20.12.2011 | 13:41
Sporin hræða.
Fyrstu málsmetandi einstaklingarnir sem tóku upp vörn fyrir Ísland í ICEsave deilunni voru lögfræðingarnir Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor og Lárus Blöndal, hæstaréttarlögmaður.
Það gerðu þeir með gagnmerkri grein í Morgunblaðinu þann 15. okt 2008 undir heitinu "Ábyrgð ríkisins á innlánum".
Og uppskáru þögnina eina.
Það er rétt að rifja upp aðra grein þeirra félaga, "Í hvaða liði eru stjórnvöld?", frá 3. feb 2009 þar sem þeir árétta skoðanir sínar ásamt því að vekja athygli á svari utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar á "fyrirspurn um hvort hann hafi látið kanna lögfræðileg rök fyrir því hvort Íslendingum beri lagaleg skylda til að greiða Icesave ábyrgðirnar og hver sé þá niðurstaða þeirrar skoðunar."
Í greininni segir
"Í svarinu kemur m.a. fram að rök gagnaðila okkar séu samhljóða um að fráleitt sé að halda því fram að ábyrgð okkar takmarkist við eignir tryggingasjóða. Þá segir í svarinu að nokkur fjöldi álitsgerða liggi fyrir og að þungvæg lögfræðileg rök eru talin hníga að því að túlka tilskipunina um innstæðutryggingar þannig að íslenska ríkið verði að hlaupa undir bagga með tryggingasjóðnum til að greiða lágmarkstryggingar. Þessar álitsgerðir og þau rök sem fram koma í þeim virðast þó samkvæmt svari ráðherra vera trúnaðarmál, hvernig sem á því stendur."......
"Við undirritaðir höfum ítrekað sett fram þessar gagnstæðu skoðanir og engin rök hafa enn komið fram sem hnekkja þeim. Í máli sem varðar hagsmuni fyrir okkur Íslendinga upp á 650 milljarða króna er ekki boðlegt að láta við það sitja að fullyrða að til séu þungvæg rök gegn því sem við höldum fram en ekki sé hægt að segja frekar frá þeim rökstuðningi."
Það var sem sagt trúnaðarmál af hverju þjóðin átti að borga ICESave og ekki nema von að þeir Stefán og Lárus spyrðu í hvað liði stjórnvöld væru.
Þess má geta að starfsmenn utanríkisráðuneytisins sem höfðu haft einhver samskipti við Brusselvaldið lágu ekki á þeirri skoðun sinni að Íslandi bæri að ábyrgjast ICEsave skuld Landsbankans.
En rök þeirra voru trúnaðarmál líkt og rökin sem utanríkisráðherra vísaði í.
Seinna kom í ljós að ástæða þess að ekki var hægt að birta hinn meinta rökstuðning var sú að hann var ekki til staðar, fullyrðing utanríkisráðherra og starfsmanna hans var tilbúningur, settur fram til að blekkja þjóð sína.
Í dag ætlar íslenska ríkisstjórnin að láta sama mann og laug stanslaust að þjóð sinni að hann hefði "þungbær" rök fyrir greiðsluskyldu hennar, sjá um málsvörn landsins fyrir EFTA dómnum.
Hvað "þungbæru" rök skyldi hann færa nú fyrir málstað þjóðarinnar???
Ætlar hann að nota sömu lögfræðinga og síðast, lögfræðinga sem svertu æru lögfræðinnar með pólitískum greinargerðum í þágu bresku fjárkúgaranna en þáðu fyrir háar fjárhæðir frá íslensku skattgreiðendum???
Gangi þessi samþykkt eftir þá er ljóst að ríkisstjórn Íslands ætlar enn einu sinni í stríð við íslenskan almenning út af ICEsave málinu.
Það á að svíkja.
Menn ráða annars ekki svikara til verka.
Kveðja að austan.
![]() |
Utanríkisráðuneytið í fyrirsvari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.4.): 5
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 1856
- Frá upphafi: 1438588
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 1564
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Þetta er rétt hjá þér með svikin. Össur og félagar ætla að svíkja. Það er einskonar yfirlýsing um svik frá þeim í síðasta kafla fréttarinnar til þess sett þar inn að eyðileggja málið fyrir Íslendingum. Þar segir að ESA og framkvæmdastjórn ESB ofl verði inni á borði hjá Íslendingum eins og gráir kettir hrærandi í málinu til þess að eyðileggja það. Það getur engum dulist að það verður verklagið.
Þetta er með ráðum gert af hálfu Össurar og ríkisstjórnarinnar. Enda felast þeirra persónulegu og flokkshagsmunir í því að Ísland tapi málinu. Sönnunin fyrir þessari fullyrðingu liggur í þeirri gjörð að hleypa andstæðingum okkar inn í málsvörnina með málfrelsi og tillögurétt. Þvílík fáviska!! Þvílík landráð enn einu sinni ef af verður hjá þessum mönnum.
Rekkinn (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 14:32
"Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segist hafa selt stofnafjárhluti sína í SPRON árið 2007 vegna þess að honum fannst ekki passa að halda á hlut í fjármálafyrirtæki og vera jafnframt ráðherra í ríkisstjórn. Hann hagnaðist um 30 milljónir króna á viðskiptunum og greiddi af því fullan fjármagnstekjuskatt..." Efast einhver um heiðarleika svona, manns sem greiðir meira að segja fjármagnstekjuskattinn? Og það meira að segja þótt hann segðist fyrir dómi ekki hafa hundsvit á fjármálum.
Almúginn (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 15:03
Er almenningur svo heimskur að láta þessa óstjórn og kvislinga mergsjúga sig? Á hann það kannski skilið? Eða á að safna liði og sýna klærnar á nýju ári? Veldur hver á heldur...
Skúmurinn (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 15:21
Takk fyrir innlitið félagar.
Svikin eru óðum að skýrast. Lögfræðingurinn sem var fenginn í fréttatíma Ruv til að hræða almenning, daginn sem ESA tilkynnti um kæru sína til EFTA dómsins, hann leiðir samráðshóp utanríkisráðuneytisins annars vegar og efnahags og viðskiptaráðuneytisins hins vegar.
Hann laug blákallt um hugsanlega niðurstöðu EFTA dómsins, núna á hann að sjá um varnarvinnuna.
Þetta er svona svipað og að Bandaríkjamenn myndu láta Sauda sjá um að skipuleggja varnir sínar gagnvart Al Kaída.
Svikamyllan er að taka á sig mynd.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.12.2011 kl. 20:55
En Lárus Blöndal vildi svo samþykkja Bucheit samninginn. Rétt að halda því til haga.
En annars er þetta auðvitað "trúleg" samsæriskenning. Það myndi gagnast ríkisstjórninni að tapa Icesave málinu og fá á sig kröfu uppá fleiri hundru milljarða. Augljóslega.
Einar Karl, 21.12.2011 kl. 09:25
Blessaður Einar Karl, langt síðan ég hef heyrt í þér, sínir hvað allt hefur verið rólegt, svo kemur þessi fjandi rétt fyrir jól.
Ég sé að þú hefur lítt lesið mig undanfarið, og ert því vart tækur í próf í samsæriskenningum mínum. Og vilt því glaður fá kennslu fyrst þú ert að kíkja hérna inn eftir að ég er kominn í frí frá öllum stríðsrekstri.
Svo við höldum okkur við hagann þá er ég að vitna í lögfræðinginn Lárus Blöndal, sem vann merkilega vinnu ásamt félaga sínum Stefáni Má við að undirbyggja lagavarnir Íslands. Eins og hann bendir réttilega á þá hefur enginn alvöru lögfræðingur lagt í rökstuðning þeirra, lagabull ykkar ICEsave sinna hefur komið frá meistarnemastelpu, afdönkuðum ráðherra, Sleggju og einum þriðja flokks lögfræðingi.
Sem er skýring þess að þið töpuðu rökræðunni Einar minn, rökin voru og eru öll okkar megin. Sem er svo skýring þess að það er útilokað að fá dóm gegn málstað þjóðarinnar því Evrópa er réttarríki. Sem er svo önnur skýring þess að málið hefur ekki farið fyrir dóm og nýjasta plottið er úthugsuð leið til að hindra það.
Þetta er sem sagt haginn, sjálfstæðismaðurinn Lárus Blöndal gerði hins vegar formanni sínum greiða og reyndi í það fyrsta að ná viðunandi samning og í það annað að verja þann samning. Og það má bæði segja um málflutning Lárusar og Bjarna Ben, að báðir gerðu eins og þú í grunnbloggi þínu um ICEsave afstöðu þína, þeir lugu aldrei til um lögfræðina.
En menn geta viljað samninga á öðrum forsendum.
Og þá er það 101 samsæriskenningar, af hverju allt þetta ólán sem fylgt hefur ríkisstjórninni??
Upphaflega held ég að stjórnkerfið hafi haldið að ríkisábyrgð hefði einhvern veginn laumað sér inn í EES samninginn, ekki af því menn gátu lesið það í samningnum, heldur af því að svo margir í Útlöndum sögðu þeim það.
Það veikti fyrirfram varnirnar.
En grunnástæðan var kúgun. Eitthvað sem blasir við.
En það er oft þannig með tunnur, að það glymur hærra í þeim eftir sem minna er í þeim, sbr glymur hátt í tómri tunnu. Hótanirnar reyndust án innstæðu, AGS lánið var algjörlega óþarft og því skipti engu máli þó AGS beitti þrýstingi. Og viðskipti landsins við ESB lönd gengu greiðlega enda Evrópa ekki einræðisálfa þar sem kommissarar geti ráðskast með viðskiptalífið.
Þetta er ljóst á þeim tímapunkti sem ICESave 2 er gert, fram að því skyldi ég svo sem greyin, lafhrædd og skjálfandi en bjuggu við þá kvöð sem við utanaðkomandi höfum ekki, að hafa ábyrgðina og urðu að meta áhættuna ef ESB reyndist vera glæpamannasamfélag sem gerði alvöru úr kúgun sinni og ofbeldi.
Ég er ekki sammála þeim en ég skil þá.
En ICEsave er arfaslakur samningur, það sést hvergi í samningnum að menn hafi nýtt sér breytta vígstöðu, og þess vegna fór sem fór. Hefðu menn samið á þeim nótum sem Lárus og félagar sömdu um, þá hefði sá samningur ekki farið í þjóðaratkvæði og ég væri núna að læra gerð mólitófkokteila, ásamt öðrum örfáum sérvitringum.
Þá er stóra spurningin, af hverju semja menn um hvað sem er???
Og eina svarið er viljinn til að komast inn í ESB.
Sem útskýrir svo ICEsave 3 og væntanlega ICEsave 4.
Hefðir þú lesið pistla mína þá veistu að ég sagði í uppbyggingu samsæriskenningarinnar að ESB vildi að málinu yrði formlega lokið, að á einhvern hátt myndi Ísland viðurkenna formlega sekt sína, en því fylgdi ekki miklar fjárkröfur. Í framhaldi kom ég með giftingarsamlíkinguna, ættaða frá Afganistan.
Það á að semja áður en málið verður dæmt.
ESB menn eru engir asnar, þeir vita að rangur lögfræðilegur dómur, byggður ótæku lögfræðiáliti ESA, að hann skaðar sambandið meir en sektardómur. Meira að segja Stalín passaði sig á að láta dómana í réttarhöldunum yfir fyrrum samstarfsmönnum Leníns fara eftir gildandi lögum. Þess vegna varð að brjóta niður sakborningana áður svo þeir vitnuðu og sungu í réttarsalnum um alla glæpi sem einn maður komst yfir að fremja á 100 árum, og því voru þeir sekir, samkvæmt lögum.
Þetta vissu menn meira að segja á miðöldum, menn fölsuðu sönnunargögn en ekki lögin. Og þegar menn svínuðu á lögum þá vakti það alltaf upp ólgu og uppreisnir, eða menn sátu upp með nið á mannorði sínu sem var ennþá verra.
Þó EFTA dómurinn sé það mikið skrípi eins og Norsararnir í ESA fullyrða, þá er kommissarar ESB það ekki, þú sérð til dæmis hvernig þeir hafa náð að beygja sjálfstæði ríkja í þágu evrunnar, evran væri löngu dauð ef Brusselvaldið væri ekki raunverulegt vald.
Og þar sem þeir hafa ekki her, þá hljóta þeir að hafa vit. Það eru engar aðrar skýringar á valdi,.
Svo áttu ekki að koma hér inn Einar og tala um fleiri hundruðu milljarða, ég hélt að við hefðum verið ásáttir um að hafa bullið á öðrum síðum, þú kæmir bara hingað inn þegar þú vildir spjalla.
Vissulega veit ég að hér er margt langsótt sagt, ég nennti þessu ekki öðru vísi, en jafnvel hið hæpnasta byggist á rökum og staðreyndum, það er túlkun þeirra og teyging sem er umdeilanleg, enda erum við Vaðlvíkingar mjög deilugjarnir og frábitnir ládeyðunni í umræðum.
Ég hef ekkert á móti því að málið fari í dóm en ef ríkisstjórnin myndi í alvöru vilja það, þá stæði hún ekki þannig að málum að mönnum eins og mér er skemmt.
Mér leiðist ekki klúður auðræðisins, það get ég sagt þér.
Minn hættulegasti andstæðingur var Árni Páll.
Bið að heilsa suður.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.12.2011 kl. 13:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.