lærðu að honum, og menn lærðu allt um gerendur óhæfuverkanna, vinnubrögð þeirra og aðferðir.  Þannig var komið í veg fyrir frekari óhæfuverk því þau fremja sig ekki sjálf, og eru ekki framin ef gerendur eru teknir úr umferð.

 

Fyrst eftir hrun var Sovéska leiðin ekki í umræðunni.  

Þriðja leiðin, rannsóknarnefndin varð ofaná.  Og Rannsóknarnefnd Alþingis vann góða vinnu, hún kortlagði það sem gert var og lagði drög að alvöru uppgjöri.  

Og hvað er alvöru uppgjör???

Jú, að gerendur Hrunsins komi fyrir nefnd og segi hvað þeir gerðu. 

Tortillafélögin stofnuðu sig ekki sjálf.   Útrásarvíkingarnir fengu ekki í vöggugjöf vitneskju sína um gráu svæðin.  Stjórnmálamenn skúruðu ekki á kvöldin og um helgar til að fjármagna prófkjör sín.  Allar beinu línurnar frá skrifstofum útrásarinnar til fjölmiðla og háskólamanna voru ekki bara með símtæki öðrum megin, það er hjá útrásarvíkingunum.  Það var alltaf einhver á hinum endanum.

 

Og niðurstaðan, þjóðin hefði vitað og gamla kerfið hefði ekki verið endurreist.  

Ekkert ICEsave því það voru gerendur Hrunsins meðal fjölmiðla og háskólamanna sem lugu greiðsluskyldunni upp á þjóð sína.  

Ekkert krónubraskaralán, engin bankagjöf til ameríska vogunarsjóða, engar ofurafskriftir til auðmanna.

Af hverju, jú þetta stangast allt við heilbrigða skynsemi við uppbyggingu efnahagslífs þjóða eftir fjármálarán og enginn hagfræðingur er svo arfavitlaus að mæla með þessu, ekki nema hann sé á launaskrá hjá þeim sem högðu hag á að ræna þjóðina eftir Hrun.  Og þá er öruggt að hann var á launaskránni fyrir Hrun.  Það má ekki gleyma hvað gífurlegir peningar voru í svikamyllunni, þeir sem gambla með slíkar upphæðir, þeir kaupa umræðuna.  Já, inní þeim kaupum eru fjölmiðlamenn, upp til hópa.

Gleymum ekki að svona kaup eru sjaldnast í beinu formi, heldur hefur sá sem spilar með það gott en hinum er allt til miska gert.

 

Þegar maður áttar sig á hvað var undir að Hrunið yrði ekki rannsakað á þann hátt sem ég lýsti lauslega, þá þarf ekki að koma manni á óvart að alltíeinu var farvegur uppgjörsins kominn í Sovésku leiðina.

Gerendurnir vildu ekki að mál sín væru rannsökuð frekar og þeir komu í veg fyrir það.  

Það er engin tilviljun að það eina sem Alþingi gerði með skýrslu Rannsóknarnefndar sinnar var að ákæra aðeins einn mann og líklegast er leikritið sem þjóðinni var boðið uppá í gær, engin tilviljun heldur.

Að umræðan var sett i farveg sem ekkert kæmi út úr.

Og niðurstaðan yrði að engin bæri ábyrgð. 

 

Það er hreinlega alltof mikið í húfi til að sannleikurinn mætti koma í ljós. 

Og þannig standa málin í dag, það á að kæfa sannleikann.

Og enginn mun axla ábyrgð á Hruninu mikla.

 

Ekki nema fólk sameinist um eina kröfu.

Kröfu um satt og heiðarlegt uppgjör óháðra aðila.

Og það er ekkert sem bendir til þess að svo verði.

 

Og á meðan Fýkur yfir hæðir á götum Reykjavíkur.

Kveðja að austan.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 315
  • Sl. sólarhring: 794
  • Sl. viku: 6046
  • Frá upphafi: 1399214

Annað

  • Innlit í dag: 267
  • Innlit sl. viku: 5122
  • Gestir í dag: 251
  • IP-tölur í dag: 249

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband