Vanhæfni ríkisstjórnarinnar kristallast í þessum orðum.

 

Hvað eru læknarnir að kvarta, þeir eru á ágætis launum.

Sem má vel vera þó skýring þess tengist að mestu leiti miklu vinnuálagi lækna.  En það kemur þeim vanda sem við er að glíma ekkert við.

Það er læknaskortur á landinu, sem fer vaxandi, og verður óviðráðanlegur eftir 10-15 ár ef þróuninni verður ekki snúið við.

Með öðrum orðum þá er heilbrigðiskerfið að deyja innan frá.

 

Og í þessu sem og í svo mörgu öðru virðast stjórnvöld ekki átta sig á eðli vandans og eru því algjörlega ófær um að bregðast við honum.

Enda er vanhæfni og getuleysi einu kostir ríkisstjórnarinnar því flest verk hennar eru til ills og því ágætt að hún komi litlu eða engu í verk.  

Stjórnarflokkunum til betrunar vil ég taka það fram að sama vanhæfnin og sami vitskorturinn hrjáir stærsta stjórnarandstöðuflokkinn svo það má færa rök fyrir að klúðrið á Alþingi sé kerfisbundið.

 

En vandinn er vissulega flókinn og umræðan um kaup og kjör er aðeins einn flötur hans.  Daginn sem Íslendingar uppgötva manndóm sinn og kjósa fólk til að stjórna sér þá þarf að setjast niður með læknum og ræða vandann, rætur hans og hvað er til úrbóta.

Það er staðreynd að í mörg ár hefur framkoma stjórnvalda gagnvart læknum verið á þann hátt að stjórnvalda sé valdið sem það vissulega er, en það er óskynsamleg hegðun þar sem átthagabönd voru aflögð fyrir einhverjum öldum.  Og andsvar lækna er einfaldlega að taka poka sinn og fara.  

Nútímaþjóðfélag er ekki rekið án lækna og því eru það fáráð að láta kerfiskalla keyra fram allar sínar hugmyndir um uppbyggingu og mótun heilbrigðisþjónustunnar án þess að samráð sé haft við þá sem eiga að manna kerfið.  

Og þetta gildir ekki bara um lækna, heldur um allar stéttir sem þar vinna.  Því staðreyndin er sú að þjóð sem er ekki samkeppnisfær í launum við það sem best gerist erlendis, hún þarf að huga að öðrum gildum til að laða að sér hæft fólk.

Það þarf vit, það þarf skynsemi, það þarf samræðu.

 

Líkt og við þurftum eftir Hrunið, hefði okkur borið gæfu til að kjósa fólk til að stjórna þá væri landið okkar ekki að hrynja innan frá.

En við Íslendingar lítum á okkur sem aumingja.  Það er engin önnur skýring á að á Alþingi eru hátt í 50 þingmenn sem telja það sitt eina hlutverk að neita fórnarlömbum Hrunsins um réttlæti og sanngirni.  Því það gæti skaðað fjármagnið.

Afleiðing þeirrar stefnu, fyrir utan hægfara dauða efnhagslífsins, er að smán saman gefast fórnarlömb Hrunsins upp á ómennskunni og yfirgefa þetta land aumingjanna, landi þar sem fólk í neyð er skilið eftir á köldum klaka skuldaauðnarinnar sem bráð fyrir fjárúlfa fjármagnsins.

Og valkosturinn er að vera rifinn á hol eða gangast undir lífstíðarskuldaþrældóm án nokkurrar vonar um mannsæmandi líf.

 

Læknar eru fyrstir til að fara, eins og einn sagði, "ég þarf að borga af stökkbreyttu lánum mínum".

Og annað ungt fólk með góða menntun er að fara eða farið.

Eftir sitja gamalmenni og hrokafull landsbyggð (þar sem flestir eru hvort sem er við aldur) sem lét lýðskrumara fjárúlfanna telja sér í trú um að réttlæti handa skuldurum væri tekið úr þeirra pyngju.  Að það kostaði að hjálpa.

 

Þessi aumingjaskapur, að vita ekki að fólk hjálpar samborgurum sínum í neyð, að það er forsenda þess að vera maður, hann er grunnvandi þessarar þjóðar, því hann er í meirihluta og hann stjórnar þjóðinni.

Og hann er að hrekja unga fólkið úr landi.

Samvinna og samhjálp hefðu skapað þá stemmingu að fólk hefði barist fyrir framtíð lands síns en sérhyggja og smásálarskapur ýtir undir það hugarfar að hver og einn hugsar um að bjarga sjálfum sér.  Og fer úr landi ef honum býðst eitthvað betra.

 

Við sjáum hvað þessi sérhyggja og smásálarskapur hefur skilað okkur.  Við erum sundruð, við erum stórskuldug, og það á að selja okkur hæstbjóðanda.

Við erum þjóð án framtíðar í heimi sem virðist eiga sér litla framtíð af sömu ástæðum.

Er ekki tími til kominn að staldra við og tengja.

Og hugsa hlutina upp á nýtt.   

Og byggja upp nýtt þjóðfélag á M-unum þremur, Mannviti, Mennsku og Mannúð.

 

Hverju höfum við að tapa???

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 


mbl.is „Læknar á ágætum launum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Líkt og við þurftum eftir Hrunið, hefði okkur borið gæfu til að kjósa fólk til að stjórna þá væri landið okkar ekki að hrynja innan frá."

Hvað með fyrir hrun? Hefði ekki verið gott að hafa ef fólk hefði boðrið gjæfu til að kjósa fólk með viti fyrir hrun? Fá fólk í Seðlabankann sen hafði smá glóru í hausnum. Hvernig væri að þú og þínir líkir færuð að viðurkenna ykkar hlut í hruninu, í staðin fyrir að kenna alltaf öðrum um ófarirnar.

jkr (IP-tala skráð) 2.7.2011 kl. 10:50

2 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Já sæll Ómar og góð grein hjá þér, það er skelfileg þessi staða sem komin er og þessi andstaða Ríkisstjórnarinnar við öllu saman er alveg búin að keyra út í enda hjá mér.

Það er skelfileg staða að við Íslendingar séum að missa megnið af læknum okkar út fyrir Landssteinana og Ráðamenn sitja bara og horfa í aðra átt,  þeim virðist vera nákvæmlega sama hvað verður um Þjóðina sem slíka...

Það eru ljótar sögur sem maður heyrir um umönnun á fólkinu okkar á þessum umönnunarheimilum og svo ljótar sumar að maður myndi aldrei vilja sér eða öðrum slíka umönnun...

Ég er svo sammála þér að öllu leiti og allveg ljóst að breyting verður að koma....

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 2.7.2011 kl. 10:59

3 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

jkr það voru kaupendur bankana af Ríkinu sem brugðust fyrst og fremst segi ég...

Hvað hver gerði er eitthvað sem við getum ekki leyft okkur lengur að vera föst yfir og látið það réttlæta það sem er gerast vegna þess að það sem er núna er að setja okkur endanlega á hausinn...

Það má ekki gleyma því heldur að það var annar flokkur líka við völd þegar hrunið varð og sá flokkur er fremstur við völd núna og ekki laust við að manni finnist sá flokkur vera að klára ránið sem byrjað var á og olli hruninu....

Sá flokkur heitir Samfylkingin jkr ef þú veist það ekki...

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 2.7.2011 kl. 11:12

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður jkr og takk fyrir innlitið.

Viðhorf þitt til manna og mála minnir mig um margt á orsakir harmleiksins mikla á Balkanskaganum sem náði hámarki með ódæðinu í Sebrenica.  Þar náði fólk ekki að rífa sig frá deilum og misklíðum fortíðar og notaði fyrri eitthvað til að fremja viðlíka eða meira eitthvað, sem aftur verður svo fóður fyrir eitthvað í framtíðinni, og allir þjást.

Ég gleymi því ekki þegar ég sá fréttamynd frá þorpi einu í Krainju þar sem aldraðar serbneskar konur hvöttu piltana til dáða, dáða sem meðal annars fólust í að myrða sjúklinga og nauðga konum.  Hatur þeirra átti sér rætur í nauðgunum og ódæðum fasistasveita Króata á árum seinna stríðs.  Ég hugsaði með mér, "af hverju vilja þær öðrum konum illskuna sem þær sjálfar lentu í??".

Væri ekki nær að koma í veg fyrir að konum yrði nauðgað í framtíðinni, þar á meðal þeirra eigin dætrum og dætradætrum??'  Kannski hafa þær hugsað það þegar Króatirnir ráku þær svo á flótta frá heimkynnum sínum, með tilheyrandi nauðgunum og morðum.

Þú hefur áhyggjur á ábyrgð minni í aðdraganda Hrunsins.  Vissulega stóð ég ekki upp á kassa og predíkaði eins og ég geri í dag, en ég get ekki séð að það hafi skipt neinu máli, þá frekar en núna.  Nema í dag ber mér skylda til að reyna.  Slíkt ástand var ekki til staðar þá.

En ég kaus gegn ríkjandi ástandi, 2007 nafna minn Ragnarsson sem ég álít samvisku Íslands, þar á undan gamlan blakfélaga sem ég mat mikils þó ég væri ekki alltaf sammála.

Réði þar miklu einörð andstaða hans við stóriðjuvitleysuna.  Sem að allir sjá að er gjaldþrota í dag.  Fyrirtækin sem virkjuðu, fyrirtækin sem unnu fyrir þau við virkjunina, þjóðin sem tók allt að láni.  Fyrir utan sundrunguna þegar örlitill meirihluti keyri gegn stórum minnihluta.

En þó ég hefði kosið íhaldið frá fæðingu þá breytir það ekki um gagnrýni mína á núið og vilja minn til að fólki sé gert kleyft að lifa mannsæmandi lífi í þessu landi.

Því lífið snýst um að læra af fortíðinni, takast á við núið með þann lærdóm á bak við eyrað, og móta framtíðina.

Og það vill svo til að ég met lifandi fólk meira en dautt fjármagn, og ég get svarið að forsenda fjármagns er lifandi fólk, svo ég tel að ástmenn fjármagnsins ættu líka að íhuga orð mín og virða lífsskoðanir mínar.

Líka þú jkr, trúðu mér, forsenda alls er manneskjan, hinn venjulegi maður, velferð hans og mannsæmandi framtíð.

Lífið sjálft.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.7.2011 kl. 11:44

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Ingibjörg.

Takk fyrir innslag þitt.  Vil aðeins bæta við að við verðum sjálf að móta hvað við viljum, sé ekki að flokkakerfið sé að gera það, nema þá að litlu leiti.  Undantekningarnar liggja í einstaklingunum, en 3/4 alþingismanna styður núverandi gjöreyðingarstefnu AGS.

Stefnu sem er seinvirkt eitur en afleiðingar hennar koma alltaf betur og betur í ljós.  Og öllum var spáð af þeim sem þekktu til eiturverkana eiturbras AGS.

Fólk til hægri verður líka að átta sig á að Sjálfstæðisflokkurinn styður þessi ósköp, þó eru flest fórnarlömb Hrunsins og eiturverkana AGS úr kjósendahópi flokksins.  Eini forystumaðurinn sem virðist eitthvað skilja (reyndar vel að mínum dómi) er Sigmundur Davíð, en það er ekki mikið hlustað á hann.  Því miður.

Og það er vegna þess að við látum alltaf etja okkur saman, við versus þeir.  Alveg eins og í því dæmi sem ég rakti hér að ofan.

En ef við eigum börn, og viljum vinna að velferð þeirra, þá verðum við að rífa okkur upp úr gömlu hjólförunum.

Nákvæmlega hvernig veit ég ekki, það veit það enginn, en á leiðinni munum við finna nokkuð rétt svör.

En annars takk fyrir að lesa svona pistla, þeir eru utan almanna þrasins, hugsaðir til að fleiri reyni að tjá sig um framtíðina og það sem við viljum fá út úr henni.

Mannúð, Mennska, Mannvit.  Það er mín sýn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.7.2011 kl. 11:52

6 identicon

Góður pistill Ómar.

Orðin: "if you tolerate this, then your children will be next" eiga vel við í þessu ástandi.

Sennilega hefur þjóðin náð einhvers konar botni í efnahagshruninu en auðvitað getur hann ennþá reynst falskur. En þjóðfélagshruninu virðist hvergi nærri lokið.  Það líður varla dagur án þess að við fáum nýjar fréttir af einhverjum óþverra sem náð hefur upp á yfirborðið. Það er auðvitað bara hægt að giska á hvaða viðbjóð fjóshaugurinn hefur enn að geyma.

Flestar stofnannir samfélagsins starfa án trausts. Níðingar hafa fengið að starfa óáreittir í kirkjum landsins, það tekur enginn mark á alþingi, ríkisstjórnin hefur ekki komið einu einasta alvöru máli í gegn og mun sennilega aldrei gera. Héraðsdómur Suðurlands og héraðsdómur Reykjavíkur lýsa því yfir, með glórulausum dómsorðum, að innan þess kerfis séu menn tilbúnir að fórna réttarríkinu til þess að forða einhverjum hvítflibba frá vatni og brauði eða auðga sjóðsstjóra erlendra vogunnarsjóða.

Enginn kannast við að hafa gert nokkuð af sér. Forkólfar lífeyrissjóðanna sem töpuðu a.m.k. 5-700 milljörðum af lífeyri landsmanni á rænulausum fjárfestingum, fá að sjálfsögðu meira fé til þess að spila með þegar greiðslur í sjóðina hækka í 15.5%.  Biskupnum dettur ekki í hug að víkja og sannar þar með að hann hefur ekki hálft prósent af því hugrekki sem að þær konur hafa, sem stigu fram og sögðu þjóðinni sögur sínar. Háskólaprófessor fær vinnu sem ráðherra eftir að hafa unnið hug og hjörtu alþýðunnar með ræðuhöldum á Austurvelli, en virðist hafa neitað að taka starfið nema að hann fengi að ljúga og hræða skrílinn.

Dómari í Exeter málinu vinnur við verðbréfabrask. Formaður viðskiptanefndar (eða hvað nú sú nefnd heitir) sér ekkert óeðlilegt við það að hún sé að pressa löggjöf í gegnum þingið sem væntanlega mun hressa upp á heimilisbókhaldið í gegnum lögmannsstofu eiginmannsins. Tilgangur búsáhaldabyltingarinnar var greinilega sá að skipta hægra þjófræði út fyrir vinstra þjófræði. Þjóðfélagið færi þá fyrst til helvítis ef að enginn væri að ræna pöpulinn.

Hæstiréttur er síðasta vígið. Gefum réttinum einn séns á að bjarga því sem bjargað verður af trú fólks á samfélagssáttmálann. Ef Hæstiréttur stoppar ekki þessa orgíu af glórulausri lögleysu og dæmir eftir lögum/stjórnarskrá þegar dómsmál alþýðunnar gegn hyskinu ná inn á borð til þeirra, þá verður að það að vera fyrsta krafa í næstu búsáhaldabyltingu að rétturinn verði ruddur.

Seiken (IP-tala skráð) 2.7.2011 kl. 17:23

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Seiken, mig setur hljóðan, og var ég þó ekki með mikinn hávaða, þegar ég las þessa ádrepu þína.

Mér finnst ekki gaman að vera skrýtni kallinn á kassanum, er bæði feiminn og feiminn.  En það er svo margt sem fór miður, og margt sem ætlar að verða ennþá verra sbr. viðbrögð dómsstóla við efnahagsglæpum þegar þeir fundu upp á nýrri réttarreglu, "ef maður rænir, þá má maður gera það óvart, bara passa sig að gera það ekki að ásetningi".

Og þess vegna er ég að forma svona pistla og endurtek niðurlag mitt.

"Við erum þjóð án framtíðar í heimi sem virðist eiga sér litla framtíð af sömu ástæðum.

Er ekki tími til kominn að staldra við og tengja.

Og hugsa hlutina upp á nýtt.   

Og byggja upp nýtt þjóðfélag á M-unum þremur, Mannviti, Mennsku og Mannúð.

 Hverju höfum við að tapa???"

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.7.2011 kl. 18:06

8 identicon

Þú ert ekki skrýtni kallinn á kassanum Ómar.  Vandamálið er bara að í augnablikinu eru aðeins of fáir kassar að standa á. Eins og ég, þá þekkir þú án efa helling af fólki sem er ósátt og vill breytingar.  En það eru bara allir að bíða eftir því að einhver annar komi þeim í gegn; "Það hljóta einhverir að fara af stað og skipuleggja eitthvað".

Andófið fer því enn sem komið er, að mestu fram í yfirveðsettum sófasettum landsmanna. Fólk mun hins vegar þrýsta á "nei" hnappinn á fjarstýringunni, í hvert sinn sem hataðasta stórn lýðveldissögunnar leggur eitthvað til. Stjórnin sem lýsti yfir stríði við þjóðina. Það sýndu Icesave kosningarnar, sveitarstjórnarkosningar og væntanlega esb- og næstu alþingiskosningar.   

En því miður er það svo að sama andvaraleysið og ríkti í góðærinu viðheldur nú harðærinu. Við héldum "öll" sumarið 2008 að það hlyti að vera einhver í "kerfinu" sem væri að tryggja að þetta færi allt samn vel. En það var bara enginn að því. Sennilega áttum við að gera það sjálf.

En í Guðanna bænum ekki hætta að stíga upp á kassann Ómar.  Einu skiptin sem við hin, sem erum að bíða eftir að einhver geri eitthvað, erum ósátt við þig, er þegar þú tekur þér blogfrí. En vissulega þurfum við að virða rétt fjölskyldu þinnar til þess að eiga sér heimilisföður, sem eyðir ekki öllum sínum frítíma í að reyna að bjarga heiminum. 

Seiken (IP-tala skráð) 2.7.2011 kl. 19:19

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Seiken.

Í den þegar ég samdi suma pistla mína undir áhrifum Hávamála þá sá ég oft fyrir mér senu úr Tinna með brjálaða vísindamanninum sem boðaði heimsendi, að gefnu tilefni reyndar, þar sem hann gekk um með skilti, "Heimsendir í námd".  Og þegar ég samdi heilu pistlana út frá þemanu Bylting byltinganna, sem voru útlegging á því að við hefðum haft 2.000 ár til að fatta hagfræðina og samfélagsnálgunina sem Meistarinn frá Nazaret boðaði og skráð var í helga bók, því núna væri komið að þeirri Ögurstund að við þyrftum að nota hana svona uppá framtíðina að gera, þá var ég alltaf hálfhlæjandi út af Monty Python myndinni, Life of Brian.

Og hvorki brjálaði vísindamaðurinn og Brian greyjið voru eins og fólk er flest.

Þó ég skrifi svona út úr kú, þá er það ekki sama og að ég átti mig ekki á þeim raunveruleika sem ég lifi í, og þetta er ekki alveg málið.  IP tölur mínar koma vegna hæfileika minna til orða hugsanir fólks þegar það sér vitleysuna og vildi sagt hafa, og les það svo sér.  Þær hrynja þegar ég fer að tala um það sem ég er að hugsa.  Sem þýðir einfaldlega að ég er stórskrýtin, og geri mig reyndar út á það.  Ég nennti þessu ekki fyrir mitt líf ef ég tjáði aðeins almannaróm.

En málið er að þú byggir ekki upp betri heim með gagnrýni eða niðurrifi, og sagan er til að læra af.  Sá sem til dæmis ætlar að breyta einhverju til batnaðar á Íslandi, hann getur ekki sagt, "mér finnst", hann verður að virða náttúrlögmál, lögmál sögunnar, og átta sig á hvað er hægt, og hvað ekki.

Mistökin eru til að læra af og byltingar eru sjaldnast til góðs.  En gjald þeirra er alltaf ómældar þjáningar saklausra.  Og átök.

Og hvernig verða átök 21. aldar???

Allavega þá á ég tvö saklaus líf sem trúa á það góða í heiminum, ekki að þau hafi fæðst svo mannapinn geti steikt þau.

Þess vegna hef ég stigð fram og orðað hugsanir mínar, jafnvel þó ég viti að gjaldið er athlægið, eða í besta falli góðlátlegt bros.  Þvi ég kaus nafnið en ekki nafnleysið Seiken.

Og ég fjallaði um hvernig er hægt að breyta hlutum, og sótti hugmyndir mínar í smiðju Mandela og þá einu umbyltingu á þjóðfélagi sem tókst án blóðsúthellinga.  Ég skifaði líka um  af hverju Umbreytingarfólkinu í Borgarahreyfingunni mistókst, en í kjarna var það vegna þess að hreyfiafl þeirra var gagnrýni á fortíð, en ekki það hreyfiafl sem breytir núinu, hugljómun um eitthvað betra.  Og trú á að það sé hægt.

"Og hugglíma mín snýst um byltingu okkar, hvernig það sé hægt að samræma skoðanir fólks með svona líkan bakgrunn, líkar lífsskoðanir, og með sömu væntingar um betra þjóðfélag, byggt á mennsku og mannúð, þar sem við, fólkið ráðum stjórnkerfinu, ekki auðmenn eða hagsmunaöfl.  

Og síðan þarf að samþætta stefnu okkar, byltingarmanna, það er þeirra sem vilja raunverulegar breytingar, þannig að hún uppfylli tvennt.  Að stefna okkar sé þannig úr garði gerð, og þannig sett fram, að nógu margir finni samsvörun og vilja til að styðja hana, og að hún skili raunverulegum árangri.

Hugmyndafræðin þarf að vera skiljanleg, fólk þarf að samþykkja hana, hún þarf að vera raunhæf, og hún þarf að vera það öflug að hún nái til að takast á við vanda okkar núna, ekki seinna.  Og hún þarf að leysa þau brýnu vandmál sem Tregðan  varðar leiðin til Heljar með.

Dæmi um vel heppnaða byltingu, sem reyndar ennþá stendur yfir, er lýðræðisbyltingin, sem á rætur sínar að rekja til frönsku stjórnarbyltingarinnar, og byltingu Bandaríkjamanna gegn konungi og aðli, og hefur haft grundvallar áhrif á líf okkar og lífsskilyrði.  Þessi lýðræðisbylting stóð af sér tvær atlögur á síðustu öld, kommúnismann og nasismann, en hún er vanmáttug gegn þriðju ógninni, helstefnu hins alþjóðlega græðgiauðvalds, sem vinnur af því hörðum höndum að endurreisa fáræði, auðræði og að gera allan almenning að kostnaði, sem er fínt orð yfir það sem var kallað ánauð og þrælahald í gamla daga.

Þess vegna þarf nýja byltingu, núna, sem byrjar að móta nýtt samfélag, núna, ekki á áratugum eða öldum, heldur núna.  Því ef hún verður ekki núna, þá verður enginn morgunn, í merkingunni ókomnir tímar.  Eyðileggingaröflin eru það sterk, og máttur okkar til útrýmingar svo öflugur, að seinna þýðir ómældar hörmungar, sem mannkynssagan kann engin dæmi um áður."

Það þarf svona 5 til að fatta þetta og hafa þann vilja sem þarf til að gera það sem þarf að gera.  Þá fer boltinn að rúlla.

Hvenær það verður veit ég ekki.

En ég á það markmið að ná 400.000 flettingum fyrir sumarlok, en það er svo erfitt því það er ekkert að gerast.  Ég hélt að HH ætlaði að starta einhverju andófi, vildi hafa bloggið virkt, og aðstoða svo eftir getu í áróðrinum.  En það eru allir farnir i sumarfrí sýnist mér.

En það eru tíðindi af evrusvæðinu sem munu hafa áhrif hér.  

Gríska byltingin er kannski upphafið???

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.7.2011 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 214
  • Sl. sólarhring: 665
  • Sl. viku: 5798
  • Frá upphafi: 1399737

Annað

  • Innlit í dag: 184
  • Innlit sl. viku: 4948
  • Gestir í dag: 180
  • IP-tölur í dag: 180

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband