Frysting verðtryggingarinnar er ekki val.

Frysting verðtryggingarinnar, frá þeim tíma sem grímulaus árás íslenskra auðmanna hófst á íslenskt hagkerfi, er ekki valkostur í stefnu stjórnmálaflokka. Málið snýst ekki um hvort þjóðin hafi efni á slíkri gjörð og það snýst ekki um hvort það sé réttlætismál eða þá að gerðir samningar eigi að standa.

Ekkert að þessu skiptir máli því það er ekki val hvort verðtryggingin sé fryst eður ei.

Frysting verðtryggingarinnar er það eina sem getur bjargað þessari þjóð frá glötun. Hún er upphaf allrar samfélagssáttar og hún er upphaf þess að þjóðin vilji takast á við aðsteðjandi vanda og leysa hann í sameiningu.

 

Standi þjóðin ekki saman þá er þjóðarvá í vændum og ekkert getur hindrað yfirvofandi hrun þess samfélags sem við þekkjum og vorum svo stolt af. Vissulega voru skuggar í því samfélagi og það villtist af leið á meðan mýrarljós græðgi og sérhyggju var sá ljósgjafi sem lýsti upp efnahagslífið. En lífið er ekki fullkomið og önnur samfélög eiga líka við sinn vanda að glíma.

En þjóðin stóð saman á erfiðleikatímum og það var hugsað um þá sem áttu undir högg að sækja sökum aldurs, sjúkleika eða annars sem gerði fólk erfitt fyrir í sinni lífsbaráttu. Staða foreldris skipti ekki máli þegar kom að því að mennta börnin og öll börn nutu sömu heilsugæslu.

 

En núna vilja græðgiöflin rjúfa þessa sátt. Þau höfða til síngirni fólks og öryggisleysis. Segja að þjóðin hafi ekki efni á að hjálpa unga fólkinu. Það sé of dýrt og það verði á kostnað ellilífeyri þess. Segja að það eigi að standa við gerða samninga.

Og það er rétt. Það á að standa við gerða samninga. Og það eru til æðri samningar en sú kvöð að undirgangast verðtryggingu lána ef þú vilt flytja að heiman og stofna til þinnar eigin fjölskyldu. Uppfylla þannig þá kvöð sem náttúran leggur á allt líf og kallast að viðhalda tegundinni. Þessi samningur er sjálfur grunnsáttmáli samfélagsins. Að allir eigi sama rétt til lífs og gæða samfélagsins og á erfiðleikatímum þá stöndum við öll saman og hjálpumst að.

Þessi sáttmáli milli einstaklinga innbyrðis og milli einstaklinga og stjórnvalda er óskráður en það vita allir af tilvist hans. Hann er sáttmálinn sem heldur samfélaginu saman og kemur í veg fyrir illdeilur og bræðravíg.

Og þessi sáttmáli krefst þess að Verðtryggingin sé fryst meðan hinar efnahagslegu hamfarir ganga yfir.

 

Það er ekki val. Þetta er eitt af því sem verður að gerast.

 

Lítum á forsögu þeirrar stöðu sem núna er uppi í samfélaginu.

Vegna óhóflegs innstreymis erlends lánsfjár þá ríkti eignabóla á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi eignabóla var ekki á ábyrgð unga fólksins heldur á ábyrgð bankanna sem lánuðu því pening og ríkisvaldsins sem leyfði henni að fara úr böndunum. Unga fólkið átti ekki val með að kaupa hús utan bólusvæða því störfin og menntunin var á höfuðborgarsvæðinu. Og það hafði ekki val um hvort það tæki lán með verðtryggingu eður ei.

Vildi það búa á landi feðra sinna og stofna þar fjölskyldu, þá varð það að kaupa húsnæði á þeim kjörum sem bauðst. Hinn valkosturinn var að setjast að erlendis og slíkt er ekki valdkostur fyrir þjóð sem vill vaxa og dafna.

Enda var ekki rætt um hættur efnahagslífsins, það var sagt traust af stjórnvöldum og bönkum og fólk fékk ekki lán nema það stæðist greiðslumat. Og þeir sem vissu að borgin var reist á sandi, bæði innan bankanna og stjórnkerfisins, þögðu um vitneskju sína.

Því er ekki hægt að halda því fram með neinum rökum að ungt fólk hafi getað hagað sínum málum á neinn annan hátt en það gerði.

 

En efnahagslífið stóð ekki á traustum fótum og í ársbyrjun 2008 gerðu bankarnir atlögu að íslensku krónunni með þegjandi samþykki ríkisvaldsins. Þetta gerðu þeir til að fegra sína stöðu en skeyttu engu um hag viðskiptavina sinna, þar á meðal alls þess fólks sem skrifaði undir verðtryggð lán sín í þeirri góðri trú að hlutirnir væru í lagi.

Og það var ekki bara þannig að ríkisvaldið lét þetta áhlaup bankanna viðgangast, heldur þagði það yfir vitneskju sinni um yfir vofandi hrun.

Stjórnvöld rufu sáttmála sinn við unga fólkið í landinu.

 

Eignir þess féllu í verði á sama tíma og lánin þess hækkuðu. Fólk sem gerði samninga sína í góðri trú út frá eignastöðu sinni og greiðslugetu, var allt í einu orðið eignalaust í þeirri merkingu að virði eigna þess dugði ekki fyrir skuldum. Og þegar áhrif efnahagshamfaranna bætast ofaná þessa stöðu þ. e. atvinnuleysi, tekjumissir eða tekjulækkun og gífurleg hækkun vöruverðs þá ræður þetta unga fólk ekki lengur við sínar skuldir.

Það missir heimili sín ofaná þá óáran sem annars ríkir. Og það er ekki verið að tala um nokkur þúsund einstaklinga í vandræðum, rúmlega helmingur heimila landsins er þegar kominn með neikvæða eiginfjárstöðu og þúsundir eru atvinnulausir og ennþá stærri hópur lifir í stöðugum ótta um að missa vinnu og í kjölfarið allt sitt.

 

Ef samfélagssáttmálinn helst rofinn og þjóðin neitar að aðstoða þetta unga fólk, þá mun annað að tvennu gerast. Það sem gerðist í Færeyjum þar sem heil kynslóð flutti úr landi eða það sem gerðist í Finnlandi í upphafi tíunda áratugarins en þar varð fátækt landlæg í hópi þess fólks sem missti vinnu og heimili. Félagsleg vandamál, misnotkun áfengis og eiturlyfja, stóraukin sjálfsmorðstíðni, geðræn vandamál, þunglyndi; eða allt það sem fylgir slömmi og útskúfun.

Og börnin lenda á vergang vímaefnaneyslu og afskiptaleysis.

Börnin sem eiga að erfa landið. Þetta er gjaldið ef við trúum stjórnmálamönnum sem aðeins telja sig hafa hagsmuni fjármagnseiganda að verja.

 

Og þeim má ekki trúa. Þjóðarvá getur aldrei verið valkostur.

 

Steingrímur Joð Sigfússon kvaðst skilja þennan vanda og vildi geta hjálpað en kvaðst ekki vera töframaður. Þar með misskildi hann hlutverk sitt gjörsamlega. Töframenn skapa ekki peninga en þeir geta skapað sýn á það sem þarf að gera. Fengið fólk til að trúa því að hið ómögulega sé hægt.

Einu sinni var Steingrímur gæddur þeim töfrum.

En það þarf ekki töfra til. Heldur viljann til að hjálpa þjóð sinni. Hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda.

 

Faðir, sem horfir uppá alvarlega veikt barn sitt, byrjar ekki að ræða við móðir þess hvort þau hafi efni á að hjálpa barni sínu. Hann reynir að gera það sem þarf að gera, til að barn hans fái hjálp. Kannski er það honum fjárhagslega ofviða, kannski reynist björgin í óséðri framtíð. Skiptir ekki máli. Ef barninu verður ekki bjargað, þá er það ekki þess að hann reyndi ekki. Hann gerði það sem hann gat.

Það sama átti Steingrímur Joð að gera. Hann átti að lýsa því strax yfir að fólk héldi heimilum sínum og hefði þar skjól á meðan hamfarirnar gengu yfir. Það má vera að það sé ekki hægt að bjarga öllum en engan á að afskrifa fyrirfram. Það veit engin hvað óráðin framtíð ber í skauti sér. Og ef öllum er ekki bjargað þá er það ekki vegna þess að viljann hafi skort. Það var eitthvað annað sem brást.

 

En hvað kostar þetta spyr fólk. Og svarið er það að þetta kostar minna en að bjarga fjármálakerfinu og þetta er peningur sem kemur til greiðslu á löngum tíma því verðtryggðu lánin eru til langs tíma.

Og það kostar miklu meira að aðhafast ekkert eða grípa til ráðstafana sem ekki ná utan um vandann. Þá fyrst mun þjóðfélagið sjá kostnað. Kostnað sem það hefur ekki efni á því hann verður ekki bara fjárhagslegur, hann verður líka metinn i mannslífum og mannlegum harmleikjum.

En mesti kostnaðurinn er samt sá að rjúfa grunnsáttmála samfélagsins því án hans mun þjóðfélagið aldrei ná sér á strik á ný.

 

Það verður engin viðreisn án samstöðu og sáttar.

 

Sú leið að hjálpa einum en hafna öðrum mun aðeins leiða til bræðravíga. Og stjórnvöld munu ekki geta biðlað til þjóðarinnar um stuðning við erfiðar ákvarðanir. Stjórnvöld sem sjálf reyndust ófær um að gera það sem þurfti að gera. Og þau öfl sem þrífast á sundrungu og óánægju munu blómstra.

Loks mun þjóðin skiptast upp í ólíka hópa sem munu berjast sín á milli og engu eira í þeirri baráttu. Slíkt er ætíð afleiðing þess að rjúfa sátt og frið.

Þetta vissi Þorgeir Ljósvetningagoði og þetta vita allir vitrir menn.

 

En þeir sem telja samning um greiðslu verðbóta á neyðartímum, æðri sjálfum sáttmála þjóðarinnar, nota það sem rök að þjóðin verði að takast á við erfiðleika sína núna en ekki velta byrðum verðtryggingarinnar á skattgreiðendur framtíðarinnar. Þeir sem þessu halda fram eru ekki þeir sem glíma við afleiðingar verðtryggingarinnar og þeir eru ekki að ala upp börn. Þá vissu þeir að börnin okkar vilja frekar halda heimilum sínum og losna við þær afleiðingar sem upplausn fjölskyldna og samfélags hefur í för með sér. Þeirra draumur er ekki að enda sem áfengissjúklingar eða fíkniefnaneytendur.

Þegar þau verða eldri og þekkja sögu þess skuldabréfs sem ríkissjóður gaf út á skattgreiðendur framtíðarinnar til að stuðla að framtíð þeirra og fjölskyldna þeirra, þá munu þau stolt greiða þá milljarða inn í lífeyriskerfið sem þarf til að afar þeirra og ömmur bíði ekki skaða að.

 

Þeir milljarðar eru lítið gjald fyrir framtíð einnar þjóðar sem setti sér það takmark að engin mundi farast í þeim hörmungum sem yfir dundu. Efnislegar eigur mega glatast en ekki mannslífin og ekki sáttmáli þjóðarinnar um eina þjóð í einu landi þar sem öllum er tryggður réttur til lífs og framtíðar.

Engum má fórna svo aðrir hafi það aðeins betra. Við erum öll á sama bátnum og við munum öll komast af. Græðgin og síngirnin munu þurfa að leita á önnur mið til að finna sér fórnarlömb.

Að halda í heiðri æðsta sáttmála þjóðarinnar er hennar eina lífsvon og í þeim sáttmála er framtíð hennar fólgin.

Þeir sem skilja ekki þessi einföldu sannindi og telja sig hafa vald til að fórna meðbræðrum sínum, þeir eiga ekki erindi í Íslensk stjórnmál.

Því það er ekkert val. Við erum ein þjóð.

Kveðja að austan.

 

Ps. Gamall pistill sem má alveg heyrast aftur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Ég bendi á að rúmlega 5% verðbólgunnar er vegna stóriðjuuppbyggingar á Austurlandi.  Þetta er tvöfalt verðbólgumarkmið Seðlabankans!

Ég bendi einnig á að ríkið taldi það mjög jákvætt að hingað til lands "sogaðist" erlent lánfé til að kæla hagkerfið!

Menn vissu það strax 2004 áður en boðið var upp á 100% lánin að það yrðu þeir sem ættu ekki húsnæði sem á endanum borguðu brúsann.  Samt fóru stjórnvöld þessa leið!  Menn vissu líka að þetta myndi leiða til offjárfestingar, sóunar og lífskjaraskerðingar!  Samt fóru stjórnvöld þessa leið!  Stjórnvöld gátu lækkað lánshlutfallið en gerðu það ekki.

Seðlabankinn dældi krónum út í hagkerfið sem fóru í að kaupa gjaldeyri og felldu loks krónuna.

Þessi verðbólga er fyrst og fremst ríkinu að kenna og ég skil ekki hvers vegna lánveitendur eiga allt í einu að borga fyrir heimska stjórnmálamenn.

Eins og Geir H Haarde sagði þá verður öll þjóðin að taka á sig hluta ábyrgðarinnar, það hlýtur að þýða einnig þessar skuldir sem hann átti þátt í að setja á herðar okkur.

Það á að hjálpa þeim sem þurfa hjálp en almenn niðurfelling hittir ekki í mark og minna verður eftir til að hjálpa þeim sem standa verst.

Lúðvík Júlíusson, 12.10.2010 kl. 07:58

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Lúðvík, tæmdu hugann, lestu þetta aftur og reyndu að skilja.

Það eru 70.000 einstaklingar sem stefna í neikvæða eiginfjárstöður, þetta er mjög fjölmennur hópur, hans eini glæpur var að taka þátt í þjóðfélaginu eins og hann var.

Það hefur verið rökstutt að það var forsendubrestur, og það voru afglöp.  En einstaklingurinn sem slíkur ber ekki ábyrgð á því.  En einstaklingurinn fær reikninginn.

Þú spyrð af hverju lánveitendur eigi að fá reikninginn, en þér finnst sjálfsagt að einstaklingurinn fái hann.  Það virðist ekki hvarfla að þér að það er eðli fjármálakreppa að það tapa allir.  En það sem gerðist á Íslandi var að það var tekinn meðvituð ákvörðun um að einn hópur borgaði, að hinn hópurinn hefði lög, sem hét verðtrygging, sem gerir hann stikkfrí. 

Þessi hugsun, þetta siðleysi er að kljúfa þjóðina, hún er ástæða þess samfélagsbrest sem ég minntist á í upphafi pistils míns.  Samfélagsbrestur þýðir beinn kostnaður fyrir samfélagið, í formi ólgu, í formi tapaðrar velvildar því í stað þess að sameinast um samfélagið og verja það, þá sjá þeir sem eru á köldum klaka, ekki nokkurn hag, eða finna fyrir tilfinningalegum ástæðum til að gera það.  Og þeir hika ekki eina mínútu að leita leiða til að bjarga sér og sínum.  

Þú ert því kominn með samfélagskostnað sem er til lengri tíma litið margfaldur á við þann sem myndi falla á ríkið þó það staðgreiddi þessa upphæð.   Þar með eru tveir hópar komnir með kostnað af stefnu siðleysisins.

En hvað með þriðja hópinn, þann sem ætlar að verja hag sinn með kjaft og klóm og vísar i lög um verðtryggingu sem var aldrei hugsuð til að taka á svona forsendubrest, hvað hún væri hugsuð til að leggja heila kynslóð Íslendinga í skuldahlekki.  Og valda þar með eyðingu samfélagsins.  

Já, hvað með þá.  Í pistli mínum um lærdóm sögunnar færði ég rök fyrir því að erlendir kröfuhafa bankanna myndu styðja alla þær aðgerðir sem héldu samfélaginu saman og sæi til þess að það myndi blómstra og dafna, því það er þeirra hagur.  Heimskan er því innlend, það eru innlendir heimskingjar sem standa í vegi fyrir sínum eigin hag.  Vegna þess að eignir lífeyrissjóða eru ekki í gulli, þær eru í greiðsluvilja fólks að greiða af lánum sínum.  

Lán sem eru of há miðað við greiðslugetu, þau afskrifast, það er sú kalda skynsemi sem er á bak við hræsnina um að hjálpa hinum verst stöddu, en lán sem enginn vilji er á baki við að greiða, þau tapast algjörlega.  Þess vegna eiga lífeyrissjóður allt sitt undir vilja skuldara til að greiða.

Og sá vilji er að hverfa, og þegar hann hverfur, þá tapa lífeyrissjóðirnir miklu, margfaldri þeirri upphæð sem um er að ræða að leiðrétta.

Lúðvík, þú ert vel gefinn maður, ég hef lesið skrif þín og veit það.  Þess vegna getur þú ekki lokað augunum fyrir þessu orsakasamhengi.  Og ef þú hugsar þá hugsun til enda að við lifum í lýðræðissamfélagi, þá getur þú auðveldlega reiknað út hvað mörg atkvæði eru á bak við þessi 70.000 heimili sem á að skilja eftir á köldum klaka, bæði þeim og öðrum til tjóns.  Og það er ekki víst að næsta framboð verði trúða framboð, fólk er að vakna til vitundar um hvað heimskan og græðgin er að gera því.

Dúsan um að hjálpa hinum verst stöddu heldur hvorki vatni eða vindi.  Hún er einföld aðgerð til að aðlaga skuldir að greiðslugetu en í henni er ekkert réttlæti fólgið. Það sem fólk lagði fram í húsnæði sitt, er glatað, og hlutskipti þess er að þræla sína lífstíð fyrir þær fjármálastofnanir sem upphaflega komu því á kaldann klaka.  Eins er til fólk eins og ég sem sé enga samfélagssátt ef ég verð látin borga Hrunskuldirnar með hækkun verðtryggingarinnar, ég ræð alveg við það, en ég læt ekki bjóða mér þá gjörð yfirstéttarinnar.  Fyrr bylti ég henni. 

Og menn eins og ég eru ótalmargir og við erum viðbót við þann stóra hóp sem á allt sitt undir skuldaleiðréttingu.

Síðan getur þú bætt við þeim vilja yfirstéttarinnar að nota skattgreiðslur okkar til að greiða bretum kúgunarskatt og restin fer svo til AGS vegna heimskulegasta gjaldeyrisvarasjóðs í allri veraldarsögunni.  Ráðstöfunarfé þitt fer til bankanna, skatturinn í tilbúna erlenda lánardrottna sem yfirstéttin náði í til að tryggja hag sinn og tök á þjóðinni.

Hvarflar að þér í eina mínútu að frjálst fólk láti bjóða sér það????

Spólaðu þig því til baka og lestu forsendur mínar, þær eru raunverulegar og grafalvarlegar.

Kjarni okkar vanda felst í þessu viðhorfi þínu "ég skil ekki hvers vegna lánveitendur eiga allt í einu að borga fyrir heimska stjórnmálamenn. " ef það er notað til að koma í veg fyrir réttlæti gagnvart Hrunskuldum almennings.  Og hann er sá sami ef lánveitendur sætu aðeins uppi með vandann, það er hin hliðin á teningnum.

Lausnin á vandanum er að viðhalda samfélagssáttmálanum sem felst í því að enginn einn hópur verði látin taka á sig skellinn, heldur allir.   ... "þá verður öll þjóðin að taka á sig hluta ábyrgðarinnar"sagði skynsamur maður, og samfélagssáttin felst í að útfæra slíka leið.

Á hana bendi ég, útfærslan er Gunnars Tómassonar hagfræðings, áður en hann féll fyrir að láta kröfuhafa taka á sig allan skellinn, og hugmyndafræðin er sú einfalda aðferð sem þjóðir beita til dæmis til að fjármagna stríð sín þar sem barist er upp á líf og dauða.  Til dæmis eru stríðsskuldabréf frá fyrra stríð ennþá í umferð.

Þessir 220 milljarðar eru ekki há upphæð, þegar litið er að eðlilegt er að hún greiðist af samfélaginu á löngum tíma, en tryggir að samfélagið haldist saman í núinu.  Í raun eru um gegnumstreymislífeyrisgreiðslur líkt og núverandi kerfi Evrópu er.  Nema að um tiltölulega lítinn hluta lífeyrisgreiðslna er að ræða, það má segja að núverandi gegnumstreymi til þeirra sem áttu lítinn lífeyrissjóð viðhaldist í lengri tíma en áætlað var.

Orð mín í svona bloggi, og svona andsvari ná ekki yfir alla tæknilega útfærslu, en þau ná yfir þekkta hugmyndafræði, þrautreynda.  Og þau vísa í afleiðingar, þekktar afleiðingar er samfélagssáttin er rofin.

Er ekki tími til kominn að tengja.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.10.2010 kl. 08:50

3 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Aldeilis frábær færsla Ómar. Eins og töluð út úr mínu hjarta. Allir vildu Lilju kveðið hafa.

Magnús Óskar Ingvarsson, 12.10.2010 kl. 10:10

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Magnús, ég held að hún batni bara með tímanum eftir því sem spádómar hennar koma meira og meira fram.

Og já, þetta er mín Lilja ásamt tveimur öðrum pistlum sem tengjast ICEsave.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.10.2010 kl. 11:20

5 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Ómar,

ég er ekki ósammála þér.  Ég var einfaldlega að benda á hversu stóran þátt ríkið átti í þeirri verðbólgu og þeirri lífskjaraskerðingu sem hér varð alveg óháð hruni bankanna.

Síðasta setningin í athugasemdinni minni ætti að róa þig:"Það á að hjálpa þeim sem þurfa hjálp en almenn niðurfelling hittir ekki í mark og minna verður eftir til að hjálpa þeim sem standa verst."

Það versta við almenna niðurfellingu er að þeir sem eiga ekkert þeir fá ekkert og dragast þannig enn meira aftur úr öðrum í landinu.  Einnig er mjög mikil hætta á að verðbólgan taki kipp og þá rýrna kjör þeirra enn meira.

Ég er að hugsa um þá algjörlega eignalausu.  Ég er hræddur um að þeir haldi áfram að borga eins og þeir gerðu síðustu ár.

Lúðvík Júlíusson, 12.10.2010 kl. 12:56

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Lúðvík.

"Og það var ekki bara þannig að ríkisvaldið lét þetta áhlaup bankanna viðgangast, heldur þagði það yfir vitneskju sinni um yfir vofandi hrun.  Stjórnvöld rufu sáttmála sinn við unga fólkið í landinu."

Ég held frá upphafi hafi ég lagt áherslu á að stjórnvöld bæru meginábyrgðina, að hafa látið þetta fara svona, sem og hitt að neita fólki um réttlætið.  Pistillinn gengur jú allur út á samræmdar aðgerðir stjórnvalda með lagasetningu og útgáfu skuldabréfs til cirka 50 ár sem bætir lífeyrissjóðum og öðrum upp tjón þeirra vegna afturköllunar verðtryggingarinnar.  

Sem og hitt að öðrum úrræðum sé beitt, þar sem þetta dugar ekki til.  Það liggur í anda þessarar setningar "engin mundi farast í þeim hörmungum sem yfir dundu" sem og anda pistilsins, en kom vissulega ekki nákvæmlega fram í honum.  Því þetta var jú pistill en ekki ritgerð.  

En í öðrum bloggpistlum þá útskýrði ég þessa hugsun betur, enda fjölluðu þeir þá um nákvæmlega hvernig það ætti að hindra að fólki yrði fórnað.  Í sem stystu máli þá snýst það um að aðlaga greiðslubyrði fólks að greiðslugetu, en varnagli yrði sleginn með útfærslu hugmynda þeirra Jóns og Gylfa, að ef eignin færi aftur að hækka, og ef hún yrði seld, þá fengi lánardrottninn sitt.  

Lógíkin er mjög einföld, það er allra hagur að fólki lifi mannsæmandi lífi, þrátt fyrir hrunið, þannig blómstrar hagkerfið, þannig eykst hagvöxtur, þannig hámarkar þú endurgreiðslur.

En það verður aldrei nein sátt um þína Samfylkingarleið, að hugsa aðeins um þá sem verst eru settir, því þetta er orðaleppur sem er ekki hægt að útfæra, því það er enginn dómbær á það.

Þess vegna þarf almennar aðgerðir, leið Hagsmunasamtakanna um leiðréttingu Hrunskulda, að fólk ofaná alla tekjuskerðinguna, hafi skuldir sínar á því nafnverði sem var fyrir hrun, þó það megi ræða að taka tillit til "eðlilegrar verðbólgu.".  Svona er þetta í öðrum löndum, skuldir fólks hækkuðu ekki ofaní lækkun fasteignaverðs og minnkandi kaupmáttar.

Síðan þarf þá viðbót sem Jón Daníelsson og Gylfi Zoega útfærðu, að enginn greiði meira en hann getur.  Um þetta þarf lagasetningu.

Að skilja þetta krefst ekki mikils vits, menn þurfa aðeins að treysta okkar hæfustu hagfræðingum.

En ég er ekki órólegur, andsvar mitt er gagnvart þeim hugmyndum sem innslag þitt lýsir, ekki þér persónulega.  Það hugsa margir hlutina eins og þú, og afleiðingar þeirrar hugsunar blasa við.

Upplausn þjóðfélagsins.  Ekki illa meint, en það er þannig.  

En mætustu menn vöruðu við því, og hröktu strax þá heimsku sem varð samt ofaná í þjóðfélaginu.  Það er ekki þannig að menn vissu ekki betur.

Menn kusu að hlusta ekki.  Og uppskera eftir því.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.10.2010 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 621
  • Sl. sólarhring: 627
  • Sl. viku: 6352
  • Frá upphafi: 1399520

Annað

  • Innlit í dag: 533
  • Innlit sl. viku: 5388
  • Gestir í dag: 488
  • IP-tölur í dag: 482

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband