Jæja, núna hangir eitthvað á spýtunni.

 

Alltaf þegar ríkisstjórnin er komin út í horn með sín mál, þá veður Ólína fram með sveðju sína og vill höggva kvótakerfið.

Og alltaf eru orð hennar stórfrétt.

Og ég hef áreiðanlega heimild fyrir að það finnist fólk í 101 sem trúir henni.  Kinkar kolli og segir, "nú mega sægreifar vara sig".  Þó það fólk viti ekki almennilega hvað þetta sæ- þýðir.

 

Núna er stóra spurningin, hvað skyldi hanga á spýtunni????

Er ljóst að lífeyrissjóðirnir og bankarnir vilji ekki fjármagna 6 milljarða króna loforðið sem átti að hindra að Alþingi yrði grýtt með eggjum á næsta mánudag, er þetta örvæntingarfull tilraun til að losna við að fara með föt sín í hreinsun???

Eða er ríkisstjórnin í vandræðum með eitthvað annað????

Kveðja að austan.

 

Kveðja að austan.


mbl.is Afnemi kvótakerfið strax í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svarið liggur líklega í öðru bloggi við þessa frétt. ESB sættir sig ekki við þetta fyrirkomulag sem hér er í gangi, það gefur þeim ekki nægjanlegt vald yfir auðlindinni, þetta er eina rökrétta skýringin sem ég sé á meiri háttar uppstokkun.

Björn (IP-tala skráð) 15.1.2011 kl. 17:47

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ólína er vestfirðingur en ekki 101 manneskja..

Óskar Þorkelsson, 15.1.2011 kl. 17:56

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Þetta er spurning Björn.

Óskar, þú heldur að Ólína trúi sjálfri sér???

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.1.2011 kl. 18:09

4 identicon

Ólína rökstyður ekki eina einustu fullyrðingu sem hún setur fram. Og hefur ekki gert hingað til og mun ekki gera, því þá lendir hún í vandræðum. Ég heyrði að hún hafi ekki heimsótt eina einust útgerð til að ræða málin, það hrædd er hún við hitta einhvern sem þekkir til.

Njáll (IP-tala skráð) 15.1.2011 kl. 18:25

5 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Kvótaþjófarnir og áhangendur þeirra hafa aldrei rökstutt eina einustu fullyrðingu sem þeir hafa sett fram um kvótakerfið.

Jóhannes Ragnarsson, 15.1.2011 kl. 18:35

6 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir góðan pistil Ómar.

Mér datt í hug að leggja aðeins orð í belg varðandi þessa umræðu, ég hef nefnilega verið ansi lengi á sjó og byrjaði fyrir daga kvótakerfisins.

Kvótinn hafði ekki það orð á sér hjá útgerðamönnum þess tíma að þeir hefðu fengið hann á silfurfati, enda ekki orðnir sægreifar þá. Það varð tekjuskerðing hjá útgerðarmönnum þegar þeir gátu veitt minna en þeir höfðu áður gert.

Ekki veit ég hvort það hefði ríkt gleði hjá þjóðinni ef stjórnvöld hefðu sagt að nú mætti einungis veiða þetta magn af fiski og til að gæta jafnræðis, þá yrði öllum geret kleyft að kaupa þær heimildir sem í boði voru.

Það hefði þýtt, ekki bara tekjuskerðingu vegna minnkandi veiða, heldur útgjaldaaukningu á sama tíma, ég efast um að nokkur hefði fagnað því, nema helst vinstri menn en þeir gleðjast alltaf ef ríku fólki fækkar.

Framsalið var sett á til þess að menn gætu selt sig út úr greininni og sterkari útgerðir keypt til sín heimildir.

Hinn frjálsi markaður er ekki gallalaus, hann sýndi neikvæða birtingamynd í kjölfar hins frjálsa framsals, vitanlega er það ekki réttlætanlegt að menn gætu horfið með tugi milljóna, jafnvel nokkra milljarða út ú r greininni og ég efast um það það hafi verið hugsun stjórnvalda á sínum tíma.

Ekki er gott að festast í fortíðinni, við þurfum að vinna í nútíðinni til að búa í haginn fyrir framtíðina.

Í dag er það staðreynd, að þeir sem eru í útgerð og eiga kvóta hafa flestir keypt hann dýrum dómum og eru að veiða hann sjálfir. Þeir sem raunverulega voru gerendur í þessu leiðindamáli, þá er ekki hægt að sækja til saka.

Það eru útgerðir sem keypt hafa kvóta sem lenda í hremmingum ef kerfið verður slegið af.

Útgerðin er mjög skuldsett af ýmsum ástæðum, bæði eðlilegum og óeðlilegum.

Fiskiskipaflotinn er orðinn gamall og þarfnast endurnýjunar. Togari sá sem ég starfa á er orðinn þrjátíu og þriggja ára gamall. HB Grandi, sem þó er stöndug og ágæt útgerð hefur ekki bolmagn til að endurnýja.

Einnig verðum við sjómenn varir við það, að menn eru farnir að halda að sér höndum varðandi viðhald á skipum. Við þurfum stundum að sigla í land út af bileríi með tilheyrandi tekjutapi fyrir okkur og útgerðina, það er eingöngu sett lágmarksfé í viðhald og menn treysta á að þetta reddist einhverveginn.

Ég vona að þetta geti verið innlegg í þess umræðu án þess þó að vera tæmandi rökstuðningur fyrir kvótakerfinu sem slíku.

Persónulega er ég á þeirri skoðun að þetta sé móðursýki í Hafró, það hefði verið óhætt að veiða mikið meira og fátt bendir til að kerfið hafi eflt fiskistofna við landið. Þetta er spurning um æti fyrst og fremst, þorskurinn er eins og ég, eltir matinn fyrst og fremst.

En meðan við þurfum að sætta okkur við takmarkaðar aflaheimildir, þá er vandséð að hægt sé að gera eitthvað annað en gert hefur verið, þótt enn og aftur sé ég á móti svona miklum takmörkunum. Ég tel að hyggilegra hafi verið að hlusta á Jón Kristjánsson, hann hefur heilmikið vit á þessum málum.

Jón Ríkharðsson, 15.1.2011 kl. 19:17

7 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Jón Ríkharðsson!

 Ég hef haft þá staðföstu trú frá barns-aldri að ef ríkum fækkar þá fækkar fátækum líka? Er ég kannski heimsk og fáfróð að skilja ekki "mannúðina" í hagfræðinni?

Ég lifi til að læra. Sumir læra til að lifa. Hvort ætli sé rétt?

Er það ekki rétt skilið hjá mér að ef báðir aðilar hagnast á viðskiptum þá séu viðskiptin heiðarleg og arðbær fyrir alla og vöruskipta-hugsjóninni fullnægt? Eða hef ég bara misskilið hvers vegna gjaldeyrir og peningar voru fundnir upp? Og kannski hafa heimsins háskóla-hagfræðingar líka misskilið eitthvað???

Tek af heilum hug undir orð þín um að hlusta á Jón Kristjánsson fiskifræðing, sem ekki hefur selt sálu sína og skoðun til auðjöfra alheimsins, heldur bjargað Færeyingum vinum okkar með sinni ráðgjöf og menntun 

Nú verðum við líka að fara að hlusta á Aðalstein sem berst hetjulega fyrir frjálsum strandveiðum, og stórmerkilegt að hann skuli þurfa að berjast nánast einn fyrir svo sjálfsögðu máli á Íslandi?

 Áfram Aðalsteinn og ég styð þig og stend með þér þó ég mæti bara stundum á mótmælin með þér! Við verðum að hjálpa Jóni Bjarna og Jóhönnu Sigurðar við þetta erfiða réttlætis-mál því annars geta þau ekki útilokað LÍÚ-mafíuna!!!!!!!! það þarf alla þjóðina og það sameinaða, til að hrekja þá mafíu í fangelsi!

M.b.kv. Anna

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 15.1.2011 kl. 20:50

8 Smámynd: Elle_

Já, nú er það stóra spurningin hvað hangir á spýtunni.  Getur maður annars nokkurn tíma treyst nokkrum manni sem hefur nokkru sinni sagt JÁ við hættulegri fjárkúgun gegn eigin þjóð og á samt að vera að vinna við að verja þá sömu þjóð og er kostuð af sömu þjóð?  Og Ólína stóð í alþingi þann 30. desember, 09 og sagðist stolt taka ábyrgð og meinti þar fjárkúgun erlendra velda gegn okkur. 

Elle_, 15.1.2011 kl. 23:19

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Elle, ég get ekki gert að því að mér finnst Ólína ekki trúverðug, en sjónarmið hennar má ræða.  Sérstaklega af fólki sem maður veit að talar að sannfæringu, og vill sjá hin ólíku sjónarmið málsins.

En fyrir mig þá virkar þetta alltaf sem vinsældarpólitík hjá Samfylkingunni, sem hún meinar í raun ekkert með.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.1.2011 kl. 23:47

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir ykkar góðu innslög, Jón og Anna.

Það var viss púki í mér þegar ég sló inn pistli mínum, en það gleður mig að fá faglega og fjölbreytta umræðu í kjölfar hans.

Ég held að það verði seint borið á móti því að kvótakerfið hefur sína kosti og galla.  Fisk má ekki veiða óheftan, og veiðar þurfa að vera arðbærar.  

En núverandi kerfi er lénskerfi, og það er alltaf af hinu illa.

Og þegar framsal bættist við, þá urðu veiðar aukaatriðið, braskið varð hreyfiafl kvótaviðskiptanna.  Með mjög sorglegum afleiðingum, það er allflest á hausnum og skuldirnar gífurlegar.

Og lítið samfélag má aldrei líða að menn fari með milljarða með sér út úr greininni, við erum ekki vanþróuð bananaþjóð sem hefur alist upp við misrétti og órétti.  

Litla byggðarlagið Eskifjörður hefur séð hátt í 5 milljarða fara út úr fyrirtækinu, í hóglífi og sukk í London.  

Ef þetta er kapítalismi, þá er ég kommúnisti.

Aðeins mannleysur sætta sig við svona kerfi.  Og það kemur fiskveiðastjórnun ekkert við.

Hvað þá góðum og gegnum útgerðarmönnum, þeir hverfa í haf braskarana.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.1.2011 kl. 23:53

11 identicon

Anna Sigríður, ef þetta er með ríka og fátæka er skoðun þín þá ættirðu kannski að dusta rykið af gömlu hagfræðibókunum sem þú last í skóla í gamladaga.

Björn (IP-tala skráð) 15.1.2011 kl. 23:56

12 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég er alveg sammála þér með það Ómar, að kvótabraskið og það að menn gátu grætt óhemjufé á því að selja óveiddan fisk, það er ekki hægt að réttlæta það á nokkurn hátt.

Á Eskifirði bjó maður sem ég hef lesið um, en kynntist aldrei. Það var Aðalsteinn Jónsson, maður sem vann sig upp af engu, þú þekkir hans sögu eflaust betur en ég.

Það má segja að núverandi kerfi geri slíkum mönnum erfiðara fyrir að gera sömu hluti í dag.

En ég á líka vont með að sætta mig við það, að heimildir séu teknar af mönnum sem hafa rekið útgerð á fiskveiðum, þeir eru líka til og þeir sem hafa þurft að draga saman seglin vegna samdráttar en fá ekki að njóta þess þegar betur árar.

Þetta eru sannarlega í eðli sínu flókin mál og erfitt að finna sanngjarna lausn sem öllum líkar.

Það þarf að vanda sig virkilega í þessu máli og vinna af fagmennsku en ekki blanda tilfinningum í þau.

Jón Ríkharðsson, 16.1.2011 kl. 00:10

13 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Anna Sigríður beindi til mín spurningu sem ég sá rétt í þessu, mér er skylt að reyna að svara henni.

Hvorki hef ég trú á að þú sért heimsk kona og þaðan af síður fáfróð, án þess að ég þekki þig nokkuð.

Það er ekkert óeðlilegt við það að hugsa eins og þú gerir, hugsun þín ber vott um sterka og ríka réttlætiskennd, sem er mjög gott.

En heimurinn er í eðli sínu ekkert sérstaklega réttlátur, en það má með góðum vilja láta sér líða nokkuð vel í honum.

Því miður er það ekki endilega svo, að þótt hinum ríku fækki, þá fækki hinum fátæku. Hinum fátæku getur fjölgað vegna þess að verðmætasköpun er jú lykill allra hagsælda.

Þeir sem eru hugmyndaríkir og duglegir að framkvæma það sem þeir hugsa, þeim langar oftast til að græða vel á sínum hugmyndum, það er eðlilegt og raunverulega hvorki gott né vont, um það má endalaust deila.

Athafnamönnum þykir ekkert sérstaklega gaman að borga meira en þeir þurfa, hvort sem það er fyrir vinnuafl eða eitthvað annað.

Án athafnamanna, þótt þeir séu upp til hópa ansi frekir til fjárins, enda skapa þeir jarðveginn fyrir verðmætin, án þeirra væri heimurinn því miður fátækur bæði og snauður.

Jón Ríkharðsson, 16.1.2011 kl. 00:19

14 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Anna, til biðbótar svari Jóns Ríkharðssonar bendi ég þér á að þau sem þú hvetur til ´verka í þessu ætlaða réttlætismáli þá eru það akkúrat þau tvö sem komu kvótakerfinu á þegar þau voru saman í ríkisstjórn Jóhanna frá Alþýðuflokknum, Steingrímur frá Alþýðubandalaginu ásamt fólki úr Framsókn. Ég er sjálfstæðismaður, sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði gegn frumvarpinu, en mér sýnist það hafa virkað ágætlega sem fiskveiðistjórnunartæki. Ef veitt væri stjórnlaust myndi fiskurinn verða ofveiddur og arðsemi í greininni hverfa. Með þessu móti er ávallt þeir sem eru best til þess fallnir að veiða að afla fiskinn. Þeir sem ekki standa sig verða þá að hrökklast burt. Hitt er annað að vissulega má deila um aflahámarkið þ.e. hvað sé óhætt að veiða.

Mér finnst að stórfurðulegt sé þegar fólk er að benda á þessi tvö skötuhjú sem framverði andstæðinga kvótakerfisins í eðli sögunnar.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 16.1.2011 kl. 09:27

15 identicon

Her koma fram godar og gegnar abendingar i badar attir, med og a moti kvotakerfinu. Jon hefur rett fyrir ser med framsalid, tad hljota allir ad sja ad tad verdur ad vera einhver hreyfanleiki i kerfinu. Aftur a moti var framsalid sett a til ad utgerdir gætu hagrætt veidum og vinnslu, ekki til ad hægt væri ad braska med kvotann.

Er tessvegna ekki einfaldast ad hafa obreyttar uthlutunarreglur i kvotanum, en setja aftur a moti høftin i framsalid tannig ad utgerdum se heimilt ad skipta a tegundum sin a milli, an greidslu, en ef tu ekki ætlar (eda getur) ad veida kvotann tinn, ta skal skila honum til rikisins. Med tessu moti er hreyfanleikinn til stadar, utgerdir halda tvi sem tær hafa keypt, ef kvotin eykst ta eykst hann hja teim sem eru ad nyta hann, rikid fær tad til sin sem adrir geta ekki nytt.

Tannig ættum vid ad losna vid braskarana ur kerfinu en tryggja tad ad utgerdin heldu sinu og getur gert sinar aætlanir.

Tegar rikid hefur eitthvad af kvota ta finnst mer ad tad eigi ad leigja tær ut til nylidunar i greinninni. Leigutekjum a ad skipta a milli Landhelgisgæslunnar, Hafro og Slysavarnarfelagsins (sem rekur bjørgunarbatanna).

Allur afli a sidan ad fara a markad.

Godar stundir.

Larus (IP-tala skráð) 16.1.2011 kl. 18:41

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Björn.

Það sem þú ráðleggur Önnu er einmitt það sem var gert á neyðafundi í Hvíta húsinu í lok sept 2008, dustað rykið af gömlu hagfræðibókum, í ofsahræðslukasti þá þorði frjálshyggjuhirðin í kringum Bush öðru en að grípa til fræða Keynes.

Og hvernig sem menn reyna að snúa sér út úr því, þá hefur sú hagfræðistefna sem hefur ríkt síðustu 3 áratugina, gert áður auðugar þjóðir Vesturlanda, gjaldþrota.  Það er ekki bara almannasjóðir sem standa illa, almenningur er víða ofurskuldsettur, áður arðvænleg fyrirtæki standa höllum fæti vegna skuldsettra yfirtöku og sameininga.

Það mætti halda að Mugabe hefði slegið tóninn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.1.2011 kl. 18:43

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón,

"Þetta eru sannarlega í eðli sínu flókin mál og erfitt að finna sanngjarna lausn sem öllum líkar."

Segir allt sem segja þarf, leiðréttingar á augljósum göllum, mega ekki fela í sér nýjan vanda, annars eðlis.

En hin meinta hagræðing sem samþjöppunin  var talin skila, réðist ekki baun í bala af hagkvæmum rekstri, heldur aðgangi að fjármagni.  Og síðan gat hvað skussi sem er grætt, á meðan leiguliðar sáu um að fiska kvótann.

En það er engin lausn, þó virðist falleg við fyrstu sýn, að innkalla aflaheimildir, ekki nema skuldir komi með á móti.  Og eftir hvaða kerfi ætla menn að úthluta???  Með ríkisuppboði, þá fyrst eru menn komnir i öskuna.

Enda dæmigerð 101 lausn.

Ég persónulega fannst alltaf Einar Oddur hafa víðasta skilninginn, en vit hans var of mikið, þess vegna var ekki á hann hlustað..

Svona eitt af lokum, þó mér komi það ekki við þar sem þú ert að spjalla við Önnu.  En það er hagsögulega rétt að fækkun ríkra fækki fátæklingum.  Út á þetta gekk ameríski draumurinn. 

Samanþjöppun auðs er sama meinsemdin og ríkiskommúnismi Stalíns, eða vegvísir til andskotans.  Enda markmiðið það sama, að stela frá almenningi og hneppa hann í fátækt.

Heilbrigður rekstur á heilbrigðum samkeppnismarkaði er leiðin, og þetta skyldu gömlu mennirnir í Bandaríkjunum, þeir lærðu af stóru kreppunni, hvað 1904 eða 1908, ég man það ekki alveg, nenni ekki að fletta því upp, að leysa upp monopoli, og setja samkeppnisreglur sem hindruðu samþjöppun.

Enda var fyrsta verk auðmanna í tíð Regans og Bush að siga leiguþý sínu á þær reglur.

Auðmenn þekkja sína óvini.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.1.2011 kl. 18:56

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið Adda og Lárus.

Innslagið hjá Jóni var gott, og hann ætti að útfæra pistil um það á blogginu sínu,.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.1.2011 kl. 18:58

19 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ómar, ég get alveg fallist á þína röksemd varðandi fækkun ríkra, að vissu leiti.

Það á ekki að vera þannig, að nokkur maður geti sölsað undir sig markaðinn eins og gerðist í tilfelli Bónusfeðga. Það þurfa allir að hafa jöfn tækifæri til að græða.

Einnig sagði einhver frjálshyggju spekingur það, að ef frjálshyggja og kapítalismi virkaði rétt, þá yrði enginn ofsaríkur og ekki heldur mjög fátækur.

Þá eru fleiri að keppa á markaðnum.

Það er alltaf mjög upplýsandi að eiga svona góðar rökræður og allt of sjaldgæft hér í bloggheimum.

Ég viðurkenni það fúslega að hugsunin sem ég setti fram í svarinu til Önnu Sigríðar var ekki nógu vel fram sett, en andsvar þitt náði að víkka huga minn örlítið.

Svona eiga rökræður að vera, við eigum að læra hvert af öðru og menn eiga ávallt að vera tilbúnir til að breyta um skoðun, eða endurbæta hana væri réttara að segja.

Jón Ríkharðsson, 16.1.2011 kl. 20:59

20 Smámynd: Ómar Geirsson

Vonandi kemur sá dagur að menn taki aftur upp á að ræða landsins gagn og nauðsynjar, án þess að skekja hin breiðu spjót.

Ég persónulega tel að auðmenn hafi notað frjálshyggjuna til að ræna kapítalismann, enda flest fórnarlömb hennar á Vesturlöndum, millistéttarfólk og smá og meðal stórir atvinnurekendur.

Hinsvegar veitti ekki að því að hrista upp í reglugerðaráráttunni, sem var allt að kæfa.  Sá mæti maður Kári Willoch skar að mig minnir eitt núll af fjöldanum í Noregi þegar hann komst til valda.  Hann var síðan einn harðasti gagnrýnandi græðgivæðingarinnar þar í landi.

Eftir því sem ég eldist met ég alltaf meir og meir kristilega íhaldsmenn, og sögu þeirra, enda hafa þeir alltaf verið höfuðandstæðingar þeirra frjálshyggju sem segir að allt sé leyfilegt, nema það sem drepur fólk beint.

En kosturinn við þessa atlögu að þjóðinni, sem hófst með ICEsave, er að ég er miklu umburðarlyndari gagnvart frjálshyggjustrákunum, enda þeir traustir stuðningsmenn þjóðarinnar gagnvart þeirri fjárkúgun, og merkilegt nokk, líka gegn AGS.  Hef lagt miklu meira eftir því að hlusta, og skilja hvað þeir meina.

Og hef komist af þeirri niðurstöðu, að ef þeir væru ekki svona barnalegir (sem felst aðallega í að þeir hafa ekki fattað til hvers ríkisvald er) og að þeir áttuðu sig á því hvernig auðræningjar misnotuðu þá líkt og smábörn væru, þá væru þeir hreint ágætir.

Því ekkert þjóðfélag þrífst í höftum, velmegun vex aðeins upp úr frjórri mold heilbrigðs reksturs, í heilbrigðri samkeppni.  Ásamt fullri virðingu fyrir mennsku og manngildi.

Takk fyrir spjallið Jón.

Og ég ítreka að þú ættir að setja hugleiðingar þínar um kvótann á blað á bloggi þínu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.1.2011 kl. 23:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 2023
  • Frá upphafi: 1412722

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1776
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband