LYGI !!!!!!!! um lygi.

„SA vinna að því að skapa fyrirtækjum landsins sem best starfsskilyrði. Frá haustinu 2008 hafa allar tillögur SA miðast við að koma atvinnulífinu af stað, efla hagvöxt og auka framkvæmdir í landinu,“.

Frá því að land byggðist hafa dýrari öfugmæli ekki verið kveðin hér á landi, nema reyndar þegar íslenskur kommúnisti kallaði Bóndann í Kreml mannvin á síðum Þjóðvíljans sáluga. 

En það var óvitahjal en maður skyldi ætla að skrifstofur SA væri ekki dagheimili.

 

Samtök atvinnulífsins ásamt Alþýðusambandi Íslands knúðu veiklundaða ríkisstjórn Geirs Harde til að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þvert gegn vilja Seðlabankans, og afhenda sjóðnum yfirstjórn efnhagsmála landsins.

Þó er það skjalfest af staðreyndum sögunnar að síðustu 30 ár eða svo hefur sjóðnum allstaðar mistekist og gert vont ástand verra, og sums staðar hreinlega gert tilraun til að rústa efnahag þjóða með Vúddú hagfræði sinni.

 

Að kalla hina misheppnuðu stefnu AGS "að skapa fyrirtækjum landsins sem best starfsskilyrði" er vanvit á háu stigi.

Bara hávaxtastefna sjóðsins, sem Samfylkingarlepparnir í Seðlabanka Íslands fylgja dyggilega, skýrir þá stöðnun og kreppu sem hér ríkir.

Og afneitun á skuldavanda heimilanna er líka ein og sér ástæða fyrir samdrætti og kreppu á komandi árum.

 

En stuðningur við skuldastefnu sjóðsins, ICESave og krónubraskaralánið, var glæpur.  

Skuldastefnu sem ætlaði um 60% af tekjum ríkisins færi í vexti og afborganir.

Í vestrænni nútímasögu er aðeins eitt dæmi um meiri illvilja gagnvart samlöndum sínum og það er þegar Austur Evrópskir kommúnistar sendu samlanda sína í Sovéska Gúlagið.

Aðeins hyski hagar sér svona.

 

Og hverjar voru svo  tillögur SA til að "koma atvinnulífinu af stað, efla hagvöxt og auka framkvæmdir í landinu"?

Jú, risaframkvæmdir í orkuvinnslu, áætlaðar yfir 300 milljarðar á næstu árum.

Að hluta átti að virkja svæði sem voru órannsökuð, þvílík er heimskan.

 

Og það átti að virkja uppá skuld, ofaná á AGS lánið og ICEsave þá áttu orkufyrirtækin að slá lán fyrir hundruð milljarða.  Orkufyrirtæki sem gátu ekki staðið í skilum með þau lán sem þau höfðu þegar tekið.  Þvílík er heimskan.

Og á tímum þar sem hið alþjóðlega fjármálakerfi riðar til falls.

Og það er hin algjöra heimska.

 

Það veit enginn hvort eitthvað fjármagn verði til reiðu á næstu árum, það veit enginn hvernig mun ganga að endurfjármagna þegar tekin lán.

Hvað þá þegar þjóðin hefði nýskuldsett sig á annað þúsund milljarða króna í ICESave og krónubraskaralánið.

Það er ekkert mannlegt sem útskýrir þessa heimsku, þetta er algjörveruleikafyrring.  Enda vill sama fólkið ólmt ganga í Evrópusambandið og taka upp evru þó allt sé í rjúkandi rúst á meginlandinu vegna hennar.

Þetta lið er eins og íslensku kommúnistarnir sem sáu aðeins bústin og sælleg börn í Kiev á dögum hungursneyðarinnar miklu.  Sælleg og hreyfanleg, jafnvel þau sem voru liðin lík.

Það er engin tenging til staðar við raunveruleikann.

 

En vissulega lýgur SA vegna lygi Jóhönnu Sigurðardóttur um að hún hafi gert eitthvað.

Aðgerðarleysi og vanhæfni ríkisstjórnar hennar blasir við öllum.

Og í því er gæfa þjóðarinnar fólgin.

 

Ef hæft fólk hefði framfylgt óráðum AGS, þá værum við gjaldþrota þjóð í dag.

En við eigum ennþá von, þökk sé Jóhönnu og Steingrími.

 

En sú von á ekki húsaskjól við Austurvöll.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


mbl.is Vísa orðum forsætisráðherra á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

SA eru einhver mestu bull-samtök, sem Ísland hefur upp á að bjóða. Eigi fyrir all löngu var ég á fundi hjá þeim Vilhjálmi og Vilmundi norður á Húsavík. Þeir félagar voru vægast sagt hrikalegir. Ég bað Vilhjálm um upplýsingar um Carbon Recycling prójektið, en hann vissi ekkert í sinn haus. Þá talaði Vilmundur eins og Valhallar–stuttbuxna-strákur. Það var eins og að vera kominn á Sjalla fund. Ekki hlusta á þessa stofnun á meðan hún er útsendari eins flokks. SA eigi og verða að vera alvöru samtök, í þágu allra atvinnurekanda. En eins og SA er í dag, eru þeir landinu til skammar og fjárfestar erlendis vita að þessi klíka er vonlaus. Þeir forðast hana eins og heitan eldinn.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.9.2011 kl. 20:38

2 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

AGS er farið. Ísland er ekki rjúkandi rúst. Þeir sem héldu því fram að AGS mundi droppa einhverri efnahagslegri sprengju á Ísland þurfa að svara fyrir sig. Það er stórfurðulegt að fjölmiðlar hafa ekki tekið fólk einsog Lilju Mósesdóttir í viðtal og spurja henni úti lygarnar sem hún hefur haldið fram varðandi AGS.

En hvað er að því að virkja okkar auðlindir á skynsaman hátt? Auka gjaldeyristekjur, atvinnustig, skattekjur og fjárfestingar í þessu landi. 

Það er óþarfi að virkja á umdeildum svæðum. Þetta er vel útlistað í skýrslu Landsvirkjunar. 

http://www.landsvirkjun.is/frettir/frettasafn/nr/1413

Auðindir okkar geta skapað okkur svipaðar tekjur og olíusjóður Norðmanna.

Sleggjan og Hvellurinn, 28.9.2011 kl. 21:31

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið félagar.

Haukur, ég held að vandi þjóðarinnar fari ekki eftir flokkum, það er ákveðin hugmyndafræði sem er gjaldþrota.  Hugmyndafræði sem á raddir í öllum flokkum, allavega hljómar tungutak hennar allsstaðar.

Sleggja mín.  Elsku besta Sleggjan mín.

Ísland er ekki gjaldþrota vegna þess að vitiborið fólk greip inní, það hindraði ICEsave fjárkúgunina, það hindraði heimskuna að borga út braskarakrónurnar þó sú vá vofi ennþá yfir okkur, og raunveruleikinn hindraði virkjunarbrjálæðið.

Brjálæði því ofurskuldsett fyrirtæki nýframkvæma ekki fyrir lán.  Og þeir sem skilja það ekki, þeir skilja ekki neitt, þó þeir hugsanlega kunni að stafa nafnið sitt.

Og það er sorglegt að ungur maður eins og þú skulir ekki skynja ástandið í dag.

Stórir hópar fólks sveltur.

Lungað af fólki á aldrinum 30-50 er í fjárhagserfiðleikum, og fólk sér ekki fram úr skuldum sínum.

Og það sem alvarlegast er, þjóðin lifir á útsæðinu.  Það er ekkert fjárfest, og það litla líf sem er hér er vegna peningaprentunar, hvort sem hún var úttekt á lífeyrissjóðsreikningum eða halla ríkissjóðs.

Og þessi peningaprentun er að þorna upp.

Ennþá alvarlega er með þig Sleggja, ungur maður sem átt líklegast eftir að eignast afkvæmi, að þú skulir ekki skilja hvað er að gerast í heiminum.

Það veit enginn hvað gerist ef fjármálakerfi heimsins hrynur, það eina sem er vitað er að það er skelfilegt.  En það er öruggt að bankar sem eru endurfjármagnaðir af ríkisvaldi landa sinna, að þeir fjármagna ekki risastóriðjuuppbyggingu á Íslandi, og þeir endurfjármagna ekki þegar veitt lán, þeir vilja fá þau borguð.

Þú ættir að hafa þá heilbrigðu skynsemi að geta sagt þér að fyrirtæki sem gátu ekki greitt lán sín eftir 10 ára góðæri, að þau gera það ekki á tímum  fjármálaöngþeytis og efnahagskreppu sem enginn veit hvernær endar.

Og þau ráðast ekki í frekari nýframkvæmdir út á góðvilja lánastofnanna, það er meginskýring þess að hér hefur ekki verið virkjað, þau fá ekki lán.

Og ég var ekki að tala um umdeild svæði, ég var að benda á að Helgurvíkurdraumórarnir áttu að hluta til að reddast með virkjunum á svæðum sem lítt eru rannsökuð, um þetta skrifaði jarðfræðingur grein fyrir tæpum tveimur árum síðan, og rökum hans hefur ekki verið hnekkt.

Þetta með auðlindir okkar, þær skapa tekjur ef menn selja ekki með tapi, eitthvað sem nýji forstjóri Landsvirkjunar benti á um leið og hann var ráðinn, og í kjölfarið endursamdi hann við Alcoa.  Og hinar meintu tekjur í skýrslunni sem þú vitnar i gera ráð fyrir að orkan sé seld á verðum sem skila arði.

Eitthvað sem íslenskir stjórnmálamenn skildu ekki þegar samningar voru gerðir við Norðurál og Fjarðaál.

Og þegar þeir ætluðu að rjúka af stað með risafjárfestingar sínar í kjölfar ICESave samningsins, þá skildu þeir það ekki.

En ef þú skyldir ekki vita það að þá er milljón sinnum tap miklu hærri upphæð en hundrað sinnum tap.

Öruggt gjaldþrot heimskunnar, og þjóðarinnar.

Þú átt að hafa vit til að sjá þetta Sleggja mín, og innst inni veist þú það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.9.2011 kl. 22:17

4 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Ísland hefði ekki verið gjalþrota þó að Icesave hefði verið samþykkt. Það mun fást uppí kröfurnar og samningurinn var mjög hagstæður og í honum var ákvæði sem leyfði ekki gjaldþrot.

Þetta með braskarakrónunnar tengist AGS ekki neitt. Í rauninni var AGS sem hvatti til þess að setja höft. Þannig að þú mátt þakka AGS fyrir að braskarakrónunnar fóru ekki út. Skv þínum málflutningi þá er það AGS að þakka að Ísland fór ekki á hausinn. (sem er ekki rétt. Ég setti þetta bara fram útaf þú settir þetta svona upp)

Vissulega misstum við okkur í virkjunarbrjálæði. Það á ekki að fara í stærstu framkvæmndir Íslandsögunnar í miðri þennslu. En það er óhætt og mjög hagstætt að virkja þegar það er slaki í hagkerfinu einsog núna.

Alcan mun reisa álverið. Það er ekki ofurskuldsett fyrirtæki seinast sem ég vissi og Landsvirkjun er í góðri stöðu. Ríkissjóður er að hugleiða að láta fyrirtækið greiða sér góðann arð vegna góðri stöðu. Þú vilt kannski frekar skera niður í velferðarkerfinu í staðinn fyrir að þyggja þessa „brjálæðis virkjunarpeninga“

Það er rétt að stórir hópar svelta. Væri þá ekki tilvalið að skapa ný störf svo fólk fái vinnu og Ísland fær skattekjur og gjaldeyristkjeur. Ein hugmynd væri að virkja auðlindir okkar.

Það er alveg rétt hjá þér að ástandið er slæmt í dag. Eitt að markmiðum AGS var að takast á við skuldavanda heimillana  http://www.efnahagsraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3269 Ég skil alveg að ástandið er slæmt í dag... það þarf erlendar fjárfestingar til að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Það þarf að stækka kökuna en ekki berjast um sömu sneiðina.

Alcoa kemur með peningana og Landsvirkjun gegnur ágætlega að fjármagna sig http://www.landsvirkjun.is/frettir/frettasafn/nr/1227

Það hefur verið gerð stór og mikil mistök varðandi stórframkvæmdir. En ég hreysti Herði Árnasyni fyrir að selja orkuna á ásættanlegu verði. Annars mundi ég segja NEI við frekar framkvæmdum.

En þú kemur með mikið böl og raus. Hvaða lausnir sérð þú ef þú ert á móti erlendri fjárfestingu. Það þýðir ekkert að færa frá hægri yfir í vinstri vasa lengur.

Sleggjan og Hvellurinn, 29.9.2011 kl. 00:06

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Sleggja.

Ég las reifara í gær eftir Desmond Bagley, þar kom fram ágætis frasi sem á vel við í dag, og þú mættir hafa bak við eyrað.

"staðreyndir málsins skipta ekki máli, heldur hverju þeir vilja trúa".

Sleggja, það er heimskreppa yfirvofandi, hún er reyndar skollin á en massíft inngrip stjórnvalda á Vesturlöndum hafa hliðrað spíralnum til um 2 ár.  Þar að leiðir að ekkert land rífir sig upp úr kreppunni með lánum frá öðrum þjóðum.  Þar að leiðir að virkjunarbrjálæði er aldrei raunhæft, við höfum ekki páerið sem þarf til þess.

Og að byrja á því í upphafi heimskreppu er öruggt gjaldþrot þegar lán eru ekki endurfjámögnuð.

Eins er það með ICEsave, samningurinn sem var fyrst borinn undir þjóðaratkvæði, var uppá 507 milljarða, sá sem Alþingi samþykkti haustið 2009 var verri, verstur var sá sem fyrst var skrifað upp á.

Skýring þess er vaxtagreiðslur í 7 ár áður en byrjað var að borga af samningnum.

Síðan eru atriði eins og festing þrotabúsina á endurgreiðslum við ákveðna krónutölu, gjaldfelling ef til dæmis Landsvirkjun fær ekki endurgreiðslu, og svo framvegis.

Óvissan er mikil, það er áætlað að endurheimtur verði betri, raunveruleikinn er hrun breska bankakerfisins þegar írsku bankarnir falla, raunveruleikinn er að ekkert hefur staðist sem skilanefnd hefur sagt um hvenær hún hefur endurgreiðslur og svo framvegis.  

Annars vegar máluð björt mynd á vegg, hins vegar kolsvartur veruleikinn.

Og í guðanna bænum hættu að tala um að þrotabúið greiði allt fyrr en það hefur greitt.  Það hefur ekkert greitt ennþá.

Varðandi krónubraskaralánið þá er bein ávísun á gjaldþrot þjóða ef menn taka erlend lán til að greiða út innlendan gjaldmiðil, faktur sem sagan sannar.  Gengið þarf að falla. 

Lendingin, gjaldeyrishöft var eina í stöðinni fyrst mönnum skorti kjark til að fyrsta verðtrygginguna, en það er bráðabirðaráðstöfun, samkomulagið við AGS hljóðar upp á að krónurnar fari út á ákveðnu gengi.

En það átti að frysta verðtrygginguna og skattleggja útstreymið og málið væri dautt í dag.

Sleggja, það er vanvit að ætla að þjóð standi undir afborgunum og lánum sem nema um það bil nettó gjaldeyristekjum hennar (þegar aðföng við að afla gjaldeyris eru dregin frá).  Það er vanvit að ætla að þjóð geti ráðstafað 60% af tekjum í vexti og afborganir.

Þú veist greinilega ekkert um samkomulagið við AGS, annars bullaðir þú ekki svona um að þrotabúið greiði ICESave.  Þér er algjörlega ókunnugt um þá vexti sem fjármálaráðuneytið ætlaði að gjaldfæra ef Svavarssamningurinn hefði verið samþykktur.  Hefði verið reynt að greiða af Svavarssamningum þá hefði samdráttaráhrifin riðið efnahagnum að fullu.

En SA á að hafa þekkingu til að vita það, þess vegna eiga þeir sér enga afsökun.

Mundu að við erum að ræða um ástandið og tillögur haustið 2008 og í byrjun árs 2009.  Það er rétt að ekki gekk hryllingurinn eftir en það er vegna þess að þeir voru hindraðir í ætlunarverki sínu.  Sú gjörð að skjóta saklaus ungmenni út i eyju, er jafn ill þó lögreglan hefði handtekið illmennið á síðustu stundu.  Og þá er það ekki afsökun að honum tókst ekki að myrða fjöldann og þar með málið dautt.

En í dag erum við að upplifa hægfara dauða, sem er munurinn á blásýru og arzeniki, skjótur dauði sem tókst að hindra, hægfara sem blasir við.

Aftur að Landsvirkjun.

Hörður er skynsamur maður sem er að gera góða hluti.  Ég er ekki sammála sumum markmiða hans, en ég ber ekki upp á hann vanvit, heimsku eða annað, enda hef ég engar forsendur til þess.  Hann áttar sig á forsendum arðsemi og gaf Landsvirkjun von með því að endursemja um orkuna frá Kárahnjúkavirkjun.  Hann breytti milljón sinnum tap í milljónum sinnum smá hagnað per einingu.

En þegar SA vildi samþykkja skuldir á þjóðina sem í besta falli voru rúmlega þúsund milljarðar, og bæta síðan ofaná skuldsetningu uppá a.m.k. 300 milljarða vegna virkjana, þá var Hörður ekki búinn að móta stefnu Landsvirkjun.  Og þegar er rokið að stað í æðubunugangi, þá er samningsstaðan engin.

Þeir sem framkvæma fyrst og semja svo um verð, semja alltaf um tapverð.

Heimskan er því algjör og Hörður eftiráskýring fær þar engu breytt þegar ákvarðanatakan eftir Hrunið er gagnrýnd.

Annað, Hörður sjálfur hefur sagt að Landsvirkjun hafi ekki fjárhag í stærri verkefni.  Orkuveita Reykjavíkur er að róa lífróður til að hindra gjaldþrot.  Hitaveita Suðurnesja er gjaldþrota og núverandi eigandi hennar á ekki bót fyrir boruna á sér og kemur því ekki með eigið fé sem dugar til skynsamlegra virkjana.

Og ef katastrofan erlendis gengur eftir, sem allt bendir til, þá endurfjármagna orkufyrirtækin ekki lán sín.  Kárahnjúkavirkjun til dæmis var fjármögnuð með skammtímalánum.

Í slíkri stöðu reyna menn að skapa sér flóttaleið, og sú flóttaleið er ekki að slá ný lán ennþá hærri en þau sem fyrir eru.

Og þó þú sjáir það ekki Seiken, þó íslenskir stjórnmálamenn sjái það ekki, þá eiga SA menn að sjá það.  Þeir hafa ekki vanþekkingu sér til afsökunar.

Þú spyrð mig hvað eigi að gera.

Ég hef margoft bent á það.  Lykillinn að endurreisn landsins var afskrift skulda heimilanna og endurskipulagning skulda almennra fyrirtækja en auðsteypurnar áttu að setja í þrot og selja eigur þeirra.

Með öðrum orðum, ég vil endurreisn kapítalismans, skapa skilyrði og þrauka á meðan uppskeran kemur í hús.  Hef á ýmsum stöðum rætt það ítarlega, geri það ekki núna því ég er að gagnrýna heimsku.  Heimsku þeirra sem ráða.

En það er röng nálgun að það þurfi að gera eitthvað, fólkið gerir eitthvað, ef það fær til þess ráð og svigrúm.  Þannig er lífið.

Að lokum, ég gæti verið einlægur virkjunarsinni, sem ég er ekki því það er vanhæf nýting orkunnar, en samt myndi ég aldrei vera svo vitlaus að leggja til að gjaldþrota fyrirtæki tækju lán til að virkja, hjá þjóð sem á ekki fyrir skuldum sínum.

Það þarf forsendur til að virkja, þær forsendur eru ekki til staðar í dag.

Skoðanir breyta ekki staðreyndum lífsins.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.9.2011 kl. 08:06

6 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Þetta er að mestu leyti rétt hjá þér. Ég bara veit ekki hvort þetta sé eitthvað svar til mín beint.

Ég veit alveg að ástandið er slæmt.

Ef Landsvirkjun getur ekki fjármagnað sig þá nær það ekkert lengra. En Landsvirkjun gaf út 5ára skuldabréf á þessu ári 70 milljónir bandaríkjadollara og útboðið gekk bara mjög vel.

Þín stóra lausn er að afskrifa skuldir.

Það er fín lausn. EF það er ekki gert á kostnað skattborgara. Íbúðarlaánsjóður stendur mjög illa nú þegar og ef það kemur 30-50% afskirftir til viðbótar þá þarf ríkissjóður að hlaupa undir bagga.

Sleggjan og Hvellurinn, 29.9.2011 kl. 08:21

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Elsku besta Sleggja mín.

ÉG væri ekki að eyða takmarkaðri orku minni á þig nema vegna þess að ég veit að í mönnum eins og þér er sæði þjóðarinnar fólgin.

Eina rökvilla þín er þetta með að þrotabúið endurgreiðir, ef fyrsti ICEsave samningurinn hefði verið eins og sá síðasti, þá var váin vá, ekki öruggt gjaldþrot, og á móti væri sérvitringar eins og ég, sem bekenna aldrei að skuldir einkaaðila séu settar á almenning, án þess að almenningur sé látin samþykkja það fyrst.

Annað sem þú segir, byggir á rökum og sjónarmiðum, sem ég er reyndar ekki sammála, en það er ekki issu í málinu.  Rök eru rök, sjónarmið eru sjónarmið.

Ég hef rætt ítarlega skuldaleiðréttingu, og fært fyrir henni pottþétt rök, rök sem ég reyndar fann ekki upp, en tók eftir hjá mætum mönnum.  Þar eru fremstir Benedikt Sigurðarson, Gunnar Tómasson og Sigmundur Davíð, auk margra annarra eins og Marínó og nemdu það bara.

Trúin á mátt mannsins er mörg þúsund ára gömul, andstaðan við auðrán er álíka gömul.

Jú, ég var að svara þér, en per se öllum því góða fólki sem hélt að virkjunarbrjálæði væri svarið, þú gafst mér tækifærið, vegna þess að þú ert rökföst skynsemisvera.

Varðandi andsvar þitt, ber ekki á móti því að Hörður hafi getað endurfjármagnað sig á þessu ári, þar sem hann breytti milljón sinnum tap í milljónum sinnum lítinn hagnað, en gættu að takmörkun þíns rökstuðnings, fall fjármálakerfisins hefur blasað við frá allavega snemma árs 2009, og þar með gildir allt sem ég sagði um fjármögnun og endurfjármögnun.

Ég er ekki að rífast um virkjanir, get gert það út frá rökstuddum forsendum, en það er ekki málið í dag.

Málið er að þú framkvæmir ekki fyrir skuldir, heimild þeir mætu menn sem sögðu mér þetta, Gylfi Þ. og Árni Vill, gáfaðir menn sem  til dæmsi lúðar eins og ég þurfa nokkur líf til að nálgast í þekkingu.

Auðránið gekk gegn heilbrigðri skynsemi og gegn þekktum fræðum.  Ég veit það vegna þess að þegar ég var ungur, hvenær sem það var, þá nam ég fræði skynseminnar af mér miklu fróðari mönnum.

Líklegast er þinn vandi að þeir voru hættir þegar þú varst í skóla.

En taktu þessu ekki persónulega, þinn eini glæpur var að treysta hinu hefðbundna, að hlusta á menn sem þú taldir að hefðu þekkingu og vit.

En stundum er það þannig í sögu heimsins að þeir sem vit og þekkingu hafa, vaða í villu og reik.

Ef þú trúir mér ekki þá mátt þú lesa um leiðsögnina sem mun bjarga heiminum, sagnir um mann sem réðist gegn hinu viðtekna, og sáð fræði um leið sem mun hugsanlega gera mig að afa, og þig að pabba.

Hugsanlega, vegna þess að fólk skilur þetta ekki ennþá þrátt fyrir að 2000 ár hafi verið gefin fyrir skilning.

Steinn Steinar skildi þetta í sínu besta kvæði, og reyndar fjallaði kvæðið um harm mannsins, að hann almennt skilur ekki spekina.  ".. að allir menn verði góðir eins og blómin".

En gerðu ekki öðrum það sem þú vilt ekki að þér sé gert.

Og þess vegna berst ég fyrir skuldaleiðréttingu, þó ég hafi engan hag af henni.

Og ég berst gegn hagkerfi hins lægsta kostnaðar, sem er annað nafn yfir þrælahald.

Ég vill að strákarnir mínir lifi ekki lífi sínu sem þrælar.  Þar með er ég á móti þrældómi fátækst fólks á svæðum sem við köllum þriðja heiminn.

En fólk án siðferðar skilur það ekki, það segir; "þetta er svo hagkvæmt", og svar mitt er það, að það sé ekki hagkvæmt að eyðileggja þjóðfélög okkar með innflutningi á vörum sem þrælar framleiða.

Heimild, saga Rómarveldis.

Sleggja mín, Hvellurinn var ein af þínum góðum hliðum, rökfastar árásir þínar hreyfa við vitsmunum fólks sem vill rökstyðja sínar skoðanir.

Núna vil ég ráðleggja þér eitt, skoðaðu mín skrif, og mína spádóma um Hrunið og afleiðingar þess, og skoðaðu þína spár.

Þetta er ekki hroki, þetta er að ábending um þróun þinna skoðana.

Þær eru ekki rangar í grunninn, en villuljósin út í mýri eru röng.

Mín nálgun þarf ekki að vera rétt, en hún er leið til að nálgast hina réttu leið.

Því miður ert þú að elta villuljós.

En sú villuleit hefur ekkert að gera með þína hæfni og þitt vit til að feta slóðina sem kemur þér yfir mýrarforaðið (Tolkien, Tveggja turna tal).

En takk Sleggja mín, ég er að hugsa um annað, ekki heiminn, ég er aðeins að halda blogginu heitu því ég er alltaf að semja lokagreinina, "Í upphafi skal endinn skoða", önnur útgáfa.

Og ætla mér ekki á meðan að eyða tíma í rökræður, hæðnin og margt annað ræður  för.

Evran er búin og þar með Evrópusambandið sagði ég skjalfest í feb 2009, hvenær náðir þú að fatta samhengið???

Lærðu í stað þess að angra mig, gamlan og þreyttan.

Það er fullt að fólk þarna úti sem vill rífast um "Ekki" staðreyndir, mitt vandamál er að ég þekki leiðina út úr vandanum, ég trúi á sigur mannsins, en ég á aðeins þá trú.

Ekki vit eða getu.

Takk fyrir mjög skemmtilegar samræður í gegnum tíðina Þruma mín.

Þetta fer allt einhvern veginn.

Kveðja að austan.

Ómar 

Ómar Geirsson, 29.9.2011 kl. 10:15

8 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Skemmtileg færsla. Vitnar í Steinn Steinar og annað skemmtileg heit.

En já. Þú ert gjarnan að koma með Icesave. Ég er nú leiður á þeim pakka. Ég er bara að benda á að þessar innheimtur eru meira en NEI sinnar óttuðust um. Ég er ekki að mæla með Svavarssamningum. Það var hræðilega staðið að honum og Steingrímur á að segja af sér strax.. bara fyrir aðferðafræðina.

Ég er ekki nógu góður með svona hókus pókus hugsanir. Bara afskrifa skuldir og búmm!!  allt í góðu. Mín skoðun er sú að við afskrifitr hjá Íbúðarlaánsjóð sem var stærsti íbúðarlánandi þá þarf ríkisstjóður að dæla pening í hann.

En þetta með lægsta kostnaðar. Hagfræðin segir að hærri lágmarkslaun veldur meira atvinnuleysi. Lágmarkslaunin eiga að vera hógvær. En þetta með þrælahald og þriðja heiminn... þá er margt sem er mjög slæmt. Þetta er bara alþjóðavæðingin. Ef þú ert á móti þessu þá verðuru að borga sirka 900þúsund fyrir tölvuna sem þú ert að pikka á. Hún er sett saman í kína eða indonesíu. Ef fólk vill þetta borga milljón fyrir fartölvu, milljón fyrir iPhone og 100þúsund fyrir Nike íþróttaskó... þá er það bara gott mál. En það gengur ekki að drulla yfir alþjóðavæðinguna á tölvu sem kostaði bara 100þúsund kall  ;)

Sleggjan og Hvellurinn, 29.9.2011 kl. 11:12

9 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Ég hefði verið á því að í byrjun. Strax eftir hrunið þá átti að afskrifia 30-50% af öllum skuldum. Flatur niðurskurður.

En það er víst of seint. Ef marka má Sigmund Davíð og Ólaf Arnason.

Sleggjan og Hvellurinn, 29.9.2011 kl. 11:13

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Sleggja mín.

Jón Daníelsson mat samningin á 507 milljarða.  Hann benti á að eitthvað gæti farið upp og annað niður,  Hann lagði ekki mat á það, benti aðeins á hvað samningurinn kostaði íslensku þjóðina.

Þú segist núna vera leiður á því að ég og mínir líkir komu í veg fyrir þessar hamfarir.  Líklegast vegna þess að þú fattaðir aldrei hvað 507 milljarðar þýða fyrir þjóðarbúið.

Það er rétt að þrotabú Landsbankans ætlar endurheimtur meiri en hún ætlaði þá.  En það er áætlun.

Það sem við höfum skjalfest er að hún greiddi ekki út á áætluðum tíma, hefur reyndar ekkert greitt.  Og hún tekur ekkert tillit til aðstæðna sem leiðtogar heims kalla HRUN.  Það er jú þess vegna sem þeir reyna að bjarga hinu og þessu.

En það er ódýr nálgun hjá hryðjuverkamanninum sem var stöðvaður áður en illvirki hans komust til framkvæmda, að segja að það gerðist ekkert, og hann sé leiður á að vera minntur á afleiðingar gjörða sinna.

Þetta með íbúðalánasjóð, rökin komu strax hjá Gunnari Tómassyni um langtímaskuldabréf sem væri eign á móti afskriftum.  Vilhjálmur Þorsteinsson keyrði mikið á þessari hugsun þegar við ræddum fjármögnun hins nýja bankakerfis, hann sagði að skuldabréf útgefið af ríkissjóði væri ekki skuld í þeirri merkingu að það hefði ekki áhrif á núið, og ef það gengi illa að borga, þá kæmi peningaprentun á móti.

Og hann hafði rétt fyrir sér, varð að játa það.

Núið er að skuldaafskriftir hjálpa hagkerfinu að stað, miklu öflugri leið en þó að allar sprænur landsins yrðu virkjaðar.  En hagvöxtur framtíðar, hagvöxtur sem er margfalt meiri ef ekki hefði verið gripið til skuldaleiðréttingar (sem öll rök eru fyrir samanber forsendubrest), sér um skuldabréfið.

Þetta er leiðin sem ríki nota til að bregðast við ógnum, USA Bonds vegna fyrra stríðs eru ennþá í umferð.

Og Sleggja mín, það er of seint að játa núna að þú styðjir skynsemina í gamla daga, sbr "Strax eftir hrunið þá átti að afskrifia 30-50% af öllum skuldum. Flatur niðurskurður." þegar öll þín orðræða er í þá átt að þú viljir ekki að afkomendur þínir fái lifað í landinu. 

Þú mátt þó eiga að þú heykist á því að telja líf þrælsins, líf.

Það sem þú segir um skuldaleiðréttingu, er rétt, og er ennþá rétt, og mun alltaf vera rétt.

"gerðu ekki öðrum það sem þú vilt ekki að þér sé gert" .

Og ekkert í núinu kemur í veg fyrir að skuldir heimila og fyrirtækja séu leiðréttir.  En skilningur á því er skilningurinn á milli feigs og ófeigs.

Það er gaman að þér sé skemmt, ekki skrifaði ég innslag mitt hér að ofan til að angra þig eða höggva, og þú munt líka sjá í fyllingu tímans að hugsunin á bak við það er rétt og að lokum munt þú fylkja þér á bak við hana.  Tíminn hefur sinn gang, og skynsemisverur munu alltaf vernda framtíð barna sinna.

Ég ætla ekki núna að eyða púðri í ranghugsun þína sem kemur fram í viðhorfum þínum gagnvart alþjóðavæðingunni, bendi þér aðeins á að hún er siðferðislega röng, hagfræðilega og kostnaðarlega, og get rökstudd hverja mína fullyrðingu.

Eins og ég hef alltaf gert, líkt og ég gat látið þig bakka með allt sem þú byrjaðir á hér að ofan.

Bendi þér á að hagfræði mannúðarinnar frá Nasaret er forsenda mannlífs, og hagfræðilega hagkvæmustu.

Þú getur ef þú nennir fundið rökin hér á blogginu, og skilið ef þú notar vit þitt fyrir framtíð en ekki að verja þá sem settu allt í þrot.

Vissulega hef ég ekki skrifað sagnabálk um þetta, það er seinna tíma verkefni þegar ég sest niður og stofna bylgingarhóp sem hittist milli 5-7 á föstudögum, en það er víst bið á þeirri setu, hef ekki nennu til að tala við sjálfan mig.

Þú hlærð, en spáðu í hvað þeir gerðu sem þú treystir, spáðu í hvað er búið að gera Vesturlöndum.

Og spáðu í að viðurkenning á aðstæðum er alltaf mörgum misserum á eftir raunveruleikanum.  Hér á þessu bloggi hafa allar spár ræst.

Sú síðasta var í pistlinum um Ha, ha, lækkunin kom fram í dag, og rétt að byrja.  Af hverju, rökin getur þú lesið á mannamáli, á íslensku í nokkrum pistlum mínum.

Eða lesið þá sem sáu fyrir Hrunið 2008, með rökum, og færa rök fyrir næsta Hruni.

En þeir tala útlensku og vitna ekki í Stein Steinar.

Á þessu bloggi var hjólið ekki fundið upp,, en Steinn fær að fljóta, hér og þar og víðar en margan grunar.  Og ekki á útlensku.

Bið að heilsa Sleggja.

Kveðja  að austan.

Ómar Geirsson, 29.9.2011 kl. 13:13

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Sleggja mín, hvar væri dagurinn án þín, ég bara spyr.

Prófaðu að taka 300 milljarða að láni og settu það í til dæmis vatnsútfluttning.  Ég efa það ekki að lánið þitt skapi störf, og margt gott megi segja um tilraun þína, jafnvel að hún skapi útflutningstekjur.

En ég efa það stórlega að þú standi í skilum, ekki vegna þess að hugmynd þín sé slæm, heldur vegna þess að afborganir komi fyrr inn en tekjurnar.

En frétt þín er fín og segir margt.

Þjóðfélagið snérist um lánabúskap, og núna þegar lán fást ekki lengur, þá grenja menn.  Og grenja.

Ef menn hefðu virt arðsemiskröfur og þá heilbrigðu skynsemi að þau fyrirtæki sem framkvæma skili arði, þá væri staðan önnur í dag

Og við mættum jafnvel ræða virkjanir. 

En það er bara ekki þannig og hvenær ætlar þú að fatta þessa einföldu forsendu???

Ef þú ert svo navý að halda að þinn frami verði í útlöndum, þá vil ég benda þér á að í útlöndum hafa menn það skítt, og skíturinn verður verri og verri með hverjum deginum.

Varla ætlar þú að ala börn þín upp í skít???

Sem minnir mig á það sem reyndi að segja þér, og hef þá heiðarlegu trú, aldrei þessu vant án hæðni og galgopa hugsunar, að þú átt eftir að fatta það sem ég er að segja.  Það er ekki mér að kenna að ég segi þetta ekki á þann hátt að ljósið skíni, vandinn er þinn.

Að átta þig ekki á þeim forsendum sem gera framtíðina mögulega.

En þú ert ekki einn um það.

En rökfastur og skemmtilegur ertu Þruma mín.

Að ég tali ekki um Sleggjuna.

Bið enn og aftur að heilsa með þeirri frómu ósk að ef þú vilt ræða málin, að þú látir taktík orðræðuna í friði, en sláir fram þvi sem þú ert í alvörunni að hugsa.

Eiginlega þá nenni ég ekki að endurtaka mig í fjögur hundruð og eitthvað skipti.  Þetta er allt hérna, og ég man ekki helminginn af því sem þar stendur.

En þetta er allt óður til framtíðarinnar.

Enn og aftur kveðja.

Ómar.

Ómar Geirsson, 29.9.2011 kl. 17:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 608
  • Sl. sólarhring: 640
  • Sl. viku: 6339
  • Frá upphafi: 1399507

Annað

  • Innlit í dag: 521
  • Innlit sl. viku: 5376
  • Gestir í dag: 477
  • IP-tölur í dag: 471

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband