Heimska réttlæt með lygi.

 

Starfsgreinasambandið lætur eins og það sé ekki verkafólk sem eigi í erfiðleikum í dag.  Það séu "einhverjir aðrir". 

Og hverjir skyldu þessir "einhverjir aðrir" vera???  Læknar, hjúkrunarfólk, kennarar, verkfræðingar, tæknimenn???

Fyrir hundrað árum voru þessir "einhverjir aðrir" ekki til á Íslandi, þá voru til embættismenn, bændur, sjómenn og verkamenn, mikið af verkamönnum og sjómönnum.  Og lífskjör allra voru léleg.  Þau breyttust við það að "einhverjir aðrir" urðu til, meðal annars vegna þess að verkafólk barðist fyrir almennri menntun barna sinna. 

En þar fyrir utan er þetta lygi, verkafólk á líka í erfiðleikum.

 

Starfsgreinasambandið lýgur því að valið standi milli almennra lækkunar skulda, sem sé kostnaður dreginn beint af lífeyrissparnaði, og þess að ef ekkert sé gert, að þá sé enginn kostnaður sem lendi á lífeyrissjóðunum.

Þetta vesæla fólk sem studdi aðför breta að íslenskum almenningi (verkafólk er líka almenningur) uppá 505 milljarðar, það getur ekki hugsað sé að almenn skuldaleiðrétting sé greidd með langtíma skuldabréfum ríkissjóðs sem myndu mynda stofn að eigin fé lífeyrissjóða líkt og húsbréf gera í dag. Samt studdi það aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hávaxtastefnu hans.  Vextirnir af ICEsave og AGS pakkanum á þremur árum eru hærri en þessir 220 milljarðar svo við höfum það á hreinu.

Það er alltílagi að borga bretum og erlendum spákaupmönnum yfir 200 milljarða á þremur árum en það er ekki alltí lagi að bjarga þorra ungs fólks frá hörmungum með 220 milljarða framlagi ríkissjóðs sem greiðist á áratugum.

Ég dreg það til baka að kalla þetta fólk vesælt, enginn er svona vesæll, og það er leitun að annarri eins víðáttuheimsku í allri mannkynssögunni.

Að vera tilbúinn að fórna hagkerfinu sínu fyrir erlenda ofríkismenn en vilja ekki hjálpa framtíð þessa lands fyrir brot af þeirri upphæð.  

Lægra er ekki hægt að leggjast.

 

Og lygin, stóra lygin, því jafnvel víðáttuheimskt fólk veit að það er að ljúga, er sú að telja félagsmönnum sínum í trú um að það falli enginn kostnaður á lífeyrissjóðskerfið við óbreytta stefnu.

Það er hægt að fullyrða, og það hefur verið rökstutt, að kostnaðurinn við að gera ekki neitt, annað en að tala um hjálpa þeim verst stöddu, að hann er margfaldur á við það sem fellur til ef vandinn er tæklaður strax í upphafi.

Við erum að tala um gjaldþrot þjóðfélagsins annars vegar og 220 milljarða hins vegarLífeyriskerfið er að fyrsta sem fellur þegar greiðsluviljinn hverfur í þjóðfélaginu, þegar ungt fólk skilar lyklum sínum og heldur á ný mið með menntun sína og þekkingu.

Ég dreg það til baka að þetta fólk sé víðáttu vitlaust.

Það er enginn svona vitlaus.  Það er ekki hægt.

 

Þetta hlýtur að vera X fæll.

Það er ekkert þessa heims á bak við svona ályktun.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


mbl.is „Aðför að lífeyrissparnaði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Það væri áhugavert að vita hvað ríkið þarf að auka framlag til móts við það sem lífeyrissjóðirnir þyrftu að skerða ef þeir verði látnir afskrifa.  Það væri líka áhugavert að vita hvaðan þeir peningar eiga að koma.

Lúðvík Júlíusson, 14.10.2010 kl. 20:42

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Lúðvík, þeir koma á sama hátt og framlag ríkisins til bankanna og Seðlabankans.  Með skuldabréfi.  Sem greiðist svo upp á löngum tíma af þjóðfélagi sem fékk tækifæri til að vaxa og dafna.

Þekkt leið á öllum tímum þegar hamfarir eða stríð ógna þjóðum.

Og þó rúmt ár sé síðan að ég hætti að nenna að útskýra þetta fyrir fólki, þá eru ennþá til eljusamir menn sem það nenna.  Og það þarf ekki að taka það fram, að þeir eru lítið lesnir enda fáfræði dyggð á Íslandi.

En hér er linkur á einn besta bloggar landsins.

http://einarbb.blog.is/blog/einarbb/entry/1106262/

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.10.2010 kl. 20:55

3 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Það er hvergi verið að tala um að gera ekki neitt.

Ríkið þarf að greiða fólki sem verður fyrir skerðingu með beinhörðum peningum, ekki skuldabréfum.  Þessa peninga þarf ríkið að fá einhversstaðar, annað hvort með meiri lántökum eða hærri sköttum.

Lúðvík Júlíusson, 14.10.2010 kl. 21:10

4 Smámynd: Elle_

Málið snýst nú einfaldlega um að bankar fengu í friði fyrir ríkinu að fella gengið og valda verðbólgu og seinna óðaverðbólgu.  Og þar með hækka vísitölutryggðar skuldir grunlaussa lánþega.  Og nú komast bankar, fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir upp með að innheimta ofurhækkanirnar.  Það er oftaka og ranglæti og oftökunni verður að skila.  Það er bannað að níðast á fólki og ræna. 

Elle_, 14.10.2010 kl. 23:32

5 Smámynd: Hreinn Sigurðsson

Sæll Ómar.  Mér þykir athyglivert í allri þessari umræðu um að skuldaleiðrétting kosti ægilega mikið mikið og það sé jafnvel hugsanlegt að einhverjir sem enn ná að standa í skilum fái leiðréttingu sem "þeir þurfa ekki á að halda".  Hjá fólki sem enn getur staðið í skilum þá þýðir skuldaleiðrétting jafnvel að fólk getur farið að borga íþrótta og tómstundastarf fyrir börnin sín og ýmsan annan "munað"  sem margar fjölskyldur hafa þurft að neita sér um.  Ef ráðstöfunarfé fólks eykst þá lifnar aðeins yfir efnahagslífinu talsverður hluti af þessum peningum endar svo hjá ríkinu í formi VSK og annarra skatta, þannig að áhrifin af þessu eru stórlega ýkt.  En peningarnir sem áttu að fara í að borga icesave hefðu farið alfarið úr landi og ekki króna af þeim komið aftur til íslenska ríkisins.

Hreinn Sigurðsson, 14.10.2010 kl. 23:47

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Lúðvík, er miðtíminn 15- 20 ár????

Þetta hliðrar til greiðslulokum ríkisins í lífeyrissjóðakerfið (almannatryggingakerfið borgar lífeyrir en það átti að afleggjast 20og eitthvað).  Ríkið hafði efni á þessu síðustu áratugina, af hverju ætti það ekki að hafa efni á því aðeins lengur???

Skuldabréfið er eiginfjárgrunnur, staða lífeyrissjóða er framtíðarreiknuð, þegar lífeyrir er skertur í dag, þá er það ekki vegna þess að það vantar pening í kassann núna, heldur  miðað við framtíðarskuldbindingar.  Þess vegna reynir ekki á sjóðstreymið strax.

Og athugaðu að vælið kemur frá fólki sem ætlaði bretum 30-50 milljarða til ársins 2021 hið minnsta.  Það ver ekki málið, átti að greiðast með hagvexti.  Af hverju er þá helmingur þeirrar upphæðar málið????

Svarið er pólitík.

En þá nálgumst við aðalatriði málsins, sem ég er mjög hissa á að þú skulir ekki grípa Lúðvík, en hann er sá, að þessi aðgerð eykur innstreymi fjármagns í lífeyrissjóðina, en dregur ekki úr því.

Og hún eykur sjóðstreymið í ríkissjóð en dregur ekki úr því.

Lestu pistilinn hans Einars betur, reyndu að ná kjarna málsins.  Þú værir ekki að reka fyrirtæki ef þú ætlaðir ekki að lifa áfram í þessu landi.

Skilur þú ekki að það er þjóðarvá framundan???

Staða heimila hér eftir fjármálahrunið er fordæmalaus, ekki einu sinni í kreppunni miklu ert þú með land þar sem jafn stór hluti heimila var með neikvæða eiginfjárstöðu, og jafn stór hluti heimila (eigið húsnæði) í greiðsluþroti.

Spáðu  betur i þetta, þú átt engin rök á móti því sem Einar tínir til.  Veistu af hverju ég veit það????  Ég hef lesið bloggið þitt, það er skrifað af viti.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.10.2010 kl. 23:48

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Hreinn, er á hlaupum , en ég hef hlaupið illilega á mig ef þú ert ekki að hnykkja á kjarna þess sem ég er að segja.

Þetta er leið til að láta peninga streyma um hagkerfið.

Þetta er leið til dæmis að ég sem stend í skilum, get aftur keypt vínber og grænmeti eins og ég gerði fyrir Hrun.

Og ekki hvað síst, þetta er sáttaleið þar sem ríkið viðurkennir ábyrgð á sínum þætti í Hruninu.  Það afnemur sjálfvirka hækkun regluverks á skuldum fólks með tilvísun í forsendubrest.  En það sem ég hamra líka á, að við sem þjóð erum ekki bættari með því að láta lífeyriskerfið taka eitt á sig skellinn.

Skellurinn er sameiginlegur, og við dreifum honum á alla, bæði í núi og framtíð.

Vegna hvers, svo við getum áfram verið þjóð.

Í sinni tærustu mynd er þetta réttlæti, að það sé viðurkennt að það sé rangt að hafa eigur (eigið fé) af fólki með skipulagðri aðför að efnahagslífinu eins og sannað er að var gert.

Ef fólk upplifir réttlæti, þá berst það fyrir samfélag sitt og þjóð.  En það berst enginn fyrir ræningja.

Takk Hreinn.

Kveðja að austan.

Og takk líka Elle.

sami.

Ómar Geirsson, 14.10.2010 kl. 23:56

8 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Ómar,

það sem ég er að reyna að benda á er að ríkið tryggir lífeyrisþegum 180 þúsund á mánuði fyrir skatt og borgar það sem vantar upp á ef fólk fær minna úr lífeyrissjóðunum.  Ef lífeyrissjóðirnir lækka greiðslur eftir niðurfellingar skulda þá þarf ríkið að borga meira.  Það þarf ríkið að gera með þeim tekjum sem það fær eða nýjum skuldum.

Skoðanir okkar Einars eru mjög ólíkar, vægast sagt.  Það sem ég bendi á er að ef ráðstöfunartekjur aukast í kjölfar niðurfellingar þá myndast einfaldlega verðbólga.  Þá kosta vínberin og grænmetið meira en fyrir hrun og niðurfellingu.  Ef framfærslukostnaður eykst jafn mikið og lánin lækka þá er ávinningurinn enginn!  Jafnvel verður niðurstaðan verri vegna þess að verðbólgan skerðir almennt lífskjör eins og við erum að komast að nú.

Það streyma fleiri krónur um hagkerfið en þær verða minna virði en áður.

Mikilvægast er að koma atvinnulífinu af stað, auka gjaldeyristekjur og efla atvinnu.  Þegar gjaldeyristekjur aukast þá er auðveldara að fara í skuldaleiðréttingar án þess eins mikil hætta á verðbólgu skapist.  Þá verða einnig tekjur landsins meiri og því þarf ekki að hækka skatta!

Grunnforsenda til að auka fjárfestingar og skapa gjaldeyristekjur er að afnema gjaldeyrishöftin.  Fyrir því er enginn vilji, hvorki meðal stjórnar né stjórnarandstöðu.  Almenningur virðist einnig vera hlyntur höftum.

Er einhver sem vill skuldaleiðréttingu hlyntur því að höftin verði afnumin til að efla atvinnulífið, draga úr atvinnuleysi og auka tekjur fólks þannig að það geti staðið undir skuldunum sínum?  Ég veit að Einar er mótfallinn því.

Hér tala allir um nauðsyn þess að styrkja krónuna sem í raun þýðir að fólk vilji kæla atvinnulífið, draga úr gjaldeyristekjum, auka erlendar skuldir og draga kreppuna á langinn.  Hvernig getur það verið lausn? 

Lúðvík Júlíusson, 15.10.2010 kl. 01:02

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Málið er að lífeyrissjóðirnir spiluðu rassinn úr buxunum og töpuðu hundruðum milljarða á fjárfestingum í svikamyllum bankanna. Margir forráðamenn lífeyrissjóðanna sátu í stjórnum bankanna.

Að þeir komi núna og segi að tillögur um smánarlega leiðréttingu okurvaxtalána kosti stórfellda skerðingu er hrein og klár lygi. Ef það þarf að skerða lífeyri er það vegna glórulausrar fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna, hverra forráðamenn hafa sennilega tekið hinar arfavitlausu ákvarðanir timbraðir eftir laxveiðiferðir í boði útrásarvíkinganna.

Theódór Norðkvist, 15.10.2010 kl. 01:12

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Lúðvík.

Hvernig dettur þér í hug að það verði verðbólga vegna þess að ráðstöfunarfé fólks aukist???

Svona eins og aðstæður eru í þjóðfélaginu þegar allt er slakt????  

Og á sama tíma vilt þú afléttingu gjaldeyrishaftanna, sem er ÖRUGGT að auki verðbólgu því gengið slaknar.

Ég var ekki að spyrja þig hvort þú værir sammála eða ósammála Einari, þú þarft að hafa rök gegn rökum hans, það er ekki svar við hvort maður eigi að styðja flóðvarnir New Orleans með því að segja að ég er ósmála  að fellibylurinn Katrín eigi eftir að valda tjóni, það er pólitík, þekkt pólitík meira að segja  og allir þekkja afleiðingar hennar.

Í nútíma þjóðfélagi eru forsendur hagkerfis kaupmáttur fólks (nema í Norður Kóreu), að til staðar sé menntað fólk, að það sé velta í hagkerfinu, að það sé fjárfest í hagkerfinu.  

Snöggleg hækkun skulda hjá fyrirtækjum og einstaklingum eyðir þessum forsendum eins og leggur sig.  Þess vegna er íslenska módelið með sjálfvirkar skuldahækkanir dæmt til að eyða hagkerfinu við þær aðstæður sem urðu hér.  Þó stalínískar aðgerðir við atvinnusköpun munu vissulega auka hagtölur tímabundið á meðan lánsfé uppbyggingar er sóað, mun hvorki kaupmáttur almennings aukast á meðan því stendur sem og hitt að arðsemi Stalíns er öllum þekkt, hún borgar ekki niður sínar skuldir hvað þá annað.

Annars staðar í heiminum eru hagkerfi að glíma við það sama, endalok eignabólu, aukna skuldsetningu og minnkandi atvinnu.  Þar eru almannasjóðir að setja gífurlegar upphæðir til að halda hagkerfinu gangandi, og sér ekki fyrir endann á því.

Hér eru peningar teknir út úr hagkerfinu með einni undantekningu sem var útgreiðsla séreignarlífeyrissjóðsins, hann tekur peninga úr hagkerfi framtíðar.

Þá vældi enginn yfir því.  En í dag sjá allir ofsjónir yfir að hluta að vandanum er velt yfir á framtíðina, sem nota berne er reglan í heiminum við svona skilyrði og spá ekkert í þeim kostnaði sem til fellur strax ef það er ekki gert.

Og það er þessi kostnaður, þegar ekkert er gert, sem er margfaldur á við það sem fellur til á löngum tíma ef þessi leið er farin.  Í augun á þeim kostnaði horfist þú ekki Lúðvík.  Annað get ég ekki skilið þá röksemd þína þegar þú bendir á að ríkið muni þurfa að borga meira.  Það er það sem ég er að benda á, ríkið á að borga meira í framtíðinni svo hægt sé að koma þjóðinni í gegnum núverandi kreppu. 

Rökin eru að annars verði kostnaðurinn margfaldur, og þau rök hafa hvergi verið hrakin, orð eins og atvinnusköpun og annað eru pólitík, þrautreynd frá löndum Austur Evrópu þegar menn skildu ekki gangverk hagkerfisins en tóku risalán til að hleypa nútímalífi í hagkerfin.  Pólland, Rúmenía, Búlgaría, Austur Þýskaland og sjálft móðurlandið, Sovétríkin.

En einn kostnaður hefur lítið verið í umræðunni og ég ætla að enda þessa tölu með því að reifa hann lítillega.  Þegar talað er um samfélagskostnað, þá snýst umræðan um kostnað við félagslegar hörmungar í framtíð sem og það sem fellur til í núinu, atvinnuleysisbætur, félagsleg aðstoð, áfengismeðferðir, kostnaður við löggæslu og svo framvegis

En einn kostnaður er gífurlega vanmetinn, og hann er kostnaðurinn sem fylgir vantrausti, þegar fólk upplifir þjóðfélagið ranglátt.  Og hann birtist víða, er efni í pistil. En einn er augljós, og mun koma fljótlega fram.

Reiðin mun leiða til rangra ákvarðana.  Reiðir kjósendur eru jú í meirihluta.

Þér þykir vænt um hag lífeyrissjóða, eins og þeir eru reknir í dag.   Þegar lífeyrissjóðirnir neita að taka þátt í endurreisn almennings, þó þeir virðist eiga pening handa fyrirtækjum auðmanna, þá mun reiðin beinast gegn þeim.  Og til dæmis tillögur, vanhugsaðar tillögur ná hljómgrunn.  Og jafnvel framkvæmdar.  Hver er þá langtímahagur lífeyrissjóðsþega, til dæmis að núverandi kerfi verði bylt????

Þú starfar í sjávarútveginum.  Þú þekki því mætavel kröfuna um kvótann aftur heim, og allar hinar.  Hvernig mun reiðin leika núverandi kerfi?????

Lúðvík, ég varpa hér upp myndum um það sem gæti gerst, vona að hugurinn þinn taki á móti og velti þessu fyrir sér.  Ætla ekki að skrifa langa ritgerð, en það er hægt, bæði að meta hætturnar, tína til þekkt dæmi úr mankynssögunni þar sem reiði nær völdum, og þar sem kostnaðurinn við að bæla hana niður er margfaldur við þann kostnað sem menn horfðu í þegar þeir uppskáru reiðina.

Í ljósi þess að þegar 90 milljarðar séreignasparnaðarins flæddu hér um án þess að valda verðbólgu, þá er ótrúlegt að þú skulir bjóða mér upp á þann rökstuðning að frysting verðtryggingar á langtímalánum, árlega mun minni upphæð, skuli valda henni.

Það er ótrúlegt að þú sem vitsmunavera skuli hafna þeim kostnaði sem til fellur ef kerfið er látið falla.

Það er ótrúlegt að þú skulir nota orð eins og að koma atvinnulífinu að stað sem rök gegn tillögum sem hafa einmitt það markmið að koma atvinnulífinu að stað og sækja hliðstæður í aðgerðir annarra þjóða. 

Það er ótrúlegt að þú skulir taka undir höfnun fólks sem leggur engin talnaleg gögn máli sínu til stuðnings, aðeins orð.  Lífeyrissjóðirnir hafa til dæmis ekki lagt fram gröf um áhrifin á sjóðstreymi þeirra þar sem þeir annars vega leggja fram þekktar tölur um minnkun á sjóðstreymi vegna flats niðurskurðar, og hins vegar hvað þeir áætla að gerist miðað við núverandi ástand.  Það er eins og enginn hafi unnið neyðaráætlun  um hvað gerist ef greiðsluvilji 20% heimila hverfi?? Hvað þýðir 35% verðfall á fasteignum eða að þurfa að leysa til sín þriðju hverja íbúð svo dæmi má nefna um þætti áhættugreiningu.

Nei, þú styður menn sem skoða ekki þær tillögur sem fram eru komnar, hafna þeim ekki með talnalegum rökum þar sem núverandi ástand er borið saman við tillögurnar, hvað þá að þeir sjálfir leggi fram tillögur sem eru betri og markvissari en þær sem fyrir eru.  Og hafa þeir þó haft 2 ár til þess.

Og þið allir vanmetið áhættuna af stjórnarbyltingu þar sem bylting Besta flokksins er aðeins forsmekkur þess sem koma mun.

Lúðvík, Bretland og Bandaríkin hrundu ekki við að gefa út langtímaskuldabréf í stríðum sínum, þau unnu þau.  Sú þrautþekkta leið er lausnin sem sameinar hagsmuni ólíkra hópa.  Það er staðreynd að kostnaður fellur til vegna Hrunsins, farsæl lausn hlýtur að byggjast á því að sem flestir dreifi honum á milli sín.  Sú lausn að láta einn hóp, hvað þá það fjölmennan að hann getur náð völdum í lýðræðisríki, sú lausn er ekki viðunandi, og mun koma hinum hópunum í koll.

Opnaðu því hug þinn og sjáðu málin í víðu samhengi, sú sjón getur átt þátt í að móta samfélag barna þinna.

Leiðin sem ég bendi á er þrautreynd og hún virkar.  Leiðin sem þú hallast að er líka þrautreynd og hún hefur alltaf leitt til félagslegrar ólgu og jafnvel byltinga.

Hvora framtíð vilt þú börnum þínum???

Því þegar upp er staðið þá snýst málið ekki um neitt annað.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.10.2010 kl. 08:42

11 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

þarna sérðu!  við höfum tvær gjörólíkar skoðanir á hagstjórn og peningamálum.  Þar sem ég sé hættur sérð þú tækifæri og þar sem ég sé tækifæri þá sérð þú hættur.

Ég nota sömu þekkingu á hagfræði nú og þegar ég varaði við hættunum og verðbólgunni frá 2005.  Þá vissu allir betur en ég og þá var ég kallaður vitlaus, tregur og blindur.

Ég get ekki betur.

Lúðvík Júlíusson, 15.10.2010 kl. 09:14

12 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Rökin mín gegn rökum Einars eru og hafa alltaf verið að ef eftirspurn er aukin án samsvarandi verðmætasköpunar þá myndast verðbólga.

Þegar þú segir að hér hafi ekki orðið nein verðbólga vegna þess að fólk hafi tekið út séreignasparnaðinn þá gleymist að minnast á að hér hafa stýrivextir verið háir og milljarðar eru að safnast inn á reiknina í Seðlabankanum.  Þessir peningar kæla hagkerfið á móti þeim hita sem séreignasparnaðurinn myndar.

Með meiri gjaldeyristekjum þá skapast miklu meira svigrúm til að skapa verðmæti, störf og standa undir skuldum.  -  Höftin koma í veg fyrir þetta, þau hækka erlendar skuldir og draga úr lífskjörum.  Samt geturðu ekki stutt afnám þeirra.  Ég sé ekki annað en mótsögn í þessu dæmi.

Auðvitað á að hjálpa fólki en með því að hjálpa öllum þá hjálpum við engum og sköðum þá sem mesta þurfa hjálpina.

Lúðvík Júlíusson, 15.10.2010 kl. 09:19

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Lúðvík.

Svona i upphafi, hvernig hefur þú fengið þá flugu í höfði að ég sé á móti afnámi gjaldeyrishafta???  Af hverju heldur þú að ég hafi kynnt mér skrif þín upphaflega?????

En Lúðvík, bæði Ben Bernanke og Jón Daníelsson, báðir doktorar í kreppuhagfræði, svöruðu þessari spurningu um hættuna á þensluáhrifum eftirspurnaraðgerða við þær aðstæður sem núna eru.  Þeir svöruðu samhljóða, það er seinna tíma vandamál, okkar er að sjá til þess að það verði vandamál, með því að hindra stöðvun hagkerfisins með ólýsanlegum kostnaði og hörmungum alls almennings.

Og með fullu virðingum fyrir öðrum, þá hafa þessir menn vit á því sem þeir eru að segja.

Rök þín taka á hugsanlegum þensluáhrifum þegar hagkerfið er í jafnvægi, en gilda ekki þegar fjármagn er að þorna upp.  Háir stýrisvextir eru annað dæmi um eitthvað sem má ekki við þessar aðstæður.

Og þú nærð því ekki að þetta eru ekki svo gífurlegir peningar sem streyma inn í hagkerfið.  Stærsti hlutinn af því sem sparast gerir fólki einfaldlega kleyft að standa í skilum, það færir lánin til þess basis sem þau voru á fyrir Hrun.  Það er aðeins þar sem fólk hefur svigrúm, þar sem þetta fer út í hagkerfið.  Miðað við tölfræðina um vanda heimilanna, þá nær það ekki að vera helmingur af þessari upphæð, segjum helmingurinn af 22 miljörðum árlega???

Og þú ert að reyna telja mér í trú um að helmingurinn (og það er ríflega áætlað) af 22 milljörðum starti verðbólgu í hagkerfi sem er í gífurlegum samdrætti.  Það liggur við að ég spyrji þig hvort þú kunnir annan en þar sem ég þekki fyrri skrif þín þá veit ég út frá hvaða forsendum þú gengur.  En þessi forsenda þín er röng, hvernig sem á það er litið.

En sú sem sér blóm í haga og mjólkandi kýr með slökun á gengi, ég er sammála henni ef menn fara eftir ráðum Gunnars Tómassonar, sem benti Sigmari kurteislega á að verðtrygging væri mannanna verk, og það væri mannanna vilji að taka hana úr sambandi á meðan gengið leitar jafnvægis.

Þú átt heldur ekki að bjóða mér aftur upp á rökin að við sköðum þá sem mest þurfa hjálpina, hvorki ég eða HH hafa haldið því fram að þetta sé fullnægjandi aðgerð handa þeim þó hún gagnist þorra fólks, og fyrst og síðast sé forsenda sáttar í samfélaginu.  Ég hef bent þér á skrif og viðtöl við Jón Daníelsson og Gylfa Zoega, þekkta ofvita úr MR, þar sem þeir tækla þessi mál.

Sem í kjarna er sá, að það greiði enginn meira en hann geti, og við þetta ástand á það að vera markmið stjórnvald að tryggja þá sátt að enginn þurfi að víkja úr húsi vegna kreppu, að enginn þurfi að lifa lífi þrælsins vegna kreppu, heldur verði skilinn eftir peningur fyrir hagkerfið.  

Samfélagsleg sátt, hindrun á stöðvun hagkerfisins.  Ofvitar með doktorsgráðu.

Hvernig getur þú haldið uppi þrasi við þá Lúðvík.

Væri ekki nær að kynna þín sjónarmið um skynsemi sjálfbærs jafnvægisgengis og afla þeim fylgis.  Því það þarf að tak tillit til svo margs þegar Ísland er endurreist, en ekkert mun gerast í þjóðfélagi sundrungar og óeirða.

Það síðastnefnda er kannski mitt sjónarmið, það er grunnpunktur þess sem ég geng út frá.  Fólk í skuldaþrældómi er ekki sátt, fólk sem rænt var öllu sínu eigið fé en situr uppi með Hrunskuldirnar, það er ekki sátt.  Og svo eru það menn eins og ég sem munu aldrei vinna með stjórnvöldum sem taka ekki á táknrænan hátt Hrunskuldir frá almenningi. 

Og við erum líka margir, ef þú bætir okkur við  þann fjölda sem á við veruleg vandræði að etja, þá ert þú kominn með afl sem mun kollvarpa, ef sáttarhönd er ekki rétt út.

Það er grunnheimska hjá kerfinu að skilja það ekki.  Við viljum ekki þjóðfélagssátt á þeirra forsendum, og við erum nógu mörg til að fara okkur fram.

Eina spurningin í dæminu er tímalínan, og síðan hve hatrömm byltingin verður.  Það er ekki til her að vernda yfirstéttina fyrir þjóðinni, og VG getur ekki endalaust tafið byltinguna.

Og að lokum þetta Lúðvík.  Ástæða þess að ég er að ræða við þig er vegna þess að ég ber virðingu fyrir þér sem vitsmunaveru, þú ert ekki vitlaus tregur blindur.

Nái menn eins og við ekki saman (athugaðu að ég er ekki með stríðskjaft minn við þig) þá er út um þessa þjóð.  Ég ber virðingu fyrir rekstrarsjónarmiðum þínum, ég skil þau, og tel forsendu betra þjóðfélags að þau séu virt.

Það sem ég er hins vegar að reyna er að fá ykkur rekstrarmennina til að skilja, að það þarf hina hliðina á peningnum, og vísa ég þar til sögulegra staðreynda sem Churchil gerði líka þegar hann þaggaði niður í þeim sem vildu ekki sjá félagslegt íbúðakerfi.  "Ert þú tilbúinn að feisa byltingu??" og vísaði til þeirra sem vildu það í Rússlandi, og uppskáru byssukúlur og eignamissi.

Þess vegna bið ég þig enn og aftur að íhuga samhengið sem ég er að setja upp.  Það er frábrugðið þeim tillögum frá HH þar sem gert er ráð fyrir að hókus póku borgi.  Það er aldrei svo, en mín leið er þekkt, og hefur verið farin, eins og ég benti þér á með tilvísun í sögu Bandaríkjanna.

Ítreka grunnspurningu mína, í hvernig þjóðfélagi vilt þú að börn þín alist upp í???

Þeirri spurningu hef ég svarað og viðleitni mín (áður en ég fór í vinnu við að fella stjórnina) við að finna sameiginlega fleti skýrist út frá því svari.

Hvert er þitt svar Lúðvík???

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.10.2010 kl. 10:48

14 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Ómar,

ég hef þá víst eitthvað misskilið þig varðandi höftin.

Ég er einfaldlega á þeirri skoðun að ávinningurinn af leiðréttingu sé ofmetinn og að ókostirnir séu vanmetnir.

Ef það er vilji fólk eftir ítarlega og skynsamar umræður að fara niðurfellingaleið, af hvaða tagi sem er, sem hluta af sáttaleið í þjóðfélaginu þá leggst ég ekki gegn því.  Sem hluti af skynsamri umræðu þá finnst mér einfaldlega skylt að benda á að mér finnast ókostirnir vera meiri og ég hef rökstutt það hvers vegna.

En ég er ekki á neinn hátt að afsaka það hvers vegna lítið hefur verið gert í 2 ár til að leysa vanda þeirra verst settu.  Ég er þannig maður að ef ég hefði verið settur í að finna lausn þá hefði ég ekki getað sofið fyrr en hún væri fundin.  Þetta á auðvitað við um fleiri en mig.

Mig langar líka að benda þér á að í upphafi kreppunnar þá var ég á þeirri skoðun að auka bæri eftirspurn í landinu með öllum mögulegum leiðum, jafnvel peningaprentun.  Síðan ákvað ég að fara aftur í gegnum allar hagfræðibækurnar sem ég hafði lesið, sem spanna allt frá vinstri til hægri ásamt kennslubókum.  Eftir allan þennan lestur komst ég að því að betra væri að koma á stöðugleika með lágri verðbólgu og lágum vöxtum en það er ekki hægt ef það er stöðugt verið að "örva" hagkerfið með innspýtingum.  Að mínu mati(eftir allan lesturinn) þá frestar í raun innspýtingin endurreisninni og frestar því bættum lífskjörum. 

Í raun hefur hagkerfið verið rekið áfram frá 2002 eins og hér væri djúp kreppa.  Nú þegar hún er skollin á þá er "djúsinn" búinn.  Þessi hagstjórn hefur stórskaðað hagkerfið og það hefur minnkað.  Þess vegna munu auknir peninga ekki skila sér í aukinni veltu, umsvifum og atvinnu nema því fylgi einnig verðbólga.  Ef við eru ekki tilbúin að sætta okkur við verðbólgu þá verðum við að sætta okkur við hærri stýrivexti og minni umsvif.

Við verðum bara að vita hvað við erum að gera.  Ég gæti alveg haft rangt fyrir mér, ég skal vera fyrstur til að viðurkenna að ég sé mannlegur og að ég viti ekki allt.

Ég vil sjá Ísland sem frjálslynt vestrænt velferðarríki, þar sem ríkið sér þegnum sínum fyrir öflugu mennta- og velferðarkerfi án mismununar þar sem þeim er hjálpað sem verða undir í lífinu.

takk fyrir þessar vingjarnlegu umræður.

Svona ræða menn málin, með því bera virðingu fyrir hvorum öðrum þrátt fyrir að þeir séu með ólíkar skoðanir.

kveðja, Lúðvík

Lúðvík Júlíusson, 15.10.2010 kl. 14:23

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Chao, og gott gengi við að útbreiða hugmyndir um öflugt atvinnulíf.

Takk fyrir mig.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 15.10.2010 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 15
  • Sl. sólarhring: 27
  • Sl. viku: 2034
  • Frá upphafi: 1412733

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 1787
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband