Smánin sem smækkar.

 

Smækkar bæði þingmenn, þingflokka, ríkisstjórn Íslands og allt fólkið sem styður þessa aðför að sjávarbyggðum þjóðarinnar, kristallast í orðum Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra þegar hún fagnaði samþykkt frumvarps síns um hækkun veiðigjalda.

"Þetta er góður dagur hér í dag, vegna þess að við erum loksins að festa það hér í lög að þjóðin fái loksins beint eðlilegt gjald fyrir nýtingarréttinn að þjóðarauðlindinni."

 

Dagurinn er góður vegna þess að ríkisstjórn Íslands tókst að knýja fram lýðskrum sitt um ofurskatt á sjávarútveginn, ofurskatt sem þekkist hvergi í dag í vestrænum löndum, en var vissulega til staðar á kratísku árum Norðurlanda um og uppúr 1970, og endaði með stöðnun og afturför grunnatvinnuvega viðkomandi landa.

Niðurlagður með skömm, aðeins vitfirrtir tala um að leggja aftur á slíka ofurskatta.

 

Þetta orðskrípi, eðlilegt gjald fyrir nýtingarrétt, hefði kannski ekki hljómað svona Orwelskt þegar kvótakerfið var tekið upp, þá vissulega var fyrirséð að nýtingarrétturinn yrði smán saman verðmætur, en Alþingi ákvað þá að kvótinn gæti gengið kaupum og sölum, þeir sem keyptu borguðu fyrir þennan nýtingarrétt, þeir sem seldu, gátu gert upp skuldir sínar við bankakerfið, eitthvað sem bjargaði bankakerfinu á sínum tíma.

Eftir að sú hrina var yfirstaðin þá seldu menn kvóta með hagnaði, margir urðu ríkir og tóku arðinn út úr sjávarútveginn.

Hvort eitthvað af þeim arði hefði mátt lenda í vasa almennings á annan hátt en þáverandi skattkerfi ákvað, er eitthvað sem snýr að fortíðinni, en þeir sem eiga kvótann í dag hafa sannarlega borgað fyrir þann nýtingarrétt, aðeins brotabrot af núverandi útgerð gerir út á upprunalegan kvóta.

 

Með batnandi afkomu fór útgerðin að borga veiðigjöld, og þau hafa hækkað mikið á síðustu árum, svo mikið að fáar smærri og meðalstórar útgerðir treysta sér til að endurnýja skip sín, flotinn er smán saman að úreldast, og ákveðnum tímapunkti neyðast smærri og meðalstórar útgerðir að selja frá sér skip og kvóta, skipin orðin verðlítil en keypt vegna þess að kvóti fylgir með.

Og þeir sem kaupa eru stærri útgerðir, sem hafa bæði meira fjármagn sem og greiðari aðgang að fjármögnun, hvort sem það er í gegnum hlutafé eða betri aðgang að bankakerfinu.

 

Á þessa staðreynd hafa allir hagsmunaaðilar bent á, bæði fulltrúar útgerðar, sveitarfélaga sem og hins vinnandi fólks.

Og þessi staðreynd er hundsuð af meirihluta Alþingis, þar eru ekki undanskilin þingmenn landsbyggðarinnar.

Með offorsi, rangfærslum og lygum skal hið Nýja Ísland byggjast.

 

Sú Smán smækkar fólk niður í að vera Ekkert.

Þingmenn stjórnarflokkanna sem koma í heimabyggðir sínar, eru Ekkert.

Aðeins smánin sem fylgir hverju þeirra fótspori.

 

Stuðningsfólk þeirra í sveitarstjórnum sjávarbyggðanna er Ekkert.

Því það reis ekki upp og mótmælti, kaus að þegja, þegar það átti að segja; 

Við mótmælum.

 

Svona fer það sem ekki er hægt að verja með hið besta fólk.

Gott fólk.

En þegar á reyndi án manndóms og æru.

 

Lýðskrumið sigraði í dag.

Smánin fitnaði hraðar en púkinn á fjósabitanum gat nokkurn tímann gert þó aðeins hefði verið bölvað og ragnað í baðstofunni.

 

Eftir stendur smátt fólk.

Fólk sem varð að engu.

 

Því það sveik bæði mennskuna og hugsjónina um betri heim.

Gengur erinda hins svarta af öllu því svarta sem mannleg græðgi og valdaþorsti hefur alið af sér.

 

Smánin sem smækkar.

Er þeirra smán.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Veiðigjaldafrumvarpið samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smánin.

 

Lýðræði er gjaldþrota þegar lýðskrumarar geta æst meirihluta fólks gegn einhverjum hópi sem er í minnihluta.

 

Mýmörg dæmi um þetta þekkir sagan, en þau tengjast yfirleitt endalok lýðræðis eða alræði eins og þegar herforingjastjórnin í Búrma æsir til óaldar gegn minnihlutahópi múslima í landinu eða þegar félagi Stalín æsti íbúa borganna til að fara ránshendi um sveitir Úkraínu og ræna þær af öllum matvælum, þeir sem ekki létu þau af hendi, voru skotnir.

Allir þekkja afleiðingarnar, hungursneyðina miklu þar sem milljónir sultu til dauðs.

Rökin sem lýðskrumið notaði voru þau að smábændurnir sem voru rændir, væru kúlakkar eða svokallaðir stórbændur, þegar sannleikurinn var sá að kommúnistastjórnin hafði fyrir löngu upprætt þá, eftir voru harðduglegir smábændur sem höfðu keypt jarðir sínar af gamla landeigandaaðlinum áratugum áður.

 

Mjög svipuð rök eru notuð til að réttlæta þessa aðför íslensku  borgarbúanna að sjávarbyggðum landsins.

Það eru 4-5 fjölskyldur sem eiga megnið af kvótanum og þær arðræna samfélagið, þegar sannleikurinn er sá að eignarhald stórfyrirtækjanna er dreift, þær meðal annars í eigu lífeyrissjóða, og leitun er að kvóta sem ekki hefur verið keyptur af öðrum útgerðum, sem sáu hag sinn í að hætta í stað þess að halda áfram útgerð.

Og það vinnur fólk, lifandi fólk hjá þessum útgerðum, og það eru byggðir, lifandi byggðir sem eiga allt sitt undir arðsemi þeirra, vexti og viðgangi.

 

Engin útgerð bað um kvótakerfið, það er ákvörðun stjórnmálanna, og stjórnmálin settu lögin g reglurnar.

Að þeim lögum og reglum þurfti útgerðin að aðlaga sig, sem gekk misvel, en í dag er þjóðin með vel rekin, öflugan sjávarútveg, sem stendur sig í alþjóðlegri samkeppni, og skilar mikilli framlegð og veltu til annarra greina atvinnulífsins.

Að ekki sé minnst á miklar skatttekjur ríkis og sveitarfélaga.

 

Á þessa atvinnugrein er ráðist af þvílíku offorsi að flestir hefðu skammast sín nema kannski Stalín, hann var jú ekki alveg í lagi.

Afleiðingarnar eru augljósar og ég ætla að gefa Heiðrúnu Lind Marteins­dótt­ir, framkvæmdastjóra Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi orðið. " Þegar ríkið er farið að taka yfir 70% hagnaðar fisk­veiða í formi veiðigjalds þá er ljóst að við því þurfa fyr­ir­tæki að bregðast með hagræðingu. Fjárfest­ing dregst sam­an, kaup á þjón­ustu minnka og starfs­fólki fækk­ar, svo hin aug­ljósu áhrif séu sett fram"

Hún seg­ir líka "að breyt­ing­ar í meðför­um þings­ins um inn­leiðingu hækk­un­ar í skref­um hafa lít­il áhrif. Ef aðferðafræði er gölluð og for­send­ur byggj­ast á röng­um töl­um þá verður böl ekki bætt með lít­ils hátt­ar tíma­bundn­um af­slátt­um árið 2026 og 2027."

 

Hið sorglega við þessi sannindi er að lýðskrumið hundsar þau algjörlega, lýgur til um samráð eða kallar staðreyndir fals.

Fals sem er runnið undan hagsmuna þessara 4-5 fjölskyldna sem frumvarpinu er ætlað að bregða fæti fyrir.

Þegar forystufólk samtaka sjávarbyggða benda á að skaðann, og þá sérstaklega það sem þeir óttast mest, að þessi ofurskattur á sjávarútveginn muni verða banabiti lítilla og meðalstórra fyrirtækja í sjávarútveginum, að fiskvinnslu verði lokað og svo framvegis, þá er það líka fals sem runnið eru undan þeim stóru.

Allt er fals segir lýðskrumið nema þeirra eigin lygar og rangfærslur.

 

Lýðskrum er alltaf lýðskrum og lýðskrumarar haga sér alls staðar eins, en Smánin er þeirra sem taka undir málflutning þeirra, og finnst það í góðu lagi að ræna náungann, á meðan ránið og ruplið beinist ekki að þeim sjálfum.

Og þar erum við því miður að tala um góðan meirihluta þjóðarinnar, sem hefur orðið viðskila við sið og rétta hegðun.

 

Siðrof í sinni tærustu mynd.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Umræðum um veiðigjöldin er lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkur fólksins; In memorium

 

Það var góð fréttamennska hjá Rúv að tala aðeins við þingmenn stjórnarmeirihlutans um þá staðreynd að ríkisstjórnin fórnaði öllum sínum stóru málum fyrir það eitt að geta valdið dreifðum sjávarbyggðum landsbyggðarinnar skaða sem verður aldrei bættur ef af verður.

Þessi napra staðreynd snýr að meirihlutanum og hjárænulegir voru þeir þingmenn sem kepptust við að berja sér á brjóst yfir þeim mikla árangri að vera skaðvaldar.

 

Strákurinn þarna náði vissulega að útskýra vel af hverju það á ekki að kjósa krakka á þing, en fyrrum verkalýðsforinginn úr VR var vígreifur þegar hann lýsti ánægju sinni með því að hafa náð að leggja ofurskatt á sjávarútveginn á kostnað þess að engin að stóru málum Flokks fólksins náði í gegnum stálþilið sem var reist um þennan ofurskatt.

Svo er forystufólk flokksins hissa á að fylgi þess mælist við frostmark; öll góðu málin maður, öll góðu málin, eða þannig.

 

Þingmenn og ráðherrar Flokk fólksins bera á vissan hátt ábyrgð á hvernig komið er fyrir flokknum, að hann sé áhrifalaust afl innan ríkisstjórnarinnar, er líkt og Snati sem dillar skotti ef að honum er réttur brauðmoli, bein gæti verið hans næsti biti.

Stöðugar uppákomur og skandalar sem hinir flokkarnir í ríkisstjórninni hafa ekki bara þurft að þola, heldur líka að takast á við með því að beygja lög og reglur, gefa þeim vald til að láta Flokk fólksins sitja eða standa eins og þeim Kristrúnu og Þorgerði þóknast.

Flokkur í slíkri stöðu getur ekki gert kröfur, hann gerir aðeins sem honum er sagt.

 

Vandséð er hvernig Flokkur fólksins kemst úr þessu ómagahlutverki.

Valkosturinn að sprengja ríkisstjórnina er horfinn, því þá er útum bitlingana, góðu launin og athyglina í fjölmiðlum, þó flest sé hún neikvæð, þá er sú athygli betri en engin fyrir fólk sem hefur alltaf þráð sviðsljósið.

Að ná einhverju tímamótamáli í gegn??, er það líklegt??, hefur Þorgerður Katrín ekki þegar eytt öllu svigrúmi í hernaðarbrölt sitt??

 

Þetta er sorgleg staða, því vilji til góðra verka var sannarlega vegnesti Flokks fólksins inní þessa ríkisstjórn.

Og hvort sem fólki líkar það betur eða verr, og þá á ég við fólki valda og eigna, þá þarf stundum að þvo óhreinu börnin hennar Evu, land velmegunar er hollt að innan í sínum innsta kjarna ef sultarmörkin eru þau viðmið sem aldrei má fara yfir þegar okkar minni bræður og systur eiga í hlut.

Fögur voru fyrirheitin eru að enda eins og í sögunni þar sem fögur var hlíðin.

 

Sjáum hvað verður.

Hvað verður um þetta fólk sem vildi svo vel en er núna orðið að taglhnýtingum auðs, verkfæri vondra verka??

Ingu hefur áður verið spáð falli, en hún hefur náð vopnum sínum á ný.

 

Sjáum til.

Því það þarf einhvern til góðra verka.

 

Það er ekki beint offramboð á slíku fólki í dag.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Rýr uppskera ríkisstjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. júlí 2025

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (5956)
  • Screenshot (5957)
  • Screenshot (5952)
  • Screenshot (5951)
  • Screenshot (5886)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.9.): 50
  • Sl. sólarhring: 742
  • Sl. viku: 4168
  • Frá upphafi: 1477663

Annað

  • Innlit í dag: 46
  • Innlit sl. viku: 3582
  • Gestir í dag: 46
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband