21.9.2011 | 06:14
Og núna Borum við.
Efnahagsáföll eru ekki alslæm.
Þau eiga það til að vekja fólk til vitundar um að ef það ekki sjálft stendur vörð um hagsmuni sína, þá gera það fáir aðrir.
Núna fyrir nokkru fékk ég að setja fund hjá svona hverdagshetjum þar sem málefni Norðfjarðargangna var til umræðu.
Tilefnið voru þau ummæli samgönguráðherra að hann ætlaði að svæfa göngin enn einu sinni vegna fjárskorts.
Aldrei þessu vant er ekki ætlun pistlahöfundar skamma einn eða neinn, hvorki stjórnvöld eða aðra heldur langar mig til að rekja það helsta sem ég heyrði á fundinum og reyna þannig að ljá góðu máli stuðning.
Jarðgöng eru samgöngutækni 21. aldarinnar, að fara yfir fjöll og firnindi í harðbýlu landi er einfaldlega liðin tíð.
Arðsemi jarðganga felst í blómgun mannlífs sem fylgir bættum samgöngum hinna dreifðu byggða.
Þegar mannlíf blómgast þá koma fram hugmyndir, og möguleikar til að framkvæma þær hugmyndir, hugmyndir sem við meðal annars köllum atvinna, atvinnutækifæri, framfarir, hagvöxtur.
Að spyrja í upphafi jarðgangnagerðar, hver á að borga þau, er jafn gáfulegt eins og að spyrja kartöflubóndann af hverju hann er að setja niður útsæði því það er engin uppskera sjáanleg.
Jarðgöng borga sig sjálf á meðan árlegur kostnaður við þau er innan hóflegra marka.
Síðastliðin ár hafa kannski 2-3 milljörðum verið varið árlega til jarðgangnagerðar, hvaða peningur er það miðað við ávinninginn????
Til dæmis getur 5 manna nefnd ákveðið heimskulega vaxtahækkun og þá eykst vaxtakostnaður ríkissjóðs um marga milljarða. Og enginn segir neitt.
En þegar það á að efla byggð og mannlíf og forsendur atvinnusköpunar þá má engu eyða, eins og framfarir og hagvöxtur vaxi á trjánum og engu þurfi að kosta til í upphafi.
Að engu þurfi að sá til að uppskera.
Jarðgöng hafa verið gagnrýnd fyrir að þau séu dýr og komi fáum að gagni.
En þetta er röng nálgun.
Meginhluti af útflutningstekjum þjóðarinnar kemur af landsbyggðinni. Þar er orkan, þar er fiskurinn og þar er hluti af ferðamannaþjónustunni.
Nútímasamgöngur eru forsendur mannlífs í hinum dreyfðu byggðum, hver og ein samgöngubót verður því að skoðast í heild. Þegar markvisst er unnið að því að bæta samgöngur þá er hver og ein bót ávinningur fyrir alla íbúa landsbyggðarinnar. Því ef við sláum af eina með þeim rökum að ekki sé nógu þétt byggð að baki, þá erum við um leið að slá af aðrar framkvæmdir með sömu rökum.
Og sú þrönga arðsemisnálgun er þar með tilræði við tilveru landsbyggðarinnar og ávísun á djúpstæð átök milli þéttbýlis og dreifbýlis. Því landsbyggðin lætur ekki 101 taka sig af lífi án mótspyrnu.
Og 101 mætti hafa það í huga að í dag er landsbyggðin sjálfbær en 101 ekki, það eyðir meira en það aflar. Og á 21. öldinni sættir enginn sig við að vera arðrændur af "nýlenduveldi", jafnvel þó um samlanda þeirra sé að ræða.
Þröng hugsun er því alltaf röng, hún er hagfræðilega röng, hún er samfélagleg röng, og hún boðar átök og sundrungu í stað samkenndar og einingar.
Að bora göng er ekki mál í dag.
Á aðeins fjórum árum lét Landsvirkjun bora yfir 40 kílómetra af jarðgöngum til að leiða vatn í Kárahnjúkavirkjun.
Þegar göngin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar voru gerð, þá þurfti að skipa verktakanum að vinna aðeins milli 2-4 því annars yrði hann búinn að bora fljótlega eftir að hann byrjaði.
Spurningin er því að byrja, með nokkrum milljörðum á ári yrði verkinu lokið á svona 30-40 árum, í sátt og samlyndi, og útkoman yrði algjör bylting í samgöngumálum þjóðarinnar.
Á fundinum kom fram hugmynd um Ísbor sf, sameignarfélög þjóðarinnar sem yrði falið það verkefni að koma vegum landsins á jörðina, af heiðum og fjallaskörðum.
Og málið er ekki flóknara en það, aðeins tregðan fær það ekki séð.
Mið Austurland er eitt atvinnusvæði og á því atvinnusvæði eru hafnir þar sem um fjórðungur af útflutningi landsmanna er skipað út.
Þegar farið var af stað með Fjarðarálsverkefnið þá lofuðu stjórnvöld samgöngubótum enda augljóst að starfsmenn Fjarðaáls bræða ekki ál fastir í skafli.
Fjarðaráli var lofað að öll grunnþjónusta væri til staðar því nútímamaður með þá menntun og þekkingu sem þarf til að reka nútímaálver, hann sættir sig ekki við samfélag 19. aldar. Grunnþjónusta eins og nútíma sjúkrahús er ekki byggð í hverjum þéttbýliskjarna, um hana þurfa þéttbýliskjarnar að sameinast.
Öflug grunnþjónusta kallar því á jarðgöng, eitt atvinnusvæði kallar á jarðgöng.
Hugsun 21. aldar kallar á jarðgöng.
Og það má ekki leyfa 19. aldar mönnum að standa gegn því. Eða láta eilífan hrepparíg stöðva framkvæmdir.
Til að loforð stjórnmálamanna ganga eftir þá þarf að bora göng til Neskaupstaðar, til Seyðisfjarðar, uppá Hérað.
Samgöng hefur sú framkvæmd verið kölluð. Og hana er hægt að klára á fjórum til fimm árum.
Og síðan er nóg af öðrum fjöllum sem þarf að bora í gegn.
Og þegar það er búið, þá er Ísland komið inní 21. öldina.
Allavega samgöngulega séð.
Svo mörg voru þau orð.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:15 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 46
- Sl. sólarhring: 622
- Sl. viku: 5630
- Frá upphafi: 1399569
Annað
- Innlit í dag: 39
- Innlit sl. viku: 4803
- Gestir í dag: 38
- IP-tölur í dag: 38
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Satt segir þú Ómar.
Það hefur engið sagt neitt- ekki rætt um eða haft skoðun á hvað Íslenskt alþýða, hefur greitt í vexti til KRÓNUBRÉFA OG JÖKLABRÉFA - vexti sem eigendur þeirra fá að flytja úr landi sem gjaldeyrir.
Ég er viss um að það væri hægt að búa til margar flautur í fjöll landsins fyrir þessa vexti og láta tóna þeirra lyfta upp brúnum okkar.
Eggert Guðmundsson, 21.9.2011 kl. 11:25
Takk Eggert fyrir þína góðu flautu líkingu.
En ég ætla að gera smá athugasemd með að enginn hafi sagt neitt með vextina. Andstaða við þá var eitt megin þema þessa bloggs og á átakatímum, bæði þegar það átti að eyðileggja sjúkarhúsaþjónustu landsbyggðarinnar eða kúga þjóðina til að greiða ICEsave aðgöngumiðann að ESB, þá hamraði ég á þessum tölum.
Og þetta var lesið allavega, flettingarnar hérna eru að uppistöðu frá þessum átaktoppum og eitthvað hlýtur að hafa síast inn.
Svo má benda á að ef venjulegar hversdagshetjur taka sig taki og segja hingað og ekki lengra, þá verður peninganefnd SÍ hent út um glugga eins og Tékkar gerðu forðum við embættismenn keisaravaldsins.
Ég ætla ekki að hafa fundið upp á þessari speki, en hún er jafngóð fyrir því, að "ef það ekki sjálft stendur vörð um hagsmuni sína, þá gera það fáir aðrir." Og hún gildir um vaxtaokrið líka.
Svo má ekki gleyma því ef þeir sem stjórna okkur með því að "deila og drottna", að þeir eiga allt sitt vald undir að fólk styðji ekki "aðra".
Þannig geta þeir kæft allt réttlæti eða öll góð mál, því þeir sem málið varðar beint, að þeir eru of fáir, og jafnvel oft sundraðir í þokkabót (hrepparígur, ólíkar pólitískar lífsskoðanir og svo framvegis), og aðrir koma þeim ekki til hjálpar.
Samt eiga þessir "aðrir" í sömu baráttu við þursana, um réttlæti og góð mál. Bara ekki sömu málin.
Og sjá ekki samhengi þess að standa saman, átta sig ekki á að ef einni "bót" er hafnað, þá er þeirri næstu líka.
Þess vegna ráða hinir föllnu auðmenn og leppar þeirra öllu á Íslandi í dag, þeir stjórna ríkisstjórninni, og marka stefnu stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Þeir ráða yfir fjölmiðlunum og múta háskólamönnum.
Og á móti þeim er hinn sundraði múgur.
Þú sérð Eggert til dæmis uppskeru mína eftir þriggja ára bloggbaráttu gegn þursunum, hún er góðmenn en ekki fjölmenn, allavega ekki miðað við alla hildina sem hér hefur verið háð, og margur þakkað fyrir.
Takk fyrir innlitið, mér þótti vænt um það.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.9.2011 kl. 13:17
Takk Ómar fyrir þessi málefnalegu skrif. Þau mættu birtast sem víðast.
Sigrún Júlia (IP-tala skráð) 21.9.2011 kl. 21:47
Takk Sigrún Júlía.
Feisið er galdratækið sem breytir góðmenni í fjölmenni.
Minn fasti hópur hefur lesið en hann er aðallega í stríðinu, ekki fastur upp á fjöllum.
Það má bæta við sem ekki kom fram í þessum pistli að sveitarstjórnarmenn okkar eru að reyna sitt besta til að þoka málum áfram, bakland fjöldans ætti ekki að skaða þá vinnu.
Framtíðin er einnig í okkar hópi, andstaðan er aðeins úr þeirri tregðu sem er alltaf í baksýnisspeglinu og syrgir þann tíma þegar menn tíndu banana úr trjánum.
Þá var ekki þörf fyrir samgöngur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 22.9.2011 kl. 08:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.