15.4.2010 | 07:03
Bylting byltinganna, eða þannig.
Ég held að þetta sé kjarni þess að láta ólíka einstaklinga vinna að sama markmiði, að skapa þeim framtíðarhugsjón, og svo muna þá einföldu staðreynd að það þarf tvo til að rífast.
Með öðrum orðum þá má mikið læra að börnunum og skapferli þeirra.
En það er þetta með einstaklingana og kerfið. Mér sýnist, eftir að hafa strítt vinstrimönnum víðsvegar á Netinu, að ég sé dálitið eyland með mitt rótgróna hatur á Nýfrjálshyggjunni. Í mínum huga þá er hún óvinur númer eitt til ????, óendanlega ??? En ég kann vel að meta allt gott og heiðarlegt íhald eins og góða og gegna vinstrimenn, og eiginlega alla þar á milli. Tel að Sannleikurinn sé eitthvað óáþreifanlegt sem margir leggja í púkkið og margir skynji á mjög mismunandi hátt. En hann á að byggjast á gagnkvæmri virðingu og rétti allra til lífs og lima á mannsæmandi hátt.
Og mér er fyrirmunað að vera illa við menn þó ég hatist út í kerfi. En menn í fullu fjöri við að gera eitthvað illt, eins og til dæmis að ræna börn og gamalmenni eða boða siðleysi Nýfrjálshyggjunnar, þá á að lemja í hausinn þar til þeir finna sér eitthvað þarflegra að gera. Og finni þeir sér eitthvað þarflegt að gera, þá er það í góðu máli mín vegna. Tel það ekki samræmast gagnrýni minni á illsku, að vilja síðan gera öðru fólki illt. Því trúi ég á mátt iðrunar og annað tækifæri, og jafnvel það þriðja og fjórða. Með öðrum orðum þá eru fallnir menn ekki mín deild, heldur þeir sem þarf að fella.
En ég fer ekki fram á að nokkur maður sé sammála minni hundalógík, en ég benti Andstöðunni á (það er þeim sem lesa vildu kommentin mín á Silfrinu), að við hefðum ekki afl í að eltast við sökudólga og kerfið um leið. Og það er gömul saga og ný að kerfið fórni nokkrum peðum á meðan það styrkir sig í sessi eftir áföll. Og verði síðan verri en andskotinn viðureignar þegar það hefur náð sínum fyrri styrk, því það óttast alltaf mjög að veikleika tímabil þess komi aftur.
Og ég benti á að við myndum missa að tækifærinu til kerfisbreytinga á meðan við létum spila með okkur, egna okkur saman innbyrðis, og egna okkur gegn föllum mönnum í hvert sinn sem við kæmust nær kjarna spillingarinnar. Því átti að krefjast Sannleiksnefndar þar sem aðilar Hrunsins, endurskoðendur, lögfræðingar, miðlar og að sjálfsögðu topparnir gerðu hreint fyrir sínum dyrum, skiluðu illa fengnu fé og bæðust afsökunar. Aðeins þannig var hægt að veikja innviði kerfisins á þann hátt að það gæti illa fjölfaldað sig aftur á sömu forsendum og áður var.
En ef ekki, þá fengjum við yfir okkur sömu vitleysuna, í nýjum umbúðum, en skuldahlekkir og valdleysi almennings yrðu miklu meira en áður. Og vonin um betri heim myndi smán saman kafna. Þó mér sé ekki vel við gömlu Vökuliðina sem á að fórna, þá finnst mér sú fórn dýru verði keypt. Henging á nokkrum föllnum leikurum á meðan sjálfir hönnuðirnir og leikstjórarnir, ekki aðeins sleppa, heldur fá öll völd til að móta hið Nýja Ísland. Nýja Ísland sem ekki aðeins verður í eigu okkar auðmanna og leppa þeirra, heldur erlendra brunaútsölukaupanda í leiðinni.
Nei, Sigurjón Digri er ekki þess virði. Mér þykir vænna um börnin mín en það.
Og þar sem við höfum svo sem rætt þetta áður, þá ætla ég að spyrja þig ærlegrar spurningar Arinbjörn; á hvað leið erum við????? Hvað er að gerast????
Mér finnst það vera eitthvað í ætt við það sem ég varaði við.
En það er þetta með vonina, hún lifir og vonandi mun hún erfa landið.
Það er satt og rétt að bylting er svarið, en ekki bylting sem étur börn sín eða bylting sem veldur meiri hörmungum en þeim sem hratt henni af stað upphaflega.
Ég er að tala um byltingu byltinganna, þeirri sem á sér stað aðeins á nokkurra árhundraða fresti, byltingu hugarfarsins. Óréttlæti, ójöfnuður og mannvonska eru ekkert náttúrulögmál. Og mannsandinn hefur þróað siðmenninguna gegn þessum þursum tregðunnar. Og mikið hefur áunnist í gegnum árþúsundin, núna er til dæmis enginn étinn eða settur í formlegan þrældóm og formlega hefur ríkisvaldið aðeins rétt til að drepa mann og annan, og refsa fyrir misgjörðir svo einhverjar réttarbætur hin venjulega manns séu upptaldar. En núna hefur myndast ginnungargap milli siðmenningarinnar og tregðunnar, ginnungargap sem tortímingaröfl eyðileggingarinnar fylla upp í. Það er aðeins tregðan sem útskýrir hina miklu örbrigð og skort sem alltof stór hluti mannkyns glímir við í dag. Og þegar ég tala um skort, þá er ég að tala um skort í víðasta skilningi, eins og skort á menntun, heilsugæslu, eiga þak yfir höfuð, fá réttláta málsmeðferð og svo framvegis.
Svona ginnungargap hefur myndast áður en í dag er máttur eyðileggingaraflanna svo mikill að enginn er óhultur, við erum öll á sama báti. Við þurfum öll að horfast í augun á vandanum og viðurkenna hann.
Vissulega er engin skyndilausn til gegn tregðunni, en þó má benda á nokkrar staðreyndir. Flest ríki Norður Evrópu komu á almennri grunnmenntun á um tveimur áratugum síðasta hluta 19. aldar. Castro var um áratug að gera hið sama á Kúbu auk þess að byggja upp almenna heilsugæslu. Hann átti ekki peninga en hann hafði viljann. Samt í dag er talið að um óyfirstíganlegt verkefni sé að ræða því þá þurfi að skattleggja auðmenn og jafnvel að banna þeim að haga sér eins og svín. Og þar sem þeir ráða stjórnmálamönnum, fjölmiðlamönnum og meginhluta háskólasamfélagsins þá er skorturinn á grunnnauðsynjum talinn náttúrlögmál. Og hinir fáu hafa öll völd því fjöldinn telur sig tilheyra ætt kalkúna og því treður hann sig út af mat en ekki viti (það er les og hlustar á vitræna umræðu).
Og það er morgun ljóst að kalkúnaheilkennið hverfur ekki svo glatt. Og bylting mannsandans á sér stað á löngu tímabili, árhundruðum eða árþúsundum. En eyðileggingaröflin sem þrífast í skjóli tregðunnar eru á fullu skriði og eru mjög fljótvirk. Loftslagsmál, arðrán náttúru og náttúruauðlynda, átök hugmyndaheima og fyrirsjáanleg uppreisn hins þögla meirihluta þriðja heimsins gegn kúguninni, bara nokkur dæmi um eitthvað sem getur valdið mjög stórum hluta mannkyns miklum þjáningum og jafnvel ótímabærum dauða á næstum árum og áratugum.
Og hverju er teflt fram af hálfu mannsandans, eða hinum ráðandi hluta hans, gegn tortímingaröflunum???? Björgun auðmanna og fjármálakerfis þeirra og síðan áframhaldandi græðgivæðing heimsins með siðlausa fjármálamenn í fararbroddi.
Og við þessu er aðeins eitt mótsvar, og það er sú bylting sem ég talaði um. Hin hljóða bylting hins skynsama manns sem upplifir það sterka ógn að hann segir við sjálfan sig, þetta gengur ekki lengur, börnin mín eiga enga framtíð ef ég geri ekki eitthvað. Og það eitthvað er að skynja það sem skiptir mann máli eins og velferð fjölskyldunnar, framtíð barna manns og krafan um mannsæmandi líf, að það er líka eitthvað sem skiptir meðbræður manns máli, og þeir eiga sama rétt til þess og maður sjálfur. Og síðan þarf að styðja það sem horfir til góðs, en berjast gegn því sem gerir það ekki. En sú barátta á að byggjast á mátt hugans, en ekki mátt vopna. Og menn eiga að hafa það ætíð í huga að gera ekki öðrum það sem þeir vilja ekki að sér sé gert. Í hnotskurn er það sú einfalda staðreynd að líki þér ekki að hermenn óvinar þíns nauðguðu konu þinni og dætrum, þá gerir þú ekki slíkt sama við þeirra konur ef þú nærð skyndilega yfirhöndinni.
Og einhver þarf að byrja að hugsa hlutina upp á nýtt. Í því er grunnágreiningur milli mín og Borgarahreyfingarinnar. Það sem er liðið, er liðið í mínum huga. Ég geri gott úr því með því að læra af reynslu hins liðna og reyni að skapa samstöðu sem víðast til að breyta því sem breyta þarf. Öll uppgjör vekja upp andstöðu, og því mun meira sem þú ert upptekinn af þeim, þeim mun minni kraft hefur þú til breytinga, og því, þrátt fyrir góðan vilja, þá verður breytingin þér um megn (ég er ekki að persónugera þetta upp á okkur, heldur er þetta minn ritstíll að nota persónufornöfn).
Vísir menn nota lágmarks kraft í uppgjör, heldur nota þeir vit sitt til að skapa sátt um hið óhjákvæmilega uppgjör og vinna þar með tvennt, þeir lágmarka andstöðuna við uppgjörið og nota allan sinn kraft í hina nauðsynlegu breytingu sem þeir stefndu að.
Þetta gerði Nelson Mandela þegar hann losaði Suður Afríkumenn við aðskilnaðarstefnuna og kom á lýðræði í landinu án blóðsúthellinga, og þetta gerðu leiðtogar bandamanna í Þýskalandi eftir stríð, þeir gerðu upp við Nazismann og leiðtoga hans án þess að hengja alla þýsku þjóðina í leiðinni og sköpuðu þannig framtíðarsátt í landinu og milli þeirra og hinnar sigruðu þjóðar.
Og þetta er það sem andstaðan þarf að gera á Íslandi. Hún þarf að berjast fyrir sátt og uppgjöri. En það uppgjör á að vera við hið spillta kerfi og sáttin á að vera við fylgismenn þess. Því aðeins sameinuð komust við út úr þeim heljarvanda sem við er að glíma. Og eins og ég hef áður sagt, þá er til lítils að við komust sátt út úr vandanum ef einhver af tortímingaröflum heimsins (eins og til dæmis loftlagsbreytingar eða beiting kjarna eða efnavopna) nái í skottið á okkur.
Það þarf nýja hugsun og nýja von. Og aðeins þannig næst hið endalega réttlæti. Sem er reyndar eilífðarverkefni, en verkefni engu að síður. Ef við viljum nýjan og betri heim, þá þurfum við að byrja á sjálfum okkur. Hin stóru mistök eru þau að vera endalaust í rifrildi við að breyta öðrum. Og síðan þarf að spyrja þá sem eru orðnir efins um Helreiðina til heljar, hvort þeir vilji ekki staldra við og hugsa sinn gang. Bjóða þeim síðan hvort þeir vilji vera með í Andófinu gegn Helreiðinni. Og það er Andófið sem skapar jákvæðu ferlana gegn Tregðunni, sem er hinn raunverulegi óvinur mannkynsins.
Og um allan heim eru menn og konur að móta hugmyndir um þessa jákvæðu ferla, hvernig hægt er að vinna bug á skorti, eða eyðingu náttúrunnar svo eitthvað sé nefnt. Eða þá hvernig sé hægt að sætta ólíka menningarheima o.s.frv.
Og réttlæti fellst ekki í því að refsa, heldur að byggja upp nýtt og betra, að hindra fórnarlömb glæps framtíðar.
Og Arinbjörn. Þessi orðræða mín er ekki hugsuð sem aðfinnsla eða þá prédikun eða hvað það neikvæða sem um svona skrif má segja. Ég er að reyna að orða hugsanir um þann grunnvanda sem við er etja og við þurfum öll að átta okkur á. Hluti sem fólk þarf að hugsa um og hluti sem fólk þarf að ræða. Engin tilraun til breytinga mun heppnast nema fólk geri sér grein fyrir þeim ógnaröflum sem við er að etja, og fólk er að lifa örlagatíma og ögurstund síns lífs. Þessi ógnaröfl eru svo skelfileg að þau munu aðeins verða sigruð með sjálfri frumheimspekinni, að lemja á hinu illa með hinu góða, og jú staðföstum vilja og heilbrigðri skynsemi.
Og eins og þú bendir á þá mun ekkert vinnast nema með réttlæti, því það er réttlátari heimur sem við þurfum að stefna að. Það réttlátur að nógu mörgum þykir það vænt um hann að hann nái að sveigja sér framhjá öllum ógnum tortímingarinnar.
Réttlætið í mínum huga felst aðeins í lífvænlegri framtíð barna minna, ekki meintum örlögum Sigurjóns digra. Frá honum dugar mér afsökunarbeiðni ásamt upplýsingum um hvernig hann fór að þessu og upplýsingum um bakland hans, bæði hugmyndafræðilegt og peningalegt (auðmenn). Og ef hann iðrast þá mun ég fyrirgefa honum og bjóða hann velkominn til góðra verka. Slíkt hið sama mun ég gera gagnvart öllum þeim sem ég bauna á þessa daganna og tel vera að vinna hið endalega skaðræði gegn þjóð minni.
Það er iðrunin og fyrirgefningin sem er eldsneyti hinnar árangurísku byltingar sem þarf að gera.
Og sakleysið, öll börnin sem eiga erfa heiminn, eiga það inni hjá okkur gamlingjunum að við gerum þessa byltingu.
Gangi þér vel að kveikja elda byltingarinnar í hjörtum þinna félagsmanna. Það skiptir ekki máli hvort um sé að ræða óforbetranlega lygara, undirmálsfólk eða þunglyndissjúklinga. Við erum öll fólk með hjörtu sem eigum hagsmuna að gæta.
Þeir hagsmunir heita börnin okkar og barnabörn.
Hættið því þessari vitleysu og farið að drífa ykkur í að bjarga þjóð ykkar. Við höfum svo áhyggjur af heiminum seinna.
Og ítreka rök mín fyrir sannleiksnefndina. Í henni er lykillinn af árangri fólginn, en öllum ætti að vera ljós árangursleysi "hefðbundnu" aðferðanna. Og þessi hugmynd er versta ógn gamla kerfisins því svo mikil lögbrot voru framin, og þá líka á neðri stigum, og hjá aðilum eins og endurskoðendum og lögfræðingum. Og gegn því að sleppa við ákæru þá myndi þetta fólk opna sig. Og eina vörn "hausanna" er þá að stíga fram og segja satt.
Og það að einhver segi satt er mesta ógn gamla kerfisins og myndi líklega koma í veg fyrir að það geti fjölfaldað sig athugasemdalaust eins og nú stefnir í. En það er ákaflega erfitt fyrir talsmenn "spillingarinnar" að verjast þessari hugmynd, því hvernig er hægt að vera á móti "sannleikanum".
Eina vörn þeirra er að ýta undir "hefndartilfinninguna" og fórna nokkrum þegar föllnum mönnum. Mér er of illa við kerfið til þess að ég vilji leyfa þeim að sleppa svo billega.
En á mig og mína er ekki hlustað því hver vill ekki réttlæti????
En ég settist niður til að hvetja þig áfram í sáttastarfi þínu. Það er enginn í hreyfingunni mikilvægari en framtíðin. Ekkert egó stærri en réttur barna okkar til mannsæmandi lífs.
Og það skiptir ekki öllu máli hvað gert er, ef gjörðirnar stefna að einhverju betra. Og það eru ekki nema 3-4 á þingi. Og þar eru þeir samkvæmt sinni bestu samvisku. En það þýðir ekki sama og aðrir hafi ekki líka eitthvað til málanna að leggja. En þeir verða þá að finna sinn vettvang. Annan en þann að vera alltaf að tjá sig hvað þeir eru ósammála síðasta manni.
Til dæmis geta þeir tjáð sig um hvað þeim finnst. Og athugað síðan hvort aðrir séu á svipaðri línu. En skoðanir sem þola ekki umræðu eða andstæð sjónarmið, eru ekki merkilegar skoðanir. Og sá sem á ekki til umburðarlyndi, hann á ekki til hugsjón, sýn hans er þá úr einhverjum öðru akri sprottin.
En stundum þurfa forystumenn að hafa til hæfni að sjá sameiginlega fleti, eða þá segja pass, og halda áfram að vinna að betri heimi.
En vígaferli leiða aldrei til betri heims.
Og skrattinn er ekki meðlimur Andstöðunnar. Því er óþarfi að vera alltaf að skemmta honum. Og ekki má heldur gleyma púkanum sem fitnar og fitnar. Hann er meðlimur í félagi græðgipúka.
Þannig að mér líst vel á að þú sættir menn Arinbjörn. Einhver verður að gera slíkt og á meðan ekki er húsfyllir af sáttamönnum, þá dæmist það á hina hógværu.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:08 | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll Ómar
Ég hef verið að atast í hardcore flokkseigendafélagi VG á smugunni að undanförnu. Þau vilja enga byltingu, það er augljóst. Þau mala bara -stundum fara þau í kveinstafatóninn "að allt svo hart í heimi hér"...(hjá þeim jötuliðinu).
Ég hef fylgst með þér kallinn, þéttan í sándinu, að undanförnu, en er að melda mig inn núna í hugflæði vitsins hjá þér og þínu góðu skyttum...við finnum fjölina okkar...óttumst ekki...við eigum þetta land...bara að spurningin um réttláta tekjuskiptingu og skiptingu lands og gæða...og við erum forrík...þurfum engin lán frá Skugga-Böldrum andskotanna.
Við sveitamanna-anarkistarnir vitum hvað við og meirihluti þjóðarinnar vill. Hún vill Heiðarleika, réttlæti og sanngirni. Og við verðum að ná því aftur í alvöru inn í samfélagið okkar. Lynyrd Skynyrd á google og myndskeiðsniðurstöður og Free Bird (1975, 1976 og 1977 útgáfur live) "awesome" eins og suðurríkin segja. mæli með þessu fyrir alla sem ég ber hlýjar tilfinningar til. Lyftir manni upp í æðra veldi ljóðrænu, epíkur, einlægni, vináttu og óðsins til víðáttu fugla alheimsins.
Kem með vængjuðum slætti næst:)
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 03:45
Takk fyrir góðar tilvísanir Pétur.
Ég skaut inn þessum athugasemdum mínum hráum, sem sér pistlum, flæðið, sem er einlægt, bætir upp hráleikann, vegna þess að góðum manni fannst það stílbrot þegar ég tók undir leið sátta og uppbyggingar daginn sem þeir í neðra gáfu ríkisstjórninni eitt gos svo fólk fattaði ekki tenginguna milli sannaðra rána og þess að fólk er látið borga þessi rán, aftur með verðtryggingunni og gengistryggingunni.
Maður sem hefur einbeittan vilja til að jarða kerfið, fer ekki út í fjós í jafn mikilvægu máli. En ég viðurkenni að ekki er augljóst að maður blóðugur upp að öxlum í vígaferlum, skuli sjá tilganginn í að fyrirgefa fjendum sínum, daginn sem þeir leggja niður vopn, og sína vilja til betrunar. Þó er stór kafli í frægustu bók heims helgaður þessari hugsun og fyrir því færð rök að forsendur betra mannlífs er sátt og fyrirgefning, ekki hefnd og vígaferli.
Mín viðbót er að færa fyrir þessum fornum sannindum hagræn rök, og benda á að það er ekki þannig í lífinu, að þú fáir allt. Ef þú ætlar að fella kerfið, og skapa eitthvað nýtt og betra, þá hagar þú þér á þann hátt að gera það sem þarf að gera, en ekki á einhvern annan hátt sem vinnur gegn þeim tilgangi sem rekur þig áfram.
Ef menn á annað borð vilja breyta, þá gera þeir það sem hægt er, og afla við það þann stuðning sem þarf. Það er ekki þannig að byltingarmenn leggi af stað með 90-95% fylgi og þess vegna heyja þeir þau stríð sem þarf að heyja við tregðuöflin, ekki þau stríð sem þeim langar til að heyja. Bara það eitt að hrekja fjórflokkinn ofan í skotgrafirnar, voru mistök sem komu í veg fyrir að hægt var að nýta upplausnina fyrst eftir Hrun til að gera raunhæfar breytingar á kerfinu. Það var nefnilega vilji alls staðar til að gera eitthvað, en í skotgröfunum tala menn ekki samann. Jafnvel þó þeir tali sama tungumálið.
Og kerfið yfirtók endurreisnina og það er langt komið með að geirnegla ennþá verra skrímslaþjóðfélag en var. Niðri á Alþingi babla menn eins og aldrei fyrr, þó einstaka rödd tali skýra íslensku um þá ógn sem við blasir ef öll þessi lán verða tekin, og hvað mun gerast ef unga fólkið er svikið í tryggðum og látið sitja uppi með skuldir sem kerfisvandinn skóp, og það ber enga ábyrgð á. En þessar skýru raddir týnast í bablinu, og út á við heyrir þjóðin aðeins muldur og tuð veruleikafirrts fólks, sem áttar sig ekki á því að þjóð í klóm lánardrottna gerir ekkert nema að borga, og borga, allt annað situr á hakanum.
Það er eins og fólk skilji ekki hvað 60% greiðslubyrði er. Og stjórnarstefnan hefur það eitt markmið að geirnegla þá greiðslubyrði.
En það er til lítils að gráta glötuð tækifæri, og grenja yfir því sem hefur gerst. Andóf þjóðarinnar hefur þó tafið skuldsetninguna. Og vissulega hefur margt betur verið gert en verr. Og ekki sé ég þá neyð sem ég óttaðist, er hún handan við hornið eða var hún bara martröð?????
Þar liggur efinn en allavega er ljóst að menn blása ekki til byltinga nema á neyðartímum. Þess vegna ákvað ég að salta byltingarblogg mitt, hvötin sem fær mann til að setja allt annað til hliðar, er ekki lengur til staðar.
Og án neista er ekkert bál, og þá er betra heima setið.
Það er því miður þannig með byltingu sem kemur innan frá að hennar stærsta orrusta er sú fyrsta. Vinnist hún þá er restin eins og að drekka vatn, það er ekkert flókið að leysa þann vanda sem við blasir, lausnirnar eru allar þekktar og auðskiljanlegar, eins og til dæmis gildi og mikilvægi sannleiksnefnda til breytinga og bætinga.
En vinnist ekki fyrsta orrustan, þá er sú næsta aldrei háð. Það er meinið.
Og fyrsta orrustan er í höfði okkar sjálfra, að við sem manneskjur segjum við sjálf okkur, við erum gerendur, ekki fórnarlömb gjörða höfðingjanna. Það erum við sem höfum getuna og viljann til að byggja upp lífvænlegan heim, og við hlustum ekki á neitt kjaftæði um að það sé ekki hægt. Og við munum gera það sem gera þarf til þess að börnin okkar erfi lífvænlega framtíð.
Þetta er ekki flókið Pétur, og á hinum ýmsustu neyðartímum hefur fólk sýnt þann styrk sem þarf til að stjórna aðstæðum, eða bregðast við yfirvofandi ógn, og knésetja hana. En það gerir þetta enginn annar fyrir þig eða fyrir einstaklinginn. Þetta er ákvörðun sem fólk þarf að taka sjálft.
Svo ég endurtaki mig frá síðpáskaspjalli mínu við Arinbjörn, þar er hnífurinn í kúnni. Og hann virðist ekki vera á leið þaðan. Það er svo mikil risaákvörðun (þessa dagana eru drengirnir mínir risafljótir af sofna og við ætlum að vinna risasigur á Frökkum) fyrir einstaklinginn að taka, að segja við sjálfan sig að núna sé það í forgang hjá honum að bjarga heiminum. Það er ekki nóg af hafa áhyggjur af honum, og það er ekki nóg af sjá hættumerki hér og þar, bæði þarf fólk að skynja að augnablikið er núna, ekki seinna, og það er það sjálft, ekki aðrir, sem þarf að breyta gang mála.
En það er augljóst mál, að nái einstaklingurinn að höndla þessa ákvörðun að þá er augljóst mál að næstu skref eru leikur einn í kjölfarið. Það er eins og drekka vatn, að breyta heiminum ef að baki breytingunum er hópur fólks sem mætir á svæðið og spyr hvað það geti gert og hvað þurfi að gera, og geri síðan það sem það getur og hefur tök á. Þetta er eins og að drekka vatn því það fer engin orka í að ná samstöðu eða sannfæra fólk um að það, ekki einhver annar, þurfi að gera það sem þarf að gera.
En þó það sé auðvelt að drekka vatn, þá þarf samt vatn að vera í glasinu, og eins er það með Byltingu byltinganna, að hún þarf sína hugmyndafræði og stjórnun. Ég hef lagt mitt af mörkum með að orða þær hugsanir sem þarf að orða. Og einhverjir eru að lesa. Hvað þeir hugsa veit ég ekki, en markmið mitt er að þeir hugsi. Og jafnvel orði sínar hugsanir, hvort sem það er í spjalli við sjálfan sig, vini sína eða aðra sem þeir finna hjá sér hvöt að spjalla við.
Og hvað svo, og hvað svo????
Veit ekki, á ekki kristalkúlu. Tel að það þurfi meiri neyð til að svona stef breyti söng fjöldans en hef annars ekki hugmynd um það. Og það er ekki mitt að hafa hugmynd um það, ekki frekar en annarra. Tíminn veit og hann mun upplýsa, það er hans hlutverk.
Á meðan ætla ég að fara að ráðum þínum og spá í fugla alheimsins, kannski finn ég aftur hvöt mína þar og fer aftur að orða hugsanir mínar mér til gamans í nýju byltingarbloggi. Þá heyrumst við Pétur, líka þurfum við að mæta þegar ICEsave svikum hinum nýjustu verður laumað í gegnum þingið.
En annars er það bara vorið og ljóðrænan.
Kveðja, Ómar
Ómar Geirsson, 16.4.2010 kl. 09:45
Kæri Ómar. Allir þeir sem brutu alvarlega gegn landsmönnum verða að fá dóm sem passar við verknaðinn. Fyrr verður ekki líft í landinu og ekkert til að byggja upp. Ekki vitandi það að glæpir munu enn verða framdir í öllum skúmaskotum og af sömu mafíósunum. Landið verður ekki byggt með mannvonskunni sem enn leikur lausum hala. Glæpi verður að letja og stoppa með dómum. Það verður ekki gert með innantómri og væminni fyrirgefningu gegn illsku sem kann ekki að skammast sín fyrir illgjörðir gegn öðrum. Og psycopatar kunna það ekki. Það er aumt og volað land sem dæmir ekki glæpamenn fyrir glæpi gegn mönnum.
Elle_, 16.4.2010 kl. 11:59
Heil og sæl Ómar og Elle
Þið mælið bæði af viti, heiðarleika og einlægni. En mikið andskoti sýnist manni langt í land stundum. En ég neita að trúa því að þjóðin ætli að fljóta sofandi að "það reddast" feigðarósnum. Við verðum að blása hvert öðru áfram lífsanda í brjóst, ásamt fullt af öðru góðu, sanngjörnu og heiðarlegu fólki. En baráttan fyrir fegurðinni í hjörtum okkar er eilíf.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 14:24
Blessuð Elle.
Mér þykir það leiðinlegt að þú skulir telja hugmyndafræði mína innantóman og væmna.
Ég hallast að því að þú hafir hvorki lesið orð mín eða íhugað þau. Ekki það að skipti miklu máli, ég geng ekki með mannkynsfrelsarann í maganum, og ég er að orða þessar hugsanir af illri nauðsyn, aðrir hafa ekki gert það í því samhengi sem ég set þær og útskýrt af hverju.. Þetta er eins konar hlutverk sem ég tel að ég hafi óvart lent í, og núna er því að mestu lokið sökum skorti á eftirspurn.
Og það angrar mig ekki mikið, það er fitandi að hugsa, og fyrir mann sem getur ekki gengið heilu og hálfu daganna, þá er það léttir að losna við þetta áreiti á heilann.
En þú skalt ekki gera lítið úr mátt mannúð og mennsku, eða þeim krafti sem býr í kærleikanum sem fyrirgefningin byggist á. Þó fólk íhugi það ekki á hverjum degi og telji sig ekki sjá mörg merki um þessa heimspeki, þá er hún samt grundvöllur okkar vestrænu menningar, og í hana sækir manneskjan kraft á neyðarstundu, og afl til að verjast ofríki og kúgun. Það er ekki að ástæðulausu sem menn segja að hið góða sigri alltaf að lokum.
Þetta er sú hugmyndafræði sem klæðir þá heilbrigðu skynsemi að það sé okkar allra hagur að við séum ekki alltaf að drepa hvort annað og það hefur sýnt sig þar sem hún er sterk, þar gerir fólk frekar lítið af slíku, en þar sem villidýrin reika um og aðeins harðar refsingar halda þeim í skefjum, þar er ekki eins lífvænlegt fyrir okkur Jóna og Gunnur heimsins. Og þetta er félagsfræðilega sannað, bæði út frá félagssögunni, og líka út frá rannsóknum í nútímanum.
Þar að auki er þetta hugmyndafræði okkar Trekkanna og hún er ekki höfð í flimtingum í okkar hópi. Eins er þetta hugmyndafræði Margrétar í baráttunni við ómennið Þengil hinn illa, og vandséð hvernig hægt var að drepa hann með öðrum en kærleikanum. En þú hefur kannski ekki lesið Ísfólkið, og ekki horft á Star Trek.
En ég kom ekki bara með siðferðisleg rök fyrir hugmyndarfræði minni, vissi eins og er að líklegra væri að ég myndi vinna stóra pottinn í Lottó, en að fólk keypti slík rök. Ég tek þau aðeins fram vegna sérvisku, mér finnst gaman að vera á skjön við meinstrím umræðuna, en geri mér engar grillur um að fólk átti sig á að við erum aðeins tannhjól í hinni eilífðarbaráttu milli góðs og ills. Á tímum þar sem stærsti hluti samfélags okkar er hættur að trúa, nema þá einna helst á álfa, þá sjá menn ekki samhengi hlutanna og hin dýpri rök tilverunnar, menn mæla allt út frá sínum eigin hag, og jú, við könnumst allflest við samhygð, og reynum að breyta rétt.
Þess vegna, ef þú ætlar þér að breyta einhverju, þá höfðar þú til hagsmuna fólks, og reynir um leið að ljá málflutning þínum vissa mennsku, það er oft kryddið sem gerir diffinn hvort á þig er hlustað. En hagsmunirnir koma alltaf númer eitt.
Og hverjir eru í dag okkar stóru hagsmunir???????
Peningar og aurar skipta vissulega miklu máli, en samt er annað stærra sem knýr okkur áfram, svona þegar allt annað er dregið frá. Og það er það sem ég kalla framtíð barna okkar.
Hafa börnin okkar ekki alltaf átt framtíð???
Jú vissulega, þannig séð, en misjafnt milli ára, og milli áratuga, fer eftir hvernig statusinn er á átakalausnum okkar. Síðustu stóru deilulausnir okkar kostuðu um 80 milljónir manna lífið, en hlutfallslega hefur mannfallið oft verið meira. Til dæmis er talið að íbúum Þýskalands hafi fækkað um 40-60% á dögum trúarbragðastríðsins mikla, sem kennt er við 30 árin. Og heilu héruðin lögðust í auðn í Frakklandi á dögum 100 ára stríðsins. Í Bagdad drápu Mongólar um milljón manns þegar þeir tóku borgina tólfhundruð sextíu og eitthvað, í dag bera Bush og Blair ábyrgð á svipuðu mannfalli, mestu að vísu óbeint, í Írak.
Átakalausnir hafa sem sagt alltaf haft í för með sér mismiklar lífslíkur barna okkar.
Og ef við erum svo græn að sjá ekki að tími þeirra er liðinn, ekki vegna þess að við erum betri í dag en í gær, heldur vegna þess að við höfum náð því stigi að framkalla Ragnarrök ef við þroskumst ekki, nú þá eigum við allavega ekki að eiga börn.
Vegna þess að framtíð þeirra er engin ef við kveikjum ekki á perunni með að við erum komin á endastöð með notkun átaka við lausn deilna. Það er þess vegna sem ég tala um Byltingu byltinganna, sem er númer 2 á eftir þeirri þegar við sannmæltumst um að hætta að éta hvort annað, nema þá í algjörum undantekningartilvikum, eins og til dæmis krossfaranna í Acra.
Og það er ekki val með þessa byltingu, Elle, það er ekkert val. Það er annaðhvort núna eða aldrei. Það er þess vegna sem ég tala um að okkar harmur er brot af heimsins harmi, reyndar stolið frá Steinari enda hef ég hvorki fundið upp hjólið eða eldinn, hvað þá heilbrigða skynsemi, og það þarf nýjar lausnir, nýja hugmyndafræði ef við eigum að eiga minnstu von um að sigrast á því sem ég kalla Tregðunni, en það eru ferlar óreiðunnar sem fleyta okkur að Heljarós.
En ég veit Elle, að þú ert ekki ginkeypt fyrir svona rökum, en gefðu þeim samt tækifæri, ekki mín vegna, heldur þin vegna. Þegar róin er komin á þitt heimili í kvöld, horfðu út i húmið og spáðu í hvað það er sem er mikilvægast í þínu lífi, og fyrir hvað þú ert tilbúin að leggja allt í sölurnar fyrir. Lestu svo aftur greinar mínar hér að framan, og reyndu að ná samhengi þeirra og fanga þá hugsun sem að baki býr. Ekki láta það villa þér sýn að ég er hvorki ritsnjall eða mikill hugsuður, ég er aðeins venjulegur Jón sem er að reyna að orða sannleika sem við mér blasir, en hef ekki þann kynngimátt orðanna að geta varpað honum upp í himinhvolf umræðunnar þannig að aðrir skilji um leið og þeir lesa. Aðeins þeir sem eru að spá í sömu hlutina, og þeir eru ekki margir, ná inntaki mínu og meiningu því þeir sjálfir hafa í sínum huga glímt við sömu spurninguna, spurninguna um hvort það sé einhver von á dögum gjöreyðingarvopna þar sem ráðandi eðli mannsins er sjálfstortíming.
Og mundu Elle, að ég er ekki geðleysingi, þá væri ég ekki blóðugur upp af öxlum í ICEsave baráttunni, og ég þorði þegar aðrir þorðu ekki að slást við almannaróm. Fyrir ári síðan voru ekki margir með 100% Nei á vörum, hvað þá að þeir þorðu í slaginn á opinberum vettvangi.
Ég er margt, misgott, eða misslæmt, en ég er ekki friðardúfa. Þær ráðast ekki á kerfið til að fella það, það eitt er öruggt.
En ef þú kaupir ekki ennþá hugmyndafræði mína Elle, þá ætla ég að skjóta á þig öðru innslagi seinna, fer eftir barnaláninu hvenær það kemur.
Og það eru um hin praktísku rök sannleiksnefndarinnar.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 16.4.2010 kl. 14:53
Blessuð Elle aftur, þá er að nýta sér flóafriðinn.
Af hverju er leið sátta og sannleiks, sú leið sem skynsamir menn fara við þær aðstæður sem nú ríkja????
Svarið er mjög einfalt, lærdómur sögunnar bendir á gagnsleysi hefðbundinna aðferða við óvenjulegar aðstæður, og heilbrigð skynsemi, eða það sem við köllum kalt raunsætt mat, mælir með þeirri leið fyrir þá sem hafa það að markmiði að breyta til bóta.
Við ákveðnar aðstæður geta glæpir fólks verið þess eðlis að um kerfislægt atferli er að ræða. Dæmi um slíkt er allt það guðhrædda fólk sem eltist við nornir og villutrú, og framdi skelfilega glæpi i nafni trúar og kærleika. Annað dæmi eru þeir lögreglumenn sem kysstu konu og börn bless í Berlín, og héldu með næstu lest til Hvíta Rússlands, þar sem þeir fengu það verkefni að skjóta óvopnaða borgara, óneitanlega er slíkt glæpsamlegt hvernig sem á það er litið, og varla mótrök í málinu að annars hefðu þeir sjálfir verið skotnir, enda reyndi aldrei á það þar sem engin skjalfest dæmi er um að viðkomandi lögreglumenn hafi sett spurningarmerki við gjörðir sínar.
Seinna dæmi var gert upp af réttarríkinu, og þá var sú leið farin að dæma forsprakka þess kerfis villimennsku og haturs sem gat af sér þessa glæpi, og síðan voru þeir sem sýndu eindregin vilja til meiri glæpa, skáru sig úr í verkum sínum, teknir og dæmdir. Þessi skynsama afstaða var tekin vegna þess að það þótti ekki praktískt að geyma þriðjung þýsku þjóðarinnar í fangabúðum, enda fólk almennt búið að fá nóg af þeirri hugmyndafræði, sem og hitt að menn föttuðu þá grundvallarstaðreynd að um kerfisgalla var að ræða, það var kerfið sem skóp og gerði út glæpamennina. Og það skipti meira að stöðva kerfið en hengja sigrað fólk.
Mörgu leiti svipað og átti sér stað í Suður Afríku, og mörgu leiti svipað og átti sér stað á Íslandi. Og fyrir því hef ég víða fært rök, þó fyrirlitning mín á Nýfrjálshyggjunni sé af siðferðislegum rótum, þá hef ég líka bent á að hugmyndafræði sem gefur sér þá forsendu, að allt sé leyfilegt, sé af því gróði, að það sé hugmyndafræði sem elur af sér kerfishrun, og hegðun sem þú kallar glæpsamlega. Og ég hef fært fyrir því parktísk rök, að verði þessi hugmyndafræði ekki stöðvuð, þá muni hún sjálfkrafa ala af sér fleiri meinta glæpamenn græðginnar, og afleiðingar hennar verði þvílíkur ójöfnuður að fólk muni snúast til varnar.
Og á dögum gjöreyðingarvopna er slíkt ekki fyndið.
Burt sé frá siðfræði þá þarf að fella kerfi frjálshyggju og græðgi, maðurinn á sér ekki tilveru, ef hann afnemur öll siðleg viðmið, og hættir að stjórnast af viti og skynsemi, en felur örlög sín í hendur fyrirbrigði sem kallaður er frjáls markaður, sem er fínt kjaftæði um að auðmenn fái frí spil til að fífla almenning og arðræna þjóðir.
Og fyrir þá sem trúa bara á hagkvæmni, þá fylgir átökum alltaf gífurlegur kostnaður.
Samþykkir þú þá forsendu að kerfið sé glæpsamlegt, þá samþykkir þú þau tæki sem þarf að nota til að brjóta það á bak aftur.
Og þá erum við komin af sannleiksnefnd Mandela. En fyrst ætla ég að skjóta inn smá umfjöllun um gagnsleysi hefðbundinna aðferða, og vitna í Enron dæmið sem staðfestingu þess.
Kveðja í bili.
Ómar Geirsson, 16.4.2010 kl. 16:48
Stóru rökin um gagnsleysi þeirra sjónarmiða sem þú heldur fram Elle við þær aðstæður sem nú ríkja, eru óteljandi rök sögunnar. Og ég ætla að minnast á nærtækasta dæmið þar um.
Mér er alltaf minnistætt svipurinn á Þóru Arnórsdóttir, fréttamanni, sem er sögð skýr kona og greind, þegar hún mætti í sjónvarpssal og mærði heimildarmyndina um Enron hneykslið og þá leið sem hið siðspillta kerfi notaði til að róa lýðinn. Þóra talaði um að þarna hefðu sko glæpamennirnir verið teknir og fengið réttlátanna dóm. Og vonaði að það sama yrði gert hér.
Og ég get svarið, svipur hennar sagði að hún trúði þessu.
Skoðum því staðreyndir Enrons málsins.
Eftir að Enron féll, þá var bókhald fyrirtækisins tekið og skoðað, og saksóknari gat sýnt fram á að um kerfisbundna blekkingu var að ræða, og einnig ýmislegt sem var kolólöglegt. Og fyrir þá glæpi voru nokkrir fallnir menn teknir og dæmdir, almenningur trúði að það hefði verið fyrir glæpi sína, ég held því blákalt fram að kerfið hafi fórnað föllnum mönnum, þeir voru hvort sem er farnir á hausinn, og fékk í staðinn frið við áframhaldandi iðju.
Af hverju er ekki allir sáttir í dag???
Það er vegna þess að tugmilljónir hafa tapað stórfé, milljónir aleigu sinni, af kerfishruninu sem varð haustið 2008, og velferðin er löskuð því kerfisskuldirnar voru yfirteknar af almannasjóðum. Og félagslegu hörmungarnar eru ómældar.
Kerfið reynir að telja fólki í trú um að þetta hafi stafað af tvennu. Það fyrra er kommúnismi Clintons sem olli því að nokkrum fátækum mönnum og konum var lánað fyrir húsum, og þau hús voru víst svo dýr að þegar vanskil mynduðust, þá tapaðist um þriðjungur að auði samfélagsins (áætlaður heildarkostnaður við fjármálakreppuna). Það seinna var svo nokkrir breyskir einstaklingar, sem kunnu sér ekki hóf, og þeim á að refsa og þetta mun aldrei gerast aftur.
En er það rétt að svo sé????
Mætir hagfræðingar hafa sýnt fram á að hrunið hafi verið óumflýjanlegt því sýndarviðskipti höfðu yfirtekið fjármálakerfið, og hugmyndafræði þess, sjálftakan, gat aldrei endað á annan hátt. Þeir hafa líka bent á að Enron hafi verið síðasta tækifæri til að leiðrétta kerfisvitleysuna, en í stað þess að læra á Enron, þá hafi lýðurinn fengið nokkra fangelsisdóma, en Wall Street fékk afnám á reglum sem bönnuð afleiðuviðskipti, sem eru megin skýring hins mikla falls, enda upphæðirnar þar svo margfaldar á við húsnæðislánin til fátæklinganna, og eðli þeirra slíkt og upphæðirnar sem voru lagðar undir í hinum ýmsum veðmálum (afleiðum) slíkar að enginn gæti stöðvað hrunið þegar kerfið hikstaði. Sem dæmi má nefna að þýsku bankarnir sem töpuðu öllum þessum peningum á íslensku bönkunum, að þeir gátu sent fax til AIG og innheimt skuldatryggingar sínar fyrir tjóninu. En slíkar skuldatryggingar felldu þetta rótgróna tryggingafélag.
En af hverju var hægt að bremsa heimskuna af með Enron???
Jú, það sem mennirnir í Enron voru dæmdir fyrir, voru allir að gera. Og á meðan dómskerfið tókst á við mannlega þáttinn, þá tókst löggjafinn ekki á við lærdóminn, og almenningur trúði því að allt væri í góðu vegna þess að ríku kallarnir voru leiddir fyrir dómara í handjárnum eins og hún Þóra útlistaði svo vel.
En hvort skyldu menn vilja í dag, skipta á dómunum yfir nokkrum græðgiköllum, og eignum sínum???'
Er ekki hægt að gera hvorug tveggja er spurt, og svarið er mjög einfalt, það er ekki hægt. Þeir sem eru dæmdir, eru sannarlega sekir eftir þeim lögum sem í gildi eru, en ekki eftir því hvort aðrir eru að gera sömu hlutina, eða hvort hegðun þeirra hafi verið lögleg en siðlaus. Og á meðan átökin í dómssölum standa yfir, þá gæta allir hinir að slóð sinni, lagfæra það sem sannarlega er dæmt fyrir, og finna nýjar leiðir til að gera nákvæmlega sama hlutinn.
Kerfið styrkir sig í sessi og það er lærdómurinn af Enron málinu.
Og sá lærdómur hefur ekki náð til Íslands, því hér er kerfið að styrkja sig í sessi, á meðan almenningur beinir kröftum sínum í uppgjör við fortíðina, á forsendum gamla kerfisins. Ef það biði okkar ekki svo hryllileg framtíð skuldaþrælsins, þá væri það allt í lagi, en í dag höfum við ekki efni á því að læra af reynslu þeirra sem féllu ekki í Enron gryfjuna.
Og meira um það á eftir.
Ómar Geirsson, 16.4.2010 kl. 17:20
Víkjum þá að sannleiksnefnd Mandela.
Margir hafa haldið því fram að hún lýsi miklum siðferðislegum þroska, og sjálfsagt er það rétt. Sjálfsagt er slíkur þroski kveikjan af þessari velheppnuðu byltingu ANC. En það hafði ekkert að gera með ástæður þess að ANC tók undir þessa leið Mandela og Tutu biskups.
Við megum ekki gleyma því að grimmileg borgarstyrjöld hafði geisað í áratug eða meir, og ANC stjórnaði sínu liði með ógnaraðferðum. Menn sem nota gúmmídekk, fyllt af bensíni, til að terrorista samfélag sitt, þeir taka ekki ákvarðanir sínar út frá siðferðislegum forsendum.
Sannleiksnefndin var raunsæ leið til að ná utan um ástandið og tryggja völd ANC. Þetta er ekki flóknari en það, það er til dæmis raunsærra að byggja hús úr múrstein en strái kennir sagan um úlfinn og grísina þrjá, það er árangursríkara að veiða fisk með togara en árabát, og þú notar þau tæki til byltingar sem virka.
Rökin fyrir sannleiksnefndinni voru þau að svartir þurftu á þekkingu, tækni og auði hvíta minnihlutans að halda, hann var líka það fjölmennur, að þegar hann hætti að berjast út frá forsendum kynþáttahyggjunnar, þá gat hann verið skeinuhættur. Til dæmis gat hann notað auð sinn til að styrkja Zulu leiðtogann Butuhelezi, sem var í beinni samkeppni við ANC um völd. Og svo má ekki gleyma þeim skynsemisrökum að borgarstríð eyða, þau byggja ekki upp.
Og þau valda ómældum hörmungum.
Sannleiksnefndin sá við öllum þessum hættum sem við blasti , hún kom í veg fyrir borgarstyrjöld vegna þess að hvítir fengu hvata til að starfa með hinum nýju yfirvöldum og þau styrktu valdatilkall ANC því hugmyndin var frá þeim komin. Útkoman úr borgarstríðinu var óviss, lítið gaman að ríkja yfir landi í rústum, og ein vissi enginn hvað hefði komið út úr hinu vanhelga bandalagi hvítra og svartra auðmanna, en þeir voru margir í landinu.
Var ekki hægt að gera upp við glæpi einstaklinga, án þess að lofa þeim sakaruppgjöf gegn því að segja satt og rétt frá sínum gjörðum. Svarið er Nei, hvíta stjórnkerfið var glæpakerfi, og svo margir tengdir því. Og hvar áttir þú að draga mörkin milli þeirra sem voru bara í vinnunni og hinna sem voru kannski aðeins viljugir??
En stærsti óvissuþátturinn er að þegar svo margir eiga allt sitt undir miskunn réttvísinnar að þá verða menn að reikna með kostnaðinum við að þeir snúist til varnar. Jafnvel þó það hefði ekki leitt til borgarstyrjaldar, þá hefði alltaf verið til staðar leyndarandstaða sem hefði beitt auði sínum og áhrifum til að vinna gegn stjórnvöldum og stöðugleika, í trausti þess að fá "hliðhollara" stjórnvald.
Síðan er alltaf spurningin, til hvers eru menn að gera byltingu??? Þeir sem spá aðeins í eigin völd, þeir fara hinar hefðbundnu leiðir, og spá ekkert í kostnað, bæði í mannslífum, lífskjörum eða eignum, heldur að útkoman verði þeirra eigin völd og áhrif. Og slíkir menn hafa komið Afríku á heljarþröm.
En ef menn eru að gera byltingu vegna einlægs vilja um betra þjóðfélag, og betra hlutskipti þeirra sem höllum fæti standa, þeir spá í rök Mandela, þeir vega og meta kostnaðinn við átökin, og spá í leiðir sem skila af sér betra þjóðfélagi, en ekki þjóðfélagi í rústum.
Snilld Mandela að hann náði til beggja hópa ANC, þeirra sem hugsuðu bara um völd sín, og þeirra sem í einlægni vildu mannsæmandi þjóðfélag fyrir fólkið sitt. Og aðferðarfræði byltingarhugmynda hans var þannig að andstæðingar hans áttu engan flöt að berjast gegn. Hver vill berjast við sannleikann???
Sá sem hefur eitthvað að fela væntanlega, en ef hann sleppur við refsingu???? Samt ávinningurinn af feluleiknum er meiri, en þá er það óttinn við að aðrir segi til glæpa manns, og þá kemst upp um glæpinn, en engin sakaruppgjöf á borðinu. Ergo, það er betra að dansa með óviljugur, en að berjast gegn. Og snilld snilldarinnar er að þetta var ákjósanleg leið fyrir athafnamenn landsins, þeir héldu eigum sínum og gátu stundað sín viðskipti. Þeir höfðu því engan hvata að fjármagna andstöðu annarra valdahópa, hvað þá að steypa byltingarstjórn Mandela.
Og hverjir græddu????
Þeir sem fengu völd og áfhrif, það er ANC. Gamla valdastéttin græddi líka því hún hélt lífi sínu og limum og þurfti ekki að upplifa óvissu borgarstyrjaldarinnar.
En þau sem græddu mest, það voru Jón og Gunna.
Þau lifðu, og áttu von um framtíð.
Og það er kjarni málsins Elle.
Ég er ágætlega góðgjarn maður, og velviljaður líka. En rök mín fyrir skynsemi og lærdómi sögunnar eru út frá þessum kjarna, að Jón og Gunna lifi, og ég verði afi.
Það er ekki flóknara en það.
Kveðja í aftur bili.
Ómar Geirsson, 16.4.2010 kl. 17:56
Og halló aftur, flóafriðurinn helst, og því er best að ég klári dæmið, þó kannski ekki eins ýtarlega og ég vildi, sökum þess að ég er kominn með vott af sinaskeiðabólgu af öllu þessu pikki.
Núna skulum við lítillega fjalla um þá leið sem fólk vill fara sem telur að vitið sem guð gaf því, sé til einhvers annars en að nota það.
Þú talar um glæpi og brot Elle.
Og huglægt er ekki hægt um slíkt að deila, alvarleg brot voru hér framin gegn þjóðinni.
En ef viljum ekki gera upp við þau brot með leið sannleiksnefndarinnar, þá eigum við tvær leiðir, leið Leníns, að skjóta alla sem hann náði í og höfðu tilheyrt gamla kerfinu eða leið réttarríkisins.
Þeir sem trúa á réttlæti Leníns, þeir þurfa að átta sig á að til þess þurfa þeir vald, fólk mætir ekki sjálfviljugt fyrir framan aftökusveitina. Og það var aðeins ein skýring af hverju leið Leníns gekk upp, og hafði ekkert með hugmyndafræði hans að gera. Og sú skýring er herstjórnarsnilld Trotskys. Þeir sem vilja nota hnefaréttinn skulu fyrst ganga úr skugga um að þeir hafi slíka snilld innan sinna raða, annars eiga þeir ekki séns í auðmenn.
Réttarríkið dæmir eftir gildandi lögum, ekki eftir lögum settum eftir á til að ná yfir ákveðna hegðun sem okkur mislíkar.
Og það er bara þannig að það er ekki lögbrot að reka fyrirtæki og fara á hausinn. Það er heldur ekki bannað að fá lán, eyða þeim í vitleysu og fara á hausinn. Það er heldur ekki lögbrot að vera vitlaus eða bjáni, hvað þá að vera bjánaprik.
Fólk verður að horfast í augun við það að auðmenn okkar störfuðu eftir þeim leikreglum sem við settum þeim, og eftir þeim lögum sem í landinu giltu. Hvernig veit ég það, nú þeir voru með alla færustu lögmenn landsins í vinnu við að hjálpa þeim að starfa á gráa svæðinu og þó margt á því svæði sé siðlaust, þá er það yfirleitt löglegt. Og við megum ekki gleyma því að dómshefðin er að dæma eftir bókstaf laganna, ekki anda þeirra. Sýknunin í Baugsmálinu sannar það.
Vissulega er líklegt að margir fóru yfir mörkin í aðdraganda Hrunsins, þegar menn réðu lífróður fyrir eignabólum sínum. En það þarf að sanna slíkt, og ef einhverjir hafa efni á góðum lögfræðingum til að verja sig, þá eru það spilendur Hrunsins.
Þeir sem helst koma til greina að fái dóm, eru bankamennirnir, en þeir voru bara vinnumenn auðmanna og erum við eitthvað bættari með þá dóma. Þú segir já Elle, og við eðlilegar aðstæður þá væri ég sammála þér.
En ekki í dag. Það er ekkert eðlilegt við ástandið og framtíðin er skelfileg ef við stígum ekki næstu skref af skynsemi.
Auðmenn störfuðu á gráa svæðinu og þeir verða varðir af lögfræðingamúr.
En hvað um aðra brotamenn, til dæmis endurskoðendur, sem földu fjárslóðina, lögfræðinga sem gáfu röng ráð, sem leiddu til lögbrota, eða þá beina brjótendur eins og þá þjónustufulltrúa sem skoðuðu reikninga fólks, og beittu síðan fortölum, og það sem í dag er vitað eru blekkingar, til að fá fólk til að taka peninga út af öruggum reikningum og setja þá í vitleysu eins og peningamarkaðssjóðina. Á að stinga öllu þessu fólki inn???
Hvernig ætla menn að hýsa það, hver á að ala önn fyrir því. Til dæmis sjúklingar með hærri lyfjakostnaði vegna þess að ríkið sker niður stuðning sinn????
Á ekki að refsa þessu fólki????
Bíddu við eru ekki allir jafnir fyrir lögum??????? Og sannarlega þá töpuðu margir sparnaði sínum, oft gamalt fólk, vegna lögbrota venjulegra bankamanna.
Síðan er það stjórnkerfið, hvað með það. Ef Geir Harde er sekur vegna þess að hann trúði hagfræðingahjörðinni sem sagði að útrásin væri hinn nýi tími, hvar eru þar mörkin???? Dugar að dæma einn mann en sleppa öllum hinum sem stóðu fyrir sama hlutnum, og fólu Geir að gera það sem hann gerði???
Hvar liggja mörk á ábyrgð embættismanna????? Segjum að Seðlabankastjórar séu sekir, en þeir framfylgdu stefnu undirmanna sinna í hagdeildum. Hvar er þeirra ábyrgð??? Lögin segja að þeir megi ekki starfa gegn betri vitund, þeir eigi að upplýsa um heimskupör æðstu yfirmanna. Var það gert????
Staðreyndin er sú að sektin er kerfislæg, og það er ofsalega erfitt fyrir réttarríkið að draga mörkin. Það er ekkert réttlæti í að sakfella aðeins þá sem kerfið vill rannsaka eða tína þá til sem menn telja mest seka. Hver á að stjórna þeirri tínslu??? Hver er nógu hlutlaus til þess???
Og eftir stendur stóra spurningin, hver er sekt ábyrgðarmanna Hrunsins. Hugmyndafræðingana, þeirra sem börðu niður allar gagnrýnisraddir. Eða þeirra sem töluðu gegn betri vitund, hvort sem það var vegna ótta, hagsmuna eða hreinlega að þeir fengu greitt fyrir það.
Elle, við fáum ofboðslega mikið af spurningum um sekt eða sakleysi, og þó við náum að höndla toppinn af glæpnum, þá mun þjóðfélagið verða í sárum á eftir. Vegna þess að þetta snertir svo marga. Marga sem eiga vini og ættingja, og stuðningsmenn ef við erum að ræða um pólitíkina. Hver getur dregið mörkin hvar á að hætta???? Hvernig er hægt að sannfæra fólk um að réttlæti ráði för???
Eru þetta ekki bara ofsóknir vinstrimanna????
Hver ætlar að græða sárin???
Maðurinn sem tapaði í þjónustufulltrúa sínum, hann vill sjá hann dæmdan, ekki Davíð Oddsson.
Það eru svo margar spurningar, það er svo margt óljóst, vegna þess að þetta var svo víðtækt. Ef fólki er illa við samfélagið sitt, þá krefst það þess að þessi leið sé farin. Og hún hentar ábyrgðarmönnum Hrunsins vel, þeim sem eru á fullu að rústa endanlega þjóðfélagi okkar. Þeir vita sem er að á meðan við berjumst innbyrðis, þá berjumst við ekki gegn amerískum vogunarsjóðum, sem eru þekktir fyrir að borga Leppum vel, ekki gegn ICEsav, og ekki gegn AGS.
Vilt þú hafa það á samviskunni Elle??
Til að geta fengið 2 ára dóm yfir Geir Harde, veikum buguðum manni, sem gerði fátt annað en það sem honum var ráðlagt af þeim sem hann taldi bestu menn á sínu sviði.
Sérðu ekki hvernig er verið að spila með okkur. Á meðan við tölum þetta, þá erum við ekki að berjast fyrir skuldaleiðréttingu heimilanna. Og við erum ekki að verjast andskotum okkar.
Meðal annars vegna þess að þeir andskotar munu fá stuðning þeirra sem telja rangindum beitt í uppgjörinu.
En líka og það sem spilar sterkast inn í hjá mér, þá höfum við ekki kraft í uppgjör við kerfið, ef við föllum alltaf í gryfjur þess. Innslög mín til Arinbjörns útskýra þennan þátt. Þau útskýra að þeir sem þú kallar glæpamenn, að þeir eiga ekki að stjórna okkur lengur. Þau útskýra að það er skynsamlegt að gera þeim kleyft að koma til baka, á meðan beita þeir ekki kröftum sínum í að styðja niðurrifsöflin. Kannski gera þeir það hvort sem er, en þá verða þeir alltaf útskúfaðir um aldur og ævi, og það er þung refsing, miklu þyngri en nokkur fangelsisdómur.
Því ekkert fær bætt fyrir glæpi þeirra annað en sönn iðrun.
Og það er skynsamlegt fyrir andstöðuna að virkja þjóðfélagið með sér, en ekki á móti. Ef menn eiga enga von um fyrirgefningu, þá munu þeir nota krafta sína til að hindra refsingu, og styðja því AGS/ICEsave af heilum hug.
Og ekki má heldur gleyma, að upplýsingar kerfisins, sem sannleiksnefndin aflar, hindrar að það endurskapar sig.
Ávinningurinn af fyrirgefningu er því svo miklu meiri en kerfisleiðin sem gerir ekkert annað en að styrkja kerfið á okkar kostnað.
Og hana nú.
Kveðja Ómar.
Ómar Geirsson, 16.4.2010 kl. 18:43
Heill og sæll Ómar
Ég hef sagt það áður, að þú ert einstakur maður. Ég prentaði út allan þennan pistil þinn og komment...og las...meðan leikurinn við Frakka var...stressið...kíkti annað slagið...en við náðum jafntefli...telst gott! Og skrif þín eru afbragðsgóð, sem fyrr.
Heildar-niðurstaða mín til viðbótar, er stutt og laggóð: Ég skil að vissu leyti heilaga reiði Elle -og fjandakornið hún hefur varla lesið pistil þinn nógu vel- því kjarni þess sem þú ert að segja er svo yndislega einfalt, sam-mannlegt.
Að sameinuð í hjörtum okkar stöndum við, en föllum annars, kalin á hjarta. Því innst inni vitum við öll (amk. síðustu 3.000 árin) hvað er réttlátt, hvað er sanngjarnt, því vitneskjan býr í hjörtum okkar. Aðeins brigðular skuggamyndirnar -sbr. frummynda-kenningu Platós- rugla rím okkar.
En enn og aftur, þá svipar þeim saman hjörtunum í Súdan og Grímsnesinu. Við er ekki bara skyldir í andanum Ómar, heldur erum við bræður í andanum. En auðvitað höfum við mikið skap, því eins og þú bendir réttilega á, að ef við hefðum það ekki, þá hefðum við þagað eins og sauðir...en það höfum við alls ekki gert.
Mínar bestu óskir til þín og þinna og með von um að bakið á þér lagist sem fyrst. Þú manst, ég þekki brjósklos.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 17.4.2010 kl. 00:24
Blessaður Pétur.
Við erum allavega þrítækir, og það er nú nokkuð gott því ekki er það ástand sem ég óttast svo mjög, farið að bíta í skottið á okkur, ekki þannig að fólk óttist um líf sitt og limi. Mesti kennimaður vestrænnar menningar hafði 12 lærisveina þegar hann féll frá, og miðað við myndaflokkinn um ævi og störf Churchil, þá var það aðeins ritari hans sem trúði á orð kallsins. Svona þegar einangrun var sem mest. Þó erum við að ræða um mesta mælskumann nútímasögu, mann sem tilheyrði valdastéttinni, og ógnin sem hann varaði við, hún var það áþreifanleg að hann gat lesið upp úr stefnubók Hitlers, blaðsíðu eitthvað, þar sem hann útlisti áform sín um stríð og þrælkun nágrannaþjóða.
Samt var hlegið að Churchil á þingi og gerð hróp að honum.
Óvenjulegir tímar krefjast óvenjulegra lausna, en forsenda þess er að fólk skyni að tímarnir séu óvenjulegir, og jafnvel þó það skynji óvenjulega tíma, þá er langur vegur að þeirri upplifun að skynja að tímarnir eru einstakir, og jafnvel endanlegir.
Menn hafa verið vistaðir á viðeigandi stofnunum fyrir minni ofskynjanir.
Ég get alveg viðurkennt að ég las greinina um samsvörun við lognmolluna í upphafi þessarar aldar, við lognmolluna í upphafi tuttugustu aldar, og þess sjónarmiðs að vopnin væru orðin það öflug að það legði enginn óvitlaus maður út í stríð lengur, án þess að kveikja neitt sérstaklega. Þó var ég ágætlega lesinn um stríð og forsendur þeirra og eins haft lengi gaman að spá í drifkrafta samfélaga og hvað ferlar stjórna lífi okkar
En ég fann engan bruna í vitund minni, upplifði engar áhyggjur vegna hugsanlegra endaloka siðmenningarinnar. Átti nóg með minn lífsháska, þó ég bætti ekki háska heimsins þar ofaná.
Þegar Hrunið varð, þá fékk ég staðfestingu á háska og heimsku nýfrjálshyggjunnar sem trúarbragða og það var ekkert nýtt fyrir mér að spá í hvernig það mætti koma böndum á hana. Og í greinum til dæmis Einars stórskálds voru engin ný sannindi fyrir mig, en kynngimögnuð skrif hans gripu mig eins og marga aðra. Loksins var einangrun rithöfunda rofin, loksins var skrifaður texti um samtímann þar sem ekki var megin stefið að eitthvað væri hagkvæmt, að eitthvað þyrfti að hámarka, það þyrfti að vera hagnaður, eða eitthvað hag, hag, hag eitthvað.
Heldur skrifaði einhver um það sem er rétt og það sem er rangt, og það á kjarnyrti íslensku með tilvísun í heimspeki og bókmenntir.
Ekki nema gott um það að segja.
Minn hugur var svo bundinn við ICEsave vörnina, knúinn áfram að réttlátri reiði sem skítleg framkoma breta vakti hjá mér.
Ég taldi að uppgjörið við Hrunið yrði síðan á siðlegum nótum, að menn ræddu það sem miður fór, og ræddu um þær leiðir sem þyrfti að fara til að bæta fólki tjón sitt og gera almenningi kleyft að búa í landinu. Ég tók þátt víða í slíkum umræðum, reyndi að færa rök fyrir skuldaleiðréttingum, og rök fyrir að hið gamla kerfi mætti ekki ráða forsendum endurreisnarinnar. Svona á milli þess sem ég skammaði AGS og IcEsave.
Þegar ég hlustaði á rök kerfis og kerfiskalla gegn skuldaleiðréttingu, og tók eftir því að valdasjúkir stjórnmálamenn þekktu ekki muninn á réttu og röngu, en tóku undir siðferðislega röng kerfisrök sem forsendu valda sinna, þá áttaði ég mig á að það var ekki bara efnahagskerfið sem var sjúkt, stjórnmálakerfið var það líka. Og einhvers staðar hafði stór hluti þjóðarinnar týnt hæfileikanum að þekkja muninn á réttu og röngu. Það var eins og þjóðin hafði misst sál sína, og fólk sýndi ekki öðrum samhygð á neyðarstundu.
Annað gat ekki útskýrt að fólk sem vann gegn skuldaleiðréttingunni, að það sat á fundi í stjórnarráðinu, en ekki við glugga á stofnun út við Sundin. Á neyðartímum stendur fólk saman, það hjálpast að, tekst sameiginlega á við erfiðleikana, og skiptir á milli sín tjóni og þeim byrðum sem hörmungarnar valda. Allavega ef þjóðfélagið er siðað.
En að láta eins og ekkert sé, að hin svokallaða endurreisn er öll í því fólgin að finna þau mörk sem hægt er að blóðmjólka fólk án þess að það gefist endanlega upp, og skilja ungt fólk eitt eftir í neyð sinni og örvæntingu, það er ómennskt þjóðfélag sem lætur slíkt viðgangast.
Og ómennska er forsenda þess að hinn dimmi spádómur Hávamála rætist, að bræður munu berjast og að bönum verðast. Fyrst 46 ár ævi minnar gat ég ekki ímyndað mér að slíkt ástand gæti skapast á Íslandi, að þessar dimmu línur goðsagnanna ættu við nútima minn á Íslandi.
En í dag er búið að sá fyrir þeim. Á Íslandi er engin von, hér ríkir aðeins örvænting sagði ung einstæð móðir sem er að flýja land. Og á þann landflótta treystir kerfið, að fólk flýi í stað þess að verja eigur sínar og þjóðfélag.
En hvað ef ekki????????
Hvað ef?????
Þá fór ég aftur að hugsa um þau aðvörunarorð að lognmollan samtímans væri þekkt, og áður hefði hún verið aðfari mikils storms og átaka milli þjóða, og innan þjóða.
Hvað ef????
Ég trúi ekki á goðsagnir, en goðsagnirnar eru óðum að lifna við allt í kring. Mörkin milli þeirra og hins raunverulega eru að rakna upp.
Hvað ef????????
Ekki er ég spámaður, en ég óttast að sagan endurtaki sig vegna þess að mannskepnunni er ekki áskapað að læra af reynslu sinni, og ennþá finnst henni leið villidýranna vera kúlari leið í samskiptum og deilulausnum en leið mannvits og siðgæðis.
Okkur sem kjósum að það sé gert sem elur af sér mannsæmandi framtíð, er núið það um nasir að okkur skorti hörku. Ég hef fært rök fyrir að ekki hefði manngæskan ráðið för í Suður Afríku, þó ég efi ekki að Tutu hafi gegnið út frá henni í mótun hugmynda sinna. Victor Hugo tókst á við þessar spurningar, og biskupinn í Digne er boðberi mennskunnar og hann keypti sálu Valjean en það hafði sínar afleiðingar, því um leið vaknaði samviska Valjean, sem aftur hafði næstum komið honum í grjótið fyrir lífstíð.
Og lögregluforinginn sem kynntist miskunn hins hundelta sakamanns, hann átti svo erfitt með að meðtaka hana, að kaus frekar að drekkja sér en að takast á við sína samvisku. Enda bar Sárúman hvíti það upp á Fróða að miskunn hans væri grimmilegri en nokkur refsing.
Málið er miklu flóknara en það að miskunn sé væmin og geðlaus, hún á sér margar hliðar, en hún er mjög öflugt tæki fyrir þá sem telja að morgundagurinn eigi að vera betri en gærdagurinn. Hin hlið hennar, fyrirgefning er einnig af sama meiði, og það má færa rök fyrir að hún geri meira fyrir framtíð fórnarlamba en þungar refsingar. Þetta hefur verið rannsakað eins og allt annað.
En það þarf hugsun til að skilja og skynja margbreytileikann á bak við mátt sannleiksnefnda. Þeir sem til dæmis telja að dæmisagan um týnda soninn eigi frekar heima í bókum um forna matargerð þar sem hún lýsir tilefni veisluhalda, en í bókum um 101 leið til að viðhalda tilveru mannkyns, þeir blása strax á svona umræðu. Gefa henni ekki tækifæri til að þróast, til að dafna. Enda telja gömlu aðferðirnar reynst svo vel.
Og það eru sjónarmið vissulega.
En árangursleysi okkar sem vildu breytingar á samfélaginu, og raunhæfa aðstoð við fórnarlömb glæpa auðmanna, ætti að verða fólki hvatning til að staldra við og hlusta líka á hina sem sjá hlutina öðrum augum.
Og geta bent á aðferðarfræði sem þegar hefur verið prófuð og reynst vel.
Sannleiksnefndin er nefnilega svo öflugt tæki til að takast á við margt sem miður hefur farið í nútímanum og til að breyta neikvæðum ferlum í eitthvað jákvætt og uppbyggilegt. Til dæmis er ógn skipulagðrar glæpastarfsemi brotin á bak aftur með svona aðferðarfræði, ekki síharkalegri refsingum, og það má hugsa sér uppbyggingu fátækraherfa þriðja heimsins, sem eru undirlögð eymd og glæpum, að misjöfnum sauðum sé fyrirgefið og gefinn hvati til breytinga. Gæti alveg skrifað um það langt mál því ég hef hugleitt þetta dálítið eftir að ég las grein um ástandið í San Salvador, alla þá eymd sem fólk uppskar eftir áralangt borgarastríð.
Aðalatriðið er það Pétur, að það er ekki nóg að langa að lifa í lífvænlegum heimi. Það er ekki nóg að láta sig dreyma um betri heim, eða segjast vilja betri heim.
Fólk verður að hafa einhverja hugmynd um hvað þarf til þess.
Bæði hvaða stríð þarf að há, við hvaða öfl, hvað lögmál Tregðunnar þarf að hlutlausa, eins og eymd og glæpi, og líka hvernig menn ætla sér að hafa sigur.
Mín skoðun er að um aðeins eina hindrun sé að ræða, okkur sjálf, annars séu tækin þekkt. Aðrir hafa aðra skoðun þar á. Gott og vel.
En það er ekki gild skoðun að allt reddist af sjálfu sér.
Sú trú mun vekja hinar fornu goðsagnir Ragnarrakanna til lífs. Hættumerkin eru svo augljós. Það er óhjákvæmilegt ef við látum höfðingjanna endalaust ráðskast með líf okkar og limi.
Þess vegna beini ég reiði minni í þá farvegi sem ég tel að leiði til góðs.
Og svo er það ekki í eðli mínu að sparka í liggjandi fólk. Þá vil ég reyna að gera gott úr hlutunum. Aðeins óðir menn, sem hafa illt í hyggju, og hafa ekki nokkuð það siðferði sem þarf til að ganga lausir, eiga að lokast inni. Aðrir eiga að fá tækifæri til að bæta úr. Eða hljóta þann dóm að þeir láti eitthvað gott af sér leiða.
Dómar eiga nefnilega að endurspegla okkur, og okkar siðgæði, ekki siðgæði illvirkjans.
Á því er grundvallarmunur.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 18.4.2010 kl. 16:09
Heill og sæll Ómar og blessaður
Enn prenta ég út skrif þín og sest fram í eldhús og les. Ég hef alltaf verið mikill eldhússmaður, ekki út af mat í vömb, heldur vegna þess að polli var ég í sveit hjá afa og ömmu í Víðidalnum í V.-Hún. Þar var yndislegt að vera fluga á vegg og hlusta á sögur og spjall um heima og geima fullorðna fólksins, ekki síst á síðsumarkvöldum þegar fór aðeins að rökkva og rótarbættur kaffiilmurinn sveif um loftið og ég fékk kannski leyfi til að klippa kandísstöngla. Ég þarf ekki á byggðasöfn, ég upplifði það allt, frá torf-bakhúsum til panelklæddra framhúsa. Nú er allt það fólk í björtum himingeimum minninga minna. Þess vegna leita ég enn í eldhús, þegar ég þarf að einbeita mér að upplifa eitthvað sem ég vil ekki missa af. Kannski er það þráin að vera lifandi, meðan maður enn lifir.
Ég get held ég best útskýrt áhrifin af skrifum þínum á mig á fyrrgreindan hátt. Ég skil skrif þín og hugrenningar afskaplega vel. Eina sem veldur mér vandræðum er að minn kæri Ezra Pound var ekki alveg ánægður með Churchill, en þú hampar honum oft. Ég læt það ekki vefjast mikið fyrir mér, því báðir voru þeir mikilmenni, hvor á sinn hátt.
Eitt að lokum Ómar, Ronnie van Zant, hinn upprunalegi hugmyndasmiður, ljóðskáld, og höfuðpaur Lynyrd Skynyrd var steingeit eins og þú. "How about it?". Skelltu þér á youtube og hlustaðu á dýrðina 1975-1977, áður en flugslysið hörmulega setti strik í reikning virkilegra góðra drengja. Free Bird hefur orðið mér uppspretta til ljóðs og að hluta til annars. Ef mér tekst að gefa út ljóðabækurnar mínar 2, tvíburana, þá bið ég þig Ómar að hafa samband við mig í síma, eða birtast, væntanlega á haustdögum. Ég held að séu bara tveir á landinu með sama nafn og ég og ég er sá sem ekki er með farsíma (og mun aldrei fá mér þannig apparat). Ég vil alveg sérstaklega gefa þér þær, en fyrst þarf ég að klára fínpússninguna og svo "plata" einhvern forleggjara.
Með bestu kveðju, Pétur (Örn).
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 19.4.2010 kl. 01:53
Bara smá viðbót bróðir sæll
Ekki flytja aftur yfir mér langa útskýringu um Churchill, sannleiksnefndina og byltingu hugarfarsins. Ég skil þig nú þegar 100%. Ég veit að Pound var blindaður um tíma og dæmdi Churchill of hart - og hann vissi það án vafa sjálfur, en hamurinn var orðinn svo rosalegur á kalli þá, í baráttunni gegn stríðs-kapítalisma auðvalds-hringanna, í allri þeirra hernaðar-framleiðslu, að honum yfirsást að á sama tíma voru Bretar einungis að búa til "blöff" skriðdreka og græjur ættjörð sinni til varnar.
Nú vil ég bara leyfa ljóðrænunni að hrífa mig...en auðvitað vera samt á vaktinni eins og þú Ómar gegn Leppum og Skreppum...andskota okkar.
Mbkv. Pétur (Örn)
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 19.4.2010 kl. 12:56
Blessaður Pétur.
Það er nú reyndar ekki komin bylting, er ég er að hlusta á frjálsa fugla, og kann vel að meta.
Ég skal játa að ég er ekki mikill músíkkant, en féll fyrir Bítlunum um tvítugt, og síðan hefur melodían alltaf átt sitt pláss hjá mér. Tók til dæmis upp á video spólu kveðjutónleika Bandsins, og hafði mikið gaman af. Féll þar algjörlega fyrir Younginum svo dæmi sé tekið.
Fyrir tveimur árum þá fékk ég hrikalegt bakslag í bakið, og var án læknisráða annað en að láta spengja utanum verkinn. Eðli bakslaga, er að þau verða þreytandi, og þegar vonin klikkar, þá vill sálin daprast. Og þá held ég að Vhs sjónvarpsstöðin hafi komið mér til bjargar, og ég á 24 DVD diska upptekna af þeirri ágætri stöð, þar af ljúfsönginn um Alabama, sem ég var að kveikja á núna. Þegar þú komst inn með þitt ljóðræna sjónarhorn inná blogg mitt, þá fór ég aftur að hlusta á þetta safn, og kveikti þá til dæmis að Eagels batnar bara með árunum, en nýja lagið þeirra hafði farið inn og út hjá mér án eftirtektar við fyrri hlustun.
Með öðrum orðum, þá er mín ljóðræna, ljóðræn tónlist á ýmsum tímum, og skotinn í ýmsum, þó fáum fyrir Cartney. Og ég fíla suðurrokkið í botn. Er nú þegar búinn að hala niður nokkur myndbönd með þeim og fleiri á leiðinni. Er núna að hlusta á ballöðnuna um Curtis Lowe.
Og af hverju er ég að segja þetta??
Nú, kannski hef ég ekki komið því nógu skýrt til skila að ég er sem stendur að nema af þinni visku. Og þú kveiktir aftur í ljóðaáhuga mínum, eitthvað sem árin höfðu dálítið fennt yfir. Ég hef aldrei verið stór ljóðaneytandi, en þó á ég ljóðalestri mikið að þakka á ákveðnu tímabili í lífi mínu, árunum fyrir þrítugt, en þá hafði Elli kelling heimsótt mig frekar snögglega, án þess að ég kunni á því fullar skýringar. Og fékk þá heimsókn ofaní stóran skammt af lífsháska.
Þau misseri lærði ég til dæmis að Steinn Steinar er gott meðal við lífsháska, hans miðlun á sinni baráttu við sársaukann er snilld, sem er ótrúlegt að skuli hafa blómstrað hjá svona lítilli þjóð. Og ég las mikið ljóðaþýðingar, bæði Magnús Ásgeirsson, og Helga Hálfdánar. Ég fór að rifja þetta upp þegar ég gerði loksins atlögu að Erza, hann var einn af örfáum sem ég greip ekki almennilega, náði til dæmis Eliot betur.
En að heyra gamla manninn lesa sína vaxtabannfæringu, það var magnað, og hafðu þökk fyrir að vísa mér á hana. En ekki bara það, heldur kveikti þetta áhuga að leita að frekari ljóðalestri á enskri tungu á netinu. Ég náði eiginlega aldrei ljóðum nema þau voru þýdd, enskukunnáttan ekki nógu góð, þó maður skyldi, þá vantaði tilfinninguna sem gerir ljóð að einhverju meira en hnyttilegu orðasafni.
Og af hverju er ég að prenta þetta inn núna, löngu hættur maðurinn sökum nennuleysis og hvataskorts. Jú, ljóðrænan kveikti í mér, og ég fór og fann gamla möppu sem ég átti með ljósritum af ljóðum sem ég las fyrir tæpum 20 árum síðan. Og ég kíkti aftur í Sprek af reka (þýðingar Þorvalds Gylfasonar), en hana hafði ég ekki lesið langa lengi. Og heilinn er að malla, kannski finn ég flöt á ljóðrænu og þess að nenna að halda þessu bloggi lifandi. Um þann skort á mennsku að neita þeim sem landið eiga að erfa um aðstoð samfélagsins, hefur nefnilega mikið verið ort, og þó ég þekki ekki nema minimini prómil af því, þá gæti verið gaman að tengja.
Slíkt blogg verður aldrei hitt, en það er lifandi, og gefur vissan bakgrunn ef hvatinn kemur aftur í hús, og ég tek aftur að kyrja mín byltingarstef. Meiri að segja ósjálfráð skrift yrði lystugri ef maður fyndi flöt yfir i lýríkina.
En hvað sem verður með hækkandi sól, þá er þessi endurnýjuðu kynni af prósa mér mjög kærkomin og sem slík sálarbætandi.
Hafðu mikla þökk fyrir og gangi þér allt í haginn í pússningavinnu þinni.
Kveðja, Ómar.
PS. Churchil vinur minn kunni vissa list, eins og Erza kunni sína. Það er honum að þakka að ég þarf ekki að marsera í gæsagang á 17. júní, en ég er mjög taktlaus, og með visst ofnæmi fyrir hópsál. Listamenn þurfa ekki að vera neitt sérlega listrænir á öðrum sviðum mannlífs, eða gjörðir þerra alltaf til eftirbreytni, það snertir list þeirra ekki neitt.
Og í guðanna taktu það ekki nærri þér þó þú nafn þitt efst á langlokum mínum, það er bara krosstré sem þeir geta þurft að bera sem koma inn undir nafni, þó legg ég þær byrðar meira á suma en aðra, og það á sér allt sínar skýringar.
En ég er að fínpússa hugsun mína, og nota innslög til þess. Langa langlokur, geta orðið gígalokur ef allt kæmi í einni bunu. Og fínpússning er nauðsynleg fyrir þá sem mæta og máta hugsanir sínar við mínar. Þetta þjónar allt jú sínum tilgangi.
En það eru nokkrir mánuðir síðan ég vissi af samhljóman okkar í grunnlífsskoðunum, og ég veit að þú lest forsendur mínar fyrir niðurstöðum mínum, og skilur hvert ég er að fara. Samhljóman í niðurstöðum er svo eins og hún er, og eins og hún á að vera. Byggð á sjálfstæðu mati og sjálfstæðum skoðunum.
Held að við flokkumst seint undir hópsálir.
En ungfrú María Farrar er mín kona.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.4.2010 kl. 00:14
Blessaður Ómar.
Ég lýt höfði í auðmýkt. Ég þakka þessa pistla þína og hugleiðingar. Meira get ég ekki sagt að sinni ofan í þá staðfestingu skýrslunnar á okkar verstu grunsemdum og meira til. En þessa daganna er ég verulega, verulega hugsi.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 21.4.2010 kl. 01:06
Heill og sæll Ómar og Arinbjörn einnig
Við nemum allir hver af öðrum, og án ykkar baráttu vissi ég ekki hvar ég væri staddur. Að vita af öðrum sem eru að hugsa á svipuðum nótum er það sem ég held að haldi neista okkar við, og flæði mannsandans í leitinni að fegurðinni í samm-mannlegum gildum okkar, sem viljum ekki og höfnum að séu skrumskæld.
En stundum verðum við að hlusta á söng lýrunnar, hvort sem það er upplyft tónræna okkar eða ljóðræna, okkur til hressingar...enda erum við hugsi þessa dagana, eins og Arinbjörn segir...en Ómar þú átt að fara að yrkja...það geta allir sem hafa þann sálarkraft sem þú hefur...ekki vera feiminn við að prófa...ég hafði ekkert gert póesíu í 30 ár...svo 9.okt. 2009 (afmælisdegi Lennons fattaði ég síðar) fór ég að tóna yfir uppvaskinu frammi í eldhúsinu...ljóðið hafði vitjað mín aftur...og síðan hef ég verið svolítið upprifinn og spenntur...því ljóð eru smá lífsháski...ef fúttið á að vera í því.
Mínar allra bestu kveðjur til austurs og norðurs
Ps. Það er rétt Ómar, við flokkumst seint undir hópsálir. En ber er hver að baki, nema bróður eigi.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 22.4.2010 kl. 03:50
Blessaðir félagar og gleðilegt sumar.
Arinbjörn, ég skal játa að skýrslan kom mér á óvart, tæpitunga hennar var sterkari en ég átti von á.
En eðli hennar er svipað og skýrsla Khrushchev var á sínum tíma, en þar gerði hann upp glæpi Stalíns tímabilsins á nokkuð hvassan hátt, en hengdi þá á einstaklinga, ekki kerfið.
Í skýrslunni eru alvarlegir ágallar þar sem kerfissjónarmið urðu ofaná, til dæmis þar sem Seðlabankinn var sagður hafa ekki hækkað vexti of mikið, og þá væntanlega vegna Davíðs. Nú sér allt viti borið fólk, að ein megin orsök þenslunnar var þessi geðveikislega vaxtastefna, sem virkaði engan veginn. En hagfræðingum bankans langaði samt að hækka meira, og þeir mata skýrsluhöfunda á sínum sjónarmiðum.
Og gjörðir einstaklinga var óhjákvæmileg afleiðing af þeirri firringu sem var i gangi, þjóðin leyfði auðræði sem er annað orð yfir auðrán.
Og þetta auðrán er í fullum gír og skýrslan er notuð til að styrkja það í sessi ef eitthvað er.
En það er ekki skýrsluhöfundum að kenna, heldur að auðleppar stjórna umfjölluninni, og beina henni að föllnum mönnum, sem og samkrulli flokks og stjórnkerfis, og þá er lærdómurinn að við kunnum ekki fótum okkar forráð, og eigum að fara í ESB.
En sem dæmi sé tekið, þá var ákvörðun um Íraksstríðið af sama meiði fáræðis í stjórnun, þar sem auðmiðlar dansa með, en spyrja ekki gagnrýnna spurninga. Bresk stjórnvöld komust til dæmis upp með að nota ritgerð háskólanema sem megin gagngrunn handa tómum fjölmiðlamönnum sem báðu um sannanir fyrir gjöreyðingarvopnaeign Íraka. Menn sem ljúga svona, eru lygarar með engan málstað, en samt komust þeir upp með ákvörðun sína.
Ergo, kerfið,kerfi auðmanna og Leppa þeirra er gjörspilltur andskoti sem á eftir að koma öllu á heljarþröm, bæði hér og annarsstaðar í hinum vestræna heimi.
En okkur er talið í trú um að um sér íslenskan vanda sé að ræða.
Bylting byltinganna er okkar eina svar. Að við sjáum vandann, og hættum að láta ljúga að okkur. Og við reynum að gera það sem rétt er, óháð hagsmunum auðmanna og auðleppa. Efnahagskerfið er jú þjónn okkar og tæki, ekki húsbóndi og svipa.
Allt annað er bara kerfisstyrking, eins og þær umbætur að gera skip sjóklárt með því að mála yfir ryðgötin á byrðing. Nýtt útlit, en sama morkna innihaldið.
Íslendingar eru ekki vont fólk, við erum ekki spillt og við kunnum fótum okkar forráð. En við erum auðplötuð og værukær og kjósum frið hugsunarleysisins fram yfir átök og erfiði þess að vera sjálf ábyrg fyrir lífi okkar.
Þess vegna ná þær raddir, sem vilja raunverulega breyta kerfinu, og innleiða aftur mennsku og skynsemi í það, ekki eyrum fólks, jafnvel þó þær styðjist við orð Nóbelsverðlauna hagfræðinga og aðra risa á þeim vettvangi. Og ég sé enga breytingu þar á, nema ef eitthvað ferlegt klúður eigi sér stað eins og í ICEsave.
Það má segja það sama um íslenska skuldara, að þeir taki hlutskipti sínu með þögn þess og þolgæði sem engu fær breytt líkt og fréttamaður lýsti ástandinu á hungursvæðum Norður Kóreu. Þar þurfti ekki hervald til að bæla niður fólkið, fólkið sjálft sá um þann þátt. Kerfið var bara svona, verðtrygging þess og gengistrygging var náttúrulögmál, eins og hinar miklu heljarrigningar sem skemmdu akra og drekktu búfénaði.
Ekkert við þessu að gera, og enginn áhugi að andæfa ríkjandi ástandi.
Svona er Ísland árið 2010, fast í viðjum vanans og hefðbundinnar hugsunar. Skipið á að þétta þar til það steytir á næsta skeri, en slíkt er óhjákvæmilegt þar sem kúrsinn er á land og því alltaf þéttari og þéttari sker fram undan.
Í öðru landi, á öðrum tímapunkt, þá fundu menn upp blúsinn, menn sungu gegn örvæntingunni og vonleysinu.
Og Pétur, ef ég hefði verið þar, og hafið upp söngrödd mína, þá hefði blúsinn orðið andvana fæddur.
Sumt eiga sumir að láta ógert.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 22.4.2010 kl. 22:05
Kæri Ómar. Og kæri Pétur. Hef ekkert komið inn lengi. Held ég hafi ekki þorað. Skalf við hvaða svar kæmi. -_- Nei, ég held ekkert að rökin þín séu innantóm og væmin, Ómar. Meinti það ekki, heldur finnst mér innantómt og væmið að fyrirgefa skipulögðu glæpagengi sem eru bara að blekkja okkur og kunna ekkert að skammast sín neitt. Og það held ég um alla hina skammarlegu glæpamenn sem viljandi rústuðu fjárhag okkar. Og fyrirlít fífldirfskulegu pólitíkusana sem voru svo vítavert kærulausir um öryggi alþýðu landsins að þeir heyrðu ekki og vildu ekkert vita. Fyrirlít of mikið til að vera í nokkrum fyrirgefningarhug. Og bara hugsunin um það ofbýður mér fullkomlega. Kannski skildi ég ekki vel hvað þú varst að fara og þó las ég orðin. Og það verður að vera í 1. sinn sem ég skildi þig ekki. En þið Pétur skrifið samt af miklu viti. Og þó það nú væri að víð værum ekki á nákvæmlega sömu blaðsíðu með öll sjónarmið. Erum við nokkuð fúl núna??? Og við lentum víst bæði inni í blogginu af illri nauðsyn og kannski öll. En ég hef ekki enn lokið við að lesa allt sem þið Pétur skrifuðuð í commentunum og kemur aftur og verð með kjaft út og suður ef mér líkar það ekki.
Elle_, 23.4.2010 kl. 17:17
Blessuð Elle.
Ég er ekki svona skelfilegur og ég veit alveg að vinur er sá sem til vamms segir. En því miður getur það verið gagnkvæmt, og úr geta orðið sárar deilur annars vegar, eða nauðsynlegar hreinskiptar umræður sem leiða menn áfram að skynsamlegri niðurstöðu, réttri lausn, eða hvað sem það var sem kveikti á vamminu.
Áður en ég útskýri nauðsyn gagnsvara minna, þá langar mig lítillega útskýra hvað ég átti við með fyrstu orðum mínum sem hugsanlega mátti lesa einhverja hvessu úr. Ég skal játa það að ég greip gæsina fegins hendi þegar Guðmundur sakaði mig um stílbrot þegar ég greip fréttina um meintu fyrirgefningu Björgólfs, sem ég nota bene er ekki að hugsa mikið um í augnablikinu, og notaði hana sem þráð yfir í það sem ég tel kjarna skýrslu rannsóknarnefndarinnar en það er sönnun á algjörum forsendubresti verð- og gengistryggingar vegna athæfis bankanna, og aðgerðarleysi stjórnvalda. Við erum jú að tala um líf og örlög tugþúsunda samlanda okkar.
Og gæsin sem ég greip var að svæfa bloggið, það er langt síðan að ég gerði mér grein fyrir að ekki orð af þeirri hugsun sem ég er að presentera hef ég náð að gæfa því lífi að það hafi farið víðar og hlotið vægi í umræðunni. Þetta kallast að viðurkenna vanmátt sinn, játa ósigur eða hvað það nú heitir. Það vill nefnilega svo til að ég var ekki að blogga til að vega mann og annan, en það var hins vegar það eina sem virkaði hjá mér, ég hafði ekki styrk í annað.
ICEsave kúgun breta var eiginlega eini neistinn sem hélt mér gangandi, og þar sá ég tilganginn með skrifum mínum, á meðan svo fáir sáu 100% Nei-ið. En nú er mjög harðskeytt andstaða byggð á þessu Nei-i og ég er einu sinni þannig gerður að ég skipti mér ekki að málum nema þegar enginn annar eða fáir virðast ætla að gera slíkt. Ég er ekki fyrir athygli.
Þess vegna greip ég gæsina og matreiddi hana á eins þægilegan máta og ég gat, ég náði í gamlar hugsanir sem ég geymdi á bloggi Arinbjörns, og notaði þær sem punktinn yfir I-ið. Vissi að einhverjir myndu lesa og síðan yrði gæfa þjóðarinnar að sjá um restina, löngun mín til að bjarga heiminum væri í salti í augnablikinu.
Og ég get alveg viðurkennt það Elle, að fátt gat hreyft við mér, en þér tókst það og er það vel, hvort sem ég misskildi þig eða ekki. Tel samt að í kjarnanum hafi ég ekki gert það. En það góða sem kom út úr þessu var hugsanaflæði og ég fann hugsanlegan flöt á sérviskubloggi sem ég gæti haft það mikla ánægju af að ég gæti hugsað mér að halda þessu lifandi.
Sem er betra hvað mig varðar ef ég ætla að nýta orð mín í komandi borgarstyrjöld sem er óhjákvæmileg ef stjórnvöld halda áfram á AGS vegferð sinni. Orð Péturs um lýríkina eru nefnilega þrungin visku, og gera ekki neitt annað en að bæta stíl minn, sem er aftur nauðsynlegt ef ég ætla að rispa brynvarnir AGS Leppa í framtíðinni. Ég fer nefnilega í stríð til að vinna þau, og vissan um sigurbraut skynseminnar er mér nægileg umbun gegn hugsanlegu falli, ekkert hefst án fórna, en það þarf mjög mikla neyð, og yfirvofandi lífsháska til að ég fórni lífi mínu og limum í stríði sem er leitt af glataðri forystu.
Íslenska byltingin lét nefnilega eins og hún væri að finna upp hjólið, og hún taldi að allir pyttir mistakanna væru til að falla ofaní og þess vegna fór sem fór, að sú heimsmynd, sem ól af sér þetta glæpagengi gamalla Vöku liða, allmargir gamlir fjandmenn mínir sem eiga óslökkta glóð í sálarfylgsnum mínum, og ég græt örlög þeirra þurrum tárum, að hún hefur haft fullan sigur og er að kviksetja þjóðina endanlega í djúpri skuldagröf ICEsave og AGS.
Það er nefnilega þannig Elle, að þegar ég lærði rúmfræði í gamla daga, þá fletti ég upp í jöfnum í bók, í stað þess að taka upp blað og blýant og sanna til dæmis Pýþagórasarregluna eins og slíkt hafi aldrei verið gert áður.
Og þess vegna varð svar mitt að vera eins og það var. Það þarf að spyrja vissra grundvallarspurninga, og ef fólk svarar þeim á þann veg sem ég gerði, þá er niðurstaðan aðeins ein, og hana reyndi ég að orða í innslögum mínum til Arinbjörns, og reyndar víðar áður. Og þú fékkst mig að hnykkja á þó Pétur hafi gefið mér tækifærið til þess.
Jafna Sannleiksnefndarinnar var sönnuð á fundi ANC seint á síðustu öld. Þar mætti Mandela á fund og útskýrði hugmyndafræðina á bak við uppgjör byggt á fyrirgefningu og sátt. Og sannleika, sannleika um allt það sem miður fór, og allt það illa sem gert hafði verið. Ég var ekki á fundinum, en ég get ímyndað mér fyrstu viðbrögð fundamanna, þó Mandela hafi örugglega verið búinn að prufukeyra hugmyndir sínar á traustustu stuðningsmönnum sínum.
Og fyrstu viðbrögðin voru fordæming á því að fyrirgefa glæpagengi stjórnvalda illvirki sín. Blóð svo margar saklausra kallaði á réttláta refsingu.
Og þá hefur Mandela alveg örugglega spurt fundamenn hreint út til hvers þeir væru staddir á fundinum. Það mætti vel vera að þeir gæfu lítið fyrir leið sem forðaði landsmönnum frá hörmungum borgarstyrjaldarinnar og gerði þeim kleyft að byggja upp betra og réttlátara þjóðfélag, en ef þeir vildu fá vald til að rétta yfir mönnum og dæma þá yrðu þeir að fara þá leið sem tryggði að þeir fengju það vald.
Og leið borgarstyrjaldarinnar og hörkunnar hefði aðeins eitt öruggt í för með sér, og það var hörmungar saklausra borgara, sem þegar hefðu þjáðst nóg. Og þeir sem hefðu ekki þá samhygð að skilja það og teldu að völd, óháð hvernig þau væru fengin, skiptu þá öllu máli, að þeir skyldu gera sér grein fyrir að óvíst hverjir hefðu sigur úr því borgarstríði. Því þó gamla kerfið væri komið að fótum fram, þá hefði það kraft til að deila og drottna, og tryggja að hinir nýju valdhafar væru hliðhollir gamla valdinu.
Og það var ekki ANC.
Sönnun Mandela var jafn einföld og regla Pýþagórasar um rétthyrndan þríhyrning. Aðeins ein leið var örugg til að tryggja völd fundarmanna, og það var leið sáttar, fyrirgefningar og sannleika. Og raunveruleikinn sannaði kenningu hans, alveg eins og kjarnorkusprengjan sannaði margar af formúlum Einsteins.
Elle, ég er einn af þeim sem spurðu þeirrar spurningar hvort skipti meira máli að hindra glæpi framtíðar, eða gera upp við glæpamenn fortíðar. Og hvort það skipti meira máli að bjarga fólki úr skuldafangelsi eða loka Sigurjón digra inni, þó mér persónulega væri ekki illa við slíka gjörð. Það er hægt að líkja þessu við raunveruleika þátt, þar sem þáttastjórnendur útdeila krakki og kóki til þátttakenda, og skilja síðan hlaðnar byssur á víð og dreifð, öllum viljugum til handagagns. Aumt væri það dómsvald sem dæmdi aðeins það ógæfufólk sem í dópvímu, drepa mann og annan, en leyfði upptöku á næsta þætti raunveruleikaþáttarins, og svo koll af kolli. Leyfðu það vegna þess að peningar og hagsmunir hindruðu að orsökin væri stöðvuð, en leyfðu að í lok hvers þáttar yrðu sekir þátttakendur, sem upphaflega tóku þátt í leiknum í góðri trú, teknir og dæmdir fyrir glæpi sína.
Skynsamt dómsvald hefði fengið hina meintu glæpamenn til að vitna gegn hinum raunverulegu glæpagengi og aðferðum þess. Því á baki glæpi Sigurjóns digra er siðlaust auðvald sem hefur þröngvað gjörspilltri heimsmynd yfir samfélög okkar og þetta siðlausa auðvald mun aðeins fá sér nýja spilara, og þar sem gulrótin er fljóttekinn auður og sérhyggja, þá mun ekki vera hörgull á nýjum þátttakendum.
Og svo mun verða svo lengi sem kerfið mun verða.
Íslenska byltingin rann út í sandinn, erlendir glæpamenn eiga bankana okkar, ungt fólk situr uppi með Hrunskuldirnar, og í þokkabót á að nota lungann af tekjum ríkissjóðs til að borga út lán AGS og ICEsave.
Bara vegna þess að fólk gat ekki kynnt sér lærdóm sögunnar.
Ekki að ég fái þessu breytt Elle, en vammið þitt hreyfði við mér, og ég set hugsanir mínar hér í athugasemdirnar svo næsta hrina byltingarmanna geti kynnst sér, það er ef þeir vilja forðast pytti mistakanna sem Búsáhaldabyltingin lenti í.
Enginn endanlegur sannleikur, en leiðin á þann endapunkt er aldrei farinn ef fyrsta skrefið er aldrei stigið. Og fyrsta skrefið er að orða hugsanir um það sem þarf að gera, sem og hitt að orða hugsanir um augljós mistök þeirra sem í fyllstu einlægni héldu að eitthvað betra kæmi út úr þeim hörmungum sem dundu yfir þjóð okkar.
En Elle, ég keyri þetta á röddum skynseminnar og köldu mati á þeim raunveruleika sem við blasir, en í hjarta mínu er ég sammála þeirri hugmyndafræði sem leið sannleiks, sáttar og fyrirgefningar byggist á.
Og ef þú klórar þig einhvern tímann niður úr þessu innslagi, þá kemur eitt hér á eftir, hvenær sem það verður, þar sem ég ætla að vitna í orð mikils ritsnillings máli mínu til stuðnings.
En núna þarf ég að svæfa.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 23.4.2010 kl. 22:30
Blessuð Elle, ég veit að þú kemur einhvern tímann að þessu innslagi til að eiga síðasta orðið með þínum kjafti úr suðrinu. Og það er þér heimilt en ég lofa samt ekki að slökkva á hugsanaflæði mínu, einhver glóð verður að lifa þegar lokasvikin verða gerð opinber.
En það er þetta með geðleysið að fyrirgefa gegn bót og iðrun. Um þá hugsun hefur margur mætur maðurinn skrifað á ýmsum tímum þó fáir betur en Victor Hugo í Vesalingunum. En einn er sá maður sem mér finnst vera snillingur og skrifaði mikinn doðrant um baráttu góðs og ills, sem fólk þekkir sem sagnabálkinn um Hringinn eina, eða Hringadróttasögu eins og við þekkjum hana í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensenar.
Margir líta á þann bálk sem misskemmtilegt ævintýri, fer eftir fyrri áhuga fólks á slíkum sögum, en ég féll fyrir honum sem snilldarverki um baráttu góðs og ills. Og hef lesið bækurnar árlega frá því að þær komu út í íslenskri þýðingu, sú síðasta árið 1995. Síðan bætti ég við einum aukalestri í haust þegar ég fattaði að Tolkien var aðeins að lýsa því sem stríði sem á sér stað í dag um framtíð mannkynsins.
Þannig séð svona einhverjar handbækur um uppgjörið mikla við græðgi og siðblindu frjálshyggjunnar. Eða lokauppgjörið mikla milli góðs og ills, sem er ekki annað en orð siðmenningarinnar um togstreituna milli reglu og óreiðu, sem er forsenda alheimsins.
Og þeir sem upplifa þetta uppgjör, þeir þurfa ekki annað en að fletta upp í Tolkien og sjá þá allt um framgang þeirrar baráttu og svo náttúrulega hvernig hún endar, en það er með sigri hins góða, eða sigri siðmenningarinnar yfir illskunni.
En fyrir þá sem eru ekki alveg svona háfleygir, má samt læra margt af kalli því saga hans er myndræn og orðar margt ágætlega sem um huga manns fer þegar maður upplifir vanmátt sinn gagnvart ofurefli höfðingjanna og þeirri fólskuflærð sem þeir brugga okkur þessa daganna.
Til dæmis sagði hann þetta tveimur dögum eftir að orðræða okkar fór af stað (þá var ég að klára þriðja bindið sem ég hafði byrjað á vikunni áður), líklegast af gefnu tilefni.
Hér var skemmdarverk unnið, en látum þau ekki spilla fyrir vináttu okkar og samheldni, því að allt er þetta runnið undan rifjum Óvinarins og framkvæmt á hans vilja. Þið hafið lent í svikavef sem þið ekki ófuð sjálfir.
Hvað þetta þýðir nákvæmlega í þessu samhengi veit ég ekki, en mér fannst fróðlegt að lesa þessi orð og þau kveiktu ýmsar hugsanir, sérstaklega í ljósi aðstæðna.
Og margt fleira kom á síðustu blaðsíðunum sem fengu nýja merkingu í huga mér. Og ég ætla að leggja nýtt innslag undir nokkrar tilvitnanir, svona til gamans því það eru skemmtilegar samsvaranir milli þessa sagna frá tilbúnum heimi Miðgarðs, yfir í þann raunveruleika sem blasir við á Íslandi á þessari stundu.
Kveðja í bili því ég þarf að finna þessar tilvitnanir og skrifa þær niður.
Ómar Geirsson, 23.4.2010 kl. 23:55
Jæja, þá er meira af Tolkien. Allt vísdómsorð hans úr lokauppgjörinu sem átti sér stað þegar Hobbitarnir komu margreyndir út stórátökum og við þeim blasti hervirki mikil á heimaslóð, runnin undan rifjum gamals fjandmanns, Sarúmans hvíta. Misvel fóru þau í mannskapinn, en sjálfur Hringaberinn, Fróði, var talsmaður þess að nota ekki meira vald en þörf krafði til að hrekja illþýðið í burtu og endurheimta aftur Héraðið úr þeirra höndum.
"Ekki komið einum degi of fljótt. Kannski of seint, að minnsta kosti til að bjarga Lotta," sagði Fróði. "Vesalings strákbjálfinn, mikið vorkenni ég honum".
"Að bjarga Lotta??? Hvað meinarðu eiginlega?" sagði Pípinn. "Ég hefði nú heldur sagt að við ættum að farga honum".
"Ég er hræddur um að þú skiljir ekki hvernig þetta allt hangir saman, Pípinn" mælti Fróði. "Það hefur aldrei verið ætlun Lotta að leiða þetta allt yfir heimabyggð sína. Auðvitað hefur hann verið illviljaður asni, en nú er hann flæktur í hluti sem hann ræður ekkert við. Það eru ribbaldarnir sem öllu ráða, þeir safna saman, ræna og misþyrma, þeir æða um og eyðileggja allt sem þeim sýnist, í hans nafni. Og þó þurfa þeir ekki mikið lengur að gera það í hans nafni. Hann er núna orðinn ekkert annað en fangi í Baggabotni, og ég býst við að hann sé sjálfur dauðhræddur. Við ættum að reyna að bjarga honum".
Það sem Tolkien er að benda á er að oft eru gerendur leiksoppar voldugri afla, og á sinn hátt líka fórnarlömb þeirra aðstæðna sem upp koma. Og gjalda illt með illu er ekki leiðin til að græða sárin, þú upphefur þig frá illskunni með því að beita annarri siðfræði en hún. Og þannig skapar þú forsendur uppbyggingar, og rífur vítahring hefndar og ofbeldis.
En er þetta miskunn þegar hlut á aðili sem aðeins kanna að mæta illu með illu??? Þeirri spurningu svaraði Tolkien frábærlega þegar hann lætur Sarúman vega að Fróða, en hann hafði þá bjargað lífi hans þegar hefnendur vildu ólmir hengja kallin í næsta tré. Þá fór þetta þeim á milli.
"... Því síður ættum við að leggja hendur á hann. Nú er hann fallinn og það er ekki á okkar færi að reisa hann við. En ég vil samt þyrma honum í þeirri von að hann betrumbæti sig sjálfur áður en yfir lýkur."
Sarúman reis á fætur og starði á Fróða. Það var undarlegt blik í augum hans, sambland undrunar, virðingar og haturs. "Mér þykir þú hafa vaxið, Stuttlungur" sagði hann. Já, þú hefur vaxið og þroskast. Þú ert orðinn vitur og vægðarlaus. Þú rænir mig sætleika hefndarinnar og nú neyðist ég til að leggja af stað, fullur beiskju og í þakklætisskuld við náð þína. Ég forsmái það allt saman og ég hata þig. Jæja, ég skal þá fara og ekki ónáða þig meir."
Já, miskunnin var þungur kross að bera. Victor Hugo lætur Javier lögregluforingja drekkja sér, frekar en að bera þann kross. Hann þoldi það ekki að illt væri launað með góðu.
Það sem ég er að reyna að segja Elle, er að þetta er allt mjög margslungið en þetta er ekki geðsleysi.
En það verður alltaf að vera munur á þeim og okkur. Um það snýst baráttan milli góðs og ills, við sættum okkur ekki við hina viðteknu aðferðarfræði, það þarf nýja hugsun, ný viðmið.
Og það er svo skelfilega mikið í húfi. Hvort sem við viljum sjá það eða ekki. Martröðin um þetta lokauppgjör hefur hrjáð mæta menn frá því fyrir daga sögunnar, fyrstu goðsagnirnar fjalla að hluta um þessi Ragnarrök.
Og það er okkar Elle að sjá til þess að þær rætist ekki. Að martröðin hafi eftir allt saman aðeins verið martröð.
Og þetta er hægt. Við þurfum aðeins að trúa að við sjálf ráðum örlögum okkar, og við höfum þann styrk og siðferðislegan þroska að móta mannvænlega framtíð.
En þetta er stríð, vegna þess að það dugar að örfáir siðblindingjar vilji þau vinnubrögð sem óhjákvæmilega leiða til tortímingar framtíðar okkar. Það er auðvelt að ná völdum með því að höfða til sérhyggju okkar og græðgi. Og það er auðvelt að gera grín að þeim sem trúa á mátt hins góða yfir illsku og Tregðu.
Og sagan kennir að siðblindingi í valdastól, getur leitt ómældar hörmungar yfir saklaust fólk. Fólk sem taldi sig lifa í sátt og öryggi. Móðir, sem svæfði barn sitt í Bagdagd á því örlagaári 1258, taldi sig örugga, eins og móðir hennar og formæður hennar í margar aldir þar á undan. En einn maður sameinaði óskipulagða hópa hirðingja og myndað þvílíkt heljarafl, að enginn stóð þeim snúning. Og þeir drápu allt kvikt sem stóð í vegi þeirra. Þar á meðal alla íbúa þessar háborgar íslamskrar menningar.
Þetta er svona lítið dæmi um að langvarandi friður getur breyst á einni nóttu í skelfilegan harmleik fjöldans vegna illskuverka örfárra. Þess vegna þarf nýja hugsun, ný viðmið, þannig að þeir sem mæla með átakalausnum sé taldir klepptækir, í stað þess sem er í dag, að við sem teljum að mannkynið eigi sér von og framtíð, séum geymdir þar.
Frumeðli okkar er nefnilega ekki að drepa, frumeðli okkar er að lifa, að lifa svo við getum getið af okkur nýtt líf.
Um þetta snýst Bylting byltinganna, að við horfumst í augun á sjálfum okkur og tökum af skarið. Hættum að líta á okkur sem fórnarlömb, heldur lítum á okkur sem gerendur.
Og gerendur gera það sem þarf að gera í góðri sátt við guð og góða menn. Og leysa þann vanda sem við blasir.
Þetta er ekki flókið eftir að frumviljinn, vilji okkar sjálfra, hefur náð völdum í huga okkar.
Þetta er eins og að drekka vatn Elle.
Og ég fer ekki ofan af því þó mig skorti það orðkynngi að ljá þessum orðum þann mátt að þau breiðist út og fái vægi.
En einn daginn munu þau verða mælt á þann hátt sem allir skilja.
Hinn möguleikinn er martröð goðsagnanna. Og sú martröð gerir ekki ráð fyrir lífi barna okkar.
Þess vegna veit ég að þessi orð munu verða mælt svo allir skilji. Ég trúi nefnilega á hið góða í tilverunni, líka á hið góða í okkur öllum.
Líka hjá Sigurjóni Digra.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 24.4.2010 kl. 00:59
Ómar: Blessuð Elle, ég veit að þú kemur einhvern tímann að þessu innslagi til að eiga síðasta orðið með þínum kjafti úr suðrinu.
Hi, hi, hi, nú er ég komin hingað og fera að lesa 2 síðustu innslögin þín. Og ég sem hélt þú værir þvílík friðardúfa! Í skæruliðabúningi að vísu.
Elle_, 24.4.2010 kl. 13:50
Ómar, þú sagðir: Þegar ég hlustaði á rök kerfis og kerfiskalla gegn skuldaleiðréttingu, og tók eftir því að valdasjúkir stjórnmálamenn þekktu ekki muninn á réttu og röngu, en tóku undir siðferðislega röng kerfisrök sem forsendu valda sinna, þá áttaði ég mig á að það var ekki bara efnahagskerfið sem var sjúkt, stjórnmálakerfið var það líka. Og einhvers staðar hafði stór hluti þjóðarinnar týnt hæfileikanum að þekkja muninn á réttu og röngu. Það var eins og þjóðin hafði misst sál sína, og fólk sýndi ekki öðrum samhygð á neyðarstundu.
Ómar, já, það er svona og var svona og verður enn þannig, EF EKKI verður farið að lögum. Gerist í samfélögum þar sem ekki er farið að lögum, þar sem fólk kemst upp með að virða ekki lög. Fólk missir siðferðiskenndina þar sem lög gilda ekki fyrir alla, heldur bara almúgann, bara suma, þar sem Jóni og séra Jóni er mismunað. Ríkið verður að fara að lögum og ég veit við eum sammála um það. Enda hefurðu sjálfur oft skrifað um að lög verði að virða. Og það var minn punktur, þó ég skilji vel nú hvað þið Pétur eruð að fara að ofan. Og kerfið var örugglega sjúkt þó það afsaki ekki glæpi nokkurs manns. Hins vegar er ég sammála að fólk fái minnkaða og kannski stórminnkaða dóma fyrir að segja sannleikann. Hann þurfum við að vita og þeir sem gefa okkur hann mættu fá umbun fyrir það í formi minnkaðra dóma og sýknunar. En dæma þarf fyrir dómi. Ekki gengur heldur að kenna bara nokkrum mönnum um það sem fjöldinn allur af mönnum voru með í. Og orðið mitt þarf ekki að vera síðasta orðið. Þið Pétur getið nú svarað.
Elle_, 27.4.2010 kl. 11:11
Blessuð Elle.
Áður en ég efnislega svara, þá langar mig til að spyrja þig hvað fær þig til að halda að gerendur Hrunsins hafi brotið lög???? Telur þú að hinn mikli her lögfræðinga sem var í vinnu hjá þeim, hafi verið á kaupi til að ráðleggja þeim hvernig best sé að fara á svig við lögin á þann hátt að um öruggt lögbrot sé að ræða????
Og hvað fær þig til að halda að menn með fulla hendur fjár komi og gráti hjá saksóknara í stað þess að verja sig með her lögfræðinga sem munu nota allar glufur til að koma gjörðum þeirra á gráa svæðið, en venjulegt réttarkerfi nær ekki yfir það svæði. Það er rík dómhefð gagnvart viðskipalífinu að það sem er ekki beinlínis bannað, það er leyfilegt.
En hins vegar er öruggt að margir þjónustufulltrúar brutu lög og eins nokkrir smákallar sem stukku á gróða án þess að fá fyrst lögfræðiráðgjöf.
En pistlar mínir fjalla um nauðsyn byltingar, og hvernig maður byltir án vopna. Viðurkenni maður nauðsyn kerfisbreytinga, þá íhuga menn þá því það eru ekki margar þekktar leiðir fyrir breytingaröfl að breyta grundvallarþáttum kerfa. Ef þú útilokar blóðuga byltingu, þá er sannleiksnefndin eina þekkta leiðin sem virkar til að afhjúpa innviði þess kerfis sem þú vilt breyta. Og það er erfitt að verjast henni því við þær aðstæður sem hún á við, þá er erfitt að vera á móti sannleikanum.
Önnur þekkt leið er hugmyndabarátta sem virkar á löngum tíma, ef hún þá á annað borð tekst. Dæmi um slíkt er yfirtaka auðræðisins á lýðræðisþjóðum Vesturlanda, annað eldra er yfirtaka jafnaðarmanna á stjórnkerfum Skandinavíu.
Þriðja leiðin er ekki til.
Fyrri pistlaröð mín um mistök Borgarahreyfingarinnar og það samhengi sem ég setti sannleiksnefndina í, útskýrir af hverju okkur í Andófinu mistókst að nýta tækifærið eftir Hrunið til að ná fram raunhæfum breytingum á auðræðinu þannig að við fengjum aftur okkar gamla góða kapítalisma og þjóðfélag sem átti sér framtíð.
Okkur mistókst vegna þess að leiðtogar Andófsins skyldu ekki þá aðferðafræði sem hélt þeim inní umræðunni, þeir áttuðu sig ekki á því að þeir þurftu að bjóða upp á nýja hugsun, og ný viðhorf, vegna þess að þeir gátu aldrei toppað kerfið í upphrópunum gegn hinum föllnu einstaklingum sem engu máli skipta lengur i dag.
Nema því máli að Andófsfólk eins og þú Elle, hefur meiri áhuga á vistun þeirra á stofnunum í stað þess að ganga frá kerfinu sem skóp þá. Andófið hafði ekki mátt í hvorug tveggja eins og ég rökstuddi það bærilega að Arinbjörn kveikti á forsendum rökstuðnings míns.
Hann veit nefnilega að fáum mönnum á jarðríki er eins illa við auðræðið og mér. Og ég vill það feigt, sem slíkt. En hvatinn að eignast um leið lífvænlega framtíð skemmdi ekki fyrir.
Valkosturinn sem þú tókst er að afsala sér þessari framtíð. Það er ekki flóknara en það.
Síðasti pistill minn, orðræðan um Byltingu byltinganna, er settur fram til að fólk íhugi þá framtíð sem bíður þeirra. Vissulega eru það rök að það sem hefur alltaf gerst í sögunni við vissar aðstæður, að það þurfi ekki að gerast næst. Dæmi um slíkt er fall Sovétríkjanna, sagan kennir að fallandi stórveldi reynir alltaf að bjarga sér með hernaðarbrölti en Gobba og Reagan tókst einhvern veginn að sjatla málin þannig að risaveldið gufaði upp, og enginn saknar þess.
Fyrir vikið eru þessir menn bjargvættir mannkyns.
Ég treysti ekki á nýja bjargvætti, sem spretta upp úr engu. Ég tel að aðeins víðtæk krafa almennings um ný viðmið og ný vinnubrögð geti komið heiminum upp úr því átakaferli sem hann er í dag. Ég þarf ekki að hafa rétt fyrir mér, en það er ekki valkostur að láta reyna á "þetta reddast" aðferðina.
Hugarfarið á bak við sannleiksnefndina og máttur hennar til að gera upp við kerfislægan vanda, er dæmi um hin nýju viðmið og hið nýja hugarfar. En þeir sem trúa á boxhanskana, verða að sætta sig við hið óhjákvæmilega mannfall þegar allt fer í bál og brand, eins og hefur alltaf gerst við ákveðið spennustig í heiminum. Lögmálin þar að baki eru svipuð og þau sem ráða spennubreytingum í jarðskorpunni og kera okkur kleyft að spá að Suðurlandsskjálfti komi eftir svo og svo mörg ár, eða Katla fari að gjósa bráðlega.
Heimur sem kanna ekki að leysa deilumál nema með átökum, hann lendir óhjákvæmilega í átökum.
Og næstu átök munu geta grandað lífvænlegri framtíð barna okkar.
Þess vegna bað ég þig Elle að íhuga þá hugsun sem að baki liggur, svona rétt á eftir að ró er komin á heimilið, og spá í hvað það er sem skiptir þig raunverulega máli í lífinu.
Sigurjón digri eða framtíð barna þinna.
Það réttarríki sem þú lýstir gildir við eðlilegar aðstæður, en ræður illa við kerfislægan vanda. Spurningin er alltaf hvar á að draga mörkin, eftir hvaða lögum á að dæma, og er máttur til staðar til að knýja fram dóma.
Þegar máttur er til staðar, þá þarf samt að íhuga mörkin, hvar á að stoppa. Dæmi um slíkt er uppgjör bandamanna við nasismann, þar var ákveðið að dæma aðeins þá verstu, þó í raun hefði mátt setja inn hálfa þýsku þjóðina. Svona ef lög hefðu ráðið för. Annað dæmi er Rúanda, eftir um 2 ára biðstöðu, þar sem hálf þjóðin sat i fangelsi eða því sem næst, þá ákváðu stjórnvöld að gefa almennum gerendum upp sakir, taldi þá fórnarlömb sjúks kerfis herstjóra sem notuðu þjóðernishreinsanir sína sem tæki í valdabaráttu sinni.
Hvorugt þessara uppgjöra hefði átt sér stað nema vegna utanaðkomandi hervalds og það var það sem ákvað mörkin. Ef slík mörk eru dregin af stjórnvöldum umbótaafla án ytri stuðnings, þá uppgötva þessi umbótaöfl að þau hafa ekki styrk til að draga þau, höfuðpaurar þess ástands sem á að dæma, þeir nýta sér óttann og þrasið um "af hverju ég en ekki hinn" til að grafa undan valdi hinna umbótasinnaða stjórnvalda. Mjög gott dæmi um slíkt er hvernig hagsmunaöfl mafíu og stóriðnrekenda komu Berlusconi til valda í kjölfar litlu ítölsku byltingarinnar sem hrakti spillta stjórnmálamenn frá völdum. Það varð aldrei neitt uppgjör við spillinguna og mafíuna, aðeins nýtt nafn á sömu valdaklíkunni.
Þetta snýst alltaf að lokum um getu, ekki vilja, og ef þú hefur ekki mátt til breytinga, þá veðjar þú á þá aðferðafræði sem líklegust er til að skila þér þangað sem þú vilt.
Ég vil frekar veita kerfinu banahögg, ef hægt er, en að nota skattfé mitt til að fóðra Sigurjón digra. Ég vil afhjúpa alla leyndina og fá fram upplýsingar um allt sem var gert. Þannig fæ ég vopn til að hindra sambærilegar gjörðir í framtíðinni.
Þurfi ég að velja um hvort ég geri upp við nauðgara fortíðar, eða hindra nauðgun í framtíðinni, þá er aldrei spurning í mínum huga hvora leiðina ég vel. Ég semdi við sjálfan andskotann ef það kæmi í veg fyrir frekari þjáningar fólks.
Þetta eru ekki venjulegir tímar, og við beitum ekki venjulegum lausnum á vandamál þeirra. Ekki nema náttúrulega ef við viljum ekki hafa nein áhrif á líf okkar og umhverfi.
Í því liggur diffinn.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 27.4.2010 kl. 13:43
Ómar, blessaður og sæll. Þú segir nokkuð. Já, örugglega voru menn og kannski fjöldi manna sem braut gegn okkur öllum hinum og gerðu það svo lúmskulega með hjálp lögmanna að þeir notuðu göt í lagakerfinu og brutu því ekki lög. Og það getum við alfarið þakkað óheiðarlegum og slöppum pólitíkusum. Kannski lagagötin hafi líka verið þar viljandi fyrir þá sjálfa? Kæmi ekki á óvart.
En nei, Ómar, ekki misskilja mig, ég vil ekki frekar að fólki verði sett inn í stofnanir en að kerfið verði lagað. Kerfið er gjörsamlega rotið í gegn og ég vil líka ganga frá kerfinu. Veit bara ekki leiðina, játa það fúslega. Ómar, agaleysið á Íslandi er óvanalegt miðað við önnur vestræn lönd. Og það er ekki út af engu. Lagaleysi veldur agaleysi. Menn læra að þeir þurfa ALDREI að sæta nægri ábyrgð í þessu volaða landi. Geta pínt litlar stelpur og stráka og svikið allt og alla og fá ALDREI neina dóma sem passa við verknaðinn. Og ég er EKKI að mæla með ofurdómum eins og oft í Bandaríkjunum og víðar. Hér veður fólk þó yfir allt og alla og örfáir kunna að víkja fyrir gömlum manni á leið yfir götu. Þeir fara sem komast og af því geta það og mega það og yfirgangurinn í heild er gjörsamlega óþolandi. Í svona andrúmslofti er ekki við neinu öðru að búast en níðingsskap og svikum. Og það kemur beint að ofan frá pólítíkusum. Hefurðu hlustað á ruddaskapinn sem viðgengst í opinberu Alþingi okkar? Öskrandi ruddar eins og Björn Valur, Jóhanna, Magnús Orri, Pála og Ólína. Og þessum hrikalega sóðaskap er útvarpað í öll heimili landsins og beint inn til barnanna okkar og haft fyrir þeim þar.
Nú skal ég ekki lengur standa gegn leiðinni ykkar Péturs á óeðlilegum tímum og eins og þú ert að tala um. Og ég skil vel að þið eruð að tala um kerfislægan vanda, Ómar. En ég meina að í heildina litið verður að gera fólk ábyrgt gerða sinna gegn lögum. Og ég trúi samt ekki á neina boxhanska, Ómar. Öfugt við, vil ég að fólk víki (ekki gegn kúgun og óréttlæti þó) og læri að virða landslög. Veistu núna hvaðan ég kem eða finnst þér ég enn vera á villigötum? Með hlýrri kveðju úr Suðurlandsspillingunni.
Elle_, 27.4.2010 kl. 17:23
Þeir fara sem komast og af því þeir geta það og mega það og yfirgangurinn í heild er gjörsamlega óþolandi.
Elle_, 27.4.2010 kl. 17:28
Blessuð Elle.
Jamm, Elle, þú ert ennþá út á túni. En þar eru safarík grös og gómsæt blóm, sem geiturnar þrjár þrá að bíta, en þurfa fyrst að komast yfir brúna, og þar er ógeðslega stóra ljóta tröllið með ógeðslega stóru eyrun, og heyrir því í litla Kiðakið, jafnvel þó það heyrist aðeins pínupons trítl, og tröllið er sofandi. .....Datt aðeins inní kvöldsögu sem ég er búinn að segja milljón sinnum.
Það er á hreinu að kerfishrunið var á löglegum forsendum, og þetta kerfishrun varð um allan hinn vestræna heim þar sem auðræðið tók yfir hugmyndaheim viðskipta og stjórnmála. Okkar ágæta íslenska agaleysi er engin skýring á því.
Vandinn sem við er að eiga er að um töluverðan tíma hefur viðskiptalífið komist upp með að fá dómara til að dæma þröngt, ekki í anda laga. Og svo við lendum ekki í sjálfsásökun, þá er um innflutt vandamál að ræða. Ein af forsendum endurreists þjóðfélags, er ný viðhorf í réttarkerfinu, og vil ég þar vísa á ágætan málflutning hennar Elvieru, bæði á bloggi hennar, sem og til dæmis í Silfri Egils.
En lög féllu undir lokin, það er öruggt, annars hefðu þessir menn enga sjálfsbjargarhvöt.
Í eðlilegu ástandi þá væri mér alveg sama um örlög þeirra, en viðurkenni það fúslega að grunnheimspeki mín er viðurkenning á gildi fyrirgefningar og iðrunar. En að sama skapi þá hika ég ekki við að vega í stríði, ef illskuöfl standa í vegi. En fallinn óvinur þarf ekki að óttast mig og mína hefnd, að því gefnu að hann sé ekki að blása til nýrrar orrustu.
Í eðlilegu ástandi þá væri ég ekki að blogga.
En þetta er allt ef pistlar, fólkið kaus að fylgja glataðri hernaðartækni, eins og menn hafi ekkert lært af öllum hinum mislukkuðu uppreisnum. mannkynssögunnar Það gerðu aftur á móti leiðtogar Viet Kong, þeir fóru fyrst í Sorbonne herskólann, og lærðu herfræði. Síðan tóku þeir Frakkanna með þeirra eigin þekkingu.
Til dæmis vissu þeir að þú tekur aðeins þá orrustu sem þú ræður við og átt möguleika á að vinna.
Íslenska andófið gerði það ekki.
Þess vegna sitjum við uppi með tapað stríð, auðræðið er langt komið með að endurreisa sig. Okkar eini sigur var tímabundinn varnarsigur í ICEsave deilunni, og það kom til af tvennu. Einstaklega léleg forysta ríkisstjórnarinnar, sem hefur heldur aldrei lært neitt af hersögunni, og eitursnjallt áramótaskaup sem stillti Ólafi Ragnari upp við vegg. Hans eina útgönguleið var að standa með þjóðinni, ekki auðræðinu.
Annars er þetta búið Elle. Það er ekki flóknara en það.
Ekki afneita boxhönskum þínum, þeir eru alþekktir og höggþungir. Eina sem ég er að gera er að beina þeim í réttan bardaga. Þetta er eins og að ef þú yrðir fyrir árás gengis, sem greinilega væri stjórnað af litlum naggi sem heldur sig til hlés. En fyrir atlögunni færi þekktur ruddi með hanakamb og tattó á nefinu, áður margoft búinn að abbast upp á þig. Þar sem þú hefði byssu í veskinu (eru konur ekki alltaf með veski???), þá næðir þú að skjóta ribbaldann og gera hann óvígan. Þú átt ennþá eftir 4 kúlur í byssunni, en þeir sem eftir standa eru 6.
Hvað gerir þú???
Eyðir skotunum í að skjóta þegar fallinn mann vegna þess að hann er svo ljótur, og var svo hættulegur, og líka búinn að angra þig í mörg ár?????
Reynir að skjóta þá sem koma í næstu atlögu????
Eða reynir að ná skoti á nagginn sem hvetur hina áfram????'
Þín leið Elle, er að skjóta fallinn ribbalda og vera síðan ákaflega hissa á afleiðingum árásarinnar, hver sem þær annars yrðu. Og ekki taka það persónulega, þjóðin er mestöll úti á túni með þér.
Og hvað Pétur vin okkar, þá er hann með sína skoðun, hver sem hún er. Reikna með að hann vilji rassskella þessa menn opinberlega af ærnu tilefni. En hann setti sig inn í rökin á bak við ályktanir mínar og virti þau. Hans innlegg var innlegg sátta því hann var sammála báðum ræðumönnum.
Ég er kannski sérstakur með það að gera, að ég hef eiginlega engar skoðanir á hinum föllnum mönnum, nema að ég vorkenni þeim. Það er engum hollt að tapa sálu sinni, og að mínu áliti mannvonska að meina þeim að endurheimta hana, hvernig sem menn fara að því. Réttlátur dómur er til dæmis ein leið til þess.
En ég hef mjög sterkar skoðanir á því að láta þessa menn ekki komast upp með að eyðileggja meira en þeir hafa þegar gert. Öll umræða um verk þeirra er kerfisleið til að hindra varnarbaráttu þjóðarinnar.
Og það tókst Elle, það tókst.
Svo núna er það ljóðrænan og sumarið.
Og óðurinn til hennar Sophie, sem snart mig djúpt.
Og ég skal hreinlega játa að ég hélt að sá óður væri ljóðræna sem enginn nennti að lesa nema þá ég auglýsti hana sem víðast með rífandi kjafti út um víðan völl. Sem ég er að mestu hættur að nenna eftir að skrifin urðu ósjálfráð. Samt hafa yfir 400 manns lesið einhvern af Rósar pistlum mínum, og það er mér hvatning til að reyna að segja eitthvað að viti einhvern tímann sem vitið kemur yfir mig.
Á meðan þigg ég alltaf smá högg frá þínum hönskum, bara á meðan þau eru ekki mjög föst. Það getur verið svo vont.
Bið að heilsa á gosslóðir.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 27.4.2010 kl. 20:28
Bæta við athugasemd
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 13
- Sl. sólarhring: 624
- Sl. viku: 5597
- Frá upphafi: 1399536
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 4772
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Blessaður Arinbjörn.
Harmur Borgarahreyfingarinnar er mikill, en hann er aðeins brot af heimsins harmi. Sundurlyndi, klíkumyndun, skortur á umburðarlyndi, allt þetta fylgir þegar mikið fleiri en tveir með ólíkar lífsskoðanir og ólíka persónuleika koma saman og mynda hreyfingu um eitthvað.
Hvor hefur rétt fyrir sér????
Þetta er sígild spurning og vandsvöruð.
Þó kennir sagan eitt og það er að svona hreyfing á enga framtíð nema að annað að tveggja komi til, miklar hugsjónir eða mikill lífsháski, nema hvorutveggja komi til.
Í dag tel ég mikinn háska voða yfir, bæði þjóð okkar sem og þann frið sem við höfum talið sjálfsagðan svo lengi hér á Vesturlöndum. Og ég tel að miklar hugsjónir þurfi til að vinna bug á þessum vanda (siðleysi Nýfrjálshyggjunnar).
Þó ég væri stuðningsmaður Borgarahreyfingarinnar, og það einlægur þá taldi ég mig ekki eiga samleið með hreyfingunni því hún væri um of bundin í fortíð og uppgjöri, uppgjöri við einstaklinga en ekki kerfið sem skóp þá og skóp þann háska sem við er að glíma.
En margt frábært var sagt og margt frábært var gert. En það er ekki mikil hugsjón sem þolir ekki deilur eða rangar áherslur. Sem er ekki þess virði að berjast fyrir. En ef sú barátta byggist á því að vega mann og annan þá endar hugsjónin í blóðbaði.
Besta leiðin til að forðast slíkt er að telja vígaferli ekki lausn á ágreiningi. Og mynda þann hugsjónaeld sem þolir skiptar skoðanir. Og frekjuhunda og vitleysinga og gáfumenn og bessavissa, og jón og Jón, og alla þá sem eiga leið framhjá.
Stundum er lífsháskinn þess eðlis að hann krefst þess.