Þegar rökin bresta, þá tekur sorinn við.

Það deilir enginn um það að bretar, með bakstuðningi Evrópusambandsins, hlupu á sig þegar þeir gerðu árás á íslenskan efnahag og ætluðu að þvinga landsmenn til að taka á sig skuldbindingar einkabanka á breskri grund.

Svona árás hefur ekki verið gerð í Evrópu frá því að Hitler taldi sig hafa rétt til að þrælka slavneska nágranna sína í austri með tilvísun í kynþáttalega yfirburði germanskra þjóða.

Það sem bresku óhæfuverkin eiga sameiginlegt með hinum þýsku á sínum tíma, fyrir utan gerræði og ofbeldi hins sterka á hendur hinum veika, er að fullt að fólki styður og studdi gerræðið, án þess að geta fært fyrir því nein rök, önnur en þau sem ættuð eru úr sora mannshugans.

Allir þekkja þann sora sem gekk yfir Evrópu á fjórða áratugnum og nýnasistar hafa endurlífgað í nútímanum, en færri leiða hugann að hinum mannlega sora borgunarsinna í ICEsave deilunni.

 

Mig langar að vitna í blogg eftir ónefndan mann sem nær vel að fanga hið lægsta af því lægsta.  Þetta gekk hér á forsíðu Moggabloggsins og ætti því að mega fara í almenna umræðu.

 "Við verðum að ná sátt við grannþjóðir og helstu viðskiptamenn. Einangrunarstefna er eyðandi, þegar smáþjóð á í hlut. Ofsinn, sem birtist í margvíslegu bloggi um þetta mál er í takt við gorgeirinn, sem varð okkur að falli."

Hvað er þetta sori, er þetta ekki bara saklaus athugasemd um nauðsyn þess að semja??  Jú vissulega er þetta saklaust, ef maður hugsar þetta ekki dýpra, líkt og orðið "lebensraum" er ofsalega saklaust, þar til maður fer að hugsa út í afleiðingarnar fyrir saklaust fólk, gangi framkvæmd þessa "sakleysis" eftir.

Það er þá sem hið svartasta í mannssálinni birtist, að telja sig vera hafin yfir hlutskipti og örlög annarra, bara ef markmiðum manns, og þeirra sem maður styður, er náð.

Siðleysið í sinni tærustu mynd.

 

Það er aukaatriði að velstæður maður skrifaði þessi orð, maður sem þarf ekki að hafa áhyggjur af afleiðingum niðurskurði fjárlaga sem er nauðsynlegur til að hægt sé að greiða bretum ICEsave skattinn.  Meginþorri ICEsave liðsins eru jú úr hópi broddborgara þjóðfélagsins.

Látum það vera að þeir telji það léttvægt að það berist fréttir af útburði gamalmenna og hreppflutningi eða þá að langveik börn munu ekki fá hjúkrun.  Eins telja þessir menn að það sé hagfræði að segja upp 390 manns í heilbrigðiskerfinu vegna um 4 milljarða  niðurskurðar.  Og það er ekki þeirra að hafa áhyggjur þó bótaþegar svelti.  Allflestir hvort sem er of feitir.

Sorinn er verri en það.

 

Sorinn felst í því óeðli að telja kúgun eða misindi réttlætanlegt, ef sá sterki kúgar hinn veika.  Ef það eru höfðingjar, eða ráðamenn, voldugar vinaþjóðir eða aðrir sem má ekki styggja.

Þekkjum við þetta ekki úr sögunni, úr samtímanum??

 

Rifjum upp sögu formæðra okkar. 

Það þarf ekki lengi að ræða við eldri konur til að fá upp minningar þar sem þær urðu að sætta sig við gesti í rúmi sínu því það var siður að deila rúmi í þeim þrengslum og húsnæðisleysi sem einkenndi eldri tíma.  Sumir gestirnir voru dónakallar, þeir káfuðu og reyndu jafnvel meir, en það var ekki hlustað á kvartanir ungmeyjanna, það mátti ekki móðga gestinn, menn töluðu ekki um svona.

Eða sá siður að kyssa og kjamsa þegar heilsast var, þá fékk mörg stúlkan blautan koss, en ekkert mátti segja.  Nema þegar einhver sagði hingað og ekki lengra á Selfossi, sumt á ekki að líðast.

Er þetta sori???   Já, þetta er angi af honum, sá veiki er látinn lúffa og ber ör á sálu sinni, jafnvel alla sína tíð.  Og stundum var þetta verra.  Það vissu allir hvað átti sér stað í ákveðnu húsi i Hafnarfirði, en það mátti ekki segja neitt, þetta snerti fínt fólk.

Svo þegar bókin kom út, þá sáu allir hvaða hryllilegur glæpur var þaggaður niður. 

Og öll þekkjum við sögurnar um konurnar fjórar og biskupinn.  Ekki mátti styggja höfðingjann.

 

Það er óeðli að líða hinum sterka að kúga og misbjóða þeim sem getur ekki varið sig.  Þetta viðurkennum við í samskiptum fólks, þetta er refsivert athæfi þar sem því verður við komið.

Hvort sem það er á persónugrunni, milli auðfyrirtækja og samfélaga, milli þjóða.

Það sjá allir rangindin, eða allflestir.

 

Fáir mæla kúgun Kínverja á Tíbetbúum bót, þó vissulega séu það til.

Fáir mæla því bót þegar Þjóðverjar framkvæmdu áætlun sína um "lífsrými".

 

En þegar þeir byrjuð þá stefnu, þá var lúffað, þá komu þessi mannlegi sori upp á yfirborðið, Þjóðverjar voru virt menningarþjóð, stórveldi, og þeim átti að líða ýmislegt.  Það kallaðist að halda sátt við grannþjóðir og viðskiptamenn.  Og þeir sem vöruðu við kúgun og ofríki, þeir voru hinir ofsafengnu bloggarar þess tíma.

Og þegar kúgunin og ofríkið náði því stigi að fyrstu þjóðirnar voru brotnar á bak aftur, þá skipti sáttin og samkomulagið það miklu máli, að ofbeldismennirnir sem stýrðu þessum mætu þjóðum, Þýskalandi og Ítalíu, að þeir komust upp með ofríki sitt, á meðan það snerti aðra.

Einn titrandi lítill maður mælti orð á fundi Þjóðarbandalagsins þar sem hann varaði við afleiðingum sorans, að  þær myndu hitta alla fyrir að lokum.  Að sátt væri ekki keypt því verði að lúffa fyrir ofríki og kúgun, sama hver ætti í hlut.  

Orð hans eru jafn gild í dag, og þau voru þá.

 

"En orð Haile Selassies hljómuðu lengi í hugum fulltrúanna á þingi þjóðabandalagsins. Hann sagði að það sem væri einkum í húfi væri siðgæði í samskiptum þjóða, traust allra þjóða á hvers konar samningum og mati þjóða, einkum smáþjóða, á gildi loforða um að tilvera og sjálfstæði yrði virt og tryggt. “Í þetta sinn vorum það við” sagði hann. “Næst kemur röðin að ykkur.”"

 

Næst kemur röðin  að ykkur.

Kjarni þess að það má aldrei láta undan ofbeldi og ofríki.  Jafnvel þó fornar vinaþjóðir eiga í hlut. 

Jafnvel þó viðskipti séu í húfi.

Vegna þess að mennskan og mannleg tilvera byggjast á siðalögmálum og leikreglum sem viðhalda frið og stöðugleika.

Ef mannkynið ætlar að lifa af 21. öldina þá þarf það að átta sig á að tími ofbeldis og kúgunar er liðinn, drápstækni okkar er komin á það stig, að ófriður er ekki valkostur.

Þess vegna má aldrei lúffa fyrir kúgun og ofbeldi því það ýtir alltaf undir meiri kúgun og ofbeldi.  

Sama hver á í hlut.  Jafnvel þó það séu vinaþjóðir okkar og nágrannar.

 

Bretar höfðu rangt fyrir sér í ICEsave deilunni, krafa þeirra var ólögleg og framfylgt með hótunum og ofbeldi (hryðjuverkalistinn).  

Það er aðeins hægt að semja um ICEsave ef bretar viðurkenni það og biðjast afsökunar á framferði sínu.

Síðan verður að haga málum á þann hátt að sem flestir fái bætt tjón sitt af viðskiptum við íslenska fjárglæframenn, en það er ekki gert fyrir skattfé íslensku þjóðarinnar, ekki nema á þann hátt að það sé hluti af framlagi allra þjóða Evrópska efnahagssvæðisins, því það var gallað regluverk þess sem leiddi til þessarar ógæfu.

Við berum sameiginlega ábyrgð, ekki einu ábyrgðina.

 

Og þetta eiga allar vitibornar manneskjur að skilja.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Fundum um Icesave lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvers eiga Hollendingar að gjalda?

Banki starfræktur undir verndarvæng Íslenska ríkisins fer inn og stelur á fimm mánuðum 300.000.000.000 kr frá Hollenskum sparifjáreigendum og þú telur okkur ekki eiga greiða krónu af þessu . . .  . en samkvæmt lögum sem við skrifuðum undir frá 1999 er  tryggingarsjóðurinn á ábyrgð íslenskra stjórnvalda . .  . 

Þetta mál er flókið og hefur margar víddir en ekki reyna að halda því fram að við séum hin raunverulegu fórnalömbin í þessu máli.

Úr því varst að minnast á Hitler; Það sem er sameiginlegt með þínum skrifum og Hitler er einstrengisleg sýn þín á þessu máli. 

Hörður Arnarson (IP-tala skráð) 9.12.2010 kl. 10:59

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Hörður.

Þú segir það, einstrengileg sýn já, það er rétt hún er mjög einstrengileg hjá mér, ber ekki á móti því.

Ég hafði snemma þann metnað að fá 10 á stærðfræðiprófum, sem og söguprófum.  Til þess þýddi lítið fyrir mig að segja að kennarinn hefði rangt fyrir sér, til dæmis þegar hann sagði að 2+2 væru fjórir, eða kvaðratrótin af 4 væri 2.  .  Og Möndluveldin voru Þýskaland, Ítalía og Japan, en ekki til dæmis Þýskaland, Bretland, Rússland, þó þau hefðu átt ágætt samstarf í stríðinu við Napóleon, og þá reyndar forveri þýska ríkisins, Prússland.

Staðreyndir eiga að vera einstrengilegar.

Og þú bullar út í eitt Hörður minn, og þú skalt halda þig við Pál, ef þú vilt ekki vera afhjúpaður. 

1.  Tryggingasjóður innlána er sjálfseignastofnun, ábyrgð ríkisins fólst í að stofna hann eftir viðurkenndum reglum ESB, sem var gert og hann er í fullu samræmi við þau lög.  1-0 fyrir mér.

2. Það starfaði enginn banki undir verndarvæng íslenska ríkisins, eftir að Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru einkavæddir.  Ef þú ert að vísa í stofnun útibús Landsbankans í Hollandi, þá var það stofnað eftir samevrópskum reglum, settar af framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins.  Ísland tók upp þær reglur, samdi þær ekki.

2-0 fyrir mér.

3. Einkabankar eru hvergi á forræði heimalands, til dæmis sem betur fer fyrir Bandaríkjamenn, annars væru þeir núna að skila stórfé sem bandarískir bankar hirtu í Evrópu og víðar, áður en  þeir fóru á hausinn.

3-0 fyrir mér.

4. Málið er ekki flókið, það eru ekki margar víddir á því.  Skýr lög eru skýr lög.  Það er ekki ríkisábyrgð á innlánum, það hefur framkvæmdarstjórn ESB staðfest.  Hafir þú aðra skoðanir á því, þá skaltu ónáða hana, ekki mig.  Í leiðinni getur aðstoðað alla þá ökumenn sem núna greiða sektir vegna brota á umferðarlögum, til dæmis að þegar hámarkshraði er 60, en þeir keyra á 80, segðu þá löggjafanum að hann hafi ætlað að segja 80, eða að 60 þýði 80 ef "innta" laga ESB er skoðað.   Trúðu mér samt, það mun enginn hlusta á þig.

4-0 fyrir mér.

5. Það er engin að tala um fórnarlömb.  Þegar glæpur er framinn, þá er hann refsiverður.  Það er brotið sem er refsivert, menn sleppa ekki að kæra þegar brotið er á þeim vegna þess að þeir óttast að það séu til önnur fórnarlömb, eða ofbeldismaðurinn eða lögbrjóturinn sé líka fórnarlamb.  Kannski á hann sér málsbætur, var strítt í skóla, en það afsakar ekki morð, það afsakar ekki fjárkúgun eða handrukkun.

Grunnregla almenns réttarfars er að menn innheimta ekki kröfur án þess að hafa löghelgað hana fyrir dómi.  Það hafa bretar ekki gert, og eru því fjárkúgarar samkvæmt breskum og íslenskum lögum.  Það var enginn að tala um fórnarlömb.  Aðeins beinharðar staðreyndir.

5-0 fyrir mér.

6. Já hvað var aftur númer 6, að það að opna banka og taka við innlánum, er það að stela peningum??? Góð spurning sem til dæmis  hann Ersa hélt fram.  Líklegast ert þú samt að meina að fyrst þeir fóru á hausinn.  En núna er allflestir stórbankar Evrópu á framfæri evrópska seðlabankans eða bresku og bandarísku ríkisstjórnarinnar.  Með öðrum orðum fallít ef eðlilegar reglur giltu.  

Eru þetta þá bara allt þjófar Hörður??'  Það er efinn, 0-0.

Samtals í 6 leikhlutum er staðan 5-0, þú náðir að segja eitt sem var ekki augljóst bull.  Þykir reyndar ekki slæmt hjá ykkur borgunarsinnum.

En það er þetta með sorann, það er kannski betra að bulla rökunum en að sætta sig við sína andlegu eymd.

Þú ættir kannski að halda áfram að skálda rök í málinu Hörður, mæli með því.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.12.2010 kl. 11:26

3 identicon

Sæll Ómar minn.

Ég vona að þú komist í jólaskap yfir þessum stórsigri! Þó þú hafir unnið stórsigra í grunnskólanum með einstrengislegum viðhorfum þá trúi að í lífinu sjálfu gefir þú fólki möguleika á að svara fyrir sig.

1) Sem betur fer eru til lög um fjármálastofnanir. Fjármálaeftirilitið veitir þetta leyfi og ef mig misminnir ekki er það

á ábyrgð fjármálaeftirlitsins, seðlabankans og ráðneyti bankamála að framfylgja þessum lögum sem og að sjá um eftirlit með leyfishöfum (bönkunum). Ég og þú getum ekki stofnað banka eða útibú í ESB ríki nema undir verndarvæng þessara lögbundnu eftirlitsaðila. Sem betur fer bönnuðu þessir aðilar Kaupþing að starfrækja útibú í Lux og Bretlandi sem er þó önnur saga, en ekki síður áhugaverð!

2) Hér ætla ég að vitna í 5 liðum í ágætan mann til þess að svara mörkum tvö - sex.

"1) Ef eigendur og stjórnendur Landsbankans hefðu rekið fjárplógsstarfsemi sína í Bretlandi og Hollandi í formi dótturfyrirtækis en ekki útibús, væri lágmarkstrygging sparifjáreigenda á ábyrgð gistiríkjanna (Bretlands og Hollands) en ekki heimalands bankans (Íslands),

- þá væri enginn Icesave-reikningur til.

(2) Ef Alþingi hefði lögleitt rammalög ESB (94/19/EB) um lágmarkstryggingu sparifjár árið 1999 með sama fyrirvara og t.d. Norðmenn (og fleiri EES-ríki), nefnilega að trygging tæki aðeins til innistæðureikninga í innlendum gjaldmiðli, þá hefðu íslensku bankarnir orðið að reka sína starfsemi erlendis í formi dótturfyrirtækja. Þar með hefði eftirlit og innistæðutrygging verið á ábyrgð gistiríkjanna.

- Þá væri enginn Icesave-reikningur til.

(3) Ef eftirlitsstofnanir ríkisins, Seðlabanki og fjármálaeftirlit, hefðu sinnt embættisskyldum sínum og nýtt ótvíræðar lagaheimildir (sbr. t.d. lög um fjármálastofnanir nr. 161/2002) til að knýja eigendur Landsbankans til að reka fjáröflunarstarfsemi sína erlendis í formi dótturfyrirtækis, en ekki útibús, þá væri sparifjártryggingin á ábyrgð gistiríkjanna.

- Þar með væri enginn Iocesave-reikningur til.

(4) Ef eigendur Landsbankans og stjórnendur Seðlabanka og Fjármálaeftirlits hefðu fallist á kröfur Seðlabanka Hollands og breska fjármálaerftirlitsins um að færa Icesave úr formi útibús Landsbankans yfir í dótturfélag, í stað þess að synja þessum tilmælum með yfirlæti og hroka,

- þá væri enginn Icesave-reikningur til.

(5) Ef það sem hér hefur verið tíundað hefði verið gert í tæka tíð, hefði samþykkt Alþingis á lögum nr. 125, 6. okt. 2008 (neyðarlögin) um að íslenska ríkið bæri ábyrgð á öllum innistæðum í íslenskum bönkum ekki haft í för með sér mismunun viðskiptavina bankannna eftir þjóðerni, búsetu o.s.frv.. Þar með hefðum við ekki gert okkur sek um ótvírætt brot á jafnræðisreglunni. Þar með hefði Ísland ekki bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart 400 þúsund erlendum innistæðueigendum fyrir allt að 4 milljörðum evra. Þar með hefði Ísland hugsanlega getað farið dómstólaleiðina, án þess að taka þá áhættu að fá allan Icesave-reikninginn í hausinn, í staðinn fyrir helminginn, þ.e. lágmarkstrygginguna, eins og núv. samningur kveður á um.

- Allavega væri þá enginn Icesave-reikningur til."

Hafðu það gott fyrir austan!

Kv. Hörður

Hörður Arnarson (IP-tala skráð) 9.12.2010 kl. 12:11

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hörður minn. Þetta eru ótrúleg hringrök.  Ég vil bara minna þig á að ríkið hefur ekki viðurkennt ábyrgð á þessum reikningum og getur það hreinlega ekki af því að ekkert segir ríkið eiga gera það.  Ef þú ætlara að fara að telja orsakavalda ábyrga í 4. eða fimmta lið, þá geturðu til dæmis lokað langömmu Jóns Ásgeirs inni fyrir afglöp hans. Þú gætir líka kennt Kærnested um kvótabraskið með svona súrrealískum rökum. 

Innistæðutryggingakerfið er og var á ábyrgð bankanna og ef þú ætlar að klína þessu á okkur í gegnum handvömm í eftirliti, þá vil ég að þú horfir til Hollendinga og Breta og þeirra eftirlits. Það voru þeir sem gáfu leyfi fyrir starfseminni þrátt fyrir að margir bankaforkólfar þar úti hafi varað við þessu.  Öll eftirlit brugðust, en fyrst og fremst eftirlit Breta og Hollendinga. Íslenska eftirlitið gerði þá handvömm að álykta að þetta væri í lagi vegna þess að hiniir sögðu þetta í lagi.

Það er sama hvernig þú reynir að snúa þessu; Íslenskri alþýðu ber ekki að greiða þetta. Ef ágreiningur er um það, þá er best að láta dómstóla um málið. Það vilja samningsaðilar okkar alls ekki.  Af hverju heldur þú að þeir hafi dömpað kröfum svona mikið niður?  Málið er að þeim er fjandans sama um peningana. Þeir vilja fá lagalegt fordæmi til framtíðar um að skella skuldinni af prívat glæpastarfsemi á alþýðu manna, auk þess sem þeir geta ekki fyrir nokkurn mun viðurkennt að klúðrið sé þeirra. Þar hangir margur pólitískur framinn á bláþræði.

Við berum nú mikla ábyrgð gagnvar öðru fólki í öðrum löndum á að festa ekki þetta fordæmi. Ef við höfnum þessu aftur, eru þeir vísir til að sættast á þúsundkall bara til að foræmið sitji. Um það snýst þetta og það er ofurvald glæpsamlegra bankstera í ríkistjórnum þessara landa, sem þrýstir á þetta.  Hér á landi er heill flokkur leikbrúður þeirra, sem kallast samfylkingin. Allar þeirra gjörðir fram að þessu eru til þjónkunnar við auðrónanna.  

Jón Steinar Ragnarsson, 9.12.2010 kl. 12:52

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Glæsileg grein hjá þér Ómar og enn glæsilegra svar.

Ekki dettur nokkrum manni í hug að borga reikning nema hann hafi fulla sönnun fyrir því að lagaleg skylda bjóði honum slíkt.

Hér fyrr á öldum og fram eftir þeirri tuttugustu var algegt að þeir sem kölluðu sig héraðshöfðingja, áttu jarðir sem þeir oftar en ekki komust yfir með ólögmætum hætti, kúguðu sína leigendur og sveitunga. Oftar en ekki endað sú kúgun með því að "höfðinginn" hafði allar eigur af þeim sem hann kúgaði og rak hann síðan á guð og gadinn. Sem betur fer er þetta nánast útdautt.

Nú sjáum við samskonar óréttlæti, sterkar þjóðir sem eiga sína tilveru og styrk að þakka yfirgangi og frekju við aðrar þjóðir og lögðu þær hiklaust undir sig, eru nú að krefja okkur um ólögmæta skuld. Ef lögmæti skuldarinnar væri jafn tært og Hörður vill láta, er engin hætta á að þessar þjóðir væru að eyða tveim árum í samninga við okkur. Þær hefðu einfaldlega vísað málinu fyrir dóm.

Svo einfalt er það nú.

Gunnar Heiðarsson, 9.12.2010 kl. 13:04

6 identicon

Jón Steinar!

"Innistæðutryggingarkerfið er og var á ábyrgð bankanna". Innistæðutryggingarkerfið er til þess að tryggja það að neytendur fái lágmarkstryggingu ef í harðbakkann slær. Eftirlitið er í höndum þeirra sem veita bankanum starfsleyfi.

Dómstólar í Evrópu koma til með að dæma íslenska ríkið til að gæta jafnræði óháð þjóðerni. Það þýðir að við verðum að greiða öllum innistæðueigendum í Hollandi og Bretlandi upp í topp en ekki bara þessar 20.877 evrur per mann.

Þeir sem vilja fara dómstólaleiðina eru að taka mikla áhættu með okkar litla sæta ríki. Þeir eru hinir nýju útrásarvíkingar!

Hörður Arnarson (IP-tala skráð) 9.12.2010 kl. 13:23

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaðir félagar Gunnar og Jón, takk fyrir innlitið.

Jón Steinar, mér líst vel á þetta með ömmu Jóns Ásgeirs, Hörður getur líka lagt fram sína ömmu.

Takk Gunnar, gaman að einhver hafi lagt það á sig að lesa sig í gegnum hana.  En þetta er kjarni málsins, svona má ekki, og það er sjúkt að styðja svona framkomu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.12.2010 kl. 14:23

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Hörður.

Þú er ráðgóður í merkingu þess að þú átt gott með að þiggja ráð.  Það er satt að segja miklu betra að ímynda sér að maður hafi rök, jafnvel þó þau séu skálduð, hvað þá ef maður fær fyrrum utanríkisráðherra landsins til að skálda þau, en að þurfa að horfast í augun á að sori hafi yfirtekið sál manns.

Og ég ætla að una þér þess.  

Kannski eitt áður, þetta með neytendaverndina hans Jóns Baldvins, Jón er skáld og skilur því ekki eðli lagasetninga.  Markmið eru góð og gild, oft mjög skáldleg, en það er samt útfærsla laganna sem gildir.  Til dæmis ef þú setur í lög sem eiga að tryggja frið á jörðu, og tekur fram ýmis háfleyg markmið, endur eigi ekki að borða orma og ljón gæslumenn, jafnvel fólk eigi að vera gott við hvort annað, kallar lagabálkinn lögin um frið á jörðu, þá nærð þú ekki markmiði þeirra með því að setja inn aðeins eina málsgrein, fólk eigi að kaupa friðarkerti a.m.k. einu sinni á ævi sinni, til þess tryggja friðinn.  

Eins er það með lög um neytendavernd, þau eru örugglega ágæt, en það er framkvæmd þeirra sem gildir, og hún fer eftir ákvæðum þeirra lagatexta sem í lögunum er. Þessi tiltekna neytendavernd er tryggð með kerfi, sem veitir ákveðin réttindi, en fjármögnun þess er í höndum fjármálafyrirtækja.   Og sú fjármögnun brást, og ábyrgðin er þeirra sem settu lögin, ekki þeirra sem fóru eftir þeim.

Líklegast vegna þess að ESB hefur ekki vald til að ákveða einhliða ríkisábyrgð fyrir aðildarríki sin, hvað þá lönd EFTA, án þess að viðkomandi þjóðþing samþykki þann lagatexta, og ekkert þjóðþing hefur vald samkvæmt stjórnarskrám og mannréttindasáttmálum, að samþykkja ríkisábyrgð sem er ótakmörkuð og getur ef illa fer rústað fjárhag heilla þjóða, og hneppt íbúana í eilífðar skuldaþrældóm.

Annað, ef og hefði eru aldrei rök í málinu.  En ef þú kýst að nota þau, vertu þá skáldlegur eins og Jón Banldvin.  Til dæmis þá væri ekkert ICEsave ef við hefðu aldrei sagt skilið við Danakonung.  Eins ef Þjóðverjar hefðu unnið stríðið.  Já, og ef við, í stað þess að ganga í EES, að þá hefðum við beðið um inngöngu í Rússneska ríkjabandalagið, og orðið sjálfsstjórnarlýðveldi, þá værum við Rússar og ættum kannski fótboltalið sem væri ekki gjaldþrota.

En þetta ef og hefði var ekki í lögum ESB, og ekki í íslenskum lögum, því miður.

En það sem þú áttar þig seint á, sem líka er rök fyrir því að það er ekki sorinn sem stjórnar þér, er að það sem þú nefnir, það er ekki þitt eða mitt, að meta.  Og ekki í færi eins eða neins, nema hann sé þá dómari.  Ráðherrar geta sagt að þeir óttist dóm fyrir mismunun, þó þeim rökum hafi verið hnekkt, þá geta þeir samt óttast það.  

En það gefur þeim samt ekki vald til að ráðstafa skattpeningum þjóðarinnar á ólöglegan hátt eftir geðþótta sínum.  Af hverju???  Annars værum við ekki með lýðræði, heldur gerræði, eða kannski geðþóttaræði.  Kannski var rökin bara tilbúningur þegar raunin var mútur.  Eða hótanir, til dæmis að barnabarn sé í höndum mafíunnar eða eitthvað álíka.

Þess vegna gilda skýr lög um ríkisábyrgðir, þær eru ekki afturvirkar, og þær eru endanlegar, það er upphæð þeirra er þekkt.  

Og sé gerð krafa í ríkispening, þá þarf hún að vera lögleg.  

Sé um þessa skaðabótaábyrgð að ræða, eða meint brot vegna mismunar, þá þurfa bretar dóm.  Annars er þetta eins og hverjar aðrar fullyrðingar, eins og fullyrðingar frá félagi geimvera að ef þær fái ekki allar hreinar meyjar landsins, þá munu þær sprengja Heklu upp fyrir klukkan 19. á morgun, eða eins og kröfur Al Kaida, krafa um eitthvað og hótanir eru rökin.

Þetta er hin einfalda regla réttarríkisins sem býr að baki fyrstu fullyrðingu minni, um að bretar hlupu á sig.  Og um þessa reglu er ekki rifist.  Þeir sem sögðu að Ísland væri í ábyrgð, héldu að það stæði í EES samningnum, þegar þeim rökum var hnekkt, og augljós vafi í málinu, þá rífast menn ekki um að slíkt sé afgreitt með dómi, eða látið niður falla.

Og af hverju fara bretar ekki með kröfur sínar fyrir dóm.  Ég skal gefa þér tvær ástæður. 

1. Meint mismunun er ekki æðri neyðarrétti þjóða, enda ný réttarregla meðan hin er aldagömul.  Og bretar geta ekki kært aðra fyrir meinta mismunun þegar þeir sjálfir beittu henni þegar þeir björguðu sínum bönkum.  Þú kærir ekki annan fyrir það sem þú gerðir sjálfur.

2. Mislukkað eftirlit, eða ónýtt eftirlit, eða ekkert eftirlit.  Vissulega mætti reyna þó slík afglöp geta aldrei skapað ríkjum skaðabótaskyldu sem nemur verulegum upphæðum, það er ekki hægt að dæma ríki í neyð.  En hvernig ætla bretar að flytja það mál.  Gerðu þeir alvarlegar athugasemdir við það eftirlit???  Svarið er mjög einfalt, þeir hrósuðu því, og það er skjalfest.

Og þeir misstu sjálfir sína banka í þrot, banka sem voru miklu stærri og miklu lengri sögu.  Hvernig geta þeir sagt að íslenku bankarnir féllu vegna slælegs eftirlits, þegar farið var eftir í einu og öllu eftir reglugerð ESB, og vandinn sem íslenska eftirlitið gerði sér ekki grein fyrir, að breska eftirlitið yfirsást það líka með þeirra banka.

Þú kærir ekki fyrir það sem þú gerðir sjálfur.

En vissulega mega bretarnir reyna, en þeir hafa ekki reyntÞess vegna heitir krafa þeirra fjárkúgun samkvæmt þeirra eigin lögum.  Og íslenskir ríkisborgarar sem styðja hana, þeir verða að gera það upp við sig hvort þeir eru nautheimskir, og skilji ekki einföldust réttarreglur um hlutverk dómsstóla, eða þeir hafa sýkst af sora mannlegrar hugsunar, að styðja kúgun og ofbeldi í nafni hugmyndafræðar.

Þitt er valið Hörður, en haltu þig samt við skáldskapinn.  

Mér lýst ekki á sorann.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.12.2010 kl. 15:28

9 identicon

Heill og sæll Ómar jafnan; sem og gestir þínir, aðrir !

Hörður Arnarson !

Það er einmitt; fyrir fólk af þínu tagi, sem Íslendingar (sem; hafa reyndar ekki rænu á, sýnilega), þurfa að losna við, ætti endurreisn að verða mögu leg, hér.

Ég áætla; að þið úrhrökin, séu um, 6 - 8000, sem brýnast væri að losna við. Að öðrum kosti, skora ég á alla hugsandi samlanda, sem þess eiga kost, að hypja sig - hver; sem betur getur, héðan,, áður en inni læstust, í þræla kró Breta og Hollendinga, undir öruggri leiðsögn Evrópusambandsins.

Fólk eins og þið; Hörður minn, sem leggið allt undir, að landsmenn leggist undir ok Breta og Hollendinga, í þágu skrílmenna þeirra, sem með Banka völd fóru, í boði níðinganna: Davíðs / Halldórs og Jóns Baldvins, hljótið að hafa eitthvað slæmt á samvizkunni - ólíkt; okkur hinum, sem ei hlaupum upp til handa og fóta, í þágu gömlu nýlendu veldanna.

Hörður minn !

Þú ættir að skammast þín, fyrir að kalla þig Íslending, ágæti drengur.

Með; hinum beztu kveðjum samt, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.12.2010 kl. 17:02

10 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ég er nokkuð sáttur bara

Óskar Þorkelsson, 9.12.2010 kl. 17:36

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið nafnar.

Óskar, Hörður er þagnaður hér, kemur ekki aftur.

Sleikir sárin hjá andlegum leiðtoga sínum.

En þetta er ekki félegar fréttir sem berast frá yfirstétt landsins.  Þeir láta fólk svelta, en eiga nóg af peningum þegar kemur að því að tryggja sér rauðvín og snittur í Brussel.

Skítapakk.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.12.2010 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 7
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 453
  • Frá upphafi: 1412815

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 392
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband