Ekkert er nýtt undir sólinni.

 

Litlar þjóðir, stýrt af smáu fólki, aðstoða breta og Hollendinga við fordæmalausa kúgun á varnarlausri smáþjóð.  

Kúgun sem á sér engin fordæmi síðustu 70 áratugi í vestrænni sögu.  Smáþjóð er neydd til að taka á sig fjárhagsskuldbindingu sem ef illa fer mun kosta hana sjálfstæði sitt, í besta falli mun hún rústa innviði samfélags hennar.

En  ekkert  er nýtt undir sólinni, lýðræði Evrópu var greitt svipað högg 1938 á frægum fundi sem kenndur er við Munchen.  Á þeim fundi var smáþjóð stillt upp við vegg og hún krafin ólöglega um landsvæði og fé af kröfu fanta (bully kallar Financial Times þessa hegðun).  Þessi smáþjóð hafði krafta og burði til að verja sig, en um þriðjungur þjóðar hennar studdi kúgun hinna erlenda fanta, og alþjóðasamfélagið, stýrt af smáu fólki, aðstoðaði kúgarana eftir fremsta megni.

Smáþjóðin var ein og leiðtogar hennar bognuðu og gáfust upp.

 

Samsvörunin er næstum því algjör, en þó ekki alveg.  

Eins og á Íslandi, þá studdu um þriðjungur innlendra hina erlenda fanta, en Tékkum bar þó gæfa til að kjósa ekki yfir sig stjórn þessara föðurlandssvikara.  Það skipti miklu mál, eftir á þegar þjóðin háði sitt hatramma frelsisstríð gegn föntunum.

Krafa Þjóðverja, sem byggðist á landabréfi frá seinni hluta tíunda aldar, og sýndi að stór hluti Tékkóslóvakíu hafði þá verið hluti hins Þýska keisaradæmis, var þó byggð á einhverju sem fótur var fyrir, það var jú rétt að Þýskaland miðalda náði yfir þetta landsvæði, þó mjög vafasamt væri að heimfæra þá kröfu upp á nútímanna.  Í þessu samhengi má minna á að krafa gyðinga til landa í Palestínu byggist á landabréfi sem er rúmlega 2.000 ára gamalt, og krafa Kína um yfirráð yfir Tíbet byggist líka á alda gömlu landabréfi.

Þó út úr kú væri, og ætti heima út í fjósi, þá er alþjóðasamfélagið það skrýtið, að það á til að ræða svona vafasama gjörninga, og jafnvel framkvæma þá eins og tilurðu Ísraels ríkis sannar.

 

Krafa fantanna sem hyggjast ræna íslenskan almenning, er ekki í besta falli "mjög vafasöm", hún er röng, hún er ólögleg.  Vegna  þess að hún vísar ekki í eitthvað sem er huglægt, eða gæti byggst á mati, hún vísar í skýran alþjóðlegan samning, og á þeim grunni er hún réttlæt.

Nú vill svo til að í þeim samningi stendur skýrum stöfum að Íslendingar séu ekki í ábyrgð fyrir einkabanka sína, enda ef slíkt væri þá væri grunnur hins kapítalíska markaðar brostinn, því meginþorri viðskipta á honum eiga sér stað á milli rekstrarforma með takmarkaðri ábyrgð (aðeins eignir rekstarformsins koma á móti skuldum).  Ef eftir á, er hægt að koma þeirri takmörkuðu ábyrgð yfir á samlanda þeirra sem reksturinn stunduðu á frjálsum markaði, þá er nauðvörn almennings að banna slík rekstrarform, og vandséð er hvernig viðskipti geta átt sér stað án einstaklinga eða hlutafélaga.  Kaosið yrði algjört.

En um skýran lagatexta má deila, hafir þú þau ráð að ráða til þín siðblindan lögfræðing, sem fyrir ríflega borgun, fullyrðir að ekki þýðir, ekki ekki.  Þó það standi í lögum að það sé bannað að drepa, þá stendur til dæmis ekki í lögum að örvhentur maður á fullu tungli, megi ekki aðstoða tilfallandi vegfaranda að skoða andaheima, þó svo hann, óvart, eigi ekki afturkvæmt þar.  Þetta er tilbúið dæmi um þá útúrsnúningaáráttu auðmanna og auðhringa sem hafa komist upp með að koma öllum skýrum lögum yfir á gráa svæði með því að kalla ólöglegan verknað, öðrum nöfnum, sem ekki er minnst á í hinum skýra lagatexta, og þar með með tilvísun í vafa, þá er sýknað vegna hins meinta glæps, og í kjölfarið kallað á skýrari lagasetningu.  

Og vissulega er fræðilegur möguleiki, að dómstólar túlki ekki, sem ekki ekki, en það er dómstóla að túlka og dæma lög, ekki þeirra sem eiga hagsmuna að gæta.  Þess vegna er krafa hinna bresku og hollensku fanta, algjörlega ólögleg, þeir fóru ekki eftir skýrum réttarfarslegum ákvæðum EES samningsins um hvernig úr ágreiningi um framkvæmd einstakra ríkja á samningnum er skorið.

 

Þetta er hinn stóri munur á fantaskapnum 2010 og fantaskapnum 1938.  Þá var ekki hægt að vísa í skýra alþjóðasamninga, og þá hafði engin dómstóll lögsögu í málinu.  Og í samræmi við alþjóðavenju, þá var gert út um málið á alþjóðlegri ráðstefnu, kennda við Munchen, og það sem slíkt, var eðlilegur framgangsmáti.  

Það var niðurstaða fundarins í Munchen sem var rothögg fyrir lýðræði Evrópu.  Smáþjóð var kúguð af stærri nágranna, með aðstoð "alþjóðasamfélagsins".  

Og þar með erum við komin af þriðju samsvöruninni, þá og í dag, leiða smámenni lýðræðisþjóðir Evrópu.

Slíkt endar alltaf með ósköpum.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Íslandslán ekki á dagskrá AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 2022
  • Frá upphafi: 1412721

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 1775
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband