Svívirðan heldur áfram.

Afglapaháttur alþingismanna kom þjóðinni á heljarþröm.

Við Hrunið mikla haustið 2008 var grundvelli kippt undan tugþúsunda fjölskyldna sem höfðu tekið lán sín í góðri trú út frá þeim forsendum að fólk, ekki afglapar stjórnuðu landinu.

Hvernig takast svo afglaparnir við ábyrgð sína????

Jú, þeir fundu upp á nýtt orð yfir skuldafangelsi, og kölluðu það greiðsluaðlögun. Þegar þessi umræða kom fyrst fram, þá varð ég reiður, og bloggaði pistil sem mér finnst ennþá eiga erindi til fólks.

Því ennþá er verið að tala um skuldafangelsi, ekki að axla ábyrgð sína og nota krafta samfélagsins til aðstoða samborgara okkar.

En hér er pistillinn.

"Hundrað og eitthvað dögum eftir hrun Íslenska hagkerfisins þá kom loksins þingmál frá Samfylkingunni sem snerti almenning.

Frumvarp um tímabundna skuldaánauð í umsjón skilorðsfulltrúa.

Hvílík réttarbót á 21. öldinni. Það er rétt að fjölskyldur skuldara eru ekki lengur seldar hæstbjóðanda eins hjá Rómverjum forðum. Eins er skuldafangelsi sögubóka Dickens frá 19. öldinni of gamaldags.

En það er einföld skýring á þeirri "mannúð". Einhver frjálshyggjuhagfræðingur fann það út að kostnaður við að fæða skuldarann og fjölskyldu hans gæti vegið uppi tekjurnar af vinnuframlagi hans. Þess vegna fær hann sjálfur að afla sér fæðu og húsnæðis en kröfuhafar fá restina af vinnuframlagi hans. Skítt með hag annarra fjölskyldumeðlima. Þarfir barna og maka mega setjast á ís á meðan skuldaþrællinn borgar og borgar. Ætli hann borgi líka kostnaðinn við skilorðsfulltrúann? Kannski verður einu ári bætt við ánauðina til að ríkið fái sitt?

En það er mannúð í kerfinu sagði formaður allsherjarnefndar. Þegar skuldarinn er orðinn gamall og lasburða þá er honum sleppt úr ánauðinni. Og ef á það er litið að annálar níuhundruð og eitthvað greina frá því að í hallæri var veikum og lasburða þrælum kastað fyrir björg. En það er líka ekki góð hagfræði að þrælka gamalt og lasburða fólk. Kostnaðurinn getur verið of mikill.

Gamla maltækið "að þangað leiti klárinn þar sem hann er kvaldastur" hefur öðlast nýja merkingu. Skuldarinn leitar á náðir Samfylkingarinnar því þar mun hann skuldaþrældóm öðlast.

En þetta er mikil réttarbót öskra Snatar Samfylkingarinnar. Og kannski er það rétt. Núverandi gjaldþrotalög eru afsprengi upplýsingarstefnu 18. aldar. Síðasta réttarbót þeirra var þegar fólk slapp við skuldafangelsið en sat uppi með skuldir sínar ævilangt. Gerðist einhvern tímann seint á 19 öldinni en síðan ekki meir, nema andlitsupplyfting hér og þar. Hagsmunir kröfuhafa og þóknun lögfræðinga hefur allt verið grunnforsenda kerfisins. Það hefur alltaf verið góður bissness að sölsa undir sig eigur skuldara fyrir slikk. Í því ljósi er þetta réttarbót. Hefði sómt sér vel í byrjun 20. aldar.

En þó lögfræðingar Alþingis viti ekki að því, þá er 21. öldin langt komin með sinn fyrsta áratug. Og þessir sömu menn, sem samþykktu þetta skuldafrumvarp, frömdu landráð af gáleysi með því að koma þjóðinni á heljarþröm. Það eru þeir sem bera ábyrgð á erfiðum fjárhag einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Ef einhverjir eiga að borga aleigu sína til kröfuhafa þá eru það þeir. Og telji þeir það við hæfi að koma upp bandarísku skilorðseftirliti og skuldaánauð þá eiga þeir að gangast undir það fyrstir manna. Ef þeir eru jafnsannfærðir eftir 10 ár eða svo um þessa réttarbót þá má ræða hvort þeir gangist ekki undir hana 10 ár í viðbót.

Á meðan á þjóðin að kjósa mennskt fólk til þingstarfa. Fyrsta verk nýkjörins þings á að vera setja ný lög um gjaldþrot sem eru í takt við mannúð okkar aldar. Og tekur mið af þeirri þjáningu sem aðgerðarleysi og einbeittur brotavilji fyrra þings hafði í för með sér.

Grunnregla hinna nýju laga á að vera skjaldborg um heimili fólks. Aðeins veðlán vegna húsnæðiskaupa eiga að falla á fólk í greiðsluþroti. Og þá þannig að eigandi veðskuldarinnar fái eignarhlut í húsnæði fólks í hlutfalli við vanskil greiðanda. Sá eignarhluti veðhafa kemur fyrst til greiðslu þegar fólk kýs að selja fasteign sína. Þó má þvinga fram nauðungarsölu ef skuldari sýnir einstakan vilja til að standa ekki í skilum þó tekjur leyfi. Slík dæmi verða örugglega innan við 1 % af öllum lánum því Íslendingar eru að uppistöðu skilvíst og heiðarlegt fólk. Aðeins erfiðar fjárhagslegar og heilsufarslegar aðstæður valda greiðslufalli hins meðalborgara og kerfið á að miðast við þarfir hans og hlutverk í þjóðfélaginu. Án Jóns og Gunnu er ekkert þjóðfélag rekið. Jón og Gunna bera ekki ábyrgð á núverandi ástandi þjóðarbúsins eða því atvinnuleysi og tekjutapi sem yfir almenning hefur dunið.

Aðrar kröfur geta gert veðkall í aðrar eigur fólks og við gjaldþrot eignast þrotabúið þær. Þegar það hefur selt tilfallandi eignir þá er þrotabúið gert upp og restin af kröfum afskrifaðar. Skuldarinn getur hafið nýtt líf á hreinu borði og lánveitandinn fundið sér nýja viðskiptavini.

Vissulega mun draga úr skammtímalánum til eyðslu og neyslu en slík lán voru meinsemd sem mátti alveg dragast samann. En fólk í traustri vinnu og með traustan bakgrunn mun ekki finna fyrir þessari kerfisbreytingu. Fjárglæframennirnir munu aðeins mæta meiri tortryggni og er það vel. Breytni þeirra á ekki valda venjulegu fólki erfiðleikum. Það er tími til komin að kerfi verði hönnuð fyrir megin notkun og gerð notendavæn. Hræðslan við mögulega misnotkun á ekki að ráða hönnun þeirra. Hinn venjulegi notandi á að njóta vafans.

Hvað þýðir svona lagasetning? Jú loksins er arfleið þrælahaldsins, sem mótaði siðmenninguna í þúsundir ára, liðin undir lok á Íslandi og það eina sem spurt á að vera er af hverju var þetta ekki gert fyrir langa löngu.

Þeir sem efast skilja ekki inntak mennsku. Þeir sem hæðast og gagnrýna eru ekki mennskir.

Svo einfalt er það.

Og hin nýstofnaða Borgarahreyfing á mikið óunnið verk fyrir höndum þegar fólk áttar sig ómennskunni sem hrjáir núverandi þingheim, og þá mun hún fá mikið fylgi. Eina mótsvar fjórflokkanna er að senda tilvonandi þingmannsefni þeirra á námskeið í mennsku og mannúð.

Ég sting uppá að þeir verði látnir tala við ömmur sínar um heila helgi. Lesi svo Vesalingana eftir Hugo og læri loks faðirvorið. Lokahnykkur þessa námskeiðs er svo vikudvöl í Hveragerði undir handleiðslu Gunnars Dals og Magnúsar Sigmundssonar.

Eftir það mun enginn minnast á þessi smánarlög framar."

Kveðja að austan.


mbl.is Skuldavandinn tekinn fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 33
  • Sl. sólarhring: 40
  • Sl. viku: 2052
  • Frá upphafi: 1412751

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 1805
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband