27.11.2010 | 10:34
Núna er ögurstund landsbyggðarinnar runnin upp.
Og hún felst ekki í kosningum til stjórnlagaþings.
Hún felst í því hvort við viljum halda í byggð í núverandi mynd, eða hvort við ætlum að leyfa stjórnvöldum að vega að grundvelli hennar með fjármálahrunið sem afsökun.
Það reynir á úr hvaða efni leiðtogar landsbyggðarinnar eru gerðir.
Eru þeir deig sem leiðtogar flokka þeirra geta mótað til að vild þannig að öll andmæli þeirra voru aðeins stormur í vatnsglasi, til þess eins að blekkja íbúa landsbyggðarinnar svo hægt væri að hafa "stjórn" á atburðarrásinni, eða eru þeir mótaðir úr sömu seiglunni og hélt lífi í forfeðrum og formæðrum þeirra í gegnum aldirnar.
Ríkisstjórnin hefur kastað grímunni, hún er hætt við beina atlögu, en í stað þess hefur verið mótuð stefna áfangaeyðingar, með sama markmiði. Að móta samfélag vinnufólks með lágmarks tilkostnaði, en hámarksafrakstri.
Í stað þess að nota fljótvirkt gas, þá á hægdrepandi sultur að ná sama markmiði.
Ríkisstjórnin talar um sparnað, hagræðingu, faglegar forsendur.
Hver einasta fullyrðing hennar hefur verið afsönnuð af starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar.
Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni hafa þegar sparað um 25-30% af raunvirði á síðustu þremur árum. Það er meiri sparnaður en samdrátturinn í þjóðarframleiðslu gefur tilefni til, meiri sparnaður en tekjutap ríkisins varð vegna fjármálahrunsins. Frekari niðurskurður er því pólitísk ákvörðun, ekki bein afleiðing tekjusamdráttarins.
Einnig má benda á grundvallaratriði hins siðaða manns, hann fjárlægir annan óþarfa áður en hann ræðst á sjúka og aldraða, slíkt er villimennska. Með fullri virðingu fyrir starfsemi ríkisins, þá er stofnannafjöldi þess og umfang, ekki í neinu takt við stærð þjóðfélagsins, þar má finna margfaldar þær upphæðir sem skilja milli feigs og ófeigs í starfsemi landsbyggðarsjúkrahúsa.
Einnig má benda á að um 40% af skatttekjum ríkisins af landsbyggðinni skilar sér aftur í nærþjónustu, krafa landsbyggðarfólk er því ekki krafa fátæklinga um ölmusu, heldur þvert á móti. Það var atvinnulíf höfuðborgarinnar sem hrundi, ekki landsbyggðarinnar. En landsbyggðinni er sendur hærri reikningur líkt og um nýlendu sé að ræða.
Rökin um hagræðingu hafa verið marghrakin. Bæði hafa Sunnlendingar, Skagfirðingar og Austfirðingar látið gera fyrir sig úttekt á hinum meintu fullyrðingum ríkisstjórnarinnar, og í sem styðstu máli, þá hafa þau rök verið marghrakin. Til dæmis reiknaði fagráðgjafi hjá Capacent út að hinn meinti 466 milljóna niðurskurður Heilbrigðisstofnunar Austurlands væri hugsanlega aðeins 68 milljónir, þó líklegast minni. Þá er ekki tekið tillit til samfélagslegs taps, atvinnuleysisbætur, minni skatttekjur sveitarfélaga, röskun á þjónustu, aukin ferðakostnaður íbúa og svo framvegis.
Fyrir þessar 68 milljónir á að eyðileggja tvær sjúkrastofnanir, og stórskaða þá þriðju.
Fyrir þessar 68 milljónir á að segja upp um 90 manns.
Skýring þess að ekki meira sparast er mjög einföld, það á ekki að aflífa fólk sem veikist á landsbyggðinni, það á að sinna þeim annars staðar, og þó að annars staðar sé mjög fjarlægt, þá gerist ekkert þar án kostnaðar.
Með öðrum orðum, um tilfærslu á kostnaði er að ræða, frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar.
Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki efnislega andmælt rökum skýrsluhöfunda, aðeins almenn orð um að vera ósammála ýmsum forsendum, án þess að tilgreina þær. Slíkt er háttur rökþrota fólks, það notar orð, ekki rök. Smiðir hins meinta sparnaðar vita eins og er að fagmenn Capacent eiga rök við öllum þeirra andmælum, því 2+2 er alltaf þekkt stærð.
Síðasta haldreipi eyðileggingarinnar er að þetta sé kalla tímans, að faglegar forsendur útskýri þessar breytingar. Eitt af úrhrökum mútufés ESB orðaði spurningu sína í fréttum Ruv, ".. eru faglegar forsendur látna víkja fyrir landsbyggðarpólitík?".
Þegar rökin halda ekki þá er blekkingum beitt.
Augljósasta rökvillan við þessa framsetningu er sú, að ef um faglegar forsendur sé að ræða, þá útskýrir þú hinn meinta niðurskurð með þeim rökum, ekki bulli um meintan sparnað. Og tekur slaginn á þeim forsendum.
Starfsfólk heilbrigðisstofnanna á landsbyggðinni hefur skrifað greinar í dagblöðin þar sem það hefur tætt í sig þessi rök lið fyrir lið. En við erum víst íbúar krummaskuða og því ekki marktæk, "tími til kominn að þið vaknið" orðaði Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar það, og sýndi þar með hug Andófsins í Reykjavík gagnvart samborgurum sínum á landsbyggðinni.
Gott og vel, við erum óvitar og ómarktæk. En Læknafélag Íslands er það ekki. Þar álykta menn ekki út frá óvitaskap eða meintu kjördæmapoti. Ég vil vitna í grein eftir Stein Jónsson formann Læknafélags Reykjavíkur.
"Á nýafstöðnum aðalfundi Læknafélags Íslands var samþykkt samhljóða ályktun þar sem varað er við þeim mikla niðurskurði í fjárframlögum til heilbrigðisþjónustu sem fyrirhugaður er í fjárlögum næsta árs. Alþingi og ráðuneyti voru hvött til að íhuga vandlega afleiðingar á vissum landsvæðum þannig að öryggi þegnanna verði ekki skert. .....
Alvarlegastar eru horfurnar á landsbyggðinni en fullyrt er að sjúkrahússtarfsemi víða úti á landi muni leggjast af í núverandi mynd ef þessi áform ganga eftir. Á sjúkrahúsum landsbyggðarinnar er nú sinnt bráðaþjónustu vegna algengra vandmála í lyflækningum og skurðlækningum á göngudeildum eða með innlögnum og smærri aðgerðum en erfiðari tilfelli send á stærri sjúkrahús. Vel menntaðir sérfræðilæknar hafa ráðið sig til starfa á landsbyggðinni og sinna mestum hluta sérfræðiþjónustu á staðnum. Þetta er skilvirk og góð þjónusta sem veitir landsbyggðarfólki nauðsynlegt öryggi. Afleiðingar af harkalegum niðurskurði eru ófyrirséðar. Hætta er á því að læknar flytjist af landsbyggðinni eða fáist ekki til starfa þar. Þann skaða yrði erfitt að bæta. Eftirspurn og þörf fyrir þjónustu mun ekki minnka. Flutningur sjúklinga í stórum stíl til Landspítala og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri vegna veikinda sem unnt er að sinna vel á sjúkrahúsum í heimabyggð er óskynsamlegur af mörgum ástæðum. Ekki hefur verið sýnt fram á að kostnaður við meðferð algengra vandamála á landsbyggðarsjúkrahúsum sé meiri en á stóru spítölunum. ......
Skynsamlegt væri að vinna að hagræðingu í nánu samstarfi við fagfólk á hverju landssvæði og stjórnendur sjúkrahúsanna út frá heildarhagsmunum. LSH og FSA eiga fullt í fangi með þau verkefni sem þessi sjúkrahús sinna nú þegar. Ástandið þar mundi versna til muna ef mikill fjöldi algengra vandamála af landsbyggðinni bætist við þeirra verkefni. Því er líklegt að stóru sjúkrahúsin væru betur sett með það góða samstarf sem verið hefur við landsbyggðarsjúkrahúsin. Læknasamtökin hafa mikla fagþekkingu á heilbrigðisþjónustunni í landinu. Ætla mætti að náin samvinna við lækna um leiðir til að spara en varðveita jafnframt mikilvægustu þætti þjónustunnar væri nauðsynleg á þessum erfiðu tímum. Heilbrigðisráðuneytið hefur þó ekki leitað eftir samvinnu við læknafélögin né önnur fagfélög svo vitað sé og ber því alfarið ábyrgð á þessum tilögum og afleiðingum þeirra. "
Þetta er ekki fagmennska, þetta er óskynsamlegt, læknar á landsbyggðinni eru ekki allan daginn að klóra sig í skallann, og þetta hefur í för með sér stóraukið álag á stóru sjúkrahúsin, álag sem þau standa ekki undir eins og ástand mála er í dag.
Skýrar er ekki hægt að slátra einni heimsku, sem fær því aðeins að lifa að til eru fjölmiðlaúrhrök sem nýta skattpening landsmanna til að breiða út óhróðri og blekkingum.
Eins og þjónusta þeirra við auðmenn hafi ekki verið nóg.
Það er ögurstund runnin upp, því niðurskurðurinn hefur ekki verið dreginn til baka, honum aðeins dreift á lengri tíma.
Það eru engin efnahagsleg rök fyrir þessum niðurskurði, fjármunina á að nota til að greiða bretum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vexti.
Dautt fjármagn er tekið fram yfir fólk og samfélag þess.
En dautt fjármagn hefur ekki atkvæðisrétt, og þó það geti keypt stjórnmála og fjölmiðlafólk, þá á það ekki okkur.
"Við erum þjóðin".
En við þurfum að skilja það og skynja, að núna er komið að okkur sjálfum, að verja líf okkar og limi. Barátta okkar er að sama meiði og er nú háð á vígvöllum Evrópu, dautt fjármagn er að eyða samfélögum fólks, eyða stofnunum þess og velferð.
En við erum fólkið, við erum fjöldinn.
Og við eigum ekki að láta bjóða okkur þessa framtíð.
Það er ögurstund runnin upp.
Kveðja að austan.
Spara þarf 570 milljónir 2012 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 8
- Sl. sólarhring: 41
- Sl. viku: 2648
- Frá upphafi: 1412706
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 2312
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góður, sannur og um leið beittur pistill þetta Ómar ! ættir að senda hann sem lesendainnlegg í mbl og fleiri.
Það sem verulega stendur þó uppúr að mínu mati er einkum tvennt (eða öllu tvær setningar sem tengjast) það þegar þú vitnar í Þór Saari "tími til kominn að þið vaknið" og svo kemur seinna beint frá þér : og þetta hefur í för með sér stóraukið álag á stóru sjúkrahúsin, álag sem þau standa ekki undir eins og ástand mála er í dag. þarna kemur þú inn á nokkuð athyglisvert ! hversvega í ósköpunum sjá ekki höfuðborgarbúar hættuna af einhliða niðurskurði heilbrigðisþjónustu landsbyggðarinnar, halda þeir virkilega að 1,3 milljarðar á næsta ári og 570 milljónir í 2012 komi svo heilsugeira staðsettum á höfuðborgarsvæðinu til góða ?
Manni sýnist þau haldi það, en svona er þetta auðvitað ekki, þar er og verður skorið einhliða niður líka, þannig að þá þurfa borgarbúar að bítast um enn færri sjúkrarúm, lækna og hjúkrunarfólk ekki bara sín á milli heldur bætist fólkið af landsbyggðinni við í stórum stíl, svo þessi barátta er allra ekki bara borg gegn landsbyggð eins og reynt er að setja þetta fram stundum.
þetta er baráttumál allrar þjóðarinnar, enginn hrepparígur.
MBKV að utan en með hugann heima
KH
Kristján Hilmarsson, 27.11.2010 kl. 12:47
Takk Kristján, en málið er mun dýpra en það. Þó kannski ekki margir kveiki, en þá snýst þetta ekki lengur um mig þig eða spara hér eða spara þar.
Sjálft kerfið er í húfi.
Það er rétt að byrja að þrengja að hengingaról AGS, en þegar hún er fullhert, þá verðum við með ákveðna grunnþjónusta hjá hinu opinbera, eigum við að kalla það skoðun og pilludreifing, en allt sem þarf að gera verður á einkabasis, og þeir fá sem borga.
Og AGS reynir ekki einu sinni að bera á móti því, benda á hið augljósa, að fyrst greiðir þú skuldir, síðan ráðstafar þú afganginum. Og ef þú átt ekki afgang í góð málefni, þá framkvæmir þú ekki góð málefni.
Formyrkvunin er í huga þjóðarinnar, dimman er svo mikil að fólk sér ekki hið augljósa, sér ekki ógnina sem við blasir.
Þú rekur ekki nútímaþjóðfélag á 30-40% af tekjum ríkisins, en restin fer í vexti og afborganir. Segir sig sjálft, alls staðar um allan heim, nema á Íslandi.
Hér er þetta kallað endurreisn efnahagslífsins.
En nóg um það, staðan er 1-0 fyrir AGS, finnst það líklegast miðað við deyfðina að fólk ranki ekki við sér fyrr en uppsagnirnar og lokanir skella á. Þá kem ég aftur, og brýni rætniskutann, og athuga eldfærin sem þarf til að kveikja bál.
En núna eru það jólin og jólaundirbúningurinn, andófið virðist vera búið í bili. Jafnvel munu sumir lýsa yfir sigri, og þá sérðu hverjir voru allan tímann í ríkisstjórnarliðinu, tóku þátt í blekkingarleiknum.
Verður fróðlegt að sjá.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 27.11.2010 kl. 14:24
Ef það væri nú svo vel Ómar ! að það sé jólaundirbúningurinn sem slær þessari blindu á fólk, það er ekki kominn desember enn einu sinni, nei skorturinn á and´fi liggur "dýpra" en það.
"en málið er mun dýpra en það" skrifar þú ! og bætir við "Sjálft kerfið er í húfi" ég er sammála þessu auðvitað, en þegar þú svo segir 1-0 fyrir AGS erum við komnir í hring, ekki satt ? því á meðan fólk heldur að hér sé um "hrepparíg" að ræða og að þetta sé eitthvað svona "þið og við" dæmi, þá er hætt við að leikar munu standa AGS í vil þónokkra stund í viðbót.
Svo það að sameina þessa rugludalla landa vora Ómar ! og fá þá til að sjá hvað er að gerast, er í besta falli gífurlegt, ef ekki vonlaust verkefni, allar þessar "afsporanir" margar hverjar settar á svið af stjórnvöldum til halda lýðnum uppteknum og í gerfivon um eitthvað betra, gera sitt líka, því miður.
MBKV
KH
Kristján Hilmarsson, 27.11.2010 kl. 15:29
Jú Kristján, ég er að þrífa gluggana, svo er það aðventan og andinn. Reikna með að svipað sé í gangi hjá öðrum, það er allt eitthvað svo rólegt.
Ef við hefðum ekki Gunnar og Jónínu, þá mældist ekki hreyfing á þjóðarsálinni.
Ekki veit ég hvað hring ég hef tekið, viðurkenni bara ósigur þegar ég bíð hann. Reiknaði með meiri látum, jafnvel að fólk segði hingað og ekki lengra. Sé það ekki í stöðunni núna, en veit náttúrulega ekki. Ég er allavega búinn að reyna mitt til að skapa nornasveim gegn ríkisstjórninni svo hún dragi þessar uppsagnir til baka. Málið að það þurfa mörg síli í torfunni að hreyfa sig í sömu átt, til að torfan fari í sömu átt.
Það tókst ekki, held jafnvel að þetta hafi verið þolpróf eða tékk, athuga hvort fólk sýndi viðbrögð. Byrja á nógu gölnu svo menn segi ekki neitt þegar raunverulega niðurskurðarplanið er afgreitt.
En forsetinn hefur tekið við ICEsave vaktinni, mikið hló ég í gær þegar ég las orð Ólafs um þjóðaratkvæði, hef sjálfur spáð þessu allan tímann. Hann væri það skynugur að hann myndi ekki hengja sig á ólöglega samninga og munstra sig á feigðarfley Jógrímu.
Verst að nú fáum við ekki ósamning, það hefði verið svo gaman að krefjast rannsóknar og dóms yfir fólkinu sem barðist með lygum og blekkingum að láta þjóð sína borga 507 milljarða, í ljósi þess að núna átti að samþykkja 40-60 milljarða. Stærsti þjófnaður nútímans hlýtur að vera refsiverður.
En svo dagar málið bara upp, ekkert verður úr neinu, eftir 2 ár mun fólk segja ICEsave hvað. Ekki nema stjórnin sé algjörlega feig, og fremji sitt HaraKari á ICEsave, vona það aðra röndina, það er alltí lagi að rifja upp gjörðir þessa fólks.
Rithöfunda, álitsgjafa, háskólamanna, allt heila klabbið á Kvíabryggju, það er svona huglægt því ég vil ekki erfa þetta við nokkurn mann, aðeins að núa þeim þetta um nasir.
En svona er þetta Kristján, ekkert ICEsave, engin gjöreyðing á landsbyggðinni, allir ánægðir með framkvæmdarhraða ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna.
Afleiðing eru atvinnulausir byltingarbloggarar. En ég græt það svo sem ekki að hafa veðjað á vitlausan hest, þetta er hundleiðinlegt tuð og núna mun lífið hafa sinn vanagang.
Það er loksins ekkert að frétta af gamla landinu, nema gamla núningurinn milli þeirra sem eru í stjórn og þeirra sem eru í stjórnarandstöðu.
Og í sjálfu sér eru það bestu fréttirnar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 27.11.2010 kl. 16:28
Ágæti Ómar, ég er þér hjartanlega sammála, "ögurstund er runnin upp" ! Við landsbyggðarfólk frábiðjum okkur frekari valdníðslu frá þessari aumu ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu ! Hin raunverulega tekjumyndun Íslendinga hefur nú sem ávallt orðið til að mestu leyti orðið til í byggðum fjarri Reykjavík. Skýrsla, sem Háskólinn á Bifröst vann að fyrir nokkrum árum, fékkst aldrei birt opinberlega ! Hver vegna fór svo ? Skýrslan leiddi nefnilega í ljós, svo að ekki var um villst, að Stór-Höfuðborgarsvæðið lifði eins og sníkjudýr á landsbyggðinni ! Þar höfum við það, landsbyggðin hefur áratugum saman lifað eins og tilberi á landsbyggðinni ! Mál er að linni þeirri ánauð og yfirgangi, sem við, landsbyggðafólk þurfum að þola af íbúum SV-hornsins !
Með kveðju frá Fjallabyggð, KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 27.11.2010 kl. 19:15
Villa, landsbyggðin hefur lifað eins og ,,,,,,,,,,,,, LES ; höfuðborgarsvæðið hefur áratugum saman ...........
Kristján P. Gudmundsson, 27.11.2010 kl. 19:20
Gott að heyra nafni ! að einhver nennir að byrsta sig í miðjum (byrjun) jólaundirbúningnum, en er þetta ekki þegar öllu er á botninn hvolft, mál allrar þjóðarinnar ? Jógríma notar nefnilega elsta trixið í kúgunarfræðinni "Divide and Rule" Dreifa og Kúga, lætur þetta líta út sem að þetta sé einhver togstreita milli borgar og byggðar, meðan þetta eins og Ómar var inn á, varðar alla þjóðina, en með því að fá fólk upp á móti hvort öðru, verður ekkert úr mótmælum :(
Höfuðborgarsvæðið væri (eins og þú réttilega bendir á) ekki svipur hjá sjón án landsbyggðarinnar, einnig á (og er að vissu leyti) Höfuðborgin að vera til fyrir landsbyggðina, allavega mun þessi gífurlegi niðurskurður bitna á öllum, þó líklega finnist fyrst og harðast fyrir honum á landsbyggðinni, þessvegna á fólk að fara að ráðum og dáðum Ómars og standa saman (bak við forsetann þessvegna) og hafna Icesave og AGS, þá getur afraksturinn af því að setja t.d. makrílkvótann eftir eiginn höfði (reyndar nokkuð djarft að yfirgefa fundinn í Oslo, en gert er gert og þá er bara að notfæra það) fari BEINT í að koma þjóðarskútunni a réttan kjöl, að ekki sé talað um aðrar auðlindir landsins, í stað þess að greiða niður skuldir til glæframanna og kúgara, sem sólunduðu fé almennings, og krefjast þess nú að sami almenningur borgi brúsann.
Svo verkefni okkar er ekki að “henda ókvæðisorðum” til landa okkar á SV horninu, heldur sannfæra þá um að það að standa saman með landsbyggðinni gegn þessum einhliða niðurskurði er sameiginlegt mál allrar þjóðarinnar, sem verður að vinna.
ÞETTA ER EKKI HREPPARÍGUR !!! ÞETTA ER FRELSISBARÁTTA !!!
MBKV að utan en með hugann heima
KH
Kristján Hilmarsson, 27.11.2010 kl. 22:48
Kæru menn, viið erum nokkur af suðvesturlandinu sem viljum landsbyggðarmönnum vel og viljum alls, alls ekki svívirðingu aumustu stjórnar allra stjórna gegn ykkur.
Engin AGS ofurlán, ekkert ICESAVE, engan nauðungarsamning, höldum sjúkrahúsum landsbyggðarinnar opnum og læknum í vinnu.
Komum valdníðslustjórninni burt, burt hið fyrsta og í sakarannsókn. Við erum nú með forseta sem ver okkur gegn glæpasamningum.
Elle_, 28.11.2010 kl. 19:39
Blessaður Kristján og blessaður Kristján.
Afsakið hvað ég kem seint inn til að kvitta fyrir mig.
Kristján, það er staðreynd að gengið hefur alltaf verið skráð með hagsmuni innflutnings í huga. Ein afleiðingin hefur verið viðvarandi taprekstur í sjávarútvegi sem síðan hefur ýtt undir þá hugsun að allt sé í kalda koli út á landi.
Í raun er þetta bara dæmigerð nýlendustefna, þekkt í sögunni að sá sem stjórnar, hann hirðir. En núna er stríðshanskanum kastað, og mér sýnist að landsbyggðarmenn ætli að taka hann og grafa, og í kjölfarið láta ríkisstjórnina grafa undan spítölum okkar. Líklegast er undirlægjuhátturinn orðinn það rótgróinn að öllu er kyngt.
Kemur í ljós.
Kristján, ekki ætla ég að andmæla rökum þínum um að þetta er ekki hrepparígur, heldur frelsisbarátta, sérstaklega í ljósi þess að yfirleitt dugar jörðin mér varla, þegar ég boða baráttu og stríð gegn siðleysi AGS.
En stundum þarf að heyja smá styrjaldirnar líka, sérstaklega þegar vegið er að byggð. Það er til lítils að bjarga heiminum, ef allt er í rúst heima fyrir þegar snúið er til baka úr stríðinu.
Svona atlaga gengur því aðeins að hún nýtur stuðnings meirihluta íbúa höfuðborgarsvæðisins, og þá er eina andsvarið harka.
Það þarf tvö til að halda stríðsöxum í jörðinni.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 29.11.2010 kl. 18:34
Blessuð Elle.
Vissulega er ekkert einhlítt, en á síðustu árum virðist sá hugsunarháttur, að hver er sjálfum sér næstur, vaxið mjög ásmeginn í þjóðfélaginu. Og þegar hann nær því stigi að menn taka ekki tillit til þarfa náungans, þegar þeir sjálfir hafa ekki haginn, þá er stutt í gliðnun.
Sú umræða er að vaxa mjög.
Það er ekki bara þessi um spítalana, þeir sem tala um jafnan atkvæðisrétt og eitt kjördæmi, sem út af fyrir sig er ágætt, þeir hundsa lógíkina um valdajafnvægi, en hún er frumforsenda þess að þjóðfélög ólíkra landsvæða og stétta haldist saman. Menn verða að sjá sér hag i að tilheyra heildinni.
Annað dæmi um þessa feigð þjóðfélagsins, er ógæfa þeirra sem neita að leiðrétta skuldir heimilanna, því þeir hafa sitt á þurru. Fatta ekki að þeir sem skulda hafa þá til dæmis engan hag á að viðhalda jafnvægi, til dæmis í launa og kjaramálum.
Svona má lengi telja, umræða feigðar er ráðandi í dag.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 29.11.2010 kl. 18:46
Einmitt gott fólk ! og fyrir alla muni vertu ekki að afsaka sein svör Ómar, við vitum hvernig þú hugsar (að mestu leyti) og allavega ég sit ekki og bíð við tölvuna eftir viðbrögðum þínum í hvert sinn sem ég kommenta, það er alveg jafnferskt fyrir mér þegar það birtist, þó einn eða fleiri sólahringar líði á milli.
Og Elle ! auðvitað veit maður að þið eruð mörg á SV horninu og annarsstaðar sem sjá samhengið og styðjið þessvegna ekki þessa árás á landsbyggðina, og sjáið að það er árás á þjóðina, bara svona pínu grímuklædd í augnablikinu.
Höldum bara áfram að komentera og leggja inn bæði hér hjá Ómari, öðrum bloggum og eigin, dropinn holar steininn.
MBKV að utan og með hugann bæði hér og heima og annarsstaðar (sjáið hvað er að gerast á írlandi núna :( )
KH
Kristján Hilmarsson, 29.11.2010 kl. 20:20
Hvar eru landsbyggðarmenn núna? Ómar skrifar og skrifar og ver hlut og æru landsbyggðarmanna og inn koma að mestu suðvesturlandsmenn og menn eins og þú, Kristján, búsettir erlendis. Nánast ekki orð hefur heyrst í landsbyggðinni gegn ICESAVE-kúgun núverandi stjórnar.
Vildi að landsbyggðarfólk væri ekki svona hljótt og þegjandalegt. Það er óæskilegt að þegja núna meðan valdníðslustjórnin eyðileggur byggð og rústar landinu fyrir banka og peningaöfl, Breta- og Hollendinga-stjórnir og Evrópusambandið, í vitleysu eins og Evrópuumsókn og ICESAVE fyrir Samfylkinguna.
Elle_, 30.11.2010 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.