9.4.2010 | 15:10
Hafi ESB áhuga á Íslandi,
Þá knýr það breta og Hollendinga að fara eftir lögum og reglum sambandsins í ICEsave deilunni.
Krafa þeirra er algjörlega ólögleg, því hún styðst ekki við neina réttarheimild, þó eru skýr ákvæði í EES samningnum hvernig á að leysa svona ágreiningsefni.
EES samningurinn er réttarsamningur, milli tveggja réttarsamfélaga, ESB og EFTA. Bæði þessi réttarsamfélög hafa dómstóla, annars vegar Evrópudóminn og hins vegar EFTA dóminn. Það er fáheyrt að krafa, sem er margföld þeirri upphæð sem Þjóðverjar voru dæmdir til að greiða fórnarlömbum sínum í skaðabætur eftir seinna stríð, að hún skuli vera innheimt einhliða með kúgun og ofbeldi.
Aðdragandi seinni heimsstyrjaldar markaðist af slíkum vinnubrögðum, og bæði Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið voru stofnuð með þeim megin tilgangi að koma í veg fyrir slík ofríkisvinnubrögð í framtíðinni.
Nái bretar og Hollendingar sínu fram, þá er það gjaldþrot siðmenningarinnar gagnvart villimennsku, gagnvart villumennsku ofríkismanna og kúgara.
ICEsave deilan snýst ekki um pening, þó margir kjósi að halda svo. Rætur hennar eru miklu dýpri en það.
Hún snýst um hvað má og hvað má ekki og hvaða vinnubrögð eru leyfileg og hvað ekki.
Allt grundvallarspurningar siðmenningarinnar því ef við kunnum ekki svörin við þessum spurningum, þá erum við ófær um að móta lífvænleg samfélög þar sem helgi og líf manneskjunnar eru tryggð.
Réttarríkið leyfir ekki einhliða innheimtu hins sterka, það krefst þess að hann lúti reglum réttarríkisins, og löghelgi kröfur sínar fyrir réttbærum dómi. Það er liðin tíð að einhver, eða einhverjir séu ríki í ríkinu, fyrir lögum eru allir jafnir, og allir verða að virða lögin.
Þessa einföldu staðreynd um réttarríkið skilja allir nema íslenskir kvislingar sem vilja fórna meðbræðrum sínum til að þóknast kúgurum þjóðar sinnar. Hvergi annars staðar í heiminum má lesa greinar í blöðum þar sem lögleysa og kúgun er réttlæt með allskonar hæpnum lagarökum, það er eins og þetta vesæla fólk skilji ekki að það er ekki þess að skera úr um lögmæti krafna breta, heldur réttbæra dómstóla.
Fávísi sína felur það síðan með orðavaðli eins og að ICEsave deilan snúist ekki um lög og reglur, heldur sé um pólitíska deilu sem krefjist pólitískra lausna, og skýr lagarök íslensku þjóðarinnar, séu ekki rök, heldur lagatæknilegur útúrsnúningur. En vesæld og fáviska þessa kvislinga er þó ekki algjör, það ætlar ekki sjálft að borga bretum, heldur ætlast það til að skjólstæðingar velferðarkerfisins borgi það með blóði sínu.
Vitið nær sem sagt til að verja eigið veski, en um leið afhjúpar það siðleysi sitt og mannvonsku.
Réttarríkið fordæmir vinnubrögð breta, en siðmenningin fordæmir þá hugsun sem að baki liggur þeirri fullyrðingu að hægt sé að innheimta skuldir einkaaðila hjá saklausum almenningi annars ríkis. Hvernig dettur nokkrum manni í hug að skriffinnar hafi rétt til að setja inn í regluverk sín, ákvæði sem fela í sér ótakmarkaða ábyrgð þegna annars ríkis ef allt fer á versta veg.
Skuldbindingar og ábyrgðir ríkja eru alltaf endanleg, það eru takmörk fyrir hvað hægt er að ganga nærri tekjum og eigum fólks með skattlagningu. Og þær þurfa að liggja fyrir í upphafi, ekki eftir á. Og þær þurfa að vera settar á lögformlegan hátt af þar til bærum aðilum, sem hjá sjálfstæðum ríkjum eru þjóðþing viðkomandi landa. Og þær sem eru settar á lögformlegan hátt af viðkomandi þjóðþingum, verða að standast stjórnarskrár viðkomandi landa.
Ekkert þjóðþing getur gengist í ábyrgð fyrir einhverju sem stefnir fullveldi viðkomandi lands í hættu. Hafi það verið gert, þá krefst neyðarréttur viðkomandi þjóðar að slík ábyrgð sé afturkölluð.
Ábyrgðir og skuldbindingar mega heldur ekki vera það miklar að þær stefni velferðarkerfum viðkomandi ríkja í hættu, því allir eiga sinn rétt til þjónustu samfélagsins, vegna menntunar, vegna heilsugæslu, vegna framfærslu ef sjúkdómar, elli eða annað kemur í veg fyrir að fólk geti séð fyrir sér sjálft. Öll þessi grunnréttindi eru lögvarin í stjórnarskrám ríkja Evrópu, og enginn skriffinnur getur sett reglugerð sem gerir einstökum ríkjum Evrópu ókleyft að uppfylla þessar skyldur, því skattfé fer í að borga skuldir einkabanka.
Því það er ein grunnspurning sem íslenskir föðurlandssvikarar hafa aldrei svarað, og hún er sú, hvað ef ICEsave er upp á 6.500 milljarða, ekki 650 milljarða, hvað hefðu þið þá gert???? Selt hluta þjóðarinnar í beinan þrældóm eins og negrakóngar Afríku gerðu á tímum þrælaverslunarinnar?? Eða sent kínverskum námaeigendum vinnudýr eins og stjórnvöld í Norður Kóreu gerðu til að greiða fyrir kínverskan varning????
Þetta er hin stóra þversögn ICEsave deilunnar, falli dómur gegn þjóðinni hjá EFTA dómnum, þá er sá dómur andstæður lögmálum siðmenningarinnar, því siðmenningin bannar að fólk sé gert eignarlaust og selt í þrældóm. Siðmenningin bannar valdhöfum að samþykkja ótakmarkaðar ábyrgðir.
Sé það gert, þá leyfir siðmenningin neyðarrétt, að þjóðir hafni ólögum sem stefna tilveru þeirra og lífi í voða.
Neyðarréttur þjóða er skýr og fortakslaus. Hrekklausu fólki á Íslandi er talið í trú um að til sé æðri réttarregla en hann, og kallast sú regla bann við mismunun samkvæmt stofnsáttmála Evrópusambandsins. En Evrópusambandið er samband fullvaldra ríkja, og þegar þessi fullvalda ríki telja sig nauðbeygð til að grípa til ráðstafana sem gætu túlkast sem mismunun, en þau telja nauðsynlegar vegna sinna grundvallarhagsmuna, þá hefur Evrópudómurinn dæmt þeim í vil.
Því auðvita viðurkennir Evrópurétturinn neyðarréttinn, enda annað bein ávísun á endalok ríkjasamstarfsins, en lagadeilurnar snúast um hvort tilvísun í hann sé misnotuð og notuð til að réttlæta aðgerðir sem brjóta regluna um mismunun, án þess að nægjanlegt tilefni er til þess.
Og að sjálfsögðu er það hlutverk dómsstóla að skera úr um slíkt.
En enginn dómstóll getur gengið gegn neyðarrétti, um hann er ekki deilt.
Nema á Íslandi.
Og allar þessar deilur eyðileggja draum Evrópusinna um aðild Íslands að sambandinu. En þær gera meira, þær eyðileggja trúverðugleika sambandsins, þær afhjúpa að þegar á reynir, þá tekur sambandið hnefaréttinn fram yfir lög og reglur.
Lengra erum við ekki komin frá þeim hörmungum sem kúgun og yfirgangur kölluðu yfir heiminn á árunum 1939-1945.
Það er sorglegt því heimurinn hefur ekki lengur efni á að deilur séu leystar með kúgun og yfirgangi. Hirozima er áminning um endalok þeirrar leiðar.
Þess vegna verða Íslendingar að hafa staðfestu til að skilja, að sumt má ekki. Jafnvel þó það kosti tímabundið þrengingar og átök við smámenni.
Það má aldrei láta undan ólöglegri kúgun og yfirgangi.
Við megum aldrei gefa eftir þau réttindi sem lýðræðisbylting síðustu 200 ára hefur skilað okkur.
Höfðingjarnir hafa hvorki rétt eða völd, til að setja okkur upp í pant fyrir banka sína.
ICEsave deilan er ekki flóknari en það.
Kveðja að austan.
Ingibjörg Sólrún of svartsýn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 16
- Sl. sólarhring: 26
- Sl. viku: 2035
- Frá upphafi: 1412734
Annað
- Innlit í dag: 16
- Innlit sl. viku: 1788
- Gestir í dag: 16
- IP-tölur í dag: 14
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.