22.2.2025 | 19:13
Við erum ekki lengur félagasamtök
Núna erum við orðin stjórnmálaflokkur sagði Inga Sæland landsfundi flokksins, og uppskar mikið lófatak.
Bætti samt efnislega við þó það væri ekki sagt í berum orðum, að hún ætti samt ennþá flokkinn, þar með réði hún öllu.
Það fylgdi svo ekki sögunni hvort þá hefði verið klappað.
Það efast enginn um baráttustyrk og baráttuvilja Ingu Sæland, og að hún mæli þessi orð af heilindum; "Málflutningur okkar og þrautseigja allt frá upphafi hefur í vaxandi mæli haft áhrif á umræðuna um börn sem búa við fátækt, um öryrkja og eldri borgara sem hafa verið hunsaðir áratugum saman og ekki fengið sömu kjarabætur og aðrir".
Þess vegna er óskiljanlegt að hún hafi farið í ríkisstjórn undir forystu Viðreisnar, flokks Evrópu- og frjálshyggjudeildar Samtaka Atvinnulífsins.
Allt tal um réttlæti og umbætur á kjörum þeirra sem óhreinust eru af börnum Evu, steyta á skeri frjálshyggjunnar, vaxtastefnu Seðlabankans og kröfunnar um hallalaus fjárlög.
Því vaxtastefnan og hin hallalausu fjárlög er jafnvægi ójafnaðarins, jafnvægi sem er hannað til að auðlegðin vaxi og dafni í vösum hinna ríku, og þá sérstaklega hinna ofurríku sem eru hluti af, sem og samtengdir glóbalauðnum sem stefnir á eitt ríki, eina stétt, hina ofurríku, og svo við hin sem eru aðeins kostnaður sem miskunnarlaust á að skera niður.
Skera niður velmegun, innviði samfélaga, atvinnulífið í nærumhverfi, helsti óvinurinn, það er glóbalauðsins, er einstaklingurinn og fyrirtæki hans.
Fyrir þessa þjónkun, að mega setja á flot fley baráttumála Flokks fólksins, til þess eins að sjá það steyta á skeri Viðreisnar og frjálshyggju hennar, fórnar Inga varðstöðu sinni fyrir sjálfstæði þjóðarinnar.
Valdið í ríkisstjórninni ætlar með þjóðina í ESB, hefnt skal þess þegar ekki tókst að koma skuldum útrásarvíkinga á almenning með því að breyta froðukrónum í evru, auðn regluverksins sem skáldið orti um og kallaði Waste Land, skal vera hlutskipti þjóðarinnar á meðan henni, tungu hennar og menningu er skipt út fyrir flakkaralýð glóbalsins.
Og ef einhver sem hefur ekki ennþá kveikt á valdinu innan ríkisstjórnarinnar þá skal bent á að Stalín var aðeins ritari.
Inga er þó formaður, eigandi, og ræður öllu sem hún vill ráða innan Flokks fólksins.
Hvílíkur skrípaflokkur er sá flokkur orðinn að landsfundur hans skuli hlusta á orð Ingu um trén í Öskjuhlíðinni án þess að ganga út.
Flokkurinn kennir sig jú við fólk, og það er fólk, við hin venjulegu sem gjörspillingin í Reykjavík ógnar í firringu sinni og siðblindu.
Og Inga hefur líf okkar og limi í flimtingum til að réttlæt samstarf sitt við þá gjörspillingu.
Ég kaus Ingu og félagasamtök hennar þar síðast, ég hef líka tvisvar, jafnvel þrisvar kosið Vinstrigræna þegar ég trúði að þeir félagar Steingrímur og Ögmundur væri brimbrjóturinn gegn alþjóðahyggju frjálshyggjunnar sem virtist hafa einbeittan vilja til að láta auðmenn eignast allt, verðmæti, auðlindir, og sjálft stjórnkerfið.
Íhaldið gat ekki einu sinni varið Sparisjóð Reykjavíkur fyrir þeirri ásælni, auðmennirnir voru búnir að innlima Samfylkinguna, og þá var fátt um fína drætti í vörnum okkar hinna venjulega.
Okkur sem kallast almenningur og viljum aðeins fá að lifa í friði til að koma börnum okkar á legg í mannsæmandi samfélagi.
Í vissu skjóli fyrir ráni og rupli hinna sígráðugu sem fá aldrei nóg.
Jæja, ég viðurkenni þó, að ég kaus Steingrím Joð, og ég skammast mín ekkert fyrir stuðning minn við Ögmund.
En frekar skal ég hundrað sinnum játa að ég hafi kosið Steingrím en einu sinni Ingu, og þar eru ekki svik Ingu sem vega svo þungt að hlutfallið er einn á móti hundrað, svik hennar eru aðeins mini mini við hin algjöru svik Vinstrigrænna við hugsjónina um betri og réttlátari heim.
Nei, það er ræða Ingu um flugvöllinn, þá fyrirlitningu á lífi okkar limum sem gegnsýrir orð hennar.
Sjálfsagt ætlaði hún að vera fyndin, en það er ekkert fyndið við orð hennar.
En tökum upp léttara hjal.
United gerði jafntefli við Everton í dag, það sama gerði KFA á Fellarrvelli.
Auk þess að horfa á annað afkvæmi mitt, þá horfði ég á marga unga heimastráka í báðum liðum, suma það jafnvel unga, að þeir eru yngri en strákarnir í Hetti og Fjarðabyggð sem ég horfði á spila leik ánægjunnar frá því þeir voru litlu hærri í loftinu en boltinn, alveg þar til þeir eru núna um og yfir tvítugt.
Alltaf sama leikgleðin, alltaf sama leitnin að spila góðan fótbolta líkt og þjálfarar þeirra í yngri flokkum lögðu svo mikla áherslu á.
Spilandi núna í tveimur austfirskum félögum sem leggja áherslu á að halda í heimastráka sína.
Því lífið heldur áfram þó firringin og gjörspillingin hafi eitrað næstum því allt í borginni við Sundið.
Þannig að það er ekki lengur logið uppá þetta fólk sem stjórnar þar því jafnvel mannlegt ímyndunarafl á sín mörk.
Viðspyrnan byggist á því góða, á hinu fagra, mennskunni og mannúðinni.
Sem og að kunna lúta höfði í bæn þegar beðist er fyrirgefningar, eða horfa til himins og láta fögnuð og kærleik almættisins hríslast um hverja taug og hverja frumu, og trúa að þrátt fyrir allt sé baráttan þess virði.
Einn daginn mun United sigra og einn daginn eru börnin komin til manns, floginn af heiman og búa að arfleiðinni og þeim heimamundi að trúa á hið góða og fagra í manneskjunni sem og lífinu.
Því það er móteitrið gegn eitrinu, eitrinu sem ógnar tilvist okkar sem og framtíð barna okkar, þjóðar og þess að vera Íslendingur.
Stoltur af uppruna sínum, af arfleið áanna, og því góða samfélagi sem fóstraði okkur og kom okkur til manns og mennta.
Samfélagi sem við ætlum að verja en ekki glata.
Sú vörn er okkar en ekki þeirra sem sviku.
Kveðja að austan.
![]() |
Nú erum við orðin stjórnmálaflokkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
22.2.2025 | 09:52
Svik fyrir völd.
Það er óhætt að segja að þegar eindrægni hins nýja kvennameirihluta í Reykjavík kom í ljós að það þyrfti tvær kosningar til að Sanna Magdalena yrði kosin forseti borgarstjórnar, að þar hefðu svik mætt svikum.
Sanna sveik kjósendur sína með því að framlengja líf gjörspilltustu flokka íslensku stjórnmálasögunnar, borgarstjórnarflokka Samfylkingarinnar og Pírata.
Vanhæfni, spilling, óráðssía, getuleysi eru orðin sem gegnlýsa stjórn flokkanna á höfuðborg okkar síðasta áratug eða svo.
Sem og siðblinda, aðeins alvarlega brenglað fólk ógnar lífi náungans á þann hátt að nota trjágróður til að ná markmiðum sínum að Reykjavíkurflugvöllur fari úr Vatnsmýrinni.
Kjósendur Sönnu eru hluti af þeim breiðu bökum sem bara þungann af stefnunni um vanhæfni og spillingu, það eru þeir sem fá illa veitta þjónustu þar sem obbinn af fjármununum fer í yfirbyggingu og fjöldastörf hinnar menntuðu millistéttar við að gera lítið sem ekki neitt. Undir kjörorðinu; mikið inn, lítið út er of mikið.
Það eru þeir sem sitja uppi með okurleiguna eða uppsprengt húsnæðisverð, hvorutveggja sem vinnandi fólk hefur lítt eða ekki efni á.
Hvernig getur sósíalisti stutt þá græðgivæðingu að útboðinn byggingarréttur vegna þéttingar byggðar í kringum gæluverkefnið Borgarlínu sé skattur uppá rúmar 20 milljónir á óbyggðar blokkaríbúðir, og þá á eftir að leggja á raunverulega skatta, gatnagerðargjöld og annað sem leggst á úthlutaðar lóðir??
Það lýsir best falsinu á bak við þennan nýja meirihluta þegar oddviti Pírata sagði að lokum fyrsta fundi kvennanna 5 að núna ætluðu stelpurnar að taka til eftir strákana.
Sjálf búin að sitja í borgarstjórn í 7 ár, allan tíma í meirihluta, flokkur hennar í 11 ár.
Berandi beina ábyrgð á Græna skrímslinu í Álfabakka.
Þegar innleggið er fals, þá getur útkoman aðeins verið fals.
Fyrir völd með þessu fólki sveik Sanna Magdalena kjósendur sína.
Þegar á reyndi var hún alveg eins og hin.
Til sölu gegn réttu gjaldi.
Eftir sitja kjósendur hennar í sárum.
Eftir situr vinnandi fólk í sárum.
Atkvæði þeirra féllu dauð niður.
Sorglegt, mjög sorglegt, því Sanna lofaði góðu.
Var efnileg, virtist ærleg.
En svona eru stjórnmál á Íslandi í dag.
Engu uppá þau logið.
Kveðja að austan.
![]() |
Sanna náði ekki kjöri í fyrstu tilraun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bloggfærslur 22. febrúar 2025
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.5.): 0
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar