Á saga Sophie Scholl erindi við samtímann???

 

Svarið er mjög einfalt.

JÁ.

Harmsaga mannkyns í aðdraganda seinna stríðs og þær hörmungar sem það þurfti að þola á meðan sá hildarleikur gekk yfir er klassísk saga um ómennsku og kúgun, hvernig hún komst til valda, hvernig hún viðhélt völdum, og hvaða afleiðingar hún hafði í för með sér.

Samsvörun uppgangs og falls nasismans við uppgang og væntanlegt fall auðræðisins sem við kennum við Ný Frjálshyggju er næstum eins algjör og hægt er miðað við að það er verið að bera saman sögu ólíkra tímabila og það sem einu sinni hefur orðið, verður aldrei aftur, slíkt er eðli tímans. 

En atburðarrás og aðstæður, hugmyndafræði og vinnubrögð er eitthvað sem tíminn elur af sér aftur og aftur.

Þeir sem aðhyllast auðrán auðræðisins bregðast alltaf ókvæða við þegar þeim er sýnd fram á samsvörun við mestu ómennsku sem mannkynssagan þekkir, segja með þjósti að þeir reki hvergi útrýmingarbúðir þar sem fólk sé líflátið sökum uppruna eða stjórnmálaskoðana.  Og það er vissulega rétt, allavega ennþá. 

Þeir eru hvorki nasistar eða uppi á árunum 1939-1945, en þeir beita um margt keimlíkum vinnubrögðum í áróðri til að ná völdum (hafa það sem ekki sannara reynist) og markmið valda þeirra er rán á eignum annarra.  Og fall þeirra mun leiða hörmungar yfir heimsbyggðina, alveg eins og fall nasismans, nema ef okkur beri gæfu til að læra af fólki eins og systkinunum Sopie og Hans Scholl og vinum þeirra í andspyrnuhópnum Hvíta Rósin.

Að við skiljum að mannúð og mennska er þess virði að fórna öllu fyrir.  Því mannúð og mennska er forsenda lífs barna okkar í heimi þar sem drápsgeta ómenna er komin á það stig að hún getur útrýmt öllu lífi.

Þegar unga fólkið í Hvítu Rósinni hætti lífi sínu til að andæfa ómennsku með orðum, þá lá ekki fyrir vitneskja um umfang helfarar nasista, fólk hafði grun um hana en það var ekki málið, þjóðfélagið og hugmyndafræði þess var illt, ómenni stjórnuðu með kúgun og ofbeldi, og þeir höfðu ráðist á nágranna sína til að arðræna þá.

Ill stjórnvöld höfðu afneitað siðmenningunni og það var næg ástæða fyrir þetta unga fólk til að segja Nei, við viljum ekki lifa í svona þjóðfélagi.  Og við erum tilbúin að deyja fyrir þá sannfæringu okkar.

 

Auðræðið hefur rænt þjóðir, ekki með hervaldi, heldur valdi fjármagns sem eru skriðdrekar nútímans.   Heimsbyggðin fann til með Haiti eftir jarðskjálftann mikla, sem er vel, en hún fann ekki til með landsmönnum þegar auðræðið lagði landið undir sig með atbeina Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og rústaði öllu innlendu atvinnulífi, en landsmönnum bauðst að vinna á þrælakjörum í verksmiðjum bandarískra stórfyrirtækja, án vonar og án framtíðar.

Sama hugmyndafræði og nasistar ætluðu nágrannaþjóðum sínum, nemar arðránið er ekki hugsað til ábata fyrir herraþjóð, heldur auðmenn og auðmannsleppa auðræðisins.  Ég nefni Haiti sem dæmi því þar endurspeglast hræsnin og kúgun auðræðisins í sinni tærustu illsku og um  þá illsku má lesa í góðu bloggi Gunnars Skúla Ármannssonar læknis á bloggsíðu hans, skulabloggi, þann 20.01 síðastliðinn.

En dæmin eru óteljandi.  Og ekki hægt að nefna öll hér.  Áhugasamir geta gúglað á þau mætu samtök ATTAC  og lesið sér til um óhæfuna og arðránið á  saklausu fólks um víðan heim.

Auðræðið stendur fyrir stríði um víðan heim, borgarstyrjaldir Afríku eru næstum allar á svæðum þar sem auðræðið sér hag sínum í að knésetja staðbundin stjórnvöld til að fá óheftan aðgang að auðlyndum.  Friður var til dæmis ekki saminn í Angóla fyrr en ein versta svívirða auðræðisins, bandaríska olíufyrirtækið Halliburton, sá hag sinn í að hætta að styðja skæruliða sem tryggðu þeim óheftan aðgang að auðugum olíusvæðum Cabinda héraðsins.  

Stríðið í Írak, sem hefur valdið ótímabærum dauðdaga á rúmlega milljón saklausra borgara, er annað dæmi sem má alfarið skrifast á ítök auðræðisins i stjórnkerfum Vesturlanda.

 

Mesta ómennska auðræðisins er atlaga þess að grunni hins siðmenntaða samfélags.  Atlaga sem á sér engin fordæmi nema í ómennsku nasismans.  Auðræðið kom á því gildismati í efnahagslífi okkar að allt væri leyfilegt, ef menn græddu á því, og þessir "menn" eru auðkýfingar og auðhringir.  Og auðræðið braut niður grunngildi okkar samfélags, að okkur bæri skylda að líta til með náunga okkar, að við bærum ábyrgð á honum.  Siðferðisleg skylda breyttist i geðþótta, samfélagið átti ekki lengur rétt til að skattleggja þá sem áttu til að hjálpa þeim sem áttu ekki, slíkt var komið undir vilja hvers og eins.

Og afleiðingin er súpueldhús í stað velferðar, biðraðir grátandi foreldra fyrir utan hátæknisjúkrahús í þeirri von að börn þeirra kæmust að í vikulegri góðgerðaraðgerð lækna með samvisku, námsstyrkir til efnilegra námsmanna í stað réttar á námi, geðsjúklingar á götum úti í stað sjúkrahúsa og svona má lengi halda áfram að lýsa gósenlandi auðræðisins þar sem fátæku fólki er haldið niðri með dópi og fangelsum.

 

Og þetta auðræði er komið á endastöð líkt og nasisminn forðum.  Og það hótar að taka heimsbyggðina með sér.  Nú þegar hefur það rænt almenning Vesturlanda og gert almannasjóði stórskulduga.  Og það hefur tekið yfir velstæð fyrirtæki, rúið þau inn að skinni, og skilið aðeins eftir skuldirnar.  Og það hefur breytt stórum hluta þriðja heimsins í þrælabúðir.  Og það hefur .......

Og þetta er aðeins byrjunin.

 

Hvernig tengist ómennska auðræðisins sögu Hvítu Rósarinnar???

Jú, eins og öll kúgun þá er hugsjón mannúðar og mennsku það eina sem sigrar hana.  

Og það hugrekki að fólk uppgötvi að siðmenningin sé þess virði að berjast fyrir.

Barátta Hvítu Rósarinnar byggðist á sömu hugsjón og hugmyndum og barátta almennings í dag gegn ómennsku auðræðisins.  

 

Í næsta pistli ætla ég að taka fyrir samsvörunina við Ísland samtímans og síðan ætla ég að fjalla lítillega um þau orð Sophie Scholl í myndinni sem mér fannst íhugunarverð.

Og síðan mun ég birta nokkur brot úr dreifibréfum Hvítu Rósarinnar því hugsun þeirra er sígild og á mikið erindi til okkar allra sem eigum þá eina ósk að börn okkar erfi lífvænlega framtíð.

Og það er okkar að tryggja þeim hana.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Frábær bíómynd og hafi RUV þökk fyrir að sýna hana. Mætti sýna fleiri þýskar kvikmyndir, Þjóðverjar kunna að búa til slíkar.

Magnús Þór Hafsteinsson, 26.4.2010 kl. 15:21

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Myndin var góð, og hvalreki inní þá umræðu sem núna er í gangi.   En hvort sem menn eru fyrir hin dýpri rök og vilja berja kerfinu með rökum heimspekinnar, eða hreinlega segja að menn vilji ekki þessa vitleysu, því hún er vitlaus, og öllum augljóst að svo sé, þá er ljóst að núverandi ástand gengur ekki lengur.

Til dæmis að láta fólk standa í biðröðum við "súpueldhús" þegar sjórinn rúmar varla orðið allan þann fisk sem bíður eftir að verða veiddur.

Kallast heilbrigð skynsemi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.4.2010 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband