"Það eiga allir að hafa einn!!!"

 

Þessi setning kom uppí huga mér þegar ég las athugasemd við pistli mínum um málfundaplaggið.  

 

"Þú getur spurt hvaða Reykvíking sem er hvort hann vill halda byggð útá landi... svarið er ávallt JÁ. "

Það minnti mig svo á miðaldra betriborgarakonuna í Suðurríkjunum sem á miðjum kynþáttaólgutímanum um 1960 var spurð af fréttamanni hvort hún liti niður eða hefði kynþáttafordóma gagnvart blökkumönnum.

Og svarið var frá einlægni hjartans,

"Nei, mér líkar vel við svart fólk, það eiga allir að hafa einn."

Og átti við að það ættu allir að hafa einn svartan þjón. 

Þetta var ekki meðvituð kynþáttaaðstaða, skipan mála var bara svo rótgróin i uppeldi hennar að hún gat bara ekki skilið að svartir voru ekki sáttir.

 

Það sama á sér stað á Íslandi í dag.  Aðför ráðuneyta að landsbyggðinni afhjúpa sömu djúpu gjána og þeir Kennedy bræður reyndu að brúa í Bandaríkjunum á sínum tíma. 

Það búa ólíkar þjóðir í landinu og sú fjölmennari lítur niður á hina.

 

Það er hægt að skrifa langa ritgerð um þetta en mig langar að týna til þrjú dæmi um birtingarmynd þessa hugarfars, lítil dæmi úr daglegu lífi sem segja svo margt.

 

1. Fyrir nokkrum árum þá var ég að stemma að bókhald og þurfti að láta rekja nokkrar ávísanir og leitaði því til bankastofnanna á staðnum eins og ég hafði gert svo oft áður.  Í sparisjóðnum var tekið niður númer, og síðan sagt að það yrði hringt í mig eftir nokkrar mínútur, sem var gert, og allar upplýsingar fullnægjandi, það eina sem þurfti að gera var að fara niður í kjallara og fletta upp á frumgögnum.

Svo hringdi ég í Landsbankann, ný ohf væddan.  Þar var hægt að leysa eitt vandamál af fjórum.  Skýringin var sú að allur pappír eldri en 6 mánaða var nú sendur suður, og þangað yrði maður að hringja til að fá viðkomandi upplýsingar.  Sem og ég gerði. 

Þar var ég beðin um að senda inn skriflega beiðni og mér yrði svo svarað eftir nokkra daga þegar viðkomandi deild hefði tíma til að sinna erindi mínu.  Bara á þeim tíma sem tók að fá mig til að skilja kerfið, hefði starfsfólk útibúsins verið búið að afgreiða málið, og ég hefði getað haldið áfram með verk mitt.

En núna var það ekki talið skilvirkt, það þurfti sérhæfða deild til að fletta upp fyrir allt landið, og það varð allt að vera mjög formlegt.  Rökin voru sparnaður en jafnvel heimskasti Master frá Harvard gat séð að kostnaðurinn við þetta nýja kerfi var margfaldur á við þann gamla að láta heimamenn sinna sínu verki.

Og þetta var á þeim tíma þar sem þensla og yfirborganir voru byrjaðar í Reykjavík, en starfsfólk á landsbyggðinni á sínum strípuðum taxta.  Hefði sparnaður ráðið för, þá hefði streymið verið öfugt, verk hefðu verið flutt frá Reykjavík til landsbyggðarinnar.

En sparnaður réði ekki för, heldur sú hugsun að ná öllu verkum suður því það sem féll til út á landi var útgjöld, sem mátti spara.

 

2. Íslandspóstur er ohf og hefur neyðst til að veita þjónustu á landsbyggðinni.  Líklegast vegna stífra krafna frá kjördæmapoturum landsbyggðarinnar.  Ég bý við hliðina á pósthúsinu, og þarf svo sem ekki að nota síma, get alveg eins skroppið ef mig vantar upplýsingar.  En sími er samt þarfaþing.

Einn daginn sem ég ætlaði að fá upplýsingar um pakka, þá fann ég ekki símanúmerið í nýju símaskránni, og það sem meira var, ég þurfti að hringja í skiptiborð.  Þar kom vingjarnleg tölvurödd sem hvatti mig til að bíða, en ef mér leiddist biðin, þá gæti ég farið á netið.  Það vissi svo mikið.

En að svara símanum var þessu skiptiborði ofviða, fyrr en um seint og síðir.  Á þeim tíma hefði ég vissulega getað farið tvisvar út á pósthús og borið upp erindi mitt, en ég gerði ekki heldur beið þolinmóður í símanum.

Loksins þegar ég fékk samband, þá tók það langan tíma að sannfæra svarandann um að ég vildi ekki tala við hann, og ég vildi ekki samband við pósthús í Reykjavík, ég vildi fá samband við pósthúsið í minni heimabyggð.  Og hún gaf samband, sem slitnaði.

Þá tölti ég út á pósthúsið, fékk úrlausn minna mála, og miða með beina númerinu, sem Masternum frá Harvard hafði láðst að taka út úr kerfinu.

Í dag nota ég þetta beina númer en mér er fyrirmunað að skilja hagkvæmi þess að færa þjónustuna aftur á steinaldarstig með miðstýrðu skiptiborði.

 

3. Hér á staðnum er útibú frá áfengisverslun ríkisins.  Lítið sætt útibú og í upphafi veitti það góða þjónustu, og reyndi að verða við óskum viðskiptavina sinna um vöruúrval líkt og aðrar búðir sem hafa lifað af samkeppnina við Bónus og Reykjavík.

Svo einn daginn, þá var skrúfað fyrir þá þjónustu, það var of dýrt að liggja með lager út á landi.  Í stað þess að fylla hillur með ólíkum tegundum, þá voru hillur fylltar með sömu síbyljunni því það mátti aðeins vera með ákveðinn fjölda í hverri vörutegund, og það val var komið undir drykkju róna í Austurstræti, því salan í Austurstrætisútibúi ÁTVR  var viðmið.

Og þau viðmið voru magn áfengis miðað við verð.  Sem útskýrir að eimaður spíri með smá litarefnum út í, kallaður rjúpan er eina 8 ára Whiskýið sem hægt er að fá að staðaldri í flöskum.  Og milljón tegundir af Viking bjór.

En það er hægt að sérpanta það sem maður vill drekka, það vantar ekki.  Þá er skrifuð niður pöntun og einhver í Reykjavík dundar sér við að ná í viðkomandi vín og pakka því niður eftir kúnstarinnar reglum.  En það er ekki útgjöld, það er kostnaður sem telst ekki með þegar það er sparað.

Svona framkomu og þjónustu getur aðeins einokunarfyrirtæki í ríkiseigu komist upp með, en hugarfarið þar að baki er hugarfar þess sem lítur niður á viðskipavini sína, þeir mega þakka fyrir það sem þeir fá.

 

Þessi dæmi hér að ofan eiga sér marga bræður á sjó og á landi.  Allt ber þetta sömu fingraförin, það er gustukarverk að þjóna lýðnum á landsbyggðinni. 

Gustukarverk sem má leyfa sér í góðæri en er það fyrsta sem lendir undir hnífnum þegar verr árar.

Það er ótrúlegt hugarfar sem liggur þarna að baki en þetta hugarfar er gegnsýrt í hugsun þeirra sem ráða í stjórnsýslu landsins.

Þess vegna skilja þeir ekki kvartið, líta á það sem nöldur ómálga barna.

Það sést best á viðbrögðum þeirra við mótmælum landsbyggðarinnar við afleggingu sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni.  Þegar landsbyggðin teflir fram rökum gegn órökum eða hálfsannleik, þá er því ekki svarað, heldur talað niður til fólks, það skilji ekki að við höfum bara ekki lengur efni á þessu lúxus að vera með nútíma þjónustu um allt land.

En þetta er nauðsynlegur kostnaður í Reykjavík.  

Og mútufé ESB keyrir á mönnum sem gera góðlátlegt grín að þessum molbúum sem skilja ekki að það er kreppa, og það hefur ekkert þjóðfélag efni á að halda þeim uppi.  Málefnalegar greinar heilsugæslufólks á landsbyggðinni fá ekki umfjöllun, í þau fáu skipti þar sem við það er talað, þá eru viðtöl klippt niður í eitthvað óskiljanlegt, og svo er hlegið, skrumskælt og snúið út úr.

 

Ég ætla ekki að hafa þessa tölu lengri. 

Það er mikil gerjun í gangi og eitthvað mun koma út úr henni.  Þessir pistlar mínir eru vanmáttug tilraun til að útskýra það sem að baki býr.  En það er erfitt að tjá svona margbreytileika með orðum á blaði, hin talaða orðræða þar sem hlutum er kastað á loft og ræddir, út og suður, aftur á bak og áfram, er betur  til þess fallin að ná utanum þessa umræðu.

Það er hægt að hundsa hana, en það er ekki hægt að halda þrýsting niðri eftir að suðumarki er náð.  Slíkt suðumark er handan hornsins, og þá fer af stað atburðarrás sem enginn veit hvar endar.

Svipað og er með skuldamál heimilanna, með andstöðuna við AGS og ICEsave, vantraustið á stjórnmál og fleira og fleira.

Ef þessi þrýstingur er hundsaður, þá springur allt, það eina er öruggt.

Það hefur enginn afl í dag til að keyra gegn öðrum.  Þess vegna þarf að finna umræðuvettvang, ræða málin, finna sameiginlega fleti.  Finna lausnir sem sameina, en ekki sundra.

Það er sama hvað lausn er góð, ef hún sundrar, þá er hún ekki góð.  Þá er ekki rétt að kynningu og framkvæmd hennar staðið.   Og allt mútufé í heimi mun ekki koma henni á koppinn.

Þess vegna ef menn telja eitthvað vera lausn á þeim vanda sem við blasir, hvort sem það er að gera landið að einu kjördæmi, eða ná stöðugleika í efnahagsmálum með því að ganga í Evrópubandalagið, þá þurfa menn að afla sjónarmiðum sínum stuðnings, fá um þau sátt.

Og það er í eðli góðra hugmynda að slíkt er hægt.

En kúgun og yfirgangur mun engu skila.  Og eyðileggur annar ágætar hugmyndir.

 

Ógæfa Íslands í dag er að valdastéttin skilur þetta ekki.  Hún heldur að hún sé Rómverskur keisari sem getur jafnvel gert hund sinn að ráðherra, en það er ekki svo.  Enda voru þeir keisarar sem virtu ekki hina óséðu línu valdatakmarka sinna, aflífaðir.  Jafnvel Stalín var drepinn þegar hann hélt að hann hefði vald til að ofsækja hershöfðingja Rauða hersins eftir frækin sigur þeirra á Þýskalandi nasismans.   Þó var hann sjálfsagt sterkasti leiðtogi síðari tíma, með mestu völdin og mestan vilja til að beita þeim á þann hátt sem honum þóknaðist.

Það er tími til kominn að valdsmenn Íslands átti sig á því að þeir eru ekki guðir, þeir eru venjulegir menn sem stýra venjulegur fólki.

Og það er í eðli fólks að verja líf sitt og samfélag.

 

Og allt heimsins mútufé fær því ekki breytt.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Nýjasta dæmið um "þjónustu" við landsbyggðina er að Íslandspóstur fór fram á það við Póst og Fjarskiptastofnun að fá að hætta að bera póst á tvo bæi, vegna þess að þeir væri fyrir utan byggð! Hvernig er hægt að búa utan byggðar? PogF féllst á rökin og leyfði Íslandspóst að færa póstkassa þessara bæja allt að tólf kílómetra frá þeim!

Gunnar Heiðarsson, 8.11.2010 kl. 05:21

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Gunnar.

Bræðurnir eru margir, og gjáin dýpkar er enginn fæst til að ræða hana.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.11.2010 kl. 08:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 20
  • Sl. viku: 449
  • Frá upphafi: 1412811

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 388
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband