AGS stjórnar aðför að vestrænni siðmenningu.

 

Velferðarkerfi nútímans er sprottið upp úr vestrænni siðmenningu. 

Grunnur þess er sá boðskapur að þú átt að gæta bróður þíns og elska náunga þinn.  Af því spratt tíund og mannúð miðaldaklaustra.

 

Feður nútíma velferðarkerfis eru kristilegir íhaldsmenn og það voru þeir sem stóðu brjóstvörnina gegn frjálshyggju þess tíma sem taldi það náttúrulögmál að hungur héldi öreigum í skefjum og þrælkun barna og kvenna við erfiðustu verksmiðjustörf eða í námum, væri hagkvæm því það væri svo auðvelt að stjórna þeim hópum og borga þeim sultarlaun.

Á grunni þeirra byggði hin sósíalíska verkalýðsbarátta kröfugerð sína og samstarf hennar við kristileg borgarleg öfl mótaði það sem við í dag köllum almenna velferð þar sem öllum er tryggð menntun, heilsugæsla og framfærsla ef sjúkdómar eða veikindi skerða vinnugetu fólks.

 

Í dag ríður frjálshyggjan röftum, knúin áfram af siðblindri græðgi fámennar auðstéttar sem vill koma á algjöru auðræði þar sem þeir ríku eiga allt, ráða öllu en almenningur éti það sem úti frýs.

Baráttan við þennan illvíga Glám nítjándu aldar er sú barátta sem siðað fólk þarf að heyja svo siðmenningin eigi framtíð.

Tuttugasta og fyrsta öldin þolir ekki misrétti nítjándu aldar.

 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er reiddur hnefi sem auðræðið ætlar að nota til að mola velferðina í frumeindir sínar.

Svokölluð aðstoð sjóðsins felst eingöngu í að bjarga peningum auðmanna frá afleiðingum spákaupmennsku þeirra og fjármálagjörninga sem hafa mergsogið vestræn samfélög.

Sjóðurinn vílar sér ekki að fórna fólki í þágu fjármagns.

Innrætið er það sama og hjá þeim sem hönnuðu Gulagið og fangabúðir þriðja ríkisins.

 

Eyðileggingin er framkvæmd undir orðræðu hagvísinda.  Og miklu kostað til að blekkja almenning til að trúa að það sem gert er sé hið óhjákvæmilega.

En hagfræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er hagfræði hálfvitans sem eltir skottið á sjálfum sér.  Hin fullkomna heimska því það eru hundar sem hafa skott, ekki hálfvitar.

Efnahagsaðgerðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins auka alltaf vandann til skamms tíma, til lengri tíma eyðileggja þær innvið samfélaga, auka misrétti og stofna til átaka þar sem stórir hópar samfélagsins hafa ekki lengur hag af að tilheyra því.

Efnahagsaðgerðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru uppskrift að "byltingu öreiganna".

Á 21. öldinni eru slík átök endalok alls.

 

Helstu fórnarlömb Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er millistéttin, aðgerðir hans miðast að því að þurrka hana út.

Helsti hópurinn sem lætur blekkjast af áróðri sjóðsins er sú sama millistétt sem sjóðurinn leitast við að útrýma.  Jafn hlálegt og gyðingar hefðu verið helstu stuðningsmenn þjóðernissósíalista.

Án stuðnings millistéttarinnar væru auðræningjar aðeins fámennur hópur sem lýðræðið ætti mjög auðvelt með að koma böndum á og útvega þeim lækningu við siðblindu og mannfyrirlitningu.

 

Á Íslandi sést þetta vitstol að flokkurinn sem gerði næstum alla stuðningsmenn sína gjaldþrota eða skuldaþræla bankaræningja, að hann samdi við sjóðinn um algjöra útrýmingu þeirra.

ICEsave og braskaralán AGS ásamt hávöxtum og skattpíningu voru efnið sem líkfjalirnar voru smíðaðar úr.

Vitstolið í dag nýtur fylgis um 38% þjóðarinnar.  Mesti stuðningur sem hefur mælst við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hjá einni þjóð.

 

Og á meðan blæðir íslenskum almenningi og íslenskum smáfyrirtækjum út.

 

Ein birtingarmynd stuðningsins við sína eigin eyðingu er fyrsögn þessa fréttar; "AGS lætur Grikki fá það óþvegið".  Væri ræna í blaðamanninum þá hefði hann skrifað þessa frétt undir fyrirsögninni, "AGS hótar Grikkjum gjöreyðingu".

Það er það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlar að gera Grísku samfélagi.  Hann ætlar að eyða því og afhenda hræið fjárúlfum til átu.

Ekkert annað vakir fyrir sjóðnum.

Og mörgum finnst Ógeðið sjálfsagt mál.

 

En siðað fólk veit að svona gerir maður ekki þjóðum í neyð, og siðað fólk veit að aðeins illt fjármagn kallar á blóð til að dafna.

Það getur kannski ekki orðað hugsun sína með viðurkenndum hagfræðilegum frösum en það getur orðað hana út frá hjartanu, út frá þeirri mannúð og mennsku sem því er áskapað.

 

Og það segir;

"Grikkjum á að hjálpa við að endurskipuleggja fjármál sína.  Það á að hjálpa þeim út úr evrunni og við að taka upp sinn eigin gjaldmiðil sem endurspeglar efnahagslegan raunveruleik þeirra.

Og á meðan efnhagslífið er að taka við sér, þá á að hjálpa þeim við að fjármagna innviði samfélagsins svo nýtt og sterkt Grikkland geti staðið við skuldbindingar sínar og boðið þegnum sínum upp á mannsæmandi lífskjör".

Því gott fólk þekkir muninn á réttu á röngu.

 

Og sú þekking mun að lokum koma böndum á Fernisúlfinn áður en hann eyðir öllu mannlegu úr samfélögum okkar.

Kveðja að austan. 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is AGS lætur Grikki fá það óþvegið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Svo ég geri aðeins athugasemd við sjálfan mig þá er "vitstolið" stuðningur forystu stærsta stjórnarandstöðuflokksins við Óráð AGS.   En ekki flokkurinn sem slíkur eða almennir stuðningsmenn hans.

Þemað í pistlinum er annars ákall til borgaralegra íhaldsmanna að leita upprunans og verja samfélög sín fyrir þeim eyðingaröflum sem eru langt komin með að skapa algjöran glundroða í efnahagslífi Vesturlanda.

Bara svona svo þú skammir mig ekki of mikið Haraldur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.9.2011 kl. 15:48

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Gerðu eitt fyrir mig; fyrir alla:

Hættu að kalla það frjálshyggju, það er ekki frjálshyggja.

Sko:

Frjálshyggja (í raun): http://en.wikipedia.org/wiki/Libertarianism

Það sem fólk almennt kallar frjálshyggju: http://en.wikipedia.org/wiki/Feudalism  með óþægilega mikla tendensa til fasisma: http://en.wikipedia.org/wiki/Fascism

Eins og fólk notar orðið, þá mætti ég eins fara að kalla bílinn minn einbýlishús.

Ásgrímur Hartmannsson, 19.9.2011 kl. 16:46

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ásgrímur.

Þú ert eiginlega að tala við rangan mann.

Ef þú bærir upp erindi þitt við þá félaga, Kjartan og Hannes, og bæðir þá um að breyta þýðingu sinni á hugtakinu "liberisma" þegar þeir ungir menn stofnuðu félagsskap sem þeir kölluðu Eimreiðina, að mig minnir, þá skal ég glaður taka upp hina nýju þýðingu.

En þeir kusu að nota orðið "frjálshyggja" og ég hef ekki annað betra.  

Nota stundum orðið auðræði yfir Nýfrjálshyggjuna því ég er yfirleitt að skammast út í nauðgun auðmanna á frjálslyndi. 

Hinsvegar veit ég vel hvað frjálslyndi  er, er sjálfur frjálslyndur og læt stundum út úr mér frasa eins og þennan

"Og setja reglu um allt, mannlegt sem ómannlegt.

Reglu, reglunnar vegna."

Ofreglun er líka mikil meinsemd.

En samþjöppun auðs og atferli ræningjabaróna er það líka.  Og það er það sem ógnar framtíð mannkyns í dag.  Ekki hitt helvítið.

Og nýfrjálshyggjan á ekkert skylt við frjálslyndi, ekkert frekar en sovétbúskapur Stalíns.

En það er rétt, það vantar gott orð yfir þá hegðun auðmagns að nauðga frjálslyndi til að auka völd sín í þjóðfélaginu í þeim eina tilgangi að þjappa auði enn meira á færri hendur og nota þá hugmyndafræði til algjörs arðráns á samfélögum fólks.

Ef þú hefur gott orð Ásgrímur, þá mátt þú koma með það, en það er ekki feudalismi.

Sorrý.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.9.2011 kl. 17:15

4 Smámynd: Björn Emilsson

Josep Stiglitz var í Silfri Egils, að mig minni fyrir tveim árum og sagði AGS stefnu ríkisstjórnar Steingríms J eingöngu leiða til frekari skuldsetningar og að lokum gjaldþrots. Því miður virðist hann hafa rétt fyrir sér.

Hér hvað Wikipedia segir um Stiglitz.

Joseph Eugene Stiglitz, ForMemRS, FBA, (born February 9, 1943) is an American economist and a professor at Columbia University. He is a recipient of the Nobel Memorial Prize in Economic Sciences (2001) and the John Bates Clark Medal (1979). He is also the former Senior Vice President and Chief Economist of the World Bank. He is known for his critical view of the management of globalization, free-market economists (whom he calls "free market fundamentalists") and some international institutions like the International Monetary Fund and the World Bank.

Björn Emilsson, 19.9.2011 kl. 17:44

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Björn.

Ég hef einmitt sótt bakgrunn hugmynda minna til borgaralega hagfræðinga eins og Stiglitz og Krugman, einnig hafði Michael Hudson mikil áhrif á mig.

Og þessi pistill er svona tilraun til að setja hlutina í víðara samhengi, það sem er verið að gera okkur Íslendingum, það er líka verið að gera öðrum.

Og við þurfum að sameinast gegn þessum Óráðum, áður en allt endar með ósköpum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.9.2011 kl. 18:26

6 identicon

Velferðarkerfi Grikkja er ekki sjálfbært freker en okkar. Hjá okkur duga skatttekjur fyrir útgjöldum (Atvinnuleysisbætur, örorkubætur, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og opinber stjórnsýsla.

Á frá 2000 til 2008 á tæpum 10 árum að hruni jukust ríkisútgjöld að raunverði á hvern einstakling á Íslandi um næstum 33% og opinberum starfsmönnum fjölgaði um 27% á sama tíma.

Á næsta ári er verið að kremjast við að gera fjárlög með 40-50 miljarða halla áður en vextir lána koma inn og þeir verða um 90 miljarðar á síðasta ári voru þeir næst hæsti útgjaldaliðurinn hærri en öll framlög til heilbrigðismála og verða næstum 3 falt hærri en útgjöld til Landspítalans sem eru búin að dragast saman um 23% frá "HRUNI". Þetta gerir væntanlega um 140-150 miljarða halla á næsta ári.

Þetta er tekið að láni og ennþá eru kanski 2 ár þangað til við þurfum að leita út á alþóðlegan lánmarkað sem, tekur okkur fagnandi.

Heildarskatttekjur á þessu ári eru áætlaðar um 410 miljarðar íslenskra og eru að langmestu leiti í íslenskum krónum meðan mikið af útgjöldum og skuldum eru á erlendri mynt. Skuldasnjóboltinn stækkar lógarytmisk og er orðin um 1850 miljarðar fyrir utan Icesave sem er minsta málið.

Þeir sem hæst gala um sjálfstæði þjóða og lýðræði verða náttúrlega að taka því að velferðarkerfið byggir á skattheimtu. Grikkir eru um 2% af hagstærð Evrópu og væntanlega verði þeir látnir sigla sinn sjó. Skattheimta, niðurskurður ríkisútgjalda er á ábyrgð ríkisstjórna sem eru á ábyrgð skattgreiðenda/kjósenda.

Ef skattheimta væri með eðlilegum hætti í Grikklandi væri þar enginn halli og þeir komust inn á Evrusvæðið með fölsuðu ríkisreikninum.

Þýskir, sænskir, finnskir, danskir, hollenskir, breskir skattborgarar eru ekki tilbúnir til að borga í Grískt bix sem byggist á því að fólk geti farið á eftirlaun rétt eftir 50 tugt og fjöldi af óhagkvæmum ríkisfyrirtækjum og ógrynni opinberra starfsmanna enda ein leiðin að kaupa sér atkvæði. Láta eins og óþekkur krakki í nammibúð. Íslensk velferðarkerfi verður borgað af íslenskum skattgreiðendum og engum öðrum og sama á við um grískt velferðarkerfi.

Ef við viljum ekki hækka skatta eða lækka þá verður ekkert annað en blóðugur niðurskurður, þjóðarkakan er því miður ekkert að stækka. Það gerist ekkert í íslensku viðskiptalífi. Það er búið að byggja upp flóðgarð í kringum íslensku krónuna með gjaldeyrishöftum og risastórum gjaldeyrisvarasjóð sem tekinn er að láni. Markaðsverð krónunnar er um 250-260 Íkr per € meðan haftagengi Seðlabankans er um 165 íkr per € og gengisfelling verður í raun á kostnað íslenskra launamanna, þeirra sem ekki eru með laun í alvöru myntum.

Íslenskum skattgreiðendum er náttúrlega í sjálfsvald sett ef þeir vilja borga auka skatt og senda peninginn í umslagi til Gríska fjármálaráðuneytisins sem mun fara jafn vel með það og annað fé sem þeir hafa fengið.

Gunnr (IP-tala skráð) 19.9.2011 kl. 19:18

7 identicon

Bandaríkjamenn hafa dollaran og prenta, prenta og prenta dollara meðan við erum með verðlausa krónu sem verður haftakróna og raunar er það hið eðlilega ástand ef litið er á hagsögu Íslands. Raunar hafði íslenska krónan 7 gegni á ákveðnum tímapunkti. Ferðamannagjaldeyrisgengi var eitt af þessu. Núna erum við með þrjá gjaldmiðla. Verðtryggð króna sem byggist á reikniformúlum (nokkurs konar vísitölureikningum, íbúðarkosnaði raunar mun verðfall húsnæðis valda því að vísitalan mun geta fallið) síðan er haftakrónan sem þeir reyna að hafa eins hátt skráða og vextina eins lága og hægt.

Það er gríðarleg áhætta á íslenska krónusvæðinu, lítill ágóði, lágir vextir og væntanlega mun verða algjör fjármagnsflótti frá krónusvæðinu ef lokurnar opnast. Raunar er það sem er að gerast að fólk er að tæma bankareikninga enda vill fólk hafa evru frekar en verðlausa nýja drakma.

Við getum síðan grenjað yfir illsku heimsins yfir því að borga ekki niður velferðarkerfi okkar. Heimska íslenskra ráðamanna og stjórnsýslu er á ábyrgð íslenskra kjósenda og það gildir annars staðar líka.

Gunnr (IP-tala skráð) 19.9.2011 kl. 19:31

8 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Finnst nú að menn verði að muna eftir því að AGS er í eigu um 100 ríkja. Honum er ekki ætlaða að vera góðgerðarsjóður heldur að vera stjóður til þrautavara sem kemur inn og lánar ríkjum sem eru að lenda í greiðslufalli. Ísland var eitt af stofnríkjum AGS og hefur 5X fengið aðstoð frá honum. AGS er ekki ætlað að vera gegnumstreymissjóður sem ríki borga stöðugt til og gefur svo ríkjum í vandræðum pening. Heldur verða ríkin að setja fram áætlun hverning þau ætla að greiða lán hans til baka. M.a. þessvegna hafa ríki orðið að selja eigur sínar ef að þau hafa ekki haft tekjur til að ráða við að greiða til baka. Enda væri það eins og að henda peningum að lána ríkjum sem ætla sér svo engu að breyta og myndi þýða að ár hvert þyrftum við sem eigendur sjóðsins að borga til hans milljarða til að lána öðrum.Við eigum minnir mig um 0,5% eða minna í sjóðnum. Og það myndi samt þýða milljarða ef að sjóðurinn væri ekki rekinn eins og hann er rekin með kröfum um endurgreiðslur.

Menn verða muna að AGS kemur ekki inn nema að ríki hafi farið sér að voða. AGS hefur gert mistök hér áður fyrr og viðurkennt þau. Og breytt áherslum hjá sér. Hef ekki enn heyrt um ríki sem AGS hefur hjálpað sem hefur farið á hausinn. En auðvita gott að geta kennt þeim um allt sem miður fer og ráðleysi þjóða við að leysa úr sínum vandamálum. Alþjóðabankinn hinsvegar hefur staðið í gegnum árin í vafasömum aðgerðum m.a. í Indónesíu minnir mig þar sem að spillng og ömurlegheit fylgdu peningum sem hann dældi þangð inn. 

Svo sé ekki hvernig menn sjá að hann hafi t.d. farið svona illa með okkur þessi 3 ár sem við vorum í samstarfi við hann.

Magnús Helgi Björgvinsson, 19.9.2011 kl. 20:24

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Gunnr, það er langt síðan þú hefur heiðrað mig með þessari umræðu.

Það er sorglegt en þú skilur ekki baun í forsendum efnhagsmála eða út á hvað gjaldmiðill gengur.  Þú heldur að það sé til einhver töframynt sem heldur verðgildi sínu óháð framleiðslu hagkerfa.  

En það er ekki svo.

Framleiðsla hagkerfa ákveður kvað mikið er til skipta, og kaupgeta þess ákveðst af þeim verðmætum sem þau geta selt öðrum hagkerfum.  

Gjaldmiðill endurspeglar aðeins þessar stærðir, hann býr þær ekki til.  Sama hvað gjaldmiðillinn heitir.

Hámark barnaskaparins er að halda að ef við hefðu alþjóðlegan gjaldmiðil, þá gætum við keypt af öðrum hagkerfum óháð þeim verðmætum sem við seljum þeim.

En þú mátt eiga það þér til afsökunar Gunnr að þú ert ekki einn um þennan barnaskap.  Evran var stofnuð um þennan barnaskap, og evran er að deyja.  Því raunveruleikinn sigrar alltaf að lokum. 

Afrek þitt er hins vegar að þylja ennþá sömu þuluna og þegar við ræddum þessi mál fyrst.  Og ég verð að játa að mér leikur forvitni á að vita hvaða orð þú ætlar að setja inn í hana, í stað evru, þegar hún blessunin hefur gengið á vit feðra sinna.

Víkjum þá á halla velferðarkerfisins.  Að því gefnu að framleiðsla sé hámörkuð, og umræðan snýst um skiptingu tekna, þá skiptir engu máli hvað mikið er sett í velferðina, það einfaldlega lækkar það sem er til skiptanna hjá þeim sem framleiða verðmætin.   Og að sjálfsögðu að það sé notaður innlendur gjaldmiðill. 

Og hallinn á velferðinni er greiddur með sköttum eða prentun peninga, sem er jú ein leið til að þynna út tekjur þeirra sem starfa utan samneyslunnar.

En hámörkun verðmæta er viðkvæmt ferli og ofurskattheimta vís til að draga mjög úr verðmætasköpun.  En það sama gildir ef velferðin er of lítil, léleg heislugæsla eða menntun dregur úr framleiðni vinnuafls, fátækt og örbirgð valda togstreitu sem leiðir til átaka, og átök er kostnaður.  Þess vegna stofnuðu borgarlegir stjórnmálamenn velferðarkerfið og þess vegna tóku þeir þátt í að þróa það með verkalýðshreyfingunni.

Ekki vegna þess að þeir væru heimskari en þú, þeir þekktu kostnað togstreitunnar, og svo voru þeir siðað fólk með kristilegar rætur.

Svo ég dragi þetta saman, þá er velferð án innistæðu dæmd til að mistakast, en þjóðfélag án velferðar er það líka.  Og hagstjórn skynsamra manna byggist á því að finna  jafnvægi milli þessa tveggja póla.

Óskynsamir menn skera hins vegar blint niður og eru endalaust að elta niðursveifluna og uppskera kostnað togstreitunnar og þjóðfélagsátaka.  Þeir eru endalaust að elta skottið á sjálfum sér, skottlausu greyin.

Skynsamir menn reyna að viðhalda jafnvæginu og þjóðfélagssáttinni.  Þeir frysta launin og reyna síðan að veita grunnþjónustu þannig að sátt ríkir um.  Og þeir  að örva efnhagslífið og ýta undir framleiðslu.  Þeir sá til hennar með peningaprentun og uppskera aukna nýtingu framleiðsluþátta.  Að lokum næst jafnvægi milli tekna og útgjalda og þá reyna menn að viðhalda því jafnvægi, þó með borð fyrir báru.

Borgarleg hagstjórn í sinni tærustu mynd.

Að lokum þetta, þú skalt skammast þín hvernig þú talar um Grikki.  Mér vitanlega hafa þeir ekkert gert þér.  Þeirra ógæfa var að trúa fagurgala stjórnmálamanna sem sögðu þeim frá gulli og grænum skógum evrunnar.

Fagurgali sem hafði feigðin tók sér far með.

Grikkir munu sjálfir borga fyrir sína velferð með sínum eigin tekjum.  Þeir gátu það fyrir evruna og ættu því leikandi að geta það í dag, framleiðandi mun meira.  Kaupmáttur þeirra gagnvart erlendum vörum mun koma í ljós, fer eftir því hvað þeim tekst að framleiða mikið að seljanlegum vörum á móti.  En þeir munu ekki svelta, þeir munu ekki loka sjúkrahúsum sínum eða skólum.

Þeir munu lifa eins of fólk.

Því illmenni fá aldrei til lengdar stöðvað þrá fólks eftir mannsæmandi lífi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.9.2011 kl. 22:34

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús og takk fyrir innlitið.

Veistu, það er sorglegt hvernig þú tæklar sögu AGS í ljósi staðreynda hennar.  Sjóðurinn neyddist til að biðjast afsökunar á gjörðum sínum vegna mistaka sinna og vegna þeirra hörmulegra afleiðinga sem stefna sjóðsins hafði á efnahag þeirra ríkja sem lentu í klóm sjóðsins.

Það er akkúrat enginn að setja hlutina upp með þeim hætti sem þú talar um.  Að peningar séu gefnir, lán ekki endurgreidd og svo framvegis.

Enginn alvöru hagfræðingur ver stefnu sjóðsins, en færustu hagfræðingar benda á að hann sé til að aðstoða ríki, ekki til að gera illt verra.  

Sjóðurinn á ekki alltaf þessa sögu, fyrstu áratugina aðhylltist hann klassíska borgarlega hagfræði, vissulega gætti hann hagsmuna vestræns fjármagns, en hagfræði hans sem slík var örugglega engum þjóðum þriðja heimsins til tjóns.

Breytingin var á níunda áratugnum þegar klassískir hagfræðingar viku fyrir Vúdú hagfræði Nýfrjálshyggjunnar.  Eftir það getur hann ekki sýnt árangur í eina einasta ríki.  Ekki ef mælikvarðinn er hagur almennings, uppbygging innri stoða samfélaga, eða tekjur þjóða af auðlindum sínum.

Almenningur fátækra ríkja hefur ekki hag af einkavæðingu almannaþjónustu eða arðráni auðlinda sinna.

Sjóðurinn er ekki velkominn í Suður og Mið Ameríku og hann er ekki velkominn í SuðAustur Asíu, þó hann hafi beðist afsökunar á afglöpum sínum.

Þetta eru sögulegar staðreyndir Magnús, settar reyndar fram í einfaldri mynd, en staðreyndirnar liggja fyrir og það geta allir kynnt sér þær.  Á netinu, með því að lesa bækur.

Sagan hefur dæmt,  sjokk stefna sjóðsins gengur ekki upp.  

En það er ekki sama að margt að því sem sjóðurinn leggur til sé rétt, en í öðru samhengi.  

Og á það benda færustu hagfræðingar heims í dag.

Og menn eru ekki færastir ef þeir bulla.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.9.2011 kl. 22:55

11 identicon

Evran er augljóslega engin heildarlausn/alsherjarlausn og augljóslega eru brestirnir í hagstjórninni, þau lönd sem hafa agaða hagstjórn eru þau sem koma. Raunar eru Bandaríkin með sömu myntina með gríðarlega mismunandi efnahag og fylki. Þar eru gríðarmiklir fólksflutningar sem jafna út sveifluna en í Evrópu er minna um að fólk flytji á milli svæða og ekki beint ætlast til þess.  Það að jafnvægi komist á í Evrópu þýðir að sumir munu hafa það betra og aðrir verra.  Fólk er ekki tilbúið til að greiða niður velferð annara með sköttum sínum.

Vandamál Grikkja, Íslendinga og annar skuldugra þjóða kemur raunar ekkert Evrunni beint við þetta er agalaus hagstjórn og að það sé lifað fram úr efnum. Hagkerfið ber ekki velferðarkerfið og lausnin er að lána sig burtu frá þeirri óþægilegu staðreynd og svo þokast menn að hengifluginu sem er í raun þjóðargjalþrot. Við íslendingar erum á fullri ferð þangað og ekki erum við með Evru. Ef þeir væru með drakma hefðu þeir aldrei komist svona langt í skuldsetningu og þanning hefur í raun Evran verið bjarnargreiði. Lítil sveiflukenndur gjaldmiðill með háum vöxtum sem grefur augljóslega undan fjárfestingu og sóknarfærið er að verðfella samfélagið með að lækka gengið enn frekar. Stórfelld áhætta og lítil arðsemi grefur þjóðfélagið enn niður og neikvæður hagvöxtur þýðir einfaldlega að þjóðarkakan skreppur saman. Við erum í þeirri stöðu að það er þegar háir skattar og svo hrundi kerfið kosnaðurinn við hrunið er og var miklu meiri bæði beinn og óbeinn og afdrifaríkustu mistökin voru að fara ekki strax í niðurskurðarferli opinberra útgjalda en að vefja þjóðfélaginu í enn meiri skuldir.
Íslenska bóluhagkerfið með "ofurkrónunni" er sprungið og eftir stendur nánast ósprungin eignabóla þar sem eignaverð er ekki í neinum tenglsum við rauntekjur fólks.  Það er engin lausn fyrir Íslendinga að taka upp Evru núna og raunar fengjum við það ekki og við komum ekki til að fullnægja Mastrict ákvæðunum fyrrr en í fyrsta lagi eftir 10-20 ár, og jafnvel aldrei.

Örlög Íslands verða það að hafa krónurnar þrjár, gjaldeyrihömlur og stöðnun sem er augljóslega áskrift á fátækt. Fyrir 100 árum var íslenska þjóðin ein fátækasta þjóð Evrópu og okkur mun geta tekist það aftur innan 30 ára ef eins verður að staðið.

Lélegt skóla og heilbrigðiskerfi og háir skattar og lág laun og atvinnuleysi og vonleysi ýta á þjóðflutninga og raunar er það svo að það líða 2-3 ár fólk sér hvort ástandið batnar og ef ekki þá fer fólk og bölvun/blessun Íslands er olíu/gasríkið stóra sem hefur ávaxtað sitt pund meðan Íslendingar virðast hafa gert flest rangt síðasta áratuginn. 

Spurningarnar eru margar.  Það verður skorið á landfestar við Grikkland enda óhugsandi að fá þýska, sænska, finnska, já eða íslenska skattborgara að borga í þetta bix  Þeir þurfa sjálfir að skera sig niður úr snörunni.


Íslenska hrunið og gríska það gríska er ekkert AGS að kenna. Landið var að stöðvast i gjaldeyrisskorti, þegar íslensk stjórnvöld grátbáðu IMF að koma.  Hin leiðin hefði náttúrlega verið að halda áfram að verðfella íslenska hagkerfið og skrúfa neysluna niður í núll en sú leið var ekki farin.  Grundvallarvandamálið er að þú getur ekki haldið uppi heilu hagkerfi úr gjaldþrota ríkissjóð lítils smáríkis sem er fullkomlega háð innflutningi. Hvorki landbúnaðurinn eða sjávarútvegurinn er sjálfbær. Allt er þetta háð aðföngum. Olíu, áburði, vélum, varahlutum ofl. ofl.

Gunnr (IP-tala skráð) 20.9.2011 kl. 00:31

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Gunnr.

Þú ert greinilega ekki búinn að komast að niðurstöðu um hvaða orð þú ætlar að setja inn í töfraþulu þína í stað evru, en eitthvað er að gerjast hjá þér því ég hef aldrei séð þig komast eins lagt í rökleiðslu um að þú hafir haft rangt fyrir þér frá a til ö í sambandi við evruna.

Og ég skal hjálpa þér aðeins.

Bandaríkin er þjóðríki, með fylkjum sem hafa vissa sjálfsstjórn á innri málefnum.  Fjárhagur einstakra fylkja er ekki háð fjármálakerfinu og öfugt.  Lendi bankar í vandræðum þá er það miðstýrður seðlabanki sem grípur inní.  Þar að leiðir að það er enginn hvati fyrir fjármagn að flýja innan Bandaríkjanna, fjármagnsflótti frá Idaho setur ekki fjárhag fylkisins í rúst.  Og fari banki í Idaho á hausinn, þá er það alríkið sem tekur skellinn ekki fylkið.

Þetta er það sem þú áttar þig ekki á en átt það aftur sammerkt með hinni opinberi umræðu.  

Það er rætt í fullri alvöru að það dugi að setja sameiginleg fjármálamarkmið og það muni stöðva vanda evrunnar.  Það dugar ekki til á meðan frjálst flæði fjármagns er milli landamæra.  Menn gleyma því að það var ekkert að fjármálum spænska ríkisins, það var þenslan sem ríkið hafði ekkert með að gera, sem olli ójafnvæginu, og þegar fjármagnið óttaðist um hag sinn, þá leitaði það í öruggari skjól í bönkum Frakklands og Þýskalands.  Þegar það vantaði evrur inní kerfið, þá þurfti spænska ríkið að fjármagna það ríkisskuldabréfum sem það reyndi fyrst að selja á markaði. 

Það var þá sem vantraustið myndaðist, menn efuðustu um greiðslugetu þess.

Og þar með fór boltinn að rúlla og það leita alltaf fleiri evrur úr landi en koma inn í staðinn.

Ástæðan fyrir því að kerfið hrundi ekki var inngrip evrópska seðlabankans sem keypti spænsk skuldabréf.  En þá var það of seint, vantraustið var opinbert og síðan hefur markaðurinn ekki treyst sér til að lána Spánverjum.  

Sama er að gerast í Frakklandi í dag.  Það er ekkert að franskri hagstjórn, svona þannig séð.  En fjármagnsflótti úr fjármálakerfinu er hafinn.  Og franska ríkið getur ekkert gert til að hindra hann og á ekki pening til að fylla á tankana.

Þetta er vandi evrunnar í hnotskurn, það eru mörg sjálfstæð ríki um hana og það er frjálst flæði fjármagns.  Ef það myndast vantraust, skiptir ekki máli af hverju, þá geta þjóðríkin ekki brugðist við.  Og skuldastaða þeirra þarf ekki að vera slæm, en ef þeim vantar endurfjármögnun sem ég hygg að öll lönd heimsins þurfi á einn eða annan hátt, eða þau þurfa að afla lánsfjár til dæmis til að endurfjármagna bankakerfi sitt eða eitthvað, og markaðurinn treystir því ekki að fá peninga sína til baka, þá erum þeim allar bjargir bannaðar.

Og þá reynir á hinn miðstýrða seðlabanka.  Og eins og reglur evrópska seðlabankans eru í dag, þá er svigrúm hans takmarkað.  Hann getur ekki prentað vilt og galið eins og sá bandaríski gerði á meðan hann náði jafnvægi þar eftir stóra bankahrunið 2008.

Og við þessum vanda er aðeins eitt svar, sambandsríki.

Og Evrópa er ekki tilbúin að verða sambandsríki.  Svo einfalt er það.  Þess vegna er evran dáin þó andlátið hafi ekki verið kynnt.

Og það er ótrúlegt Gunnr, því þú heldur rökfast um penna, að þú skulir ekki sjá þetta samhengi.

Varðandi þetta að lifa um efni fram þá var það afleiðing hagstjórnarmistaka sem kreddutrú í hagfræði ber ábyrgð á.  Íslendingar gerðu ekkert annað en að nota krónuna sína.  Hún varð ofurkróna vegna fáránlegra vaxtahækkana og stjórnlaus innstreymis fjármagns í hagkerfið.

Heilbrigð skynsemi sá þetta en heilbrigð skynsemi stjórnaði ekki landinu.  Það er kannski það eina sem er hægt að áfellast þjóðina fyrir.  En hún á það sér til afsökunar að íslenskir hagfræðingar eru að uppistöðu bjánar sem ráða ekki við einföldustu röksamhengi.  Þeir studdu vaxtapólitík Seðlabankans því þeir höfðu lesið um það í námsbókum sínum.  Að setja spurningarmerki var eitthvað sem heilabú þeirra réði ekki við.  Sömu bjánarnir áttu ekkert annað svar við hinu óhjákvæmilega Hruni en að boða gjaldmiðilsbreytingu og taka upp evru.  Þó áttu þeir að hafa menntun til að vita að evran var dauðadæmd hugmynd því hún þyldi ekki vantraust kreppunnar.  

En jafnvel þó þeir hefðu ekki fattað það, þá áttu þeir að vita að vandi evrunnar eftir Hrunið 2008 var þvílíkur að ekki var vitað hvort hún lifði af.  Og þú ráðleggur ekki þjóð á sökkvandi skipi að hoppa um borð í annað fley sem ekki er vitað hvort flýtur eða sekkur.

Og Gunnr, það var ekki gjaldmiðlaskortur haustið 2008, AGS lánið var ekki greitt út í rúmt ár og ekkert gerðist.  Hvernig getur þú þá endalaust hamrað á þessari staðleysu????  En landið sætti hafbanni, og það er önnur saga.

Varðandi Grikkina sem þú talar aðeins betur um, kannski farinn að skammast þín innst inni,  að upptaka evrunnar myndaði að sjálfsögðu falskan kaupmátt, og það var vitað.  Og það er aðeins eitt svar við fölskum kaupmætti, aðlögun gengis.  Því það er jú gengið sem bjó til þennan falska kaupmátt.

Hagstjórnarmistök þeirra eru ekki meiri í dag en þau voru fyrir 5 árum eða 15 árum eða 25 árum, en aðeins í dag á að eyðileggja landið.  Ekki vegna efnahagslegra forsenda, heldur vegna pólitískra trúarbragða.  Nákvæmlega sama og Rússar gerðu Tékkum þegar þeir innlimuðu landið í Austurblokkina.  Þá urðu Tékkar fátækir.  Vegna pólitískra trúarbragða, ekki vegna þess að þeir lifðu um efni fram.

Ef lönd missa sjálfstæði sitt vegna óreiðu í efnhagsmálum, þá væri Grikkir svona búnir að missa það sirka 15-25 sinnum.  En hafa ekki gert það.  

Sérðu röksamhengið????

Að lokum, ég er ekki að kenna AGS um ástand þeirra landa sem þurfa aðstoð.  Lönd þurfa aðstoð vegna þess að þau eru í vanda.  Ég hélt einfaldlega að það væri ekki hægt að koma með hina gagnályktunina.

Sjúklingur leitar til læknis vegna veikinda, það að hann leiti til læknis þýðir ekki að veikindi hans sé lækninum að kenna.  

En þá reynir á lækninn, bætir hann heilsu sjúklingsins eða gerir hana verri.

AGS gerir heilsu sjúklingsins verri, hingað til hafa engar áætlanir þeirra í kjölfar sjokkmeðferðar þeirra gengið upp, í stað þess þá eykst vandinn.  Framleiðslan minnkar, hagkerfið dregst saman.  

Þetta eru staðreyndir, hefur allsstaðar gert.

Og á það bendi ég og það eru aum rök á móti að slá því fram að vandi viðkomandi þjóð sé ekki AGS að kenna.

Það sagði það enginn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.9.2011 kl. 09:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 33
  • Sl. viku: 2043
  • Frá upphafi: 1412742

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 1796
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband