15.2.2010 | 13:49
Segið allan sannleikann.
Í þessari annars ágætu fréttaskýringu, þá er sagt að um 40% af brúttó gjaldeyrinum fari strax aftur úr landi, restin fari i kaup á innlendum aðföngum. Stærsti liðurinn er raforkan, samkvæmt ársreikningum Ísal fyrir árið 2007 þá voru þau 18% af tekjum, sem þá voru hlutfallslega mjög háar vegna hins há álverðs sem þá var.
Þessi 18% af tekjum stóriðjunnar fara því sem næst beint úr landi í formi vaxta og afborgana af virkjunum. Og virðist ekki duga til því orkufyrirtækin virðast vera i greiðsluvandræðum.
Einnig má benda á að samkvæmt skýrslu Indriða G. Þorlákssonar, þá er aðeins um þriðjungur af tekjum stóriðju eftir innanlands, ekki 60 % eins og haldið er fram í þessari frétt. Mér vitanlega hefur skýrsla Indriða ekki verið hrakin, þó menn deila um forsendur hennar. En talnalega fór Indriði rétt með.
Þess vegna er skrýtið að fullyrða svona í fréttaskýringu hrátt eftir skýrslum hagsmunaaðila, svona í ljós reynslunnar, án þess að kynna sér þau sjónarmið sem mæla gegn þessum staðhæfingum.
Loks má benda á að það er mjög hæpið að monta sig af innlendum kaupum á aðföngum. Heilir 25 milljarðar eru vissulega miklir peningar, en tugir milljarða fóru á móti út úr efnahagslífinu vegna þess að Seðlabankinn notaði þensluáhrif stóriðjuframkvæmda sem sína höfuð röksemd fyrir þeim háu stýrivöxtum sem hér voru í aðdraganda bankahrunsins. Það má tímasetja vaxtahækkunarhrinuna næstum upp á dag við upphaf framkvæmdanna við Kárahnjúka, sem síðan var fylgt eftir með framkvæmdum á Suðurhorni landsins.
Þessir hávextir voru síðan sá segull sem dró til landsins skammtíma fjármagn sem við þekkjum í dag sem krónubréf. Þessi þáttur má ekki gleymast í svona lofgerðarrullu. Miðað við tjónið sem varð í Hruninu 2008 og að teknu tilliti til ábyrgðar stóriðjuframkvæmda í því hrunaferli, þá er ljóst að 25 milljarðar, brúttó, vega þar skammt á móti. Mér væri það til efs, þó álverin framleiddu gull, að það dygði til að vega upp tjónið.
Að lokum vil ég benda á að sá sem trúir hagvaxtaspám Seðlabankans, hann á auðvelt með að trúa. Heimskreppunni er ekki lokið, hún er að byrja. Þessi litla hagsveifla upp á við, hún var drifin áfram á innspýtingu seðlabanka og ríkisjóða Bandaríkjanna, Bretlands og Evrópusambandslanda. Nú eru þeir peningar búnir, skuldirnar sitja eftir, hjá hinu opinbera, hjá einkaaðilum og hjá yfirskuldsettum fyrirtækjum. Og svo eru bankamenn aftur farnir að mergsjúga fjármálakerfið með ofurbónusum sínum.
Með öðrum orðum, það ástand sem skapaði Hrunið, það er ennþá til staðar. Að tala um hagvöxt miðað við þessar aðstæður, það er ekki hagfræði, það er trú.
Og þjóðfélag, sem stendur ekki undir núverandi skuldum, það tekur ekki hundruð milljarða að láni, eins og iðnaðarráðherra boðaði á dögunum, til að fjármagna framkvæmdir, þar sem grunnforsenda arðsemi er trú um hagvöxt.
Lærðu menn ekkert af Hruninu 2008???
Er dagatalið ennþá 2007 hjá fölmiðla- og stjórnmálamönnum þessa lands??
Ég bara spyr.
Spáð 200 milljarða sölutekjum álvera á árinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 0
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 2019
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1772
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
OK, Ómar, ef þetta er svona ómögulegt, hvað viltu þá gera?
Þú veist líklega að öll verðmætasköpun kallar á ákveðinn innflutning af hrávörum. Er það ekki? Síðast þegar ég vissi var það svoleiðis.
Gunngeir Viðarsson (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 14:24
Kárahnjúkaframkvæmdirnar voru ekki aðalorsök þenslunnar á sínum tíma, heldur gengdarlaus austur erlendra lána til húsbygginga, bílakaupa og hvers kyns annarrar eyðslu. Kárahnjúkarnir eru byrjaðir að mala gull, en engar tekjur koma inn af öllu því húsnæði, sem stendur autt og hálfbyggt, viðað um land, en þjóðin situr uppi með erlendu skuldirnar.
Þó tekjur orkufyrirtækjanna fari líka úr landi, sem afborganir og vextir af lánum, þá myndast eign í orkuverunum í staðinn, enda eiga þau flest sæmilega mikið eigið fé, sérstaklega Landsvirkjun.
Álverin skila gríðarmiklum tekjum í þjóðarbúið og orkuverin arðbær fjárfesting, enda borga álverin þau í raun upp á 40 árum.
Axel Jóhann Axelsson, 15.2.2010 kl. 14:48
Ómar.
Af hverju stafsetur þú orðið hrunið, með stórum staf ?
afb (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 16:48
Blessaðir félagar og takk fyrir innlitið.
Hef því miður ekki komist fyrr í andsvör. Kenni Lofti um það því hann stal lausa tíma mínum.
En örstutt, því ekki ætla ég að gera ágreining um stóriðjustefnu Stalíns núna á lokasprett ICEsave deilunnar.
afb. Veit ekki. Hallast helst að þetta séu síðustu leifarnar af þýskunni sem ég lærði til stúdents fyrir áratugum síðan.
Gunngeir. Ég hef vissulega sterkar skoðanir á þessum málum, og hef ítrekað rökstutt fáráð þess að yfirskuldsett þjóð geri sig endanlega gjaldþrota með því að bæta á sig risalánum, í mjög hæpna arðsemi. En persónulega hef ég ekkert á móti stóriðju, tel reyndar að hún eigi öll að vera staðsett á Reykjanesinu því þar tekur enginn eftir því hvort sem er hvað hún er ljót, og öll mengun fýkur á haf út, nema þessa þrjá daga sem er logn þar.
Hvað annað ég vill er önnur saga. Mér skilst að ágætur drengur hafi útskýrt margt skynsamlegt í Silfrinu á sunnudaginn. En annars vísa ég í mjög skynsama byggðastefnu sem hún Margrét beitti sér fyrir á Bretlandseyjum um miðjan níunda áratuginn. Í stuttu máli byggðist hún á hagstæðum skilyrðum fyrir minni og meðal stór fyrirtæki. Sígild speki sem árþúsundin hafa margsannað. En ég hef ekki nennu til að kafa dýpra í hlutina út frá þessu greinarkorni sem útskýrir sig sjálft.
Axel. Þó ég elski ekki AGS, þá hef ég aldrei dregið þekkingu stofnunarinnar í efa. Til dæmis er ég með fyrir framan mig frétt í Fréttablaðinu þar sem vitnað er í skýrslu AGS þar sem segir "virkjanaframkvæmdir upphaf þenslutímans á Íslandi". Og ég get líkað vitnað í skýrslu OECD, og marga innlenda hagfræðinga, enda ekki flókið, því þetta er staðreynd, og hún er ekki umdeilanleg.
Í þessu samhengi þarf að huga að orsök og afleiðingu, en það er ekki deilt um að hænan komi alltaf á undan egginu, jafnvel þó hún verpi strútseggi. Hið ódýra lánsfjármagn fylgdi í kjölfar vaxtahækkananna. Hvort það hefði komið hvort sem er er önnur saga, en það reyndi aldrei á það ferli.
Eignin í orkuverum er málinu óviðkomandi þegar þjóðin er á barmi gjaldþrots, og orkufyrirtækin háð erlendri endurfjármögnun. Margt gott fyrirtækið, með bjarta framtíð, hefur rúllað vegna þess að gjöldin komu hraðar inn en tekjur. Og mikil skuldsetning er þar mikill áhættuþáttur.
Um arðsemi orkuvera má mjög deila. En ég man greinar eftir reiknimeistara Landsvirkjunar sem voru hraktar, og þá hættu þeir að birta greinar um arðsemi, í stað þess að hrekja röksemdirnar sem að þeim var beint. Sá sem fer í felur, hefur alltaf eitthvað að fela. Heilbrigð skynsemi að sjá það.
Og það er ekkert gull hér fyrir austan. Atvinnulífið sem var fyrir, er í rúst. Vissulega er vinna í álverinu, en svona lítið samfélag er búið að vera ef annarhver maður vinnur vaxtavinnu, og sefur þess á milli.
En loðnuskipin og loðnubræðslurnar (gamalt heiti yfir uppsjávarfabrikkur og skip) mala gull, bæði fyrir launþega og fyrirtæki. Og í gamla daga. þó ég hafi ekki aldur til að muna eftir því, þá borguðu ný síldarskip sig upp á 5 árum. Og vertíðarfólk átti fyrir bíl eða innbúi eftir góða síldarvertíð. Það kalla ég gullgröft.
En Fjarðarál er gott fyrirtæki, ætla ekki að hnýta í þá.
En um hagsæld á framkvæmdartíma vil ég aðeins minna á að ekki er allt gull sem glóir.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 15.2.2010 kl. 23:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.