2.8.2011 | 14:58
Ef við jörðum Sævar án æru, þá jörðum við um leið sæmd stjórnvalda.
Það er enginn sómi í því að láta pyntingar og réttarmorð viðgangast.
Það er enginn sómi í því að neita fórnarlömbum Geirfinnsmálsins um réttlæti.
Það er enginn sómi í því að láta þetta mál hvíla sem mara á þjóðarvitundinni.
Réttarkerfi okkar skortir þann innri styrk að gera upp sín eigin afglöp. Það hefur ekki kjark til að viðurkenna pyntingarnar, til að viðurkenna handarbakavinnubrögðin, skortinn á sönnunargögnum, viðurkenna að allt fór úrskeiðis í rannsókn málsins.
Það hefur ekki kjark til að endurheimta æru sína með því að láta hlutlausa erlenda sérfræðinga fara yfir yfir öll gögn málsins og meta sannleiksgildi þeirra ákæra sem soðnar voru saman svo hægt væri að dæma málið úr umræðunni.
Þann kjark hafði réttarkerfi Þýskalands þegar ógnarstjórn nasismans lauk.
Þann kjark hafði rússneska réttarkerfið þegar kommúnisminn féll.
Meira að segja breska réttarkerfið hafði kjark til að horfast í augun á sínum eigin mistökum í Birminghammálinu.
En einhver ógurleg ógn virðist múlbinda íslenska réttarkerfið, það þegir í stað þess að rétta sinn hlut með hlutlausri rannsókn.
Við slíkar aðstæður er það hlutverk stjórnvalda að grípa inní, að sjá til þess að lagaútúrsnúningur hindri ekki réttlæti. Að þau lýsi yfir að játningar fengnar með pyntingum séu ekki grundvöllur ákæru eða dóms í sakamálum.
Í mörg mörg ár hafa stjórnvöld brugðist þessari skyldu sinni en núna þegar enn eitt fórnarlambið fellur frá, þá verða þau að gera eitthvað.
Því núna vitum við forsögu Sævars og það helvíti á jörðu sem barnaverndaryfirvöld lögðu á hann.
Eftir að komst upp um glæpinn í Breiðuvík, eftir að stjórnvöld viðurkenndu glæpinn með sátt sinni, þá verður að ganga alla leið.
Það er ekki nóg að biðjast afsökunar á einum níðingsskap en láta annan, mun alvarlegri viðgangast.
Það bara gengur ekki.
Ekkert fólk hagar sér svoleiðis og við verðum að fara að horfast í augu við það.
Það er framkoma okkar við okkar minnstu bræður sem segir hvernig fólk við erum.
Og það er engin afsökun að segja, "ég get ekki".
Það er engin afsökun Ögmundur.
Kveðja að austan.
Útför Sævars Ciesielski í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 4
- Sl. sólarhring: 17
- Sl. viku: 2023
- Frá upphafi: 1412722
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 1776
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Tek undir hvert einasta orð hjá þér. Þetta er til háborinnar skammar. Réttarkerfið á Íslandi er ekki trúverðugt né hægt að treysta með flokkspólitískum skipunum í dómara embætt trekk í trekk og er þá ekki verið að horfa á hæfni viðkomandi. Það eru fleiri mál sem dómarastéttin hefur sópað undir teppið af ótta við sannleikann, enda hefur það sýnt sig með úrskurði mannréttindardómstólsins ítrekað.
Kveðja Sigurður
Sigurður Kristján Haltested (IP-tala skráð) 2.8.2011 kl. 15:14
Takk Sigurður.
En sérstaða Geirfinnsmálsins er hið mikla harðræði sem skóp hinar meintu játningar, játningar sem stóðust ekki skoðun staðreynda.
Heimurinn er ófullkominn og réttarkerfi okkar líka, en siðuð þjóð, siðað fólk lætur ekki dóm á grundvelli játningar sem fengin var með pyntingum, standa.
Ekki þegar hún kemst að hinu sanna.
Í raun snýst þetta ekki um að sakborningarnir endurheimti sína æru, heldur að þjóðin endurheimti sína æru.
Það er kjarninn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.8.2011 kl. 16:23
Þessi grein segir svo margt og ég er fullkomlega sammála hverju einasta orði. Því miður varð það þannig í þessum málum AÐ ALLT BRÁST SEM GAT BRUGÐIST og það er skylda gagnvart samfélaginu öllu og þó sérstaklega gagnvart þeim einstaklingum sem voru órétti beittir að GERA ÞESSI MÁL SÓMASAMLEGA UPP......................
Jóhann Elíasson, 2.8.2011 kl. 16:33
Blessaður Jóhann.
Ég er ekki að gera lítið úr þeim órétti sem sakborningarnir urðu fyrir, auðvitað skiptir það grundvallarmáli að þeir fái sinn hlut réttan.
Það sem ég er að hnykkja á, sérstaklega í athugasemd minni hér að ofan, er að þetta er líka grafalvarlegt mál fyrir þjóðina að láta réttarkerfið komast upp með að hundsa hlutlausa úttekt á málinu í heild sinni.
Það er oft eins og fólk finni ekki fyrir samúð, eða skynji að sumt er ekki gert, sama hver á í hlut, það er eins og óréttið þurfi að beinast að því persónulega eða fólki því tengt til að það mótmæli af einurð. Annars er það þetta fræga afskiptaleysi, "hvað varðar þetta mig??", og í því skjóli þrýfst valdníðslan og ranglát málsmeðferð.
Og ég er að reyna að koma því að þetta varði okkur öll sem þjóð, þetta sé graftarkýli sem þurfi að hreinsa út. Ekki vegna þess að við getum verið næst, eða fólk okkur tengt, heldur vegna þess að sumt má ekki gerast í siðuðu þjóðfélagi, og ef það gerist þá er það sameiginleg krafa siðaðs fólks að hlutir séu rannsakaðir og bætt sé úr því sem miður fór.
Ég er ekki að tala um að einstaklingarnir sem voru gerendur í málinu axli ábyrgð, heldur kerfið sjálft og þjóðin í kjölfarið með afsökunarbeiðni eða bótum ef það á við.
Og í kjölfarið læri menn og láti vonandi svona hluti ekki gerast aftur.
Þetta snýst ekki um synd eða sekt, heldur að gangast við ábyrgð og yfirbót.
Eða eins og þú segir, "að GERA ÞESSI MÁL SÓMASAMLEGA UPP".
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.8.2011 kl. 20:24
Sæll Ómar það er svo þegar maður les allan dómin og umflöllunina aftur!!!nóg las maður sýnum tima að maður verður meira og mynna efins í báðar áttir,og er það ennþá/Kveðja að sunnan
Haraldur Haraldsson, 2.8.2011 kl. 20:51
Blessaður Haraldur, það eru of mörg vafaatriði í þessu máli sem er ekki hægt að líða að séu ekki rannsökuð.
En kjarninn er samt sá að vinnubrögðin við að knýja fram játningu, þau eru ekki réttarríki bjóðandi.
Og málið er það tengt réttarkerfinu að það er ekki hæft að fara yfir sín eigin vinnubrögð. Og þar sem rannsóknin þarf að vera hafin yfir allan vafa, þá þarf að fá hæfa erlenda sérfræðinga til að endurmeta málið. Til dæmis mætti ræða við lordinn sem stýrði rannsókninni á sambærilegu réttarklúðri í Bretlandi, það er réttarmorðið kennt við Birmingham, en þar voru nokkrir Írar gripnir og dæmdir því það vantaði dóm til að róa ástandið.
Það var algjört aukaatriði að þeir tengdust málinu ekki á neinn hátt.
Eitthvað svipað virðist hafa gerst í Geirfinns og Guðmundarmálinu, og ærleg þjóð einfaldlega viðurkennir það.
Vitna aftur í Jóhann, það þarf "að GERA ÞESSI MÁL SÓMASAMLEGA UPP".
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.8.2011 kl. 21:18
Ómar, fyrirgefðu hvað ég svara seint, ég tók þessu sem þú skrifaðir alls ekki þannig að þú værir neitt að deila á "sakborningana" ég held að við höfum verið alveg sammála um þetta og enn einu sinni vil ég lýsa ánægju yfir skrifum þínum.
Jóhann Elíasson, 2.8.2011 kl. 21:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.