20.2.2025 | 13:25
Morgunblaðið er byrjað að sauma að Samfylkingunni.
Fyrst með hógværri spurningu til Loga Einarssonar menningarmálaráðherra hvort hann ætli að rannsaka þátt Rúv í að skipuleggja glæp til að falsa fréttir.
Svar Loga ber þess öll merki að hann óttast jafn mikið viðkomandi mafíu og Lögreglustjórinn á Norðurlandi Eystra, hann vísar í rök eiturbyrlaranna, málið var látið niður falla.
Svona svipað eins og þekkt vinnubrögð mafíunnar út í hinum stóra heimi, að hóta eða ógna vitnum í alvarlegum glæpamálum, jafnvel drepa þau ef þau láta sér ekki segjast, segir síðan kokhraust; það var ekkert morð, málið var látið niður falla.
Eftir liggja fórnarlömbin óbætt hjá garði vegna réttarkerfis sem er ófært um að takast á við glæpi mafíunnar.
Blaðamaður Morgunblaðsins spurði þá Loga hvort hann teldi það í lagi að ríkisstofnun skipulegði banatilræði við borgara landsins; "Á brotaþolinn í málinu, sem lá um hríð milli heims og helju, ekki að fá nokkra úrlausn sinna mála?".
Í svari sínu sýndi Logi þó vott af manndóm og mennsku, þrátt fyrir hræðslu sína; "Ég ætla ekki að gera lítið úr alvarleika þess og ekki heldur alvarleika málsins í sjálfu sér.".
Nær getur óttasleginn maður ekki komist að játa að það sé ekkert eðlilegt við glæpi eiturbyrlara, að þeir ógni lífi og limum fólks.
Lengra komst blaðamaður Morgunblaðsins ekki með Loga, hann hefði nú samt getað sungið fyrir hann piparkökusönginn úr Dýrunum í Hálsaskógi.
Róað hann þannig og nýtt sér þá ró til að benda Loga á að það væri ekki flókið fyrir hann að afla sér upplýsinga um þessa byrlun, sem hann telur mjög alvarlega, vitna þar í hans eigin orð, og spurt framkvæmdarstjóra þingflokks Samfylkingarinnar um málavexti á næsta þingflokksfundi Samfylkingarinnar.
Hvað er betra en upplýsingar frá fyrstu hendi??
Það er svo margt sem Logi getur gert, annað en að gera ekki neitt, eins og hann gaf í skyn í viðtalinu við Morgunblaðið.
En jú, jú, dauðhræddir menn gera aldrei neitt.
Nema í mesta lagi að væta buxurnar.
Og hver vill menningarráðherra með síblautar buxur??
Svo líklegast hætti blaðamaður Morgunblaðsins á réttum tíma.
Piparkökusöngurinn fyrir Héra þessa lands getur beðið betri tíma.
Til dæmis fram í næstu viku.
Morgunblaðið er ekki stekkur eins og Snorrabúð forðum.
Njótum fjölmiðlunar og blaðamennsku á meðan hún býðst.
Kveðja að austan.
![]() |
Mun fara yfir byrlunarmálið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.2.2025 | 08:25
Mogginn skorar Rúv á hólm.
Það er fróðlegt að lesa þennan greinarflokk Morgunblaðsins um skipulagðan glæp blaðamannaelítu okkar, eiturbyrlun sem varð að beinu banatilræði, stuld á síma til að afrita úr honum gögn, samræmdan skáldskap undir nafni fréttaflutnings úr hinum þjófstolnu gögnum, misnotkun á andlegri veikri manneskju og svo framvegis.
Í þessari grein er fjallað um yfirhylminguna á Efstaleiti, hvernig slóð er hulin, með í besta falli þegjandi samþykki fyrrverandi lögreglustjórans í Reykjavík, núverandi útvarpsstjóra, og síðan hvernig þögn er látin vinna gegn rannsókn málsins.
Við getum spurt okkur hvað væri mikið í fréttum ef allir kæmust upp með að þegja þegar misferli og lögbrot eru annars vegar.
Meir að segja rollurnar jarma þegar blaðamaðurinn eini og sanni þarna á Selfossi fer út með hljóðnemann.
Það er hins vegar ljóst að hólmganga Morgunblaðsins er aðeins yfirvarp, græna ljósið kom á fréttaflutninginn af glæpnum þegar ljóst var að Samfylkingin yrði griðastaður eiturbyrlara og glæpablaðamanna.
Allur þessi fréttaflutningur miðast við að ná höggi á Kristrúnu Frostadóttur og þar með ríkisstjórn hennar.
Taktík sem Morgunblaðið kann vel eftir áratugasamstarf sitt við ráðandi öfl innan Sjálfstæðisflokksins.
Sem frétt er þetta gömul frétt.
Og glæpurinn gegn þjóðinni, gegn almenningi var þegar lögreglustjórinn á Norðurlandi Eystra felldi niður rannsókn glæpsins án þess að gefa út ákæru á hendur glæpablaðamönnunum.
Með mjög svo sérkennilegri rökfærslu; Jú það er rétt að almennum borgara var sýnt banatilræði, það alvarlegu að hann lá milli heims og helju í nokkra sólarhringa. Jú það er rétt að síma hans var stolið og hann afritaður uppí útvarpshúsinu á Efstaleiti, jú það er ljóst að um skipulagðan glæp var að ræða, og jú, gögnin úr hinum þjófstolna síma voru nýtt í fréttafalsanir til að ná höggi á eitt af stærstu fyrirtækjum landsins.
En kæra fólk, kæru landsmenn; Þetta var mafían og við þorum ekki gegn mafíunni, fellum því málið niður.
Líkt og við værum stödd á Ítalíu á sjöunda áratug síðustu aldar þegar veldi mafíunnar stóð þar sem hæst, og réði öllu því sem hún vildi ráða í stjórnmálum sem og réttarkerfinu.
En við erum ekkert stödd á Ítalíu á sjöunda áratugnum, þetta er Ísland í dag.
Land þar sem mafían getur eitrað fyrir almennum borgum landsins, og komist upp með það.
Nákvæmlega þannig er Ísland í dag.
Og að það skuli þurfa pólitískar refjar til að annar af tveimur stóru fjölmiðlum landsins skori hinn á hólm vegna þátttöku þess síðarnefnda í mafíustarfsemi og glæpum, segir allt sem segja þarf um réttarstöðu almennings í dag gagnvart kerfinu og mafíunni sem þykist eiga það.
Á meðan bíða menn eftir flugslysi á Reykjavíkurflugvelli eða banaslysi á manngerðum ónýtum þjóðvegum landsins.
Segi bara eins og þjóðskáldið; Þá riðu hetjur um héruð.
Þær ríða allavega ekki um héruð í dag.
Þvílíkur lydduhópur sem hefur safnast saman á Alþingi.
Þar er enginn undanskilinn því allir þegja.
Aðeins röflað um storminn í vatnsglasinu.
Morgunblaðið hins vegar, hver sem skýring þess annars er, á allan heiður fyrir þennan fréttaflutning.
Hann kemur í kjölfar Spursmála, beittasta þjóðmálaþátt landsins, sem og hefur blaðið sýnt lífsmark í öðrum málum sem brenna á almenningi.
Nú síðast umfjöllun blaðsins um Þöggun Góða fólksins, hins pólitíska Rétttrúnaðar á hinu innfluttu ofbeldi sem börnin okkar búa við, og enginn með völd gerir neitt í.
Einnig má nefna fréttaflutning blaðsins að Græna skrímslinu, og alla þá vanhæfni sem það mál afhjúpar á gjörspilltu stjórnkerfi Reykjavíkurborgar, blaðið hefur síðan staðið vaktina, þó reyndar misvel, í flugvallarmálinu, hinum ónýtu vegum sem vegagerðin hefur lagt undanfarin ár sem og spillinguna kringum styrkjamál til stjórnmálaflokka of félagasamtaka sem bjóða fram til Alþingis.
Stundum haldið öðru fram, en í dag ætla ég að halda því fram að Snorrabúð er ekki stekkur.
Það sést glitta í gamla Moggann.
Það mætti jafnvel halda að Agnes væri ennþá meðal vor.
Megi sá betri vinna þessa hólmgöngu.
Megi Stuðmenn verða sannspáir.
Réttlætið sigraði að lokum.
Kveðja að austan.
![]() |
Starfsfólk RÚV huldi slóðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 20. febrúar 2025
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.2.): 548
- Sl. sólarhring: 805
- Sl. viku: 5124
- Frá upphafi: 1423182
Annað
- Innlit í dag: 488
- Innlit sl. viku: 4518
- Gestir í dag: 456
- IP-tölur í dag: 443
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar