Hvar eru endamörk trúgirni fólks?????

 

Myndi fólk trúa því að Jóhanna væri í kjól þó hún kæmi á nærhaldinu fram á blaðamannafundi, bara ef Ruv greindi frá því í næstum því beinni útsendingu.

Myndi það trúa því að Steingrímur Joð Sigfússon hafi sömu stefnu í stjórn og stjórnarandstöðu ef Ögmundur sæti hjá honum á blaðamannafundi  og kinkaði kolli ábúðarfullur.

Mun fólk trúa að markvisst sé verið að leysa skuldavanda heimilanna????

 

Veit ekki, efa að almættið ætti svar við þessari spurningu.

 

Hvað segir sagan okkur???

Jú, þetta er fjórða leiksýningin um aðgerðir til lausnar skuldavanda heimilanna, í öll skiptin var um lokalausn að ræða, "fullnægjandi", "ekki meira hægt að gera", "ekki hægt að bjarga öllum". 

Annaðhvort er þessi skuldavandi lífseigur draugur sem lætur ekki svo glatt kveða sig niður, eða um úthugsað plott er að ræða að nota sér trúgirni fréttamanna Ruv til að fá reglulega fjölmiðlaathygli án þess að hafa neitt nýtt til málanna að leggja.  Treysta á að fá aldrei spurninguna, "af hverju ættum við að trúa ykkur núna, þið sögðu það sama á blaðmannafundi fyrir 6 mánuði síðan, fyrir 10 mánuðum síðan, fyrir .....".

 

Og hvert er innihaldið hefur það sést áður???

Vissulega verður að viðurkenna að í fréttum þá kemur ekki fram orð Jóhönnu Sigurðardóttur, "við munum skoða" og það er frábrugðið fyrri yfirlýsingum.  

Og núna er talað um "sértæka skuldaaðlögun", en á leiksýningu 2 og 3 var talað um greiðsluaðlögun, jafnt sértæka sem almanna eða sérsniðin greiðsluúrræði.  Þannig að blæbrigði eru í orðanotkun.

 

Eins er talað um samkomulag milli fjármálastofnanna annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar um endurskipulagningu skulda.  Áður var talað um að fjármálastofnanir yrðu að endurskipuleggja skuldir fólks en þeim sem slíkum falið sjálfdæmi í því.

Og vissulega gerðu fjármálastofnanir það.  Meginregla þeirra var að bjóða fólki með traustan fjárhag afskriftir á skuldum þannig að eftirstöðvar lána þess var 110% af fasteignamati eignar.  

Núna hefur ríkisstjórnin skrifað undir samkomulag við fjármálastofnanir um að þau framfylgi þessari meginreglu sinni.  Kannski var þörf á þessu svo einstaka vildarvinir fengju ekki meiri afskriftir eða einhver bankastofnun hlypi út undan sér og afskrifaði til dæmis niður í 90% af veði til að auka greiðsluvilja og þar með innheimtur.  Óneitanlega er klókt að hindra slíka skynsemi.

En það skal viðurkennast að hugsanlega fær fólk afskrift niður í 110% sem hefði ekki fengið hana og er þá aðallega um að ræða fjölskyldur sem skulda rétt yfir 110% en standa tekjulega undir lánum sínum.  Hvort það sé líklegt að bankar hefðu þorað að skilja góða viðskiptavini  eftir óleiðrétta þegar allir vafasömu pappírarnir höfðu fengið fyrirgreiðslu, skal ég ekki dæma.  Það er það sem er.

 

Eftir stendur yfirlýsingin um vaxtabætur, ríkisstjórnin tilkynnti í haust að hún ætlaði að skerða þær, núna er hún hætt við.  Óneitanlega dálítið fyndið hvað margir gleypa við þessu trikki.  Spurning hvort hægt sé að leysa vandann á vinnumarkaði með sama bragði.  Setja á neyðalög sem lækka öll laun um 30%, draga þau síðan til baka og kalla það efnahagsráðstöfun.  

Og svo er það auðvita sjálf jólagjöfin, sértækar vaxtabætur upp á 200-300 þúsund hjá mestu skuldasukkurunum. 

En hver er raunveruleikinn á bak við þessa tillögu????   Eftir þrotlausa vinnu í margar vikur????  Kannast einhver við orðalagið???

"Ríkisstjórnin mun í samstarfi við aðila samkomulagsins leita leiða til að fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir fjármagni þessi útgjöld."

Hefur einhver heyrt þetta áður?????  Skyldi leitin standa lengi yfir????

Ætli ekki að spá, hef ekki skyggnigáfu.  Vonum það besta, platjólagjafir eru alltaf leiðinlegar.

 

Þegar innihald þessarar leiksýningu er skoðað, þá er ljóst að um sama leikritið er að ræða, með sömu gagnrýnendunum.  Og eins og samtök fjármálafyrirtækja segja, þá er um "raunhæfa lausn" sem "tekur á vandanum í eitt skipti fyrir öll".  Og mér segist svo hugur að forseti ASÍ muni tala um  hugrekki og tímamót.  Og einhver af hagfræðidvergum háskólans muni mæta grátklökkur í Kastljós og vitna um að í dag hafi skuldavandinn verið lagður að velli í eitt skipti fyrir öll.

 

En ég, óskyggni maðurinn ætla samt að spá nýjum blaðamannafundi innan ekki svo langs tíma.  

Vegna þess að það er ekki verið að kveða niður réttan draug.  Það er aðeins verið að kveða niður óánægjudrauginn, sem ógnar tilvist alræðisvalds fjármálamanna yfir þjóðfélaginu.  Og það mun ekki takast þó allt mútufé þeirra á fjölmiðlum syngi samraddaðan upphafningarkór.

Því raunveruleikinn sigrar alltaf lygina.

 

Raunveruleikinn mun sökkva þessu þjóðfélagi ef heil kynslóð fólks er skilin eftir í þrældómi og fátækt.  Og keyptur her fjölmiðla og stjórnmálamanna mun ekki geta haldið óánægju fólks í skefjum.

Þjóðin mun rísa, og þá mun stjórnvöld í örvæntingu sinni boða til nýs blaðamannafundar, kannski jafnvel með nýju handriti, kannski þá með einhverjar raunhæfar lausnir, en kannski með sömu tugguna.

Ég treysti mér ekki til að spá um hvort sá fundur dugi til að róa lýðinn.  Raunveruleikinn er ekki stærðfræði þar sem þegar komin runa endurtekur sig aftur og aftur eftir sömu reglunni.  Velheppnaðar blekkingar í fortíðinni eru ekki forspá þess sem mun gerast í framtíðinni.

Ef ég væru þau Jóhanna og Steingrímur, þá færi ég í alvöru að kynna mér nútímasögu Rúmeníu.  Ef illa fer þá er meira í húfi fyrir þau en marga aðra.  Reiði vill fá útrás.  Og þá er ekki víst að það dugi að ljúga sig út úr vandanum með því að lofa gera eitthvað eftir helgi.

 

Ég myndi varlega treysta á óendanleika trúgirni fólks.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


mbl.is Skuldir færðar niður í 110%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góður pistill Ómar, ég óskyggn maðurinn ætla að spá fyrir um að það á eftir að koma Jóhönnu verulega á óvart hve fáir "nýta" sér úrræðin og hvað lánastofnanir draga lappirnar.  Og þá er bara að bíða eftir 5. leikþætti, hef ekki trú á að Rúmeníu dramað verði endurtekið á Íslandi.

Magnús Sigurðsson, 3.12.2010 kl. 16:05

2 identicon

Já þú ert búinn að taka utan af jólapakkanum strax! Bara umbúðir, ekkert innihald. Hvað er að gerast með jólasveininn er hann genginn í Samfylkinguna eða voru það bara Grýla og Leppalúði sem komu til byggða og jólasveinarnir komnir á bæturnar.

Sveinn Úlfarsson (IP-tala skráð) 3.12.2010 kl. 16:23

3 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Það er of langt um liðið frá síðustu mótmælum svo Jóhanna/Steingrímur skilji að fólk lætur ekki bjóða sér eignaupptöku í boði bankana með fulltingi ríkisins. Óttinn sem varð þess valdandi þá að gera átti allt til að hjálpa heimilunum strax daginn eftir er farinn.

----

Þess vegna gerist ekki neitt.

Guðmundur St Ragnarsson, 3.12.2010 kl. 16:38

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Magnús.

Þetta er góður dagur fyrir góða pistla, ég tók snögga skoðun á bloggheimum áður en ég settist við pikk, og þá rakst ég á stórgóðan Öfugmælapistil, sem fór í geymslu til frekari skoðunar, enda dugar varla heil vika til að melta hann.  Takk fyrir það.

Það er þetta með þjóðina og lærdóminn, Jóhanna var allavega náföl þegar þjóðin kíkti á hana þarna í haust, og þá lofaði hún öllu fögru.  Hvað gerist þegar fólk kemst að því að hún var bara að plata allan tímann????

Allavega getur Jóhanna ekki fölnað meira, og líklegast ekki logið aftur, þannig að ég tæki ekki annan leikþátt í hennar sporum.  Ef til dæmis forsetinn í Rúmeníu hefði bara sagt að sér, í stað þess að boða til nýrrar leiksýningar, þá hefði hann kannski ekki fengið hinn endanlega dóm.  

Trúgirni fólks er nefnilega ekki óendanleg.

Og raunveruleikinn afhjúpar allar lygar, jafnvel þó allt mútufé ESB básúni þær um land og mið, þá mun skuldakreppan aðeins harðna, og núna er enginn séreignasparnaður til reiðu til að brúa bilið.  Leið sem er ekki fundin, mun ekki brúa bilið, og jafnvel þó hún finnist, þá dugar hún stutt yfir gjána.

Ég mæli með lærdómi sögunnar.

Jóhönnu vegna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.12.2010 kl. 17:59

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Sveinn.

Það er nú ekki útséð um leiðina sem er í leitun, hvort hún finnist.  Vissulega er einhver nýmæli í henni, fyrir kosningar þá sagðist Jóhanna hafa leyst allan vanda með rúmum 2 milljörðum í vaxtabætur, svo núna hlýtur fólk að hafa afgang, fyrst að á að þrefalda þær.

Er ekki Jólasveinninn annars búinn að fá vinnu á skrifstofu ASÍ, þarna til hægri á ganginum hjá Vinnuveitendasambandinu???  Kallast hann ekki forseti eða eitthvað svoleiðis, allavega var einhver jólasveinn að tala um að jólapakkinn nýttist mörgum, það hlýtur að vera sá sem gaf hann.

En þó Grýla sé gömul og grettin, þá leggur hún ekki æru sína við svona fals.  Allir skemlar hafa æru, það er viss takmörk fyrir allri ósvinnu.

Grýla er kom ekki nálægt þessari samsuðu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.12.2010 kl. 18:05

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðmundur.

Þetta fólk spilar allavega djarft.  Ég klökknaði allur þegar ég hlustaði á Hallgrím spjalla við Jóhönnu.  Hann var ennþá alvarlegri núna en í mars þegar hann tók sama viðtal, og endaði á þeim orðum að núna yrði fólk að skilja að nóg hafi verið gert, það yrði að fara að notfæra sér þau úrræði sem í boði eru.

Ég skildi loks af hverju það er betra að leika sama atriðið aftur í stað þess að endurspila það til að spara tíma og fé.  

Þeir sem eru í æfingu, þeir ná alltaf betur og betur tökum á alvöru málsins.

En það er eitt sem ég skil ekki, af hverju er bara talað um aðgerðir sem kostuðu rúmar hundraða milljarða.  Af hverju taka menn ekki allan pakkann, það er þegar búið að afskrifa þúsundir milljarða af skuldum bankanna, af hverju er það ekki talið með.

Hallgrímur: "Jóhanna, núna hafa þúsundir milljarða verið afskrifaðar svo heimilin geti greitt skuldir sínar, fer þessu ekki að linna, fara heimilin ekki að ráða við sínar skuldir???"

Jóhanna: "Jú, það er ekki alltaf hægt að heimta meir og meir, núna verður fólk að fara að borga, hætta að treysta á fleiri gjafir ríkisstjórnarinnar."

Hallgrímur: "Er þetta lokapunkturinn??".

Jóhanna:  "Hallgrímur, eins og ég sagði við þig í vor, og þar á undan sumarið 2009, vorið 2009, í nóvember 2008, þá er þetta nóg, þetta er lokapunkturinn.".

Hallgrímur: "Þakka þér fyrir Jóhanna, ég vona að fólk skilji þetta, Núna.".

Svei mér þá, ég held að ég væri betri leikstjóri en spunakokkar Samfylkingarinnar, draminn er ekki nýttur.  Vonandi tekst að leiðrétta þetta fyrir grátviðtalið í sjónvarpinu í kvöld.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 3.12.2010 kl. 18:16

7 Smámynd: Hreinn Sigurðsson

Þakka þér fyrir frábærann pistil.

Hreinn Sigurðsson, 3.12.2010 kl. 18:49

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Hreinn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.12.2010 kl. 22:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 7
  • Sl. sólarhring: 69
  • Sl. viku: 2647
  • Frá upphafi: 1412705

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 2311
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband