Er dagurinn í dag, dagurinn sem fólk neitar að standa upp????

Heldur rísi upp.

Fyrir mörgum, mörgum árum, þá neitaði ung kona að standa upp úr sæti sínu í strætisvagni og færa sig í þann hluta hans sem ætlaður var fyrir hörundsdökka (þetta var fyrir daga brúnku sólarbekkjanna). 

Í kjölfarið hófst atburðarrás þar sem hermenn og mótmæli komu við sögu.  En í fyrsta sinn í sögu vestræns lýðræðis, þá voru hermenn sendir til að tryggja mótmælendum sinn stjórnarskrárbundinn rétt að fá að sitja þar sem þeir vildu, hvort sem það var í skólum, strætisvögnum, veitingahúsum eða annars staðar þar sem þeir voru ekki velkomnir sökum litarhátt.

Og maður, góður maður hélt ræðu, ræðu um draum, draum um þjóðfélag sem byggðist á gildum mannúðar og mennsku, ekki fáfræði og andlegri eymd.

Ég á mér draum, að sá tími komi að þjóðin rísi upp með þessa játningu sína á vörunum: "Sá sannleikur er okkur auðsær, að allir menn eru skapaðir jafnir"

Þessi orð voru sögð á tíma kynþáttahaturs, en hefðu þau verið sögð í dag þá væri boðskapurinn skýr, skuldarar eru líka bræður okkar og systur.  Þeirra er himnaríki alveg eins og okkar hinna.

 

Á Íslandi hefur þessi staðreynd gleymst, að við séum öll eitt.  Núna liggur það fyrir skjalfest, af Rannsóknarnefnd Alþingis, að fjármálamenn okkar rændu þjóðina, þeir gerðu skipulagða aðför að krónunni okkar, og þeir nutu blessun stjórnvalda.

Þessum sömu stjórnvöldum, sem núna sigar hrægömmum kerfisins, eins og formaður viðskiptanefndar orðaði það, á ungt fólk í skuldabasli.  

Ómennska stjórnvalda er slík, að í stað þess að gangast við ábyrgð sinni, þá útbjuggu þau nútímakerfi skuldafangelsa, kallaða greiðsluaðlögun, sem byggð er á hugmyndaheimi forneskjunnar, sem Charles Dickens lýsir svo vel í sögum sínum, eins og til dæmis í bókinni um Oliver Twist.  Og þeir sem í lífi sínu hafa óvart komið nálægt atvinnurekstri, án þess að vera auðmenn og þar með sérstakir skjólstæðingar kerfisins, þeir fá ekki einu sinni náð tilvísunarfulltrúans og skuldafangelsi hans.  

Þeirra er guð og gaddurinn, ásamt samúðargjöf frá Jógrímu þar sem hún les upp kvæðið Móðurást, sem er falleg lýrík um ferðir fólks á gaddinum.

 

En það er þannig með óréttlæti að það svíður, og þeir sem beita því, þeim er oft bylt.  

Fólk neitar að lokum að standa upp, það rís upp.

 

Í gær komust í hámæli siðblinda bankastofnunar á Suðurlandi, sem þó gerði ekki annað en að gera það sem fyrir hana var lagt, að gera þá ríkari ríkari með því að afhenda þeim eignir skuldarar á hrakvirði.  En fólki ofbauð, því fannst ekki rétt að vísa ungri barnafjölskyldu á gaddinn.

Jafnvel þó það væri gert í nafni norrænar velferðarstjórnar.  

Fólki ofbauð sú svívirða að bankar og fjármálastofnanir skulu ekki aðstoða fólk í erfiðleikum þess, erfiðleikum sem þessar stofnanir bera höfuðábyrgð á.  Fólki ofbauð að vildarvinir skyldu fá gjöfula bújörð á sanngjörnum kjörum, en unga fólkið sem framleiddi mat handa okkur hinum, og notaði tekjurnar af því til að fæða og klæða stóran barnaskara, að það skyldi ekki fá að njóta sömu kjara.

En fyrst og síðast ofbauð fólki að það skuli vera opinber stefna íslensku félagshyggjunnar að bera út fórnarlömb fjármálahrunsins.

 

Er þetta hið nýja siðferði á Íslandi, að sigta út verðug fórnarlömb en skilja hin eftir á köldum klaka gírugra lögfræðinga og hrææta auðræðisins, sem mæta með braskpeninga sína og kaupa upp eignir fórnarlambanna á smánarverði????  

Af hverju er ekki þjóðarsátt um að hjálpa þessu fólki.  Öllu þessu fólki????  Ekki bara gosfólki, líka skuldafólki? 

Að hjálpa öllum sem hjálpar er þurfi.

Af hverju deilir ríkisstjórn Íslands ekki þessum draumi með doktor Marteini Lúher King, um að við séum  öll jöfn sem búum á þessu landi? 

Af hverju stendur ríkisstjórn Íslands ekki upp og segir við fjármálafursta, þið eruð hluti af þessari þjóð, þið eruð hluta af þessum vanda, og ykkur ber skylda til að hjálpa skuldugum meðbræðrum ykkar?

Sú skylda stafar ekki af því að þið voruð mennirnir sem skópu þennan vanda, sú skylda stafar að því að þið eru menn, skuldarar eru menn, og við erum öll á sama báti.  Og á þessum báti eiga allir að komast af, þið, við og þau.

Af hverju stendur ríkisstjórn félagshyggju og jafnréttis upp úr hægindum sínum og lýsir yfir þjóðarsátt um framtíð landsins?  Að enginn verði borinn út úr húsum sínum næstu 5 árin.  Og á þeim tíma verði mál allra skoðuð og þau leyst á farsællegan hátt.

Á þann hátt að við getum öll verið stolt að stjórnvöldum okkar, að við getum öll verið stolt af því að tilheyra þjóð þar sem allir eru á sama báti.

Af hverju erum við ekki mennsk?????????

 

Já af hverju og því geta þau ein svarað.

En við getum hjálpað þeim að svara þessari spurningu um mennskuna, með því að við svörum henni sjálf.

Ef svarið er að við séum fólk, og við séum öll jöfn fyrir guði og mannanna lögum, og að við stöndum saman á erfiðleikatímum, þá neitum við að standa upp fyrir valdinu eins og Rosa Park forðum.  Við neitum að standa upp og bugta okkur í auðmýkt og þiggja þá mola leiðréttingar sem að okkur er rétt. 

Vegna þess að við viljum ekki mola leiðréttingar, við viljum sjálfa leiðréttinguna.  

 

Og við neitum að standa upp, við rísum upp.  Rísum upp og segjum Nei við ómennsku og útburði barnafólks, segjum Nei við framtíð misréttis og skuldaþrældóms.

Í dag er ungt fólk á Suðurlandi í nauð, nauð sem kallar á samhjálp okkar.  Við eigum að rísa upp og standa vörð um heimili þessa fólks, segja öllum sem vilja taka það af þeim, að við líðum ekki svona skítlegt eðli.  

Að við krefjumst réttlætis þeim til handa.

Að gaddurinn sé fyrir óréttlætið, ekki mannfólkið, ekki samborgara okkar. 

Þetta unga fólk getur verið við, eða börnin okkar, frændur okkar eða vinir, og ef svo er ekki, þá er stutt í að röðin kom næst að þeim.  Að rísa upp núna og hjálpa þessu fólki, er að rísa upp fyrir alla þá sem okkur þykir vænt um.  

Í raun erum við að rísa upp fyrir okkur sjálf.

 

Og það er svo margt hægt að gera. 

Ungir bændur álykta, og það er vel.  En það er aðeins innantómt gaspur ef ekki fylgja gjörðir með.  Þeir eiga tæki og tól, mörg þeirra hæfa í að dreifa skít á þá sem með skítlegu eðli hrekja ungt fólk af heimilum sínum.  Það þarf huguð ómenni til að ganga gegn stórum hópi reiðra manna sem hafa tól til að kasta skít og ómenni eru aldrei huguð, það liggur í eðli þeirra.  

Bara samstaðan ein mun neyða þau til að hugsa sinn gang.

Á Alþingi situr maður með vottaða æru vegna glæps sem hann er ekki stoltur af.  Nú er kjörið tækifæri fyrir hann að mæta með gítar sinn og fremja glæp sem vert er að syngja um.  Glæpinn að hvetja til borgarlegrar óhlýðni og samstöðu með börnum okkar.

Einhvers staðar upp í Kjós er sköllóttur söngvari sem lét auðmenn glepja sig og hafa af sér eyri og æru.  Eyrinn endurheimtir hann ekki aftur, en æran gæti komið ef hann færi á jeppa sínum niður á Alþingi og næði í gítarspilarann knáa og þeir héldu upp í uppsveitir Suðurlands og kyrjuðu saman byltingarsöngva.

Viktor Hugo lýsti því svo vel hvernig skækjan og hórkallinn mönnuðu götuvígin við hlið stúdenta og kverúlanta, slátrara og götustráka.  Í baráttunni fyrir betri heimi er aldrei neinn mannamunur.  

Við fæðumst öll á fyrsta degi byltingarinnar.

Við erum öll börn byltingarinnar.

 

Er dagurinn í dag sá dagur sem þjóðin rís upp?????

Kveðja að austan.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar, þetta er dúndur pistill hjá þér !!!

Ég ætla að taka mér bessaleyfi og smella linknum inn á Fésbókina, hvet fleiri til að dreifa þessu sem víðast :)

Anna Grétarsdóttir (IP-tala skráð) 30.4.2010 kl. 11:21

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Anna, ef svona orð eiga erindi, þá eiga þau erindi.

Annars fer vel um þau hér á bloggi mínu ásamt ýmsu öðru sem ég hef hugsað og skrifað um.

Það býr enginn til byltingu, hún býr sig til sjálf.

Ef þetta er dagurinn, þá fara svona orð víðar.

Vísa svo á fulltrúa minn í byltingunni, Sigurð baráttujaxl, sími  8691804.  Mælir hans er fullur.

Og mikið er ég sammála honum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.4.2010 kl. 11:44

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Megi þessi pistill fara sem víðast. Ekki mun ég skorast undan. É gærkveldi varpaði ég fram þeirri spurningu á fésbók hverjir myndi styðja mig ef ég leggði af stað í byltinguna. Flestir svarendur tóku þessu sem gríni. Mér var full alvara.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 30.4.2010 kl. 12:24

4 identicon

Frábær pistill. FRÁBÆR

Heiða B Heiðars (IP-tala skráð) 30.4.2010 kl. 12:33

5 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Leyfi mér að dreifa þessum pistli eins og fleirum frá þér. Segi eins og Arinbjörn. Ég er til. Ef röksemdir og mótmæli gera ekkert þarf að gera meira.

Þetta bréf til þingmanna er ég að safna undirskriftum á. Ég skora á alla sem þetta lesa að skrá sig hér í stuðningshóp við frumvarp Lilju og áframsenda á vini og kunningja sömu beiðni. Bendi einnig á þessa hópa:  Mótmælendur Íslandi, Samtök lánþega,  Lántakendur Avant, Lýsingar og SP Fjármögnunar

Ævar Rafn Kjartansson, 30.4.2010 kl. 12:55

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið kæra fólk.

Bylting á sér alltaf einhvern aðdraganda.

Fyrst er að orða hana, síðan að skapa samstöðu um hana, og síðan ???

Sá sem  á  kristalkúlu veit það kannski.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.4.2010 kl. 16:52

7 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Góð orð og í (byltingar) tíma töluð.

Guðmundur St Ragnarsson, 30.4.2010 kl. 18:04

8 Smámynd: Júlíus Björnsson

Það er í lagi að leiðrétta óverðtryggingu af bifreiðalánum ef nógu dýrar til að eyða óbragðinu svo liðið geti fengið sér nýja eftir 2 ár.

Hvað með óbragðið af óverðtryggðu íbúðalánum má það endast til dauðdags?  Neysluvísitala stendur fyrir lámarks áhættu á mörkuð ótryggra veða í Alþjóðlegum skilningi.

Allar þjóðar gera greinamun á fasteignum sem eru á stöðugu verðlagi og þeim sem tengjast braski, verslun og viðskiptum og eigendum þeirra og hluthöfum.

Hjá almennum launþegum eru notaðar vextir sem taka mið af framtíðarverðbólgu spá Seðlabanka. Geta því aldrei orðið hærri en 7,5% fram í tíma þroskuðustu ríkin bjóða upp á 4,5% fasta vexti.

Íslenska bullið tryggir engin verð og veldur almennu öryggisleysi og er notað hér af áhættu fíknum hluta þjóðarinnar til að leiðrétta eigin græðgi.  

Júlíus Björnsson, 1.5.2010 kl. 00:38

9 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Þú ert "penni" af guðs náð Ómar, þetta er listilega sett saman og ekki hægt að leggja frá sér fyrr en lesið er upp til agna, en svo er oft með svona skrif sem skrifuð eru í "hamsi" að sumt sem fer fer inn með, hefði betur verið "snyrt" og jafnvel látið vera að hafa með, með öðrum orðum, dregur niður allt það sem gott er, Dæmi 1:

" Af hverju deilir ríkisstjórn Íslands ekki þessum draumi með doktor Marteini Lúher King, um að við séum  öll jöfn sem búum á þessu landi" Ríkistjórnir deila ekki draumum hugsjónamanna, kynþáttajafnréttisbarátta M.L.King á EKKERT skilt með efnahags og skuldakreppunni á Íslandi eða yfirhöfuð neinsstaðar, Íslendingar eru meðal fordómafyllstu og þröngsýnustu vestrænna þjóða, þið vitið bara ekki af því vegna þess að reynt hefur of lítið á það hingað til og kynþáttajafnréttisbaráttunni í USA, er langt frá lokið.

Dæmi2: Af hverju erum við ekki "mennsk" spyrðu, hártogun fæ ég líklega að heyra, en það er einmitt hluti af því að vera "mennskur" að vera sjálfum sér næstur og hversvegna sá hluti þess að vera "mennskur" er svo ríkjandi á Íslandi, kann ég enga skýringu á, en skýrir aftur mjög vel hvernig komið er og því miður, hversvegna þessi annars frábæri hvatningar og baráttupistill kemur til að falla í grýtta jörð hjá flestum :(

Dæmi3: (tengt þessu hér fyrir ofan) Þú leggur til að t.d. fresta uppboðum og útburð fylgjandi þeim í 5 FIMM ár, OK ég get fallist á að "so be it" og á þá við þá sem "notfæra" sér þetta velgerðartiltak til að hagnast, en auðvitað strandar þetta tiltak náttúrulega á "hver sér sjálfur næstur" syndróminu.

Meira hafði ég ekki að athuga við pistilinn,ekki bara það, heldur endurtek að þetta er bæði vel og vandað gert og þarft, kannski "vissir" "trúbadúrar" taki áskoruninni og mæti til stuðnings þeim sem órétti verða beittir.

Takk Ómar ! ég ætla að geyma þennann pistil þinn og lesa oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. 

Kristján Hilmarsson, 1.5.2010 kl. 12:55

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kristján.

Þetta er athyglisvert hjá þér, að meta pistil, en afneita forsendum hans.

Þar sem ég hef um annað að hugsa núna, þá ætla ég ekki að eyða mörgum orðum á það sjónarmið.  Bendi aðeins á að allt mitt blogg er útskýring á þeim kröftum sem togast á í samfélagi okkar.  Í sinni nöktustu mynd þá er "hver er sjálfum sér næstur" syndromið eins og þú orðar og rökstyður ágætlega hreyfiafl allrar okkar þróunar, og er í raun bæði það sem byggir upp og brýtur niður.  Uppbyggingin, sem ég kalla siðmenningu, er viðleitni okkar til að ná böndum á þessa hvöt, því hún eyðir og brýtur niður.  Og ástæða þess að viljum ná böndum á hana er einmitt þetta hreyfiafl, "hver er sjálfum sér næstur" því frumhvöt okkar allra er að lifa af.

Siðmenningin eru þær reglur sem við höfum til að lifa að.  Og sú umgjörð sem við sköpum fjölskyldum okkar sem eru það form sem við notum til að koma ungvið á legg.

Og núna er lokaorrusta siðmenningarinnar framundan, annað hvort tekst henni að ná lokatökum á eyðingarmætti "hver er sjálfum sér næstur", eða hún ferst.  Og þessi lokaorrusta hefur verið í gerjun í um 2.000 ár eða frá þeim tíma að fram kom maður sem sagði að þú skyldir elska náungann, ef þú vildir lifa þokkalegu öruggu lífi án stöðugar ógnar við að vera drepinn.

Kristján, víða á þessu bloggi hef ég byggt upp rökhugsun sem tekst á við þessa krafta, sem þú lýstir.  Pistill minn er ekkert fljótræði, og þeir sem hafa lesið þetta blogg reglulega kannast mjög við þá hugsun sem ég set þar fram.  Viljir þú kynna þér forsendur mínar, án þess að leggjast í lestur á öllu blogginu (athugasemdirnar eru yfirleitt vettvangur hugsunar minnar), þá minnir mig að um páskana hafi ég hent inn hráum innslögum um Byltingu byltinganna auk nokkurra annarra pistla þar sem ég setti fram heildstæða hugsun um það sem þarf að gera, og af hverju.  Í einhverri athugasemdinni er uppkast, skrifað af fingrum fram um löngun mína að verða afi, eitthvað sem ég tel að flestir deili með mér, en sjá samt ekki þá ógn sem við blasir, og finna ekki hjá sér hvöt til að bregðast við henni.

Ég ætlaði að starta hliðarbloggi, byltingarbloggi, sem annað andlit þess áróðursblogg gegn ICEsave og AGS, sem ég stunda í dag.  En mig vantar hvötina líka, er hálfþreyttur þessa daganna, og nenni því ekki svona sérvisku.

Ég var eiginlega hættur þessu þegar sjónvarpið sýndi myndina um Sophie Scholl, og sprikl mitt núna er eiginlega virðingarvottur minn við hugsjónir þessarar ungu konu.  Hún dó einmitt vegna þess hvað hún var mikill egóisti.  Hún skyldi hvað þyrfti til að hún og afkomendur hennar gætu lifað mannsæmandi lífi.  Sá sem er sjálfum sér næstur, hann gerir það sem þarf að gera til að hann lifi af.

Hann jafnvel deyr fyrir það.

En þetta með ríkisstjórnina, ég treysti mér alveg til þess að mynda réttláta ríkisstjórn, ég er það mikill egósisti, enda Steingeit.  Og ég var að benda á leið Kings sem þá einu leið sem virkar út úr núverandi hremmingum, en ekki að hún ætti eitthvað skylt við aðferðarfræði auðræðisins.  Það var sú hugmyndafræði sem kom okkur þangað, fólk hélt að það væri sjálfu sér næst, en það var mikill misskilningur, eins og allir sjá sem sitja nú í skulda og atvinnuleysissúpunni.  Þetta sér hver einasti alvöru egóisti.

Og þar sem ég hef kynnst Íslendingum, þá veit ég að þeir eru gott fólk.  Viss vandi reyndar hvað margir gera sér ekki grein fyrir því, og halda að þeir séu bölvaðir asnar, en þegar betur er að gáð, þegar betur er að gáð, þá er beinið gott.

Vertu stoltur af þér og uppruna þínum Kristján. Og mundu að böl er aldrei bætt með böli.

Það er alveg satt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.5.2010 kl. 14:11

11 Smámynd: Kristján Hilmarsson

 Ég er stoltur af uppruna mínum Ómar, þó það sýnist kannski ekki vegna "grófrar" gagnrýni minnar á okkur, og ég veit að við finnum leið útúr bæði egoismanum og þröngsýninni, en til þess að verða betri verðum við að sjá að við erum ekki best í heimi í öllu, ég nota mínar aðferðir til að "sjokkera" landsmenn mína hvað varðar þessa þröngsýni sem aftur leiðir til fordóma og þar aftur til framkvæmdaleysis, og þú notar þína aðferð, en að fría sig allri ábyrgð og setja "saklausa" þjóðina upp á móti "hræðilegu" embættis,stjórnmála og atvinnurekendum, er nú ekki leiðin til betrunar byggða á sjálfsgagnrýni, spyrðu mig.

Við getum nefnt sem dæmi að þegar ég tala við fólk, verandi vinir og/eða ættingjar mínir á Íslandi, reyndar líka bloggverja ýmsa, um það hversvegna ekki "allir" krefjist þess að á meðan verið er að leysa til skemmri og lengri tíma skuldavandamál heimilanna, þá verði gerð hraðari framkvæmd fyrir þá sem virkilega eru að svelta í hel og lenda á götunni vegna fátæktar, og að menn verði að sætta sig við að þau mál þurfi sérmeðferð vegna eðlis síns, óháð hinum aðgerðunum.

Þá mæti ég oft ótrúlegu skilningsleysi og oft "kommenterum" eins og "það er nú ekkert hægt að fara gera upp á milli fólks" og "hvað, á þá fólk að fara að "sanna" fátækt sína?" ofl álíka, þetta er gott fólk, umhyggjusamt og vill vel, en er svo "blokkerað" í rótgróinni þröngsýni um fátækt að jaðrar við fordóma, því hvort sem þér og mér líkar eða ekki, þá er "fátækt" á Íslandi í dag nátengt "skömm" sbr. þetta: HÉR og gerir ekki auðveldara fyrir.

"Aðferðafræði Auðræðisins" þú veist betur en að halda að svona slagorðaklijsa virki á mig eða aðra sæmilega upplýsta menn/konur þig sjálfann meðtalið, mér nefnilega sýnist þú vera að róta svoldið á "ruslahaugum sögunnar" (ég má líka nota klisjur ;)) og dreyma um að safna liði með heygöflum og öðru handbæru, koma svo á einhverju sem þú kallar svo fallega "réttláta ríkisstjórn" með foringjum eins og Fidel,Josef og að maður tali nú ekki um Ceausescu, en auðvitað misskil ég þetta allt, því nú á þetta að verða svo miklu betra en allar hinar tilraunirnar, sem gerðar voru með líf og tilveru heilla þjóða og er sumstaðar enn.

Nei við manneskjur erum breyskar, og getum í besta falli dreymt um "fullkomna" samfélagið, segðu mér þó eitt Ómar, hversvegna þarf Ísland svona róttækar breytingar eins og þú leggur til þegar aðrar nærliggjandi þjóðir klára sig svo miklu (ekki fullkomið, mundu) betur með eiginlega sama stýrikerfi ?

Er ekki mikilvægast að byrja á að virkja fólkið, sýna því að það verður að taka meira þátt í samfélaginu, gegnum OK " þessvegna núverandi flokka til að byrja með, beita sér líka á milli kosninga, gefa aðhald og eftirlit og hætta að treysta á kosna fulltrúa sína í blindni, hvort sem það svo yfir tíma leiðir til réttlátara samfélags með sósíalistískri fyrirmynd, blönduöu hagkerfi eða hvað annað skiftir ekki máli, bætt spferði og réttlætiskenn laus við fordóma kemur ekki ofan frá og niður af því við annaðhvort kusum, eða komu einhverjum "hetjum" að völdum.

Semsagt Bylting þarf ekki að vera blóðug, ekki bara þarf ekki, ef hún á að heppnast verður hún að koma innanfrá.

Ómar ekki hætta að skrifa PLÍS við erum kannski á öndverðum meiði í vegvalinu en ekki í því að það verði að eithvað róttækt að fara gerast.

Eigðu góðann dag  1. maí. (er hjartans sammála síðustu setningunum 2 hjá þér)

Kristján Hilmarsson, 1.5.2010 kl. 15:20

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kristján, það er gott að þú ert stoltur af uppruna þínum.  Og á svona tímum er ágætt að viðurkenna það.  Við erum breysk, en það er hluti af mennskunni.  Allir eru breyskir.

Svona þér til upplýsingar, þá er auðræði það orð sem ég nota í stað Nýfrjálshyggju, ég vildi hætta að sneiða að frjálshyggjumönnum, þeir héldu haus í ICEsvave og vilja ekki náðarfaðm ICESave, eitt fárra stjórnmálaafla.  

Það má vera að þér finnist það klisja að tala um aðferðarfræði Nýfrjálshyggjunnar, en mér finnst að það ekki.  Að verjast henni er dauðans alvara.  Og fyrir því hef ég fært rök.

Síðan legg ég til að þú lesir mig og hugsanir mínar, nógu víða hef ég sett þær á blað.  Þá losna ég allavega að þú gerir mér upp skoðanir, ég hef nægar, þó mér sé ekki eignaðar fleiri.

Heyrumst vonandi í kjölfarið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.5.2010 kl. 15:42

13 Smámynd: Ómar Geirsson

náðarfaðm AGS vildi ég sagt hafa.

Kveðja aftur.

Ómar Geirsson, 1.5.2010 kl. 15:44

14 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Þú þarft ekkert að vera "upplýsa" mig um hvað klisjurnar þínar þíða Ómar !þar sem "nýfrjálshyggja" sem á þá líklega að vera (í þínum augum) enn verri en "frjálshyggjan" gamla, hans Hannesar Hólmsteins, er bara til sem "klisja" búin til einhverntíma í fyrndinni af vinstrisinnuðum blaðamanni þá nenni ég ekkert að vera rökræða það, en veit hvað átt er við í alhæfingunni að því marki sem alhæfingar eiga við nokkuð sem helst eða allt milli himins og jarðar.

Ég hef kíkt stundum á bloggin þín Ómar þó ég hafi ekki sett innlegg á þau , en núna eru þetta bara orðnar endurteknar "klisjur" hjá þér,(sbr. í "Tökum Grikki okkur til fyrir myndar") undantekningin er þessi sem er efst í strengnum hér - þessi "yfirskot" sem ég benti á, ég er orðinn nógu gamall til að hafa heyrt þessar sömu klisjur þúsund og einusinni og meira til.

Mér þykir svoldið miður að þú skildir "falla" á prófinu sem ég setti fyrir þig varðandi sjálfsgagnrýnina og ábyrgðina sem fólk virðist svo gersneitt í öllu heiftartalinu og hefndargirninni sem einkennir umræðuna og kynt er undir af þér og örfáum öðrum, og ekki gastu svarað spurningu minni um hvað það er sem gerir Ísland svona sérstakt, að hér þurfi nýtt stjórnkerfi,nei Ísland og Íslendingar hafa að mörgu leiti hagað sér eins og nýríkur "táningur" meðal fullorðinna og þroskaðra þjóða í sama heimshluta, allt það nýjasta og fínasta á framhliðinni, bílar, hús, tíska, verslanir og margt annað sem er bara hjóm eitt þegar, þegar þeir sem minnst mega sín voru "faldir" eins og óhreinu börnin hennar Evu.

Og ef þú heldur að fólk sem á svona langt í land eins og "linkurinn" minn í nr.11 svo sorglega bendir á, sé tilbúið að fara með þér og örfáum öðrum í einhverja "alvöru" byltingu, þá áttu von á vonbrigðum Ómar sæll, já þar sem þú hafðir heldur ekkert að segja um "linkinn" set ég hann hér aftur: HÉR nei refsum þeim sem gerðu refsiverða hluti, snúum baki við þeim sem brugðust trausti okkar og kíkjum aðeins í eiginn barm hvað varðar fordóma og þröngsýni og byggjum landið upp aftur, við vorum á réttri leið, en einhverstaðar var valinn leið sem endaði í strandi.

Ég mun kíkja og sjá hvort svör við spurningunni minni koma, en ef ekki OK þá virði ég það svosem, en vita skaltu að ég er ekkert 100% viss í minni sök en tek þátt í svona umræðum til að fá fleiri sjónarhorn, þó ég "ögri" þau stundum fram.

Kristján Hilmarsson, 1.5.2010 kl. 19:05

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kristján.

Ég hef það fram yfir þig að lesa upphaf þíns bloggs, og þar með veit ég hvað þú stendur fyrir.

Og ekkert nema gott um það að segja, þú ert þú sjálfur.  Og mættir hér sem slíkur.

En þú hefur ekki sýnt mér þá virðingu að lesa mín orð, þegar þú alhæfir þín sjónarmið.  Klisjur gott og vel, hann Árni kallaði þetta ósjálfráða skrift, og átti þá við endurtekningarnar.

Og af hverju eru þær???????????

Jú, ég er að berjast við ICEsave stjórnina, og blogga við fréttir og ögra viðteknum skoðunum vinstri manna.

En ég hef gert meira en það, og ég bað þig að lesa, áður en þú gerðir mér upp skoðanir.  Til hvers ætti ég að ræða við þig þegar þú slærð fram fullyrðingum, sem lesendum þessa bloggs er fullkunnugt um að eru ekki réttar???

Þegar ég benti þér á að ég treysti mér til þess að mynda stjórn um réttláta stjórnarstefnu, þá yfirfæðir þú það yfir á Nietzhe um einhverja yfiryfiryfiryfirofurmenn.  Ég benti þér aðeins á þær forsendur að þeir sem eru ótengdir hagsmunum, en reyna að gera það sem rétt er, þeir eru réttlátt stjórnvald.

Þú ætlar mér byltingu gegn ríkjandi kerfi, en það eina sem ég vill er kerfið fyrir innreið Nýfrjálshyggjunnar. Það er ekki flóknara en það, ég er borgaralega sinnaður maður.  Veit eins og er að frjáls viðskipti eru forsendur eðlilegs mannlífs.

Þú talar um hegðun Íslendinga eins og þú eigir heima hérna.  Hvílík firring, hvað veist þú um Íslendinga annað en þín eigin vonbrigði????  Þú þekkir greinilega hvorki tengdaföður minn eða pabba minn.  Ég skal upplýsa þig um að þeir passa ekki inn í þína staðalímynd.  

Þú talar um það sem hefur virkað svo vel hjá öðrum.  Eins og við höfum verið eitthvað öðruvísi.  Hefur þú ekki heyrt um heimskreppuna?????  Heldur þú að hún sé búinn????????'

Við fórum illa af einni orsök. og hún var stærð bankakerfisins.  Vissir þú ekki hvað þessi heimspeki, sem þú kallar klisjur að minnast á, hvað hún gerði þjóðum Vesturlanda????  Franskir bankar voru langt komnir að meðtaka þessa speki græðgi og sjálftöku, enda féll stærsti banki Frakka.  Og þróun var byrjuð í Þýskalandi, en hefðbundin borgaraleg viðhorf, andhæfðu af þeim styrk að útskipting á hefðbundnum bankamönnum var rétt nýbyrjuð.  Samt stóðust bankar Þýskalands ekki kreppuna án ríkishjálpar.

Og ef þeir hefðu verið tólffald þjóðarframleiðsla, þá hefði þýska þjóðin lent í sömu hremmingum og við.

Ekki falla í þá gryfju Kristján, að heimgera vanda íslensku þjóðarinnar yfir á karaktereinkenni hennar, kerfið sem felldi okkur, var að verki í öðrum löndum hins vestræna heims.

Af hverju féllu ekki Norðurlönd???  Svarið er að Danmörk féll að hluta, en það er aðeins ein skýring á að Svíar og Norðmenn féllu ekki, og hún er mjög einföld, þessar þjóðir höfðu þegar fallið, og þess vegna voru ítök stjórnvalda sterk í bankakerfi þeirra.

Þú mátt mín vegna heimgera okkar vanda upp á hroka okkar, og það er rétt eins langt og það nær.  Mikill meirihluti þjóðarinnar var ekki þátttakandi í hrunavitleysunni, en hvað áttum við að gera????  Ég kaus gegn vitleysunni, átti ég líka að mæta niður á Austurvöll og skjóta boðbera Nýfrjálshyggjunnar??????  Hvað gátum við gert gegn ægivaldi fjölmiðla og háskólasamfélagsins????

Það er rétt að ég þagði, en þó ég hefði sagt eitthvað, þá hefði ég fengið sömu viðbrögð á hugsun mína, og hjá þér.   "Hvað, er ekki alltí lagi hjá þér????????''

Og það hvarflaði ekki að mér að taka slaginn.  

Minn slagur í dag er mjög einfaldur, ég sé sömu ferla og voru í aðdraganda tveggja heimstyrjalda, og þá var barist og drepið.  

Nú ætla ég að spyrja þig mjög einfaldrar spurningar Kristján Hilmarsson.  Hvað heldur þú að komi út úr næstu heimsstyrjöld??

Ef þú heldur að tveir plúss tveir séu ekki fjórir, þá ert þú í mikilli afneitun.

Það er ég ekki.  Og þess vegna blogga ég gegn ríkjandi strútsviðhorfum, þó tungutak mitt, ef ég vildi fjöldafylgi, sé miklu hæfara til að æsa til óeirða, og ég gæti léttilega skipulagt þá byltingu sem þú ætlar mér.  Nema ef það væri ekki sá vandi að ég vil breytingar út frá því sem við höfum, í sátt við það sem við erum. 

Þvert á það sem þú ætlaðir mér.

Bylting byltinganna er ekki mjög flókin.  Hún byggist á því að við sjálf tökum afstöðu um það sem við viljum, hver við erum, og hvað framtíð við viljum börnum okkar.  

Hún byggist á því að þegar hinn vitiborni siðaður maður, sem 95% fólks er, segi hingað og ekki lengra, ég vil framtíð handa börnum mínum.  Þess vegna hætti ég að láta ljúga að mér.  Ég legg það á mig að fylgjast með, og ég styð þá sem vilja vel.

Og svo framvegis, sem ég hef víða bent á. 

Kjarninn er sá, að þú vilt ræða mínar skoðanir, þá skaltu ræða mínar skoðanir, ekki túlkun þína á þeim.  

Þú þarft ekki að spyrja mig um þær.  

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.5.2010 kl. 20:03

16 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Glæsilegt Ómar ! þar léstu mig hafa það  og ég er ekkert að grínast, en það sem er meira virði er að nú veit ég betur hvað þú stendur fyrir, bak við allann klisjuflauminn, þetta var skýrt og skorinort og ég verð að segja "I like" !!!.

Við erum ekki svo ólíkir sem þú vilt láta vera, þetta t.d. er eins og orð úr mínum munni töluð : " Bylting byltinganna er ekki mjög flókin.  Hún byggist á því að við sjálf tökum afstöðu um það sem við viljum, hver við erum, og hvað framtíð við viljum börnum okkar"  En myndi að sjalfsögðu vilja bæta ýmsu við, bæði minnkar það "klisju" braginn og svo er þetta allt miklu flóknara en stuttsetningar geta náð yfir.

Hef svo eitt og annað að athuga við þetta: "Þú talar um hegðun Íslendinga eins og þú eigir heima hérna.(úff 'Ómar)  Hvílík firring, hvað veist þú um Íslendinga annað en þín eigin vonbrigði????  Þú þekkir greinilega hvorki tengdaföður minn eða pabba minn.  Ég skal upplýsa þig um að þeir passa ekki inn í þína staðalímynd." Ég er handviss um að tengdapabbi þinn og pabbi eru afbragðsmenn sem og allflestir landar okkar eru, en viðurkenndu nú einusinni að þrátt fyrir alla "frjálshyggju" útrásarvíkinga, slaka fjármálastjórn/eftirlit og ekki síst ríkisstjórn, þá hefði þetta ALDREI fengið svona alvarlegar afleiðingar ef þjóðin hefði verið á varðbergi og fylgst betur með og staðið sína plikt, gott þú nefndir t.d. bankakrísuna hér í Noregi uppúr 1992, bara það hefði nú átt að vera aðvörun til Íslendinga, hefði ekki "hrokinn" (ljótt orð en..) sem við erum sammála um að er fjötur um fót, komið í veg fyrir það.

Svo þetta:"Kjarninn er sá, að þú vilt ræða mínar skoðanir, þá skaltu ræða mínar skoðanir, ekki túlkun þína á þeim." kannski þú ættir að pæla aðeins í því hversvegna "normalt" vitiborinn og þroskaður einstaklingur eins og ég "túlka" það sem þú skrifar eins og ég gerði ?? gæti verið að stíllinn sé óklár stundum, sé að þú andsvarar ekki þeim sem "túlka" þig á sama hátt og ég gerði, og eru svo sammála þér (í ljósi túlkunar) og til í að fara í byltingu með þér á morgun. 

Nei ég vitna bara í Einstein hvað varðar 3. heimsstyrljöldina, hef ekki hugmynd hvernig og með hverju hún verður háð, en sú 4, verður háð með steinkylfum.

Við heyrumst Ómar, kominn háttatími hér í Norge, Góða Nótt. 

Kristján Hilmarsson, 1.5.2010 kl. 21:51

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kristján.

Lífið er klisja, við fæðumst, lifum og deyjum, eins og allir hafa gert í tímans rás.

Kreppur, efnahagslegar og félagslegar, eru klisjur, þær endurtaka sig aftur og aftur, með mjög svipuðum formerkjum, hjá öllum menningarsamfélögum, allt frá upphafi sögunnar.

Sú leið sem ég boða, afturhvarf til gamalla gilda, er klisja, kemur fyrir i elstu textum, og svona "endurhvörf" áttu sér til dæmis stað í Aþenu fornu sem og hjá Rómverjum.  Andsvar við auðræði örfárra var að skipta upp eignum og styrkja rétt almennings, í kjölfar kom alltaf hagsæld, sem síðan hneig, það er eðli tímans.

Mannleg hugsun er klisja, allt sem sagt er byggist á eldri hugsun.  Aðeins stíll og ritfærni gera þann gæfumun að eftir sé munað.  Það er ekki viska Shackespeare sem lifir, það er ritsnilld hans, hæfni hans að orða klisjur þannig að þær fengu nýtt líf.

Blogg mitt er áróðursblogg um eitt málefni, andstöðu mína við kúgun breta í ICEsave.  Og þar sem ég tek að mér að orða hugsanir fólks, þá fær það i kaupbæti mínar hugsanir, viðhorf mitt gagnvart AGS, viðhorf mitt gagnvart auðræði (nýfrjálshyggjunni) en ekki hvað síst, boðskap minn um að siðferðislegar forsendur séu þær forsendur sem skilja milli feigs og ófeigs.  

Og þar með erum við komnir inn á þann hátt bloggs míns sem er ekki klisja, ég tengi saman hugmyndafræði, sem er lausn á núverandi kreppu okkar, við hugmyndafræði sem er eina von mannkyns til að lifa af, ekki nema jú menn vilja heyja fjórðu heimstyrjöld með steinkylfum.

En ég byggi þá hugmyndafræði á fornum grunni, grunni sem var skráður á blað um hundrað árum eftir fæðingu meistarans frá Nazaret, mannsins sem skóp hugmyndaheim okkar vestrænu menningar. 

Og mér finnst það ágætt afrek að geta gert þetta Kristján án þess að missa athygli fólks.

Hver setning er klisja, gott og vel.  Hvernig heldur þú að hægt sé að endurtaka sama hlutinn, dag eftir dag, án þess að endurtaka sig.  Gaman þætti mér að sjá það.  En endurtekning er einn meginlykill áróðurs, og þú nærð ekki markmiðum þínum án hennar.  Listin er að gera það á þann hátt að þú haldir athygli fólks, þegar þú vilt hafa hana, og fá fólk til að íhuga "dýpri" merkingu orða þinna.  Og þú plantar hugsun, og þú plantar orðalagi.  

Ég þekki umræðuna Kristján, ég þekki hvernig hún þróaðist, og ég veit að ég átti þátt í þeirri þróun.

Klisja, já vissulega klisja.  En sú ögrun gegn valdinu og valdsherrum er engin klisja.  Ég hef komist upp með að segja það sem mér sýnist, á þann hátt sem mér sýnist, þegar umræðan er sem heitust.  Og ég hef haft þann styrk að koma þessu bloggi inn á topp tíu listann þegar ég hef talið það skipta máli að koma sjónarmiðum ICEsave andstöðunnar á framfæri, án þess að varðhundar stjórnvalda hafi lagt í mig að ráði.  

Sú umræða sem ég hef viljað koma á framfæri, hefur fengið að fljóta án skrumskælingar og útúrsnúninga.

Vissulega eru örpistlar mínir klisjur, en ég á svo miklu fleiri þar sem ég kafa dýpri í hlutina og bæði útskýri og rökstyð mín sjónarmið.  En það er auðvelt að tala, það er öllu erfiðara að rífa kjaft í fáum orðum, og vera tilbúinn að standa við allar sínar fullyrðingar við hvern sem er. ég veit aldrei hvenær ég fæ á mig fólk með miklu víðtækari þekkingu en ég hef, og með miklu meiri færni í orðræðunni en ég sem hafði ekki skrifað stakt orð í 22 ár upp á dag,  þegar ég tók til máls í umræðunni eftir Hrunið. 

Samt legg ég höfuð mitt á höggstokkinn á hverjum degi, og hef ekki hugmynd um hvenær hann er sniðinn frá bolnum.  

Gerðu ekki lítið úr klisjum mínum Kristján, þær þjóna bæði sínum tilgangi, og þær hafa allar verið rökstuddar víðsvegar hér á þessu bloggi, sem og á nokkrum öðrum stöðum.  En þú hlýtur að sjá, að ef þú ætlar að skrifa ítarlega ritgerð um hvert það sjónarmið sem þú slærð fram, að þá nærðu aldrei að koma hugsun á framfæri. Það les enginn langhunda nema örfáir sem vilja kafa dýpra í málin.  

Samt finnur þú þá víða á bloggi mínu og þú finnur líka víða umræðu þar sem ég ræði sjónarmið mín við aðra.  Líkt og ég er að gera við þig.  En IP tölur færðu ekki á út á slíka vinnu.

Að vera nógu skýr þannig að maður skiljist, þegar maður ögrar viðteknum skoðunum fólks og slær því blákalt fram að í kjarna erum við flest að segja það sama.  Hvernig er það hægt????

En ég hef tekið umræðu við fólk sem er sæmilega vitiborið og normalt, og túlkar mig á mjög ólíkan hátt, til að útskýra hugsun mína og sjónarmið.  Það er þannig að ég slæ fram mörgum fullyrðingum, og set oft hluti í samhengi sem er fólki framandi, og eina ráðið til að útskýra það er að ræða málin, taka umræðuna og útskýra.  Mér er til efs að þú finnir mörg blogg með eins ítarlegum innslögum og hjá mér.

Og það geri ég vegna þess  að allt hefur þetta sinn tilgang.

Þú segir að við eigum að viðurkenna mistök okkar i aðdraganda bankahrunsins eins og við séum ekki að því á hverjum degi.  Það er ljóst að svona hefði aldrei farið ef þjóðin hefði hlustað.  Um það sem miður fór, rífst ég ekki um.  Ég sá það sem gerðist, spáði hruni, en sá reyndar ekki fyrir hvað það yrði djúpstætt.  Ég var stjórnarandstæðingur.

En ég hengi ekki þjóð fyrir kerfi sem hafði fallið innmúrað í eðli sínu.  Ég hengi kerfið. 

Og ég rífst ekki um það liðna, það er augljóst, ég ræði það sem verður okkur til bjargar.

Umræða á strandstað snýst aldrei um orsakir strandsins, strandið er veruleiki sem krefst þess að menn bjargi sér af strandstað, lifandi.  

Þau einföldu sannindi hafa menn ekki fattað og þess vegna erum við öll að drukkna.

Og það hugnast mér ekki.

Bið að heilsa ykkur í Norge, og góða nótt

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.5.2010 kl. 00:27

18 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Góðann daginn 2.maí Ómar ! Í ljósi fyrirsagnar á þessum streng, þá ættir þú að vera pínu "skúffaður, en ég held ekki, þarf meira til að setja þig útaf laginu ;) en þetta fer nú að verða nokkuð gott hér á þessum streng, svo næst hittumst við líklega á nýrri streng eða á einhverju öðru bloggi, hver veit.

Að þú hafir ekki "tekið í penna" í 22 ár þar til fyrir rúmum 2 árum er bara ótrúlegt, það var kominn tími til allavega, því ég tel mig þekkja góðann "penna" þó ég sé ekki endilega alltaf sammála (Missti Ragnar Reykás syndrómið einhverntíma fyrir löngi).

En get nú ekki alveg hætt hérna án þess að "kommentera" örfá atriði í síðasta innleggi þínu. 

"En ég hengi ekki þjóð fyrir kerfi sem hafði fallið innmúrað í eðli sínu.  Ég hengi kerfið."  Ég var ekki að hengja neinn, bara minna á meðábyrgð almennings, hversu stór hann var/er má deila um, en vil ekki sópa henni undir teppið.

"Og ég rífst ekki um það liðna, það er augljóst, ég ræði það sem verður okkur til bjargar." Þú sérð sjálfur við nánari athugun hversu innihaldslaust þetta er, en ef ekki þá, þá segi ég: það er auðvitað ekki hægt að betrumbæta neitt fyrr en allflestir eru sammála um hvað var gert rangt, ekki satt?

"Umræða á strandstað snýst aldrei (?)um orsakir strandsins, strandið er veruleiki sem krefst þess að menn bjargi sér af strandstað, lifandi." það var ég sem notaði samlíkinguna "strandstað" og verð að lifa við það, og segi þar með: Jú! þegar skipið er búið að vera á strandstaðnum í meira en 2 ár, er auðvitað eðlilegt að ræða hvort ekki var silgt of nærri landi , þó leiðin væri styttri, þægilegri og ekki síst fallegri, með tilliti til öryggis ef það hvessti nú, hvað gerði.

Þetta gerðu nágrannalöndin, silgdu aðeins dýpri sjó en höfðu þar með meir uppá að hlaupa þegar óveðrið kom.

Og nei ég er ekki einn svona sem "velti" mér uppúr því sem skeði og hefði átt að fara betur, en endurtek:það er auðvitað ekki hægt að betrumbæta neitt fyrr en allflestir eru sammála um hvað var gert rangt, ekki satt? svo mitt "motto" í því sambandi er :Horfum fram á við, leitum lausna fremur en einblína á vandamálið, en lausnin liggur oft í fortíðinni.

Heyrumst Ómar !

.

Kristján Hilmarsson, 2.5.2010 kl. 10:10

19 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kristján.

Já, og góðan daginn.

Nei, ég er ekki með vott af skúffun í huga.  Pistillinn fékk hátt í þrjúhundruð innlit, fyrir nokkrum mánuðum mátti ég vera ánægður með 20 innlit ef ég sótti ekki lestur með fréttatengingu.

Og innihaldið, svona fyrir utan að meina það, þá var þetta stílæfing í framhaldi að spjalli mínu við Arinbjörn á öðrum þræði.  Smá sönnun að ég ræð jafnvel við tungutak "blóðugu byltinganna" sem og hinna innri. 

Hvað þau orð sem þú hnýtur við þá vísa ég aftur á dýpri lestur.  

Til dæmis þetta með samábyrgðina, þá hef ég endurprentað orð þýskra ungmenna frá dögum seinna stríðs, þar sem þau benda réttilega á að glæpamenn spretta ekki úr tóminu.  Þeir hafa til þess okkar leyfi, allavega ef um lýðræðisríki er að ræða.  En ábyrgðin snýst ekki um að velta sér upp úr fortíðinni, heldur að læra af henni og sjá til þess að hún gerist ekki aftur, allavega ekki í þessari mynd.

Og þá komum við að annarri hnýtingu, það rífst enginn um að skip sé strandað, það er augljóst að það er strandað.  En forsenda lærdóms er að lifa af strandið, og síðan ef aftur er á haf haldið, að allavega ekki gera sömu mistökin aftur. 

Og ég rífst ekki, því ég veit, ég sé og tek ekki þátt i þeim leik að afneita sem blasir við öllum.  Og út frá þeirri vitneskju vil ég að menn finni sér nýja leið, sem alla vega gefur von um leiðarenda, án strands.  Það er til lítils að halda aftur út með skerið merkt í plotti, en halda samt inn í sama skerjagarðinn og stranda á einhverju öðru á svipuðum stað.

Þú gerir menn sammála með því að skapa sýn á framtíðina.  Ólíkt þér þá hef ég vilja til að þurfa ekki að há fjórðu heimsstyrjöldina með spýtum.  Ég reyni að orða þá sýn, rökin fyrir henni, og hvað þarf til að gera til að komast þangað.

Og fyrir þá sem afgreiða siðferðisleg rök sem klisjur, þá beiti ég rökfræðinni að hver sem er sjálfum sér næstur, sé fremstur í flokki.  Það er til lítils að vera ríkur 5 mínútur fyrir öruggan dauða.

Þú notar röktækni efahyggjumanna, að ráðast á einstakar setningar og hlæja af klisjunum.  Og missir þar með að hugsuninni.  Ég ræð ágætlega yfir þeirri tækni, en ég nota hana ekki.  Ég reyni að fanga hugsun þeirra sem við mig tala, orða mínar og þannig fleyti ég umræðunni áfram.  Tel mig engan snilling, aðeins venjulegan mann sem langar að verða afi.  Þegar nógu margir upplifa sömu tilfinningu, þá miðar bylting mín áfram.  Og eitt af því fyrsta sem við lærum er að þora tjá okkar þó að okkur sé gert grín.

Það geta allir gert betur, og þarna úti eru einhverjir sem geta það örugglega.  Orðið er frjálst.

En það er ekki það sama að þar með eigi hinn venjulegi maður að hætta að tjá sig.  Það er ekkert af því að orða hugsanir sínar á þann hátt að aðrir skilja.  Þetta er ekki próf í heimspeki 101.

En við megum aldrei beygja okkur fyrir tómhyggjunni, aðhlátrinum og klisjutalinu.

Vegna þess að lífið er klisja eins og ég reyndi að útskýra fyrir þér Kristján.

Klisja sem gaman er að takast á við.

Takk fyrir spjallið, bið að heilsa til Noregs.

Kveðja,  Ómar.

Ómar Geirsson, 2.5.2010 kl. 11:13

20 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Hártoganir ! ;) en vel orðað.

Kristján Hilmarsson, 2.5.2010 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 340
  • Sl. sólarhring: 702
  • Sl. viku: 5924
  • Frá upphafi: 1399863

Annað

  • Innlit í dag: 305
  • Innlit sl. viku: 5069
  • Gestir í dag: 298
  • IP-tölur í dag: 296

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband