25.1.2011 | 22:45
Meiriháttar áfall fyrir Ísland???
Segir fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Þá er hann ekki að tala um brot ríkisstjórnarinnar á stjórnarskránni, landslögum og á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þegar stjórnvöld gengust að fjárkúgun breta eftir að Evrópusambandið hafði lýst því skýrt yfir að kúgun þeirra studdist ekki við lög sambandsins.
Það er ekki til alvarlegra brot á stjórnarskránni, nema þá að afsala landinu sjálfstæði, en þau sem ICEsave samkomulagið hefur í för með sér. Skattpeningum þjóðarinnar er ráðstafað í fjárkúgun, fjárkúgun sem enginn veit endanlega upphæð á, en almannaeigur lagðar að veði.
Ef illa fer þá þarf að loka skólum og sjúkrahúsum, senda gamalmenni út guð og gaddinn, svelta bótaþega með því að láta bætur ekki fylgja verðlagshækkunum, brjóta niður löggæslu, fjársvelta Landhelgisgæsluna, setja Landsvirkjun upp í pant, svo minnst sé á lítið eitt.
Fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins er ekki að tala um þau brot á siðlegri hegðun að láta skuldsettan almenning fá minni pening en eitt af tugum auðmannafyrirtækjum fær í afskriftir, bara meðgjöfin með Sjóvá, var sjöföld sú upphæð.
Fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins er ekki að tala um 650 milljarða AGS skuldina sem mun mergsjúga ríkissjóð um ókomna framtíð, ekki um tugmilljarða óþarfa vaxtagreiðslur til sjóðsins eða um alvarlega afleiðingar þeirrar stöðnunar sem efnahagsstefna hans hefur framkallað í hagkerfinu.
Fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins er ekki að tala um neitt sem skiptir þessa þjóð máli.
Hann er aðeins að tala um klúður, sem læra má af.
Klúður sem hvorki ógnar framtíð þjóðarinnar eða velferð, ólíkt þeim málum sem ég taldi upp hér að ofan.
Flokkur þessa manns fær um 40% fylgi í skoðanakönnunum, líklegast vegna þess að hann ætlar ekki að klúðra næstu stjórnlagaþingskosningum, eða þá að hann ætlar ekki að halda þær, eins og það skipti nokkurn mann einhverju máli.
En þessi flokkur hefur enga aðra skoðun á þeim ógnum sem við blasa, aðra en þær sem núverandi stjórnarflokkar hafa. Nema jú, að hann vill flýta yfirtöku erlendra lánardrottna á orkufyrirtækjum landsmanna með arfavitlausum stóriðjudraumum, að skuldsetja, þegar of skuldsetta þjóð, um hundruð milljarða í viðbót við þau lán sem hún ræður ekki við nú þegar.
Þessi flokkur hefur ekki múkkað, hvað þá muldrað, á þingi núna í tæp 2 ár. Alltaf þegar hann hefur óttast að stjórnin springi, þá hefur hann haldið kjafti, þagað, gert ekki neitt.
En hann ber bumbur, heimtar afsögn stjórnar, þegar eitthvað er til umræðu, sem engan varðar, nema hugsanlega þá sem ætluðu að lifa hátt á kostnað skattgreiðenda næstu mánuðina sem Senatorar.
Gjammið er svo glatað, því engin man til þess að flokkurinn hafi haldið uppi andófi gegn framkvæmd kosninganna, hvað þá að hann hafi hvatt til þess að þær yrðu endurteknar eftir öllum kúnstarinnar reglum.
Þvílíkt ris, þvílík hæð í málflutningi, hér eru miklir menn á ferð.
Og ég tek undir með þessum fyrrum ráðherra Hrunstjórnarinnar, að um "Meiriháttar áfall fyrir Ísland" sé að ræða.
Það er ömurlegt að komast að því, að stjórnarandstaðan kemst lægra en ríkisstjórnin.
Eitthvað sem átti ekki að vera hægt.
Þessi lágkúra verður seint slegin.
Kveðja að austan.
Meiriháttar áfall fyrir Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:34 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 51
- Sl. sólarhring: 618
- Sl. viku: 5635
- Frá upphafi: 1399574
Annað
- Innlit í dag: 42
- Innlit sl. viku: 4806
- Gestir í dag: 41
- IP-tölur í dag: 41
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er ágætis áminning Ómar. Reyndar má segja það Einari K til málsbóta, þó samsekur sé, að hann er óvart að benda á klúður sem kostar þjóðina, að því að sagt er á hinu háa alþingi, 5 -600 milljónir.
Það á tímum sem yfir þjóðinni vofir að þurfa "að loka skólum og sjúkrahúsum, senda gamalmenni út guð og gaddinn, svelta bótaþega með því að láta bætur ekki fylgja verðlagshækkunum, brjóta niður löggæslu, fjársvelta Landhelgisgæsluna, setja Landsvirkjun upp í pant, svo minnst sé á lítið eitt".
Magnús Sigurðsson, 25.1.2011 kl. 23:59
Já menn reyna sífellt að finna að andstæðingnum og svo er haldið áfram að næla í auðlindirnar á meðan þjóðin er keyrð á vonarvöl.
Held að kostnaðurinn sé um 200 milljónir en ríkisstjórn Einars Guðfinnssonar kostaði þjóðina þúsundir milljarða.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 26.1.2011 kl. 00:03
Steingrímur er farinn að slaga upp í 500 milljarða í kostnað með sinni stjórnleysu og það einhentis á 2 ára tímabili. Það hlýtur nú að teljast met. Annars er ég sammála Ómari með Sjálfstæðisflokkinn. Hann er gjörsamlega orkulaus og til fárra hluta nytsamlegur. Stjórnarflokkarnir hljóta því að taka því alvarlega að lúta í lægri haldi fyrir jafn vonlausum flokki í könnun jafnvel þó könnunin sé vart marktæk vegna hlutfalls þeirra er ekki tóku afstöðu.
Það er ekki lengur hægt fyrir veruleikafirrta stuðningsmenn þessarar stjórnar að benda endalaust á klúður fyrri stjórna. Nú þurfum við að horfast í augu við það að sitjandi ríkisstjórn hefur misnotað það tækifæri sem kom upp eftir búsáhaldar"byltinguna". Það hefur ekki vantað fagurgalann og loforðin en hún hefur sýnt það í verki að þjóðin er ekki í fyrsta sæti í hennar huga. Forsætisráðherra tróð ESB frumvarpi í gegn með hótunum og ofbeldi og beinlínis kom í veg fyrir lýðræðislega framgöngu þess máls. Fjármálaráðherra reyndi að smygla handónýtum Icesave samningi fram hjá þjóðinni. Skötuhjúin beittu sér svo fyrir því að fólk ætti að hunsa fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu Íslendinga. Fjármálaráðherra hefur einnig ákveðið upp á sitt einsdæmi að styrkja einkafyrirtæki í samkeppnisrekstri um fleiri milljarða. Í dag fór svo fyrrum dómsmálaráðherra þessarar stjórnar upp í pontu og sagði nánast berum orðum að það sé óþarfi að fylgja lögum ef maður er ekki að brjóta á neinum. Fínn boðskapur út í þjóðfélagið það!
Við þurfum ekki rifja upp mistök fyrri ríkistjórna þegar núverandi stjórn er að endurtaka þau svo um munar á alþingi í dag.
Pétur Harðarson, 26.1.2011 kl. 00:46
Það væri líka gaman að vita hversu oft þessi stjórn hefur brotið lög núverandi stjórnarskrár áður en fólk fer að tala um þetta heilaga stjórnlagaþing.
Pétur Harðarson, 26.1.2011 kl. 00:51
Hér er smá upprifjun... fyrir þá sem eru haldnir skammtímaminni... -> http://www.youtube.com/watch?v=6XLOP2rMH5U&feature=related
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.1.2011 kl. 01:31
Blessaður Magnús.
Ég held að þó lögfræðingar séu dýrir, að þá hafi þeir ekki tekið hálfan milljarð fyrir að framkvæma þessa kosningu, þeir hafa allavega ekki eytt þessum peningum í efni og útbúnað, pappi er ekki svo dýr. Ég veit ekki hvernig þessar tölur eru til komnar, en reikna með að þetta sé heildarkostnaður við dæmið, og sjálf framkvæmd kosninganna er aðeins brot af þeim kostnaði.
En þó við gefum okkur að þetta sé hálfur eða heill milljarður, þá nær það ekki einu prósenti af óþarfa vaxtakostnaði ríkissjóðs, hvað þá að þessi kosning sé leið til að svipta landið sjálfstæði sínu.
Ég vil reyndar taka það fram að ég var ekki að hjóla í Einar Kristinn sem slíkan, eiginlega las ég ekki pistil hans, ætli ég hafi ekki farið að hrista hausinn þegar ég sá þrútið andlit Ólöfu Nordal í sjónvarpinu. Hún er manneskjan sem neitaði skuldaþrælum um leiðréttingu mála sinna, með þeim rökum að aðalatriðið væri að þeir hefðu vinnu svo þeir gæti þrælað fyrir bankanna.
En að sjá líf í fólki, út af máli sem skiptir engan, engu máli, því hugmyndin um stjórnlagaþing var dauð, mér blöskrar það.
Ef þetta væri eitt dæmi af mörgu um öfluga stjórnarandstöðu, þó ókei, en þá væri þessi stjórn löngu fallin, og Gordon Brown gisti fangaklefa fyrir fjárkúgun aldarinnar. Og allir forsæisráðherrar Norðurlandanna væru búnir að segja af sér eftir að almenningur í löndum þeirra komst að því að þeir lugu skuld upp á smæstu vinaþjóð þeirra þegar hún í neyð þurfti hjálp, ekki kúgun og ofbeldi.
Menn gleyma alltaf siðmenningunni og réttarríkinu þegar menn ræða ICEsave.
Þarf ekki að taka fram að Jóhanna sæti inni líka.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.1.2011 kl. 08:42
Takk fyrir innlitið Jakobína.
"Já menn reyna sífellt að finna að andstæðingnum og svo er haldið áfram að næla í auðlindirnar á meðan þjóðin er keyrð á vonarvöl. ".
Ætli þessi setning nái ekki utan um kjarna þess sem ég er að segja. Alþingi er orðin að skrípastofnun, flokkarnir sem ættu, sögu sinnar vegna, að standa vörð um hag almennings, vinna með auðræningjunum, og hluti stjórnarandstöðunnar er svo sammála þeim að hún má ekki til þess hugsa að stjórnin verði trufluð í því verki.
Þess vegna er svona Ómál blásið upp, því allir vita að enginn mun segja af sér út af því, enda ekki ástæða til. Hæstiréttur gerði ekkert annað en að hnykkja á gildandi lögum. Og ef menn hafa einhverja trú á að þetta stjórnlagaþing gæti breytt einhverju, þá varð lögmæti þess að vera hafið yfir allan vafa.
Hins vegar tókst ríkisstjórninni að klúðra þessu eins og öllu öðru, hún gerði þetta þing að flokksapparati sínu. Og þar með var hugmyndin andvana fædd.
Eigum við ekki að segja að ég hafi misst endanlega trúna, sem reyndar var ekki mjög mikil fyrir, þegar ég sá að fólk sem hafði eitthvað til málanna að leggja, án þess að vera bundið á flokksklafa, að það fékk ekki brautargengi. Á þinginu er vissulega margt gott fólk, en það vantar breiddina, og ekki hvað síst, það vantar dínamíkina.
Það vantaði þig.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.1.2011 kl. 08:52
Blessuð Jóna Kolbrún.
Ekki skal ég draga í efa að Sigurður Kári lifi í draumaheimi, en staðreyndin er samt sú, að stórauðvaldið hefur keypt upp aðra flokka, og í dag er einna helst andstaða gegn því í grasrót Sjálfstæðisflokksins, það er af fjórflokkunum.
En það ætti öllum að vera ljóst að stjórnlagaþing breytir ekki neinu. Stjórnarskrám er ekki breytt nema víðtæk sátt og samstaða ríki um þau mál. Það er til dæmis ekkert sem mælir á móti að áhugafólk um þjóðarauðlindir, að það leggi fram tillögu þar um á Alþingi.
Af hverju er það ekki gert????
Jú, það vantar styrk til að ná því í gegn. Eins er það með tillögur stjórnlagaþingsins, hverjar sem þær verða, að ef menn ætla að keyra gegn andstæðingum sínum, þá verða þær einfaldlega felldar, er ekki flóknara en það.
Svo má heldur aldrei gleyma þeim barnaskap, að telja að stjórnlagaþing verji auðlindir landsins, á sama tíma þegar Alþingi veðsetur landið í ICEsave og AGS lánunum.
Það er veruleikafirring á hæsta stigi.
Þeir sem vilja þjóðareign, þeir fylkja sér gegn skrímslunum, fella þau eða reka úr landi. Og ganga síðan þannig frá málum, að þjóðin eigi sitt.
En það á enginn neitt sem hann er búinn að veðsetja. Lánaeigendurnir eiga það.
Því megum við aldrei gleyma.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.1.2011 kl. 09:00
Takk Pétur, ekki ber ég á móti því að svipuðum augum lít ég á málin.
Við fórum úr öskunni í eldinn, það er ekki verið að endurreisa þjóðina, það er verið að endurreisa auðræðið.
Og það er hárrétt, þeir sem þverbrjóta stjórnarskrá og landslög, eru ekki hæfir að stýra gerð nýrrar stjórnarskrár. Og það er ekki bara ríkisstjórnin, líka stjórnarandstaðan með því að ræða núverandi ICESave frumvarp, ein og um löglegan samning sé að ræða.
Svo má ekki gleyma að á stjórnlagaþingi er fólk sem sæti á í dýpstu dýflissum hjá öllum siðmenntuðum þjóðum vegna aðstoð þess við fjárkúgun erlendra ríkja.
Þar er fremst í flokki stjórnmálafræðingur VinstriGrænna sem laug í blaðagrein um réttmæti krafna breta, og notaði þá lygi til að gagnrýna vinnu Alþingis um setningu fyrirvara á Svavarssamningnum.
Að hafa hana á stjórnlagaþingi er meiri svívirða en heimssamtök hvalverndunarsinna myndu kjósa ónefndan Loftsson sem forseta samtaka sinna vegna sameiginlegs áhuga á hvölum. Láta eins og það sé enginn munur á að vilja vernda, eða eyða.
Á stjórnlagaþingi er fullt af fólki sem vill eyða þjóð sinni.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.1.2011 kl. 09:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.