3.5.2011 | 08:39
Árni Páll slær nýjan tón í íslenskri stjórnmálaumræðu.
Hann hafði alvöru samráð við fulltrúa ólíkra sjónarmiða og nýtti það besta í röksemdum þeirra til að móta varnir Íslands gegn yfirgangi ESB.
Loksins, loksins gerðist það að efndir fylgdu orðunum um samráð. Samráð sem ríkisstjórnin boðaði frá fyrsta degi en hefur alltaf falist í því að ríkisstjórnin hefur kallað aðila á fund og tilkynnt þeim erkibiskupsboðskap.
Og það er athyglisvert, að eftir allan þennan tíma sem ICEsave deilan hefur staðið yfir, að það hefur aldrei hvarflað að ríkisstjórninni að leita sér lagalegrar ráðgjafar hjá þeim sem telja að lög og reglur ESB eiga að túlkast íslenskum málstað í vil þegar varnir eru hafðar uppi gegn fjárkúgun sem á sér engin fordæmi í nútímasögu. Áður en lengra er haldið skulum við hafa í huga að rukkun með þvingunum er alltaf fjárkúgun, óháð efnisatriðum þeirra kröfu sem að baki liggur.
Aðeins núna fyrst er leitað ráða utan ESB trúboðsins enda er málsvörn landsins glæsileg, sönn og rétt. Vissulega ekki fullkomin, háspilin koma seinna ef ESB heldur áfram sínum vonlausum tilraunum að ljúga ríkisábyrgð upp á lög sín og reglugerð, ríkisábyrgð sem er beint brot á Rómarsáttmálanum.
Og þetta samráð átti sér stað þegar málið komst úr höndum fjármálaráðherra í hendurnar á viðskiptaráðherra.
Gæfa þjóðarinnar fólst í því að svarið til ESA var unnið í efnahags og viðskiptaráðuneytinu undir verkstjórn Kristrúnar Heimsdóttur, aðstoðarmanns viðskiptaráðherra.
Ég hef það eftir öruggum heimildum að á fólk hafi verið hlustað, og gagna aflað, gagna sem munu verða vendipunktur deilunnar ef ESA fer í hart.
Ég hef það eftir öðrum heimildum að ekki mátti samt ganga of hart fram gegn fyrri málsvörn stjórnvalda, það hafi mætt harðri andstöðu fjármálaráðherra. Líklegast vegna þess að hann hafi óað við að þurfa að skipuleggja flokksferðir á Hraunið til að peppa upp móralinn hjá þeim trúnaðarmönnum flokksins sem hann setti í að semja við breta á sínum tíma.
En það er vel sem gert er. Ef það dugar til, þá munu frekari gögn gagnast þjóðinni í málssókn hennar gegn fjárkúgurunum bresku og íslensku samstarfsmönnum þeirra. Annars mun Árni Páll og hans samstarfsfólk gefa í og knésetja Brussel. Til þess hefur hann öll gögn, hann útvegaði sér nefnilega gögnin í stað þess að treysta áfram á ráðgjöf lögmanna sem eru í huga og hjarta sammála bresku fjárkúguninni.
Árni Páll beygði sig nefnilega undir vilja þjóðarinnar og ákvað að verja málstað hennar með þeim krafti sem hann byggi yfir.
En eftir fyrra þjóðaratkvæðið þá var málið áfram á forræði Steingríms Joð, og hann og Jóhanna mörkuðu þá stefnu að hundsa vilja þjóðarinnar og reyna á ný að ná samningum við breta.
Á þessu tvennu er grundvallarmunur.
Hér í þessu bloggi hefur Árna Pál ekki verið vandaðar kveðjurnar, af gefnu tilefni að sjálfsögðu.
En hafa skal það sem vel er gert, og skiptir þá engu þó áður hafi verið deilt hart.
Í viðurkenningu á þeim staðreyndum sem við blasa felst engin syndaaflausn fyrir Árna Pál út af fyrri framgöngu hans í ICEsave deilunni. Hann sér um þá syndaaflausn sjálfur með störfum sínum í dag og það er þjóðarinnar að meta hvort hún sé fullnægjandi.
En við sem viljum þjóðarhag í ICEsave deilunni, við viðurkennum það sem vel er gert, sama hver það gerir. Annars erum við ekki sjálfum okkur samkvæm, annars höfum við ekki mótað afstöðu okkar út frá hagsmunum þjóðarinnar heldur öðrum hagsmunum, til dæmis pólitískum.
En þetta blogg hér er ekki pólitískt, það snýst aðeins um einn hlut, að börnin mín geti alist upp í mannsæmandi þjóðfélagi þar sem velferð fólks, ekki fjármagns eða pólitískra trúarbragða, er í forgang.
ICEsave var atlaga að framtíð barna okkar, ICEsave var siðleysi og í þeirri deilu kristallaðist mannvonska þeirra nýju trúarbragða sem öllu ráða, trúarbragða fjármagnsins.
Hugsandi manneskja, siðuð manneskja snýst til varnar og ver sig og sína. Það hef ég gert á þessu bloggi. Og í þeirri baráttu skiptir það engu hverjir manna skotgrafirnar með manni. Aðeins að þeir berjist gegn óvininum.
Núna er Árni Páll og hans nánustu samherjar komnir ofaní þessar skotgrafir, fyrir er margt ágætt fólk, með mjög misjafna pólitíska fortíð. En öll samherjar.
Og þannig er það á meðan allir vinna að sama markmiðunu, að sigra stríðið.
Verði liðhlaup, þá er því mætt. Ef og þegar það gerist.
En þangað til er eitt á hreinu, það sem nýtist í baráttunni, það nýtist í baráttunni. Þeir sem eru með manni, þeir eru með manni.
Ég býð Árna Pál velkomin í hóp okkar ICEsave andstæðinga.
Kveðja að austan.
Bretar og Hollendingar brotlegir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 7
- Sl. sólarhring: 71
- Sl. viku: 2647
- Frá upphafi: 1412705
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 2311
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég vildi að ég væri eins sannfærður og þú um sinnaskipti ráðherrans. Hann sagði síðast í fréttum í gær að hann væri enn þeirrar skoðunar að rétt hefði verið að semja. Meiri liðleskja hefur ekki setið á ráðherra stól á minni ævi.
Hafi verið hlustað á fólk og gagna aflað við ritunar svarsins er það ekki ÁP að þakka. Miklu frekar Kristrúnu Heimisdóttur ef hún var verkstjóri eins og þú segir.
Erlingur Alfreð Jónsson, 3.5.2011 kl. 10:19
Blessaður Erlingur.
Það er fátt sem ég er sannfærður um í þessum heimi, nema að hið góða sigrar að lokum, einhvernvegin. Það þarf aðeins smá aðstoð. Og þeir sem styðja það þurfa ekki endilega vera svo góðir, mega jafnvel vera algjörir asnar..
Sem er ein skýring þess að ég hef nýtt minn vanmátt til að lemja á auðöflum þeim sem komu landinu á hausinn og náðu að viðhalda völdum sínum með aðstoð AGS. ICEsave deilan er aðeins toppurinn á því stríði sem þjóðin þarf að há um framtíð sína.
Og allt snýst þetta um framtíðina.
Núna er Árni Páll liðsmaður hennar. Punktur.
Það breytir engu að hann telji sig þurfa að réttlæta fyrri orð sín og gjörðir. Og það breytir engu hvað mikla trú við höfum á úthaldi hans í skotgröfum réttlætisins, í dag er hann að vinna fyrir þjóðina í ICEsave. Á þann hátt sem ekki er hægt að gagnrýna hann fyrir.
Þegar ég las þessa frétt fyrst, þá tók ég hóflega mark á ráðherranum. Hugsaði reyndar svipað og ég tjáði í pistli mínum um þá félaga, Hyde og Jekyl.
En í gærkvöldi var ég upplýstur um aðra hlið á málinu, og ég er alveg maður til að viðurkenna, að ég gæti haft rangt fyrir mér um Árna Pál.
Tíminn sker úr um það.
En rétt skal vera rétt, og við í ICEsave andstöðunni gerum ekkert annað en að styrkja málstað andskota okkar, ef við gefum ekki því góða tækifæri. Það er okkar að halda uppi málefnlegri gagnrýni á það sem okkur þykir skorta á í málflutningi ráðherrans, og þá er ég að meina málflutningi hans gagnvart ESA, en það er ekki okkar að draga niður málflutning hans.
Við látum Já menn Íslands um það.
Það er nóg til að fólki sem sveik þjóð sína, og er ennþá að svíkja, sem við getum beint vopnum okkar að. Það skiptir enginn um skoðun í ICEsave ef hann uppsker bæði skammir svikaranna og okkar sem alltaf trúðum á rétt þjóðarinnar.
Við megum ekki falla í gryfju rétttrúnaðarins, að telja aðeins útvalda nógu hreina til að berjast fyrir málstað þjóðarinnar.
Hreinleiki er aðeins eitthvað sem þú átt að finna í þvottahúsum, þar átt þú að fá skyrtur sem eru hvítar sem mjöll. Slíkar kröfur er ekki hægt að gera til lifandi fólks, að samviska þess eða fortíð sé mjallarhvít.
Aðeins að menn reyni að gera það sem rétt er.
Mannaúrvalið er ekki meira en það.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.5.2011 kl. 10:54
Ég er sömu skoðunar og þú Ómar, að það er verkefnið sem skiptir máli – verkefnið sem þarf að vinna. Í hvaða flokki sá maður er sem vinnur verkið skiptir mig engu máli og í hvaða flokki sá maður er sem svíkst um sitt starf skiptir mig heldur engu máli. Raunar hafa flokkadrættir lengi staðið Íslendsku samfélagi fyrir þrifum.
Samstaða þjóðar gegn Icesave lyfti Grettistaki einmitt vegna þess að fólk úr mörgum flokkum sameinaðist í því verkefni að kveða niður Icesave-drauginn. Hvaðan menn komu skipti engu máli, einungis það sem menn gátu lagt með sér í baráttuna gegn ósæmilegum Icesave-kröfum.
Nú hafa loksins orðið þáttaskil sem menn hafa tekið eftir víða um heim. Loksins eru stjórnvöld landsins farin að vinna sitt verk. Hugsanlega ekki af þeim krafti sem hægt væri að óska, en vinna samt ekki lengur gegn hagsmunum þjóðarinnar. Eins og þú bendir á Ómar, tengjast þessi umskipti Árna Páli og aðstoðarmanni hans Kristrúnu Heimisdóttur.
Til marks um hin nýgju vinnubrögð er auðvitað samráð við Samstöðu þjóðar og aðra Icesave-andstæðinga. Nú er nærstum öllum orðið ljóst að þau lagarök sem Samstaða þjóðar hefur haldið fram í deilunni eru rétt. Ísland sætti ódrengilegri árás nýlenduveldanna Bretlands og Hollands. Öllum brögðum var beitt til að koma okkur á kné.
Ég dreg ekki úr því að framdir voru efnahagsglæpir af forráðamönnum bankanna og margir stjórnmálamenn voru meðvirkir. Gert verður upp við þessa menn í réttarsölum landsins. Gagnvart nýlenduveldunum er einungis sæmandi að gæta lögsögu Íslands og upplýsa umheiminn um glæpaverkin. Nú er rétti tíminn til að blása til sóknar og sækja okkar rétt vegna beitingar hryðjuverkalaga og aðfarar í formi efnahagsstyrjaldar.
Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 3.5.2011 kl. 11:39
Takk fyrir þitt góða innslag Loftur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.5.2011 kl. 14:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.