Aðförin að grísku þjóðinni heldur áfram.


En gríska þjóðin hefur snúist til varnar.  Hún mun ekki beygja sig i duftið vegna hagsmuna fjármagns, hún mun ekki líða skort og þjáningar svo eigendur bóluevrunnar hafi allt sitt á þurru.
 
Þó grískir kvislingar kjósi að fórna þjóð sinni fyrir evruna, þá mun fjara undan þeim líkt og fjaraði undan harðstjórunum sunnan við Miðjarðahafið.  
 
 
Þar voru skýr skilaboð send umheiminum, við líðum ekki lengur harðstjórn og spillingu í þágu örfárra ofurríka.   Ríkisvaldið er fyrir almenning, og á að vinna að hag almennings.
 
Og þeir ráðamenn sem það ekki skilja, verður bylt.
 
Og slík byltun er hafin í Aþenu og á eftir að breiðast út um alla Evrópu þar sem gjörspilltir stjórnmálamenn hafa reynt að breyta almannasjóðum í sjálftökusjóði fjármálamanna og skuldugum löndum "hafi verið umbreytt í risavaxna vél sem keyri áfram í þeim eina tilgangi að borga kröfuhöfum stjórnvalda og hins gjaldþrota bankakerfis" svo ég vitni í mætan írskan prófessor.
 
 
Og íslenskur almenningur, íslenskt fólk á að sýna hina almenna Grikkja stuðning.
 
Sama var reynt hérna og við snérumst til varnar, sama er reynt hérna og við þurfum að snúast til varnar.  
 
Barátta Grikkja er okkar barátta.  
 
 
Barátta um að afglöp stjórnmálamanna í þjónustu fjármálamanna lendi ekki alfarið og eingöngu á almenningi viðkomandi landa.   Að þeir sem eiga, hafi allt sitt á þurru eða það sem verra er, fái ekki að bæta við eigur sínar eignir almennings, skatta hans og velferð.
 
 
Hér á Íslandi matreiðir ICEsave landsöluliðið á fjölmiðlunum okkur á röngum upplýsingum um gang mála í Grikklandi.  Okkur er talið í trú um að þetta sé sjálfskaparvíti, jafnvel eitthvað sem þeir eiga skilið fyrir léttúð sína líkt og íslenka þjóðin átti Móðurharðindin skilið því hún átti það til að hlæja og dansa einu sinni eða tvisvar á ári.
 
En við megum ekki trúa þessum fréttaflutningi.  Sumir fjölmiðlamenn okkar fylla pyngjur sínar af evrum, eru mútufé, aðir eru einfaldlega það vitgrannir að þeir trúa öllu sem þeim er sagt.
 
En við erum ekki evrópkst mútufé, og við erum vitiborið fólk.  
 
Við eigum aldrei að trúa neinu sem kemur frá auðræningjum og þjónustufé þeirra, hjá þeim er aðeins einn sannleikur, sá sannleikur sem gerir þeim kleyft að ræna og rupla sem aldrei fyrr.
 
 
Grikkir eru vissulega að glíma við efnahagsvanda og margt í efnhagslífi þeirra er þannig að það gefur ekki mikið af sér.  
 
En þannig hefur það verið frá því að gríska ríkið fékk sjálfstæði frá Tyrkjum fyrir tæpum 200 árum, og þannig mun það sjálfsagt vera um ókomna tíð því það liggur í menningunni.
 
 
En frá því að þrælkun Tyrkja lauk, þá hefur grískur almenningur haft í sig og á, og hann hefur byggt upp sitt þjóðfélag þannig að það er gott að búa í Grikklandi.  
 
Hinn raunverulegi vandi þeirra hófst þegar þeir álpuðust til að taka upp evruna, án þess að hún hefði nokkurn stuðning frá efnhagslífinu, og sátu því uppi með falskan kaupmátt.  
 
Og slíkt endar alltaf með ósköpum.
 
 
En siðmenningin, mennskan, mannúðin, hjálpar fólki í erfiðleikum.  Gerir því kleyft að vinna sig út úr vandanum, og aðstoðar á meðan slíkt er gert.
 
En það er ekki gert í Grikklandi.
 
Ómenni sendu þrælasveitir AGS á vettvang með því eina markmiði að hirða allt naglfast af grísku þjóðinni og þrælka hana um ókomna tíð í þágu fjármagns og fjármagnseigenda.
 
Hinar svokallaðar björgunaraðgerðir, auka vandann, þær bjarga ekki neinu.  Og þær setja allan þungann á almenning, sérstaklega þann hluta hans sem minnst á.  
 
Og þær eyðileggja endanlega grískt efnhagslíf.
 
 
Fólk styður ekki slíkt.  Fólk sýnir samúð, finnur til samkenndar.  
 
Fólk aðstoðar náungann í neyð.  Slíkt er samofið menningu okkar og mennsku.
 
Þó íslenska þjóðin stæði vel, og hefði ekki fengið að finna ómennaráð á sínu skinni, þá ætti hún samt að fordæma gjörðir valdaelítu Evrópu gagnvart grísku þjóðinni.
 
Og íslenska þjóðin á að krefja aðgerða sem hjálpa, sem byggja upp, sem gera gagn, og sem lina þjáningar fólks.
 
 
Íslenska þjóðin, því við erum að uppistöðu fólk þó vissulega má finna hér Eurokrata líka, á að fordæma fréttaflutning ríkisfjölmiðils síns, hann er einhliða og hrokafullur, og hann styður aðgerðir ómennskunnar gagnvart saklausu fólki.  
 
Og hún á að hundsa fjölmiðla auðmanna, Fréttablaðið og DV, ásamt Stöð 2.   Ekki bara vegna þess að þeir þjóna ræningjunum sem rændu okkur, heldur líka vegna stuðnings þeirra við allt vont sem er verið að gera almenningi Evrópu, og vegna mannvonskunnar og mannfyrirlitningarinnar sem þeir sýna öllum fórnarlömbum húsbænda þeirra.
 
 
Íslenska þjóðin á að styðja kúgaða og þjáða, aðeins þannig kemur hún í veg fyrir að hún sjálf verði kúguð og þjáð.
 
Barátta Grikkja er barátta okkar allra.
 
Okkar allra sem eigum börn og viljum sjá þau vaxa og dafna í mannsæmandi þjóðfélagi.
 
 
Við mótmælum öll aðförinni að grísku þjóðinni.
 
Kveðja að austan. 
 
 
 
 

mbl.is Óróinn heldur áfram í Aþenu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Sæll Ómar! Góður eins og ævinlega,já við mótmælum aðförinni að Grikklandi.Hvað er að gerast í hausnum á valdamönnum,engin trúmennska né tryggð vð landa sína. Landa sína?? Úrelt að boði stálkalla. Bestu kveðjur.

Helga Kristjánsdóttir, 30.6.2011 kl. 12:01

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, erum við ekki öll borgarar Helga, borgarar fjórða ríkisins???

Það skilst manni á Evróputrúboðinu.  

Það er með svona trúboð, það vill endilega gera alla að borgurum, ekki fólk eða landa, heldur borgara.  Það mætti halda að Orwell hafi verið að skrá samtímasögu, ekki spá fyrir um framtíðina.

Hann sá þetta fyrir með borgarana.  

Og þar sem ég er Star Trekkari, þá var sama meinið með Borgara, þeir vildu gera alla að Borgurum.  Og þegar þú ert Borgari, þá finnur þú ekki til samúðar eða samkenndar.

Eitthvað sem hrjáir Eurokratann í dag.

Og líklega íslensku þjóðina líka, því miður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.6.2011 kl. 13:19

3 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

Össur er að reina að koma þessum ESB djöfulskap yfir okkur = selja Sjálfstæði okkar í kjaftin á Evrópuhítinni. Samkvæmt legu Landsins tilheirum við ekki Evrópu...

Vilhjálmur Stefánsson, 30.6.2011 kl. 17:22

4 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég skal segja ykkur hvað átti að gera: þegar Grikkland lenti í vandræðum, átti að bjóða sameiginlega ábyrgð til Grikklands, ekki veita lán. Ábyrgðin hefði þítt að Grikkland hefði getað verið að taka sjálft lán á 3,5-4% vöxtum sl. ár í stað allt að 30%, eða 5,5% skv. björgunarplani.

Ath. ábyrgð er hægt að veita alveg eins og um væri að ræða AGS plan, með því að hækka hana um tiltekna upphæð per endurskoðun.

Þetta hefði því virkað algerlega eins, þ.e. skilyrði um niðurskurð, sölu eigna sem í þessu tilviki færu raunverulega til skuldalækkana til Grikkja, en ábyrgðir væru þá veittar fyrir allar lánveitingar-þörf gríska ríkisins, svo það væri aldrei að taka lán á ofurvöxtum.

Síðan, hefði Írland farið inn í sama dæmið, svo Portúgal.

Munurinn er sá, að þ.s. öll lán eru á 3,5-4% vöxtum, þá er greiðslubyrði mikið - mikið lægri. Endurgreiðslugeta allra 3-ja landa, hefði haft mikið meiri trúverðugleika. Svo, þá hefðum við ekki skapast þessi upphleðsla ótta á mörkuðum gagnvart stöðu Evrunnar og stöðu landa í vandræðum.

Dínamíkin hefði verið allt - allt önnur og jákvæðari. Löndin væru á leið úr vandræðum, í stað þess að vera á leið í verri og verri vandræði. "Vicious cycle vs. virtuous cycle".

  • Það hefði ekki verið nein Evrukrýsa. Hún var óþörf.
  • Það er einmitt vegna þess að hún var óþörf, sem þetta er svo sorglegt.
En, í stað þess að velja leið sem róar markaði, róar ástandið - þá var valin sennilega sú versta mögulega, þ.e. lán og það ekki á lágum vöxtum, heldur á mun hærri þ.e. 5,5-6%. Að auki, voru þau lán svo þröngt sniðin, að ríkin meira að segja Grikkland, hafa þurft samt meðfram, að selja skammtíma bréf á sífellt hærri vöxtum, sem þíðir að Grikkland er með skuldir í dag upp í allt að 30%.

Leiðin sem var farin, hefur sífellt verið að magna krýsuna - einmitt vegna þess að vaxtabyrðin er svo bersýnilega of há. Þetta sjá markaðirnir, sem sést á því að tiltrú á getu ríkjanna í vanda, hefur sífellt farið minnkandi, vaxtakrafa til þeirra sífellt hækkandi, þetta er svo að ógna stöðu Spánar og Ítalíu.

Ef Evran hrynur, þá er það vegna þeirra röngu ákvörðunar sem tekin var vorið 2010, þegar valin var kolröng aðferð til að glíma við krýsuna.

Þ.e. búið að búa til skuldabólu sem á eftir að hynja yfir Evrópu, vegna þess að ekkert landanna 3-ja er fært um að greiða lánin til baka á núverandi vöxtum. Og Grikklandi dugar ekki einu sinni vaxtalækkun + lenging. Einungis afskrift + lenging + vaxtalækkun.
 
Ef, þessar afskriftir fara ekki fram í tæka tið, undir stjórn - þ.e. að stjórnlaust hrun á sér stað; þá munum við sjá hrun Evrunnar - hrun fjármálakerfis Evrópu + hrun sem víxlverkar inn á sjálft fjármálakerfi Bandaríkjanna, svo heimsins alls.

Ný heimskreppa er þ.s. það þíðir! Allt út af einnig rangri ákvörðun, sem síðan hefur verið endurtekin 3-svar, og það hættulega ástand sem sú ákvörðun skapar undið upp í þau 3. skipti.
 
 
Kv.

Einar Björn Bjarnason, 1.7.2011 kl. 00:03

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir þitt góða og fróðlega innslag Einar.

Svo ég dragi fram mína sý á málið þá þarf yfirstjórn evrumála að aðstoða einstök lönd, sem eru í fjármögnunarvandræðum, á þann hátt að þau ráði við lán sín.  Það er grunnhugsun málsin.  Tæknileg útfærsla er svo eitthvað sem fjármálaverkfræðingar eiga að útfæra, ekki stjórnmálamenn.

En síðan þurfa efnhagsráðstafanir að vera til að bæta, ekki skemma, og þar greinir okkur á um.  AGS pakkinn eyðileggur, það eru ekki bara rökin sem segja það, sagan gerir það.  Hann virkar aðeins á þann hátt að hann verndar fjármagn á kostnað hagkerfisins, því hann dýpkar kreppur og skemmir lífskjör almennings til langs tíma litið.

Mætir hagfræðingar eins og Stiglitz og Krugman benda á þetta, en það er ekki bara það, sagan kennir að ef menn standa að málum eins og AGS, þá sitja menn uppi með óstöðugt ástand, jafnvel bylgingarástand.  

Það tók Vesturlönd áratugi að þróa þjóðfélagskerfi sem batt endi á öld byltinganna og við megum aldrei gleyma af hverju þetta þjóðfélagskerfi var þróað.  Það var vegna stéttarátaka sem gátu hvenær sem er endað í byltingu eða byltingartilraunum.  Sem ekki bara eyðir mannslífum, heldur líka efnahagsleg verðmæti, og efnahag.

Eyðing Nýfrjálshyggjunnar á þessari þjóðfélgsgerð, án þess að bjóða upp á eitthvað nýtt og betra, leiðir til endurhvarfs til þjóðfélagsástands sem sannarlega gat ekki gengið upp.  Það þrýfst ekkert í stöðugum átökum og stríðum.

Ég hef lesið blogg þín með athygli, man að þú sagðir nýlega að leið AGS/ESB væri uppskrift að uppreisn almennings.  Og það held ég að sé kjarni málsins.

Og þann kjarna hafa menn ekki fattað.

Í þessum orðum mínum felst ekki að Grikkir þurfi ekki að taka til hjá sér, en það þarf að vera á forsendum sem ganga upp.  Það þarf að aðstoða þá við efnhagsumbætur sínar, og á meðan þær ganga yfir, þá má ekki sjokkera þjóðfélagið á þann hátt að allt dragist saman, og að átök brjótist út.

Það eru M-in þrjú sem hjálpa Grikkjum sem og öðrum sem eiga í erfiðleikum.

Mannvit, Mannúð, Mennska.

Og þar fyrir utan gengur grískt þjóðfélag ekki með evruna sem gjaldmiðil.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.7.2011 kl. 09:30

6 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Í tilviki Grikklands, þarf held ég klárlega niðurskurð ríkisútgjalda - einfaldlega þá þarf svokallaður frumjöfnuður þ.e. áður en tekið er tillit til kosnaðar af skuldum, að komast úr mínus í plús.

Síðan er það stærðin af plúsnum - en því stærri því meiri niðurskurðar er krafist.

Með mun lægri vöxtum, hefði kostnaður af skuldum verið mun minni, og því huganlega mögulegt að finna niðurskurðaleið sem ekki hefði verið of brútal. 

Ég er einfaldlega að segja, að þ.s. ég lýsti var hugsanlega mögulegt.

Það sem þeir eru að reyna í dag - klárlega er það ekki. Og að pína samt Grikkland til að reyna að gera það ómögulega, mun á einhverjum tímapunkti framkalla uppreisn - þjóðir eru ekki byggðar ofurmennum.

----------------------------

Auðvitað jafnvel í því dæmi, eins og ég lýsi að ofan, er samkeppnishæfnisvandi Grikklands eftir - það er að þeir þurfa að lækka laun.

Þetta sést af því einu að ef maður miðar við 2005.

Þá er landsframleiðslan jafn stór og þá, en iðnaður er skroppinn samann um 16,1%.

Þ.e. undirliggjandi vandi Grikklands - hrun þeirra útflutnings. Í eigin gjaldmiðli myndi hann löngu vera fallin, svo útflutningur geti farið að rétta við sér, en þessi staða kallar sennilega a.m.k. á 20% beinar launalækkanir - 30% af það á að vera afgangur af útflutningi.

Þetta er klárt mjög erfitt vandamál - þó svo skuldabyrði þeirra væri verulega minnkuð, skuldir þeirra skornar niður, er ekki víst að þeirra hagkerfi sé fært um að virka.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 1.7.2011 kl. 12:06

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Einar, það sem þú ert að lýsa eru aðstæður þar sem ríki þurfa að stjórna sinni eigin mynt.  Stóru hagkerfin þrjú, Bandaríkin, Bretland og Japan væru öll gjaldþrota hefðu þau aðra mynt, ekki það að það sé endalaust gáfulegt að þynna út gjaldmiðilinn, en stöðvun efnhagslífs er ennþá heimskulegra.

Þú ert að lýsa fyrirhugaða stöðvnun grísks efnhagslífs, vegna evrunnar.  Og hvort heldur þú að geri blóðuga uppreisn, evran eða fólkið????

En vissulega gengur ekki að eyða meira en er aflað, og það þarf að ríkja jafnvægi, og efnahagssaga mannsins er sagan að leitinni endalausu, að þessu jafnvægi.  En alvöru hagfræðingar eru á því að þú aukir vandann með niðurskurði á krepputímum.  Vissulega eru sum útgjöld algjörlega óþörf en önnur eru það ekki.  En aðalatriðið er það að þú bregst ekki við slaka, með því að auka hann.

Offitusjúklingur þarf sannarlega að ná tökum á þyngd sinni, en þú setur hann ekki í sveltimeðferð, þegar hann vegna einhverra aðstæðna fær ekki nóg að borða, með þeim rökum að hann sé of feitur.

Þá náttúrulega deyr hann.

Þess vegna hafði Keyne rétt fyrir sér.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.7.2011 kl. 13:24

8 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Keyne sagði að ríkissjóðir ættu að reka sig með afgangi, þegar vel árar - til þess að geta rekið sig með halla, þegar ílla árar.

Aftur á móti á sl. áratug, þá voru fjölmörg ríki með rekstrarhalla í uppgangi, voru þá að safna skuldum. Ef síðan kemur kreppa, þá áttu eiginlega ekki val um annað en niðurksurð - þó það kosti dýpri kreppu; vegna þess að skuldir þínar eru þegar orðnar óþægilega háar.

En því hærri sem þær eru því hærra hlutfall tekna fer í vexti, ef vaxtagjöld eru orðin 6-10% ríkisútgjalda; þá er mjög áhættusamt að safna meiri skuldum.

---------------------------

Grikkland er í hræðilegri klemmu:

Læst inni í Evru og geta ekki fellt gengi, þannig snúið við viðskiptahalla.

Á sama tíma, með alltof miklar skuldir, og í reynd það miklar að mjög erfitt er að reikna Grikkland inn í greiðslugetu, svo það verður að lækka þær. En ólíklegt er að þær verði lækkaðar meir en niður í milli 80-90% af þjóðarframleiðslu, sem þíðir að áfram mun verða erfið vaxtabyrði og ekki möguleiki til að fylgja annað en sparnaðarleið.

Það þíðir mjög djúpa kreppu - mörg ár af henni.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 1.7.2011 kl. 21:57

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Einar.

Ég held að þetta með að safna til mögru áranna hafi verið propaganda  hjá Keyne, svona til að vera faglegur eitthvað.  Keyne var einfaldlega að koma með svar við því sem sósíalistar héldu fram á sínum tíma (það verður að skoða hugmyndaheiminn eins og hann var á fyrri hluta 20. aldar) að innri mótsagnir kapítalismans enduðu allt i kreppum sem yrðu æ dýpri og að lokum myndi hann hrynja.  

Og þar sem þeir vildu flýta fyrir hruninu með byltingum þá var hagfræði á þessum tíma dauðans alvara.

Svar Keyne var peningaprentun við slaka, að hindra að kreppan dýpkaði sig þannig að skilyrði  byltingarinnar sköpuðust ekki.  Og óttinn við útbreiðslu kommúnismans skýrði stuðninginn við Keyne.  Og það er hann sem rak áfram þróun velferðarkerfisins, útskýrði að eignamenn sættu sig við aukna skattheimtu til að fjármagna kerfið.

Þó Keyne og fylgjendur hans hafi sett þetta í hagfræðilegan búning þá er þetta eiginlega ekki flóknara en þetta.  

Og ég er að tala um peningaprentun, að rikisvaldið tryggi peningamagn svo verslun og viðskipti stöðvist ekki.  Og þó skuldir í eigin mynt þynni út kaupmátt þá valda þær ekki greiðsluþroti.  Eða er einhver að tala um yfirvofandi greiðsluþrot japanska ríkisins þó skuldir séu komnar yfir 200%??

En þú ert að tala um raunveruleika Grikkja, miðað við að evran sé þeirra gjaldmiðill.

Og sá raunveruleiki gengur ekki upp, og af þeim ástæðum sem ég rakti í upphafi.  Hann leiðir til byltingar.  Almenningur sættir sig ekki við að fjármagnið hafi sitt á þurru, en hann beri byrðar efnahagshrunsins.  Fólk þarf að hafa vinnu, það þarf að hafa húsnæði, og það þarf að éta. 

Þess vegna þarf Keyne á ástandið, og það er líka alfarsælast fyrir fjármagnið til lengri tíma.  

Eina raunhæfa leið Grikkja er því að taka upp eigin gjaldmiðil og taka svo Argentínu á ástandið.  Ódýrar Grískar vörur munu seljast, og ferðamenn munu streyma til landsins því þeir fá svo lítið fyrir evrunnar sínar á sólarlöndum evrusvæðisins.  Það þarf ekki að stöðva fjármagnsflóttann, því það er allt fjármagn nú þegar flúið úr landi því það vita allir að gjaldþrot er óumflýjanlegt.

Vissulega er þetta ekki auðveld leið, það er jú kreppa.  En þessi leið jafnar byrðunum, hún tryggir atvinnu og að fólk hafi í sig og á.  Og smán saman, ef þjóðinni ber gæfa til að taka kerfisvitleysur sínar í gegn, þá mun kaupmáttur hennar gagnvart öðrum þjóðum aukast.

Eina spurningin  er hvort grískir stjórnmálamenn leiði þessa þróun, eða byltingin leiði hana.

En þetta er ef dæmi, byggt á einhverju sem gæti gerst en vissulega þarf það ekki að vera.  Og raunveruleikinn er sá að evran er og eitthvað þarf að gera, og um það ert þú að ræða.  Hef svo sem engu við það að bæta.  Lykilatriðið er sjálfbær skuldastaða, og endurheimta samkeppnishæfni atvinnulífsins.  Og að það verði lifandi í þjóðfélaginu.

Tekst það???  Ég efa það en allavega er ekki verið að reyna að láta það takast.  Því allt sem gert er, er gegn þessum lykilatriðum.

Leiðin til að tæma bikar er ekki að hella vatn í hann.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 2.7.2011 kl. 10:23

10 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Sko, þ.e. of langt gengið að tala eins og skuldir séu ekki atriði. Að eyða þeim með verðbólgu hefur einnig afleiðingar, þá fyrir fjármálakerfið. Þó, verðbólguleið sem er sú leið, að eyða langt um efni fram og skeita engu um skuldastöðu í eigin gjaldmiðli; geti virkað ef þú hefur klaufskast til að koma þér í vandræði.

En þetta er hrossalækning - sem er einungis skárri ef hin leiðin er eitthvað í líkingu við grískt ástand eða mjög langvarandi kyrrstöðu.

Ég er nokk viss um að Kayne hafi meint þetta með að safna til mögru áranna, enda ætti hver maður að sjá að ríkissjóður sem skuldar t.d. 40% af þjóðarframleiðslu, er þá ekki í vandræðum með að auka skuldir um 20%, til að milda kreppu. Þetta getur hann gert án þess, að vaxtagjöld verði óþægilega hátt hlutfall útgjalda. Síðan, greiðir ríkissjóður þessi 20% í næstu hagsveiflu og verður aftur kominn í 40% eða þaðan af lægra, áður en sú næsta kreppan hefst.

Sannarlega getur þjóð ekki orðið greiðsluþrota ef allar skuldir eru í eigin miðli. En, segjum að þjóð væri i engu að skeita um skuldastöðu í eigin gjaldmiðli, væri með halla í góðæri og síðan ennþá meiri í hallæri. Þá ertu stöðugt að búa til verðbólgu með þessu, og ef ekki er verðtrygging, að eyða upp peningalegum eignum, eiðileggja sparnað innan hagkerfisins - nema auðvitað að vextir séu þeim mun hærri, lán auðvitað á okurkjörum þ.e. má reikna með raunvöxtum vextur séu hærri en verðbólgan.

En, ef þú fylgir því sem Kayne sagði bókstaflega, þá ertu með mun lægri verðbólgu - og auðvitað meiri ró yfir fjármálakerfinu, fjármögnunarkostnaður innanlands lægri - vextir á lánum lægri o.s.frv. 

------------------------

Japan er sérstök undantekning, vegna þess:

A) Þeir hafa gríðarlegann hagnað af viðskiptum við útlönd og eiga því mjög stórann gjaldeyrisvarasjóð, sem myndar eign á móti - og að auki nægt innstreymi peninga frá öflugum útflutningi.

B) Mjög öflugur innlendur sparnaður, þannig að lagt saman á Japan nokkurn veginn fyrir þessum skuldum.

Kv.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 2.7.2011 kl. 18:43

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Einar.

Ég er ekki að tala um að skuldir skipti ekki máli, taldi reyndar að ég hefði einhvers staðar minnst á að hagkerfi þyrfti að vera í jafnvægi, og er mikið sammála öllu sem þú hefur skrifað þar um.

Ég er að tala um viðbrögð við samdrætti sem stafar að einhverju áfalli, oftast vegna fjármálaóstöðugleika.

Þú ert með framleiðsluþættina, spurningin snýst um hvernig þú ætlar að halda áfram að nýta þá.  Þeir eru grunnurinn sem til dæmis fjármálakerfið eða eignirnar hvíla á.

Eignir, sérstaklega fjármálaeignir, eru verðlausar ef það er ekkert efnhagslíf  að baki.  

Það er alltaf eignarýrnun þegar fjármálabóla springur, og það er alltaf tekjuskerðing því bólan býr til falskan kaupmátt.  Það er því engin mótrök að segja að peningaprentun rýrir eignir, þær eru að rýrna hvort sem er.

Þvinguð niðurfærsla eins og ESB vill fara er að meginhluta borin af almannavaldinu og launþegum, og hún miðar að sem mest að bólueignum eignafólks haldist.  Slíkt er bein ávísun á þjóðfélagslega upplausn.  Með þekktum afleiðingum, afleiðingum sem að lokum hafa í för með sér kostnað fyrir eignafólk.  Stundum banvænan kostnað segir sagan.

Peningaprentun er útþynning gjaldmiðils, þú ert í raun að fá minna fyrir hann.  Og þá útþynningu bera allir.  En kjaraskerðing hennar er fyrst og fremst gagnvart öðrum hagkerfum því ef vel tekst til þá tekst henni að viðhalda framleiðslu og atvinnu.  Hún tryggir að fólk hafi í sig og á, og það haldi heimilum sínum.  En kaupmáttur út á við minnkar því þú þvingar ekki önnur hagkerfi að taka við þínum útþynnta gjaldmiðli á sama skiptigengi og áður.

Líkur á þjóðfélagsólgu eru miklu minni, og líkurnar á að hagkerfi vinni sig út úr kreppunni eru miklu meiri.

Verðbólga er ekki áhættuþáttur í slaka, og lykillinn að því að hún verði ekki er að halda launahækkunum í skefjum, sem er ekki erfitt í kreppu.

En þá og þegar hún verður vandamál, þá segi ég eins og Ben seðlabankastjóri i fyrsta viðtalinu sem hann veitti eftir fjármálahrun, "then we will deal vith it!".

Það er kjarni málsin Einar, mannvitið hættir ekkert að glíma við þann vanda sem við er að glíma, og það reynir að hindra hörmungar saklaus fólks.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.7.2011 kl. 12:27

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Það vantar einhvers staðar tvöfalt vaff, en merkingin ætti að skiljast.

Kveðja aftur.

Ómar Geirsson, 3.7.2011 kl. 12:29

13 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ef við erum að tala um utanaðkomandi áfall - þá er sannarlega skárra að beita verðbólgu heldur en að taka áratug af stöðnun eða samdrætti, en varðandi ábyrga fjármálastjórnun þá er einnig möguleikinn á áföllum að utan, röksemd fyrir að ástunda almennt varfærinn búskap. En það sama á við, að safna fyrir mögur ár að ef þú hefur ástundað slíkt áttu betra svigrúm almennt til að glíma við áföll.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 3.7.2011 kl. 14:53

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Annars eru menn alltaf í bölvuðu rugli, líkt og saga grískra efnhagsmála er.  Sem út af fyrir sig skýrir minni kaupmátt þeirra í gegnum tíðina.

En aldrei áður hefur verið talað um að loka búllunni, að gera grísku þjóðina upp, fyrr en núna, eftir að þeir tóku upp evruna.

Við eru aðeins að lýsa örlítið mismunandi líkamshluta fílsins Einar, en erum að tala um fíl (sbr. blindu mennina og fílin).  

Það sem ég var að ítreka var að þegar Keyne setti fram kenningu sína, þá voru skilyrði þennsluaðgerða ekki þær að eitthvað væri til í sjóði, og það sem slíkt er ekki skilyrði.

Sjóðurinn til mögru áranna, þýðir kannski að mögru árin verða ekki svo mögur.  

Sem og hitt að svona aðgerðir eru aðeins réttlætanlegar við viss skilyrði, að það sé sannarlega slaki sem stefnir í djúpan samdrátt, og valkosturinn sé  "áratug af stöðnun eða samdrætti,, en ekki eitthvað dægurástand sem stafar af eðlilegum sveiflum hagkerfis.

Ef gjaldmiðillinn sveiflast um frumjöfnuðinn, og aðlagi þannig kaupmátt hagkerfisins að ytri skilyrðum, og menn gæti að leyfa launum að aðlagast (það er að hækka þau ekki til að elta gengisfellinguna), þá ætti hagkerfi að ganga til lengri tíma, gæti menn að menntun og tækniþróun.

Verðbólgan myndaðist vegna þess að launin voru alltaf að elta skottið, og smásamdráttur gat endað í áratuga eltingaleik þar sem hagkerfið fékk aldrei að finna jafnvægið.

Þetta snýst sem sagt allt um jafnvægi og að fólki sé gert kleyft að lifa mannsæmandi lífi.  Þá ganga þjóðfélög til langs tíma án upplausnar, án skemmdarverka bóluþenslunnar, eða eyðingu umframeyðslunnar sem endar alltaf í óbærilegri skuldastöðu.

Keyne er svarið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.7.2011 kl. 16:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 451
  • Frá upphafi: 1412813

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 390
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband