11.2.2010 | 14:48
Spor í rétta átt, en rangt spor engu að síður.
Kjarni ICEsave deilunnar er sá að fjárkúgun breta og Hollendinga er ólögleg.
Ekkert í stjórnarskrá Íslands gefur stjórnmálamönnum rétt til að lög séu ekki virt.
Ekkert, þeir þiggja ekki vald sitt frá guði eins og Lúðvík 14 sólkonungur taldi Frökkum í trú um.
Fjárkúgunin er ólögleg vegna þess að bretar og Hollendingar fóru ekki hina löglegu réttarfarslegu leið sem EES samningurinn kveður á um í ágreiningi eins og þessum. Þeir leituðu hvorki til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA eða EFTA dómsins til að fá dóm á hina meintu greiðsluskyldu íslenskra stjórnvalda ef Tryggingasjóður innlána varð gjaldþrota.
Krafa þeirra er því jafn lögleg og krafa handrukkara sem hótar að kveikja í húsi foreldra fíkniefnaneytanda ef þeir borgi ekki hina meintu fíkniefnaskuld barna sinna.
Slíkt athæfi varðar við lög og fyrir það er refsað harðlega.
Sama gildir um fjárkúgun breta, hún varðar við lög og íslenska ríkið á kröfu á háar sektargreiðslur vegna hins ólöglega athæfis þeirra.
Eina skylda íslenskra stjórnmálamanna er því að leita til þar til bæra dómsstóla og stefna fjárkúgurunum. Bæði á að stefna þeim fyrir EFTA dóminn og eins og á að höfða sakmál á hendur þeirra fyrir breskum dómsstólum. Það vill alltaf gleymast í þessari umræðu að Bretland er réttarríki, dómstólar þar eru sjálfstæðir og dæma eftir lögum, ekki eftir hagsmunum einstakra stjórnmálamanna, hvort sem þeir heita Brown eða Darling.
Eins á að höfða meiðyrðamál á hendur öllum þeim norrænum stjórnmálamönnum sem hafa fullyrt að Íslendingar vilji ekki standa við "alþjóðlegar skuldbindingar" sínar. Við verðum að ætla að frændþjóðir okkar kjósi sér menn til forystu sem eru læsir á lagatexta og þeir vita að ef ekki er kominn dómur í deilumáli, þá er ekki um neinar skuldbindingar að ræða. Að halda öðru fram er rógur sem hefur valdið íslenskum almenningi ómældum skaða. Og fyrir þann glæp á að refsa.
Glæpamenn eru ekki bara þeir sem ganga um með hring í nefinu og klæðast merktum leðurjökkum. Glæpmenn eru þeir sem brjóta lög og valda öðrum tjóni með gjörðum sínum.
Og í réttarríkjum á enginn að komast upp með slíkt athæfi.
Treysti íslenskir stjórnmálamenn sér ekki til að standa á rétti þjóðar sinnar, þá ber þeim að víkja, og fá aðra til verka sem hafa manndóm til þess.
Og við megum heldur ekki gleyma því að meirihluti almennings hefur engan rétt til þess að samþykkja ólöglega nauðsamninga með þeim orðum að sá gamli hafi verið miklu verri. Það skiptir ekki máli hvort hinn fyrirhugaði nauðsamningur sé upp á 100 - 400 milljarða en ekki 500-1000 milljarða ef fólk ætlar öðrum að borga hann.
Það er alltaf sama lögleysan fyrir því.
Ef meirihluti landsmanna sem vill semja við breta og Hollendinga á "skynsömum" nótum, því ekki er hægt að bera á móti því að núna er einhver vitglóra í umræðunni, þá getur hann því aðeins samþykkt slíkt, ef fólk persónulega skrifar upp á hið ólöglega skuldabréf, og greiði sinn hluta með sínum eigin tekjum, ekki skattpening þjóðarinnar. Vegna þess að aðeins lögleg skuld getur réttlætt að peningur sé tekin úr velferðinni, af sjúkum, öryrkju, öldruðum, af börnum okkar með lélegri menntun og heilsugæslu.
Þess vegna verður alltaf að fá dóm í málið fyrst.
Íslensk velferð snýst um milljarða, ekki hundruð milljarða. Í dag var tilkynnt að ríkið vildi frekar greiða hæstu stýrivexti í heimi en að aðstoða geðsjúkum að ná bata. Það á að spara milljarð í baráttunni gegn þeim sjúkdómi sem tekur næst flest mannslíf á ári, það á að fórna mannslífum svo krónubraskarar haldi sínu. Þegar ICEsave fellur á þjóðina, munu margir svona milljarðar verða teknir þar sem síst skyldi hjá fólki sem á undir högg að sækja vegna sjúkdóma eða félagslegra aðstæðna.
Og slíkt gerir siðuð þjóð ekki nema vegna neyðar, fátæktar eða mikils tekjusamdráttar. Hún gerir slíkt aldrei til að halda frið við fjárkúgara og siðspillta auðmenn.
Við verðum að fara að skilja að ICEsave snýst um sjálfa siðmenninguna, það verða að gilda lög og reglur í heiminum. Og þú fórnar ekki þínum minni meðbræðrum til að þú getir sjálfur haft það gott.
Það kallast villimennska og endar alltaf í blóðbaði fyrr eða síðar. Bæði vegna þess að villimennirnir ganga alltaf lengra og lengra í sinni villimennsku og fjárkúgun, og líka vegna þess að fyrr eða síðar snúast hinu fátæku og kúguðu til varnar og bíta frá sér.
Það var ekki að ástæðulausu sem siðmenningin var fundi upp.
Og hún er kjarni mennskunnar.
Kveðja að austan.
Íslendingar greiði ekki Icesave-vexti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 446
- Sl. sólarhring: 725
- Sl. viku: 6177
- Frá upphafi: 1399345
Annað
- Innlit í dag: 375
- Innlit sl. viku: 5230
- Gestir í dag: 345
- IP-tölur í dag: 340
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.