Alvarlegur vitsmunaskortur eða ??????

 

".. að nota hið sögulega tækifæri, að skipta um gjaldmiðil, ná þannig stöðugleika, lækka vexti og losna við verðtrygginguna".  (Silfur Egils 18. sept 2011)

 

Það má færa gild rök fyrir því að Sovéska samyrkjukerfið hafi verið eitt heimskulegasta kerfi sem maðurinn hefur fundið upp til að sjá sér og sínum farboða.  Enda gerði Stalín sér engar grillur um það, hann kom því á sem kúgunartæki, það auðveldaði allt eftirlit og stjórnun að safna annars dreifðri stétt bænda saman í stórar einingar og það gerði algjört arðrán þeirra mögulegt.

Stalín fjármagnaði fyrstu skrefin í þungaiðnvæðingu Sovétríkjanna með útflutningi landbúnaðarvara.  Það voru landbúnaðarvörur sem fjármögnuðu vélarnar í risavirkjanirnar  og stórverksmiðjurnar.

Stalín vissi alveg hvað hann var að gera.

 

En á Vesturlöndum myndaðist sértrúarsöfnuður sem taldi hið sovéska samyrkjukerfi mikil vísindi og vildi samlöndum sínum í bændastétt það heitast að þeir fengju að upplifa hið  sovéska skipulag.

Mér er minnistæð mynd sem ég sá í Þjóðviljanum þar sem fögrum orðum var farið um einhvern risatraktor sem eitt búið í Ukraníu notaði til að auka afköstin í plægingu.  Það þarf ekki að taka það fram að ekkert komu upp úr ökrunum sem skrímslið fór yfir því jarðvegurinn var svo harður á eftir.

En íslensku sértrúarmeðlimirnir áttu alltaf svar þegar fréttir bárust af brestum og hallærum, það rigndi of mikið eða of lítið, sólin skein uppí loftið en ekki á kornið, einnig var minnst á samsæri kapítalískra afla, skemmdarverk fyrrum stórbænda, og svo framvegis.

En kerfið, það stóð fyrir sínu, og það átti að útbreiða um allan heim, allavega hér heima á Íslandi.

Samt voru í þessum sértrúarsöfnuði mætir menn, almennt taldir ekki verr gefnir en annað fólk, enda margir menntamenn og jafnvel mjög menntaðir menn.  Það sama gilti um andlega bræður þeirra á öðrum Vesturlöndum, þeir voru oftar en ekki hámenntaðir og miklir hugsuðir.

 

Það þarf ekki að vitna í dóm sögunnar um gjaldþrot hins sovéska kerfis, hin algjöra heimska og kúgun lág fyrir allan tímann.

Samt voru allir þessir hámenntuðu menn sammála að nú væri lag að nýta hið sögulega tækifæri, að bregðast við kreppum kapítalismans með því að taka upp hið sovéska þjóðskipulag.

Að fara úr erfiðleikum í algjöra auðn.

Hvað veldur, er þetta alvarlegur vistmunaskortur eða ?????????

 

Á Íslandi eru arftakar þessa gamla sértrúarsafnaðar ólmir að nýta sér annað sögulegt tækifæri, að taka upp evru til að skapa hér stöðugleika, velmegun, framfarir.

Og þar með er hægt að afnema verðtrygginguna og  tryggja almenningi lán með lágum vöxtum.  En reyndar ekki vín og villtar meyjar, það rýmast ekki innan pólistísks rétttrúnaðar og Jidda stríðsmönnum látið eftir að dreyma um það.

Skiptir þá engu að myntin er í dauðteygjum og á myntsvæði hennar er allt fjármálakerfi í rjúkandi rúst.  

Enginn veit hvar þær hamfarir enda.

 

Tilvitnun mín hér að ofan er reyndar í ungan þingmann, sem með fullri virðingu er sá heimskasti sem hefur gist þingsali í áratugi, en greyjið var nú lítið annað að segja það í Silfrinu sem trúbræður hans, margir háhámenntaðir, kyrja í blöðum og ljósvakamiðlum.

Gamall skólastjóri, núverandi ráðherra, mætur og virtur maður enda Skagamaður, lýsti raunasögu sinni, "krónan og ég" í þingsölum nýlega.  Hann taldi að raunir sínir tæki fyrst enda ef þjóðin tæki upp nýja mynt.  

"Lánið mitt hefði ekki hækkað hefðum við haft evruna" og vísaði þá í brunarústirnar eftir bankahrunið 2008.

 

Sem er vissulega alveg rétt, en í stað þess hefðu laun hans þurft að lækka (á Írlandi er reynt að lækka laun um sirka 20%) eða sem er líklegra, að hann hefði ekki fengið laun því ef ekki er hægt að aðlaga gengið að raunveruleikanum, þá er atvinnan aðlöguð, fólk missir vinnuna umvörpum við gjaldþrot fyrirtækja.

Vegna þess að efnhagslíf leitar í jafnvægi og frumbreytan er að ekki er hægt að eyða meira en er aflað.  Og gjaldmiðillinn endurspeglar þetta frumjafnvægi.

Gjaldmiðillinn er ekki forsenda stöðugleika, það er tekjuöflun þjóðfélagsins og að eyðsla þess sé í samræmi við þá tekjuöflun.  Gjaldmiðillinn er afleiðing, ekki orsök.

 

Og þjóðfélag sem býr við sveiflur í tekjuöflun sinni eins og íslenska veiðmannasamfélagið hefur gert frá upphafi, það býr þar með við óstöðugan gjaldmiðil.  Vegna þess að það er auðveldara að láta gjaldmiðilinn sveiflast en til dæmis laun.

Vissulega hefðu sveiflur á gjaldmiðlinum verið minni ef landsmenn almennt hefðu skilið þá staðreynd að ekki er hægt að verja kaupmátt sem er ekki lengur innistæða fyrir sökum lækkun á útflutningstekjum.  Og þær urðu minni eftir að kjarasamningar fóru að taka mið að raunkaupmætti en ekki krónukaupmætti.

Eins verða sveiflurnar minni þegar valdastétt landsins áttar sig á að það er ekki hægt að verja raungengi eignakrónunnar með verðtryggingu.  Það er ekki hægt að verja það sem "ekki er".

 

Með öðrum orðum þá dregur agi úr sveiflum, en agi getur aldrei komið í veg fyrir sveiflur.

Til þess þarf fjölbreytni í tekjuöflun og það sé alltaf borð fyrir báru í efnhagsmálum.

 

Svo við drögum þetta saman, ef þjóðin hefði haft evru haustið 2008, og hrunið samt orðið, þá hefði allt stöðvast vikurnar og mánuðina þar á eftir.  Fyrst hefðu einstaklingar og fyrirtæki orðið gjaldþrota, síðan hefði sveitarfélög og ríkissjóður fylgt í kjölfarið.

Auðvita er hægt að hugsa sér þá útópíu að allt hefði verið lækkað um 25%, laun og annar kostnaður, en hver er þá ávinningurinn við evruna???

Annar en sá að vera hluti af Hrunadansi hennar núna á útmánuðum 2011???

Því staðreyndin er sú að ekkert þjóðfélag hefur búið við langframa stöðugleika í efnhagslífi sínu fyrir utan það sem var í Ríkinu eftir Plató.

En það Ríki var útópísk hugmynd í bók, hvergi framkvæmd.

 

Þess vegna er allt tal um að evran sé forsenda stöðugleika í efnhagsmálum á Íslandi í besta falli barnaskapur og dálítið sorglegt að mætir menn og konur skuli fylkja sér um slíkan barnaskap.

Verðtrygging er aðeins mannanna verk, og rót hennar er sama heimska og svovéska samyrkjubúið eða hinn meinti stöðugleiki evrunnar.  Það er að henni er stefnt gegn lögmálum efnhagslífsins.

 

Og ein staðreynd er örugg þegar mannanna verk eiga í hlut, þeim má breyta.

 

Af hverju fylkja menn sér ekki um afnám heimskunnar og heilbrigða skynsemi í efnhagsmálum??

Af hverju þarf hugsandi fólk alltaf útópískan barnaskap til að berjast fyrir??

Af hverju berjast menn ekki bara fyrir umhverfi sínu og þjóðfélagi???

 

Af hverju vilja menn alltaf fara úr erfiðleikum í algjöra auðn???

 

Er þetta alvarlegur vitsmunaskortur eða ?????

Spyr sá sem ekki veit.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Ég held að þú vitir svarið við spurningunni þinni. En annars fín samantekt.

Það virðist vera óvinnandi vegur,  að koma því inn í hausinn á sumum, að gjaldmiðillinn er einungis mælikvarði á efnagags-og peningamálastefnu okkar.

Eggert Guðmundsson, 19.9.2011 kl. 11:48

2 identicon

Þakka þessa góðu ábendingu sem ég tek heilshugar undir. Félagi minn, Íri, sem býr í Dublin, fylgist vel með ástandinu hjá okkur á Íslandi og kemur hér reglulega. Hann sagði 2009, þegar hann var hér á fer.  

að þarf ekki að vorkenna ykkur íslendingum, þið eruð með svo marga góða og sterka tekjustofna og auðlindir.  Ferðaþjónustan er á fullu hjá ykkur og gefur ykkur ómældann gjaldeyrir.  Þið eruð með sterka fiskistofna og gott fiskveiðistjórnunarkerfi. Orkuframleiðslan, bæði rafmagn og hitaorkan eru eins og bestu gullnámur. Síðan eru þið með Ísl. krónuna, sem féll eins og steinn í hruninu, sem gerir það að verkum að hjá ykkur er atvinnulífið á fullu. Á Írlandi erum við með Evruna, sem er svo dýr, sem gerir það að verkum að hér er allt í hægagangi."

Ég veit ekkert um gáfnastig þingmannsins sem var í Silfur Egils, en það er eins og Samfylkingarliðið sé með alvarlega veiru eða sýkingu sem gerir það að verkum að þau sjá ekkart annað en ESB og Evruna.  Því tek ég undir með þér. Það er ekki gjaldmiðillinn sem ræður, heldur tekjuöflunin.

Hafnarfirði 19. sept. 2011. sh.

Sigurður Hallgrímsson (IP-tala skráð) 19.9.2011 kl. 13:00

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaðir félagar.

Kannski veit ég það Eggert, og kannski á ég eftir að blogga um það ef ég tek upp á því að blogga um stóru málin, framtíð samfélags okkar og framtíð siðmenningarinnar.

En í einföldustu mynd þá held ég að svarið sé ekki almenn heimska, nema með örfáum undantekningum, ein fékk að fljóta með hér að ofan, en af hverju pólitískur átrúnaður sviptir menn vit og rænu, það er öllu flóknara, ætla ekki að reyna að svara því hér og nú.

Sigurður, það er hægt að segja vitleysu á margan hátt, en það er aðeins á færi meiriháttar vitlausra manna að gera það á þann veg eins og ég vitna í að ofan.  

Úr frétt Ruv.  18.09 "Evrópskir bankar ramba á barmi gjaldþrots, með vofeiflegum afleiðingum fyrir Evrópubandalagið og heiminn allan. Ástæðan er hversu margir eiga ríkiskuldabréf Evrópuríkja, sem óttast er að geti ekki staðið undir skuldum. Ef allt fer á versta veg, er afleiðingin mun verri en gjaldþrot Lehmann-bræðra 2008, en það leiddi til kreppunnar. "

Raunveruleikinn er svo æpandi á skjön við þetta skrúðmælgi um evru sem stöðugan gjaldmiðil.

En reyndar þá hefur Egill verið lengi nasty við Samfylkinguna og fengið Magnús Orra iðulega í settið hjá sér, og rökræðan hans er ótrúleg, hvort sem það er í ICEsave, Magma, málefnum heimilanna, fjármálum ríkisins eða hvað það er sem menn ræða hverju sinni.  Hreinlega man ég ekki eftir manni með eins lítið töts fyrir raunveruleikanum og staðreyndum, og ég hef ágætis minni.  

En það er önnur saga og kemur málinu lítið við nema það að segir allt um Samfylkinguna að þau átta sig ekki á þessu.  

Afneitun staðreynda aflar flokki til lengri tíma ekki fylgi.

Takk annars fyrir Íra vitnun þína, við okkur blasir björt framtíð ef við höfum siðferðisstyrk til að hjálpa samlöndum okkar í neyð, og við notum vit okkar og þekkingu til að ýta undir grósku í samfélaginu.

Efnahagsmál eru nefnilega ekki flókin, ef samfélagið dafnar, þá dafnar efnahagurinn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.9.2011 kl. 13:47

4 Smámynd: Björn Emilsson

´Til þess þarf fjölbreytni í tekjuöflun og það sé alltaf borð fyrir báru í efnhagsmálum, segir þú réttilega Ómar. Umræðan er allt of mikið karp um allt og ekkert. Séð úr fjarlægð virðist manni liggja beint fyrir að auka ylrækt. Orkan er fyrir hendi. Afbragðs afurðir eru ræktaðar. Garðyrkjubændur hafa farið fram á lækkun orkuverðs til þeirra, en ekkert hlustað á þá. Sama er að segja um fjárbúskap og fiskvinnslu. Að ekki sé minnst á vatnið. Allt islenskar afurðir. Islendingar eru matvælaframleiðendur í sveltandi heimi. Vinnandi hendur munu fljótlega rétta við þjóðarskútuna.

Björn Emilsson, 19.9.2011 kl. 15:22

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Ætli þú sért ekki með kjarnann um kjölfestuna Björn.

Ég vil kannski bæta við að næsta stóriðja á að snúast um að koma vatnsorkunni á farartæki okkar, jafnt á láði sem legi.  Sparnaður á aðkeyptu eldsneyti fjármagnar sjálfkrafa þá leið fyrir utan það veit enginn um þá hnökra sem verður á alþjóðlegum viðskiptum næstu misserin.

En sjálfbær þjóð þarf ekkert að óttast og öll él birta upp um síðir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.9.2011 kl. 15:37

6 Smámynd: Björn Emilsson

Blessaður Ómar, aftur. Þessir frum atvinnuvegir islendinga eru allir til staðar nú þegar. Engin þörf er á erlendu fjármagni eða að gefa raforkuna eða landið útlendingum. Mestar áhyggjur manna hér í USA, er framsókn kinverja í allt sem ameriskt er. Bæði lönd, byggingar og fyrirtæki. Vilja gleypa allt með hús og hári. Þeir skilja eftir sig sviðna jórð atvinnuleysis og þarmeð fátæktar. Eina sem þarf til á Íslandi er að ´setja stefnuna´ og trú á mátt sinn og megin. Menn mega ekki einblina á að ´einhverjir aðrir´ komi til hjálpar. Það er ekkert til sem heitir ´free dinner´

Björn Emilsson, 19.9.2011 kl. 17:12

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Mikið sammála þér Björn, mikið sammála.

Í upphafi bloggferils míns talaði ég mikið um þessa hugsun og að við ættum að gera gott úr því sem við höfum.  Og við ættum að passa upp á hvort annað.

En svo hætti ég að nenna því, og væri eiginlega löngu hættur að blogga ef stjórnvöld hefðu ekki samið við AGS um beint gjaldþrot, öðru nafni ICESave og lánapakki AGS.

Núna er ICEsave frá og stjórnvöld hafa ekki þorað að nota AGS lánin til að borga út braskarakrónurnar á yfirgengi.  

Svona þessir pistlar mínir eru eiginlega andaslitrunnar, svona fjörbrot deyjandi bloggs.  Ég var eiginlega að endurræsa IP tölur mínar svo hér væri smá líf þegar ég henti inn pistli um lokal málefni sem ég lofaði góðum dreng að ég myndi gera.

Er að semja hann, hann kemur líka inn á þessa hugsun, svona einn flöt um sjálfbærni þjóðarinnar.

Í dag höfum við allt, nema hugrekkið að vera við sjálf.

Eins ágæt og við erum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.9.2011 kl. 17:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 22
  • Sl. sólarhring: 31
  • Sl. viku: 2041
  • Frá upphafi: 1412740

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 1794
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband