Fyrir hvaða pening ætlar Ólöf að virkja???

 

Að leggja til virkjanir án þess að útfæra fjármögnun þeirra er lýðskrum á hæsta stigi.

Og slíkt á ekki að líðast í dag.

Hagkvæmar virkjanir í sátt við umhverfi og heimamenn, eru góðar og gildar, og ekkert út á þær að setja.

En virkjanir undanfarinna ára hafa vægast sagt verið mjög mishagkvæmar.  Annars hefði ekki þurft Stalínsisma til að koma þeim á koppinn.  Og arðsemin við að byggja þær ekki meiri en það að helstu verktakafyrirtæki landsins annaðhvort féllu á meðan byggingu þeirra stóð, eða héldu ekki út árið eftir Hrunið mikla haustið 2008.  

Sú staðreynd segir dálítið um hagkvæmni þeirra fyrir verktakaiðnaðinn, það er til lítils að "skaffa" atvinnu, ef fyrirtækin sem veita hana standa á brauðfótum, og falla við minnsta mótvind.

Eins eru Orkufyrirtækin meira eða minna gjaldþrota.  Eigið fé þeirra þolir ekki mótbyr og þau eru það illa fjármögnuð að fastar tekjur af stóriðjuorkunni virðast ekki duga fyrir afborgunum.

 

Bretaskatturinn var jú réttlættur með visan í neyð Orkufyrirtækja.

 

Og þar með er ég kominn að tilefni þessa pistils.

Hvernig á að fjármagna þessar virkjanir????

Ef það á að gerast með lánum úr opinberum fjárfestingasjóðum Evrópu, þá eru þær ekki sjálfbærar, því ICEsave hangir þar á spýtunni.  Engin virkjun er það hagkvæm að hún réttlæti ICEsave skattinn.

Er meiningin að láta Orkufyrirtæki á brauðfótum reisa nýjar virkjanir?????  Það er heimska því þau falla í næsta vindi, fjárhagur þeirra er ekki sjálfbær.

Aðeins eitt getur réttlætt nýjar virkjanir, og það er sú réttlæting sem átti að vera til staðar strax við Kárahnjúkavirkjun, að þær séu fjármagnaðar á almennum markaði, án ríkisábyrgðar.  Og það sé tryggt að fall þeirra taki ekki gömlu hagkvæmu virkjanirnar með sér í skítinn.

Það er alltof mikið í húfi.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Alþingi samþykki að farið sé af stað í neðri Þjórsá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Okkur vantar meira af þér Ómar eða fleiri eins og þig.

Aftur á móti vona ég að hálaunaðir starfsmenn Rio Tinto Alcoa komist ekki upp með að kaupa fleiri sæti inni á Alþingi fyrir maka sína.

Árni Gunnarsson, 31.3.2010 kl. 07:57

2 identicon

Margt til í þessu hjá þér Ómar en ég ætla að minnast á verktakana.

Staðreynd málsins er að hagnaður í verktakastarfssemi er mjög lítill og er það ekki bundið við Ísland. Hagnaðarhlutfall (e. profit margin) sem er hagnaður eftir skatta deilt með heildar tekjum sinnum eitthundrað er yfirleitt undir 5% ef það er jákvætt á annað borð. Þetta þýðir að eiginfjárhlutfall verktaka er yfirleitt mjög lágt sem hlutfall af veltu og það gerir fyrirtækin mjög viðkvæm fyrir öllum sveiflum í rekstrarumhverfi sínu. Svo viðkvæm að stutt töf á greiðslu útistandandi reikninga getur fellt félag í þolanlegum rekstri.

Þetta er mikill vandi fyrir hagkerfið í heild því verktakaiðnaður er um 8-12% af landsframleiðslu ef allt er eðlilegt og þess vegna getur þetta framkallað slæm "domino-effects" ef verktakar byrja að falla og draga aðra með sér s.s. smásala.

Hin mikla samkeppi um verkin, og þess vegna lág tilboð jafnvel vel undir 80% af kostnaðaráætlun, getur haft skuggahliðar sem eru mjög neikvæðar þegar allt kemur til alls. 

Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 31.3.2010 kl. 08:22

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Fara öll verktakafyrirtæki á hausinn vegna rekstrarvandræða?

Er ekki "vel undirbúið gjaldþrot" að loknu ábatasömu verki notaleg lausn frá þeim vandamálum sem skapast geta þegar þarf að standa straum af fjárfestingum sem nema milljörðum og óvíst um næstu verkefni?

Hitt má svo öllum vera ljóst að okkar litla samfélag kallar alltaf yfir sig meiri vandamál en ábata þegar fjárfestingar á heimsmælikvarða eru settar á svið og bundnar pólitískum metnaði heimskra stjórnmálaforingja.

Nú þurfum við að kosta kapps við að losna frá því heimsmeti sem bundin er skelfilegustu stjórnsýslu sem þekkist í upplýstu þekkingarsamfélagi.

Árni Gunnarsson, 31.3.2010 kl. 09:15

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Árni.

Ég sé að þú kætist þegar ég hegg til hægri, en þú veist hvernig það er með okkur Hriflunga, við gætum alltaf jafnræðis til hægri og vinstri, þegar við höfum málstað að verja.

Og minn málstaður er málstaður þjóðarinnar gegn AGS og ICEsave.

Samt finn mér það alltaf skrítið að þeir sem eru sammála mér þegar ég hegg að ICEsave stjórninni, þeir eru ekki eins kátir þegar ég bendi á samsvörun íhaldsins við áhugamál AGS um gjöreyðingu landslýðs.  Og öfugt Árni, og öfugt.  

Samt hélt ég að ég segði alltaf það sama, og notaði alltaf sömu dómgreindina.

En hvað um það, ætla að draga úr vígaferlum eftir páska, svona í tilefni upprisunnar, og fara  að ræða um byltingar, með mínu nefi. 

Þá reynir fyrst á lesturinn og eftirspurnina. (he, he, he).

En kennitöluflakkið er kannski sorgleg afleiðing þess sem Magnús benti á.  Og án vel rekinna, stöndugra fyrirtækja, er fátt um fína drætti á vinnumarkaðnum. 

Samfélag okkar er lífræn heild, þar sem hagsmunir allra eru samanofnir, og viss skortur á skynsemi hefur farið illa með vaxtahorfur og grósku.  Og fyrst að það tala allir íslensku í himnaríki, hví ættum við ekki að geta talað okkur saman um ásættanlegar niðurstöður svo gróska og hagsæld fái dafnað, hjörtun  i Grímsnesinu og 101 eru jú þau sömu, það er aðeins klæðaburðurinn sem skilur að.

Snýst ekki árangursrík bylting um að finna þennan takt????

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 31.3.2010 kl. 13:23

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir fróðlegt innslag Magnús.

Hef oft hugsað það sama, þó ekki hafi ég ennþá fundið þeim hugsunum farveg á bloggi mínu.

En ef til þess kemur þá mun ég skrifa í þeim anda sem þú bendir á.

Kerfisbundinn taprekstur er samfélagsógn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 31.3.2010 kl. 13:26

6 Smámynd: Elle_

En hvað um það, ætla að draga úr vígaferlum . . .

Hef heyrt þennan nokkuð oft, -áttu nokkuð annan, Ómar???

Elle_, 31.3.2010 kl. 19:03

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mér er nú gjarnara að höggva til hægri og það stafar einfaldlega af eðlisfari mínu sem er blandað svo miklum mótþróa að ég tel mér skylt að andæfa ríkjandi ástandi. Til þess hefur nú ekki þurft mikið hugmyndaflug á mektarárum hægri aflanna hér á Íslandi.

En nú segjast þessi stjórnvöld vera vinstra fólk og mér finnst það næstum jafn vanburðr til stjórnsýslunnar og hrægammar græðginnar. Bara svolítið öðruvísi misheppnað fólk.

Árni Gunnarsson, 31.3.2010 kl. 19:43

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Árni.

Segðu mér þá eitt,  varst þú að hæðast að mér gær?????

Kveðja  að austan.

Ómar Geirsson, 31.3.2010 kl. 19:54

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Elle, hlerari.

Þú ert eins og kona mín, trúir ekki á minn góða vilja til friðsamari hluta.  Eins og það sé mér að kenna að ríkisstjórnin sé ekki stjórntæk.  Og geti ekki svikið þjóðina í ICEsave.

En ég er friðarins maður, og á eftir að sanna það,   ..... alveg satt, einhvern tímann.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 31.3.2010 kl. 22:57

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Síðbúið svar Ómar. Þú spyrð hvort ég hafi verið að hæðast að þér í gær. Ég hlýt að kenna mér um hafi þér fundist það en því fer víðs fjarri.

Það sem að baki lá var einfaldlega það að einhver klaufaskapur hefur orðið til þess að ég fór of seint að veita pistlum þínum athygli. Það er nefnilega svo sjaldgæft að hitta fólk sem horfir beint á ástandið en kemur ekki annað hvort frá hægri eða vinstri og er búið að taka myndina áður en myndefnið birtist.

Gleðilega páska!

Árni Gunnarsson, 1.4.2010 kl. 08:47

11 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Blessaður Ómar

Ég hlakka til að lesa pistla þína um byltingar.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 4.4.2010 kl. 16:01

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Áttu við eins og þennan sem er til í huga mér, en bíður eftir jarðveginum til að blómstra í????

Pabbi, viltu sjá afabörn þín????

Þegar 5 ára drengurinn finnst pabbi sinn vera ósanngjarn fram úr hófi, og ekki skilja gjörðir og tilfinningar lítils drengs, þá spyr hann mig þessarar spurningar, "pabbi viltu ekki sjá afabörn þín" og hótar mér því að flytja af heiman og þar með ég muni ekki sjá þau börn sem framtíðin mun ala.  Þau hafi ekkert að gera við að hitta svona vondan afa sem skammar börnin sín.

Í þessari stóru spurningu lítils barns felst kjarni þess sem gefur lífi okkar tilgang.  Við viljum ala af okkur líf, og sjá það líf ala af sér líf.  Og við viljum að það líf alist upp við þau skilyrði að þá fá að blómstra og dafna án stöðugs ótta við manngerðar hörmungar, hvort sem það eru stríð og ófriður, eða arðrán og kúgun, eða siðleysi og grimmd.

Í dag eru ýmsar blikur á lofti að þessi hótun sonar míns gangi eftir.  Ekki vegna þess að ég óttast ekki að ná sátt við son minn, heldur vegna þess að ég óttast það átakaferli sem heimurinn er í og ég óttast uppgjör kúgaðra við skipulegt arðrán og siðlausa kúgun hins alþjóðlegs auðvalds, sem skipulega vinnur að því að gera hina ofurríku, ofurofurríka, og okkur hin miklu fátækari, jafnvel allslaus.

Fyrir um tveimur árum las ég grein þar sem einhver mætur maður benti á að lognmolla upphafsára þessarar aldar væri um margt keimlík og var í aðdraganda fyrra stríðs.  Almenningur lifði í þokkalegri velmegun (miðað við aldirnar á undan) og framfarir blöstu við hvar sem litið var.  En á skákborði stjórnmálanna ríkti spenna, og þar sem maðurinn þekkti bara eina leið til að leysa þá spennu, þá fór allt í bál og brand.

Ég í sjálfu sér gaf ekki þessari samsvörun gaum, hafði um annað að hugsa.  En síðan kom Hrunið, nýfrjálshyggjan hikstaði, og tók þjóðarauð margra landa með sér í fallinu.

Aðvörun, lærdómur??? Eða verður hún endurreist aftur, ennþá illskeyttari en fyrr????

En samt var þetta ekki mér efst í huga, heldur þær hörmungar sem yfir okkur gengu, og þær gerðu mig áhyggjufullan.  En ég var það barnalegur að halda að þjóðin myndi læra af Hruninu jafnframt því hún einsetti sér að skipta byrðum Hrunsins á allar herðar, og þeir sem urðu fyrir áföllum (atvinnuleysi, skuldakreppa) fengju þá hjálp sem allir fá á hörmungatímum.  Ég trúði því að enginn yrði skilinn eftir í þeim skít sem frjálshyggjan skóp þjóðinni.

Og ég hafði svo innilega rangt fyrir mér.  

Ábyrgðarmenn Hrunsins, þeir voru fljótir að ná vopnum sínum, og með nýjum leikendum þá hófu þeir markvissa endurreisn hins gamla kerfis, aðeins verra og siðspilltara en áður hafði þekkst.

Því aðeins gjörspillt fólk, sem aðhyllist algjörlega siðblint þjóðfélag, skilur ungt fólk eftir á vergangi vegna afleiðinga mannlegra hörmunga, hörmunga sem unga fólkið bar enga ábyrgð á.

Og upp í huga mér kom stefið "bræður munu berjast og af bönum verðast", og það stef hefur ekki vikið þar út síðan.  Og fyrst ég upplifði tíma goðsagnanna á Íslandi, hvað þá um þær goðsagnir sem alltí einu virtust spretta upp úr gráma forneskunnar og voru að öðlast sjálfstætt líf.  

Er tími Ragnarrakanna upp runninn????  

Hvernig getur líf okkar alið af sér líf, ef við látum höfðingjanna endalaust leysa mál sín á okkar kostnað, og ef við leyfum þeim að grípa til vopna til að vernda stöðu sína og hagsmuni.  Hvað þá ef kúgaður lýður rís upp og hrekur þetta lið af höndum sér.

Gömul saga og ný, en í fyrsta sinn í sögu mannkyns, hefur það getu til  að há sitt lokastríð, og mannkyn sem kann ekki aðra lausn á átökum, en að drepa náungann, það hlýtur að há þetta lokastríð.

Og um þau endalok fjalla hinu fornu goðsagnir.

Goðsagnir, raunveruleiki, skilin eru orðin óljós.  Og öll fljót falla að Heljarósi.

Ekki svo sem nýtt, nema vegna þess að ég spurður spurningar sem allt mitt sjálf, öll mín mennska vill svara játandi.

Já, sonur minn, ég vill sjá afabörn mín.

Þess vegna settist ég hikandi við tölvuna, og fór að blogga.  Að hluta til gegn siðleysi þess að neita ungu fólki um aðstoð, um siðleysi þess að gera það að listíðarskuldaþrælum, að hluta til gegn þeim ógnaröflum sem hafa ráðist á þjóð okkar og ætla að knésetja hana í þrælkun og örbirgð, en að hluta til vegna þess að ég taldi og tel, að það þarf að orða nýja hugsun, nýjar lausnir.

Það þarf að orða gildi mannúðar og mennsku, og orða þá heilbrigðu skynsemi sem mun koma okkur út úr þrengingum okkar án þess að við fórnum því þjóðfélagi sem tók áa okkar áratugi að byggja upp með þrotlausri vinnu og erfiði.  Þjóðfélag velferðar og mennsku.

Og það þarf að horfast í augun á þeirri miklu ógn sem upplausnaröfl Tregðunnar skapa mannkyninu á komandi árum.  Og það þarf að skapa mótvægi gegn þeirri upplausn, skapa jákvæða ferla sem vinna gegn þeim öflum sem eru okkur svo skeinuhætt.

Öflum sundurlyndis, siðblindrar græðgi og ómennsku.

Þess vegna hef ég mótað hugsanir mínar um Byltingu byltinganna, og um þær hugsanir má víða lesa, bæði á mínu bloggi og annarra sem vilja það sama og ég.  Að líf afkomenda þeirra sé tryggt.

Bylting byltinganna snýst um að við finnum aðrar lausnir á deilum, en átök, þróun tækni mannsins hefur útilokað þá deilulausn.  Og við þurfum að viðurkenna rétt allra til mannsæmandi lífs, og við eigum að nota heilbrigða skynsemi og mannvit til að byggja upp samfélag þar sem allir njóta slíkra réttinda.  Og fyrir þá sem sjá ekki heiminn án stríða og átaka, þá eigum við að skera upp herör gegn fátækt og örbirgð, gegn spillingu og glæpum, gegn umhverfisógn og loftlagsbreytingum.

Þegar þau stríð eru búin, þá má alltaf finna önnur, án þess að þau feli í sér endalok mannkyns.

Um allan heim er fólk að orða svipaðar hugsanir.  Páfinn kom inn á kjarna málsins þegar hann sagði í páskaávarpi sínu að við stefndum að feigðarósi, nema við sjálf gerðum eitthvað í málinu, að við horfðumst inn á við og tækjum okkur sjálf taki.

Að viðurkenndum að forsenda framtíðar er hin siðaða manneskja, ekki hið taumlausa villidýr græðginnar sem gerir allt sem það kemst upp með. 

Biskup Íslands lagði einnig margt þarft til málanna í páskaguðþjónustu sinni.  Hann bar saman þjóðfélag villidýra og þjóðfélag mennskunnar, þjóðfélag hins siðaða manns.

Allt hefur þetta verið sagt áður.  En eini munurinn er sá að ef við hlustum ekki núna, þá verða þessar ræður aldrei fluttar aftur, svona af gefnu tilefni þess að það verður hvorki nokkur til að flytja þær, eða nokkur til að hlusta á.

Það vill svo til að það varð okkar hlutskipti að hlusta, það var okkar að gera það upp við okkur hvort við vildum sjá barna eða barnabörn okkar.  

Við báðum ekki um það hlutskipti en tíminn lét það verða okkar.

Og það er ekkert val, það er engin leið B út úr vandanum.

Augljóst mál, því annars sæti ekki feiminn, fælinn maður eins og ég, með öll sín vandamál, fyrir framan tölvuna, og eyddi tíma mínum í að gera mig að fífli með því að tala um mannúð og mennsku, að tala um að núna verðum við sjálf að gera eitthvað í málinu.

Hrunið mikla 2008 sýndi fram á í eitt skipti fyrir öll, að höfðingjunum er ekki treystandi fyrir framtíð mannkyns.

En hvað get ég gert hugsar lesandi þessa pistils, hvað get ég gert?? Jafnvel þó ég samþykki forsendur hans, og vilji það sama og pistlahöfundur, þá náum við varla tylftinni, allavega ekki stórtylft, og fleiri þarf til að brjóta Tregðuna á bak aftur.

En í þessari afstöðu liggur einmitt von Tregðunnar, Tregðu upplausnar og óreiðu, um hinn endalega sigur.  Að fólk fatti ekki að þessi Bylting byltinganna er eins og að drekka vatn.  Auðveld í framkvæmd og sigurinn er vís, eins og í öðrum þeim stríðum þar sem réttlæti og mennska er með í för.

Vegna þess að þessi Bylting, að þessi sigur, þarf  aðeins eina forsendu, og hún er eins auðveld og nokkur forsenda getur verið.

Það eina sem þarf er að hver og einn horfi í sinn eigin barm, og spyrji sig spurningar um hvað það er sem skiptir hann máli í lífinu. Og ég hygg að svarið sé í anda þess sem fyrirsögn þessa pistils tjáir.  Það eins sem skiptir hvern og einn máli, er líf og velferð afkomenda sinna.  Það er ekki jeppi, eða fallegt hús, þægilegt líf eða öryggi þess að vera með hausinn í kafi í sandi á meðan villidýr ómennskunnar æða um organdi um grundir, allt þetta er í raun hégómi miðað við hinn raunverulega tilgang okkar.

Og það erum aðeins við sem getum svarað þessari spurningu.  Bæði þess að spyrja hennar og svara henni, það er mál hvers og eins.  Og þegar hver og einn hefur spurt hennar og svarað, þá leitar hann þá upp sem eins er háttað.

Þannig myndast afl sem Tregðan ræður ekki við.

Afl hins siðaða manns sem gefur skít í hið viðtekna að svona er þetta og hefur alltaf verið, og við því sé ekkert að gera.  Afl hins siðaða mann sem tekur illsku og spillingu í bóndabeygju, og segir henni að hafa sig hægan.

Vegna þess að núna þarf að sinna mikilvægari málum og það mun verða gert.  Vegna þess að það þarf að gera það sem þarf að gera.

Og eina forsendan er að hver og einn taki afstöðu með framtíðinni.  Það er ekki undir neinum öðrum komið, það er ekki til minni heil tala en einn, og fjöldinn er myndaður úr mörgum einum.  Við eru ekki tvö eða milljón, við erum við.

Upphaf og endir Byltingarinnar er því undir okkur sjálfum komið.

Engum öðrum.

En af hverju ég, af hverju þar ég að svara þessari spurningu, núna, spyr íslenskur lesandi þessa pistils.  Við erum svo agnarsmá í heimsins hafi, hvernig getum við orðið það korn sem kemur skriðu byltingar mannsandans af stað???

Svarið er líka mjög einfalt, vegna þess að harmur okkar er brot af heimsins harmi.

Og vinnumenn Tregðunnar, siðblint auðvald er að rústa framtíð barna okkar.

Vörn okkar, byggð á mennsku og mannúð hins siðaða manns, byggð á viti og þekkingu hins skynsama manns mun tryggja okkur sigur.

Og sá sigur mun gefa öðrum manneskjum, sem líka glíma við þursa Tregðunnar, þá von og þá hvöt sem þarf til að líta í sinn eigin barm, og segja Nei við þeirri lygi, að við hinn venjulegi maður séum aðeins leiksoppar höfðingja og auðmanna, og Já við þeirri staðreynd að við erum upphaf og endir alls.

Að vilji okkar til lífs og framtíðar sé það afl sem siðmenningin hefur til að viðhalda sér.  

Að það séu við sem munum sigra Tregðuna, og skapa börnum okkar framtíð.

Framtíð í mannsæmandi samfélagi þar sem fólk lifir við frið og öryggi.

Vissulega getur okkar kynslóð ekki tryggt það um aldur og ævi mannsins.  Hún getur tryggt að á einhverjum tímapunkti framtíðarinnar, þá þurfi önnur kynslóð að spyrja sig sömu spurningar.  

Hvernig hún svarar, veit enginn, en okkar lausn er þá allavega þekkt.

Lausnin snýst um hina miklu gjöf sem okkur var gefin og Steinn orðaði svo vel:

Það stendur af sér allra veðra gný

í annarlegri þrjósku, veilt og hálft,

með ólán sitt og afglöp forn og ný,

hinn einskisverði maður; Lífið sjálft.

Þegar við áttum okkur á þessari grunnstaðreynd, þá er eftirleikurinn leikur einn.

Það eins sem þarf er vilji okkar sjálfra til að breyta hlutunum, að við áttum okkur á að við séum ekki fórnarlömb illskuafla, við eru gerendur framtíðarinnar.

Já, ég vil sjá barnabörn mín.

Kveðja að austan.

PS, Arinbjörn, þetta er allt löngu samið, aðeins eftir að rita niður á blað.  En hvenær, má guð vita.  Vissulega hef ég alltaf gaman að vera út úr kú með hugsanir mínar og áherslur.  Og vissulega hef ég gaman að sjá hve langt ég kemst með að móta fullburða kerfi vonar og framtíðar.  Og fer létt með að benda aðhlátursmönnum að gera betur, ef þeir kjósa.  Það heitir jú þróun hugmynda.

Og öllum er ljóst að þeir sem hafa athygli fólks í dag, er boðberar gjaldþrota lausna, gjaldþrota hugsunar.

En eldurinn Arinbjörn, sem rekur mig áfram, er að berjast við kulnun, þú þekkir það sjálfur mætavel.  Til þess að vit sé á, þá krefst þetta tíma og orku, annars er betur heima setið.  Og til að réttlæta slíkt fyrir mínum nánustu, þá þarf ég sterkari rök önnur en þau að ég hafi svo gaman að gera mig af fífli.

Þannig að ennþá er viss bið í Byltingu mína.  

En þarna úti eru aðrir sem hugsa það sama.  Þá þarf að styðja.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 5.4.2010 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 9
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 2649
  • Frá upphafi: 1412707

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 2313
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband