31.3.2010 | 12:28
Lokaatlaga breta gegn íslenskri þjóð er hafin.
Hvenær hún hófst nákvæmlega, veit ég ekki, ég er ekki félagi í bretavinafélaginu, og er ekki í vinnu hjá bretum við að svíkja þjóð mína.
En það er með hana eins og svartholið, merkin eru augljós þó óbein séu.
Í þessum örpistli mínum ætla ég ekki að vinna neina fræðilega úttekt á stríðsaðgerðum vinnumanna breta, aðeins að benda á nokkur augljós dæmi, sem þegar saman eru sett á eitt teikniborð, þá sjást útlínur skipulagðrar aðfarar að íslenskum almenningi, að íslenskri þjóð.
Það er greinilegt hvað menn notuðu tímann í fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Megintaktík breta er tvennskonar, jarðvegur fyrir ICESave uppgjöf er undirstungin í bland með hræðsluáróðri og hugmyndafræðilegum áróðri, og andrúmsloft upplausnar og getuleysis er skapað.
"Það verður að gera eitthvað, landið er óstjórnhæft".
Hræðsluáróðurinn fór markvisst af stað strax eftir kosningar.
Hræðsluáróðurinn.
Dæmi um hann er viðtal í Fréttablaðinu við hagfræðing, sem flestir álýta ekki hagdverg, og því talinn nothæfur í útburðinum. Gylfi Zoega, deildarforseti Hagfræðideildar HÍ, sagði að vissulega kæmust við út úr kreppunni án ICEsave og AGS, en það tæki lengri tíma og kreppan yrði dýpri. Rök Gylfa voru að vextir héldust háir, gengið yrði áfram veikt og ríkið yrði að skera ennþá meira niður í ríkisútgjöldum.
Sama segir Már Guðmundsson á blaðamannafundi Seðlabankans þegar síðasta vaxtalækkun var kynnt. Undir fyrirsögninni "Ný efnahagsáætlun ef ICEsave leysist ekki" er þetta haft efir Má Guðmundssyni, ".... feli í sér lægri gengi, lægri raunlaun, hærri vexti og enn meira aðhald í ríkisfjármálum." en það athyglisverða er samt sú fullyrðing hans að þjóðin þurfi ekki AGS lánin til að komast hjá greiðsluþroti. Aldrei hefur svona háttsettur embættismaður viðurkennt þessa staðreynd fyrr.
Atvinnurekendur létu heldur ekki sitt eftir liggja, Vilhjálmur Egilsson segir í Fréttablaðinu að "aðgangur að lánsfé hangir á ICEsave".
Og undir þessu öllu var spilað stef frá verkalýðshreyfingunni að hér yrði mun meiri samdráttur ef þjóðin tæki ekki á sig bretaskattinn. Þar lögðust menn svo lágt að auglýsa síbylju að Alþingi yrði að semja um skattinn svo hægt væri að hefja uppbyggingu atvinnulífsins.
Og þessu er ekki svarað, ekki í fjölmiðlum að minnsta kosti, það er eins og þjóðin sé ein í baráttu sinni, að allir áhrifamenn hennar hafi svikið hana.
Hugmyndaáróðurinn.
Á mjög svipuðum tíma þá birtist grein eftir virtan sagnfræðing í Fréttablaðinu, grein á Smugunni eftir virtan rithöfund og Egill Helgason vitnaði í blogg virts heimspekings á síðu sinni, sem er hinn óopinberi umræðuvettvangur þjóðarinnar.
Allar þessar greinar voru með sama stefinu, en í mismunandi búningi. Stefið var um þjóð græðgi og aumingjaskapar sem ekki hefði manndóm til að horfast í afleiðingar gjörða sinna. Og neitaði að standa við skuldbindingar sínar. Mér vitanlega hefur enginn þungavigtarmaður birt grein gegn þessum áróðri, hann fær að lifa og dafna, og grafa um sig í þjóðarsálartetrinu.
Upplausnarástandið.
Þeir sem þekkja eitthvað til sögunnar, eða eru eldri en unglingar, þeir þekkja útlínur þeirrar atburðarrásar sem nú er hönnuð af vinnumönnum breta og hefur það að markmiði að fá fólk til að finna fyrir öryggisleysi og ótta um framtíðina.
Þegar Chile búar kusu sér vinstrisinnaðan forseta, Salvador Allende, árið 1970 fór að stað atburðarrás sem endaði með ákalli um sterka leiðsögn, leiðsögn sem Pinochet herforingi bauð upp á 1973. Í stuttu máli þá leystist þjóðfélagið upp í ringulreið og stjórnleysi, samt var ekkert í stjórnarathöfnum Allende sem útskýrði þá upplausn, seinna viðurkenndi CIA að hafa stjórnað atburðarrásinni og hannað stjórnleysið. Fyrir áhugasama þá má benda á þessa grein á Wikipediu, http://en.wikipedia.org/wiki/Salvador_Allende, hún útskýrir vel vinnubrögð "atburðarsmiðanna" og samsvörunin við Ísland í dag er augljós.
Í Chile fór hluti verklýðshreyfingarinnar mjög hart fram gegn stjórnvöldum, frægastir voru vörubílstórar, en foringjar þeirra þáðu háar fúlgur fyrir andófið, þeir voru á launaskrá bandaríska ríkisins. Hér er það ASÍ og Samiðn sem leiða vagninn í bjánaskap og bullugangi gegn þeim þingmönnum sem vörðu þjóðina gegn skattakröfum breta. Auglýsingar Samiðnar fyrir hálfum mánuði verða að skoðast í samhengi við níðskrif um þann hluta VG sem getur ekki selt sálu sína fyrir völd, og þá atburðarrás sem var opinberuð á flokksráðsþingi Samfylkingarinnar, að landið þyrfti starfshæfa stjórn.
Hagdeild ASÍ leikur sama skollaleikinn, hún tók saman augljósar afleiðingar Óráða AGS, hinna þrautreyndu aðferða sjóðsins til að dýpka kreppur og auka atvinnuleysi, og snéri þeim upp á faðirvorið og ICEsave. ASÍ, sem á að gæta hagsmuni alþýðunnar og verja velferðina, vinnur grímulaust fyrir óvininn. Þetta væri eins og Ísraelsmenn hefðu tekið doktor Dauða og flutt hann til Ísraels, ekki til að mæta dóm sínum, heldur til að sæma hann fálkaorðunni og gera hann að yfirmanni heilbrigðismála landsins, með vísan í fyrri reynslu hans.
Og þá er það skollaleikurinn með skötuselinn, svo augljóslega stýrt plott að það er sorglegt að sjá vana sjóara eins og ritstjóra Morgunblaðsins trúa því eins og nýju neti.
Það er kreppa í landinu, og alltí einu fer allt í loft upp vegna skötusels, fisks sem fæstir hafa séð, nema þá á mynd. Einhver einskis verður hlutur, verður tilefni hnútkasts og upplausnar, allt fer í háloft milli aðila vinnumarkaðarins annars vegar og stjórnvalda hins vegar.
Upplausnarástand sem er búið til úr ekki neinu.
Síðan kemur forsætisráðherrann og talar um ketti. Landið sé ekki starfhæft því hluti af þingmönnum samstarfsflokksins séu kettir í dulargerfi, og hafi aðeins áhuga á músaveiðum.
Og almenningur skilur hvorki upp né niður, en fær það samt á tilfinninguna að allt leysist með ICEsave.
Hvenær endar plottið og hvernig.???
Hvenær vinnumenn breta spila út sínum lokaspilum, veit ég ekki. Á ekki kristalkúlu.
En það er augljóst hvernig það endar.
Eins og í Chile verður kallað á sterka stjórn. Vissulega ekki herforingjastjórn, en virka hernámstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Sterk hagsmunaöfl innan Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins eru að ná saman, ná saman um"skynsama" samninga í ICEsave deilunni, og áframhaldandi samstarf við AGS.
Og nýja stóriðju á forsendum Stalíns.
Hvernig mun Bjarni Benediktsson réttlæta samstarfið??? Ráðgjafar hans munu ná í texta ræðunnar sem Chamberlain hélt við heimkomuna til London eftir að hafa neytt Tékka til að samþykkja sinn ICEsave samning kúgunar og undirokunar. Það verður eitthvað bla bla um frið og samstöðu, og nauðsyn þess að semja, þó í því felist eftirgjöf gagnvart yfirgangi, það verður jú að halda friðinn.
Og það þarf sterka stjórn, fyrir framtíðina, byggða á raunsæi og erlendum lántökum. Og bla, bla.
Og bla.
Kannski endar plottið á annan veg. Ekki vegna þess að einhver er að berjast gegn því fyrir utan mjög fámenn samtök ICEsave andstæðinga, Þjóðarheiður. En það stjórnar enginn alveg atburðarrás, og eitthvað ófyrirséð getur alltaf gerst.
Og kannski mun þjóðin samt ekki kyngja ICEsave.
En vinnumenn breta eiga leiksviðið, þeir stjórna fjölmiðlaumræðunni og öllum gjörðum hagsmunasamtaka. Og það er ekkert skipulagt afl að vinna gegn þeim.
Aðeins við, hinn almenni maður andæfum, og þó varla því mikil deyfð ríkir í dag.
Þessi grein er mitt framlag til að orða það sem við blasir, aðrir geta orðað ferlið á annan hátt, það heitir umræða.
Ég ætla einnig að fara aðeins yfir áróður bretavina í nokkrum bloggpistlum næstu daga. Þeir verða ekki fréttatengdir, ætlaðir áhugamönnum um framtíðina. Til íhugunar og til viðbragða.
Til að við sofum ekki á verðinum, séum tilbúin með rökvopn okkar þegar andlit kúgunarinnar verður öllum sýnilegt.
Annars bendi ég á Þjóðarheiður. Um þau má lesa á þessum link.
http://www.wix.com/Thjodarheidur/main
Það er alltaf von á meðan einhver stendur á móti.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 0
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 2019
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1772
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sannarlega gagnrýnir þú með réttu geðlausa "vinnumenn breta", Ómar, vissulega er það rétt, að "þeir stjórna fjölmiðlaumræðunni og öllum gjörðum hagsmunasamtaka," en þagga markvisst niður í sömu fjölmiðlum mótmæli og yfirlýsingar samtakanna Þjóðarheiðurs, sem 71 maður tilheyrir nú. Ég þakka þér fyrir að halda merki meirihluta Íslendinga hátt á loft. Fyrir utan heimasíðu Þjóðarheiðurs, sem þú vísar í, eru samtökin einnig komin með Moggabloggsíðu, hún er hér: thjodarheidur.blog.is; þar er ýmsar nýlegar greinar að finna. – Með kærri kveðju,
ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE, 31.3.2010 kl. 14:15
Og þarna átti ég bara eftir að setja nafnið mitt undir, en ég er formaður samtakanna, Loftur Þorsteinsson varaformaður, Elle Ericson ritari og meðstjórnendur Theódór Norðkvist, Guðni Karl Harðarson og María Jónasdóttir.
Jón Valur Jensson, 31.3.2010 kl. 14:18
Vert er að lesa Chomsky á Google-Books...fyrstu síðurnar um "hannaðann stöðugleika"...mjög lík þinni samantekt http://books.google.com/books?id=NrLv4surz7UC&printsec=frontcover&dq=chomsky&hl=is&cd=1#v=onepage&q=&f=false
Haraldur Baldursson, 31.3.2010 kl. 14:40
Nú er að drífa sig niður í byrgið.
Finnur Bárðarson, 31.3.2010 kl. 16:42
Takk fyrir innlitið, heiðursmenn og aðrir góðir menn.
Gleymum ekki hjálmunum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 31.3.2010 kl. 22:54
Hér er nóg af orku, mat og fata efni ekkert þarf að byggja á næstunni. EU er bara 8% markaðarins.
Kínverjar og Indverja bjóða upp á ódýra tæknivöru: geisla diska og þannig.
Hér hljóta að vera hálfvitar við stjórnvöldin. Láta fólk betla sér til matar.
AGS er hér til að aðstoða við endurreisa fjármálakostnaðinn og verður líka að gæta hagmuna stærstu viðskipta aðila Íslands ekki bara ríkistjórnanna og þeirra sérfræðinga.
Ríkistjórnin hefur ekki sett fram neinar kröfur um að endurreisa alla hina geiranna sér í lagi ekki heimilisgeiranna.
Skynsamur forréttindalaus almenningur byrjar að skera niður fjármálakostnaðinn þegar að kreppir, endar á börunum heimilisgeirans. Kallast þroski og ábyrgð.
Ríkistjórnin byrjar sannarlega á vitlausum enda [að mati þjóðarinnar], eitthvað hlýtur hún sig græða á því persónulega.
Júlíus Björnsson, 2.4.2010 kl. 01:29
telja sig græða á því
Júlíus Björnsson, 2.4.2010 kl. 01:31
Endurreisn heimilanna verður að bíða aðeins lengur. Fyrst þarf að eiga vinsamlegar viðræður við AGS og fullvissa þá um að samningsvilji Íslendinga um iCESAVE sé óbreyttur.
Góður pistill Ómar.
Guðmundur St Ragnarsson, 2.4.2010 kl. 16:42
Eina sem starfsmenn IMF þurfa er staðfesting á því hvort almenningur á Íslandi eiga að bera ábyrgð á almenningi annarra séreignarmarkaða eða ekki. Þá geta þeir gert raunhæfa endurskoðun.
Arðbærast er að staðfesta að almenningur hér sé laus við Icesave.
Lög á reglur um IMF má gúgla á netinu. Fyrir þá sem eru með óþarfa ímyndunarafl og alhæfingar um að hann fara ekki eftir þeim.
Júlíus Björnsson, 2.4.2010 kl. 17:05
Ómar Geirsson, ég vil senda þér mínar bestu óskir um gleðilega og góða páska, þér til handa og öllu þínu fólki. Vanhugsuð orð verða aldrei annað en vanhugsuð orð og reiðir menn verða bara rauðir í framan og roðinn sá upplýsir um lítið inntak og vægi sagðra orða. Ég er friðarins maður og vil engum illt, vona að sama gildi um þig.
PS. Slysið í dag skiptir engu. Man. Utd. verður meistari!
Björn Birgisson, 3.4.2010 kl. 22:47
Blessaður Ómar
Það verður fróðlegt að fylgjast með á næstunni nú þegar útgáfa rannsóknarskýrslunnar nálgast og setja viðbrögð við henni í samhengi við icesave bullið.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 4.4.2010 kl. 16:35
Blessaður Björn Birgisson.
Takk fyrir heillóskirnar og sömuleiðis óska ég þér og þínum gleðilegra páska.
Já, snilldarsendingar Giggs duguð ekki til, en gáfu vísbendingar um það sem koma skal. Ferguson þarf aðeins að viðurkenna mistökin með 20 milljóna Búlgarann, og setja graða unga menn inn í hans stað, svona á meðan Berbatov jafnar sig á því taugasjokki að einhver skuli hafa verið svo vitlaust að greiða þvílíkar fúlgur fjár fyrir hann.
En víkjum að alvöru lífsins.
Stríð eru ljót, og vilja oft bitna á saklausum eða þeim sem eru í öðrum stríðum. Ég geri mér engar grillur um það að þegar yfir líkur, ef þessu líkur þá á minni tíð, að þá skuldi maður mörgum afsökunarbeiðnir. Vegna þess að maður sem upplifir framtíð sinna og þjóðar sinnar í krumlum siðlaus alþjóðlegs auðvalds, hann heggur, og heggur á meðan hann stendur uppi, eða örend finnst í líkama hans.
Þessi hvöt er meginskýring þess að heimurinn er þó eins ágætur og hann er, en við marserum ekki um í einhverri göngunni, syngjandi lofsöngva um eitthvað sjálfskipað mikilmennið.
Ég reikna með að þér hafi ekki þótt sending mín skemmtileg, enda ekki hugsuð þannig. Treyst á að garðurinn, sem á var ráðist, væri það hár, að hann myndi snúast hraustlega til varnar. Og sú "rökræða" dró fram þau skil sem eru á milli þeirra sem berja á innrásaröflum siðblindunnar, sem kristallast í AGS/ICEsave kúguninni, og þeim sem eiga ennþá óuppgerðar sakir við hina blindu frjálshyggju sem hér réði öllu.
Og þessi skil eru nauðsyn að sjáist því félagshyggju og vinstrifólki sem segir Friedman, aldrei meir, aldrei meir.
Ekki veit ég hvort það sé huggun að vísa í Guðrúnu kvenskörung sem sagðist hafa verið þeim verst sem hún unni mest. En fyrir mig voru það þung skref sem ég steig vorið 2009 þegar ég ákvað að halda út í opna orrustu gegn AGS/ICEsave liðinu. Því fyrir einhverja gráglettni örlaganna, þá voru fyrrum samherjar, og fólk sem ég þekkti einu sinni í gamla daga, komið í þá stöðu að telja hag þjóðarinnar best borgið undir pilsfald böðlanna.
Stríð eru alltaf auðveldari ef þú plammar úr skotgröf þinni á andlitslaust fólk, eða þá sem þér er í nöp við, en ekki þá sem þú kannast við, og ert jafnvel hlýtt til. Hvað þá að þú hafir átt mikla samleið með því fólki.
En Björn Birgisson, þó harðsvíraður sé, þá hef ég þann veikleika í deilum, að þurfa einhvern að deila við, sem deilir á móti, og það skaðar ekki að hann eys yfir mig skömmum og skattyrðum. Ég ræð illa við einhliða skammir, hvað þá að menn komi beint til mín og segja, æ hættu þessu látum, segirðu ekki allt gott?
Þá er fokið í mörg skjól.
Björn Birgisson, ég veit að þú ert friðarins maður, og villt engum illt.
Milli okkar er engin ófriður.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 5.4.2010 kl. 09:20
Blessaður Guðmundur.
Afsakaðu hvað ég kem seint inn, hef þurft að vera pabbi um páskana og lítið getað sinnt bloggi mínu. Nældi mér líka í eina ritdeilu sem ég þurfti að sinna með morgunverkum.
En ég held að Júlíus hafi bent á það sem ég tel kjarna málsins, en vissulega má ræða við AGS, ef sú umræða er vitræn.
Og takk fyrir innlitið Júlíus, fer ekki ofan af því að blaðamenn ættu að fara á námskeið til þín. Yrðu fróðari á eftir.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 5.4.2010 kl. 09:24
Blessaður Arinbjörn.
Gaman að heyra í þér.
Veistu það, ég held að þessi margumtalað skýrsla verði hvorki fugl né fiskur. Hún mun persónugera vandann á nokkra einstaklinga, og síðan verður rifist, og rifist, og rifist ennþá meir.
Enda hvernig á annað að vera. Skýrslan fjallar um það sem allir vita. Sjálfstæðiflokkurinn var kominn með heljartök á þjóðfélaginu, hann var allsstaðar. Og það sem verra var, gamla íhaldið varð undir í flokknum gegn því hugarfari að allt mætti ef þú græddir á því. Hið nýja auðvald átti ekki bara atvinnulífið, háskólanna og fjölmiðlanna, það átti líka flokkinn. Og valkosturinn var ungt fólk í öðrum flokkum sem þrýsti á samstarf við hina nýríku, slík þróun var líka byrjuð í VG.
Auðmennirnir áttu allt og alla, og það blasti við öllum.
Og það er líka augljóst mál, að þegar allt er að hrynja, þá reyna þeir sem hag hafa, að bjarga sér og sínum, og jafnvel að bjarga kerfinu í leiðinni. Annað væri mjög óeðlilegt. Og margt af því sem þá var gert, krefst rannsóknar, sérstaklega auðundanskot, en verður það rannsakað????
Verður almenningur ekki fóðraður af nokkrum augljósum brotadæmum til að hneykslast yfir??? Sem og þeirri frétt að auðmenn hafi átt allt og alla, og Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið allsstaðar.
Arinbjörn, þetta er hin stóra Barbabrella rannsóknarskýrslunnar, hún gera það að frétt, sem er ekki frétt. Ástand sem blasti við þjóðinni vorið 2007, þegar hún fékk sitt lokatækifæri til að skipta um kúrs.
Og skýrslan mun hengja þá sem þegar eru fallnir eða þjóna ekki lengur tilgangi fyrir auðkerfið. Margir hlakka til að sjá niðurlægingu Sjálfstæðisflokksins, en hverju breytir það??? Auðvaldinu tókst að endurreisa hið siðlausa spillta kerfi án aðstoðar hans.
En fjaðrafokið um hið augljósa, og það eiturbras sem auðmiðlar og auðmannsleppar munu matreiða ofaní þjóðina, mun nýtast í lokaatlögunni að þjóð okkar og framtíð barna okkar Arinbjörn.
Og það er það sem er svo helvíti grátlegt.
Andstaðan fékk tækifæri, en þekki ekki sinn vitjunartíma. Hún elti lýðskrum upphrópanna og missti því að tækifærinu til að keyra á kerfisuppgjör, uppgjör við þær leiðir sem auðmenn notuðu til að stela og ræna þjóðarauðnum og þær leiðir (Lux-Tor) sem kerfið notaði til að koma þjófnaðinum undan.
Hún áttaði sig ekki á því að það eina sem kerfið þoldi ekki var uppgjör sem byggðist á sannleika, ekki hefnd. Því hefndinni er hægt að stýra úr skúmaskotum, en skúmaskotin þola ekki birtu sannleikans. Og gegn kröfunni um sannleika er svo erfitt að standa. Það er svo erfitt að skipuleggja vörn gegn honum. Það er svo erfitt að skrumskæla hann.
En bullinu og lýðskruminu má alltaf stjórna.
Það er ekkert í kortunum Arinbjörn sem hindrar full yfirráð AGS yfir þjóðinni. Ekkert sem hindrar full yfirráð hins alþjóðlega auðvalds yfir auðlindum okkar. Ekkert sem hindrar gjöreyðingu þess samfélags sem við þekktum, sem þrátt fyrir annmarka sína var gott samfélag.
Ekkert nema hugsanlega við sjálf.
Og í minni kristalkúlu sjást þess engin merki.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 5.4.2010 kl. 10:02
Blessaður Ómar.
Sjáum til hvað kemur út úr skýrslunni. Ég ber enn von í brjósti til hennar.
Hvað var ég að hugsa vorið 2007? Jú, ég setti x-s. Vonaði að samfylkingin mynd snúa við þeirri óheillaþróun sem samfélagið stefndi í. Þegar samfylkingin á hin bógin herti róðurinn í átt til alherjar einkavinavæðingar samfélagsins urðu vonbrigðin mikil. Harmurinn samt borin í hljóði. Þegar svo allt hrundi og hinn napri og nöturlegi sannleikur rann upp varð mér eitt ljóst: við munum aldrei geta byggt upp mannvænt samfélag á ný með þessa flokka og þær klíkur sem þeim ráða innanborðs. Það munu þeir aldrei leyfa, hvað sem þeir heita. Til þess eru hagsmunir þeirra og fjármálaaflanna of samtvinnaðir. Þess vegna er það bjargföst trú mín og sannfæring að það eina sem bjargað getur íslenskum almenningi, þar á meðal mér og þér, er að almenningur kasti af sér oki fjórflokksins og fjármálaaflanna. Með öðrum orðum: bylting.
En bylting og vangaveltur er varða hana gerir mann gráhærðan. Hver á að leiða hana, hvernig byrjar hún, hver kveikir neistann og hvernig, hvað tekur við að henni lokinni osvfr.
En eitt get ég sagt þér Ómar, samfélagið ólgar undir niðri, fari almenningur ekki að sjá örla á réttlæti þá springur hann fyrr en varir.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 6.4.2010 kl. 23:12
Það mun þykja sniðugt að festa athyglina við eitthvert takmark í framtíðinni þegar einstaklingar eru í sálfræðilegum þrengingum. Skýrslan er dæmi um slíkt.
Júlíus Björnsson, 7.4.2010 kl. 00:26
Blessaður Arinbjörn.
Löppin er ennþá að klikka, svo ég ákvað að fá mér kaffi í stað þess að skoða sólina, og ræða um byltinguna.
Byltinguna okkar.
Allar byltingar hafa haft ákveðinn aðdraganda, aðdraganda sem lýsir sér í að tiltölulega fáir menn setjast niður, ræða málin, koma sér saman um ákveðinn hugmyndaheim, og aðferðarfræði, og kýla svo á það þegar færi gefst.
Umræðan er forsenda byltingar.
Ég deili alveg forsögu þinni, hef fáa hitt sem ég á eins mikið sniðmengi hugmynda með og þér og þínum orðum. Ég taldi að kosningarnar 2007 yrðu ákveðinn vendipunktur, að nógu margir hefðu séð að stjórnmálkerfið og fjármálakerfið væru að renna samann, og þá í gegnum flokkinn, og flokkurinn og stjórnmálakerfð væru að verða eitt.
Og þessu þyrfti að breyta. Þess vegna kom skrípaleikurinn eftir kosningar mér algjörlega í opna skjöldu, slagurinn milli Samfó og VG um að fá að deita flokkinn, var grátlegur, ekki bara vegna hversu lágt þessir flokkar lögðust, heldur hitt að ástandið kallaði á endurmat, og endurskilgreiningu valdakerfisins, það varð að hefja upprakningu þeirra þráða sem höfðu samofið valdakerfið í eina heild og auðmenn voru að gleypa.
Skynjaði fólk ekki virkilega kall tímans á breytingar????
Ég deili líka þeirri skoðun þinni á fjórflokknum, VG féll á prófinu þegar þeim bauðst völd gegn því að styðja kerfið. Og það er víðar sem þarf að hrista upp, á fjölmiðlum, í akademíunni og í viðskiptalífinu.
Vandinn er það mikill að hann krefst nýrrar hugmyndafræði, uppstokkunar, sem kallast á mannamáli bylting.
Og ég deili skoðun þinni á þeim gildum, og þeirri hugmyndafræði sem hið bylta þjóðfélag á að hafa að leiðarljósi. Frá því að ég las með athygli blogg þitt um landráðatilvísunina, þá hef ég lesið skrif þín með athygli, og sérstaklega mikið spáð í þau rök sem að baki liggja. Bæði til að skilja, eins til að átta mig á hvernig ég sjálfur hefði rökstutt mitt mál. Þannig tel ég mig þekkja bakgrun þinna skoðana mjög vel og þarf því ekki oft langt mál frá þér til að það kveiki víðtæk hugrenningartengsl hjá mér (eins og þú kannast mæta vel við).
Og hugglíma mín snýst um byltingu okkar, hvernig það sé hægt að samræma skoðanir fólks með svona líkan bakgrunn, líkar lífsskoðanir, og með sömu væntingar um betra þjóðfélag, byggt á mennsku og mannúð, þar sem við, fólkið ráðum stjórnkerfinu, ekki auðmenn eða hagsmunaöfl.
Og síðan þarf að samþætta stefnu okkar, byltingarmanna, það er þeirra sem vilja raunverulegar breytingar, þannig að hún uppfylli tvennt. Að stefna okkar sé þannig úr garði gerð, og þannig sett fram, að nógu margir finni samsvörun og vilja til að styðja hana, og að hún skili raunverulegum árangri.
Hugmyndafræðin þarf að vera skiljanleg, fólk þarf að samþykkja hana, hún þarf að vera raunhæf, og hún þarf að vera það öflug að hún nái til að takast á við vanda okkar núna, ekki seinna. Og hún þarf að leysa þau brýnu vandmál sem Tregðan varðar leiðin til Heljar með.
Dæmi um vel heppnaða byltingu, sem reyndar ennþá stendur yfir, er lýðræðisbyltingin, sem á rætur sínar að rekja til frönsku stjórnarbyltingarinnar, og byltingu Bandaríkjamanna gegn konungi og aðli, og hefur haft grundvallar áhrif á líf okkar og lífsskilyrði. Þessi lýðræðisbylting stóð af sér tvær atlögur á síðustu öld, kommúnismann og nasismann, en hún er vanmáttug gegn þriðju ógninni, helstefnu hins alþjóðlega græðgiauðvalds, sem vinnur af því hörðum höndum að endurreisa fáræði, auðræði og að gera allan almenning að kostnaði, sem er fínt orð yfir það sem var kallað ánauð og þrælahald í gamla daga.
Þess vegna þarf nýja byltingu, núna, sem byrjar að móta nýtt samfélag, núna, ekki á áratugum eða öldum, heldur núna. Því ef hún verður ekki núna, þá verður enginn morgunn, í merkingunni ókomnir tímar. Eyðileggingaröflin eru það sterk, og máttur okkar til útrýmingar svo öflugur, að seinna þýðir ómældar hörmungar, sem mannkynssagan kann engin dæmi um áður.
Þess vegna er umræðan Arinbjörn svona mikilvæg.
Og mitt framlag í dag er að tæma eina kaffikönnu, og setja hugsanir mínar á blað, handa öllum þeim sem áhuga hafa á að lesa.
En þó andinn sé mikill, þá er líkaminn æðri, og núna kallar hann á losun, og því ætla ég að kveðja í bili, og halda svo áfram núna á eftir. Og fjalla þá um þá skoðun mína að byltingin okkar sé í framkvæmd eins og að drekka vatn, það þarf aðeins eina grunnforsendu, sem er því miður ekki eins auðveld. En fordæmi eru samt fyrir.
Þessi grunnforsenda er að við upplifum okkur sem vitiborið fólk, með sjálfstæðan vilja, og mátt til að bregðast við hættum, á þann hátt sem þarf til að framtíð okkar sé tryggð.
Allar byltingar byrja á einum manni, sem segir, ég ætla mér að breyta ríkjandi ástandi.
Okkar bylting er margfeldi þessa manns.
Og það þarf ekki stórt margfeldi til að mynda ruðningsáhrif skriðunnar sem ekkert græðgiauðvald getur stöðvað. En hvort hún dugi til að stöðva átök menningarheima, þar skorti mig bæði vit og framsýni til að sjá fyrir, en að endurheimta samfélag okkar úr höndum auðmanna, og leppa þeirra, er leikur einn.
Við þurfum bara að vera nógu mörg sem viljum það, og gerum það sem þarf að gera til þess að svo verði.
Þess vegna snýst málið ekki um neina skýrslu, eða neitt það sem gamla kerfið fóðrar okkur á til að viðhalda heljartökum sínum. Júlíus orðar það svo vel hér að ofan hver tilgangur skýrslunnar er, hún er tálsýn, leiktjald utan um ekki neitt. En sett fram til að við hugum ekki að því sem er verið að gera okkur og þjóðfélagi okkar í dag. Skýrslan er leikarnir sem keisarar Rómar gáfu lýðnum til að hann sætti sig við valdleysi sitt og örbirgð.
Þekkt blekking og alveg óþarfi að falla fyrir henni. Sérstaklega ef maður ætlar að framkvæma byltingu.
En núna er það pissupásan.
Kveðja í bili.
Ómar Geirsson, 7.4.2010 kl. 09:32
Halló, aftur.
Fátt gleður meir en sterkur kaffibolli þegar skrokkurinn er gamall og lúinn, og andinn þreyttur.
Þú spurðir mig frétta af byltingunni núna rétt fyrir páska, þá var ég lengi búinn að vera jó, jó, milli þess sem maður gerði í gamla dag, þegar maður sleit blöðin af sóleyjunni, "elskar hún mig, elskar hún mig ekki", nema einn daginn, var hugsunin verður maður ekki að standa í lappirnar, og gera skyldu sína, en hinn daginn var spurt í huganum, "til hvers???". Ég ætlaði að keyra á þetta eftir páska, að reyna að útbúa hugsun og hugmyndakerfi, sem slíkt væri heilstætt, og gæti gengið í praktís, trúr þeirri lífsskoðun að hugsun elur af sér hugsun, og það er enginn afsökun, á hættutímum, að skynja hættu en gera ekkert, vegna þess að aðrir skynja ekki sömu hættu.
En efinn liggur í hvort það sé raunveruleg hætta. Hefur fólk það ekki bara gott, allavega sér maður ekki annað. Ég var í Reykjavík um miðjan marsmánuð, og mannlífið var ósköp svipað og var þegar ég var að láta skera mig vorið og haustið 2005. Og ekki kvarta menn og kveina í blöðum eða öðrum fjölmiðlum, ekki miðað við að maður hélt að þúsundir fólks ættu í gífurlegum erfiðleikum. Og ekki mæta menn á fundi, eða styrkja þá einstaklinga og félög, sem þó eru að reyna að hamla gegn enduruppbyggingu auðmannskerfisins.
Og var það ekki Þorvaldur Gylfa sem grætti andstöðuna á fundi í Iðnó og er ekki Guðmundur Óla aðal brandarakallinn. Og dugar ekki fyrir vinnumenn breta að hrópa spilling, spilling, og sjáið þið hvað þeir gerðu, og á meðan spá fáir í hvað er verið að gera, eins og fólk þekki muninn á fortíð, nútíð og framtíð, og átti sig ekki á að fortíð verður ekki breytt, en nútíð er sá vettvangur sem við höfum til að móta framtíðina, og þá jafnvel á þann hátt við lærum á mistökum fortíðar, endurtökum ekki sömu mistökin.
Og það að það skuli duga fyrir hýenur auðmanna, eins og Þorvald og Guðmund, að væla spilling, að þá nái þeir athygli andstöðunnar, það segir manni að sú neyð sem ég taldi vera, að hún er ekki til staðar. Ég sannfræðist endanlega um þetta þegar ég leit yfir sviðið að kveldi laugardags, og sá mikinn fjölda glaðra manna horfa til himins og njóta stórkostlegrar flugeldasýningar, að fólk vill leika, ekki byltingar.
Og hvað kemur mér það þá við hvort það vilji eyða restinni af ævinni sem vinnumenn breta og AGS????
Og ég ákvað að salta byltinguna.
Svo ég gleymdi því ekki hvað ég hafði verið að hugsa, þá formaði ég pistil minn, sem ég hef svo lengi verið með í kollinum, og setti hann á blað í fljótheitum á páskadagsmorgun. Vissulega er hann hrár, og krefst allavega tveggja annarra pistla, sem ítarefnis, svo fram náist heildstæða hugsun.
Bæði þarf að rekja hvað fór úrskeiðis hjá andstöðunni, sem og hitt að útskýra betur þá staðreynd að framkvæmd byltingarinnar er álíka auðveld eins og að drekka vatn. Leiðirnar eru nefnilega allar þekktar, og auðveldar í framkvæmd.
Það vantar bara grunnforsenduna, viljann til að gera það sem þarf að gera.
Og sá vilji kviknar hjá hverjum og einum. Það er enginn annar sem ber ábyrgð á lífi manns og lífsskilyrðum, en maður sjálfur. Og það er okkar að skilja að það erum við sem breytum, ekki aðrir, og við erum fullfær um það ef við byggjum byltinguna á grunni þess sem við höfum, og notum vit okkar og heilbrigða skynsemi til að móta nýja framtíð.
Um þessa framtíð hef ég mikið hugsað, og hef í huga mér tilbúna beingrind af nothæfu módeli, byggt á mannúð og mennsku. Og hinu smá, einstaklingnum, fjölskyldunni sem er hans leið til að ala upp nýtt líf, og athöfnum einstaklingsins á frjálsum markaði, þar sem leikreglurnar eru skýrar, og markvisst er unnið gegn því að hið stóra verði ekki það stórt að það hætti að vera hagkvæmt, og fer að skemma fyrir hinu smá, okkur öllum hinum.
Og enduruppbygging hins nýja samfélags byggist á þeirri grunnreglu, að enginn verði út undan. Og það er viss hagvaxtahvati að tryggja það, að ráðast að félagslegum vandamálum, að ráðast við afleiðingar af sjúkdómum, að ráðast gegn flóttaleiðum dóps og annars þess sem eyðir og skemmir börnin okkar. Það er ekki málið að sigra heiminn, málið er að dreyma um að hann sé betri, og því lagfærir maður skemmdir eftir bestu getu, þó án þess að grípa til ofstjórnunar og kúgunar, sem eru alltaf skemmandi, þó í góðum tilgangi séu.
Og við lærum af skuldakreppunni, og segjum aldrei aftur, aldrei aftur. Þess vegna er leið stóriðjunnar, eins og hún er útfærð með nýjum risalántökum, útilokuð, burtséð hvort menn telja það skynsamlegt að nýta orkuna eður ei, þá verður það ekki gert með lántökum af þeirri stærðargráðu sem skyndilausnarmenn tala um.
En það þarf hagvaxtarhvata, og hann blasir við. Hver er höfuðmeinsemd nútímans??? Er það ekki rányrkja og orkukreppa, umhverfisslys vegna mengunar og það sem við köllum loftlagsbreytingar af mannavöldum??? Lausn okkar er hluti af lausn heimsins, lausn sem mannkynið verður að þróa, ætli það sér að lifa án átaka og drápa.
Hagvaxtarhvatinn felst í grænni framtíð, og líka þeim vilja að láta engan farast vegna kreppunnar. Smán saman verðum við fordæmi, gott fordæmi, ekki það slæma sem við erum í dag.
Annar pistill átti að fjalla um hvað get ég gert, ég hinn venjulegi maður. Svona þegar ég er búinn að horfa á börn mín, og segja við sjálfan mig að ég vilji að líf mitt lifi. Það er ekki öllum gefið að standa fyrir byltingum, eða hafa tíma og ráð að framkvæma þær. Og hvað er í boði????
Svarið er einfalt, fyrsta og um leið stærsta skrefið er að taka afstöðu, og heimta breytingar. Næsta skrefið er að láta ekki lengur ljúga að sér. Að fólk hætti að hlusta á alla þá sem höfðu rangt fyrir sér í aðdraganda kreppunnar, og hafa núna það eitt til málanna að leggja að endurreisa það gamla. Að fólk hlusti ekki á þá sem telja hagfræði vera trúarbrögð mannvonsku og græðgi, að það þurfi alltaf að fórna fólki til að við hin getum haft það þokkalegt. Að fólk neiti að byggja góð lífskjör á þrælahaldi fátæks fólks í þriðja heiminum. Að fólk telji sig vera vitibornar manneskjur sem geti byggt upp góðan, mannsæmandi heim, sem á framtíð, aðra framtíð en þá heljarslóð sem núverandi heimur stefnir á.
Að fólk skilji að höfðingjar og leppar þeirra eru fortíðin, að heimur græðgi og siðleysis sé kominn á endastöð.
Og fólk krefjist breytinga.
Til þess að þær geti orðið, þá þarf fólk að leggja það á sig að fylgjast með, að hlusta, að leita uppi þá sem hafa upp á raunhæfar lausnir að bjóða, lausnir sem breyta og bæta, ekki lappa upp á hið gjaldþrota kerfi.
Þetta er forsenda þess að hreyfiafl myndist til breytinga, án stuðnings fjöldans breytist ekkert. Og sá stuðningur kemur ef fólk staldrar við og tekur afstöðu.
Meira þarf til vissulega, til dæmis beina þátttöku, sérstaklega í byrjun þegar fáir hafa stigið það skref að segja hingað og ekki lengra, ég er ekki lengur leiksoppi auðmanna, ég er gerandi fyrir betri heimi. Og þeir sem leiða, þurfa að vita hvað þeir vilja, og hafa lært af mistökum fortíðar. Þekkja leiðirnar sem eru dæmdar til að mistakast, en veðja á þær sem hafa gefið góða raun.
Og hafa eitilharðan vilja til að gera upp við kerfið en um leið ennþá sterkari vilja til að skapa eitthvað nýtt og betra. Ekki falla í þann fúla pytt að fella kerfið, til að skapa sjálfum sér völd, og verja þau síðan með öllum þeim óþverrabrögðum sem þeir voru háværastir i að fordæma þegar þeir sjálfir voru að brjótast til valda.
Vegna þess Arinbjörn, að þessi bylting má ekki éta börnin sín, það er ekki annað tækifæri.
Það að skilja ögurstundu mannkyns, er forsenda þess að Bylting byltinganna takist. Þeir sem deila ekki því mati, þeir hafa ekki nokkurn áhuga á henni. Hjá þeim eru upphrópanir og mótmælin, aðeins leið til að fá útrás. En hjá okkur sem skynja hina miklu vá sem framundan er, við tökum okkur taki og gerum það sem gera þarf.
Og þar er hnífurinn staddur i kúnni.
Fólk skynjar ekki hina miklu vá, þá miklu ógn sem Tregðan hefur bruggað mannkyninu. Það deilir um keisarans skegg. Það skilur ekki að það gamla er gjaldþrota, og ekkert sem ert gert til að lappa upp á það, mun duga, aðeins fresta vandanum, og gera hinn óumflýjanlega bitra raunveruleika ennþá ógnvænlegir, ennþá skelfilegir þegar öldur hans skella á ströndum hins þægilega lífs strútsins sem við erum svo hrædd við að yfirgefa.
Það vantar sjálfa grunnforsendu Byltingu byltingarinnar, hina áþreifanlegu neyð, og teikn sem fólk skilur um hin óumflýjanlegu endalok, ef höfðingjarnir og Leppar þeirra fara áfram með völdin. Sagan kennir, að ef slíkt er til staðar, þá sendur fólk saman til að vernda líf sitt og sinna, og verja framtíð barna sinna. Þess vegna tapaði Tregðan og illskan 1945. Hún sá ekki fyrir þann samtaka mátt sem sterkir einstaklingar á ögurstundu, gátu vakið og stýrt gegn henni. Illskan og ógnin var það mikil, að fólk lagði frá sér hið daglega, og snérist til varnar, vitandi það að það sjálft gat fallið, en um leið vitandi að ef það sjálft gerði ekki eitthvað, þá var ósigurinn óumflýjanlegur.
Og þá beið þess framtíð sem það vildi ekki. Þess vegna sagði það Nei við ICEsave og AGS, það lagði til hliðar gamlar deilur, setti stéttarbaráttuna á salt, og einhenti sér í að hrekja vinnumenn Tregðunnar aftur inn í skúmaskot sín.
Þessi lærdómur sögunnar er sá að fólk hefur það sem þarf til að sigrast á þræla og kúgunaröflum. En hann er líka sá að á meðan ógnin er ekki farinn að brenna bakgarðinn, þá kjósa menn líf strútsins, og hlusta aðeins á þá sem styðja hið ríkjandi ástand. Eða hlusta á þá sem hrópa hæst og gjamma mest, eins og þá sem boðuðu trúna á bóndann í Kreml. Trú sem nærðist á augljósu óréttlæti stéttarþjóðfélagsins, en boðaði lausn, sem gerði hið gamla þjóðfélag að sunnudagsskóla miðað við það helvíti á jörðu sem Kremlarbóndi bruggaði þegnum sínum.
En þegar á reyndi þá gerð fólk það sem þurfti, það tók líf barna sinna fram yfir sitt eigið. Og gerði það sem vörnin krafðist. En hvað hefði gerst ef nasistarnir hefðu náð að þróa kjarna og vetnissprengju, að þeir hefðu ekki verið svo innilega heimskir að byggja hugmyndafræði sína á kynþáttahyggju, og því hrakið sína bestu vísindamenn úr landi?? Hefði mannfallið þá orðið 200 milljónir, 500 milljónir?????
Þessi hvað ef spurning er dýpsti hvati minnar hugmyndafræði, við höfum ekki efni á annarri hvað ef spurningu. Þetta gæti vissulega hafst hjá mannkyninu og það lifað af, en það þarf þess ekki.
Kjarninn er sá að það þarf þess ekki, það getur farið á hinn veginn. Og jafnvel strútur skilur að hann lifir ekki af Ragnarökin. Og þó dauðinn sé óumflýjanlegur, þá erum við ekki dauð, fyrr en við erum dauð.
Í því felst von okkar og styrkur. Ásamt því að við þekkjum leiðirnar og lausnirnar.
Við höfum bara ekki haft viljann til að framkvæma þær, það hentar ekki höfðingjum auðmagns og græðgi að gera heiminn að betri og lífvænlegum stað. Þess vegna þarf að setja þá af.
Og það er skyldverk okkar kynslóðar Arinbjörn. Skylda sem við báðum ekki um, en okkur var falin.
Það þarf ekki marga til að skilja þessa skyldu, það þarf ekki marga til að segja hingað og ekki lengra. En þessir, sem eru ekki svo margir, þurfa að hafa þann vilja að láta Byltinguna hafa forgang, að gera það sem þarf að gera, svo að þeir, sem eru ekki svo margir, að þeir verði fleiri, og fleiri, og ennþá fleiri, þar til að hin óstöðvandi skriða hefur myndast.
Þá verður þetta aðeins auðveldara, en það er ekki nóg að sigra auðleppa á Íslandi, Ísland er ekki eyland í dag. Heimurinn er eitt, og hörmungar heimsins, eru líka hörmungar okkar. En sú aðferðarfræði, sem ég er að reyna að móta og útskýra, hún er aðferðarfræði vonar og framtíðar alls mannkyns.
Sigur á Íslandi, er sigur heimsins, því ef þú sigrar á einum stað, þá er ekkert sem mælir því á mót, að ekki sé hægt að sigra annars staðar. Óvinurinn er alltaf sá sami, Tregðan alltaf sú sama, hjörtun eru alls staðar eins, hvort sem þau eru fyrir vestan eða í Grímsnesinu, í Peking eða London, og þau slá í okkur öllum, óháð húðlit eða menningu, og áháð þjóðfélagsstöðu.
Það er nefnilega ekki gaman að vera auðmaður, þegar allir eru dauðir.
Bylting byltinganna er hin sammannlega von okkar allra, um að verða afi eða amma.
Þegar skref eitt er stigið, að fólk geri það upp við sig hvað það vilji, þá eru seinni skref verkefni, vissulega krefjandi verkefni að stíga skref 2, ekki vegna þess að það er erfitt sem slíkt, heldur er það erfitt fyrir fámennan hóp að lýsa því yfir að hann ætli að fella kerfið, og bjarga mannkyninu í leiðinni, án þess að hann sé settur i spennutreyju, og lagður inn á Klepp. En líklegast mun kerfið nota háð og spott sér til varnar, og það sem slíkt er viðráðanlegt, á meðan byltingarmenn passa sig sjálfir ekki að fara að hlæja að fáránleika þeirrar hugmyndar að hinn vitiborni maður geti sjálfur stjórnað lífi sínu og örlögum, án þess að vera leiksoppur höfðingjanna, þeir hafa jú spilað með okkur í um 6.000 ár, og telja sig sjálfsagt hafa hefðina sína meginn.
En ef fyrstu byltingarmönnum tekst að horfa framan í spegil, án þess að hrista hausinn, eða skella upp úr, og halda sínu striki að ekkert annað í núinu skiptir þá meira máli, en að gera það sem þarf að gera, þá munu margfeldisáhrif skriðunnar sjá um restina. Vegna þess að það þolir enginn gamla kerfið, ekki heldur þeir sem studdu það með ráðum og dáðum til skamms tíma.
Það voru allir búnir að fá upp í kok af neyslubrjálæðinu og þeirri geðveiki sem greip samfélag okkar.
Það er aðeins eitt sem fólki vantar ennþá til að hefjast handa um raunhæfar breytingar, og það er sú innri vitneskja að það er fólk en ekki mýs.
Það þarf að uppgötva manndóminn í brjósti sínu.
Og þá er grunnforsendan kominn og ekkert mun þá stöðva Byltingu okkar Arinbjörn..
Ég er tilbúin í hana, þegar aðrir hafa gert það upp við sig, hvað það er sem skiptir það máli. Þó ég sé gamall og þreyttur, þá er það kostur við ósigra að maður lærir af þeim, og kosturinn við slæma heilsu, er að maður hefur tíma til að hugsa um hlutina. Einnig hef ég það mér til ágætis að hafa verið mjög lengi illa við helstefnu Nýfrjálshyggjunnar, og hef lengi velt fyrir mér hvernig það sé hægt að tryggja að allir hafi í sig og á, án þess að fólk tilheyri kerfi þar sem það þarf alltaf að vera marséra til að lofa og dásama leiðtogann.
Þess vegna þekki ég margar af þeim gildrum, sem Andstaðan kaus að falla í, og ég þekki leiðir sem virka. En ég er ekki Churchil gamli, hef hvorki þá mælsku eða útgeislun sem þarf til að leiða byltingu. Enda gamalt slitið flak, sem þarf að fara út í sólina að labba, og hætta þessari bloggvitleysu.
"Vaknaðu, maður, vaknaðu til raunveruleikans" sagði bróðir minn við mig á kveldi Skýrdags, hafði rétt fyrir sér þar sem oft áður. Og þó manni gremjist sá raunveruleiki, þá er hann samt sá að það vantar grunnforsendur Byltingar minnar. Þetta er í raun tímaeyðsla að fjalla um málin á þann hátt sem ég ætlaði að gera. Neyðin er ekki það mikil að fólk sé tilbúið að hlusta. Hún er vissulega til staðar, en gremjan, gremjan við það sem gerðist, og krafan um uppgjör við gerendur Hrunsins, er það sterk, að fólki er alveg sama um framtíð sína.
Það hlustar á menn eins og Þorvald og Guðmund, ekki menn eins og mig og þig Arinbjörn.
Sumt verður bara að hafa sinn gang.
Seinni kaffilögunin er búin, og sólin kallar.
Koma tímar, koma ráð og eitthvað mun gerast.
En mér finnst gott að eiga þessi orð á blaði, fari ég að hugsa um byltinguna aftur, þá á ég þau til.
Hafðir þú haft nennu til að lesa þig alla leið niður Arinbjörn, þá bið ég að heilsa norður.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 7.4.2010 kl. 12:26
Blessaður Ómar.
Ég les hvert orð sem frá þér kemur. Ég geri það vegna þess að þau meika sens. Blogg þitt og pælingar ætti að gefa út á bókarformi. Við þurfum að koma á hittingi okkar og annara sem tilbúnir eru. Ég heyri æ fleiri tala um nauðsyn þess að eitthvað róttækt verði að gerast. Meira að segja fólk sem hefur til þessa kosið sinn flokk hvað sem raular og tautar. Eitthvað mun gerast, það er klárt.
Mér finnast orð þín um rannsóknarskýrsluna áhugaverð. Ég verð komin með mörg gleraugu þegar ég hef lesturinn og marga fyrirvara.
Vorkveðjur austur.
Arinbjörn Kúld, 7.4.2010 kl. 17:25
Blessaður Arinbjörn.
Heldur þú að það verði metsölubók????
En án gamans, ég er ekki að hnýta í skýrsluna sem slíka. Framtakið er þarft, og ég dreg ekki í efa heilindi þeirra manna sem hana vinna. Bakgrunnur þeirra og staða mun vissulega lita hana, og því ágætt að hafa gleraugu við að aflita hana, en það sem þeir segja, mun verða rétt eins langt og það nær.
Það er ekki skýrslunni og skýrsluhöfundum að kenna að ráðandi öfl ætla að nota hana til að réttlæta ICEsave kúgunina. Vísa ég þar í hótun Steingríms þar sem hann ráðlagði Bjarna að hafa sig hægan í ICEsave deilunni, hann skyldi hafa áhyggjur af skýrslunni.
Og það er ekki skýrslunni að kenna, að hún er kerfisleið til að styrkja ríkjandi kerfi í sessi. Hún tekst á við gerendur fortíðar, á meðan gerendur dagsins í dag nota sömu leiðir og sömu hugmyndafræði til að stunda brask sitt á kostnað almennings. Skýrslan mun benda á hvernig braskræningjarnir fóru að, að hluta,, en hún mun ekki spyrja þeirrar grundvallarspurningar, hvaða hugmyndafræði, og hvaða hugmyndafræðingar opnuðu þessar ræningjaleiðir, og af hverju er ekki búið að reisa virki á þeim sem stöðva meintan ránsskap dagsins í dag, og morgundagsins.
Mér vitanlega hefur hin ráðandi hugmyndafræði ekki sett spurningarmerki við Tor-Lux ránsleiðina, það að menn og fyrirtæki geti hagað rekstri sínum i siðuðu samfélagi, meðal siðaðra manna, með leyndarhjúp mafíunnar sem hún þróaði við að koma illa fengnu fé meðal manna.
Mér vitanlega hefur enginn spurt þeirrar grundvallarspurningar, hvor á frekar heima á Hrauninu, auðmaðurinn sem spilaði með, eða bankastjórinn sem réri lífróður fyrir hið fallna kerfi, eða hugmyndafræðingarnir, sem ruddu þá slóð sem hinir fóru í góðri trú við mikið uppklapp landsmanna.
Í mínum huga eiga þeir frekar heima Hrauninu, og aldrei sleppa út, allavega ekki fyrri en þeir biðjast afsökunar, mennirnir sem veittust af Ögmundi þegar hann benti á þá óhæfu að örfáir menn væru að kaupa upp landið, og réðu öllu.
Í mínum huga eru þeir fjölmiðlamenn sem útbreiddu boðskap hýenanna, sekari um glæp en þeir kókaínfíklar sem leppuðu auðmenn eins og þessi sem átti altt í einu milljarða í Landsbankanum.
Og þegar ég hugsa til þess að þessir sömu fjölmiðlamenn, fengu sömu hýenurnar, daginn eftir Hrun, til að útbreiða þann boðskap að það mætti ekki hjálpa ungu fólki í neyð, því það ætti að nota peninginn til að borga skatt til breta, að þá get ég ekki hugsað um innihald þessarar skýrslu að í henni sé eitthvað sem breyti einhverju.
Vissulega er gott að þekkja tækni raðnauðgara, og í raun nauðsynlegt. En það má aldrei vera upphaf og endir alls, ekki á meðan þarna úti eru menn sem ennþá nauðga þjóðinni. Að stöðva þá er forgangs mál í mínum huga.
En skýrslan sem slík, er miklu betra en ekki neitt, en það er okkar að sjá til þess að hún sé tæki til að gera upp við gerendur núsins, og framtíðarinnar. Í mínum huga er það kostnaður að loka þá inni sem hafa hvorki hug eða tækifæri til að fremja aftur glæpi, en lífsspursmál að stöðva þá sem eru á vettvangi með illt í huga.
Þá verður að stöðva.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 9.4.2010 kl. 11:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.