14.5.2010 | 11:21
Tölfræðin opinberar heimsku Steingríms Joð.
Þegar Steingrímur Joð Sigfússon hækkaði skatta á síðasta ári þá var honum bent á að þessar skatthækkanir myndu draga úr tekjum ríkisins, ekki auka þær.
Steingrímur blés á allar þær röksemdir, taldi sig vita betur, og spurði á móti, hvernig ætlum við að fá pening fyrir almannaþjónustu????
Ég er sammála þeirri forsendu Steingríms Joð, að velferðina þarf að vernda með öllum ráðum. En með ráðum, ekki óráðum.
Skattahækkanir á svona samdráttartímum þar sem bæði lán fólks og allur tilkostnaður hefur stórhækkað, eru til eins fallnar, og það er að draga úr skatttekjum ríkisins. Þær hafa með öðrum orðum öfug áhrif.
Ef þær eru beinar af tekjum fólks, þá leitar fólk með hluta af teknum sínum undan skatti, komi það því við. Ef þær eru af neyslu, þá dregst sú neysla saman.
Vissulega eru þær misfljótar til að draga úr neyslu, til dæmis þá er erfitt að lifa án þess að borða. En endapunkturinn er alltaf sá að þú þarf að hafa ráðstöfunartekjur til að eyða. Og þær eru bara ákveðin fasti og það er ekki hægt að taka meira til sín í skatta en fólk á í afgang þegar það hefur borgað af lánum sínum og borgað matarreikninga sína.
En það sem er eftir til ráðstöfunar, það vill fólk fá eitthvað fyrir. Ef bensín hækkar, þá keyrir það minna eða sleppir því með öllu að fara í frí á bílum sínum. Það er til lítils að fara í frí ef þú hefur síðan ekki efni á neinu nema brýnustu lífsnauðsynjum því bensínskatturinn hirðir allt ásamt auknum álögum á bíla.
Ef áfengi hækkar, þannig að jafnvel ódýrasta vín verður dýrt, þá breytir fólk um neysluvenjur, það dregur úr neyslu eða reynir að verða sér út um áfengi á ódýrari hátt. Sá háttur heitir smygl og heimbrugg.
Gömul saga og ný, óréttlátir skattar leiða alltaf til undanskota. Og þú borgar ekki meira í skatt en þú aflar.
Þess vegna er það ákveðin kúnst að skattleggja þannig að ríkið fái sem mest. Heimskan kann ekki þá kúnst, hún heldur að þjóðfélagið sé aðeins Exel skjal. Skynsemin gerir sér grein fyrir að á svona tímum þarf að viðhalda sátt í samfélaginu og herða ekki að fólki í gegnum skattkerfið, nóg er nú samt.
Skynsöm stjórnvöld hækka ekki skatta í svona árferði, þau jafnvel spá í að lækka álögur á neysluhluti eins og bensín og áfengi, í trausti þess að þrátt fyrir allt reyni fólk að fara í frí, og gera sér glaðan dag.
Það er hugarfarið sem skilar tekjum í ríkissjóð, að fólk láti ekki erfiðleikana buga sig. En sá sem hefur ekki efni á neinu nema að skrimta, hann sér ekki tilganginn með samstöðu og stuðning við stjórnvöld, hann upplifir aðeins ræningjaþjóðfélag þar sem fégráðugir kaupsýslumenn, gírugir bankafurstar og uppburðarlitlir stjórnmálamenn eru í aðalhlutverki ránsskaparins.
Úr slíkum jarðvegi sprettur vonleysi og tilgangsleysi. Fólk verður að hafa efni á dagamuninum, jafnvel á krepputímum.
Stjórnmálamenn sem stela honum eru stjórnmálamenn sem eiga ekki að koma nálægt endurreisn þjóðfélaga sem er í rúst eftir fjármálakreppu.
Þrælaþjóðfélag Steingríms Joð Sigfússonar mun aldrei ganga upp.
Fólk mun ekki eyða restinni af ævi sinni í tilgangslausri vinnu fyrir banka og auðmenn, og sjá svo restina fara í bretaskatt Steingríms Joð.
Íslendingar eru kannski komnir af þrælum, en þeir eru ekki þrælar.
Það er tími til kominn að stjórnvöld átti sig á þessum staðreyndum.
Kveðja að austan.
Mikill samdráttur í verslun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 8
- Sl. sólarhring: 39
- Sl. viku: 2648
- Frá upphafi: 1412706
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 2312
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Svo sammála þér og það eru flestir með eitthvað vit! Manni hryllti við þegar Steini byrjaði á þessum skattahækkunum, flest allir vissu að þetta myndi aldrei ganga upp. En það er alveg á hreinu að þessi ríkisstjórn mun ekki hætta að hækka skatta! Steingrímur hugsar með sjálfum sér að þetta sé nú umhverfisvænt að fólk hætti bara á endanum að keyra bíl og því heldur hann áfram að hækka bensin. Svo hugsar hann sér gott til glóðarinnar að fólk hætti bara að drekka því áfengi er orðið svo dýrt! Hann heldur að Íslendingar kunni ekki að bjarga sér með smygli og landa. Þetta hefur lika svakaleg áhrif á litlu einkafyrirtækin allar þessar hækkanir, fólk hættir að eyða í hluti eins og rúmvörur, gjafavörur osfr vegna svakalegra hækkana á sköttum! Sem þýðir auðvitað að eigendur fyrirtækja missa þau! Annars rosalega flott grein hjá þér!
sandra guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 14.5.2010 kl. 11:34
Héldu þau virkilega að hækkun á sköttum á öllum vörum og þjónustu mundi leysa vandamálið?
fólk bara getur ekkert keypt lengur eins og hérna áður.
búið að leggja lífsskilyrði fólks í rúst ... og síðan koma þessir snillingar bara og hækka skatta á ALLT ... og þá eru málin leyst.
góður þessi!
ThoR-E, 14.5.2010 kl. 11:59
Það er ekki hægt að kalla skattahugmyndir vinstri manna annað en hagfræði anskotans .
Ég er sammála öllu sem þú segir en ég sé ljósan punkt í þessu en það er að hagur þeirra fáu fraktsjómanna sem enn eru hér á landi, mun sennilega vænkast .
Dante, 14.5.2010 kl. 12:33
Takk fyrir innlitið kæra fólk.
Sandra ég er mikið sammála þér, ríkisstjórnin vinnur markvisst að því að drepa niður smáfyrirtæki landsins, það eiga allir að enda á framfæri bankanna, sem síðan eru i eigu erlendra fjárúlfa, já og innlendra auðmanna sem komu og nörtuðu í náinn.
Það er ekki stórframkvæmdir eða viðbótar risaskuldasöfnun sem rífur þessa þjóð upp, heldur að hið smá fái að blómstra. Og það á að ýta undir veltuna í verslun og þjónustu og bara það eitt að leggja hóflegar álögur á veitinga og gistihús, ásamt því að hafa hóflega skatta á áfengi, það mun skila sér því að landsmenn munu nýta sér þessa þjónustu, og þeir munu gera sér glaðan dag innanlands í stað þess að spara fyrir næstu utanlandsferð.
Núna er nefnilega tækifærið til að breyta hugsunarhættinum, að leggja af þessa köldu lúthersku að hlátur og gleði sé eitthvað sem menn stundi á suðlægum slóðum en drattist um með fýlusvip á heimaslóðum.
AceR, já hann er góður þessi.
Dante, það má alltaf sjá ljósið, söng ekki Bubbi um það?
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.5.2010 kl. 13:05
Frábær grein, Ómar og athugasemdir.
Málið er að Steingrímur er því miður ekki hlyntur hagsæld og kærir sig ekkert um blómlegt velferðarþjóðfélag-hans stefna mun aldrei liggja í þá átt.
Það heyrist á málflutning hans að honum finnist ljómandi ágætt að fólk fái að líða skort þá getur hann haldið áfram að þrástagast á að allar hörmungar eru afleiðingar fyrri stjórnvalda og þjóðin skal verða minnt á það stöðugt-hvað hann hafði svakalega rétt fyrir sér öll 18 árin í stjórnarandstöðu .
Stefna Steingríms eins og ég sé hana er einföld; Ríkið á að vera mátturinn og dýrðin, þ.e.a.s. hann sjálfur í allri sinni upphafningu. Þjóðin á að mæna bænaraugum til alvaldsins um brauðmola og miskunn því annarstaðar vil hann ekki að hjálpræði sé ekki að finna nema hjá honum alvaldinu. Steingrímur virðist ekkert kæra sig um einstaklingsframtak eða sköpunarkraft enda alfarið á móti allri nýsköpun, atvinnuuppbyggingu svo ekki sé minnist á virkjanir.
Peningafíkn eða valdafíkn ekki mikill munur þar á.
Anna Björg Hjartardóttir, 14.5.2010 kl. 13:28
Takk Anna.
Á vissum tímapunkti í fortíð minni hefði ég skilgreint Steingrím Joð á annan hátt, en í dag sé ég ekki annað reka hann áfram en valdafíkn.
Og það er sorgleg upplifun gagnvart manni sem ég hef alltaf treyst fyrir góðum hlutum.
En hagkerfið þarf að fljóta og kraftar einstaklingsins og fyrirtækja hans að nýtast sem best í því flæði.
Það er verið að rjúfa sáttina milli ríkis og þjóðar.
Og gera alla endurreisn svo miklu erfiðari.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.5.2010 kl. 14:42
Ómar þú ert snillingur með penna,svona tala bara snillingar.Enn drengur minn,þú berð annað hugtak með sóma,og það er hugtakið Mannvinur.Það vill svo til að snillingar í gegnum söguna hafa fæstir státað af því að vera Mannvinir.Í frammtíðinni þegar ég heiri góðs manns gétið mun mér detta þú í hug. Og mér dettur í hug þegar þú talar um vonbriggði þín með Steingrím J, Hann sagði einusinni að útrásarliðið væri búið að veðsetja altt sem hönd á festi,upp í rjáfur. Er einhver stór munur á því, eða skattleggja veikburða og atvinnulausa Þjóð sína upp í rjáfur?
Þórarinn Baldursson, 14.5.2010 kl. 19:39
Nei Þórarinn,það er enginn munur þar á, og hvorutveggja hefur jafn slæm áhrif á þá velferð sem núverandi stjórn þykist vera að varðveita.
Takk fyrir hlýleg orð, mér þykir vænt um þau því ég veit að þau eru mælt af góðum hug.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.5.2010 kl. 22:45
Þetta er fín grein Ómar.
Það sem oftast virðist gleymast í þessu samhengi er að Íbúarnir þurfa að eyða í hakerfinu til að ríkið fái tekjur af sköttum, og það sem kemur mörgum á óvart er að þeir eyða öllum sínum tekjum þar. Til dæmis þá lækka framlög í lífeyrisjóði tekjur ríkisins af sköttum því þau eru skattfrjáls og eru hluti skattstofnsins sem annars hefði hugsanlega verið eytt í vörur eða þjónustu sem bera háa skatta, hærri en til dæmis matvara eða sparnaður.
Þannig er rökrétt að ætla að eftir því sem íbúarnir eyða stærri hluta tekna sinna í lágt skattaðar vörur eins og matvæli eða lífeyrissparnað, því lægri verða heildartekjur ríkisjóðs af sköttum.
Þannig má því líka færa rök fyrir að hlutfallsleg hækkun skatta á bensína og olíu miðað við skatta á matvörur, ekki bara minki skatttekjur vegna minni söli á bensíni og olíu, heldur lækki á sama tíma hlut skatta í heildar umsetningunni í hagkerfinu, því fólk eyðir þá frekar í hluti sem bera lægri skatta.
Hvað ályktanir má draga af þessu ? Jú, Ef munurinn milli hæstu og lægstu skatta eykst lækka heildar skatttekjur en ef hann minkar þá aukast þær.
Í þessu liggur stóra villan hjá vinstristjórninni. Það hefði hugsanlega verið hægt viðhalda heildartekjum af sköttum með því að hækka lægstu skatta (á matvöru til dæmis) og lækka þá hæstu (bensín eða veitingasölu til dæmis) en vinstrisjónin skilur þetta ekki og gerði þetta í hina áttina og þess vegna lækka skatttekjur meira en þeir áttu von á, ekki bara vegna þess að fólk bruggar og stundar meira svört viðskipti heldur líka vegna þess að þau voru í raun að lækka mögulegar heildar skatttekjur með því að stýra neyslu frá vörum sem bera há skatta yfir í vörur sem bera lægri skatta.
Guðmundur Jónsson, 15.5.2010 kl. 12:50
Blessaður Guðmundur.
Takk fyrir gott innslag, rök þin eru aðeins ein af mörgum sem sýna fram á þau óráð sem tölfræðin hefur núna sannað að virka ekki.
Ragnar Árnason hefur útskýrt þetta mjög vel, og lagt til skattalækkanir til að ýta undir flæði í hagkerfinu. En það flæði er megintekjulind ríkisins, ekki beinir skattar.
Svo má einnig spyrja sig hvað hefði gerst ef ICEsave hefði runnið ljúft í gegn sumarið 2009 og það væri búið að hækka virðisaukaskattinn eins og Seðlabankinn lagði til. Ansi hræddur um að Exel smiðir hefðu þá líka rekið sig á hinn kalda raunveruleika tölfræðinnar.
Aðalatriðið er það að þeir sem átta sig ekki á einföldustu orsakasamhengjum, þeir eiga hvorki að stjórna, eða ráðleggja stjórnvöldum. Með öðrum orðum þá er bæði stjórnvöld, og ráðgjafar stjórnvalda með öllu óhæfir.
Þetta með ráðgjafana þarf ekki að koma á óvart, það eru jú þeir sem ráðlögðu okkur inn í Hrunið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 15.5.2010 kl. 14:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.