Grein fyrir meinta fávita.

 

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur skrifaði pistil í dag í Fréttablaðið þar sem hann setur ný viðmið um gáfnafar ICEsaveborgunarsinna og trúgirni.  Tilvísun í greinina má lesa á vef Evrópuvaktarinnar, trúarhóps um gildi evru og Mastricht.

 

Fyrri hluti greinarinnar er svona a-la háð í anda Guðmundar gegn öllum þeim sem fara í taugarnar á þeim sem borga honum kaup fyrir þessi pistlaskrif sín.  Samskonar spé og spott dundi á þessu fólki í aðdraganda ICEsave svikanna hinna fyrri, háð sem Guðmundur hefur haft manndóm til að biðjast afsökunar á.  Sagðist hafa verið trúgjarnt fífl sem hefði næstum því stuðlað að óbærilegum skuldaþrældóm þjóðar sinnar.

Þó ég sé ekki forspár, þá ætla ég að spá að Guðmundur muni biðja viðkomandi líka afsökunar á þessari grein sinni, eins og öllum ICEsave svikagreinum sínum.

 

En seinni hluti greinar Guðmundar lýsir þvílíku dómgreindarleysi að það hálfa væri nóg.  Hann, þokkalega ritfær rithöfundur, ætlar að kenna snarpasta hagfræðing landsins hagfræði.  Og tilefnið er rökstudd gagnrýni Lilju Mósesdóttur á orðagjálfur Dags B. Eggertssonar, læknis sem kallast Sóknaráætlun Íslands.

 

Áður en lengra er haldið þá er gott að rifja upp orð Lilju úr varnarplaggi hennar sem hún sendi frá sér þann 5. síðastliðinn, þar sem hún flengdi greyið hann Árna Þór, valdamann.

 

"Litlar líkur eru á að spá um vöxt í einkaneyslu á árinu 2011 muni ganga eftir ef áætlun um niðurskurð ríkisútgjalda á næsta ári verður framfylgt. Niðurskurður ríkisútgjalda mun auka samdráttartilhneiginguna í hagkerfinu enn frekar sem síðan leiðir til þess að skera þarf enn meira niður á árinu 2012 en nú er gert ráð fyrir. Það er því ekki verið að treysta ríkisfjármálin á sjálfbærum grunni eins og flokksráðsfundur VG í nóvember sl. lagði áherslu á.

Við töldum nauðsynlegt að bregðast við versandi efnahagshorfum með umtalsvert minni niðurskurði en gert var ráð fyrir milli annarrar og þriðju umræðu um fjarlagafrumvarpið. Ríkissjóður tæki þá að sér hlutverk atvinnurekenda og kaupanda vöru og þjónustu til þrautavarar til að koma í veg fyrir að efnahagslífið festist i vítahring vaxandi atvinnuleysis og minnkandi eftirspurnar og fjárfestinga (sbr. kreppuna miklu). Mikill samfélagslegur kostnaður hlýst af því að halda hagkerfinu undir framleiðslugetu, þar sem ónýttur mannauður, vélar, tæki og húsnæði fara forgörðum. ".

 

Þegar svo orðagjálfur Dags var kynnt, þá kom Lilja á framfæri þeim sjónarmiðum sínum að sá niðurskurður ríkisútgjalda sem nauðsynlegur yrði til að ná Mastricht kröfum ESB, væri bein ávísun á EFTIRSPURNARKREPPU sem enginn sæi fyrir endann á.  

 

Lilja vitnar í harmsögu kreppunnar miklu þar sem þurfti styrjöld til að ná heimshagkerfinu úr rúmlega áratugaeftirspurnarkreppu.  En hún hefði getað tekið dæmi um verri EFTIRSPURNARKREPPUR, hagsagan þekkir mun fleiri dæmi um stöðnun eða samdrátt en um vöxt og uppgang. 

Miðaldakreppan í Evrópu varði til dæmis frá því um 500 til um 1500, eða þar til fundur Ameríku og góðmálmastreymi þaðan skapaði eftirspurn sem lagði grunn að nútíma Evrópu.

 

EFTIRSPURNARKREPPA er  grafalvarlegt mál sem aðeins fífl hafa í flimtingum.  Og hún er raunhæf og blasir við íslensku þjóðinni á næstu misserum.

 

Eins varar Lilja við þeirri SKULDAKREPPU sem samningurinn við AGS hafði í för með sér.   Þegar hún fjallar um Velferð fjármagnseiganda segir hún þetta.

 

"Við teljum að ástæða þess að AGS leggur áherslu á jákvæðan frumjöfnuð strax á næsta ári án þess að til komi nýir skattstofnar, þrátt fyrir versnandi efnahagshorfur, sé að tryggja greiðslugetu ríkissjóðs vegna greiðslu Icesave-skuldbindingarinnar. Í lok árs 2008 samþykkti ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tvö skilyrði fyrir lánveitingu frá AGS og „vinaþjóðum“. Fyrra skilyrðið var að innleiða efnahagsáætlun AGS en það þýddi í raun fullveldisafsal í efnahagsmálum. Allar ákvarðanir sem viðkoma ríkisfjármálum, peninga- og gengismálum og endurreisn bankakerfisins hefur því þurft að bera undir sjóðinn áður en þær koma til kasta ríkisstjórnarinnar og þingsins. Seinna skilyrðið fól í sér skuldbindingu til að leysa ágreining um Icesave („demonstrate commitment to solve the dispute around Icesave“).

Von margra um að AGS myndi aðstoða ríkisstjórnina við að koma í veg fyrir að þungum byrðum yrði velt yfir á skattgreiðendur var því ekkert annað en óskhyggja frá upphafi. Sjóðurinn hefur margoft sýnt í verki að hann stendur fyrst og fremst vörð um hagsmuni fjármagnseigenda. Dæmi um slíka hagsmunagæslu hér á landi er andstaða sjóðsins við skattlagningu útstreymis fjármagns til að tryggja gengisstöðuleika og við almenna skuldaleiðréttingu til að rétta hlut skuldsettra einstaklinga sem tóku á sig gengishrun og verðbólguskot ásamt því að fjármagna fulla innistæðutryggingu fjármagnseigenda".

 

Þjóð sem upplifir samtímis bæði EFTIRSPURNARKREPPU og SKULDAKREPPU er þjóð án framtíðar.  Eitthvað sem allt vitiborið fólk áttar sig á.

 

Og gegn þessu rökum Lilju teflir Guðmundur Andri fram orðagjálfri og staðhæfingum.  Mæli með grein hans sem skemmtilestrarefni, en þar má finna gullkorn eins og þessi.

 

"Þetta er í fimmtán liðum og ekki hér ráðrúm til að rekja öll þau framfaramál sem Lilja hefur hrakist út í að andæfa, en má þó nefna að lækka hlutfall atvinnulausra niður fyrir 3%; auka jöfnuð, vellíðan og góða andlega heilsu; … og þannig mætti áfram telja.

Nema það séu áform um lækkun vaxta, skulda ríkisins og verðbólgu sem valda andstöðu hennar. Að hún vilji sem sem sé hækkun vaxta, aukna skuldasöfnun og meiri verðbólgu - minni nýsköpun, meiri mengun, minni menntun, meira atvinnuleysi…"

 

Fyrir þá sem ekki þekkja hina beinu samsvörun áróðurstækninnar, að tefla fram staðhæfingum gegn staðreyndum, þá þekkir Guðmundur eins og aðrir vinstrimenn, þá tækni sem yfirvöld í Norður Kóreu beittu til að bæta ímynd sína á níunda áratug síðustu aldar.

Þegar hungursneyðin mikla var komin með yfir 2 milljónir fórnarlamba, þá var gripið til markvissra aðgerða. Útbúin var sóknaráætlun til 5 ára (arfleið frá Sovétríkjunum sálugu) þar sem matvælaframleiðslan var aukin með markvissum aðgerðum.  Flokksfulltrúar voru t.d sendir út á akrana og látnir lesa úr ræðum Kim ll Sungum yfir veikburða rísplöntum, en slíkt var sagt virka mun betur en áburður.  Og síðan var árangurinn kynntur fyrir alheimi, mikil hersýning var haldin, og í kjölfar grannra hermanna (þeir fengu lágmarks matarskammt) komu bústnir bændur, reyndar kinnfiskasognir, en bústnir á skrokkinn.  Þökk sé fuglahræðunni frá Oz, hálmaðferð hennar virkar mjög vel til að móta bústið fólk, ef það á annað borð getur staðið í lappirnar.

Og þar með sönnuðu stjórnvöld í Norður Kóreu að orð geta sigrast á öllum vanda.

 

Og þeir félagar Guðmundur Andri og Dagur Bé ætla að nota sömu aðferð á Lilju, að leggja rök hennar með fögrum orðum.

Það sem slíkt er samt ekki tilefni fyrirsagnar þessarar greinar, gott spé er alltaf gott spé, og sá sem er trúgjarn, hann má trúa.

En þessi setning; "markmið fyrir árið 2020 - sem Lilja segir vera „kreppudýpkandi" en helsta mótbára Lilja við þessa áætlun virðist þó sú að hún samrýmist skilyrðum sem kennd eru við Maastricht og ber að uppfylla til að taka upp evru og taka þátt í myntbandalagi Evrópu".

 

Myntbandalag Evrópu!!!!!!, í dag finnst ekki veðbanki sem tekur veðmáli um hvort það lifi af fall Spánar, Portúgals og Belgíu, Frakkar munu skera það áður en röðin kemur að þeim.

Það eina sem veðbankar vilja veðja um, er hve lengi þetta fallna myntbandalag lifi enn áður andlát þess verði tilkynnt.

Að vega að Lilju með þessum rökum, það krefst meira en ýtrustu trúgirni, það krefst gáfnafar fávitans.

 

Og þeir virðast vera  sorglega margir í röðum ICEsaveborgunarfólks.

Kveðja að austan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður að vanda já og gleðilegt ár með þökk fyrir gamalt og gott hér á blogginu.

 En hvað segir þú um þær fréttir sem heyrst hafa að kínverjar ætli að "bjarga" evrunni,  hefur þú eitthvað skoðað það?

(IP-tala skráð) 10.1.2011 kl. 20:17

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Gott kvöld og gleðilegt ár! Til ykkar á Austurlandi.   Þau bráðnuðu gullkornin í bræði minni.   Akkurat það sem blasir við hjá flestum Íslendingum,innibyrgð bræði. Varð áþreyfanlega vör við það í dag,en þori ekki að hafa það eftir,sem bálreið manneskja hafði um þessi stjórnvöld,sem hún kaus.

Helga Kristjánsdóttir, 10.1.2011 kl. 21:09

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Sigurlaug, og sömuleiðis, gleðilegt ár.

Nei, ég hef ekki sérstaklega kynnt mér það, það bjargar enginn mannlegur máttur Evrunni, Kínverjarnir eiga nóg af verðlitlum dollurum, og eru að leita í aðra, enn verðminni mynt.  Það er ef tímalínan er skoðuð.

En hrun í Kína er handan við hornið, þeir væru farnir ef ekki væri einræðisstjórn í landinu, hún nær lengi að fela.  Þeir hafa þanið sig langt fram úr eðlilegum vexti, og eru á því stigi, eins og við vorum i ársbyrjun 2008, allt sem þeir gera innanlands, miðast við það eitt að fela vandann.  

En ónotuð steinsteypa, öll út á krít, hún fellur yfir hagkerfi.

Ef ástandið væri eðlilegt í Kína, þá þyldu þeir það vel, en það er ekkert eðlilegt þar.  

Misskiptingin er gífurleg, alltof stór hluti þjóðarinnar býr við algjöra fátækt.  Sem er svo sem ekki neitt nýtt.

En bætist það við að öll andstaða er bæld niður með valdi, að gífurleg spilling ríkir, sem bitnar hart á almenningi, þá er ástandið eldfimt.

Og það sem kveikir í, er barneignastefna þeirra, þeir eiga of mikið af konulausum körlum.

Og það er neisti sem leitar að púðurtunnu, því þeir sem fá það ekki, þeir leggja allt í sölurnar, til að fá það.  Mannlegt eðli sem verður aldrei hamið.

Ég óttast borgarstyrjöld, teikn sem hafa áður leitt til slíks ástands, eru komin fram.  Það eina sem vantar, er leiðtoginn.  Og þá, þá mun kommúnistaflokkurinn falla, en hvað margir tugir eða hundruð milljóna falla í leiðinni, um slíkt er vandi að spá.

Og sagan þarf ekki að endurtaka sig, þó hún hafi tilhneigingu til þess.

Til dæmis gæti eitt gerst sem gæti bjargað evrunni, hefur aldrei gerst áður, en gæti samt gerst.  Og það er að öll spákaupmennska sé bönnuð á meðan menn endurskipuleggja fjárhag evruríkja.  Í dag er mesti gróðinn að veðja á fall hennar, og þar sem er gull, þar eru gullgrafarar.  Sem ekkert fær stöðvað, ekki einu sinni Kínverjar.  

Jafnvel þó evrópsk stjórnvöld kysu að bjarga sínu eigin skinni, með því að gerast hjánýlendur Kínverja, þá myndu ítök spákaupmanna aldrei leyfa það.

En sagan kennir að neyð framkallar oft styrka stjórn, og það er ekki hægt að útiloka slíkt í Evrópu, en hún er hvergi sýnileg, ekki í dag.  Og það er ekki nóg að vera styrkur, ef stefnan byggist á afneitun staðreynda.

Eitthvað sem hrjáir sterkasta manninn á þingi í dag, Steingrím Joð.  

Það þarf að fara saman styrkur, rétt stöðumat, og vilji til að framkvæma rétta hluti út frá því stöðumati.  Eitthvað sem Lilja Mósesdóttir er að leggja til hjá okkur, en skortir styrk og stuðning til að fylgja eftir.  

Sama þarf að eiga sér stað í Evrópu, en þar vantar allavega stöðumatið.  Það er frámunalega barnalegt að halda að almenningur rísi ekki upp þegar skuldir auðmanna og fjármálafyrirtækja eyðileggja allt það sem hefur verið viðtekið í áratugi, menntun, heilsugæslu, velferð.

Samt ætla hinu sterku Þjóðverja að reyna það án þess að hafa nokkuð hervald til að fylgja því eftir.

Jæja, er einn einu sinni kominn út um víðan völl, það eru svo margir fletir á þessari spurningu þinni Sigurlaug.

Og tíminn mun svara.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 10.1.2011 kl. 21:25

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk sömuleiðis Helga.

Bræði er hreyfiafl, til góðs eða ills, fer eftir þeim farvegi sem hún fær útrás í.

En lognmollan er ávísun á skuldaþrældóm og kúgun.

Finn hana bæði gagnvart ICEsave og skuldasvikunum gagnvart heimilunum.  Það þýðir til dæmis ekkert að blogga um skuldavanda heimilanna, slíkt er aðeins gól út í tómið.  

En undiraldan er þung, vonandi nær hún til að brotna í tíma.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.1.2011 kl. 22:02

5 Smámynd: Skeggi Skaftason

Þessi pistill þinn er gott dæmi um íslenska orðræðu dagsins. Mér finnst þetta fínn pistill hjá Guðmundi Andra. Er ég þá fáviti?

Eru allir sem eru ósammála þér fávitar? Finnst þér það uppbyggileg umræða, að stimpla alla þá sem eru ósamála þér sem fávitar? Heldurðu að þú getir þannig sannfært þá um að þinn málstaður sé betri en þeirra? Ert þú ekki bara sjálfur fáviti? (Eru ekki allir utan af landi fávitar? Finndist þér slík fullyrðing góð leið til að byrja umræðu um byggðamál??)

Eru Sjálfstæðismenn annars sammála Lilju um að það ætti að reka ríkissjóð með meiri halla?

Ertu ósammála því að það sé gott að stefna á stöðugt peningakerfi - sem er ekki bara forsenda sem þarf að uppfylla Maastricht skilyrði heldur LÍKA mjög gott fyrir efnahaglegt heilbrigði, hvort sem við kjósum að fara inn í ESB eða ekki.

Skeggi Skaftason, 10.1.2011 kl. 23:10

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Skeggi, ef þér finnst hann fínn, þá ertu í markhópnum, og lítið annað um það að segja.

Og þú skilur greinilega ekki bofs í því sem Lilja er að reyna segja ykkur stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar..  

Og það er þitt vandamál, Lilja hefur fræðin með sér.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.1.2011 kl. 00:00

7 Smámynd: Elle_

Og eins og Guðmundur Andri vildi ofanverður Skaftason líka ICESAVE kúgunina yfir okkur og barðist af hörku fyrir nauðunginni.  Hvaða skrattans máli skiptir það þó Ómar noti orðið ljót orð yfir ICESAVE glæpamenn og hina sem vilja ræna alþýðu landsins??  Veit ekki um nein midl og væg orð yfir kúgara og stjórþjófa.

Elle_, 11.1.2011 kl. 00:17

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Elle.

Ég nota ekki ljót orð.

Þeir sem nota fávisku sér til afsökunar við að gera þessa þjóð gjaldþrota, þeir eru jú fávitar.

Svona ef maður vill vera jákvæður.

Grein Guðmundar er bull út í eitt, og ég rökstyð það.

Og þó evrutal sé 2007 eitthvað, þá afsakar það ekki þessa menn að vita ekki hvað er að gerast í Evrópu i dag.

Portúgal og Spánn eru að falla, Belgía kemur svo í humátt.  Síðan er stutt í Frakkland, og menn tala um Matricht skilyrði.

Þó menn séu það vitlausir að skilja ekki hvað Eftirspurnarkreppa þýðir, hvað þá að menn þekki ekki orsakir hennar, þá þarf meira en afdalabúa til að þekkja ekki til evrukreppunnar.

En það er ljótt að hía á fávita, en þegar þeir nota fávisku sína sem skálkaskjól til glæpaverka, þá á að segja satt um þetta fólk.

Kurteisi gildir ekki um þá sem vilja öðrum illt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.1.2011 kl. 01:04

9 Smámynd: Júlíus Björnsson

Fyrst er kaupmáttur  100  ein til neyslu og nauðsynja almennings [sem skammtar sér ekki tekjur sjálfur] af stjórnsýslu   skertur niður í 60. ein.

Síðan þykir það krataverk eftir 3 ár að 60 ein. hækka í 60,6 ein. sem samsvarar einu prósenti í hækkun á ári. 2041 verða fáir eftir til að svindla á.

1999 þegar íbúðlánasjóður tók við þá var líka hætt að bjóða upp á verðtryggð jafngreiðlulán og tekin upp það sem líkist 5 ára negalánum erlendis, nema á þessu lánum er sveiflan upp frá 25 árum til 45.

Til dæmis  er 50.744 jafngreiðsla  af 10.000 láni hjá íbúðlánsjóði.

Verðbólga eftir 30 ár í verðbólgu eins og USA er um 96% og Hollandi um 40% miðað við síðustu 30 ár.

Setjum verðbólgu forsendu 3,2% inn hjá íbúðalánsjóð.  Þá verður jafngreiðslan 130.430 kr.  Eða 257 % hærri en jafna greiðslan.

3,2% verðbólga á ári er 96 % á 30 árum.  Þannig að raunvirði af fölsku greiðslunni í dag er : 130.430/1,96= 66.646.

66.645/50.744 gefur 31% raun hækkun á loka greiðslu. [of vertrygging]

Hvernig getur þetta verið betra fyrir lántaka í heildina litið en verðtyggðu jafgreiðslufrnar fyrir daga íbúlánsjóðs? 

Það er ekkert leyndar mál að Íbúðalánsjóður endurfjámagnir sig með negam lánum sem eiga að skila meir rauntekjum ef verðbólga verður meiri. Hinsvegar er almeningur hér hvorki vildarvinur eða byggingaverktaki.

Þessi ólöglegu til lengri tíma en 5 ár lán erlendis negam með teaser intrest takmarkast við lán þar sem vantar til að byrja með fyrir útborgun og lengra lán í framhaldi.

 Hinsveaga fellur það undir fjármálafals að kalla þau jafngreiðslu CPI indexed = vertrygði við við neyslu vístölu.   

Hvervegna gildir ekki sami skilningur hér um þessi lán og erlendis?

http://www.ils.is/index.aspx?GroupId=975

Ósjálfstæði gagnvart ICESAVE og fleirum má líkja við þegar ég var settur í hópverkefni með nokkrum tossum: sem þykja samt greindir af fullt af liði.   

Það eru engar greindarkröfur gerðar hér fyrir langskólanám.

Hér er það ekki verðtrygging með til til almenns verðlags sem er vandamálið heldur lánafalsið gagnvart almenningi á Íslandi. 

Þess vegna þegar ég heyri lið mótmæla verðtryggingu þá veit ég að það hefur ekki vit á fjármálum.

Það á mótmæla verðtryggingar falsinu.

Bjóða upp á hrein langtíma jafngreiðslu lán þar sem stærstu hluti verðbóta vaxta er innfalinn í fyrstu greiðslum og greiðslu byrði léttist á móti ef það verður verðbólga.

Júlíus Björnsson, 11.1.2011 kl. 03:24

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hvaða miðaldakreppa? Heldurðu að Norðurlönd, til dæmis, Þýzkaland eða Rússland hafi ekki verið langtum þróaðri árið 1400 en 500?

Þetta er eflaust spennandi grein hjá þér, en undarlegt nokk hef ég ekki tímann til að lesa allan þennan texta í nótt! – svo að það bíður dags, minn kæri.

Jón Valur Jensson, 11.1.2011 kl. 04:06

11 identicon

Helsta raunverulega ástæða fátæktar fátækustu ríkja heims er skuldir við gömlu nýlenduherrana sem nú herja á okkur. Þetta veit allt þokkalega vel lesið fólk. Ef Ísland fer vel út úr sínum málum hefur það á endanum áhrif á stöðu allra fátækustu þjóða heims, með fordæmisgildi og eftir ýmsum leiðum. Þetta veit allt sæmilega vel gefið fólk. Þess vegna eru bara tvær mögulegar ástæður fyrir því að þokkalega vel lesin og sæmilega greind manneskja, og nú býst ég við Guðmundur Andri tilheyri báðum þessum hópum, vilji borga Icesave, og það er 1) Siðleysi, viðkomandi er einfaldlega sama um örlög þessa fólks, og lætur ímyndaða skammtímahagsmuni ganga fyrir framtíðar öryggi heimsbyggðarinnar... 2) Geðsýki. Geðsýki er algengari en menn halda, hún getur jafnvel orðið landlæg og almenn, því þjóðfélög geta orðið geðsjúk rétt eins og einstaklingar. Manneskja sem endilega vill borga Icesave, hvað sem á dynur, hvað þá ef hún byrjar að kvabba um "siðferðilega skyldu okkar" (til að blæða fyrir "illu bankamennina") er haldin af velþekktum og stóralvarlegum sjúkdómi sem kallast Stockholms Syndrome. Hann hefur alltaf verið til og herjað á valdaminni hópa þegar valdameiri hópar ráðast gegn þeim, eins og gerðist í tilfelli okkar með Icesave af nýlendunum gömlu, helstu óvinum mannkynsins, sem hafa lengi herjað á okkur og munu aldrei ljúka sínu þorskastríði gegn okkur (í lífinu eru tveir valkostir, að vaka og berjast, eða gefast upp og deyja...friður er ekki til, friður er aðeins siðsamlegri útgáfa af stríði, en frelsið kostar mann alltaf áverkni og athafnir, annars glatast það...) Þessi sjúkdómur hefur alltaf verið til, en hlaut nafn sitt í annarri heimstyrjöldinni, þegar fjöldi gyðinga veiktist af honum í útrýmingarbúðum, og fannst kvalir sínar í fangabúðunum vera orðnar sjálfsagt mál, þau væru jú bara júðar og mögulega fjarskyld einhverjum óvinsælum bankamanni, svo það mætti bara berja þau að vild.........Í nákvæmlega þessum sporum eru Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur, Guðmundur Andri og allir hinir jarmandi sauðirnir sem dansa eftir tóni dauðans. Þetta er fárveikt fólk sem þjáist af sjálfshatri og kann ekki fótum sínum forráð. Það versta er að veikindi þeirra hafa ekki bara slæm áhrif á afkomendur þeirra, og alla landa þeirra, heldur enn fremur, og mun meiri og meira langvarandi, slæm áhrif á fátæktasta fólk þessa heims. Með því að þykjast bera siðferðileg skylda til að borga fyrir misgjörðir nokkurra bankamanna, þá eru þau um leið að lýsa blessun sinni yfir að barnabarnabarnabarnabörn út um alla Afríku og víðar séu enn að borga nýlenduherrunum fyrir meintar misgjörðir forfeðra þeirra, og grafa dýpra sína eigin gröf, með hverri krónu sem þau borga, því það fangelsi sem allra erfiðast er að losna úr heitir skuldafangelsi, og er algengasta leiðin til að hneppa mann í þrældóm fyrr og síðar...Icesave dýrkendur eru því í raun að fremja glæp gegn mannkyninu, en hafa það sér til málsbóta að þetta er fársjúkt fólk, og það ætti að líta á þau sem slík og fá þeim störf við hæfi í vernduðu umhverfi og koma þeim úr valdastöðum svo veikindi þeirra skaði mannkyn allt og framtíðina sem minnst...

The Truth. The Whole Truth. Nothing but The Truth. (IP-tala skráð) 11.1.2011 kl. 04:23

12 Smámynd: Óskar Þorkelsson

það er bara þannig að allir sem ekki eru algerlega á línu Ómars eru fávitar og fífl :).. svona er það bara .

Óskar Þorkelsson, 11.1.2011 kl. 05:44

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið kæra fólk, er á hlaupum, hef því ekki tíma í spjall að hætti hússins.

Naglinn á höfuð kæri Júlíus, ég hef ekki hundsvit á fjármálum, þarf reyndar ekki að hafa það til að vera á móti sjálfvirkni hækkun, hún er röng.

Blessaður Óskar, takk fyrir síðast.  Alltaf gaman að sjá þig leggja á þig þessar þjáningar að mæta hér.

Jón Valur, þú hefur komist dálítið langt til að hnjóta um miðaldarkreppuna.

Ég var að tala um efnahag Evrópu í heild, sem hrundi við fall Rómarveldis, og já þá hrundi margt annað líka, mennt, menning, sjálfstæð hugsun.

Einstök svæði voru vissulega betur á vegi stödd, misjafnt milli tímabila eins og gengur og gerist.  En þau eiga það sammerkt að hafa ekki haft miðstýrt vald og borgir á dögum Rómarveldis, fengu það seinna, og vissan hagvöxt í kjölfarið.

En svona til að fókusa vandann, þá getum við sagt að íbúafjöldi 100 stærstu borga Evrópu um 1400 hafi verið minni en íbúafjöldi 5 stærstu borga Rómarveldis þegar reisn þess var sem mest.  Og þá eru ótaldar allar hinar borgirnar, sem að fjölda voru fleiri um til dæmis 350 en 1400, að ég tali ekki um miðhluta tímabilsins, 1000.

Borgir eru svo eitt augljósasta merkið um þróaðan efnahag, enda þarf öfluga verslun og viðskipti til að sinna nauðþurftum þeirra.

Og lestu áfram, þá munt þú líka sjá hvað þú hefur innilega rangt fyrir þér í málefnum heimilanna.

Eftirspurnarkreppa er ekkert grín.  

Blessaður sannleikur, eða er það staðreyndir sem þú vilt kenna þig við.  

Það er ljóst að fólkinu er ekki sjálfrátt, og já, ég er meira á því að það sé fársjúkt en heilbrigt.  En það afsakar ekki heilastarfsemi þeirra sem falla fyrir svona augljósu bulli og fölsunum eins og Guðmundur Leigupenni bíður upp á í greinarkorni sínu.

Myntbandalag Evrópu, ha, ha, ha.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.1.2011 kl. 08:06

14 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Góð grein hjá þér Ómar.

Fyrir mér er málið einfalt. Þegar þrjár persónur deila um hagfræði, rithöfundur, læknir og hagfræðingur, þá tek ég yfirleitt mest mark á hagfræðingnum. Auðvitað eru undantekningar, sumir hagfræðingar hafa hagað sér með þeim hætti að þeir gleyma fræðunum en það er þá oftast vegna þess fara út fyrir sín fræði, t.d. pólitík.

Ef þessir sömu einstaklingar, rithöfundurinn, læknirinn og hagfræðingurinn væru að karpa í fjölmiðlum um hvaða lækningaaðferð væri best fyrir einhvern sem væri sjúkur, myndi ég trúa orðum læknisins fram yfir orð hinna tveggja.

Varðandi rithöfunda er það eitt að segja að þeir ERU rithöfundar. Þeirra verk er að semja skáldsögur. Guðmundi Andra hefur tekist það með ágætum, hvort heldur hann ritar um hagtölur, icesave, ESB eða nokkuð annað sem honum dettur í hug! Hann er ágætis skáld!

Gunnar Heiðarsson, 11.1.2011 kl. 09:53

15 Smámynd: Skeggi Skaftason

Gunnar Heiðarsson:

Mér finnst þetta alls ekki góð grein hjá Ómari. Ég ætla samt alls ekki að kalla þig fávita. Það er alls ekki víst að þú sért fáviti, þó við séum ósammála. En þú ert greinilega óupplýstur líkt og Ómar, um punktana 15 í "Sóknaráætlun" ríkisstjórnarinnar til ársins 2020, em grein Guðmundar Andra snýst um.

Ég skil satt að segja af hverju menn eins og þið Ómar skrifið svona um hluti sem þið hafið ekki kynnt ykkur. Gildir þetta um flest sem þið tjáið ykkur um hér á blogginu?

Þú segist taka mest mark á hagfræðingnum í þessari "deilu", þar sem hún snúist um hagfræði. Hér eru punktarnir 15 sem kynntir voru.

Segiði okkur nú, þú, Ómar og aðrir spekingar hér, hvaða punktum þið eruð á móti og af hverju.

  • Að minnka hlutfall örorkulífeyrisþega af íbúafjölda úr 8,4% í 7,0% árið 2020.
  • Að lækka hlutfall atvinnulausra (> 12 mán.) niður fyrir 3% árið 2020.
  • Að auka jöfnuð á Ísland með lækkun Gini stuðuls fyrir ráðstöfunartekjur í um 25 árið 2020.
  • Að bæta stöðu jafnréttismála þannig að gildi jafnréttisvísitölunnar global gender gap index verði nálægt 0,9 árið 2020.
  • Að auka vellíðan og góða andlega heilsu þannig að meðaltal mælinga, samkvæmt WHO 5 kvarðanum8 hækki úr 64 árið 20099 í 72 árið 2020.
  • Að hlutfall Íslendinga á aldrinum 20‐66 ára sem ekki hafa hlotið formlega framhaldsmenntun fari úr 30% niður í 10% árið 2020.
  • Að 4% af landsframleiðslu sé varið til rannsókna, þróunar og nýsköpunar og að hlutfall framlags fyrirtækja í samkeppnissjóði og markáætlanir sé 70% á móti 30% framlagi ríkisins.
  • Að Ísland verði meðal 10 efstu þjóða árið 2020 í rafrænni stjórnsýsluvísitölu og rafrænni þátttökuvísitölu sem mæld er af Sameinuðu þjóðunum.
  • Að hátækniiðnaður skapi 10% af landsframleiðslu og 15% af útflutningsverðmætum árið 2020.
  • Að notkun vistvæns eldsneytis í sjávarútvegi verði a.m.k 20% árið 2020 og að 20% alls eldsneytis í samgöngum verði vistvænt.
  • Að Ísland taki að sér sambærilegar skuldbindingar og ríki Evrópu gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna árið 2020.
  • Að vistvæn nýsköpun og afurðir hennar verði helsta vaxtargreinin næsta áratug, með 20% árlegan vöxt í veltu sem tvöfaldist fyrir 2015, miðað við 2011.
  • Að árið 2020 gangi 75% nýrra bifreiða, undir fimm tonnum að þyngd, fyrir vistvænu eldsneyti.
  • Að hlutfall innlendrar matvöru í neyslu landsmanna aukist um 10% fyrir árið 2020.
  • Árið 2020 verði færni íslenskra grunnskólanemenda sambærileg við 10 efstu þjóðir samkvæmt OECD PISA rannsókninni á lesskilningi og læsi á stærðfræði og raungreinar.

Skeggi Skaftason, 11.1.2011 kl. 11:17

16 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

  1. Það vita allir sem vilja vita að hluti þeirra sem eru á örorkubótum hafa ekkert rétt á þeim bótum, með því að taka harðar á þessu næst þetta niður.
  2. Hlutfall atvinnulausra lækkar ef: Horfið er frá skattastefnu stjórnvalda á einstaklinga og fyrirtæki. Ekki fyrr.
  3. Gini stuðull kemur ekki til með að minnka nema að þeir sem hafa hærri tekjur lækki sínar tekjur. Það eru ekki forsendur neinstaðar í atvinnumálum til að hækka laun. Ef það á að breytast þar að endurskoða skattastefnu stjórnvalda, ásamt flestu sem tengist atvinnumálum.
  4. Hef ekki hugmynd hverju þetta á að skila í þjóðarbúið, jafnrétti kynjanna er ekki stjórnvaldsaðgerð, heldur hugarfarsbreyting þegnanna.
  5. Hvaða formlegu framhaldsmenntun er verið að tala um? Vélstjóra og tæknimenntað fólk vantar, ekki fleiri bókaorma.
  6. Því fleiri sjóðir sem atvinnulífið borgar í því meiri óskilvirkni. Sjóðir sem eiga að ná utanum allt atvinnlífið til að sjá því fyrir nauðsynlegri nýsköpun er fornaldarhugsun, hlutirnir gerast ekki á þennan hátt. Frumkvæðið þarf að koma frá fyrirtækjunum sjálfum og innan greinanna að öðrum kosti borgar ein grein fyrir aðra og það endar alltaf með uppákomum.
  7. Hverju á þetta að skila? Ódýrari þjónustu eða fallegri tölum á blaði í ímynduðum samanburði?
  8. Vona að það verði, en það verður ekki að óbreyttu.
  9. Gæti gengið í bílaflotanum en örugglega ekki í skipaflotanum.
  10. Þekki þetta ekki til að tjá mig um það.
  11. Velta hefur ekkert með mælikvarða að gera, trúlega gengur þessi liður ekki upp nema að aðrir atvinnuvegir borgi styrkina til þeirra, í formi veltu.
  12. Við getum ekki haft áhrif á þetta, þróun bílaframleiðslu í heiminum ræður svo og kaupgeta almennings.
  13. Gott mál, við förum ekki í Evrópusambandið á meðan.
  14. Alltaf gott að gera betur í grunnskólamenntun, grunnur þess sem koma skal.

Þetta að ofan er allt hægt að setja saman á misjafnan hátt. Undirstaðan fyrir því að hlutirnir gangi upp er atvinna og að það sé þannig búið um hnútana að ríkisvaldið sé ekki ávallt með puttana í vasa almennings.

Ég lít á þessa upptalningu hjá Skeggja, þó fín sé að mörgu leiti, algert aukaatriði og lýsir í raun firringu þeirra, sem leggja þetta fram sem stefnumörkunarplagg, við þeim aðstæðum sem eru uppi í dag. Ég hefði viljað sjá fara í þau mál sem þarf að fara ofaní í upptalningu eins og þessari.

Sindri Karl Sigurðsson, 11.1.2011 kl. 11:51

17 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég spyr þig Skeggi Skaftason, hvernig ætlar ríkisstjórnin að framkvæma þetta. Til að dæmið gangi upp verður hagvöxtur að vera að minnsta kosti 5% á ári, að árinu í ár meðtöldu. 5% hagvöxtur í 9 ár samfellt er nánast vonlaust, sérstaklega þegar þetta á að vinnast með einungis tveim atvinnugreinum, ferðaþjónustu og hátæknistörfum.

Vissulega er óplægður akur í því sem kallast hátæknistörf, en ferðaþjónustan á ekki langt í að verða fullnýtt. Sérstaklega þar sem núverandi umhverfisráðherra virðist hafa það að markmiði að hefta för ferðamanna sem mest að því sem landið hefur upp á að bjóða. Jafnvel þó báðar þessar greinar myndu blómstra, er vart hægt að sjá það fyrir sér að þær gætu eflst um 5% í níu ár samfellt!

Það ýmislegt í þessum tillögum sem gott er og rétt að stefna að. Tillagan í heild sinni gengur þó aldrei upp, það er einfalt!!

Þú leikur þann leik að tína einungis til hluta af tillögunum, ekki allar. Það er ljótur leikur sem einungis þeir sem eitthvað hafa að fela nota!!

Gunnar Heiðarsson, 11.1.2011 kl. 13:03

18 Smámynd: Júlíus Björnsson

Raun Hagvöxtur [Real GDP ] fæst eftir að leiðrétt hefur verið vegna verðbólgu. Alþjóðamarkmið er að auka raunhagvöxtin hjá þjóðum undir meðalþjóðrtekjum, afar hægt. EU er spáð tækni og framleiðslu samdrætti  næstu árin eða tugina.  Ísland kemst ekki upp með að græða meira en Hollendingar og Bretar t.d. eða nokkur annað Meðlima Ríki EU í hlutfalldlegum samanburði.

Júlíus Björnsson, 11.1.2011 kl. 14:40

19 Smámynd: Júlíus Björnsson

  • Árið 2020 verði færni íslenskra grunnskólanemenda sambærileg við 10 efstu þjóðir samkvæmt OECD PISA rannsókninni á lesskilningi og læsi á stærðfræði og raungreinar.
  • 2050 fer þá  að vera hægt að taka mark á ráðamönnum hér með um 90% áreiðanleika um réttar ályktanir = ímyndanir. Of seint fyrir mig.

Júlíus Björnsson, 11.1.2011 kl. 14:58

20 Smámynd: Skeggi Skaftason

Hvað er "tæknisamdráttur"? Færast lönd þá afturábak, tæknilega séð??

Skeggi Skaftason, 11.1.2011 kl. 14:58

21 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Ég reikna með að tæknisamdráttur sé þegar tækniþróun stendur ekki lengur undir samskonar hagvexti og hún hefur gert hingað til. Flóknari og dýrari úrlausnir sem ná ekki á markað fyrir hinn almenna neytanda á sama hraða og í dag/gær. Þal. verður samdráttur í þessum geira, þó að það sé ekki hjöðnun/stöðnun. Það myndi frekar lýsa hnignun að taka t.a.m. tæknifærni Faróa/Inka, sem glataðist.

Sindri Karl Sigurðsson, 11.1.2011 kl. 16:00

22 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Ég er svona að velta fyrir mér hvort að síðueigandi telji að Lilja sé óbrigðul? Og eins hvort að allir hagfræðingar sem vinna með ríkisstjórninni, AGS og í HÍ sem hafa ráðlaggt henni séu miklu verri hagfræingar en Lilja og getur síðueigandi bent mér í framhaldi af þessu á lönd þar sem Lilja hefur bjargað málum og reddað hlutunum með sinni sýn á lausnir mála? Skv upplýsingu á vef Alþingis hefur hún unnið fyrir utan kennslu og fræðistörf, hjá ESB sem sérfræðingur og hjá Grænlensku heimstjórninni. Sé ekki að Grænland hafi neitt blómstra sérstaklega á þeim tíma sem hún var þar. http://www.althingi.is/cv.php4?nfaerslunr=711

Magnús Helgi Björgvinsson, 11.1.2011 kl. 18:06

23 Smámynd: Júlíus Björnsson

Við eru aðilar að frjálsflæðis regluverki: atvinnuleysis og fjármuna, að tækni og fullframleiðslu svo svo hún heyrir ekki undir Miðstýrða sameiginlega efnahagsgrunn innri samkeppni efnahagslögsaganna.  Reglur EU miða eða stefna að sama hlutfallalega fjölda atvinnuleitenda í öllum samkeppni Ríkjum. Frjálsflæðið er greinlega liður í því. Stefna nokkura hræða á Íslandi gegn stefnu EU vegur ekki þungt.

Atvinnuleysi er búið að vera meiriháttar vandamáli í flestum ríkjum meginlandsins síðustu 100 ár og jafnvel lengur í stórborgum.   Heimstyrjaldirnar I og II slógu mikið á hlutfalla atvinnuleitenda: ódýrasti launkostnaður í heildina litið.

Hinsvegar hefur í Evrópu síðustu 100 ár verið brugðist við atvinnuleysi með. Útrýmingu eftirvinnu, styttingu vinnuviku, styttingu starfsævi með flýtingu upptöku ellilífeyris og slökun í námskröfum 90 % nemanda til að lengja námstíma og stytta starfsævi.

Á þessum þroska mælikvarða eru Íslendingar ekki standa sig í samanburði. Nema hvað varðar námskröfur og lengingu námstíma. Samanber Pisa.

Óskalistar byggðar á röngum efnahagsgrunnforsendum er rökfræðilega rangir og því ómarktækir.

 Þótt þeir hljómi vel og menn geti haft skoðanir á þeim að grunninum slepptum.  Einungis sjálfbærar þjóðir í grunni hráefna og orku geta gert áætlanir fram í tímann út á sig sjálfar.

Sjálfbærni er samkomulag allra þegna sömu lendu um innhald sömu almennu neyslukörfu.

Skuldir Íslensku stjórnsýslunnar [vildarvina fyrirtæki og ohf ekki talin með] er um 114% af heildar efnahagslendu rauntekjum hennar á ári. Grikkir og Ítalir er þar nálægt. Írar og Norðmenn og Danir og flest ríki sem geta gert raunhæfar raunhæfar áætlanir um að viðhalda sömu rauntekjum í samanburði [ekki að auka þær í samburði á kostnað annarra efnahagslenda] eru með hlutfallið um 50%.

Hagvöxtur eða hlutafalls ársbreyting á þjóðartekjum er ekki sama og raunhagvöxtur þegar búið er að leiðrétta fyrir of miklu fjármagni í umferð á efnahagslendu markaðinum.  Þessi leiðrétting miðast oft við 5 ára tímabil í alþjóðlegum samanburði. Því sumt af innstæðulausu ávísunum [peningar gefnir út af ríkissjóði] getur orðið að raunverðmætum sem eru komin til með að vera innan Íslands. 

Þess vegna má líta á óhóflegt magn innstæðulausu peninganna sem fjárfestingu í sinn eigin efnahagslögsögu.

Hinsvegar ef sjóðamyndun [binding lausfjár] er mikil eða vex þá minnkar umframagnið eða krafan um meira umfram magn verður meiri.  Hér var þetta umframagn tekið að láni frá öðrum ríkjum, með þau tók mark á Íslensku bókhaldi: sér í lagi efnahagsreikningum: Eignir= skuldir + eiginfé [=skuld við almenning].

Erlendis í þroskum Ríkjum, hjá ábyrgum stofnum og stjórnsýslum er undantekningalaust gert út á lengri tíma en 5 ár [sem er hámark skammtíma sjónarmiða og skammsýni].

Þar eru reglulegar afskriftir af sýndareigum svo sem gjaldeyri og bréfum [öll örugg m.t.t. greiðslugetu og veða ef lengri en 5 ár].

 Með afskriftum er á átt við að þegar gefið er að raunhagvöxtur um x% að meðaltali síðust 5 ár [eða 30 ár] er staðreynd þá eru fjármagnstekjur kallað vextir á Íslensku umfram raunmeðaltals verðbólgu x færða=afskrifaðar debit  á tekjur og kredit á jöfnunarsjóð má líkakala biðsjóð eða varasjóð þegar um fasteignir almennings [80% þegar] er að ræða þá má tala um þrautavarasjóð. Þá er líka á þeim tímabilum þegar vextir eru lægri en hægt að debitera út af afskriftarsjóði og færa til tekna: í stað þess að hækka vexti á lánatakendum  sem eru ekki þeir sem ofmátu umframagn ávísanna upphaflega og sannanlega. 

Í Þýskalandi og Frakklandi eru þessar aldagömlu afskriftarreglur í langtíma bókhaldi ábyrgra lánstofnanna ennþá virtar og hafðar að leiðarljósi. Hinsvegar eru USA og UK með rýmri bókhaldsreglu ramma  og hluti af honum var ennþá rýmri um 1980 og kallast það nýfrjálshyggja. Upphaf 5 ára negam lána [kúlu og íbúðalánsjóðs fölskum] þegar veð eða útborgun er eru ekki til staðar fyrir en eftir fimm ár en þá taka yfirleitt hefðbundinn langtíma afskriftarlán við.

Um 30 ára jafngreiðslu lán í USA er það að segja að nafnvextir eru fastir og heildarskuld til skipta á greiðslur er fundinn þannig út: ef lán til útborgunar eru 100 ein. þá er fjármagnsleiga max 3,2% í dag [2,0% er eina raunhæfa hámarkið að ræða ef um fastlaunþega er að ræða]  um 32 ein. og afskriftir í jöfnunarsjóð um 60 ein. Heildarskuld til skiptinga verður því 192 ein max. [vegna upp í úthverfum]. 60 ein, nægja gegn 90% yfir næstu 30 ár stærðfræðilega.  360 gjalddagar gefa : 192/360 = 0.53 á mánuði allan tíman.

Vöxtum of afskriftum[verðbótum]  er svo dreift eftir Fisher formúlu miðað við hóflega langtíma verðbólgu þannig að hægt er að reikna nafnvexti í öðru veldi og tryggt er að í afskriftarsjóð sé nóg til að byrja með.  Bréfin eru svo fullkomlega örugg eftir 10 til 20 ár. það er með til til 2,0% raunvaxta kröfu. Lántakinn sem þannig litið bókhaldslega, borgar of mikið fyrst af vöxtum, græðir því á að verðbólga vaxi ef laun hans vaxa þess vegna talar almenningur í USA um að vænta í merkingu expect sem allstaðar annarstað í ensku merkir að gera ráð fyrir svo sem í markaðssetningu umframmagnsins sem áður var nefnt.     Hér eru notuð orð eins og sauðsvartur almúginn í USA stjórni ferðinni. 

Talmaður AGS í sjónavarpinu í gær lagði ekkert mat á þess ríkisstjórn, heldur sagði ef heilindi yrðu í framhaldi á útfærslu efnhagasaðgerða  mætti gera ráð fyrir hægu raunvaxta uppgangi.

Íslandi er komið niður í samburði í  37.000 dollara á þegn í alþjóðlegum samanburði. Noregur er í 58.000 dollurum og Færeyingar eru  í 48.000 dollurum. Hlutfallslega talsvert hærri og því með hlutfallalega hærri raunhagvaxta markmið. 

Íslendingar verða að fara að læra margar alda langtíma bókhaldsreglur siðmenntaðra ríkja.

Júlíus Björnsson, 11.1.2011 kl. 19:03

24 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þar kom loksins eitthvað af viti hér

Óskar Þorkelsson, 11.1.2011 kl. 20:30

25 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaðir aftur félagar, Óskar og Júlíus, og takk fyrir innlitið.  Þú heldur heilasellum manns við efnið Júlíus, takk fyrir það.

Magnús, góður punktur, og vissulega umræðunnar verður.

Er það nafnið Lilja, eða er það eitthvað annað sem fær síðuhöndlara til að dásama hana Lilju, en hjóla í aðra mæta menn, og það marga.

Minnir mig dálítið á þegar Árni Páll mætti galvaskur í ræðustól, í des 2008, þar sem hann las Pétri Blöndal pistilinn um ICESave, en þá voru þeir saman í stjórn, og Pétur var þá í ærlega hópnum, vildi verja peningapyngju sína og þjóðarinnar.

"Skyldi það ekki hvarfla að háttvirtum þingmanni, að allar þessar þjóðir, allir þessir álitsgjafar, gætu ekki haft eitthvað til síns máls".  Haft eftir minni, en ég man þetta eins og ég hefði hlustað í gær.  Árni Páll var þá réttilega benda Pétri á að þó röksemdarfærsla þeirra Stefáns og Lárusar (þeir höfðu þá skrifað grein þar sem þeir drógu lögmæti ICEsave kröfu breta í efa, með rökum) væri ágæt, þá var það ekki fjöldinn sem tók undir hana.  Það benti sterklega til að eitthvað væri hæft í málflutningi ESB og breta.  

En eins og þú veist Magnús, þá var það ekki, og það hefur framkvæmdarstjórn ESB staðfest.  

Fjöldinn hefur ekki alltaf rétt fyrir sér, þó virðulegur sé.

Og Lilja hefur heldur ekki rétt fyrir sér, aðeins vegna þess að hún heitir Lilja.  Það er rök hennar sem gilda, og útdrátt úr þeim rakti ég hér að ofan.  Og þau eru greinilega það sterk, að þú hjólar ekki í þau, þó eru þau auðlesin, bæði forsendur og niðurstöður raktar.

Og á því er ein meginskýring, rök hennar halda.  Bæði fræðilega, sem og hagsagan styður líka.  En ég get svo sem ekki rökrætt frekar efnislega, því þrátt fyrir alla þá ögrun sem ég lagði i þessa grein, og víða hefur hún farið, ykkur ESB sinnum til ánægju, þá er efnisleg gagnrýni engin, og því lítið sem ég get lagt frekar til málanna.

Eins er það með sjálfa gagnrýni Lilju, það fer engin, enginn af öllum þessum hópi sem þú vitnar í, í hana efnislega, aðeins Lilja sjálf er tækluð.  Þú sem skynsemisvera ætti að vita af hverju.

Rök Lilju halda, það er engin önnur skýring.

Og það er skýring þess, að þegar fjármálakerfi Bandaríkjanna féll, og Repúblikanar ennþá við stjórnvölin, þá fóru þeir þessa leið, því þetta er eina leiðin til að hindra eftirspurnarkreppu.  Þó var hirðin í kringum Bush mikið markaðsfólk.  Og mótfallið ríkisafskiptum.  

Og núverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, er þeirra maður, skipaður af Bush, einmitt vegna markaðssjónamiða sinna.  Og hann er líka einn fremsti hagfræðingur heims í kreppufræðum, var virtur prófessor við Harvard, með áherslu á efnahagskreppur. 

Hann mótaði þessa stefnu, Lilja sækir í brunn hans, ekki sína eigin reynslu.  Hún er of ung blessunin til þess.  

En framtíðin er hennar á meðan hún tekur fræði og staðreyndir fram yfir hagsmuni og valdafíkn.

Svona er nú það Magnús.

Takk fyrir innlitið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.1.2011 kl. 21:35

26 Smámynd: Ómar Geirsson

Jæja, núna er flóafriður loksins skollin á, og hægt að klára kvittun og annað sem útundan var í dag.

Takk Gunnar, líklegast er þetta kjarni málsins, hagfræðingar treysta sér ekki í Lilju, þess vegna er "fuglunum" sigað á hana, í trausti þess að fjölmiðlar þekki muninn á rökum og bulli, og vissulega hefur það tekist ágætlega.  Ég vildi óska þess að bumban á mér væri eins grönn og fjölmiðalvitið, en því er ekki að skipta, þess vegna komast stjórnvöld upp með allar lygarnar.

Sindri, annar kjarni málsins, fögrum orðum er endalaust hægt að raða upp, ekki bara á þjóðfundinum, en það þarf að vera innistæða fyrir þeim, og það eru aðgerðir sem móta raunveruleikann, ekki orðskrúð.  

Ef svo væri, þá legði ég til að Dagur B. yrði skipaður lífstíðarforseti.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.1.2011 kl. 22:26

27 Smámynd: Ómar Geirsson

Jæja Skeggi, ég var ekki búinn að gleyma þér, geymdi mér ánægjuna þar til síðast, líkt og ég borða besta Mackintonsh molann minn alltaf þegar allir hinir eru búnir.

Það er gott að þú sért ekki að mæta hér og kalla fólk fávita, gæti orðið sár við þig.  Vilji menn nota það orð, þá á ég einkarétt á slíkum heiðursnafnbótum.

En þér til ráðleggingar, þá skaltu annað hvort mæta, og öskra fáviti, og hlaupa svo burt, eða tækla rökin, annað kemur svo illa út fyrir þig.

Í það fyrsta þá var nú stúfur minn um ýmislegt annað en meintan fávitaskap ICEsavesvikamanna, þó heiti greinarinnar hafi verið tilvísun í fávitakafla hennar.  Hann kemur aðeins undir lokin, og færð rök fyrir þeirri nafnbót, til að ávinna sér hana, þurfa menn að trúa þessari setningu "hún samrýmist skilyrðum sem kennd eru við Maastricht og ber að uppfylla til að taka upp evru og taka þátt í myntbandalagi Evrópu".".  Vissulega má deila um hvort ályktun mín  sé rétt, en hún er rökstudd.

Í mínum huga er erfitt að toppa heimskuna sem Guðmundur notaði til bömma Lilju, Mastricht, evra og Myntbandalag Evrópu, var kannski tækur valkostur í umræðuna fyrir ári síðan þegar Dagur byrjaði þessa stefnuvinnu sína, en að koma með hana núna, þegar enginn veit hvort evran lifir út árið, það er svo fáránlegt, að það er aðeins hlægilegt.  Svona svipað og Framsóknarmenn hefðu uppgötvað að Sigurður Einarsson væri á lausu sem ráðgjafi, og hefðu beðið hann að hressa upp á ímynd flokksins með því að dusta rykið á framtíðarskýrslu sinni, sem hann gerði um árið.  En hún fjallaði um að gera Ísland að fjármálamiðstöð.  Kannski umræðuhæft þá (en samt fáránlegt), en í dag, en í dag ræður enginn um slíka hluti á Íslandi.

En þeir sem trúa þessu, þeir þurfa ekki neitt endilega að vera fávitar, en mér finnst samt rosalega gaman að slá því fram.  Það er þeirra sem taka það nærri sér, að afsanna fullyrðingar mínar, eða þegja ella.  

Þú ræður hvort þú viljir sannfæra mig um íslenska alþjóðafjármálamiðstöð, eða um framtíð evrunnar, en notaðu rök Skeggi minn, það eru þau sem láta aðra líta illa út.  Ekki orðaleppar.

Þá er það þessi framtíðaráætlun þín sem þú vilt endilega kynna fyrir lesendum þessara innslaga.  Þú greinilega heldur að þeir séu margir, fyrst þú leggur þessa fyrirhöfn á þig.  Veist eins og er að þetta er aðeins skemmtilesning fyrir mig.

Og ég útskýrði af hverju, tók dæmi frá Norður Kóreu, þar sem orð eru látin breiða yfir napran raunveruleik.  Það virðist ekki hafa virkað, kannski var dæmið of ungt fyrir aldur þinn, ég skal því færa mig aftur í tímann.

Stalín gamli rak smábændur Úkraínu í samyrkjubú með þeim orðum að hann vildi auka landbúnaðarframleiðsluna, að gera hana hagkvæmari með stórum einingum og beitingu nútíma tækni.  Flott markmið, og til að árétta þau þá voru þau sett í svona 5 ára áætlun, þú manst eftir þeim er það ekki???  Og svo kom önnur 5 ára áætlun, og önnur og önnur, og margar í viðbót, alveg þar til landinu var fyrirmunað að brauðfæða sig.  Og var komið undir náð og miskunn bandarískra bænda.

Samt var áætlunin alltaf góð, og það var alltaf verið að gefa í.

Hvað klikkaði???  Jú, áætlanirnar voru ekki í takt við raunveruleikann.  Og það sem meira var, það var gripið til rangra aðgerða.   Þær drógu úr landbúnaðarframleiðslunni, juku hana ekki. 

Það eru aðgerðir sem ráða Skeggi minn, hvort hlutir ganga eftir.  

Lilja bendir á, að ef það er farið eftir Mastricht skilyrðunum núna, eins og efnahagurinn er, þá mun það auka vandann, ekki leysa hann.

Og hún færir rök fyrir sínu máli, þekkt rök.  Og hún hefur hagsöguna með sér, eins og hún bendir réttilega á.

Ég peistaði þessi rök Skeggi, og benti á orðagjálfrið sem Guðmundur beitir á móti.  Kallanginn veit augljóslega ekkert hvað hann er að segja, þó það segi það á skemmtilegan hátt, enda alltaf gaman að lesa greinar eftir hann.

Og þú færir ekki heldur rök gegn greiningu Lilju, heldur vælir aðeins út í mig, afhjúpar þar með vanþekkingu þína, og styrkir um leið röksemdarfærslur Lilju.

Því ef þú þolir ekki framsetningu mína Skeggi, og hún var sérstaklega sett fram svona, svo þú og þínir þyldu hana ekki, þá hjólar þú í rökin, þú afhjúpar rökveilurnar.

Þá, og aðeins þá sit ég uppi með Svarta Pétur Skeggi, ekki fyrr.

Þeir sem lesa þessa bloggsíðu, þeir hlæja af vælupúkum, en þeim leiðist ekki þegar ég er flengdur.  

Þú verður að gera betur en þetta Skeggi minn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.1.2011 kl. 23:03

28 Smámynd: Júlíus Björnsson

Til upprifjunar þá er það skilyrði fyrir upptöku evru að Meðlima-Ríki afhendir Seðlabanka sinn [rétt til að gefa út innstæðulausar ávísanir: peningaseðla] til Evrópska Seðlabanks, eftir það fellur  hann undir Kerfi [þjóðar] Seðlabanka Evrópsku Sameiningarinnar.

Rifjum þá líka upp að Evrópski Seðlabanki og Evrópski Fjárfestingabanki [núna staðsettur í Luxemburg] er samkvæmt milliríkja samningum tvö af aðal hagstjórnartólum Miðstýringarinnar í Brussel. Þar The Commission [Umboðið/Þóknunin]eða eftir Lissabon umboðs hæfs meirihluta Meðlima Ríkja. 

Flestir yfirgreindir heilar á meginlandi  Evrópu skilja orðið hæfur sem ráðandi, greindari meirihluti Evrópsku Sameiningarinnar hverju sinni.

Þegar þetta er orðið að veruleika má segja að Ísland fái skammtað raunhagvexti í samræmi við hlutfallslegan stöðugleika milli Meðlima Ríkjanna í samkeppni um að viðhalda sínu virðingar[áhrifa] sæti innan Evrópsku Sameiningarinnar.

Ég tel Íslensku manntegund svo sérstaka að hún muni ekki lifa lengi sem görn í þjóðarlíkama Evrópsku Sameiningarinnar. Hinsvegar má kaupa alla þá fáu fræðinga hér á landi sem vit hafa á jarðhita og fiskveiðstjórnum  til starfa í Brussell. Fræðin er ekki að mínu mati ríkisleyndarmál.

Alla má kaupa fyrir rétta upphæð eins flestir Íslendingar ættu að geta greint sér fyrir hér á Íslandi síðustu 30 ár.

Luxemborg er greinilega hjartað í augnblikinu og Brussell heilinn.

Seðlabanki Íslands er smámál. Stóra langtíma vandamálið er Englandsbanki og það er spennandi á alþjóðmælikvarða að fylgjast með hvernær UK afhendir hann og hvað UK fær í staðinn, fyrir utan hlut í Evrópska Fjárfestingabankanum [þrautavarasjóði hinna efnuðu Meðlima-Ríkja innan Evrópsku Sameiningarinnar: Frakkar og Þjóðverjar eiga 50% í dag.  

EU á um 36% í AGS. Ríkin afhenda utanríkja réttindi og skyldur og umboð hjá Alþjóðastofnunum til Brussel.

Í Kreppunni í EU felast mikil tækifæri að losa Meðlima Ríkin sem ennþá eru á undanþágum við þær. Flestar undanþágur til ríkistjórna [skammtíma óábyrga  Framkvæmdavaldsins] eru vegna þess að samþykki þeirra þjóðar liggur ekki fyrir í augnablikinu.

Júlíus Björnsson, 12.1.2011 kl. 01:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.9.): 133
  • Sl. sólarhring: 140
  • Sl. viku: 185
  • Frá upphafi: 1373259

Annað

  • Innlit í dag: 117
  • Innlit sl. viku: 155
  • Gestir í dag: 113
  • IP-tölur í dag: 111

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband