19.5.2010 | 09:17
Kreppan verður bráðum óviðráðanleg
Vegna þess að undirstöður fjármálakerfisins eru maðkétnar að siðlausri græðgi sem hefur nagað upp traust manna á því.
Vegna þess að menn viðurkenna ekki kerfisbrestinn og eru því ófærir um að grípa inn í með aðgerðum sem duga.
Vegna þess að skuldir í kerfinu eru miklu meiri en eignir. Mismunurinn var bréf, jafnvel rafræn bréf, verðlaust með öllu um leið og kerfið fer á hliðina.
Þetta vita fjárfestar og því eru allir að plotta gegn hinum, hvernig hægt sé að losa um pappírseigur yfir í sloid eigur, án þess að það hafi Hrunáhrif, að allir hlaupi til að selji. Því þá er allt búið.
Aðeins þetta plott, að láta eins og allt sé í himnalagi eða þannig, en um leið reyna að bjarga sér, er skýring þess að fjármálakerfið er ekki ennþá hrunið. Þetta er eins og síðustu ár Brezhnevs í leiðtogasæti Sovétríkjanna sálugu. Þar sem valdaklíkan hafði ekki annan arftaka tilbúinn, þá var lífi haldið í kallinum með daglegum blóðskiptum og öðrum hrossaaðferðum. Og þegar ekki var hægt annað en að sýna hann, eins og á 1. maí eða á byltingarafmælinu, þá var honum stillt upp og menn að baki látnir lyfta upp hendinni á kallinum og veifa þegar við átti.
Heimsbyggðin glotti þá, en í dag glottir hún ekki. Hún er farin að skilja að hörmungar eru í vændum. Sjálfar undirstöðurnar eru að bresta. Almenningur víða í Evrópu er farinn að skilja að valdastéttin er bjarglaus, hennar eina ráð er að koma skuldum hins gjaldþrota kerfis yfir á almenning. Lausn sem virkar aðeins í stuttan tíma því bæði eru skuldirnar of miklar, sem og hitt að almenningur tekur ekki endalaust við.
Eitthvað róttækt þarf að gera og vonandi verður það gert. En jafnvel þó það takist að hindra Hrunið, þá er ljóst að tjónið nú þegar sem hefur lent á almenningi er gífurlegt. Tími neyslu og áhyggjuleysis er liðinn þegar fólk sér fram á hærri skatta og verri almannaþjónustu.
Eitthvað svipað og hefur gerst á Íslandi.
Framtíðin er í besta falli ótrygg. Þess vegna er það ekki einu sinni firring svo heimskulegt er það, að tala um gífurlegan hagvöxt á Íslandi á næstum árum. Hagvöxt sem lántökur eiga að drífa áfram. Fyrst skal telja ICESave skattinn, síðan AGS lánið, og loks á að taka hundruð milljarða að láni til að knýja áfram stórframkvæmdir í orkuiðnaði.
Og í staðinn ætla menn að flytja út villt og galið og borga þannig öll lánin til baka.
En á krepputímum dregst útflutningur saman, það er óhjákvæmilegt, bæði í magni og verðum.
Hvað þá, hvað ætla menn þá að gera til að borga öll lánin??
Skilja menn ekki að formúla Jóns Ásgeirs gengur aldrei upp. Vegna þess að vöxtur sem er drifinn áfram á lántökum, að hann þolir aldrei niðursveiflu.
Þá eru þeir skuldsettustu þeir fyrst sem falla.
Viljum við eiga allt okkar undir þessum skuldum????
Þeirri spurningu þarf að svara sem fyrst, áður en stjórnmálastéttin getur hannað nýtt skuldafyllerí.
Það er framtíð okkar sem er í húfi, og framtíð barna okkar.
Aumur er sá sem fórnar henni fyrir stundagróða skuldafyllerísins.
Og við erum ekki aum, ekki láta gjörspillta fjölmiðlamenn telja okkur trú um það.
Okkur varð á, en við misstum hvorki kjark okkar og vit. Leppstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var mistök sem má leiðrétta strax í næstu sveitarstjórnakosningum, hrakleg útreið þar mun sprengja stjórnina. Síðan vísum við fulltrúum hin gjaldþrota kerfis, Óberum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins úr landi, og tökum málin sjálf í okkar hendur.
Aðeins ein regla þarf að gilda, að eyða ekki meira en við öflum. Hitt mun síðan gerast af sjálfu sér.
Eftir allt snýst þetta um dug, kjark og þor.
Flóknara er það ekki.
Kveðja að austan.
Hrun í evrópskum kauphöllum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:49 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 406
- Sl. sólarhring: 520
- Sl. viku: 5945
- Frá upphafi: 1400702
Annað
- Innlit í dag: 365
- Innlit sl. viku: 5123
- Gestir í dag: 342
- IP-tölur í dag: 338
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
góður pistill, held að þú náir kjarna málsins. þetta sem er að gerast í evrópu núna og það sem menn eru að segja er mjög svipað atburðarásinni og var hér fyrir hrun. það var endalaust verið að segja að allt væri í lagi og allt það. ég vona svo sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér því hrun í evrópu og hugsanleg endalok esb gæti haft afleiðingar út í heimskerfið sem er nú þegar ekkert allt of stöndugt eftir 2008 niðursveifluna. önnur niðursveifla frá hendi evrópu gæti komið annarri kreppu af stað og við höfum ekkert efni á því. þannig að maður vonar að þetta reddist en undirstöðurnar fyrir því eru bara litlar sem engar það er bara þannig. en maður verður bara að horfa á björtu hliðarnar og vona það besta.
þórarinn (IP-tala skráð) 19.5.2010 kl. 09:36
Blessaður þórarinn.
Og ekki skuldsetja þjóðarbúið upp fyrir rjáfur.
Ein slík frétt kom í dag, kannski það besta í stöðunni, en það er vítavert að breyta íslenskum krónum í evrur á meðan menn vita ekki hvernig þeir ætla að borga.
Að lenda í náðarfaðm AGS er eins og að létta þrautir fársjúks manns með arzeniki. Drepur vissulega ekki strax, en drepur samt örugglega að lokum.
Höftin eru betri en sá náðarfaðmur. Allt er betra en það.
Kreppa er til að leysa, ekki til að leggja allt í rúst við þær lausnir.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 19.5.2010 kl. 09:55
Góð grein og ég deili þínum áhyggjum, sjá færslu mína á www.fun.blog.is - greinin "Seinni bylgja á leiðinni" - eða með orðum Forseta Íslands "..yOu ain´t seen nothing yet..!"
kv. Heilbrigð skynsemi (www.fun.blog.is)
Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 19.5.2010 kl. 10:22
Takk Jakob.
Er búinn að vista pistil þinn.
Þetta er alltaf spurning hvenær heilbrigð skynsemi tekur yfir, og í framhaldi af því heilbrigt uppgjör við auðræningjakerfið sem rændi kapítalismanum.
Fyrsta skrefið er að fólk fari að kynna sér staðreyndir mála upp á eigin spýtur, hætti að láta auðleppa á fjölmiðlum mata sig eins og ómálga smábörn.
En það skref hefur ekki ennþá verið stigið. Fróðlegir og góðir bloggarar eru ekki lesnir, nema þá þeir komi með upphrópanir sem falla inn í fyrirfram ákveðinn hugmyndaheim fólks. Og þar með breytist svo fátt, því fólk er ekki tilbúið að hugsa hlutina upp á nýtt.
Og skorti á eftirspurn brýtur niður þá einstaklinga sem virkilega hafa fyrir að kynna sér málin og miðla upplýsingum. Slíkum bloggum hefur snarfækkað, því miður.
En hvað um það, á meðan er hægt að rífa kjaft út og suður, í þeirri von að það pirri valdstéttina, þá geri ég það. Hér er bloggað undir kjörorðinu, þurrkum út landsölufólk. Vonandi með þeim árangri að enginn þori aftur i ICEsave slaginn.
En breytingar, þær eru undir almenningi komið. Og þar er allt í gerjun.
Vonum það besta, þó ekki séu allir sammála um í hvað átt á að stefna, þá er ljóst að þjóðarskútan tók beina stefnu beint upp í sama skerjagarðinn og áður var siglt upp í. Og á svipuðum slóðum má finna fleiri þjóðríki, með sama einbeitta vilja að steyta á skerjum kreppunnar.
En ljósið í myrkrinu er það að þetta er aðeins pappírskreppa, og hugmyndafræðikreppa. Framleiðslan er ennþá öflug. Og þar liggur hagurinn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 19.5.2010 kl. 11:33
Blessaður Ómar.
Það hefur verið litið til Evrópu núna síðustu vikur og kannski réttilega svo. Hins vegar hefur þetta dregið athyglina frá því sem er að gerast í Bandaríkjunum. Þar er ástandið ekki neitt skárra. Ég hef varað við því að bandaríski markaðurinn væri að lenda í hremmingum og þann 4. maí sendi ég frá mér greiningu á bandaríska markaðinn, þar sem ég taldi að búast mætti við falli.
Reyndar hitti svo á að nokkrum klukkutímum síðar féll markaðurinn og þremur dögum síðar kom stóra fallið sem rakið var til mistaka. Ég gef ekki mikið fyrir það, því hvernig átti ég að sjá fyrir þessi mistök. Málið var einfaldlega það að þreyta var kominn í markaðinn og hann hlaut að gefa eftir. Núna er hann kominn langleiðina aftur þangað sem hann féll 7. maí og ekkert sem bendir til þess að hann sé að fara að rétta úr sér.
Það sem er að gerast núna úti er nokkuð sem var fyrirsjáanlegt og hefur verið það í marga mánuði. Við eigum ekki að líta til þess að lausnirnar séu erlendis, þeir munu verða í mun verri málum en við. Það sem við þurfum að gera er að líta okkur nær og til að byrja með þurfum við að losa okkur við fjármálakerfið sem við búum við í dag og er rót þeirra aðstæðna sem við búum við í dag. Lausnin er til, eins og kemur fram á www.umbot.org og ég hef ítrekað bent á.
Jón Lárusson, 19.5.2010 kl. 11:52
Blessaður Jón.
Nafn þitt kom einmitt upp í huga minn þegar ég sló inn svar mitt til Jakobs. Það er ekki eftirspurn eftir nýjum nálgunum og nýrri hugsun. Fólk veðjar ennþá á hið hefðbundna og hlustar ennþá á þá einstaklinga sem hafa ekkert lært og hafa ennþá ekki hugmynd um af hverju svona er komið fyrir vestrænum þjóðum.
Og það versta í stöðunni er að hugsanlega tekst að halda fúafleyinu á floti um sinn. Þá með gríiðarlegri innspýtingu frá almannavaldinu. Sem aftur lendir svo á skattgreiðendum. Svona hægfara dauði útrýmingarbúðanna þegar daglegt viðurværi dugði ekki til að halda lífi í fólki, en það féll samt ekki strax, ekki fyrr en varasjóðurinn var uppurinn.
Þá er betra að þetta falli og menn neyðast til að stokka upp á nýtt. Ekki mjög flókið. Sólon þurfti að glíma við svipaðan vanda og hans lausnir reyndust vel.
Það er ekkert nýtt undir sólinni.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 19.5.2010 kl. 14:00
Kannski þarf þetta seinna skot að koma til að menn átti sig á því að það er ekki nóg að sparsla í götin og sölumála yfir draslið, heldur þarf að fara í alvöru vinnu til að laga ástandið.
Hins vegar er ég ágætlega sáttur hérna heima, það var farið mjög illa með allt hér strax í upphafi og því tel ég að við munum koma betur út úr seinna skotinu en til dæmis Bretar og Bandaríkjamenn. Fjármálakerfi heimsins var alveg jafn sjúkt og okkar, en við vorum bara fyrst til að fá flensueinkennin og veikjast.
Jón Lárusson, 19.5.2010 kl. 15:43
Já, en það sem ég óttast er hvað svo, hvað verður eftir seinna skot.
Sagan kennir að upplausn fylgi átök, og hvernig verða átök 21. aldar??
Ekki það að ég geti breytt því, en áhyggjurnar hef ég samt.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 19.5.2010 kl. 22:19
Að vissu leiti skil ég ótta þinn, en spurningin er hvort hann sé ástæðulaus og þá líka hvað er það sem þú óttast í raun. Í flestum tilfellum er það óvissa sem vekur upp ótta hjá fólki, ekki vissa. Ef gefum okkur eitthvað, þá höfum við "búið til" ákveðna vissu og þar með getum við dregið úr þeim ótta sem til staðar er.
Við höfum ekki forsendur til að vita nákvæmlega hvað verður og þess vegna getum við ekki brugðist við fyrr en atburðirnir gerast. Til þess að undirbúa okkur höfum við skapað með okkur aðferðarfræði sem byggir á líkindareikningi, hversu miklar eða litlar líkur er á að eitthvað gerist. Út frá þessu setjum við upp aðgerðaráætlun, hvað ef ... .
Þannig að ef við lítum til þess hvað ef.
- Þetta myndi þýða algera upplausn í samfélögunum og þar sem þetta væri nær algilt á heimsvísu, þá er geri ég ráð fyrir að þessu fylgdu innri átök, byltingar og óeirðir. Eitthvað sem ekki snerti okkur, nema þá átök hér heima, átök sem við stæðum sjálf að og hefðum hugsanlega einhverja stjórn á eða aðkomu að. >> Það er ekkert fyrir okkur að óttast hér.
- Þau samfélög sem verst kæmu út lentu í vandræðum, sbr. miðjarðahafsríkin og þau vanþróaðari. Ríki eins og Þýskaland og Bretland, þar sem hefð er fyrir sterkri stjórn og aga myndu hugsanlega sleppa við algera upplausn, en vinnan við að halda í horfinu myndi gera það að verkum að ekki væri áhugi á að fara í einhver yrtri átök t.d. stríð. Utan Evrópu gæti komið til átaka t.d. á milli smáríkja í Asíu og Afríku, eitthvað sem er það langt frá okkur að við kæmum ekki að þeim átökum nema óbeint. >> Hérna er varla nokkuð fyrir okkur að óttast.
- spurning hvort þessi möguleiki er til staðar, en í dag er fólk í Evrópu síður tilbúið að fara í stríð á sömu forsendum og í seinni heimsstyrjöldinni. Þessar forsendur gætu risið upp í öðrum heimshlutum þar sem sterkar þjóðir gætu ráðist á veikari nágranna. Hins vegar er hæpið að þessar þjóðir hafi eitthvað að gera í Evrópu eða hin vestræna heim og því spurning hvort þetta hefði eitthvað með okkur að gera. Eina ríkið sem hugsanlega gæti staðið vel á heimsmælihvarða er Kína, en þeir gætu haldið þannig efnahagslegum styrk að þeir gætu farið út í einhvern styrjaldarátök. Spurningin er bara hvort þeir hefðu áhuga á því, þeir gætu náð meiri og betri árangri með fjárhagslegum aðgerðum. >> Þetta tel ég varla geta skipt okkur máli og því ekkert að óttast þar.
Aðrir möguleikar geta hugsanlega verið til staðar, en þeir væru varla af þeirri stærðargráðu að það hefði einhver veruleg áhrif á okkur og því ekkert að óttast þá.
Auðvitað má alltaf finna eitthvað til að viðhalda hugmyndafræðinni "mér ber ekkert gott og allt muni fara á hinn versta veg", en hvers vegna að halda í hana.
Ef maður trúir því að maður geti stjórnað lífi sínu og vinnur að því að gera sér sem best umhverfi, þá er ekkert að óttast. Auðvitað getur þetta tekið einhvern tíma og stundum getur virst eins og maður sé að berjast við vindmyllur og enginn sé árangurinn, en það sem öllu skiptir þá er að missa ekki sjónar af markmiðinu og vinna hörðum höndum til að ná því. Maður þarf bara að hafa hugfast að góðir hlutir geta tekið tíma og hindranir eru bara til að yfirstíga þær.
Semsagt ekkert að óttast, í bili að minnsta kosti
Jón Lárusson, 20.5.2010 kl. 08:21
Takk Jón, þetta er flott svar hjá þér.
Og þannig séð alveg sammála greiningu þinni.
En aldrei aftur stríð, það hefur verið sagt áður. En átök urðu vegna þess að almenningur greip ekki inní. Sá ótti sem ég er að lýsa, er ekki sá ótti að fela sig undir rúmi og bíða eftir hinu versta, heldur er ég að benda á ferli sem er þekkt úr sögunni, og hefur hingað til leitt til átaka.
Og ég vil að fólk mannist einu sinni og taki ráðin af höfðingjum sínum. Stöðvi þetta ferli, byggi upp nýtt þar sem reynsla mannsins og vit er notað til að leysa núning, ekki gömlu átakalausnirnar.
Það sem þú teiknaðir upp, hefur verið teiknað upp áður. Ég fór að hugsa þessi mál fyrir nokkrum árum þegar ég las ágæta grein í einhverju íslensku blaði þar sem greinarhöfundur rifjaði upp umræðuna sem var upp úr aldamótunum 1900. Þá ríkti söguleg velmegun miðað við fyrri tíð, og von var í lofti. Og það var sagt að hin deilandi stórveldi færu ekki í stríð því drápsvopnin voru orðin svo öflug, og þá aðallega vélbyssan og nútíma fallbyssur, að þau myndu aldrei vinnast sökum fjöldafalls allra hermanna. Reynsla sem fékkst úr bandarísku borgarastyrjöldinni og svo sáu menn mátt þeirra þegar Þjóðverjar tóku París 1871.
Og það ætlaði enginn í stríð, en serbneskir aðskilnaðarsinnar kveiktu þá púðurtunnu.
Eftir hörmungar fyrra stríðs þegar næstum heil kynslóð ungra karlmanna í Evrópu var þurrkuð út, þá var sagt aldrei aftur stríð. En átakaferli mynduðust, og það var ekki gripið inn í. Og þess vegna fór sem fór.
Mjög svipað á sér stað í dag, voldugasta ríki heims, Bandaríkjunum er stjórnað eftir hugmyndafræði átaka, og þar er fólk sem talar um átök sem valkost. Það fólk er mjög öflugt innan Repúblikanaflokksins. Og sá sem er alltaf tilbúinn að fara í átök, hann endar oftast í átökum. Þó ekki séu herveldi á móti, þá magnast upp andstaðan.
Og þau vopn sem eru til staðar í dag eru það öflug, að jafnvel litlir hópar fólks geta valdið gífurlegum hörmungum. Það er aðeins tímaspursmál hvenær það gerist. Það þarf til dæmis ekki nema að sprengja kjarnorkuverið í Kent í loft upp, til að lama þar með kjarna Vestur Evrópu.
Og sagan kennir að allt svona veldur stigsmögnun, ekki nema ný hugsun og ný viðmið taka yfir. Og í þessu dæmi er of seint að bregðast við eftir á. Það þarf að mynda jákvæða ferla gegn ríkjandi öflum sem hugsa ennþá eins og maðurinn gerði þegar hann vígvæddist fyrst fyrir 6.000 árum síðan eða svo. Vopnin eru bara ekki þau sömu í dag.
Þess vegna til dæmis eru hugsanir sem þú ert að tjá á síðu þinni svo mikilvægar, þær benda á að hið hefðbundna er ekki svo sjálfgefið lengur. Og það er hægt að hugsa hlutina á annan hátt.
En það er þrennt sem vantar inn í upptalningu þína.
Suðupotturinn í Mið Austurlöndum þar sem kjarnavopn eru sannarlega til staðar og nóg af geðsjúkum ofsatrúarmönnum með áhrif. Átök þar hafa síðan stigmögnun í för með sér inn á hina nýju átakalínu, sem er átök hugmynda og trúarheima. Úr þeim garði sprettur hryðjuverkaógnin sem getur valdið miklum skaða og ennþá meiri stigmögnun.
Þriðja sem er mjög vanmetið í dag, það er upplausn í Kína. Upplausn sem er ekki í fréttum dagsdaglega en hefur samt verið staðfest. Henning Mankell skrifaði mjög skemmtilega bók, sem kom út á íslensku fyrir um ári, og hét Dómarinn. Þar spinnur hann út söguþráð þar sem viðbrögð Kínastjórnar við upplausninni er einn af meginþráðum hennar. Staðreyndin er sú a það er gífurleg kúgun í Kína og þjóðin er að springa. Ungir, ógiftir karlar eru orðnir alltof margir og til í allt. Þar með að mótmæla kúgun og lögregluofbeldi. Ungi maðurinn sem var tekinn af lífi í fyrra er eitt af mörgum dæmum um að fólk hefur fengið nóg. Hann mætti á lögreglustöð og drap nokkrar löggur sem höfðu farið með kúgun og ofbeldi um nágrennið, og þar á meðal níðst á honum. Í stað þess að beygja sig, þá svaraði hann fyrir sig. Á bak við þessa sögu er ótal dæmi sem ekki hafa komið upp á yfirborðið. Og svona byrjaði Boxarauppreisnin og það var bændasonur sem velti Quin ættinni úr sessi á sínum tíma.
Og hættan felst í upplausninni, og óttanum við hana. Sagan kennir að stjórnvald á brauðfótum vill oft grípa til sameiginlegs óvinar til að þjappa lýðnum samann. Taiwan er mjög hentugt fórnarlamb. Hvað gerir kaninn þá???
Það er nefnilega spurning hvort þau hafi ráð að beita fjárhagslegum aðgerðum, þau taka tíma og kosta þolinmæði. Og þú marserar þjóð þinni ekki saman um þau.
Jón, málið er ekki að þetta muni gerast, málið er að þetta getur gerst. Og aðeins strúturinn stingur höfðinu í sandinn þegar ógn blasir við. Og við sem viljum framtíð, við þurfum að mæta henni. Ekki með vopnum, heldur nýrri hugsun og nýjum stjórnendum sem hugsa um það sem sameinar, ekki það sem ógnar.
Það er mjög mikið óraunsæi að halda að þjóðir Vesturlanda komist mikið lengur upp með arðrán sitt og þjófnað gagnvart fátækari þjóðum.
Við erum eitt og þurfum að fara að skilja það.
Það er ekkert annað tækifæri eftir Búmmið. Það nægir að vita að það sé möguleiki, til að við verðum að bregðast við.
Af skynsemi, mannúð og trú.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.5.2010 kl. 09:32
"I have in my hand a piece of paper ..." er byrjun á því sem líklegast er einhvert besta dæmið um veruleikafyrringu stjórnmálamanns.
Ég er sammála þér með það að fólk í hinum vestræna heimi hefur allt of oft sagt "aldrei aftur stríð", sem svo hefur ekki verið virði pappírsins sem það var ritað á. Ég ætla heldur ekki að segja að það verði aldrei aftur stríð í Evrópu, hvað þá í heiminum. Spurningin er bara hvernig koma hugsanleg átök til með að hafa áhrif á okkur.
Eins og þú bendir á, þá hafa átök komið til í kjölfar gjörða einstaklinga. En það er samt þannig að þessar ákveðnu gjörðir voru ekki ástæðan sem slík, heldur settu þær af stað keðjuverkun sem leiddi til þess að allt fór i bál og brand. T.d. var afleiðing morðanna í Sarajevo tilkomin vegna baktryggingasamninga evrópskra ríkja sem allar lofuðu að styðja hinar í átökum. Slíkar tryggingar eru ekki til, nema i anda Nato og þar liggja allar þjóðir undir sama hatti. Þannig yrði stríð á milli tveggja eða fleiri Evrópuþjóða líklega staðbundin og reynt að leysa málið án frekari átaka.
Það er mjög mikill undirliggjandi hiti hjá hinum ýmsu hópum og þar koma múslimar kannski fyrst upp í hugann. Hvað gerist ef þeir rísa upp í Evrópu og heimta "nýja sýn" þar. Þetta eru einhverjar 10 milljónir sem eru vítt og breytt um Evrópu og nær ómögulegt að hemja, haldi þeir af stað. Hvaða áhrif hefði það á okkur? Þetta tel ég líklegra en átök á milli evrópskra ríkja.
Ég er sammála þér í því að við getum ekki "strútað" málið. Hins vegar er spurningin hvernig er best að vinna lausnina. Ég er alveg sammála þér með það að þetta þarf að vinnast með breyttu hugarfari, en spurningin er hvernig komum við þeim hugmyndum á framfæri þannig að eftir sé tekið og fólk fái tækifæri til að kynnast þeim.
Besta leiðin er að horfast í augu við óvissuna og hafna óttanum, tjá okkur við þá sem við þekkjum og umgöngumst og reyna að ná athygli þeirra sem stjórna fjölmiðlunum. Netið er sterkur miðill, en það þarf samt að vinna að því að nýta hann til verksins.
Margir vilja meina að grasrótin hafi verið rifin upp í síðustu "byltingu" og hún sé jafn lífvænleg og rós í eyðimörk. Kannski er þetta rétt og kannski ekki, en spurningin hlýtur að vera sú, ef grasrótin á sér líf, hvernig virkjar maður hana best, hvernig nær maður til hennar.
Ég veit ekki hvað kemur til með að gerast næstu misserin, til þess eru stjórnmálamenn allt of ótútreiknanlegir. Hins vegar hef ég ákveðið að líta framhjá því sem getur gerst og ég hef ekki stjórn á. Í staðin hef ég ákveðið að haga mínu lífi á þann hátt að ég verð sem minnst háður bullinu (eins mikið og það er mögulegt), sýna fordæmi með því hvernig ég umgengst fólk og viðra hugmyndir mínar við sem flesta, þ.e. þá sem vilja hlusta. Óttinn lætur stundum á sér kræla, en þá ber ég hann niður og einbeiti mér bara því mun meira að því sem ég tel skipta máli. Ég hef sagt honum stríð á hendur, þannig séð.
Það er hægt að koma á breytingum, en við verðum þá að vinna að því og gera okkur um leið grein fyrir því að það tekur tíma. Með því að einangra þau atriði sem ýta undir óttann, þá mun afgangurinn verða auðveldari.
Jón Lárusson, 20.5.2010 kl. 10:46
Takk Jón, góð hugmyndafræði, og hún er sú nálgun sem ég sé.
Að við tökum okkur á og lítum inná við, metum hvað við viljum og hvað ekki. Og ef það tekst að breiða hana út, þá verða sjálfkrafa breytingar.
En þú misskilur tal mitt um ótta sem er sett i samhengi ógnar.
Ég bý undir fjalli sem felldi 12 manns þegar ég var ungur, og 2 drengir, aðeins eldri fóru svo nokkrum árum seinna, hér innan fjarðar.
Vissulega óttast maður fjallið, það er ógn af því. En við lifum við þessa ógn, en það er ekki það sama og hún stjórni lífi okkar. Og þegar tækni bauð upp á að verja byggðina, þá var það tækifæri gripið. Það var hægt að gera eitthvað til að minnka hana, annað en að segja, komi það sem koma vill.
Það er eitthvað svipað sem ég er að tala um.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.5.2010 kl. 12:11
Kannski erum við að misskilja hvorn annan rangt
Ég tel ógn ekki helstu ástæðu ótta, heldur óvissuna. Einstaklingar geta búið við ógn, eins og þú. Ég bý á suðurlandi og var heima hjá mér þegar allt varð vitlaust 2008, þannig að ógn er til staðar, en maður þarf ekki að óttast hana sérstaklega. Maður ber virðingu fyrir ógninni og lifir samkvæmt því.
Það sem vekur ótta hjá flestum, að ég tel, er óvissan frekar en ógnin sjálf. Til dæmis tók ég eftir því, í aðdraganda seinna Persaflóastríðsins, að olíuverð hækkaði. Þetta var rakið til þess að markaðurinn væri að "festa inni" hærra verð vegna stríðsógnar. Þegar svo innrásin var gerð, féll olíuverðið, þegar það með réttu hefði átt að haldast uppi vegna þess að búið var að "festa inn" hugsanleg átök. Það sem var að gerast var einfaldlega það að markaðurinn var hræddur vegna þess að hann vissi ekki hvað myndi gerast, það var óvissan sem hækkaði verðið, ekki einhver sýn á það hvað gæti eða gæti ekki gerst.
Þannig að mitt mat er það að maður getur búið við ógn, en verið óhræddur, vegna þess að viðkomandi er búinn að skilgreina ógnina og það er lítil óvissa til staðar.
Það er eitt að líta til þess að vera undirbúinn til að bregðast við vanda komi hann til, en að gera ekkert og segja komi það sem koma vill. Auðvitað á maður að gera ráðstafanir, en maður má ekki tapa sér í þeim og maður má alls ekki fyllast örvæntingu telji maður verkið of stórt. Þá getur jafnvel verið betra að stíga til baka og skoða hvernig þetta líti og sjá hvort ekki sé hægt að finna smærri brot sem auðveldara er að vinna. Svo getur líka verið lag að halda sig til baka þangað til hlutirnir fara á hreyfingu og þá stökkva til.
Það eru svo margir möguleikar til á hverri stöðu að maður á ekki að láta óttan trufla sig. Hafi menn trú á það sem þeir eru að gera, þá mun þeim takst að klára verkið. Styrkur okkar til að leysa þessi mál liggur hjá okkur sjálfum, en við verðum bara að hafa trúnna til að nýta okkur þann styrk. Þess vegna skiptir svo miklu máli að hafna óttanum, en þó þannig að maður beri virðingu fyrir ógninni.
Jón Lárusson, 20.5.2010 kl. 12:39
Ef svo er Jón, þá er það góður misskilningur. Það eru svona umræður sem mér finnst gefa þessu öllu tilgang, má kalla þetta þróun eða gerjun hugmynda.
En að óttast eitthvað er ekki það sama og lifa í ótta, að hafa áhyggjur er ekki það sama og maður láti óvissuna lama sig.
Spurningin er meira hvort maður ætli að bíða og vona, og láta örprósent manna enn einu sinni hleypa öllu í báli og brand, eða ætlar maður að láta reyna á mannvitið og það sem hefur áunnist í siðmenningu síðustu árþúsunda til að skapa jákvæð ferli gegn eyðingarmætti tregðunnar.
Á mannsandinn ekki að reyna og þá hvernig???? Sú aðferðarfræði verður alltaf eitthvað í líkingu við þessa;
Ég tel að margir svona ferlar séu í gangi, hef lesið mér lítillega til á vefnum world social forum, þessum sem heimsráðstefnan er kennd við.
Áherslumunurinn hjá okkur er kannski (ekki það að ég viti það nema ræða málin miklu dýpra) að ég skynja sterkt ögurstund mannsins, og fyrir því eru margar skýringar sem ég ætla ekki að tíunda hér. Og ég tel að sú stund krefji allar sem vilja framtíð afkomenda sinna, að taka afstöðu og berjast, þó með sínu nefi sé. Aðferðarfræðina sæki ég dálítið til hvernig Churchil gamli náði að snúa á Hitler, það vita fáir hvað Bretland stóð tæpt á sínum tíma. En stríðið um Bretland var næstum tapað, Bretar áttu flugvélar en gátu ekki þjálfað nýja flugmenn nógu hratt í stað þeirra sem féllu eða særðust. Þá var ögurstund, og stutt í endanlegan ósigur því án flugvélaverndar varð flotinn að flýja, og sá flótti var þegar skipulagður. Eftirleikurinn var þá auðveldur fyrir hinn óvíga herafla Hitlers.
Þá gerðist dálitið sem ég tel beina afleiðingu þess að fólk skynjaði ögurstund síns tíma, að líf þess væri minna virði en baráttan gegn illskunni. Til Bretlands streymdu hundruð flugmanna frá hinum enskumælandi heimi, jafnt Samveldinu sem og Bandaríkjunum. Og á því var ein skýring, hvatningarræða Churchil sem fór um alla heimsbyggðina fyrir tilverknað BBC. Það eru til skjalfestar heimildir um viðbrögð ungra manna jafnt í Kanada, Ástralíu eða sveitahéruðum Bandaríkjanna þar sem þeir urðu allir við sama hvatningarkallinu.
Og þar með féll ekki Bretland. Og eftirleikurinn er þekktur.
Ég tel að það þurfi að skapa umræðu um þá ógn sem við blasir, hvort við ætlum að sætta okkur við hana eða bregðast við henni. Þessi umræða þarf að eiga sér stað um allan heim. Og hún á sér stað um allan heim, þó ekki sé hún alveg í þessu samhengi. Einn angi hennar er að skapa jafnvægi í Afríku með því að virkja konur til sjálfstæðis, með örlánum, menntun og fleira. Nefni þetta sem dæmi því hugsunin á bak við það er svo mögnuð og er að virka.
Annað dæmi er sú umræða að það þarf að fylla upp í andlegt tómarúm. Vekja upp umræðuna um rétt og rangt, um trú og tilveruna. Og svo framvegis.
Út úr þessum jarðvegi mun ákallið spretta, ákallið um sigur mennskunnar yfir tortímingunni.
Ég hef stundum slegið því fram að ástæða þess að Jesús kom fram fyrir 2.000 árum með sína hugmyndafræði sem hefur síðan mótað kristna trú, og hefur líka áhrif já múslimum, er sú að hugmyndafræðin væri það framandi að það tæki svona langan tíma að melta hana. Eins og sjálft lífið (forlögin, máttarvöldin, undir hverjum og einum hvernig hann orðar þessa hugsun) væri að undirbúa þessa lokaorrustu mannkyns fyrir tilveru sinni.
Vegna þess að það er endastöð að hafa tækni til að útrýma sér, en hafa ekki um leið siðvitund til að leysa ágreiningsmál án þess að láta vopnin tala. Hvort þessi 2.000 ár dugi, það er annað mál.
En ég trúi á lífið, og mátt þess.
Og sef alveg ágætlega yfir þessu.
En ég myndi svara kallinum ef það kæmi.
Ég tel það skipta máli upp á framtíð drengjanna minna.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.5.2010 kl. 14:06
Það hefur verið sagt að þekking sé máttur, en sá máttur má sín lítils sé honum haldið frá fjöldanum. Þess vegna er nauðsynlegt að skiptast á hugmyndum. Varðandi það hvort maður ætli að láta örprósent halda áfram að koma öllu í bál og brand, þá hef ég velt þessu fyrir mér líka.
Ég hef hins vegar alltaf komist í þann gýrinn að spyrja mig; Ef ég, í einhverri óskilgreindri framtíð, horfi til dagsins í dag, yrði ég ánægður með það sem ég gerði eða gerði ekki. Ef ég horfi aftur og get sagt, ég reyndi, þá tel ég að ég yrði sáttur, en komi ég til með að segja, ég hefði getað gert þetta eða hitt, þá þarf ég að hugsa minn gang í dag. Ég get haft áhrif á nútíðina í dag, ekki á morgun.
Ég er sammála þér um það að hérna verði erfitt að fara í djúpar samræður, en vangavelturnar eru áhugaverðar. Ég get einnig verið sammála þér með það að maðurinn stendur á ákveðnum tímamótum, eins og reyndar oft áður. Munurinn í dag er kannski sá að nú gerist all miklu hraðar og ástand í einum heimshluta getur haft áhrif á ástand í öðrum á aðeins mínútum. Ekki dögum eða jafnvel mánuðum síðar, hvað þá árum.
Hvað varðar baráttuna fyrir betri tíð, þá er augljóst að hún mun vinnast í smærri orustum þar sem hópar og smærri samfélög taki að hugsa upp á nýtt og líta til samkendar í stað sundrungar.
Ég veit að það þarf að koma með nýja hugsun og ég veit að ég get ekki bara setið og beðið. Spurningin er bara hvernig er best að koma þessu á framfæri, hvenær nær maður þessum eyrum sem þarf til. Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna að standa í þessu, en þá hefur iðulega eitthvað gerst sem hefur sagt mér að halda áfram, þó ekki væri nema örlítið lengur. Ég stend í þessum sporum aftur nú sem áður og ætla að reyna einn vínkilinn enn og sjá hvort ekki komi sprunga í vegginn. Ég veit nefnilega að um leið og sprungan myndast, þá mun ekki líða langur tími þar til hún verður að glufu og glufan síðan að opnun sem mun leiða til árangurs.
Við verðum bara að halda áfram í þeirri trú að verkið muni vinnast.
Jón Lárusson, 20.5.2010 kl. 16:35
Einmitt, bið að heilsa suður á Selfoss.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.5.2010 kl. 23:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.