18.9.2011 | 10:00
Vanþekking eða ?????
Ritstjóri Morgunblaðsins notar orðið "óreiðuþjóðir" mikið þessa dagana og er þá að fjalla um þau ríki sem evrusamstarfið hefur lagt í rjúkandi rúst.
Fetar hann þar í þekkt fótspor.
Til dæmis notuðu íslenskir kommúnistar mikið orðið "óreiðufyrirtæki" þegar þeir vildu að stjórnvöld snéru Kveldúlf niður á sínum tíma. Rökin voru þau helst að eigendurnir væru með ættarnafn, gengu um í jakkafötum og þeir væru í valdakjarna Sjálfstæðisflokksins.
Og fyrirtækið hlyti að vera óreiðufyrirtæki fyrst að það væri á hausnum.
En vandi Kveldúlfs mátti rekja til pólitískra hagkreddu Jóns Þorlákssonar sem mætti góðærinu í aðdraganda Kreppunnar miklu með því að hækka gengi íslensku krónunnar (reyndar er líklegra að greiðsemi við verslunarmenn hafi ráðið ákvörðuninni) og þegar markaðir hrundu og tekjur sjávarútvegsfyrirtækja drógust mikið saman, þá var önnur kredda, kreddan um gengisstöðugleika, til þess að gengið var ekki aðlagað að raunveruleikanum
Með þeim afleiðingum að sjávarútvegurinn sem heild, ekki bara Kveldúlfur, lenti í greiðsluþroti. Og honum var haldið gangandi með framlengingu víxla í Landsbankanum, eitthvað sem var háð handafli, og pólitískum geðþótta.
Að taka einstök fyrirtæki og höggva var því pólitísk ákvörðun, algjörlega óháð rekstrarhæfni eiganda þess, en það var pólitískt klókt að úthrópa orðið, "óreiðu".
Hinar rjúkandi rústir evrunnar eru ekki vegna þessarar frægu "óreiðu" heldur vegna innbyggðs kerfisvanda evrunnar, kerfisvanda sem óhjákvæmilega eyðileggur efnahag þjóða til lengri tíma.
Evran er jafngalin hugmynd eins og að Eurokratar í Staðlaráði ríkisins tæki ákvörðun, í hagræðingar og samræmingarskyni, að allir sýningarhundar fengju sama matarskammtinn. Og viðmiðið væri við til dæmis íslenska smalahundinn sem er þolgóður og nægisamur. Afleiðingin yrði að sjálfsögðu alltof feitir smáhundar eða grindhoraðir stórhundar.
Og þeim sem er ekki tamt að sjá raunveruleikann fyrir pólitískum kreddum myndi leita skýringa hjá eigendunum en ekki hinni "samræmdu" fæðustöðlum. Þeir átta sig ekki á að það "sama" hentar ekki öllum.
En hinir pólitísku blindingjar myndu líklegast átta sig á takmörkun skynsemi sinnar ef Staðalráðið gæfi út tilskipun um sameiginlega skóstærð, þá myndi líklegast aumir fætur koma vitinu fyrir þá.
Líklegast myndi öll heimskan sem vellur í evrumræðunni hverfa ef evruskór hefðu fylgt evrunni. Þá sæu líklegast allir heimskuna á bak við samræmingu skriffinnana sem vilja steypa öllu í sama mót. Og setja reglu um allt, mannlegt sem ómannlegt.
Reglu, reglunnar vegna.
Ég hef áður pistlað um þá lágkúru að skella "óreiðu" stimpil á Grikki, vísa í þá umræðu,í kjarna þá fóru þeir inn í evruna á handafli, ekki á efnahagslegum forsendum. Evran skapaði falskan kaupmátt, en tortímandi hlið hennar kom í ljós þegar Grikkir þurftu að endurfjármagna sig í miðri fjármálakreppu.
Þar sem evran er "erlend" mynt þá er endurfjármögnun alfarið komin undir "velvilja" markaðarins, segi hann Nei, þá er skuldarinn kominn um leið í greiðsluþrot.
Og það er það sem gerðist í Grikklandi.
Markaðurinn sagði ekki Nei að ástæðulausu, en í kjarna skiptir það ekki máli, ef skuldara er neitað um endurfjármögnun á skammtímaskuldum sínum, og hann getur ekki greitt þær, þá lendir hann í greiðsluþroti, gjörsamlega óháð því hver "eiginfjárstaða" hans er að öðru leiti.
Skiptir ekki máli hver á í hlut, hvort sem það er ritstjóri Morgunblaðsins, íslenska ríkið, bandaríska ríkið, Jói Rokkafeller, Jóakim Aðalönd, eða þau ríki Evrusamstarfsins sem þykjast ráða við ástandið.
Ef myntin er "innlend" þá geta Seðlabankar viðkomandi ríkja gripið inn í með peningaframleiðslu og haldið þannig hagkerfinu gangandi. Það er það sem bandarísk stjórnvöld gerðu, bresk stjórnvöld, íslensk að hluta, og það er það sem Evrustjórnin gerði að lokum.
Aðeins gífurleg seðlaprentun (kaup á verðlausum ríkispappírum einstakra evruríkja og endurfjármögnun gjaldþrota banka) heldur evrunni og einstökum evruríkjum á floti í dag.
Og það sér ekki fyrir endann á þessari seðlaprentun og hún mun ekki duga því vandi evrunnar er botnlaus.
Hann er kerfislægur og þess eðlis að götin sem myndast er stærri en menn ná að stoppa í með handafli.
Burtséð frá því að þýska markið, endurskýrt sem evra, hentar fáum hagkerfum en því þýska, og burtséð frá hinum falska kaupmætti sem hún skapaði í einstökum löndum með vanþróaðra hagkerfi, þá er það viðbrögð markaðarins á krepputímum sem gera útslagið.
Fjármálaviðskipti, sérstaklega alþjóðleg, byggjast á trausti.
Trausti um að menn fái lán sín til baka og trausti á að eigur manna haldi verðgildi sínu.
Verði misbrestur á þessu trausti, þá leita menn í skjól með eigur sínar, frá vandræðum, til þess sem menn treysta.
Kallast fjármagnsflótti.
Evrusvæðið er einn fjármálamarkaður, ein sameiginleg mynt.
Þeir sem eiga þessa mynt í dag leita með hana á þann eina stað sem menn telja öruggan, til Þýskalands.
Þar með tæmast bankar einstakra evrulanda að lausafé, fyrst þeirra landa sem verst standa, en keðjuverkunin sér til þess að óttinn breiðist út og bankar æ fleiri landa lenda í erfiðleikum.
Og í dag eru það ekki bara bankar "óreiðuríkjanna" sem eru fallnir, franskir bankakerfið er fallið, það breska líka ef útí það er farið, en það tilheyrir ekki evrusvæðinu.
Og viðbrögðin, að prenta seðla eykur óöryggið, því þeir enda að lokum sem verðlaus skeinpappír.
Þetta er skýring þess að evran er dauð, bankakerfið er fallið.
Og það er óhjákvæmilegt þegar vantraust grefur um sig í miðri fjármálakreppu. Og fjármálakerfið var á brauðfótum vegna óstjórnlegrar spákaupmennsku.
Þessi staða blasti við snemma árs 2009 og það er skýring þess að ég hló á bloggsíðu hins mikla evrudrápara, Gunnars Rögnvaldssonar, eftir að hafa lesið greinargóða úttekt hans á stöðu hins evrópska bankakerfis, og sagði, "núna hef ég ekki áhyggjur að ESB aðild, evran er dauð".
Og evran er dauð, það viðurkenna allir í dag.
Og dauði hennar var óhjákvæmilegur, hefur ekkert með verk mannanna að gera.
Hörmungarnar sem lagðar er á fyrstu fórnarlömb hennar, eins og Grikki, eru hins vegar mannanna verk.
Það er hlálegt að þessi mikla skapríka þjóð, sem lifði af margra alda kúgun Tyrkja og náði að dafna eftir sjálfstæði sitt um 1830, þrátt fyrir vægast sagt misvitra hagstjórn, að hún skuli í gras lúta eftir nokkurra ára gjaldmiðasamstarf með Þýskalandi í nafni evrópuhugsjónar.
Og viðbrögð evrópuhugsjónarinnar var skuldaþrælkun og eyðilegging innviða samfélags hennar.
Það er ef vilji Eurokrata gengur eftir.
Hvort sem það er vanþekking eða eitthvað annað sem stýrir penna ritstjóra Morgunblaðsins ætla ég ekki að skera úr um.
En miklir eru þeir sem telja sig sig búa í svo traustu húsi að geta uppnefnt Grikki og kallað þá óreiðuþjóð.
Eða kennt önnur fórnarlömb evrunnar við "óreiðu".
En það á ekkert skylt við mannúð eða mennsku.
Fórnarlömbum hamfara á að hjálpa, og það á að reyna að hindra að hamfarir af mannavöldum endurtaki sig.
En maður hæðir ekki fórnarlömb, hvort sem það er Grikkir eða íslensk fórnarlömb gengis og verðtryggingar.
Það að maður hafi sjálfur sloppið eða ekki verið í þeim aðstæðum sem mannanna óverk höfðu áhrif á, þá er það ekki það sama og maður sé á einhvern hátt betri eða æðri.
Maður einfaldlega lenti ekki í hamförunum.
Það er ekki flóknara en það.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:46 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 16
- Sl. sólarhring: 26
- Sl. viku: 2035
- Frá upphafi: 1412734
Annað
- Innlit í dag: 16
- Innlit sl. viku: 1788
- Gestir í dag: 16
- IP-tölur í dag: 14
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Var ég að lesa eintómar lygar, á sínum tíma,í fréttamiðlum um að Grikkir hafi logið um efnahag landsins , þegar þeir sóttu um Evruaðild? Efnahagsstaðan var miklu verri og framleiðnin helmingi minni en þeir gáfu upp og spillingin algjör eins og alltaf hefur verið hjá Grikkjum.
Nokkuð gott dæmi með skónúmerin, en ef þú pantar skó í gegn um póstorder og gefur upp rangt númer, vað gerist þá? Vandamálið með Evrusvæðið eru mannleg mistök. Það voru of mörg lönd tekin inn á of skömmum tíma.
V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 18.9.2011 kl. 11:59
Blessaður V.
Maður á að hafa þá heilbrigðu skynsemi að geta sagt sér að það falsar sig enginn inn í myntbandalag sem lýtur sameiginlegri stjórn. Hafi "fiffin" ekki verið unnin í samráði við yfirstjórn Evrópska Seðlabankans, þá voru þau allavega með þegjandi samþykki hans. Það er það sem ég á við með pólitísku handafli, bæði grískir stjórnmálamenn vildu í evruna, og evrustjórnendur vildu þá í samstarfið. Þess má bæta við að það var fiffað á fleirum stöðum, bara til dæmis ógreiddar lífeyrissjóðsskuldbindingar gera flest lönd evrusvæðisins ótæk, þar á meðal Þýskaland.
Annað ef það var talið hægt að fiffa landið inn, þá hefur ríkiskassi þess aldrei staðið eins vel og í aðdraganda þess að evran var tekin upp. Stjórn efnhagsmála hefur aldrei legið vel fyrir Grikkjum þó þeir séu slungnir bissnessmenn þegar þeirra eigin fyrirtæki eiga í hlut.
Og það er kjarninn, landið var aldrei tækt í evruna því það er eins og það er. En aðeins eftir að landið tók upp evruna, er talað um að gera það upp, að svipta landsmenn sjálfstæði. Síðast var það reynt 1940, þar á undan þegar Tyrkir sendu her til að lemja niður sjálfstæði landsins.
En það sem gerðist í evrukrísunni var tvennt.
Landið var fullt af ódýrum evrulánum sem nota bene eru ekki síður á ábyrgð þess sem lánar og þess sem tekur lánið, og þeir sem áttu, þeir flúðu með evrur sínar úr landi.
Evruflóttinn kallaði á aðstoð ríkisins við bankana, það er að útvega þeim lausafé, eitthvað sem Gríska ríkið gat ekki nema með útgáfu ríkisbréfa, ekki gátu þeir prentað þá. Síðan gerist það að fjárfestar setja spurningu við greiðsluhæfi landsins og þar með valt af stað snjóbolti sem Grikkir gátu ekki stöðvað þar sem myntin var erlend.
Ef þeir hefðu haft sitt drakma, þá hefðu þeir einfaldlega fellt það. Og væru í efnahagserfiðleikum, en ekki skuldaþrælar sem lönd í glerhúsi tala um að svipta sjálfsforræði.
Og öll lönd með erlenda mynt geta lent í sömu stöðu, ef frjálst flæði fjármagns er leyft, og ef þau eru með skammtímaskuldir sem þarf að endurfjármagna.
Hefðu bretar og Bandaríkjamenn haft erlenda mynt, þá hefðu þau ekki getað fjármagnað bankakreppupakka sína haustið 2008, og væru þar með gjaldþrota.
Í því liggur þessi grundvallarmunur á innlendri og erlendri mynt.
Og að lokum V., Grikkir hugsa hlutina öðruvísi en við og þeir uppskera lífskjör eins og þeir sá til þeirra. En það gefur okkur engan rétta að telja okkur á einhvern hátt þeim fremri eða okkar þjóðfélag sé betra en þeirra.
Og það erum við sem setjum niður að kalla þá óreiðumenn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 18.9.2011 kl. 13:17
Góður pistill sem og oft áður, Ómar. Okkur ferst að kalla Grikki óreiðufólk miðað við, að þeir hafa búið við ýmissa pólitíska óáran allt frá lokum síðari heimstyrjaldar.
Kv., KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 18.9.2011 kl. 16:18
sko Ómar það er orðið lenska hjá þér að koma Mogga allt sem aflaga fer,það þjónar ekki tilgangi neins,en samt þetta lestegur pistill að vanda/kveðja að sunnan !!!
Haraldur Haraldsson, 18.9.2011 kl. 19:28
Takk Kristján og nákvæmlega.
Við megum ekki gleyma að margir í ESB trúboðinu nota það sama orðalag um íslenskan almenning vegna þess að hann lét glepjast af tilbúna góðærinu sem hið falska gengi króunnar skapaði á árunum 2004-2008. Hvað átti að fólk að gera með sinn mikla kaupmátt og allir vildu lána öllum????
Átti það að vita betur en sérfræðingarnir sem sögðu að allt væri í himnalagi? Andlegir bræður þessa sérfræðinga héldu sömu upplýsingum að grískum almenningi.
En verst þykir mér að hrokinn á sér sömu rætur og hroki evrusinna gagnvart Grikkjum. Og ræturnar er sú bábilja að evran sé raunveruleg mynt sem þessar þjóðir geti notað. Og þegar að svona vandi kemur upp, þá sé það þeim að kenna sem notuðu hana, en ekki hinn innibyggði kerfisvandi evrunnar.
Í raun eru þeir evruandstæðingar, sem nota orðið óreiðuþjóðir, að taka undir rökfærslu evrutrúboðsins.
Þó þeir fatti það ekki, þá eru þeir samt að því.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 18.9.2011 kl. 19:33
Blessaður Haraldur.
Lestu innslag mitt að ofan, þar bendi ég á rætur þessa orðalags.
Það sem frá skrattanum er komið, er mér ekki til skemmtunar.
Og ætti ekki að skemmta Davíð heldur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 18.9.2011 kl. 19:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.