Tímamótayfirlýsing Sjálfstæðisflokksins.

 

Með ummælum sínum í kvöld hefur Sjálfstæðisflokkurinn tekið afdráttarlausa afstöðu með þjóðinni í ICEsave deilunni.

Engin þjóð lætur kúga sig til hlýðni við málstað fjárkúgara og ofríkismanna.  

Um leið og ég fagna þessum ummælum forystumanna Sjálfstæðisflokksins, þá vil ég minna á grein eftir tvo gegnheila Sjálfstæðismenn, lögfræðingana Jón Steinar Gunnlaugsson og Sigurð Líndal, tvo af okkar fremstu lagaspekingum.  

 

"Samt hefur ekki tekist að leiða málið til lykta hér innanlands. Ástæðan fyrir þessu er að öllum líkindum fyrst og fremst sú, að íslenska þjóðin er ósátt við að á hana verði lagðar hinar þungu fjárhagsbyrðar án þess að hún hafi fengið að njóta réttar til úrlausnar um skylduna til þess fyrir hlutlausum dómstóli, sem lögsögu hefur í málinu. Við blasir að aldrei muni nást nein sátt um málið á Íslandi nema að undangengnum slíkum dómi. Minnt skal á að rétturinn til dómstólameðferðar er varinn af íslensku stjórnarskránni, mannréttindasáttmála Evrópu og raunar gildir hann einnig hjá þeim ríkjum sem við höfum deilt við í málinu."

 

Sú sátt sem  þarf að nást í ICEsave deilunni, verður ekki nema að undangegnum dómi þar sem þar til bærir dómstólar dæma um réttmæti krafna breta og Hollendinga.

Það þarf aðeins einn stjórnmálaflokkur á Íslandi að álykta í þá vegu, og þar með hefur þjóðin unnið fullnaðar sigur.  Lagarök breta þola ekki umfjöllun dómstóla, og aðferðarfræði þeirra að beita kúgunum og hótunum yrði allsstaðar dæmd ómerk og vítaverð.  Eftir stæði hve miklar skaðabætur sem þeir yrðu dæmdir til að greiða íslensku þjóðinni vegna framferði síns.

Þegar einn flokkur er búinn að álykta um þetta, þá  verður dómstólaferlið ekki stöðvað.  Það þarf aðeins einn flokk til að vísa málinu til ESA, og þar með yrði stofnunin að leita til EFTA dómsins, og hann til Evrópudómsins.  Sá dómstóll  hefur áður dæmt breta fyrir kúgun og ofríki og mun örugglega gera það aftur, því Evrópudómurinn dæmir eftir lögum, ekki valdapólitík einstakra ríkja.

Lausn ICEsave deilunnar er mjög einföld, en hún snýst um kjark og manndóm núverandi forystumanna þjóðarinnar.  Því miður hefur frammistaða hins nýja formanns Sjálfstæðisflokksins valdið vonbrigðum, hann hefur ekki stigið fram sem leiðtogi i ICEsave deilunni, alvarlegustu aðför sem gerð hefur verið að sjálfstæði þjóðarinnar. 

En orðin sem hann þarf að mæla, hafa verið sögð áður, og eru öllum þekkt sem þekkja til sögu þjóðar og sögu Sjálfstæðisflokksins.

"Vér mótmælum allir"

"Ger rétt, þol ei órétt."

Daginn sem Bjarni Benediktsson mælir þessi orð og tilkynnir afdráttarlausa stefnu flokksins í ICEsave deilunni, það er dagurinn sem hann varð alvöru leiðtogi.

Bjarni, þú átt næsta skrefið.

Meðalmaðurinn fylgir almannarómi innan síns flokks, og reynir að gera öllum til hæfis, og ekki styggja neina hagsmunaaðila.

Leiðtoginn tekur af skarið og markar stefnu út frá hagsmunum þjóðarinnar í lengd og bráð. 

Enginn fjárhagslegur ávinningur tekur fram fullveldi þjóðar.  Þjóð sem lætur aðra þjóð kúga sig til ólöglegra skattgreiðslan, er ekki lengur fullvalda þjóð, og hún mun glata sjálfstæði sínu.  Jafnvel þó satt væri (þó það sé þveröfugt segja alþjóðlegir sérfræðingar í skuldamálum ríkja) að lánamarkaðir myndu lokast ef þjóðin stæði á lögum og rétti í ICEsave deilunni, þá er sjálfstæði þjóðarinnar ekki metinn til fjár.  Hún yrði að þrauka "hafbannið" af sér og reyna að aflétta því á einhvern hátt, án þess að gefa eftir sjálfstæði sitt.

Það ræður engin þjóð því hvenær stærri og voldugri nágrannar ráðast á hana.  Og vissulega geta þeir kúgað hana til undirgefni.  En þjóð sem ver ekki hendur sínar, á allt sitt undir náð og miskunn annarra, og á hana verður alltaf litið sem auðvelda bráð.  Þó einhver stundarávinningur felist í eftirgjöfinni, þá hverfur hann fljótt í næstu atlögu, því þær muna aldrei endi taka. 

Það er eðli bráðar að verða étin.

Og þjóð án leiðtoga er auðveld bráð, eins og dæmis sanna hér á Íslandi.

Þess vegna spyr ég aftur;  Bjarni Ben, er þinn tími kominn???

Þjóðarinnar vegna vona ég að svo sé.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Þjóðin láti ekki kúga sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Sæll Ómar.

Ég legg til að þú lítir á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins.

http://xd.is/

Kveðja austur.

Loftur Altice Þorsteinsson, 4.3.2010 kl. 22:28

2 identicon

Snjalli Ómar !

 Þjóð sem á jafn skorinorðan og ritfæran "dreng "sem þig, er ekki á flæðiskeri stödd !

 Hvet þig lögeggjan að senda þennan pistil - strax í kvöld - til birtingar á laugardag ( kjördag) í Morgunblaðinu.

 Örlagastundin er upp runnin !

 Það var sársaukafullt að hlýða á forsætisráðherra Íslendinga í  fréttatíma Ríkissjónvarpsins í kvöld.

 Þjóðaratkvæðagreiðslan væri MARKLEYSA ! !

 Hafi þekkt setning nokkurntíman átt við, þá er það núna.:

 "Guð blessi Ísland" .

 Kveðja frá Seltjarnarnesi.

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 4.3.2010 kl. 22:47

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Loftur.

Er ekki mikið fyrir svoleiðis lestur.  Og ég reikna ekki með að hann Bjarni eða nokkur annar Sjálfstæðismaður sé að lesa blogg mitt.

Hugsun mín með þessum pistli, fyrir utan að fagna að Bjarni skuli taka af skarið, er að minna á að við þurfum ekki að lúffa þegar lögin eru okkar megin.

Við eigum að sækja fram.

Og á því hamra ég aftur og aftur þangað til að einhver annar fer að segja það sama.  

Ég man ekki hvað ég var búinn að vitna oft í þá Stefán og Lárus þegar gott fólk spurði mig um hvaða menn það væru.  Þó hafði það lesið pistla mína og var sammála mér, en það spáði ekki nógu mikið í hvaðan ég fékk lagarökin.

Eins var það með pistil minn í ágúst í fyrra þar sem ég sagði að "Að það væri ekki val í ICEsave deilunni", þar sem ég bloggaði hvasst gegn "fyrirvara" frumvarpinu sem var svo samþykkt 2. sept.  Það tóku ekki neitt ofboðslega margir undir þá skoðun, þótti jafnvel einstrengilegur að sjá ekki kosti þess að fá inn fyrirvara inn í Svavars smánina.  Vissulega voru þeir til góða, en mín afstaða var kristaltær, við borgum ekki bretum krónu í skatt nema að lögmæti þess sé á hreinu.  

Minnir þetta ekki á afstöðu Þjóðarheiðurs, um 100% nei. en þau samtök voru ekki stofnuð í ágúst í fyrra, heldur fyrir viku síðan.

Loftur, ég er í áróðursbloggi.  

Ég dreg allt fram sem styður mál okkar 100% fólksins, og skrumskæli allt sem frá bretavinum kemur.  Fletir mínir eru margir, en þeir lúta allir að sama ósi, fullnaðarsigur yfir bretum í ICEsave deilunni.

Ég veit ekki til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi skotið deilunni til ESA, en ég var að minna á þá leið, hún er sú eina sem gerir út um bretanna.  Leið þeirra Jóns og Sigurðar, að bíða eftir að bretarnir komi hingað og sæki mál sitt, er leið þráteflis.  

Loftur, ég tefldi aldrei upp á þrátefli, ég tefldi til sigurs.  Tapaði að vísu miklu oftar, en það var sigurinn sem skipti máli.

 En ég gleðst yfir þessari frétt, og tel hana mjög mikilvægt skref.   En aðeins skref að hinu endanlegu marki.

Sigri.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.3.2010 kl. 22:59

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kalli.

Það les enginn neitt eftir óþekktan mann.  Mitt hlutverk er að koma hugsunum á flot, og vona að þær finni sér farveg í rökræðum Netheima.

En ég sagði mitt álit á orðum Jóhönnu í síðasta bloggi dagsins, ætlaði að hafa þetta sem lokablogg, og láta það standa fram eftir degi á morgun, því ég óttast ekki lengur svik, eftir þessa afdráttarlausu yfirlýsingu Bjarna, sem ég fagna svo mjög, að ég get farið að huga að öðru málum, tel að þessi áfangi sé í höfn. 

Bjarni Ben er virkilega að koma sterkt inn síðustu dagana, eftir leyndó brallið með Jógrímu, sem ég var alltaf dauðhræddur við.

Og Bjarni mun ræða við erlenda fjölmiðlamenn, þá munu þau Jógríma og Gylfi koma ennþá aumara út sem þjóðarleiðtogar.

En lestu pistilinn, kannski orðsterkur, en mér er ofboðið,  það eru takmörk fyrir öllum svikum, það eru takmörk hvað þetta fólk getur lagst lágt.

En takk samt fyrir hrósið, okkur drengjunum líkar slíkt alltaf vel þegar við höfum lagt á okkur ómælda vinnu til að halda fram málstað þjóðarinnar hér í Netheimum.

Og það var þess virði.  Mér var svo létt þegar ég fékk þessi tíðindi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.3.2010 kl. 23:11

5 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Sæll Ómar, ég verð að lofa þessi skrif þín líka. Ég finn það líka að það er komin farvegur í aðra átt og átt sem á ekkert annað eftir en að færa okkur í réttan farveg. Ég fann líka léttir við að lesa þessa ákveðnu stefnu sem er komin hjá Bjarna. Þetta er búin að vera löng leið að stíga og þegar maður lítur til baka þá er alveg ótrúlegt að það skuli ekki neitt vera búið að ganga, en varðandi Icesave þá er það vegna þess að rétt á að vera rétt, og þegar það er verið að troða hlutum í rangan búning sem passar enganvegin en troðið samt þar til hann springur þá er náttúrulega ekki verið að gera rétt það gefur augaleið. Það verður ekki fyrr en þetta mál fer í réttan farveg sem að viðunandi lausn kemur. Það þarf stundum sterk orð til að þau sjáist. En mér finnst þú yfir höfuð góður penni. Við eigum alveg óhikað að láta reyna á réttarstöðu okkar gagnvart þessum hryðjuverkalögum sem að Bretar settu á okkur. Það er ekki hægt að segja að við Íslendingar höfum ekki boðið það sem við getum. En það er ekki hægt að krefja einhvern um það sem er ekki hægt. Það er óraunsæi að ætla það, og annað sem býr þá að baki en að vilja að hjálpa. Áfram Ísland segi ég núna við erum Sjálfstæð þjóð afburða dugleg í okkur og það er ekki til að við getum ekki ef að vilji er fyrir hendi.

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 5.3.2010 kl. 00:00

6 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Sæll Ómar

ég var á fundinum með Bjarna og Þorgerði í dag

magnaður fundur -

Þau skiluðu sínu af krafti og sannfæringu og staðfestu það sem við höfum verið að segja

 KJÓSUM KJÓSUM - SEGJUM NEI NEI NEI -  Það að sitja heima er sama og að segja já við nýlendukúgarana -

OG JÚ Sjálfstæðismenn lesa oft þitt blogg og líkar vel skýr og málefnaleg framsetning þín

bestu þakkir

Ólafur Ingi Hrólfsson, 5.3.2010 kl. 01:02

7 identicon

Sæll, rakst á þetta blogg þitt hér á rölti mínu á mbl.is. Ég vil byrja á því að segja að ég þekki þig ekkert og veit ekkert hverjar þínar skoðanir eru svona almennt. Þú færir ágætlega rök fyrir máli þínu en þú gerir alltof lítið úr þeim efnahagslega kostnaði sem frekari töf á þessu máli hefur í för með sér. Það er raunveruleg hætta á því að þetta land verði gjaldþrota á næsta ári og ég bið þig og aðra að muna það. Þú segir að betra sé að vera fullvalda og gjaldþrota en missa fullveldi og forðast gjaldþrot. Ertu að tala í alvöru? Í fyrsta lagi höfum við glatað hluta af fullveldi okkar nú þegar því við erum skuldug upp fyrir haus og í öðru lagi er engin þjóð í dag, á  tímum víðtæks alþjóðasamstarfs, fullkomlega fullvalda. Það sem ég vil er að þetta land lifi sem bestu lífi eins lengi og hægt er. Hvers virði er einhver rómantísk 19. aldar hugmynd um sjálfstæði þegar fólk á ekki lengur möguleika á að lifa því lífi sem Íslendingar vilja lifa? Ef þetta land einangrast efnahagslega og pólitískt mun það ekki eiga bjarta framtíð. Viljum við taka áhættuna á að tapa öllu vegna skuldar sem við ráðum við? Auðvitað eigum við að standa á rétti okkar en hver hann er í þessu máli er óljóst og það myndi taka mörg ár að leysa úr því. Til að tryggja framtíð landsins þá verðum við að horfa raunsætt á stöðuna. Við getum ekki haldið áfram að heyja stríð sem kostar okkur milljarða í tapaðri fjárfestingu og hagvexti. Þessi atkvæðagreiðsla á ekki eftir að breyta heiminum. Þú virðist halda eins og allt of margir að skuldin hverfi ef við segjum nei. Þetta er ekki rétt. Málið mun standa eftir óleyst og sú umræða verður ríkjandi að þessari þjóð sé ekki treystandi og á því töpum við mestu. Ef þú eða aðrir lesa þetta þá byrja kannski að fljúga orð eins og, "landráðamaður", "svikari", "útsendari óvinarins". Ég frábið mér svoleiðis tal. Þótt ég telji best að semja þá er ég ekki minni Íslendingur en aðrir. Ég vil það sem ég tel vera best fyrir landið og ég sé ekkert annað í stöðunni en að semja því hinn kosturinn er einfaldlega verri. Gott fólk, reynum nú að hífa okkur upp úr skotgröfunum. Semjum um þetta mál og einhendum okkur svo saman í byggja nýtt Ísland þar sem útrásarbraskari er ekki í forystuhlutverki.

Jakob (IP-tala skráð) 5.3.2010 kl. 02:04

8 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Í gær birtist í Morgunblaðinu grein eftir mig sem nefnist Ríkisstjórnin er föst í eigin blekkingarvef. Þar gef ég mér þær forsendur að gerðir ríkisstjórnarinnar mótist mest af heimsku og ég færi að hluta til sönnur fyrir því. Eftir að hafa horft uppá starf ríkisstjórnarinnar í um 12 mánuði hefur meirihluti þjóðarinnar komist á sömu skoðun og ég. Það sem Jakob hefur fram að færa, hlýtur að sannfæra alla um að þessi skoðun er rétt.

 

Jakob talar um “efnahagslegan kostnað” og “gjaldþrot þjóðarinnar”, ef ekki verði látið undan óbilgjörnum og ólöglegum kröfum nýlenduveldanna. Fyrir þessum meintu ógnum færir Jakob engin rök, enda er flestum ljóst að auknar skuldir án þess að neinar greiðslur komi til, geta ekki orðið til að bæta fjárhagsstöðu landsmanna. Þeir fjölmörgu útlendingar sem ég er í sambandi við, segja einum rómi: “losið ykkur við Icesave-klafann og þá eigið þið möguleika að komast hjá gjaldþroti”.

 

Þar að auki er um að ræða kostnað sem erlendir innistæðu-trygginga-sjóðir hafa greitt og höfðu skyldu til að greiða. Á endanum eru það trygginga-takarnir, bankar í Bretlandi og Hollandi, sem greiða kostnaðinn. Icesave-útibú Landsbankans voru skuldfærð fyrir fullum trygginga-iðgjöldum af FSCS í Bretlandi og DNB í Hollandi. Hvers vegna ætti innistæðu-eigendur í Icesave-útibúunum ekki að fá bætur á sama hátt og þeir sem voru tryggðir af öðrum bönkum ?

 

Jakob hefur greinilega enga hugmynd um hvað hugtakið fullveldi merkir. Hann talar um að þjóðin hafi glatað hluta af fullveldi sínu vegna skulda og vegna alþjóðlegs samstarfs. Fullveldi er stjórnarfarslegt hugtak, sem merkir “endanlegt og fullt vald” varðandi þau atriði sem fullveldishafinn sjálfir ákveður. Annað hvort hefur einhver fullveldi eða hann hefur það ekki.

 

Konungur eða keisari sem hefur fullveldi, er alvaldur. Hins vegar þar sem lýðræði ríkir, fer “fólkið – lýðurinn – þjóðin” með fullveldið. Forseti Lýðveldisins vísaði Icesave-málinu til handhafa fullveldisins á Íslandi -  til fólksins. Það er hámark heimskunnar að tala um að afsal fullveldis sé besta leiðin til aukins fullveldis. Þessa speki hefur einn af þjónum Samfylkingarinnar borið á borð.

 

Jakob vill ekki líta út sem alger auli og því heldur hann því til haga, að við eigum að standa á rétti okkar, en bætir við að sá réttur sé óljós. Þetta er hin mesta fjarstaða, því að réttur okkar í Icesave-deilunni er alger. Okkur ber engin skylda til, að greiða iðgjaldakosnað fyrir banka í Bretlandi og Hollandi. Hvernig samrýmist hugtakið að “standa á rétti” því að lúffa fyrir ólöglegum og ósiðlegum kröfum ?

 

Jakob talar um að við verðum að horfa raunsætt á stöðuna, en fyrir honum merkir það að gefa eftir fyrir ofveldinu. Verði honum að góðu að vera svona þrælslundaður. Við hin höfum allt annað viðhorf til þess að vera sjálfstæð þjóð og munum ekki láta erlend nýlenduveldi kúga okkur. ÞJÓÐARHEIÐUR krefst þess að staðið verði föstum fótum á lagalegum grundvelli málsins.

 

Þjóðarheiður – gegn Icesave.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 5.3.2010 kl. 10:59

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Jakob.

Það er auðséð að þú þekkir ekki til skrifa minna, virðist ekki einu sinni hafa lesið þennan pistil rétt, mig rekur ekki minni til að ég hafi sagt að það sé betra að vera fullvalda og gjaldþrota.  En hins vegar er það rétt, bretar vissu sem er að þeir áttu ekki til pening til að berjast við Hitler, en gerðu það samt.  Bara svo við höfum það á hreinu um hvað sjálfstæði mannsins gagnvart kúgun og ofbeldi er mikilvæg.  

Hvað varðar landráð og landráðamenn, þá eru það þekkt alþjóðleg hugtök, og íslensk lög eru þýðing á dönskum lagatexta þar um, og þessi lög hafa verið mjög keimlík í gegnum aldir, nema það er nýlega hætt í Vestur Evrópu að hengja menn og skjóta fyrir þá hegðun, en í Bandaríkjunum fá menn rafmagnsstólinn fyrir að styðja óvinveitta atlögu annars ríkis sem er ætluð til að knésetja fullveldi landsins.

Jakob, ég fann ekki upp á þeirri skilgreiningu að fólk sem aðstoðar erlend ríki við rán eða árás, sem beinist að fullveldi landsins, að það sé landráðafólk.  Ef þér leiðist þetta, þá skaltu byrja á að fá þér tímavél og skamma Forn Grikkina fyrir að vera svona fúlir við hann Efíaltes fyrir að vísa Persum leið yfir fjöllin svo þeir kæmust að baki Grikkjum við Laugaskarð.  Svona er þetta bara.  Og hvað rök þín sem þú notar þér til afsökunar þá hafa þau öll heyrst áður í réttarsölum landa sem hafa svipaða skilgreiningu á landráðum og við.  Samt skutu til dæmis sú friðsama þjóð Norðmenn marga af þeim sem sögðu það þjóna fjárhagslegum hagsmunum landsins að starfa með óvinveittu árásarríki, og eins virkuðu ekki rökin um að enginn væri eyland, bang bang var alltaf svar norsku réttvísarinnar.

Hvað þessa fullyrðingu þína varðar að ég "geri alltof lítið úr þeim efnahagslega kostnaði sem frekari töf á þessu máli hefur í för með sér" þá veist þú ekkert um það þar sem þú hefur ekki lesið skrif mín.  Varla bjóstu við að þessi stuttu pistill um ákveðna leið til lausnar ICEsave deilunnar, væri um leið ritgerð um kosti og galla þess að hafna ICEsave.  

En staðreyndin er sú, að ég er orðmargur bloggari, og skrifa reglulega pistla um rökin á bak við deiluna, bæði lagaleg og hagfræðileg.  Og ég myndi gera miklu meira af því ef einhver nennti að lesa þá pistla sér til gagns og ánægju.  En svo er ekki og ég skrifa þá aðeins til að festa rök mín niður á blað.  Þú mátt þefa þá uppi ef þú vilt vera upplýstur, en ég ætla ekki að auðvelda þér leikinn með því að benda þér á þá.  

En ég skalt stuttlega benda þér á að hin meintu rök um fjárhagsleg nauðsyn ICEsave samningsins, að þá hefur það verið marghrakið með rökum, sérstaklega hafa virtir erlendir hagfræðingar gert það.  Aðeins fáráðir halda því fram að 5 ára skammtímalán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu lausn á efnahagsvanda þjóðarinnar, sömu fáráðar og sögðu að tífalt bankakerfi væri sjálfbært.  Eina réttlæting er aðgangur að erlendu lánsfé, og þá er vísað í hálfopinbera lánasjóði Evrópu til að fjármagna virkjunarframkvæmdir.  Orkufyrirtæki okkar eru þegar of skuldsett og ekki einu sinni fáráðar telja það lausn að láta fyrirtæki í slíkri stöðu fara út skuldsettar stórframkvæmdir.  En ef einhver finnst nógu vitlaus til að gera það þá vil ég benda þér á að það er aðeins til þekkt orka í 2-3 álver að stærð Fjarðaráls.  Varanlegur hagvöxtur vegna Fjarðaráls  er ætlaður rúmlega 1%, en það þarf rúmlega 2% hagvöxt í 15 ár til að dekka ICEsave ábyrgðina, ef allt fer á besta veg.  Þá er ekki tekið tillit til neikvæðra áhrifa skattahækkana sem þarf til að innheimta féð, og að missi þessa gjaldeyris úr hagkerfinu.

Eins áætlar Seðlabankinn að gengi Evrunnar þurfi að haldast í 170 krónum  allan þennan tíma þannig að þeir bjánabelgir atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar sem segja að við þurfum að semja um ICEsave svo gengið styrkist, hafa ekki lesið skýrslu Seðlabankans um forsendur ICEsave samningsins.  Eins er það mjög ólíklegt að aðrir lánardrottnar Íslands sætti sig við að Seðlabankinn áætlar að á þessu tímabili sé aðeins greitt af lánum breta og AGS, að sleppa því að borga þeim er hingað til talin leiðin til að brjóta niður traust, ekki byggja það upp.

Jakob, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að það þurfi 160 milljarða árlega í greiðsluafgang af viðskiptum við útlönd, svo landið geti staðið í skilum.  Í dag flytur þjóðin lítið sem ekki neitt inn af varanlegum neysluvörum eins og bílum eða fjárfestingarvörum til atvinnulífsins, samt er vöruskiptajöfnuðurinn um 80 milljarðar.  Hvernig heldur þú að ástandið verði hér ef það þarf að tvöfalda hann?????  Sérðu ekki samhengið maður????

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í sínum bjartsýnisspám (saga hans kennir að hann fegri alltaf stöðu mála á meðan hann nær fjármunum út úr hagkerfum fórnarlamba sinna) telur að greiðslubyrði ríkissjóðs verði um 60 %, mjög svipað og í Argentínu þar sem fólk í fullri vinnu hjá ríkinu eins og kennarar og hjúkrunarfræðingar, þurftu að nota frítíma sinn í að gramsa á öskuhaugunum.  Þú telur hins vega að 60% greiðslubyrði sé forsenda þess að byggja upp nýtt Ísland. 

Jakob, ég deili ekki þessum draumi þínum.

Þú segir að við verðum að samþykkja ICEsave til að við getum staðið í skilum með lán okkar.  Nú hef ég í pistlum mínum peistað á orð þriggja sérfræðinga sem hafa beina reynslu að skuldavanda ríkja, og tekið þátt í að endurskipuleggja fjárhag þeirra, þar sem þeir segja að þau ríki sem stefndu i greiðsluþrot skulduðu um 60% af þjóðartekjum.  Með ICEsave ábyrgðinni og AGS pakkanum þá er bara skuldir ríkissjóðs komnar yfir 100%, hvorir skyldu hafa rétt fyrir sér, sérfræðingarnir eða þú Jakob????  Vertu heiðarlegur og svaraðu þessari spurningu með sjálfum þér.  Þú þarft ekki að láta mig vita um niðurstöðuna.

Þú talar um einangrun, hver er að einangra okkur, hvaða vissu hefur þú fyrir því???  Telur þú að orð séu sama og raunveruleiki???   En ég vil benda þér á að þeir sem þessu hóta, eru á fallandi fæti, og það kerfi sem þeir eru að verja, er komið að endamörkum.  Ég óttast ekki þessa einangrun, og þó ég óttaðist hana, þá sendi ég ekki öðrum reikninginn fyrir þeim ótta.

Og þá er ég kominn að hinni algjöru fáfræði þinni.  

Þú  talar um skuld þjóðarinnar.  Veist þú ekki hvernig skuld er tilkomin????

Ég skal upplýsa þig, hún er tilkomin ef einhver skrifar upp á hana.  Og sá sem skrifar uppá hana fyrir hönd þjóðar sinnar getur ekki gert það án þess að undirskrift hans standist lög og stjórnarskrá þjóðarinnar.

Ef þú ert að vísa í fullyrðingar breta um að EES regluverkið krefji þjóðina um þessa skuld, þá hefur þetta verið svo marghrakið, að það er aumkunarvert að lesa svona.  Af hverju heldur þú að Financial Times segi að kúgunin (bullying) sé "not legal".

Jakob, notaðu þína heilbrigðu skynsemi áður en þú trúir rökum fjárkúgara.

En annars takk fyrir þó að mæta á svæðið og reyna að réttlæta málstað þinn með rökum, ekki skítkasti.  Það er ekki þér að kenna að það eru því miður engin rök fyrir þeim málstað.

Þú vars blekktur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.3.2010 kl. 11:21

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið Ingibjörg og Ólafur.

Ólafur, ég átti nú reyndar við að áhrifamenn í flokknum læsi ekki svona blogg, en ég veit að mjög margir sjálfstæðismenn eru með skýra afstöðu í þessari deilu, og þeir kíkja reglulega við.  

Í þessu máli stöndum við öll saman um það sem rétt er.

Og Ingibjörg, mig langar aðeins að árétta að við höfum staðið við okkar skyldur með því að setja forgang innstæðna inn í neyðarlögin, og það átti að duga til að fólk fengi sína lágmarkstryggingu.  Það er aðeins þjófnaður breta með því að koma sínum tryggingasjóð inn í dæmið sem veldur því að peningur fellur á íslensku þjóðina.  

Og þjófa á að lögsækja, og dæma.

Daginn sem fólk skilur það, þá er þeirra tími liðinn.

Og Ólafur, ég endurtek það, ég er mjög glaður yfir þessari einurð sem þú vísar í.  Þetta er það sem við virkilega þurftum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.3.2010 kl. 11:27

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Loftur.

Takk fyrir sterkt innslag.

Ég var að semja mitt til Jakobs, taldi rétt að eiga rök á blaði til að grípa í ef ég fengi fleiri svona heimsóknir í dag.  

Hvort sem Jakob les þessi innslög hjá okkur eða ekki, þá eigum við þau, og getum vitnað í þau.

"Jakob hefur greinilega enga hugmynd um hvað hugtakið fullveldi merkir. Hann talar um að þjóðin hafi glatað hluta af fullveldi sínu vegna skulda og vegna alþjóðlegs samstarfs. Fullveldi er stjórnarfarslegt hugtak, sem merkir “endanlegt og fullt vald” varðandi þau atriði sem fullveldishafinn sjálfir ákveður. Annað hvort hefur einhver fullveldi eða hann hefur það ekki."

Þetta er kjarni málsins.  Fullvalda þjóð hefur vald til að takast á við greiðsluerfiðleika sína og önnur þau vandamál sem koma upp á.  Hún afsalar sér aldrei efnahagslegu sjálfstæðu sínu án þess að láta fullveldi sitt af hendi.  Og þannig upplifi ég aðkomu AGS, við erum að gefa eftir fullveldi okkar.  Og þar vill ég Loftur að þið Sjálfstæðismenn leitið aftur til upprunans um þau grunngildi sem flokkur ykkar spratt upp af, en það er sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar, sem er ekki í aska AGS látið.  

Og við megum ekki gleyma að þjóðir geta samið um sínar skuldir, án þess að láta fullveldi sitt af hendi, ótal dæmi sanna það.

En takk fyrir að mæta og gefa þér tíma til að svara Jakob, þessi rökveila er síðasta von bretavina, að blekkja fólk til að skila auðu eða mæta ekki því við töpum svo miklu á því að standa í lappirnar.

Og þessari rökveilu þarf að svara af fullri hörku.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.3.2010 kl. 11:36

12 Smámynd: Óskar Arnórsson

 Aldeilis frábær pistill hjá þér og góð innlegg hjá Lofti. Mér er nákvæmlega sama þá þið rífist yfir einhverju meðan sameiginlegt NEI til Icesave er lagi.

Það eru merkileg rök að segja að Ísland verði gjaldþrota ef þeir skrifi ekki undir. Það er akkúrat öfugt. Landið gæti eiginlega bara farið á hausinn við að skrifa undir. Island á að vera í viðbúnaðarstöðu gagnvart því að ekki þurfa að lána peninga knékrjúpandi fyrir framan útlönd. Enda voru það erlend lán sem eru öll vandamál i dag.

Það á ekki að beygja sig fyrir nokkru landi. Um þessa pólitísku flokka veit ég raunverulega ekki neitt. Nema kommúnista sem sitja við völd í dag. Þá þekkir maður í hvaða landi sem er. Og þeir eru öllu mannlífi hættuleg. Ef Sjálfstæðisflokkur ætlar að komast að aftur við stjórn þessa lands, þurfa þeir að gera mikla hreingerningu hjá sér. Hvað er langt síðan að einhver meðlimur í hvaða flokki sem er, var rekin úr flokknum fyrir spillingu og eiginhagsmunapot? Aldrei svo ég viti til.

Íslendingar þurfa að breyta sínum  stjórnarháttum. Atvinnupólitíkusar eiga ekki að vera til. Menn halda bara heilbrigðri skynsemi í politík ákveðið lengi virðist vera. Afskifti stjórnvalda þurfa að vera eins lítil og hægt er. Fólkið þarf að geta andað og lifað í friði. 

Síðan að Jacop eins og margir aðrir skrifi eins svona vitleysu, nenni ég eg ekki að hugsa um. Ég legg bara fram tillögu um að ENGIN sem vildi greiða þessa ICESAVE skuld fái nokkurntíma vinnu sem valdhafi eða vinnu í opinberu embætti. Eða trúa því að Ísland eigi að borga ICESAVE á að vera nóg sönnun að viðkomandi er ekki treystandi fyrir neinu starfi á vegum hins opinbera.

Óskar Arnórsson, 5.3.2010 kl. 11:46

13 identicon

Sælir Loftur og Ómar, mig grunaði að þið ættuð erfitt með að svara mér með öðru en skætingi. Þið gerið lítið úr greind minni en það snertir mig ekkert. Það kemur á óvart að þið berið saman okkar mál og mál þjóða sem urðu fyrir innrás. Okkar ástand er ekkert í samanburði við alvöru stríð. Það hefur engin látið lífið út af icesave. Ég veit það vel að Íslandi mun reynast erfitt að borga sínar skuldir en það mun verða raunin þrátt fyrir að icesave hyrfi. Það sem mér finnst sorglegt er að fáir eru að tala um hvernig við getum bætt þjóðfélagið en allt snýst um icesave. Eigum við bara að setja allt í stopp næstu árin út af máli sem er ekkert úrslitaatriði um framtíð okkar? Vinsamlegast reynið að skilja að ég er ekki Bretavinur. Getið þið tveir ekki rætt hlutina án þess að vera sífellt að uppnefna þá sem eru ykkur ósammála? Loftur, fullveldi er ekki einhlítt hugtak. Þú veist það alveg að í samskiptum þjóða er engin þjóð sem ræður öllu og fær allt sitt fram. Ómar, skuldir ríkissjóðs eru komnar yfir 100% af vlf þrátt fyrir að icesave sé ekki tekið með. Það er ekki einhugur ríkjandi um evróputilskipunina um innistæðutryggingar og sá tími sem tekur að skera úr um það er tími sem við höfum því miður ekki efni á. Eins og minnst hefur verið á er þung greiðslubyrði hjá ríkinu á næsta ári. Ef við fáum ekki frekari lán þá er ljóst að gjaldeyrisforði Seðlabankans verður þurrausin. Þetta hefur ekki verið hrakið. Það er ósanngjarnt að þessi skuld bætist við alla súpuna en það er margt ósanngjarnt við hrunið. Við erum þegar byrjuð að greiða fyrir það með hærri sköttum, lánum, vöruverði og í sumum tilfellum atvinnumissi. Mér finnst ósanngjarnt að þurfa í raun að kaupa Landsbankann á 10 sinnum hærra verði en hann var seldur á. Það er ömurlegt að þurfa að greiða fyrir gjaldþrot Seðlabankans.

Loftur minn, það er hálf öld síðan Bretar og Hollendingar  hættu að vera nýlenduveldi. Ómar, þú ert efins um að álver séu lausnin. Ég er það líka en ég sé enga aðra lausn á að koma hagkerfinu í gang en að fara í stórar framkvæmdir. Við verðum að auka hagvöxt ekki bara til að borga skuldir heldur til að fjölga þeim sem eru í vinnuog fjölga þannig þeim sem geta lifað mannsæmandi lífi. Ég tel ekki að lán imf sé töfralausn heldur ákveðin liður í að vernda leifarnar af krónunni og styrkja trúverðugleika okkar eins og hægt er. Ég vil einnig minna þig á að imf hefur lánað okkur 4 sinnum áður og við lifðum það af. Þú talar einnig um útreikninga þeirra um vöruskiptajöfnuðinn. Ef okkur tekst að auka útflutning þá er það bara betra en útreikningar í excel eru ekki endanlegur sannleikur næstu árin heldur hluti af heildar dæminu. Þú virðist líka halda að ég telji að aukin skuldabyrði sé lausn á vanda okkar. Ef ég ætti eina ósk þá yrði hún sú að allar þessar skuldir hyrfu. Því miður eru þær til staðar og það er ekkert að fara að breytast. Við verðum hins vegar að halda áfram og þá er ekkert annað hægt en að vinna úr stöðunni eins og hún er. Ef við losnum einhvern veginn við icesave verð ég hamingjusamasti maður á jörðinni en það bendir ekkert til þess að svo verði. Ég vil einning taka fram að núverandi efnahagsáætlun stjórnvalda er ekki heillög fyrir mér. Ef einhver kemur með eitthvað betra þá skal ég glaður skipta um skoðun. Þessi viðfangsefni eru erfið, flókin og á þeim eru margar hliðar. Það býr enginn yfir hinum heilaga sannleika í hausnum á sér, hvorki í þessum málum né öðrum. Eitt í viðbót Ómar, ég var blekktur og blekkti sjálfan mig. En það var ekki ríkisstjórnin sem gerði það heldur Sjálfstæðisflokkurinn. Ég gekk í hann( búin að segja mig úr honum núna) og kaus hann 2003. Ég hélt að hann væri í aðalatriðum að stjórna landinu rétt. Það mun líða langur tími þangað til að ég get hugsað mér að treysta honum aftur.

Að lokum bið ég ykkur Ómar og Loftur vel að lifa. Þótt þið kallið mig heimskingja þá ætla ég ekki að svara ykkur með slíkum orðum. Þið eruð landar mínir og mér þykir vænt um ykkur eins og flesta aðra Íslendinga. Mér þykir alveg jafn vænt um þetta land og ykkur. Ef þið trúið því ekki þá verður svo að vera. Ég ber þá von í brjósti að Ísland muni lifa góðu lífi löngu eftir að við erum allir dauðir. Við skulum síðan reyna í framtíðinni að reyna að bera virðingu fyrir þeim rétti annara að vera ósammála okkur, ef við getum það ekki þá er ekki mikil von um að lýðræðið lifi af.

Jakob (IP-tala skráð) 5.3.2010 kl. 13:35

14 Smámynd: Óskar Arnórsson

Hagkerfi á Íslandi fer ekki í gang fyrr en einhver á Íslandi fer og lærir bókhald. Fyrst engin kann það eins og er, þarf ekki að hugsa um álver eða neinar aðrar framkvæmdir sem skila engu nema vandamálum til landsins...svo vil ég benda enn einu sinni á að það er sorglegt þegar fólk talar um að Ríkissjóður skuldi þennan pening ti. Icesave. Ef það væri þannig í raunveruleikanum, þá værir ekkert til að rífast um...Það er engin Icesaveskuld enn. Þess vegna er þjóðaratkvæðagreiðsla.

Það er heldur ekki hægt að bera á borð hvaða vitleysu sem er og ætlast til að það sé tekið sem "skoðun". Það er ekkert að því að skiptast á skoðunum. Enn núna erum við að tala um staðreyndir og ekki skoðanir.

Ef einhver segir að jörðin sé flöt, er það knappast skoðun. Eða ég tek því alla vega ekki þannig og vonandi engin annar heldur.

Óskar Arnórsson, 5.3.2010 kl. 13:56

15 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Það er ákaflega rétt sem þú bendir á Óskar, að Icesave-sinnar reyna að bera í bæti-flákann með tilvísun til að þeir megi hafa sína skoðun, eins og andstæðingar Icesave-klafans. Við sem erum andvíg Icesave, byggjum málflutnings okkar ekki á skoðun heldur lagarökum. Ég fæ ekki betur séð en við höfum öll lagarök okkar megin og þjóðarheiður liggur við, að við látum ekki hafa af okkur lög og rétt.

 

Réttarríkið á að tryggja okkur réttarvissu – við eigum ekki að þurfa að una því að innlendir höfðingjar eða erlendir hagi sér eins og lénsherrar. Þjóðarheiður okkur tengist langri lagahefð í landinu, allt frá stofnum Alþingis 930. Eigum við að gefa lög og rétt frá okkur fyrir nokkrar Krónur sem Steingrímur, sá lygalaupur, segist hugsanlega geta sparað með uppgjöf.

 

Hagfræðingarnir í Fjármálráðuneytinu sitja með sveittan skallan og lesa niðurstöður úr reiknilíkönum sem þeir hafa fengið frá Chicago-skólanum í hagfræði. Sú “torgreinda peningastefna” (discretionary monetary policy) er svo sannarlega torgreinanleg og hefur þar að auki reynst algerlega gagnslaus. Mig grunar að það séu þessi gagnslausu reiknilíkön sem Steingrímur setur traust sitt á - þvílík flónska.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 5.3.2010 kl. 14:21

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jakob.

Ég kannast ekki við að hafa kallað þig fáráð, þar að síður heimskingja.

Rökin sem ég vísa í og þær forsendur sem aðgerðaráætlun AGS og ríkisstjórnarinnar byggja á, eru rök fáráða.  En ég vissi ekki að þú hefðir komið þar nærri.

Og þau eru fáráð, vegna þeirra alvarlegu afleiðinga sem þær hafa í för með sér. 

Það eru fáráð að halda að þjóð sem þegar er of skuldug, að hún lagi efnahag sinn með því að tvöfalda skuldir sínar.  Og það sem þú flaskar á er að núverandi skuldir eru ekki 100% í erlendum gjaldeyri, en það er verið að breyta krónubréfunum í þau með aðstoð AGS og bæta síðan við 507 milljörðum hið minnsta við skuldabyrðina í erlendum gjaldeyri.

Jakob, ég sagði að þú væri trúgjarn, það er mikill munur á því.  Og þú létir blekkjast.

Það er hægt að endurfjármagna skuldir án þess að fá lán frá AGS, það hafa fjöldi þjóða gert, annars lýsir þú yfir einhliða endurfjármögnun.  Lilja Mósesdóttir færði rök fyrir því að reynslan segði að eðlileg lánafyrirgreiðsla kæmi eftir 18 mánuð.  

Núna erum við ekki í óyfirstíganlegum vandræðum, en við verðum það ef við bætum á okkur frekari skuldum.  Þetta hafa tveir Nóbelshagfræðingar bent okkur á, auk nokkurra prófessora við virta háskóla, auk þeirra sérfræðinga sem ég minnti þig á.

Þetta eru staðreyndir Jakob, hitt er áróður, þeirra sem kreista hagkerfi til síðasta blóðdropa.  Þar sem þú gerir fátt annað en að bæta í þá lýsingu sem ég reyndi að draga upp fyrir þér um eðli vandans, þá sé ég ekki ástæðu að peista í skrif þessa manna.  Þú færðir ekki nein rök á móti sem hnekkja því sem ég sagði.  

Þó vil ég spyrja þig þar sem þú trúir tröllasögum um alþjóðasamfélagið, horfðir þú á viðtalið við Michael Hudsons í Silfrinu þar sem hann minntist á allar þær þjóðir sem horfðu hingað með von því hið alþjóðlega fjármagn væri að knésetja þær líka.  Hvaðan færðu þú það að alþjóðasamfélagið sé bara England og Holland???? Tekur þú ekki eftir því hvað er að gerast í kringum þig???? Fólk er að gera uppreisn gegn þessu kerfi sem er að knésetja þjóðir.

Ég hef engar skoðanir á álverum, fyrir utan þær að þau eiga öll að vera á Reykjanesinu.  Ég var bara að benda þér á staðreyndir sem voru í öllum bókum um fjármál sem ég las á unga aldri og fjalla um að ofskuldsett fyrirtæki falli við minnsta mótbyr.  Og ég benti þér líka kurteislega á að hinn meinti hagvöxtur af þeim dygði ekki fyrir ICEsave skattinum, ef tekið er tillit til neikvæðra áhrifa skattheimtunnar sem þarf til að innheimta þann gjaldeyri sem fer í að borga bretaskattinn.

Þá spyr ég þig aftur, þar sem ég hef ágætt álit á greind þinni, til hvers er þá að stað farið ???

Og þú svarar ekki þeirri spurningu hvort þú haldir að við getum lifað með 60% greiðslubyrði ríkissjóðs.  Hún er ekki svona mikil í dag, og verður það aðeins vegna AGS og ICEsave.  

Jakob, ég er ekki ósammála lýsingu þinni á vandanum, fyrir utan að þú kveikir ekki á muninum á innlendri og erlendri skuld fyrir þjóð sem er með sinn eigin gjaldmiðil.  En lausnin sem þú lætur blekkja þig með, með fullri virðingu þá ert þú að láta blekkjast, hún gerir mikinn vanda, óviðráðanlegan.  

Af hverju heldur þú að virtir erlendir hagfræðingar séu að vara okkur við henni?????  Og af hverju getur þú ekki bent mér á eitt einasta dæmi um þar sem hún hefur heppnast???, en ég get bent þér á að hún hefur hvergi gengið upp, þó vandinn hafi verið mismikill hjá þeim þjóðum sem lentu í klónum á AGS.

Veist þú ekki Jakob hvað felst í því að taka 5 ára skammtíma lán hjá AGS??? Þekkir þú ekkert til þeirra hliðarskilyrða sem fylgja endurfjármögnun þeirra????

Ef þú gerir það, hvernig getur þú viljað þau örlög fyrir vini þína, ættingja, börnin þín ef þú ert svo heppin að eiga börn.  

Heldur þú að Lilja Mósesdóttir viti ekki hvað hún sé að segja???  Eða Jón Daníelsson????  Eða Hudson eða Stiglitz eða Rogoff eða allir hinir sem ég á í gagnabanka mínum.  Eða heldur þú að það sé bull í hagfræði að tala um yfirskuldsetningu?????  Eða reynsla þeirra rúmlegu 30 þjóða sem hafa endurfjármagnað skuldir sínar án atbeina AGS, að hún sé eitthvað plat???

En þessi ógn sem þú lýsir Jakob og einangrun, hún fellur um sjálft sig daginn sem þú og þínir hætta að styðja bretaskattinn, það þarf aðeins að mæta henni með aðferðum réttarríkisins, fá dóm EFTA/Evrópu dómsins um hana.  Þar með er botninn úr kröfum breta farinn, og forsendur stuðnings norrænu kratanna við hann brostinn.

Vegna þess að allar skuldir byggjast á lögum og reglum.

Ég ætla að svara þér um árásina á eftir, þú ert mjög seinheppinn að halda að stríð séu bara háð með skriðdrekum, það eru úrelt skilgreining, en ég ætla hér á eftir að taka helstu rangfærslur þínar þar sem þú vitnar í mig.

- þú bætir ekki þjóðfélag með því að samþykkja kúgun, það verða alltaf það margir á móti því að það næst aldrei sátt um eitt eða neitt.  Á þetta benti ég í grein 3i.12 sem heitir "Eigi skal slíta sundur friðinn".  Ef þú vilt betra þjóðfélag, þá skaltu lesa hana og íhuga hvað þarf til þess.

- Það hefur enginn látið lífið út af ICEsave, en fólk mun gera það í hundraða tali áður en yfir líkur.  Hvernig veit ég það.  Einn meginn tilgangur velferðarkerfisins er að bjarga mannslífum, eyðilegging þess að boði AGS mun hindra það hlutverk.  Lítið dæmi er orð formanns Geðhjálpar, "þetta mun kosta líf", þar sem hann vitnaði í sparnað í lyfjakostnaði geðsjúkra.  Þar erum við að tala um milljarð. 

Einnig má benda á að skortur á fólki í heilbrigðiskerfinu sem er bein afleiðing 60 % greiðslubyrðar mun fella marga sem annars gætu lifað.  En AGS talar um lágmark 20% niðurskurð á Landspítalanum, og þeir eru þekktir fyrir að helminga svona tölur.  Eins sýna félagsfræðirannsóknir að kreppulausnir AGS drepa fólk. Hef pistlað um þetta, bendi einnig á rök Hudsons og Stiglitz.

- það er enginn að tala um að setja allt í stopp, ekki við Loftur, en við vísum í rök reynslunnar og virtustu hagfræðinga að IcEsave leiðin setji allt í stopp.  Minni á 160 milljarða greiðsluafgang sem næst ekki nema ekkert sé fjárfest, 60% greiðslubyrði ríkissjóðs og skattahækkanir og atgerfisflótta.  Sem minnir mig á eina meginröksemd, þú talar um bjartari tíð þegar stjórnin segist ekki eiga krónu handa heimilum landsins (afsakaðu 2 milljarða) en 507 milljarða hið minnsta í bretaskatt, hverjir heldurðu að sætti sig við þetta þegar raunveruleikinn fer að bíta.  Ef þú vilt þá get ég vitnað í skuldasérfræðinga sem benda á hið gagnstæða, að nú þegar þurfi að semja um það sem semja þarf um, en að bæta við svona hárri skuld, það hafi einmitt þau áhrif sem þú sakar okku Nei fólkið um.

- gjaldeyrisforði Seðlabankans þornar ekki upp ef innstreymi af gjaldeyri er svona mikið að það sé hægt að bæta ofaná það 800 milljarða AGS pakka og 507 milljarða í bretaskatt.  Minni svo á skuldafræðinganna sem benda á að önnur ríki endurfjármagni sig við þessar aðstæður, því það er hagur lánardrottna að það sé gert.  Erlendir lánardrottnar hafa ekki áhuga á að íslenskur gjaldeyrir fari í IcEsave, þeir vilja fá hann í sínar skuldir.

Það er þeirra hagur líka að endurfjármagna.

- það er rugl að það sé ekki einhugur um Evróputilskipunina.  Hún er skýr og það skilja hana allir eins og það stendur í henni, nema þeir sem hafa hagsmuni af öðru.  Þó þjófur segist mega ræna þig bíl og húsi, myndir þú láta hann sleppa ef hann segði að lögin sem banna rán á skýran hátt, séu ekki skýr???  Ef þú vilt gera ágreining um þetta þá skaltu styðja rök þín orð lagasérfræðinga, ekki þeirra sem eiga hagsmuna að gæta.  Og Jakob, ég veit að þú getur það ekki, það hefur enginn lagasérfræðingu, hvorki innlendur eða erlendur tekið undir skilning breta (þjófsins) og þar með átt þú engin orð sem þú getur vitnað í.  Kristinn H. Gunnarsson er ekki lagasérfræðingur og fer rangt með öll meginatriði, og það hefur verið sannað.

- það er rangt að það sé ekki hægt að virkja réttarkerfið vegna tímaskorts.  Hvað hindrar það, ætla bretar að kasta kjarnorkusprengju á Reykjavíkklukkan 15.00 á sunnudaginn????  ESA/EFTA dómurinn þekkja til flýtimeðferða.  Ef þú hefur áhyggjur af þeim krónubréfaeigendum sem bíða eftir láni AGS, þá geri ég það ekki.  Útflutningurinn er í blóma, og gengið er að styrkjast, hvað viltu meir???  Veikja gegnið aftur með IcEsave???

- hið meinta gjaldþrot Seðlabankans er orðum aukið, það er ekki í erlendum gjaldeyri og á móti gjaldeyrisskuldum hans, koma eignir í gjaldeyri, og þessi FIH banki í Köben.

- það eru til aðrar lausnir, þrautprófaðar og hafa skilað ágætum árangri.  Ekki þrautprófaðar til að mistakast eins og AGS lausnirnar.  Bæði Lilja Mósesdóttir og Jón Daníelsson komu strax með mótaðar tillögur um flestan okkar vanda.  Ætla ekki að hafa þær hér eftir.  En í stuttu máli þá snúast þær um það að gera ekki allt og alla gjaldþrota með okurvöxtum, skatthækkunum og yfirskuldsetningu.  Það er ekkert að hagkerfinu fyrir utan skuldakreppuna.  Atvinnulífið blómstrar, bæði innlend framleiðsla og útflutningsgreinarnar.  Aðeins sá hluti hagkerfisins sem lifði á erlendri lántöku á í vandræðum, og hann mun smátt og smátt ná sér eftir því sem sjálfbærni hagkerfisins eykst. 

Jakob, það var skuldsetning og aðstreymi ódýrs fjármagns sem kom okkur á hausinn, lausnin felst ekki í því taka upp gamla kerfið, heldur að skapa skilyrði fyrir grósku og fjölbreytni.

Þetta er ekki flóknara en það. 

Og hvernig svara þú manni sem kemur inn á bloggsíðu þína og segist trúa á jólasveina???  Segir þú honum ekki að hann sé trúgjarn???

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.3.2010 kl. 15:26

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður aftur Jakob.

Stríð eru háð með þeim vopnum sem hentar á hverjum tíma.  Einu sinni gerðu menn árás með spjótum, svo kom riddaralið, síðan vélbyssan, þá skriðdrekar, næst flugvélar, og svo eru til í dag sýklavopn og eiturvopn eða tölvuvopn og efnahagsleg vopn.

En ef aðgerð miðast við að skerða fullveldi þjóða, leggja undir sig landsvæði þess eða eigur, þá er um fjandsamlega aðgerð að ræða sem flokkast undir árás.

Til dæmis skilgreinir Britannica efnahagsstríð svona:

"

"Economic warfare

the use of, or the threat to use, economic means against a country in order to weaken its economy and thereby reduce its political and military power. Economic warfare also includes the use of economic means to compel an adversary to change its policies or behaviour or to undermine its ability to conduct normal relations with other countries. Some common means of economic warfare are trade embargoes, boycotts, sanctions, tariffdiscrimination, the freezing of capital assets, the suspension of aid, the prohibition of investmentand other capital flows, and expropriation."

"

Í stofnsamþykkt Sameinuðu þjóðanna er "góð" hegðun ríkja skilgreind og "slæm" hegðun.

Fróðlegt að lesa þann texta.

"

The United Nations Charter

  • Article 1:

The Purposes of the United Nationsare:

1.      To maintain international peace and security, and to that end: to take effective collective measures for the prevention and removal of threats to the peace, and for the suppression of acts of aggression or other breaches of the peace, and to bring about by peaceful means, and in conformity with the principles of justiceand international law, adjustment or settlement of international disputes or situations which might lead to a breach of the peace;

2.      To develop friendly relations among nations based on respect for the principle of equal rightsand self-determination of peoples, and to take other appropriate measures to strengthen universal peace;

  • Article 2, paragraph 4

All Members shall refrain in their international relations from the threat or use of force against the territorial integrity or political independence of any state, or in any other manner inconsistent with the Purposes of the United Nations.

  • Article 33
The parties to any dispute, the continuance of which is likely to endanger the maintenance of international peace and security, shall, first of all, seek a solution by negotiation, enquiry, mediation, conciliation, arbitration, judicial settlement, resort to regional agencies or arrangements, or other peaceful means of their own choice.

The Security Councilshall, when it deems necessary, call upon the parties to settle their dispute by such means.

  • Article 39

The Security Council shall determine the existence of any threat to the peace, breach of the peace, or act of aggression and shall make recommendations, or decide what measures shall be taken in accordance with Articles 41 and 42, to maintain or restore international peace and security.[6]"

 "

Aggression er þýtt samkvæmt orðabók 

"1. Árás að fyrra bragði, frumkvæði að deilu eða ófriði.

2. Árásargirni."

Þú vísar í stopp ef IcEsave er ekki samþykkt.  Það er vegna þess að bretar hafa beitt þrýsting hjá AGS og Evrópusambandinu að Ísland eigi að borga.  Sá þrýstingur er dæmi Aggression.  

Þó krafa breta hafi getað verið lögleg, þá voru skýr ákvæði í EES samningnum hvernig þeir áttu að setja hana fram, og hvaða réttarfarslega ráða þeir ættu að grípa til ef Ísland samþykkti hana ekki.  Það að þeir fóru framhjá og gripu til einhliða lagatúlkunar, og beittu þvingunum og hótunum til að framfylja henni, er jafn ólöglegt eins og þegar handrukkari mafíunnar rukkar þig um skuld.  En þegar ríki beitir öðru fullvalda ríki slíkum aðferðum, þá er um aggression að ræða, og þegar það notar áhrif sín til að hindra gjaldeyrisinnstreymi, sem er nútíma útfærsla á hafnbanni, þá ert þú kominn með aggression sem er ígildi stríðsaðgerða eins og Britannica lýsir þeim.

Og Jakob, þetta eru ekki mín orð.  Ég er að vitna í þann skilning sem heimurinn leggur í svona framkomu.  

En ég ætla ekki að fjölyrða meir um þetta, þar sem ég einmitt tel þig skýran og skynsaman mann (sé það á innslagi þínu), þá mátt þú sjálfur lesa þennan texta á frammálinu, ég ætla ekki að taka að mér textaútskýringar.   Horfðu á þetta opnum augum og sjáðu samsvaranirnar.  

Og þegar skatturinn fyrir að láta af stríðsaðgerðum (aggression) er um 2/3 af þjóðarframleiðslu, fram hjá lögum og rétti, þá getur þú ímyndað þér hvað aðrar þjóðir myndu gera.  Svo dæmi sé tekið þá eyðulögðu Þjóðverjar ekki 2/3 þjóðarframleiðslu breta með loftárásum sínum.  Og þeir voru ekki látnir borga svona háar skaðbætur eftir hvorki fyrra eða seinna stríð.

Sjáðu samhengið Jakob.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.3.2010 kl. 15:47

18 Smámynd: Óskar Arnórsson

....ég trúi á jólasveininn... hann er ráðherra á Íslandi núna. Mér finnst hann ætti að fá sér aðra vinnu og gera bara leikföng fyrir börn. Svo er Grýla. Það má ekki gleyma henni. Hún er líka ráðherra á Íslandi. Og ég er ekkert trúgjarn. Þetta furðufólk er allt til...

Svo get ég gengið á vatni líka... Trúaðir verða alveg æfir yfir svona staðhæfingum. Enn þetta er staðreynd. Ég gekk á vatni í dag, Að það sé frosið auðveldar göngunna...

Óskar Arnórsson, 5.3.2010 kl. 20:29

19 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaðir Óskar og Loftur.

Vildi bara þakka fyrir skemmtilegar umræður.  Óskar, ég mokaði vatni, ætli það sé sama kraftaverkið?????

En ég veit ekki hvað margir fara í gegnum svona umræður, en ég tel að þær séu upplýsandi fyrir þá sem spá í forsendur fólks sem segir Nei,

Takk fyrir mig.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.3.2010 kl. 00:21

20 Smámynd: Óskar Arnórsson

það er alla vega upplýsandi að lesa það sem þú skrifa og eftir Loft. Auðvitað segi ég Nei...og þá byrjar aðal málið.

Óskar Arnórsson, 6.3.2010 kl. 07:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 122
  • Sl. sólarhring: 607
  • Sl. viku: 5706
  • Frá upphafi: 1399645

Annað

  • Innlit í dag: 105
  • Innlit sl. viku: 4869
  • Gestir í dag: 104
  • IP-tölur í dag: 104

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband