7.6.2011 | 21:43
Hinir auðtrúuðu!!
Er stór hópur á Íslandi í dag, líklegast sá stærsti ef ekki er flokkað eftir kyni eða hárlit.
Og Hinir auðtrúuðu eru meginskýring þess glæpaverknaðar og þess þjófnaðar sem Hrunverjar ástunda gagnvart þjóð sinni.
Hinir auðtrúuðu trúa að ákæra Alþingis á hendur Geir Harde hafi eitthvað með réttlæti eða uppgjör að gera. Eða einstaka maður sé sekur eða ábyrgur fyrir þeirri atburðarrás sem endaði með Hruninu mikla haustið 2008.
Þeir trúa því jafnvel að ábyrgðinni megi skella á stjórnmálamenn, og þá sérstaklega einn flokk, Sjálfstæðisflokkinn.
Og hafa innilega rangt fyrir sér.
Skoðum fyrst fullyrðinguna um meginábyrgð Sjálfstæðisflokksins.
Ef hún á einhverja stoð annað en þá tilviljun að þjóðin kaus þann flokk sleitulaust stærsta flokkinn, þá hlýtur það að vera eitthvað í gjörðum hans sem olli Hruni hér, og þá ætti Hrunið að vera sérstakt fyrir Ísland, og ekki eiga sér samsvörun annarsstaðar. Staðreyndin er sú að fjármálakerfi Vesturlanda er hrunið þó ennþá eigi eftir að tilkynna dánardægrið, eftirá. Og ekki stjórnaði Sjálfstæðisflokkurinn út í hinum stóra heimi.
Augljóst er að um grundvallarkerfisvanda er að ræða, kerfisvanda sem kenndur er við Nyfrjálshyggjuna.
En það er á ábyrgð Sjálfstæðismanna að við keyrðum út í fúamýri Nýfrjálshyggjunnar er þá haldið fram. En flokkurinn hafði aldrei meirihluta, völd hans voru á ábyrgð annarra flokka. Og allir flokkar falbuðu sig í aðdraganda kosninganna 2007, og allir vildu í stjórn með flokknum eftir þær kosningar.
Stefna flokksins var sem sagt ekki verri en það að allir vildu styðja hana. Samábyrgð flokkakerfisins er því öllu hugsandi fólki augljós. Og undan henni geta aðrir flokkar ekki vikist.
Bjánaganginn um að ákæra aðeins einn mann, þann sem leiddi ríkisstjórnina þegar Hrunið varð, þarf eiginlega ekki að ræða. Þegar hann tók við völdum var kerfið þegar fallið, og enginn pólitískur vilji í landinu að bregðast við þeirri staðreynd. Og enginn stjórnmálamaður hafði þann mátt sem þurfti að sigra þau ægiöfl afæta og sníkjudýra sem höfðu lagt undir sig efnhagslífið.
Að ætla Geir Harde einhverja sök umfram aðra er því rökleysa sem aðeins Hinir auðtrúu sjá vitrænt samhengi í. Ef stjórnmálamenn eru sekir, þá eru þeir allir sekir nema þeir sem sannarlega geta sýnt fram á að hafa barist gegn ránsskap sníkjudýranna, og sú sekt gildir ekki aðeins um þá sem voru á þingi 2008, rætur vandans voru mótaðar mun fyrr, og allt orðið óviðráðanleg þegar komið var fram á árið 2007.
Og það eru ekki margir sem geta lagt fram vottorð um þá baráttu nema hugsanlega Ögmundur Jónasson, Davíð Oddsson og Björn Bjarnason.
Staðreyndin er nefnilega sú að allt þjóðfélagið var sýkt, og uppruni þeirrar sýkingar kom frá fámennri klíku manna sem réðu öllu í viðskiptalífi þjóðarinnar, og þessi sýking hafði lagt undir sig háskólasamfélagið og fjölmiðlanna.
Og hugmyndafræðin sem réttlætti ósköpin kom að utan, hún var ekki innlend smíð.
Og réttlæti felst í að losna við þessa hugmyndafræði, losna við þá sem sýktu þjóðina, losna við sýkinguna, að afeitra samfélagið.
Og slíkt hefur ekki verið gert, eina einustu mínútu, hjá einni einustu valdastofnun þjóðarinnar.
Og þeir sem rændu okkur, héldu öllum völdum sínum, og ræna okkur enn.
Vegna þess að hinir auðtrúuðu trúa endalaust blekkingum þeirra og spuna.
Hinir auðtrúuðu trúa því að núverandi ríkisstjórn sé að byggja upp nýtt og betra samfélag og að smánin sem felst í ákæru Landsdóms á hendur Geir Harde sé liður í því ferli.
Hinir auðtrúuðu trúa því að ICEsave sé skuld þjóðarinnar og að henni beri að borga hana.
Hinir auðtrúuðu mættu á kjörstað og sögðu Já við ICEsave 2 og ICEsave 3.
Hinir auðtrúuðu styðja stjórnvöld í aðför þeirra gegn heimilum landsins, að ekkert sé hægt að gera og að hið gjaldþrota kerfi verðtryggignarinnar sé hannað að guðum sem menn geti ekki breytt.
Hinir auðtrúuðu trúa því að kreppan sé búin og að hagvaxtarskeið sé tekið við og vitna þá í spár AGS og Seðlabanka. Það truflar þá ekkert að AGS spáði hagvexti í heiminum fyrir árið 2009, svo lengi sem fram í byrjun okt 2008. AGS hafði ekki frétt af hruni fjármálakerfisins. Og AGS hefur alltaf spáð hagvexti í þeim löndum sem höfðu notið óráða sjóðsins, og þær spár höfðu aldrei gengið eftir.
Og eru ekki að ganga eftir í dag, en samt trúa menn því að hagvöxtur sé hafinn á Íslandi þó fjárfestingar séu í sögulegu lágmarki og þorri fyrirtækja landsins einhversstaðar í ókleyfum skuldahamri. Menn trúa að hagvöxtur verði til úr engu.
Þó þurfti sjálfur frelsarinn 12 brauð til að metta þúsundir.
Á Íslandi á hagvöxtur að verða til úr ofsköttun, vaxtaokri, skuldafjötrum, ásamt sögulegum hækkunum á eldsneyti og matvælum.
Hinir auðtrúuðu eru á sama tíma, í trú sinni á bábiljur, ekki sami hópur einstaklinga, en saman mynda þeir stærsta stuðningshóp auðræningjanna sem öllu ráða.
Auðræningja sem hafa blóðsogið almenning og fyrirtæki í gegnum bankakerfið.
Auðræningja sem gera út núverandi stjórnvöld.
Hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum síðan að fólki í neyð væri ekki hjálpað af samborgurum sínum og samfélagi???
Hver hefði trúað fyrir nokkrum árum síðan að fámenn valdaklíka gæti ráðstafað bankakerfi landsins í hendur á blóðsugum vogunarsjóðanna???
Hver hefði trúað að íslensk stjórnvöld kæmust upp með að vinna blygðunalaust fyrir erlend stjórnvöld í ránstilraun þeirra á hendur íslenskum almenningi, og að þó ránstilrauninni hefði verið hnekkt, að þá héldu íslenskir samstarfsmenn þeirra völdum sínum eins og ekkert hefði í skorist???
Hver hefði trúað þeim óskapnaði sem samfélag okkar er í dag????
Líklegast enginn, ekki einu sinni Hinir auðtrúuðu.
En þeir eru skýring þess að það sem mannleg hugsun gat ekki ímyndað sér, hvað þá orðað, er orðið í dag.
Að skrímsli stjórni þjóðinni og hafi hneppt hana í ánauð auðafla.
Og endurreisn þjóðarinnar veltur á að hinir auðtrúuðu líði undir lok sem stuðningsafl Hrunverja. Því þeir eru það fjölmennir að sá sem nær að virkja trúgrinir þeirra, hann ræður öllu í stjórnskipan fulltrúalýðræðisins.
Þess vegna eigum við að hætta skella skuldinni á Geir eða Davíð, Jóhönnu eða Steingrím.
Og það eru ekki auðræningjarnir sem sökina bera, þeirra eðli liggur vissulega til þjófnaðar og vissulega hafa þeir keypt stjórnmálamenn okkar og akademíu. En í lýðræðinu ráða þeir engu, auðræninginn hefur sama atkvæðamagn og öskukallinn, og þeir eru færri en öskukallar, og ættu því ekki að hafa meiri áhrif en sú ágæta stétt.
Sökin er Hinna auðtrúuðu, skömmin er þeirra. Hjá þeim liggur ábyrgðin.
Og að þeim eigum við að beina spjótum okkar.
Trúgirni, bábiljur, forheimska er mein Íslands í dag.
Ekkert annað útskýrir, að hið óímyndunarlega, varð raunveruleiki.
Og við þurfum öll að líta í okkar barm, því við sem höfum ekki á einhverjum tímapunkti tilheyrt þessum stóra hópi, Hinum auðtrúuðu, erum ekki mörg, og ef við þyrftum að útvega vottorð þar um, þá yrði færri í þeim hóp en í hópi vottaðra stjórnmálamanna sem börðust gegn auðmönnum og auðklíkum í aðdraganda Hrunsins.
Og á meðan við gerum ekki upp okkar eigin sekt, ættum við að láta það ógert að dæma aðra út frá gjörðum þeirra í fortíð.
Byltingin kemur innan frá, hún krefst nýrrar hugsunar, nýrra viðmiða. Og að við séum ekki svona trúgjörn, að við sjáum hlutina eins og þeir eru, ekki eins og okkur er sagt að þeir séu.
Og byltingin krefst þess að við bregðumst við þeim ógnum sem við blasa, í nútíð og framtíð. En við eyðum ekki orku okkar í stríði við það sem liðið er. Að við náum sátt við fyrrum andstæðinga okkar því ógnirnar sem við blasa munu tortíma okkur öllum.
Að við skiljum að við eigum það sameiginlegt að vilja lifa af sem manneskjur í manneskjulegu þjóðfélagi. Að aðeins þeir sem vilja ómennsku auðránsins séu óvinir okkar.
Og við áttum okkur á því að þeir ráða öllu í dag vegna samstöðuleysi okkar og trúgirni.
Og að dagurinn sem við hættum að fylkja okkur með Hinum auðtrúuðu, er dagurinn sem var upphafið að endalokum valda þeirra.
Brautin er ekki bein, en hún er þarna, leiðarvísirinn er þekktur, kallast mennska og óskin um mennskt þjóðfélag, og það er okkar að feta þá braut, í sátt við alla þá sem vilja feta hana með okkur.
Óháð öllum deilum og sundrung fortíðarinnar.
Lífið krefst þess að við fetum þessa braut og það er ekki eftir neinu að bíða.
Látum endalok trúgirni okkar vera fyrsta skrefið, þau næstu munu síðan koma eitt að öðru.
En þau skref eru ekki efni þessa pistils. Blasa samt við.
Það þarf aðeins að opna augun.
Kveðja að austan.
Geir á sanngirni skilda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.1.): 21
- Sl. sólarhring: 27
- Sl. viku: 123
- Frá upphafi: 1412901
Annað
- Innlit í dag: 20
- Innlit sl. viku: 102
- Gestir í dag: 18
- IP-tölur í dag: 18
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.