Neyðaróp frá Vopnafirði birtist í Mogganum í dag.

 

Og til að láta það fara víðar, þá ætla ég að birta það í heild.  Það er eftir Lilju Kristjánsdóttir, hjúkrunarstjóra, og lýsir í hnotskurn hvað þeir félagar, Björn og Steingrímur eru að gera íbúum NorðAusturlands.

Og hvað þeir eru að gera gamla fólkinu, einu sinni var það talið til merkis um skítlegt eðli ef menn lögðust á gamalt fólk og gerðu því allt til miska.

En í dag er þetta stefna VinstriGrænna, undir kjörorðinu sem þáverandi aðstoðarmaður Heilbrigðisráðherra, Halla Gunnarsdóttir, skrifaði um í Morgunblaðinu, "Sláum vörð um Heilbrigðiskerfið.

Svona er vörnin um Vopnafjörð.

 

 

"Samkvæmt tillögu framkvæmdastjórnar Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) á að loka hjúkrunarheimilinu Sundabúð á Vopnafirði og þar með talið einu bráðarými vegna sparnaðar í heilbrigðisþjónustunni. Bygging Sundabúðar hófst árið 1979 og lögðu þar margir hönd á plóg í sjálfboðaliðavinnu. Samkvæmt aukinni þjónustu við aldraða um allt land var stækkað við Sundabúð og árið 1992 var síðasti hlutinn tekinn í notkun og voru þá komin 12 hjúkrunarrými til notkunar. Fyrir tveimur árum fékkst fjárveiting fyrir einu bráðarúmi á hjúkrunardeildina sem var mikill hagur og öryggi fyrir heimilisfólk sem og aðra íbúa sveitarfélagsins. Í gegnum árin hefur Sundabúð notið velvilja einstaklinga, fyrirtækja og félaga og þegið margar góðar gjafir til að mynda voru nýlega gefin húsgögn í matsalinn og setustofurnar.

Sundabúð var byggð af framsýni þar sem miðað var við að aldraðir gætu búið sem lengst heima og notið góðrar þjónustu. Á neðri hæðinni er rekin hjúkrunardeild og á efri hæðinni eru leigíbúðir fyrir eldri borgara í eigu sveitarfélagsins. Það fyrirkomulag er til fyrirmyndar - þannig getur fólk dvalið lengur heima, hjón notið samvista og sameiginleg dagvist er í boði fyrir alla. Leigjendurnir á efri hæðinni hafa haft góðan stuðning af starfsfólki hjúkrunardeildarinnar ef þeir hafa þurft þess. Þá er hagkvæmni þessa fyrirkomulags ótvíræð en matsalurinn er rekinn sameiginlega af Vopnafjarðarhreppi og HSA ásamt því að neyðarhnappur fylgir hverri íbúð sem starfsfólk hjúkrunardeildarinnar svarar. Þá er sjúkraþjálfari staðsettur í húsinu og félagsstarf eldri borgara hefur aðsetur í Sundabúð. Hjúkrunardeildin er smá í sniðum, þar dvelja oftast 10-12 vistmenn í einu. Þannig hefur skapast þar notalegt og heimilislegt andrúmsloft. Bæði vistmenn og starfsfólk þekkjast vel, hafa myndað traust sín á milli sem er ómetanlegt þeim sem þjónustuna þiggja. Hlutfall menntaðra starfsmanna í aðhlynningu á Vopnafirði er með því hæsta sem þekkist á landsvísu.

Rekstur hjúkrunardeildarinnar hefur verið í járnum til margra ára og halli á rekstrinum ár eftir ár. Horft hefur verið í hverja krónu og mikið aðhald í öllum rekstri. Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjórn HSA þá er fjárveiting til Sundabúðar of lág. Greiddar hafa verið fyrir hvert hjúkrunarrými 5.267 krónur á ári sem er lægra en gerist víða í sambærilegum rekstri, þrátt fyrir yfir 90% nýtingu síðustu ár. Heilbrigðisstofnun Austurlands er nú gert að skera niður um 500 milljónir og á niðurskurðurinn að bitna harðast á hjúkrunardeildinni Sundabúð, sem er á jaðri þjónustusvæðis stofnunarinnar.

Lokun bráðarýmis í Sundabúð ógnar öryggi íbúanna hér í byggðarlaginu. Hér hefur verið hægt að leggja inn sjúka eða slasaða og sinna þeim í heimabyggð af því aðstæður og starfsfólk er til staðar. Það er um langan veg að fara yfir fjöll og heiðar til Akureyrar eða Egilsstaða og oft erfitt yfirferðar í vondum veðrum yfir vetrarmánuðina. Einnig fylgir mikill kostnaður sjúkraflugi og legu á dýrum sjúkrahúsum.

Allir sem til þekkja eru sammála um að starfsemin í Sundabúð er byggðarlaginu afar mikilvæg og veitir öldruðum öryggi, skjól og hlúir að heilsu þeirra og vellíðan. Það er réttur hverrar manneskju að fá að eldast með reisn í nálægð við ástvini sína og fjölskyldu í því umhverfi sem það þekkir og hefur skilað sínu ævistarfi í. Lokun hjúkrunardeildarinnar snertir okkur öll, ekki bara íbúa hennar. Við þurfum að spyrja okkur hvernig samfélagi við viljum lifa í og hvað við viljum leggja áherslu á. Hvað getur réttlætt svona harkalegar aðgerðir og skerðingu á grunnþjónustu? Það á að vera forgangsmál okkar allra og skylda að hlúa að og standa vörð um rétt og velferð þeirra sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér og þurfa á okkur að halda.

Ég mótmæli þessum aðgerðum harðlega og skora á stjórnvöld að grípa til aðgerða svo að starfsemin í Sundabúð megi halda áfram og vera kjölfestan í mannlífi á Vopnafirði og íbúar Sundabúðar geti eytt ævikvöldi sínu lausir við áhyggjur og kvíða. "

 

Svo mörg voru þau orð.,

Kveðja að austan,.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 579
  • Sl. sólarhring: 734
  • Sl. viku: 6163
  • Frá upphafi: 1400102

Annað

  • Innlit í dag: 524
  • Innlit sl. viku: 5288
  • Gestir í dag: 500
  • IP-tölur í dag: 492

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband