14.3.2011 | 17:51
Þjóðaratkvæðagreiðsla um undirlægjuhátt.
Þann 9. apríl næstkomandi verður ekki bara haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um glæp, þetta er líka atkvæðagreiðsla um undirlægjuhátt.
Um hvað fólk er tilbúið að gangast langt til að þóknast flokkum sínum og auðmönnum. Flokkunum sem brugðust okkur í aðdraganda Hrunsins, og eftir Hrun, og auðmönnunum sem rændu okkur og beita núna afli sínu til að koma skuldum sínum á þjóðina.
Lögmaður, sem hefur framfærslu sína af þjónustu við auðmenn, skrifaði grein í málgagn auðmanna, þar sem hann sagði "Skynsama menn semja". Hvað hann fékk borgað fyrir að halda þessu fram veit ég ekki, en ég veit fyrir víst að ef ég hefði tekið hann á orðinu, og mætt til hans í morgunmat í morgun, og eftir að hafa gætt mér á innihaldi ísskápsins, tilkynnt honum að ég færi á bílnum, hann gæti tekið strætó, og síðan yrði hann að vera fluttur út um helgi því ég þyrfti að nota íbúðina næstu 10 árin eða svo, en hann yrði samt að borga af henni, að þá myndi hann ekki semja við mig.
Hann myndi ekki sættast á að hann borðaði hrökkbrauðið á meðan ég fengi eggin og beikonið. Hann myndi ekki sættast á að hann fengi bílinn milli 3 og 5 og hann mætti búa í kjallaranum á meðan ég notaði efri hæðirnar.
Nei, hann myndi nota leiðir réttarríkisins, hann myndi hringja á lögregluna, og ef það dygði ekki, þá myndi hann stefna mér fyrir dómsstóla til að láta fjarlæga mig af heimili sínum, jafnvel þó fyrirfram væri ekki vitað hvernig dómsstólar myndu dæma. En þó vitað að þeir dæma eftir lögum.
En það er auðvelt að fullyrða fyrir borgun að hann myndi semja, það er ef aðrir væru fórnarlömbin.
Hann myndi örugglega fullyrða slíkt ef húsbóndi hans, auðmaðurinn myndi ákveða að vísa fólki af heimilum sínum því hann ætlaði að nota öll húsin í bæjarfélagi þess sem gistihús fyrir erlenda ferðamenn. Ekki spurning um hagkvæmnina og gjaldeyristekjurnar, og lögmætið, ja "Skynsamir menn semja" segir lögmaðurinn. Kannski á þann hátt að aðeins þriðjungur bæjarbúa þyrfti að láta hús sín og heimili vegna hinnar þjóðahagslegu starfsemi auðmannsins.
En lögmaðurinn hefur rangt fyrir sér, "Skynsamir menn semja" þegar eitthvað er til að semja um, en þeir semja ekki við lögbrjóta og yfirgangsmenn, um háttsemi þeirra gilda lög og reglur sem banna yfirgang og kúgun, og lögin segja líka að það megi ekki semja við lögbrjóta. Jafnvel þó maður sé "skynsamur" að hætti auðmanna.
En á öllu eru undantekningar, skynsemin stjórnar ekki undirlægjunni.
Færa má rök fyrir að auðmaðurinn myndi ráðast svona að íbúum Garðabæjar, og hefði vit á að tryggja sér stuðning fjölskyldunnar og flokksins, að þá myndu margir flokksmenn ganga úr húsi, ekki af hræðslu heldur af þjónkun við flokk og forystu.
Í árdaga ICEsave kúgunar breta voru ekki margir sem höfðu kjark til að stíga fram og segja að frjáls maður stæði gegn kúgun og yfirgangi, jafnvel þó stórþjóðir sameinuðust gegn honum. Einn sem hafði kjarkinn var virtur blaðamaður sem tjáði þessa skoðun sína reglulega í föstum pistlum í Morgunblaðinu. Hann kvaðst ekki vilja gera börn sín að skuldþrælum um ókomna tíð vegna skulda einkaaðila. Slíkt væri siðlaust, og slíkt gerði enginn maður.
Svo skipti flokkurinn um skoðun, hið ískalda hagsmunamat tók við. Og síðasta föstudag mátti lesa þessa klausu:
"Það hafa verið snarpar deilur um nýja Icesave-samninginn í þjóðfélaginu og sitt sýnist hverjum, ekkert síður en um Skólaljóðin. Það er mikilvægt að hver og einn taki afstöðu á sínum forsendum, láti eigin sannfæringu ráða för, og það á bæði við í fallvöltum heimi peninganna og eilífri tilveru ljóðsins. Ég hef verið þeirrar skoðunar að í þetta skipti sé best að ljúka Icesave-málinu með sátt á milli vinaríkjanna þriggja, ekki síst þar sem allir deiluaðilar leggja nú eitthvað af mörkum, en virði auðvitað skoðanir þeirra sem vilja hafna samningnum. "
Já, núna á að semja vegna "sáttar milli vinaríkja" og vegna þess að "allir deiluaðilar leggja nú eitthvað af mörkum" segir þessi fyrrum baráttumaður framtíðar barna sinna.
Halda þessi rök einhverjum sens, þessi rök sem Steingrímur Joð Sigfússon hefur alla tíð notað til að réttlæta undanlátssemi sína við fjárkúgun breta og Hollendinga??
Í það fyrsta ef þau gera það í dag, þá gerðu þau það líka síðast og þar síðast og þar með er pistlahöfundurinn að játa að hann hafi vegið að Steingrími Joð að ósekju í öllum sínum fyrri pistlum sem fjölluðu um ICEsave fjárkúgunina. Og af hverju var hann svona blindur þá????
Líklegast hefur það eitthvað með rök Steingríms að gera, þau voru röng og eru röng.
Látum það gott heita að kúgarar okkar séu vinaþjóðir en vinur er sá sem til vamms segir. Ef einhver er vinur þinn, þá lætur þú hann ekki fjárkúga þig eða beita þig öðru ofbeldi. Þú bendir hann á rangindi hegðunar hans og býður honum aðstoð við að komast aftur á beinu brautina.
En þú segir ekki við hann að vegna þess að hann er forn vinur, að þá megi hann nauðga, ræna, fjárkúga eða beita aðra tilhæfulausu ofbeldi. Hvað þá að hann megi gera slíkt í "sátt" við vini sína.
Og fjárkúgun hins forna vinar verður ekkert ásættanleg ef hann leggur eitthvað af mörkum með því að slá af henni. Mannræningi sem lækkar lausnargjald sitt úr milljarði í 100 milljónir, hann löghelgar ekki kröfu sína með slíkum gjörningi. Hann er ekki að leggja "eitthvað af mörkum" því hann átti aldrei neina kröfu. Og raðnauðgari sleppur ekki við dóm þó hann beri því við að hann hefði getað nauðgað mun fleiri en hann gerði.
Rökleysan er öllum ljós, nema undirlægjunni. Vegna þess að hún skrúfar fyrir vit sitt og sannfæringu að boði flokksins eða annarra sem hún kýs að fylgja í blindni.
Við sjáum þess víða merki í dag. Sveitarstjórnarmenn sem gengu fram að einurð við að mótmæla eyðingu sjúkrahúsaþjónustu landsbyggðarinnar, þeir tala núna um skynsemi þess að borga stórfé úr ríkissjóði. Það er nefnilega sko svo mikill kostnaður við dómsstólaleiðina.
Samt mun ICEsave verða fjármagnað með niðurskurði á grunnþjónustu, og afleggingu hennar í hinum dreifðu byggðum landsins.
Fólkið sem við treystum, var vist ekki fólk, heldur undirlægjur, mótmæli þess var sjónarspil svo alvöru fólk tæki ekki yfir stöðu þess og völd. Og stæði með fólkinu gegn fjárkúgurum og auðræningjum.
Þjóðaratkvæðið 9. apríl er því þjóðaratkvæði um manndóm. Hvort þjóðin haldi haus gegn þeim sem vilja ræna hana og þrælka.
Nei við ICEsave er liður í þeirri vörn.
Vörninni fyrir framtíð barna okkar.
Kveðja að austan.
Hlutlaust kynningarefni verði útbúið um Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:15 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 18
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 2658
- Frá upphafi: 1412716
Annað
- Innlit í dag: 12
- Innlit sl. viku: 2320
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 11
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.